141. löggjafarþing — 21. fundur
 18. október 2012.
sérstök umræða.

stjórnarskrármál.

[14:02]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Samkomulag er um tilhögun umræðunnar og mun hún standa í rúmar tvær klukkustundir.



[14:02]
Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli komast að á dagskrá þingsins. Það er ekki seinna vænna vegna þess að kosning um tillögu stjórnlagaráðs fer fram nk. laugardag. Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umræðum um breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili. Það var áður fyrr sameiginlegur skilningur flokka á þingi, hvort sem þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að breytingar á stjórnskipunarlögum skyldi gera í sátt. Þegar skilningur manna er sá er ekki að vænta byltingar á efni þessa grundvallar lagasetningar þjóðarinnar, heldur eru stigin smærri skref af yfirvegun og vandvirkni. Helstu stuðningsmenn tillögu stjórnlagaráðs sem borin verður undir kjósendur um helgina virðast byggja málflutning sinn á því að málið snúist nú annaðhvort um tillögu stjórnlagaráðs eða engar breytingar. En þetta eru óþarfaöfgar í málflutningi. Leið skynseminnar liggur þarna á milli í vel ígrunduðum breytingum á þeim þáttum sem almenn samstaða ætti að geta tekist um. Grundvöllur þeirrar nálgunar er sú afstaða að óþarfi sé að taka stjórnskipunina til heildstæðrar endurskoðunar enda hafa meginstoðir hennar reynst vel.

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hver þörfin sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og hverju hún eigi að skila. Ekki hefur því heldur verið svarað hvers vegna þetta mál hefur verið eitt af bráðamálum ríkisstjórnarinnar sem bæði miklum tíma og fjármunum hefur nú verið varið til, að ógleymdri þeirri staðreynd að það hefur frekar vakið upp deilur og ósætti en orðið til að sameina þjóðina.

Því er gjarnan haldið fram um þá sem gagnrýnt hafa það hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið á þessu máli að þeir séu að varpa rýrð á störf stjórnlagaráðs. En það er öðru nær, gagnrýnin snýr fyrst og fremst að því hvernig haldið er á málinu af þingsins hálfu. Það er þingið sem ber ábyrgð á endurskoðun stjórnarskrárinnar og það er löngu tímabært að þingið taki málið til efnislegrar meðferðar. Í þeirri meðferð er þingið að sjálfsögðu óbundið af vinnu ráðs sem það hefur kosið til að vinna að málinu, en að sjálfsögðu hljótum við öll að vona að sú vinna komi að góðu gagni. Ég tók það fram áður en stjórnlagaráð tók til starfa og um leið og stjórnlagaráð hafði skilað af sér sinni vinnu að ég vonaðist til þess að sú vinna mundi skila sem allra mestum árangri og gagnast þinginu í þeim störfum sem það stendur frammi fyrir, þeirri vinnu að taka stjórnarskrána til endurskoðunar eftir því sem þurfa þykir.

Aðalatriði málsins er hins vegar þetta: Tillaga stjórnlagaráðs er ekki tækur grunnur að nýrri stjórnarskrá fyrir okkur Íslendinga.

Að leggja það til við þjóðina á þessum tímapunkti að taka afstöðu til þess hvort þetta geti verið grundvöllur nýrrar stjórnarskrár eru handarbaksvinnubrögð. Það er ekkert öðruvísi, og það er á ábyrgð stjórnarflokkanna að menn skuli stunda slík vinnubrögð héðan af þinginu. Ég leyfði mér í því sambandi að vísa til dæmis til þeirra sem hafa fengið málið til sérstakrar vinnslu, eins og formanns stjórnlagaráðs. Hún sagði í umræðu um niðurstöðu stjórnlagaráðsins sjálfs að það hlyti að vera þannig að þingið tæki málið til efnislegrar meðferðar. Hún og fleiri stjórnlagaráðsmeðlimir hafa sagt að það sæti furðu að þingið hafi ekki fjallað um málið, tekið afstöðu til tillagnanna áður en gripið er til þess ráðs að fara í almenna kosningu um málið. Fær þetta menn virkilega ekki til þess aðeins að staldra við og hugsa hvort þeir hafi mögulega farið fram úr sér? Er það virkilega svo að þegar þeir sem fóru fyrir vinnunni hafa jafnmikla fyrirvara og þetta fólk hefur lýst opinberlega sjái þeir ekki tilefni til þess aðeins að staldra við?

Hér hef ég ekki minnst á það að þingið sjálft taldi að málið væri í þeim búningi að fá þyrfti sérfræðinganefnd til að fara yfir það efnislega. Þeirri vinnu er að sjálfsögðu ekki skilað áður en almennir kjósendur í landinu eiga að taka afstöðu til tillögunnar. Þetta er það sem ég hef kallað fúsk, þetta eru handarbaksvinnubrögð. Þetta eru óásættanleg vinnubrögð af hálfu þingsins.

Þeir sem hafa kynnt sér kjörseðilinn hafa séð að þetta er ekki einföld þjóðaratkvæðagreiðsla þótt hópur fólks hafi tekið það upp hjá sér að segja almenningi að ekki þurfi að eyða nema fimm mínútum í þessa kosningu. Takið bara fimm mínútur, þetta er ekkert mál, segir sá hópur.

Tillaga stjórnlagaráðs er í 113 greinum, auk gildistökuákvæðisins í 114. gr. Ég geri ráð fyrir að það taki flesta lengri tíma en fimm mínútur að lesa, melta og mynda sér skoðun á þeim áður en þeir ganga að kjörborðinu á laugardaginn. Þótt svara megi spurningum með annaðhvort jái eða neii er ekki víst að svarið þýði eitt frekar en annað. Hverju á til dæmis spurningin „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ að svara? Spurninguna má skilja svo að hún snúist ekki um það hvort sá sem svarar vilji þjóðkirkju. Augljóslega er ekki verið að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju, þótt sumir hafi bent á að það mætti skilja það þannig, heldur aðeins hvort svarandinn vilji ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá. En við sáum til dæmis í Kastljósi í gærkvöldi stjórnlagaráðsmeðlim halda því fram að það skipti á endanum engu máli hvort ákvæði um þjóðkirkjuna væri í stjórnarskránni eða almennum lögum. Heyr á endemi. Halda menn því virkilega fram að það hafi enga sjálfstæða merkingu, enga þýðingu að lögum, að slíkt ákvæði sé í stjórnarskrá frekar en í almennum lögum? Það er með ólíkindum að þeir sem í stjórnlagaráði hafa setið skuli flytja slíkan málflutning nokkrum dögum fyrir kosninguna.

