141. löggjafarþing — 21. fundur
 18. október 2012.
atkvæðagreiðslur um þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl..

[10:38]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Undanfarið hefur verið töluvert í umræðunni ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs um þjóðaratkvæðagreiðslur. Á laugardaginn stendur til að þjóðin gangi til atkvæða um tillögur stjórnlagaráðs og hvort þær skuli lagðar til grundvallar vinnu við nýja stjórnarskrá. Margir hafa talað um að það sé óeðlilegt að ekki sé hægt að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarlegar skuldbindingar og þær þar með undanþegnar. Einn af þeim er hæstv. innanríkisráðherra sem sagði hér 21. mars, með leyfi frú forseta:

„Ég er líka hlynntur því að niðurstaða stjórnlagaráðs verði látin ganga til þjóðarinnar, það ætti hún helst að gera í heild sinni.“

Hæstv. innanríkisráðherra sagði jafnframt:

„Í niðurstöðum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að bann verði sett við því að í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu verði greidd atkvæði um fjárhagsleg málefni eða þjóðréttarlega samninga, eins og t.d. Icesave. Er ekki eðlilegt að beina því til þjóðarinnar hvort hún sé reiðubúin að láta afmarka rétt sinn með þessum hætti í stjórnarskrárbundnu ákvæði? Ég mun ekki geta stutt þetta mál nema tillögunum verði breytt að þessu leyti, það er alveg afdráttarlaust.“

Þarna er meðal annars átt við Icesave-samningana. Hæstv. innanríkisráðherra þekkir þá vel því að hæstv. ráðherra var vikið úr ríkisstjórn á sínum tíma einmitt vegna þess að hann var ekki tilbúinn að samþykkja þá samninga og vildi meðal annars að þjóðin fengi að greiða um þá atkvæði.

Nú eiga tillögur stjórnlagaráðs að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki hefur verið tekið tillit til þessa. Það á að takmarka lýðræðið á þann veg að þjóðréttarlegar skuldbindingar eru ekki inni þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum. Jafnframt hafa margir haldið því fram að verði þetta samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skuli tillögurnar fara óbreyttar í gegnum Alþingi og verða að nýrri stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort afstaða hans sé óbreytt hvað þetta snertir. Telur hæstv. ráðherra að tillögur stjórnlagaráðs gangi nægilega langt þegar kemur að beinu lýðræði og getur hæstv. ráðherra stutt það að tillögur stjórnlagaráðs verði grunnur að nýrri stjórnarskrá þegar lýðræðið er takmarkað með þeim hætti sem hann lýsti og hefur lýst, bæði í þinginu, á opnum fundum, í blaðaviðtölum og víðar?



[10:41]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt munað hjá hv. þingmanni enda les hann væntanlega upp ummæli sem ég viðhafði úr þessum ræðustól. Ég hef skrifað nokkuð um stjórnarskrána og tillögur sem fram hafa komið um breytingu á henni og gert þar fyrirvara við ákvæði sem snýr að beinu lýðræði á þeim forsendum sem hér er vísað til. Ég tel það ákvæði vera allt of takmarkandi varðandi heimildir til þjóðarinnar að krefjast atkvæðagreiðslu um mál sem snúa að fjárhagnum. Ég hef til dæmis minnt á að þegar íhaldsstjórnin breska var felld á sínum tíma var það meðal annars á grundvelli nefskatts sem var mjög óvinsæll í Bretlandi. Samkvæmt þessum tillögum væri óheimilt að krefjast atkvæðagreiðslu um slíkt.

Einnig hef ég haft fyrirvara varðandi þjóðréttarlegu þættina sem ég tel að þjóðin hafi rétt til að krefjast atkvæðagreiðslu um. Þessa fyrirvara hef ég gert. Þegar málin koma að nýju til kasta þingsins mun ég að sjálfsögðu gera tillögur um þetta. Einnig tel ég að skilgreiningar á eignarréttinum séu allt of þröngar í þeim tillögum sem fram hafa komið og tel að þurfi að breyta þeim í grundvallaratriðum. Þá hef ég haft efasemdir um að fella úr gildi 72. gr. stjórnarskrárinnar sem hefur að geyma heimildir til að takmarka eignarrétt erlendra manna á Íslandi, t.d. varðandi landakaup. Þetta er allt rétt munað hjá hv. þingmanni og þegar málið kemur til kasta þingsins að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) sem Alþingi hefur samþykkt að fram fari mun ég að sjálfsögðu vekja máls á þessum þáttum.



[10:43]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Nú liggur fyrir að þær tillögur sem á að greiða atkvæði um á laugardaginn innihalda ekki þau ákvæði sem hæstv. ráðherra vitnar hér til og varða beint lýðræði, þ.e. að þjóðréttarlegar skuldbindingar geti farið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú liggur líka fyrir að einstakir stjórnarþingmenn, stjórnlagaráðsmenn og fleiri hafa sagt að verði þessar tillögur samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn sé Alþingi búið að skuldbinda sig til að breyta ekki tillögunum og að þær eigi að fara í gegnum Alþingi óbreyttar.

Hæstv. ráðherra sagði á þingi að hann gæti ekki stutt þetta mál nema tillögum yrði breytt að þessu leyti og að þjóðréttarlegar skuldbindingar gætu gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu og þar er meðal annars átt við mál eins og Icesave. Í ljósi þess langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann að við getum samþykkt (Forseti hringir.) tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá þegar þetta veigamikla atriði er ekki inni í þeim?



[10:45]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í atkvæðagreiðslunni næstkomandi laugardag mun þjóðin gefa vísbendingu um hvað hún vill í þessum efnum. Við hljótum að taka mið af því sem kemur fram í þeirri atkvæðagreiðslu. Síðan eru það þættir sem hljóta að sjálfsögðu að koma til kasta Alþingis sem lögum samkvæmt hefur með höndum breytingu á stjórnarskránni. Þar hef ég vísað í þætti sem ég nefndi sérstaklega áðan um beint lýðræði, um skilgreiningar á eignarréttinum sem ég tel vera of þröngar í báðum tilvikum og um 72. gr. stjórnarskrárinnar sem ég tel ekki rétt að fella úr gildi. Það eru ýmsir þættir sem hefði mátt spyrja þjóðina um núna, t.d. varðandi þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ég hef aldrei farið leynt með þessa afstöðu mína. Hún hefur komið fram í (Forseti hringir.) skrifum mínum og í skýringum við atkvæðagreiðslur hér á þingi.