141. löggjafarþing — 20. fundur
 17. október 2012.
barnaverndarlög, 2. umræða.
stjfrv., 65. mál (frestun tilfærslu heimila og stofnana fyrir börn). — Þskj. 65, nál. 263.

[17:14]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að fresta gildistöku eins ákvæðis þeirra laga sem við samþykktum vorið 2011 en það varðar tilfærslu á heimilum og stofnunum fyrir börn frá sveitarfélögum til ríkisins sem átti að eiga sér stað 1. janúar næstkomandi. Því verði frestað um eitt ár og fari fram eigi síðar en 1. janúar 2014.

Í raun og veru gerum við sömu athugasemdir og síðast. Við teljum mikilvægt að þörfin verði greind fyrir frekari úrræði á landsbyggðinni og metin sú fjárþörf sem slík uppbygging mundi krefjast. Nefndin lýsti áhyggjum sínum af því að yfirfærslan mætti alls ekki verða þess valdandi að þjónusta við börn á barnaverndarsvæði Reykjavíkur yrði skert um leið og við lýstum miklum áhyggjum af því að svo virðist sem börn á landinu njóti ekki jafnræðis hvað þjónustu sem þessa varðar.

Þetta eru nánast sömu athugasemdir og í nefndaráliti vorið 2011, en við samþykkjum þetta frumvarp óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson. Hv. þm. Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[17:16]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í hv. velferðarnefnd sem hv. þingmaður veitir forstöðu, en mig langar til að spyrja hvað mönnum finnst um svona lagasetningu þar sem ítrekað er frestað framgangi mála sem eiga að fara fram. Ég nefni greiðsluþátttökukerfi lyfja, ég gæti nefnt ótal mörg önnur mál. Það má vel vera að góðar ástæður séu fyrir þessu en þær hefðu átt að liggja fyrir þegar frumvarpið var samið og samþykkt. Ég hefði talið betra að menn færu hægar í sakirnar og gerðu raunhæfar áætlanir í stað þess að koma trekk í trekk og kollvarpa í raun öllum áætlunum sem einstaklingar hafa gert á grundvelli þessara laga.



[17:17]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni. Þegar Alþingi setur lög eru það lög og framkvæmdarvaldinu ber að vinna í samræmi við þau. Þetta frumvarp var tvívegis lagt fyrir þingið og unnið mjög ítarlega og vel af hálfu þáverandi félags- og tryggingamálanefndar en á lokasprettinum í þeirri vinnu kom fram mikil andstaða frá sveitarfélögunum við þetta ákvæði; það væri gefinn of skammur tími í gildistöku. Við afgreiðslu frumvarpsins frestuðum við því gildistökunni. Það var ekki gert með sérstöku frumvarpi heldur breytingartillögu við fyrirliggjandi frumvarp. Gildistökunni var frestað til 1. janúar 2013 til að gefa aðilum máls tækifæri til að fara betur yfir efnisatriði og framkvæmdina.

Það voru mikil vonbrigði þegar í ljós kom að vinnan var ekki talin nógu langt á veg komin til að yfirfærslan gæti átt sér stað um næstu áramót og virðist vera einhver kergja milli aðila um það hvernig eigi að standa að þessu. Nefndin kallaði til sín alla þá sem að málinu koma, jafnt sveitarfélög, Barnaverndarstofu sem og ráðuneytið. Niðurstaða okkar var sú að samþykkja málið eftir að hafa spurt þau sem eru í stýrihópnum sem á að hafa yfirumsjón með yfirfærslunni hvort aðilar máls teldu raunhæft að halda áfram. Þau töldu það, töldu sig geta náð lendingu í málið sem væri farsæl og voru sammála því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt og það varð niðurstaðan.



[17:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög slæmt að heyra að einhver kergja sé í framkvæmdarvaldinu við framkvæmd laga sem valdi því að ekki sé hægt að fara að lögum settum á Alþingi.

Ég held að menn ættu að temja sér meiri virðingu fyrir lögum. Ef sett eru lög á Alþingi eftir að heyrt skoðanir þeirra aðila sem eiga að framkvæma þau og farið hefur verið að ábendingum þeirra á það náttúrlega að vera svo, þá eiga lögin að vera framkvæmd.



[17:20]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Það er hárrétt, en ég ætla ekki að fjölyrða um þessa kergju, ég held að hún sé meðal annars komin til af því sem fram kom í fyrra nefndaráliti þegar lögin voru samþykkt sem og nefndaráliti núna við þetta frumvarp sem er með breytingartillögu við gildistökuákvæðið. Það þarf að fara mjög vel yfir það hvort nægir fjármunir séu í þessum málaflokki. Það er vandamálið. Án þess að það liggi alveg ljóst fyrir eru líkur á því að yfirfærslan kunni að þýða að þjónusta við ákveðinn hóp barna skáni á kostnað annarra barna. Við viljum tryggja að öll börn fái góða þjónustu og að þau njóti jafnræðis hvar sem þau búa á landinu og að þjónusta við ákveðinn hóp barna verði ekki skert á kostnað annarra.



[17:21]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti vill minna þingmenn á að ávarpa og beina orðum sínum til forseta.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.