Má ég benda á að hér á þinginu væri hægt að afnema með einfaldri ákvörðun almenn lög um þjóðkirkju á landinu og málið væri þar með úr sögunni? Í stjórnarskránni hins vegar, ef ákvæðið stendur þar, gera menn engar breytingar á kirkjuskipaninni án þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Á þessu er grundvallarmunur og þeir sem hafa fengið það verkefni að fjalla um stjórnarskrána sérstaklega ættu að hafa gert sér grein fyrir þessu. Það er grundvallarmunur á því að íslenskum lögum hvort ákvæði um þjóðkirkju er í stjórnarskránni eða ekki.

Fleira mætti að sjálfsögðu tína til. Ég vek sérstaklega athygli á auðlindaákvæðinu. Nú skrifa sumir í blöðin, og þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni að undanförnu hafa haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sérstakar athugasemdir við auðlindaákvæðið. En þegar grannt er skoðað er það að sjálfsögðu ekki rétt. Ágreiningurinn sem hefur verið á þinginu milli flokka hefur snúist um inntak auðlindaákvæðisins í stjórnarskrá.

Lögspekingar hafa löngum bent á að það sé merkingarlaust að tala almennt um þjóðareign. Í besta falli, eða kannski versta, gæti verið um ríkiseign að ræða enda geti þjóð ekki átt hluti eða farið með þá eins og venja er um eigendur einhvers, þjóðin sjálf færi ekki með eignarhaldið, það yrði handhafi ríkisvalds hverju sinni. Þjóðin sjálf gæti ekki framselt eða veðsett eign sína og þaðan af síður einstakir ríkisborgarar. En þótt ég bendi á þetta þýðir það ekki að ég hafi þá skoðun að ekki sé hægt að nálgast þetta málefni í stjórnarskrá og til þess hefur vilji Sjálfstæðisflokksins staðið um langa hríð. Í stjórnarskrá mætti færa ákvæði um auðlindir í náttúru Íslands sem legði áherslu á sjálfbæra nýtingu slíkra gæða til hagsbóta öllum landsmönnum, t.d. ákvæði í anda þess sem stjórnlaganefndin lagði til eða ákvæði í anda þess sem tveir lögfræðingar lögðu til í sérstöku frumvarpi sem teflt var fram sem eins konar valkosti við tillögu stjórnlagaráðs fyrir nokkrum vikum eða ákvæði í anda þess sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til á sínum tíma í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta eru allt valkostir sem standa til hliðar við tillögu stjórnlagaráðsins, en menn eru settir í þá erfiðu stöðu þegar þeir ganga í kjörklefann á laugardaginn að þegar þeir svara spurningunni um það hvort þeir vilji slíkt ákvæði í stjórnarskrá eru þeir í fullkomnum vafa um það hvort já við þeirri spurningu þýði að þeir hafi samþykkt útfærslu stjórnlagaráðsins eða hvort opið sé fyrir frekari umræðu um það efni. Þessi vafi skrifast á reikning stjórnarflokkanna sem hafa staðið svona að þessu máli. Ég fullyrði að hér á þinginu ætti að vera hægt að ná fram sátt um útfærslu ákvæðis sem næði öllum þeim markmiðum sem almennt hefur verið talað fyrir í umræðunni hér. Menn hafa verið að búa til ágreining að óþörfu um ákvæði eins og þetta.

Þetta er aðeins eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem ég hef hér haft tilefni til að rekja og mun koma betur að í minni síðari ræðu. Kjarni málsins varðandi kosninguna á laugardaginn er þessi: Tillaga stjórnlagaráðs er ekki tæk sem grundvöllur að nýrri stjórnarskrá, því miður.

Þess vegna verða menn að mæta, og ég hvet alla til að gera það, menn eiga að nýta rétt sinn, sérstaklega þegar jafnmikilvægt mál er undir og stjórnarskráin sjálf, stjórnlög Íslands, og hafna því að þetta verði grunnur að nýrri stjórnarskrá. Um leið segi ég þetta: Tökum vinnu stjórnlagaráðsins inn í þingið og reynum að nýta það besta úr henni til að halda vinnunni áfram.



[14:14]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á laugardaginn fá landsmenn, kjósendur í þessu landi, einstakt tækifæri til að hafa bein áhrif á mótun þeirra grunnreglna sem samfélag okkar verður byggt á til framtíðar. Ég hef sagt það áður, og segi það enn, að þetta er tækifæri sem enginn kosningarbær Íslendingur ætti að láta fram hjá sér fara. Það er engin trygging fyrir því að annað eins tækifæri til að hafa áhrif á grunnskipan samfélagsins gefist í náinni framtíð.

Við lýðveldisstofnun voru flestir sammála um að brýnt væri að ráðast fljótt í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin var á sínum tíma sett til bráðabirgða. Um það vitna glöggt margra áratuga gamlar tilvitnanir, t.d. í Svein Björnsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem Guðni Th. Jóhannesson vitnað til á fundi í gær. Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir allmargar tilraunir í marga áratugi hefur slík heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar reynst Alþingi ofviða.

Ástæður þessa eru margþættar en ljóst má vera að mörg þeirra álitamála sem undir eru hafa reynst Alþingi erfið úrlausnar enda varða þær jafnan beina hagsmuni stjórnmálaflokkanna og einstakra þingmanna með einum eða öðrum hætti. Það er sannfæring mín að rík aðkoma fólksins í landinu sé forsenda þess að unnt verði að ná fram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Í því ljósi lagði ég árið 1994 og aftur árið 1998 fram frumvarp þar sem ég lagði til að kosið yrði til sérstaks stjórnlagaþings.

Það var því mikið fagnaðarefni að Alþingi samþykkti vorið 2010 að setja endurskoðun stjórnarskrárinnar í lýðræðislegt ferli sem tryggði beina aðkomu fólksins í landinu. Sú vegferð sem Alþingi mótaði var afar metnaðarfull og þinginu til mikils sóma. Með þeirri ákvörðun sýndi Alþingi því loks skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það verði alfarið til lykta leitt innan veggja Alþingis.

Ferill málsins frá samþykkt Alþingis árið 2010 hefur verið um 1.000 manna þjóðfund til sérfræðinganefndar, frá sérfræðinganefndinni til stjórnlagaráðs sem skipað var í samræmi við niðurstöður almennra og lýðræðislegra kosninga og aftur til Alþingis sem undirbúið hefur þjóðaratkvæðagreiðsluna um komandi helgi.

Heildstæðar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska þjóð, sem samþykktar voru einróma af ráðinu, vekja vonir um nýtt og betra lýðveldi, lýðveldi sem markast af djúpri virðingu fyrir mannréttindum, fyrir náttúru og lífríki landsins, lýðveldi þar sem almannahagsmunir eru settir ofar einkahagsmunum, og auðlindir lands og sjávar sem ekki eru í einkaeigu eru lýstar þjóðareign, lýðveldi þar sem fólkið sjálft getur haft raunveruleg áhrif á málefni líðandi stundar, lýðveldi þar sem leikreglur lýðræðisins og hlutverk ólíkra handhafa ríkisvalds er skýrt afmarkað.

Forseti. Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fela í sér mikilvægar umbætur í stjórnskipan landsins. Eigum við að leggja þær tillögur til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Svar mitt við þeirri spurningu er tvímælalaust: Já, það eigum við að gera.

Munum við gera það? Svarið við því er í höndum kjósenda þessa lands nk. laugardag.

Virðulegi forseti. Gefið er í skyn að ef samþykkt verður að leggja tillögurnar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá megi ekki við neinu hrófla sem þar stendur við þinglega meðferð málsins. Þetta er vitaskuld ekki rétt. Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar jákvæð verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu. Í því þinglega ferli kunna breytingar að verða gerðar eins og raunar kemur skýrt fram á kjörseðlinum sjálfum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur þegar falið nefnd sérfræðinga að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs með hliðsjón af lagatæknilegum atriðum, innra samræmi, orðalagi og hugsanlegum annmörkum. Efnislegar breytingar munu jafnframt koma til álita séu færð fyrir þeim gild rök og, ef slíkt reynist nauðsynlegt, til að taka tillit til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um aðrar spurningar sem upp eru bornar. Vald Alþingis til að gera slíkar breytingar verður ekki vefengt.

Jákvætt svar í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun öðru fremur gefa skýr skilaboð til Alþingis um að fólkið í landinu óski þess að endurskoðunarferlinu verði lokið með nýrri stjórnarskrá sem Alþingi afgreiði fyrir næstu alþingiskosningar. Ljóst er að verði niðurstaðan neikvæð verður ekki unnt að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir næstu alþingiskosningar. Frá mínum sjónarhóli væri það sorglegur endir á því merka lýðræðisferli sem málið hefur fengið að þróast og þroskast í, ferli sem víða hefur vakið verðskuldaða athygli og gæti orðið öðrum þjóðum til eftirbreytni.

En valdið og valið er kjósenda. Við neikvæða niðurstöðu ber að una, jafnt sem jákvæða. Það ættu að vera meginskilaboð Alþingis til þjóðarinnar í þessari umræðu. Neikvæð niðurstaða mun hins vegar ekki breyta því að þörfin fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verður söm og áður og ég óttast mjög að mörg ár, ef ekki áratugir, muni líða áður en niðurstaða fæst um slíka heildarendurskoðun ef þetta tækifæri fer forgörðum.

Neikvæð niðurstaða við 1. spurningunni útilokar hins vegar ekki að tilteknar afmarkaðar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni fyrir næstu alþingiskosningar í samræmi við afstöðu þjóðarinnar til hinna fimm spurninganna sem jafnframt verða bornar upp í atkvæðagreiðslunni, þ.e. hvort náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign, hvort auka eigi persónukjör í kosningum til Alþingis, hvort atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu eigi að vega jafnt, hvort tiltekið hlutfall kosningarbærra manna eigi að geta krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í stjórnarskrá.

Alþingi ber að sjálfsögðu skylda til að taka niðurstöðu í þessum spurningum til gaumgæfilegrar skoðunar og afgreiðslu til að bregðast við þeim þjóðarvilja sem þar mun birtast.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að gæta hófs í þeirri umræðu sem nú fer fram á Alþingi um þetta mikilvæga mál, umræðu sem haldin er svo skömmu áður en kjósendur fá tækifæri til að segja hug sinn til málsins. Ég held að við ættum að forðast upphrópanir og palladóma um efni málsins. Ómaklegt er, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að kalla afrakstur vinnu þeirra þúsunda Íslendinga sem komið hafa að undirbúningi tillagna stjórnlagaráðs fúsk, svo dæmi sé tekið. Jafnómálefnalegt er að kalla almenna, lýðræðislega þjóðaratkvæðagreiðslu, sem Alþingi hefur ákveðið lögum samkvæmt að fram skuli fara, skoðanakönnun. Höfum í huga að málið er í eðli sínu ekki flokkspólitískt og á ekki að vera það. Tillögur þær sem fyrir liggja eru það ekki heldur. Þær eru sprottnar úr grasrót samfélags okkar.

Virðulegi forseti. Ég hvet alla kosningarbæra Íslendinga til að mæta á kjörstað nk. laugardag og nýta atkvæðisrétt sinn. Einn meginkjarni í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er aukið beint lýðræði og flutningur valds frá stjórnmálaflokkunum til fólksins. Góð þátttaka í komandi atkvæðagreiðslu mun undirstrika vilja fólks til slíkra breytinga.

Látum ekki þetta tækifæri fram hjá okkur fara.



[14:23]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að hér skuli loks fara fram efnisleg umræða um tillögur um breytingar á stjórnarskrá. Það er orðið löngu tímabært og hefði þurft miklu lengri tíma í þá umræðu en þá tvo klukkutíma sem gert er ráð fyrir að varið verði í umræðuna. Fulltrúar í stjórnlagaráði hafa bent á að það hafi skaðað ferlið að þingið skyldi ekki hafa tekið þetta mál til efnislegrar umræðu miklu fyrr, þó að raunar séu ekki allir fulltrúar stjórnlagaráðs sammála um þá túlkun. Það er alla vega ljóst að hvernig sem þetta mál allt þróast mun Alþingi á endanum þurfa að klára það. Málið kemur alltaf aftur til Alþingis því að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er það Alþingi sem breytir stjórnarskránni.

Ég ætla á þeim tiltölulega stutta tíma sem ég hef hér að velta upp nokkrum atriðum sem ég tel að huga þurfi sérstaklega að í tillögum stjórnlagaráðs, en þó er ljóst að á þeim tíma sem gefinn er í þessa umræðu verður ekki hægt að fara yfir nema brot af þeim atriðum sem eðlilegt hefði verið að þingið færi yfir áður en að atkvæðagreiðslu kemur.

Það er til að mynda mjög erfitt að gera sér grein fyrir því eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra hvernig hæstv. ráðherra lítur þetta mál. Eiginlega var það að skilja á máli hennar að hún væri hlynnt öllu í tillögum stjórnlagaráðs enda taldi hún mikilvægt að þær yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en ef málið yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu mætti ekki leggja tillögurnar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ekki nema þau fimm atriði eða frá einu til fimm atriða sem kynnu að verða samþykkt, þ.e. aukaspurningarnar. Þetta stenst náttúrlega enga skoðun enda er margt í tillögum stjórnlagaráðs í samræmi við núgildandi stjórnarskrá og þar af leiðandi er ekki hægt að halda því fram að það að fella þessa tillögu nú þýði að allt sem þar kemur fram sé endanlega úr sögunni og megi ekki vera í stjórnarskrá Íslands. Því miður er þetta lýsandi fyrir hversu ruglingslegur málflutningur stjórnvalda er orðinn og enn ein áminningin um það að æskilegt hefði verið að taka þessa umræðu í þinginu miklu fyrr.

Það er grundvallaratriði þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá að um þær ríki sem víðtækust sátt. Það hefur verið stefnan sem unnið hefur verið út frá við allar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og yfirleitt gengið mjög vel. Það er helst þegar menn hafa verið að breyta kjördæmaskipan að það hafi verið gert í ágreiningi.

Nefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar hafði unnið mikið og gott starf við undirbúning breytinga á stjórnarskrá en það strandaði á sínum tíma fyrst og fremst á því að menn greindi á um það, líklega einkum og sér í lagi þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hvort og með hvaða hætti ætti að breyta ákvæðum um synjunarvald forseta Íslands.

Nú eru lagðar fram nýjar tillögur um stöðu forsetans og þær tillögur eru einmitt gott dæmi um hluta af því sem þarf að skýra miklu betur í þessu máli. Við þingsetningu í fyrra flutti forseti lýðveldisins ræðu þar sem hann túlkaði tillögur stjórnlagaráðs er varða forsetaembættið. Í framhaldi af því kom í ljós að það var ekki bara dálítill álitamunur á því hvernig fólk túlkaði þessar tillögur heldur var gríðarlegur munur á því hvaða merkingu menn lögðu í tillögurnar varðandi hlutverk og stöðu forsetaembættisins, bæði innan þess hóps sem myndaði stjórnlagaráðið og meðal annarra. Það að stjórnarskrá skuli vera það óljós að menn geti túlkað hana í raun alveg í 180° er ekki æskilegt. Stjórnarskrá þarf að uppfylla þau skilyrði að um hana ríki sem víðtækust sátt og jafnframt að hún sé skiljanleg, að allir skilji hana nokkurn veginn á sama hátt. Það má vel halda því fram að núgildandi stjórnarskrá uppfylli ekki algjörlega síðarnefnda skilyrðið. Menn hafa ólíka skoðun á því, eins og komið hefur í ljós sérstaklega síðari missiri, hvernig eigi að túlka ákvæði núgildandi stjórnarskrár, en þá á það að vera markmið þingmanna og annarra sem koma að breytingu stjórnarskrárinnar að laga það þannig að stjórnarskráin verði skýrari en hún er nú.

Annað sem hefur verið gagnrýnt sérstaklega er að orðalag mannréttindakaflans sé of óljóst og geti jafnvel verið þversagnakennt. Mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár er einn af þeim köflum sem hafa tekið miklum breytingum. Það er rétt að halda því til haga, vegna orða hæstv. forsætisráðherra um að stjórnarskráin hafi verið samþykkt til bráðabirgða á sínum tíma, að miklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni í gegnum tíðina og ekki hvað síst á mannréttindakaflanum árið 1995. En nýjar tillögur um mannréttindakaflann hafa vakið talsverða umræðu, ekki hvað síst meðal lögfræðinga sem hafa bent á að þar þurfi að huga betur að ýmsu áður en hægt er að leiða það í stjórnarskrá.

Jafnframt hafa sérfræðingar sem um málið hafa fjallað vakið athygli á því að kaflar er varða stjórnskipunina, þ.e. uppbyggingu stjórnkerfisins, kunni að vera á vissan hátt þversagnakenndir. Þetta er eitt af því sem sérstakur hópur lögfræðinga fer nú yfir. Við skulum hafa það hugfast að þingið samþykkti sérstaklega að láta sérfræðihóp fara yfir þetta mál og augljóst má telja að það hefði verið mun skynsamlegra að sá hópur fengi að ljúka störfum áður en málið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. En menn gátu ekki beðið eftir því og þar af leiðandi er óvissa um mjög mörg atriði sem hefði hugsanlega mátt eyða eða að minnsta kosti draga úr áður en að atkvæðagreiðslu kæmi.

Menn hafa mikið rætt um þá möguleika sem skapast á því að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu mál. Þar er mjög stórri spurningu ósvarað, grundvallarspurningu, spurningunni um það hversu stór hluti landsmanna þurfi að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má eiginlega segja að þar sé ekki um stigsmun að ræða heldur eðlismun því að það er tiltölulega auðvelt að fá 10% kosningabærra manna til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Ritstjóri dagblaðs, við getum nefnt ritstjóra Morgunblaðsins sem dæmi, Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gæti þannig ákveðið þegar hann teldi ástæðu til að setja tiltekið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu að kalla eftir henni og safna á tiltölulega stuttum tíma 10% kosningabærra manna til að styðja þá kröfu. Getur það verið hugsunin hjá núverandi ríkisstjórn eða þeim sem hafa hvað mest talað fyrir því að hafa þennan þröskuld sem lægstan að Davíð Oddsson hafi meira um málin að segja, geti ákveðið hvaða mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Varla, miðað við hvernig það sama fólk hefur talað um ritstjóra Morgunblaðsins. Þar af leiðandi hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þetta hlutfall verði ekki að vera nógu hátt til að hægt sé að tala um raunverulega og breiða kröfu í samfélaginu. Það hlýtur að gilda það sama um ein 10% og önnur 10%. Varla gerir fólk ráð fyrir því að einungis þau 10% sem eru sammála þeim sem fyrir þessu tala muni beita sér en önnur 10% samfélagsins láti það ógert.

Annað atriði sem þarf sérstaklega að huga að og hefur reynst nokkuð óljóst er sá möguleiki sem opnað er fyrir í tillögum stjórnlagaráðs um að 5/6 þingmanna á Alþingi geti tekið ákvarðanir um breytingu á stjórnarskrá, til að mynda framselt hluta af fullveldi ríkisins. Nokkrir fulltrúa stjórnlagaráðs hafa bent á að þetta sé hugsað fyrst og fremst til að hægt sé að gera minni háttar breytingar án þess að fara í það mikla ferli sem hefur þurft að ganga í gegnum fram að þessu til að breyta stjórnarskrá. Sé sú raunin er mikilvægt að skýra það.

Þannig má telja upp fjölmörg atriði sem hefðu þurft frekari skýringar við, hefðu þurft miklu meiri umræðu í þinginu og hefðu þurft að fara í gegnum lögfræðilega yfirferð áður en málið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því miður virðist þetta mál í augum stjórnvalda oft og tíðum snúast um annað en viljann til þess að finna bestu og skynsamlegustu niðurstöðuna sem sátt er um, það virðist snúast um annað en raunverulegan vilja til að nýta þá miklu vinnu sem stjórnlagaráð vann. Það er vanvirðing við það fólk sem varði miklum tíma í tillögur stjórnlagaráðs, sem margar eru prýðisgóðar, að stilla þessu upp með þeim hætti að setja þetta í atkvæðagreiðslu þar sem þess er krafist að menn segi annaðhvort segi já og þá verði málið lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá eða þeir segi nei og þá verði málinu hent í ruslafötuna, eins og skilja mátti á hæstv. forsætisráðherra hér áðan.

Raunar hefur sá sem mest hefur talað um þetta mál fyrir hönd stjórnlagaráðs í fjölmiðlum lýst því þannig að ef fallist verði á þessar tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslunni megi þingið ekki breyta þar stafkrók — rétt er að taka það fram að ekki eru allir stjórnlagaráðsfulltrúar sammála um það.

Einn stjórnlagaráðsfulltrúi hefur reyndar lýst því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn tillögunni sem hann kom sjálfur að vegna þess að málið sé ekki fullunnið. Þar komum við einmitt að kjarna vandans, því sem ég var að rekja hér áðan, að það hvernig á þessu máli hefur verið haldið hefur skemmt fyrir því. Það hefur skemmt fyrir vinnu fulltrúa í stjórnlagaráði hvernig stjórnvöld hafa haldið á málinu og það að efnisleg umræða um málið skuli fyrst nú vera að hefjast og standa einungis yfir í tvær klukkustundir rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna er því miður gott dæmi um það.

Hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer er ljóst að eflaust verða gerðar breytingar á stjórnarskránni og hún endurbætt á næstu missirum. Vonandi geta menn nýtt sem flestar tillögur sem fram hafa komið í því efni, m.a. tillögur frá stjórnlagaráði, en það er ekki hægt að fallast á þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í þessu máli, að setja málið óklárað í þjóðaratkvæðagreiðslu og ætla síðan að túlka það eftir eigin hentugleika í framhaldinu.



[14:36]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í grunninn hefur stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, stjórnskipunarlög nr. 33/1944, reynst vel. Stjórnarskráin hefur að mínu mati dugað sem slík, vandamálin hafa fremur tengst miklu rými til að túlka ákvæði hennar og þeim mikla rétti sem sumir hafa tekið sér í þeim efnum. En stjórnarskráin okkar er barn síns tíma, hún er það svo sannarlega því að hún er að miklu leyti að stofni til stjórnarskráin sem Kristján IX. Danakonungur setti okkur Íslendingum einhliða 5. janúar 1874. Heilir kaflar þessarar stjórnarskrár eru í raun og veru þaðan.

Eins og kunnugt er völdu menn þá leið við lýðveldisstofnunina að gera með afbrigðilegum hætti einföldustu breytingar sem mögulegt var til að skipta út kóngi og setja inn forseta. Þá ákváðu menn samtímis að einhenda sér í kjölfar lýðveldisstofnunarinnar í það verk að semja Íslendingum nýja heildstæða stjórnarskrá. Vissulega hefur henni verið breytt, t.d. með mannréttindakaflanum á tíunda áratugnum og kjördæmaskipaninni var breytt — í andstöðu við suma sem menn komust að niðurstöðu um að ekki mættu hafa endalaust neitunarvald gagnvart því að stjórnarskrá væri breytt og ekki væru því tök á að gera breytingar í fullri sátt. En vonin um nýja íslenska stjórnarskrá eða heildstæða endurskoðun hennar hefur lifað óslitið frá lýðveldisstofnun og nær allan tímann hafa stjórnarskrárnefndir verið að störfum.

Fyrir mér eru því rökin fyrir því að ráðast loksins í að ljúka þessu verki núna þríþætt. Í fyrsta lagi þarf að ljúka þessu löngu fyrirhugaða verki sem áratugir hafa ekki dugað til að leiða í höfn, að Ísland eignist sína eigin heildstæðu stjórnarskrá og við þurfum ekki að byggja á arfinum sem við fengum einhliða frá Kristjáni IX. Danakonungi. Í öðru lagi er hverjum manni ljóst að það þarf að taka inn í stjórnarskrána margvísleg ný ákvæði vegna breyttra viðhorfa, vegna réttar- og samfélagsþróunar sem orðið hefur frá lýðveldisstofnuninni. Í þriðja lagi vegna nýrra viðfangsefna sem samtíminn og framtíðin færir okkur í hendur, t.d. á sviði umhverfismála. Loks er enn ein ástæða atburðirnir sem urðu hér á landi árið 2008 og sú víðtæka krafa sem í kjölfarið reis um umbætur á stjórnarskrá, stjórnskipunarlögum og öðrum lögum, stofnunum og stjórnsýslu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt mikla áherslu á þetta mál og við lögðum í það mikla vinnu samhliða starfi stjórnarskrárnefndar á árunum fyrir 2007 að móta okkar áherslur að þessu leyti. Til að nefna þar nokkra hluti er það lýðræðið sjálft, þ.e. að stjórnarskráin sjálf festi í sessi það grundvallaratriði að valdið spretti frá þjóðinni, að það sé lýðurinn, með öðrum orðum almenningur, sem ráði og þaðan komi valdið. Persónulega gæti ég hjálpað til við að skrifa texta sem mér fyndist betri í þessum efnum en sá sem stjórnlagaráð leggur til en vissulega er þar margt mjög gott og einnig til bóta að þessu leyti.

Í öðru lagi höfum við sem grænn flokkur barist fyrir því að meginreglur umhverfisréttar kæmu inn í stjórnarskrá, þótt fyrr hefði verið, og að sjálfsögðu, jafngríðarlega mikilvæg og afdrifarík meginreglur umhverfisréttar eru í samtímanum og verða til framtíðar, leiðsögnin um sjálfbæra þróun og allt sem henni fylgir.

Í þriðja lagi nefni ég afdráttarlausari mannréttinda- og mannhelgisákvæði. Þótt margt sé gott í kaflanum frá tíunda áratugnum má þar gera betur, m.a. í samræmi við þróunina síðan þá í samræmi við þróun mannréttindaréttarins, samninga og sáttmála sem hafa komið til sögunnar á þeim tíma sem liðinn er.

Í fjórða lagi nefni ég beint lýðræði til að nefna nokkur stikkorð um það sem við leggjum mikla áherslu á.

Að sjálfsögðu leggjum við áherslu á að auðlindaákvæði tengt umhverfisákvæðum fari í stjórnarskrána þess efnis að auðlindirnar eigum við sameiginlega og gætum þeirra saman.

Kosningarnar á laugardaginn kemur eru afar mikilvægar. Ég kaus í gær. Það var gaman, það var auðvelt og mér fannst miklu sögulegra en ég átti von á að ganga inn í kjörklefa og kjósa í fyrsta skipti á ævinni beint um eitthvað sem tengdist sjálfri stjórnarskránni en ekki að nafninu til óbeint í tengslum við alþingiskosningar eins og það hefur verið og er enn, því miður.

Ég, öfugt við formann Sjálfstæðisflokksins, svaraði fyrstu spurningunni játandi vegna þess að ég tel tillögur stjórnlagaráðs að meginstofni til góðan grunn til að byggja á og átti ekki í neinum vandræðum með það. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé sammála öllum útfærslum þar og geti ekki hugsað mér vissa hluti öðruvísi. Þann rétt áskil ég mér að sjálfsögðu eins og væntanlega allir aðrir alþingismenn gera, til eða frá. Ég tel að það sem þar komi til skoðunar sé miklu léttvægara en hitt, sem er gott og góður efniviður og grunnur. Eins veit ég að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður aldrei nákvæmlega eins og ég einn gæti hugsað mér að hafa hana, enda þyrftum við þá væntanlega 320 þús. stjórnarskrár en það stendur ekki til að hafa nema eina. Við verðum auðvitað að sýna sanngirni í þessum efnum.

Ég mun ekki senda út nein bréf, öfugt við formann Sjálfstæðisflokksins, með tilmælum um hvaða afstöðu þjóðin eða stuðningsmenn Vinstri grænna eigi að hafa á laugardaginn kemur vegna þess að nú er komið að þjóðinni sjálfri. Nú á þjóðin sjálf leik. Ég vara við þeim sem tala af léttúð um þennan rétt og þetta hlutverk þjóðarinnar. Alþingi hefur ákveðið að leita til þjóðarinnar um leiðsögn í þessu máli og það er mikilvægt að við umgöngumst það af virðingu. Vissulega mun skipta máli við mat á niðurstöðum hversu skýr skilaboðin verða, það liggur í hlutarins eðli, en það verður okkar að meta og vinna úr.

Forseti. Að síðustu þetta: Menn tala um mikilvægi þess að reynt sé að hafa sem breiðasta sátt um grundvallarleikreglur í stjórnarskránni. Að sjálfsögðu, það er rétt og mikilvægt. Það er gæfa ef stjórnmálaflokkunum sem slíkum tekst sæmilega upp í þeim efnum. Það hefur þeim ekki tekist. En það er langmikilvægast að þjóðin sé sátt því að þetta er stjórnarskráin hennar en ekki stjórnmálaflokkanna og enginn einn stjórnmálaflokkur á að hafa leyfi til þess að hafa endalaust neitunarvald eða synjunarvald gagnvart því að þjóðin fái sína stjórnarskrá. Satt best að segja hefur nú þegar gengið allt of langt það vald sem menn hafa tekið sér í þeim efnum að koma í veg fyrir að þjóðin fái umbætur á stjórnarskrá sinni.



[14:44]
Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við reifum þetta mikilvæga mál, frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum, þetta plagg sem þingmenn fengu í hendurnar í fyrra. Þetta er mjög merkilegt plagg og mig langar að hefja mál mitt á því að lesa bréf stjórnlagaráðs til Alþingis. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti Alþingis

Með ályktun Alþingis frá 24. mars 2011 var stjórnlagaráði falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þær tillögur liggja nú fyrir í formi frumvarps til nýrrar stjórnarskrár og afhendist það forseta Alþingis hér með. Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins sem lauk miðvikudaginn 27. júlí síðastliðinn.

Stjórnlagaráði var meðal annars falið að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, sem kosin var af Alþingi 16. júní 2010. Hlutverk stjórnlaganefndar var að undirbúa þau verkefni sem síðar voru falin stjórnlagaráði, meðal annars með því að halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni og safna gögnum og upplýsingum um þau og leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefnd hélt þjóðfund 6. nóvember 2010, þar sem þúsund þátttakendur voru valdir með úrtaki úr þjóðskrá, og afhenti nefndin stjórnlagaráði skýrslu sína og tillögur á fyrsta fundi ráðsins, 6. apríl síðastliðinn. Frumvarp stjórnlagaráðs er því afrakstur mikillar vinnu á löngum ferli.

Fulltrúar í stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu. Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Almenningur hefur átt greiðan aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum og innsendum erindum á vefsetri ráðsins. Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Frumvarp stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli fulltrúa innbyrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið. Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frumvarpið. Skýringar með frumvarpinu verða afhentar Alþingi í næstu viku og endurspegla umræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum um stjórnarskrármál haldi áfram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Undir þetta skrifa, herra forseti, Salvör Nordal, formaður stjórnmálaráðs, Andrés Magnússon og Ari Teitsson, sú sama Salvör Nordal og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins hélt fram áðan að sæi ýmislegt athugavert við þetta mál. (Gripið fram í.)

Vissulega á Alþingi eftir að fara í gegnum málið og það veit formaður Sjálfstæðisflokksins mætavel. En það er líka beðið um að almenningur fái að veita Alþingi leiðsögn þar að lútandi fyrst.

Herra forseti. Í skýringum með frumvarpinu kemur meðal annars fram um verkefni stjórnlagaráðs, með leyfi forseta:

„Í ályktun Alþingis um skipan stjórnlagaráðs var sérstaklega tiltekið að fjallað skyldi um eftirfarandi atriði í stjórnarskránni: Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar; skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra; hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins; sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds; 28 ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan; lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga; framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Jafnframt var tekið fram að ráðinu væri heimilt að taka fleiri atriði til umfjöllunar í starfi sínu. Meðal fulltrúa í stjórnlagaráði kom strax í upphafi fram mikill vilji til að taka mannréttindakaflann til endurskoðunar og jafnframt var ákveðið að taka fyrir nokkur önnur efni en þau sem voru nefnd sérstaklega í þingsályktuninni en hafði verið fjallað um í skýrslu stjórnlaganefndar, svo sem stöðu þjóðkirkjunnar og sveitarfélaga. Litið hefur verið á skýrsluna sem góðan grundvöll að byggja á en ekki bindandi fyrirmæli eða valkosti.“

Herra forseti. Stjórnlagaráð skilaði Alþingi feikilega góðu verki sem var algjörlega í samræmi við það sem Alþingi bað um og sem enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins utan einn, hv. varaþingmaður Óli Björn Kárason, greiddi atkvæði gegn. Engir sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn þessu ferli á sínum tíma og þegar verið var að vinna málið í allsherjarnefnd var þátttaka fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar í fullu samræmi við vilja allrar nefndarinnar. Meðal annars komu mjög merkar tillögur og gagngerar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Nú hefur þeim hins vegar snúist hugur vegna þess að þeir standa frammi fyrir því að þeir fengu ekki að ráða öllu. Það er miður að einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli sýna slíkt ábyrgðarleysi, segi ég bara.

Herra forseti. Í aðfaraorðum þessara stjórnarskrárdraga segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Við þessu vilja þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja nei. Þeir vilja segja nei við þessu og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sent bréf til kjósenda flokksins um að segja nei við þessu. Þetta lýsir þvílíkri fyrirlitningu á þjóðinni, almenningi og þeim sem eru á póstlista Sjálfstæðisflokksins að engu tali tekur. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, má skammast sín fyrir afstöðu sína. Hann hefur kallað þetta verkefni fúsk, hann hefur kallað þetta ólýðræðislegt, hann hefur kallað þetta óvandað og hann hefur kallað þetta óþarft.

Herra forseti. Hér kemur einfaldlega fram grímulaus sérhagsmunavarsla yfirstéttarinnar í Sjálfstæðisflokknum á völdum og yfirráðum yfir auðlindum. Vonandi láta almennir kjósendur Sjálfstæðisflokksins þessi orð hans sér um eyru þjóta og hlusta ekki á það að menn vilji hafna þessari nýju stjórnarskrá. Ég hvet sjálfstæðismenn um allt land, svo ég tali nú beint til þeirra sjálfur úr þessum ræðustól, að mæta á kjörstað og segja já og hvetja þingmenn sína til að taka fullan þátt í þessu starfi með öðrum á Alþingi í framhaldinu, þegar frumvarpið kemur inn í þingsali, og hvetja fulltrúa sína í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að vera málefnalegir og gæta hagsmuna almennings í einu og öllu í þessu máli en hafna sérhagsmunagæslu yfirstéttarinnar í flokknum.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar hefur hann haft nýja stjórnarskrá á stefnuskrá sinni árum saman og hann hefur hvatt til stjórnlagaþings í langan tíma. Nú hefur að hluta til þingmönnum flokksins snúist hugur í því máli, en þó ber að virða það að formaður flokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipaði ekki sínu fólki að segja nei áðan. Málflutningur hans bar hins vegar keim af því að hvorki hann né aðrir þingmenn í flokknum sem ég hef rætt við né framsóknarmenn almennt virðast hafa mikla hugmynd um hvað fram hefur farið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undanfarið ár. Það var alveg auðheyrt af málflutningi formanns flokksins að hann hefur ekki hugmynd um þær hugmyndir sem hafa verið ræddar þær og þær leiðréttingar sem stendur til að gera, ekki hugmynd um að það hafi verið rætt um þær innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Mig langar að hvetja þingmenn Framsóknarflokksins alla saman og kjósendur til að taka höndum saman um að vinna þessu máli framgang á þingi þegar það kemur inn í þingið aftur. Það getur Framsóknarflokkurinn gert, en hann verður að gera það þannig að hann verður að skipa ábyrgan fulltrúa sem fulltrúa sinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Öðruvísi mun málið aldrei vinnast þar á neinum forsendum sem Framsóknarflokkurinn hefur fram að færa. Það er eitt af vandamálunum sem þingið stendur frammi fyrir. Þingmenn verða að sýna ábyrgð þegar kemur að stjórnarskránni.

Herra forseti. Í gær, 17. október, voru upp á dag liðin fjögur ár frá því að mannréttindafrömuðurinn, baráttumaðurinn og söngvaskáldið Hörður Torfason hélt sinn fyrsta útifund á Austurvelli. Hann hefur verið kallaður hættulegur maður, óeirðaseggur, friðarspillir og guð má vita hvað.

Herra forseti. Mig langar að lesa ræðubút frá Herði Torfasyni sem hann hélt á vegum Stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í fyrra. Þar sagði Hörður Torfason, sá hugrakki maður, eftirfarandi:

„Ég á mér engan draum, heldur sýn hins vakandi manns, vakandi um eigin velferð, vel meðvitaður um að ég er ekki einn í þessum heimi, vakandi og vitandi að einstaklingur eða hópur sem fær vald mun fyrr eða síðar misnota það ef hann hefur það of lengi og gagnrýnislaust. Vakandi því að á meðan ég lifi vil ég eiga gott líf og deila sams konar kjörum með öðrum mönnum. Vakandi til að rísa upp gegn miskunnarlausum áróðri og yfirtöku fárra á auði allra. Vakandi til að ræða við aðrar manneskjur um það sem okkur er öllum fyrir bestu. Vakandi til að skilja að hver og einn einasti einstaklingur á sinn hluta í því kerfi sem við höfum komið okkur á fót og eigum og okkur ber skylda til að nota til góðs en ekki eyðileggja.

Vakandi og vel vitandi að þegar það kerfi sem við lifum við er komið að fótum fram og gerir ekkert annað en að hneppa okkur í þrældóm þeirra fáu sem hafa náð kerfinu á sitt vald — þá ber mér skylda að taka þátt í að skapa eitthvað betra.

Vakandi til að brýna fyrir mönnum að sá sem aðhyllist frelsi og jöfnuð verður að þora að sýna andlit sitt, rísa á fætur og andmæla ofríki með friðsamlegum, rökföstum aðgerðum og orðum. Vakandi og vitandi að á stundum verð ég að gera hlutina einn því að reynslan hefur kennt mér að ég verð aldrei einn mjög lengi.“

Herra forseti. Hörður Torfason á mikinn heiður skilið fyrir baráttu sína. Meðal annars vegna hennar stend ég hér í dag og ræði nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Fyrir það er ég þakklátur og fyrir það má þjóðin vera þakklát líka.



[14:56]
Lilja Mósesdóttir (U):

Herra forseti. Ég vil nýja stjórnarskrá sem gefur kjósendum möguleika á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál. Ég vil nýja stjórnarskrá sem kemur á svæðisþingum til að draga úr miðstýringu. Ég vil nýja stjórnarskrá sem tryggir að sem flest svæði á Íslandi eigi fulltrúa á Alþingi.

Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá ollu mér því vonbrigðum. Í 67. gr. stjórnarskrártillagnanna er kjósendum vissulega veittur réttur til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem varða almannahag en þó hvorki um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né um skattamálefni. Þessar takmarkanir eru óásættanlegar.

Þrýstingurinn á skattgreiðendur að yfirtaka skuldir óreiðumanna hefur aldrei verið jafnmikill. Því verður að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál.

Í 39. gr. stjórnarskrártillagnanna er persónukjör innleitt og samtökum frambjóðenda veitt leyfi til að bjóða fram landslista sem þýðir í raun að landið verður eitt kjördæmi. Persónukjör og landslisti munu skerða möguleika fólks til að ná kjöri sem hefur ekki góðan aðgang að fjölmiðlum, m.a. vegna búsetu.

Í stjórnarskrártillögunum er ekki minnst á svæðisþing til að tryggja réttlátan hlut landsbyggðarinnar í skattlagningu auðlinda og til að færa ákvarðanatökuna nær fólkinu.  

Herra forseti. Auðvitað átta ég mig á því að ekki er hægt að fá allar óskir sínar uppfylltar. Ég hef því velt fyrir mér hvaða ákvæði þyrfti að vera í drögum að nýrri stjórnarskrá til þess að ég geti samþykkt þau. Niðurstaða mín er sú að stjórnarskrártillögurnar verði að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í öllum málum. Icesave-málinu er ólokið og fleiri sambærileg mál munu koma upp. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs mun forsetinn geta vísað öllum málum í þjóðaratkvæði. Afar ólíklegt er að forsetinn vísi máli í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ný stjórnarskrá bannar að greidd verði þjóðaratkvæði um.

Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka (Forseti hringir.) um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda.



[15:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna því að loks ræðir hv. Alþingi efnislega tillögur stjórnlagaráðs. Ýmislegt gott er í hugmyndum stjórnlagaráðs en margt þarf að bæta, mjög margt, og sumt er beinlínis hættulegt. Þess vegna mun ég því miður þurfa að segja nei við 1. spurningunni á laugardaginn en ég vona að menn muni áfram vinna að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá og nýta til þess þær góðu hugmyndir sem koma fram í tillögum stjórnlagaráðs.

Ég ætla að ræða um breytingar á stjórnarskrá. Því miður er það þannig að ef gerð er breyting, eins og hér er verið að ræða um, á stjórnarskránni mun þjóðin aldrei greiða atkvæði um hana með bindandi hætti. Það sem mun gerast er að þing verður rofið um leið og Alþingi er búið að samþykkja þessa tillögu, síðan fer fram almenn atkvæðagreiðsla og þá verða almennar kosningar. Svo kemur nýtt þing saman og þá munu þingmenn í samræmi við stjórnarskrá greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni en ekki samkvæmt boðum frá kjósendum sínum. Stjórnarskráin núverandi mælir fyrir um þetta og það merkilega er að sú nýja nefnir sannfæringu þingmanna líka.

Ég vil að fyrst verði breytt reglum í stjórnarskrá um hvernig eigi að breyta stjórnarskrá. Að 79. gr. verði breytt. Það ætti að verða fyrsta breytingin á stjórnarskránni sem felur í sér að mikill hluti þingmanna þarf að samþykkja breytingartillöguna. Síðan yrði það sent í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en það ætti að þurfa háan þröskuld til að samþykkja það. Báðir þessir þröskuldar eru ætlaðir til þess að stjórnarskránni sé ekki breytt aftur og aftur eftir því sem vindar blása, að undirstöðunni undir allt þjóðskipulagið sé ekki breytt fyrirhafnarlítið.

Þær tillögur sem hér koma fram um breytingar á stjórnarskrá eru mjög vafasamar. Einfaldur meiri hluti á Alþingi, 32 þingmenn, einfaldur meiri hluti þeirra sem greiða atkvæði, kannski 30% þjóðarinnar, á að geta breytt stjórnarskrá. Ég óttast að svona auðveld breyting á stjórnarskrá valdi því að þegar hægri vindar blási verði eignarréttarákvæðin skerpt og félagslegu réttindin skert og þegar vinstri vindar blási verði eignarréttarákvæðin veikt og félagslegu réttindin skerpt. Stjórnarskráin dinglar stöðugt fram og til baka. Þetta er allt of mikill óstöðugleiki, herra forseti.

Svo hef ég bent á 2. mgr. 113. gr. breytinganna þar sem 5/6 þingmanna, þ.e. 53 þingmenn, geta tekið sig saman og breytt stjórnarskránni á einum fundi. Þeir geta til dæmis ákveðið að næstu kosningar fari fram eftir 30 ár og að þingsæti erfist, að börnin erfi þau. Þetta gætu þeir ákveðið. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Þess vegna verð ég að segja nei.

En það er ýmislegt gott. Til dæmis er Hæstiréttur tekinn inn sem mér finnst sjálfsagt og Lögrétta líka. Hún er hins vegar meingölluð eins og tillagan er í hugmyndum stjórnlagaráðs. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi sjálft kjósi menn í Lögréttu, jafnvel þingmenn. Lögréttan á að taka afstöðu til þess hvort þingmál samræmist stjórnarskrá.

Ég vil að fullskipaður Hæstiréttur myndi Lögréttu, eða stjórnlagaþing mín vegna, og að þar verði tekin afstaða til þingmála á Alþingi, að beiðni ákveðins hluta þingmanna, en líka að mál sem koma upp í gegnum dómskerfið, þar sem menn deila um hvort lög standist stjórnarskrá, fari beint til Lögréttu eða stjórnlagadómstóls sem þá væri Hæstiréttur fullskipaður og hann tæki afstöðu. Þetta er það góða sem kemur út úr tillögum stjórnlagaráðs sem ég get því miður ekki fallist á vegna þeirra hættulegu atriða sem eru í þessum tillögum.



[15:04]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þetta allt saman? Er þetta ekki allt of flókið? Hefur fólk eitthvert vit á því sem spurt er um? Verður farið eftir niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar?

Þannig spyr fólk gjarnan vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fer á laugardaginn, en þá verður fólk spurt um afstöðu sína til niðurstaðna stjórnlagaráðsins. Spurningarnar eru á mannamáli og auðskiljanlegar og það verða engin vandkvæði að túlka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Já þýðir já og nei þýðir nei.

Þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir og unnið hefur verið úr þeim verður lagt fram frumvarp á Alþingi. Ef svar þjóðarinnar við stóru spurningunni er nei er ljóst að samstaðan sem stjórnlagaráðið náði er fokin út í veður og vind. En vinnan sem unnin var er auðvitað ekki ónýt. Eftir sem áður verða svörin við hinum spurningunum, sem eru lykilspurningar, þinginu til leiðsagnar. Rétt er að vekja athygli á því að leiðarljós stjórnlagaráðsins var þjóðfundur sem haldinn var í nóvember 2010 en hann sátu 950 manns, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Þjóðfundurinn var því þverskurður þjóðarinnar.

Í niðurstöðum þjóðfundar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu.“

Tillögur stjórnlagaráðsins endurspegla þetta, efni tillagna stjórnlagaráðsins er niðurstöður þjóðfundarins og ég mun því áfram dvelja við niðurstöður hans. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin skal byggja á siðferðisgildum. Siðgæðisþema nýrrar stjórnarskrár skal vera mannvirðing, tjáningarfrelsi og tillitssemi. […] Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi.“

Hafa menn efnislegar athugasemdir við þetta?

Undir fyrirsögninni Mannréttindi segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt.“

Undir fyrirsögninni Réttlæti, velferð og jöfnuður, með leyfi forseta:

„Tryggja skal öllum landsmönnum mannsæmandi lífskjör óháð kyni, kynþætti, aldri, búsetu, vinnu, þjóðerni, trúarskoðun, efnahag, fötlun, kynhneigð eða skoðunum.“

Hafa menn efnislegar athugasemdir við þetta?

Náttúra Íslands, vernd og nýting, enn með leyfi forseta:

„Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign […] þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum […] Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir.“

Og um lýðræði, með leyfi forseta:

„Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri […] Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. […] kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá.“

Virðulegi forseti. Hér vék stjórnlagaráðið aðeins frá niðurstöðum þjóðfundarins og lagði til kosningakerfi þar sem atkvæðavægi er jafnt en þó þannig að hægt sé að hafa allt upp í átta kjördæmi og binda allt að 30 þingsæti í kjördæmunum. Það er ekki lagt til að landið verði eitt kjördæmi. Alþingi getur hins vegar gert það.

Valddreifing, ábyrgð og gegnsæi, hvað segir um þetta í niðurstöðum þjóðfundarins, með leyfi forseta?

„Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans.“

Það var gert þó að því væri ekki breytt. Það var tekin afstaða.

Um frið og alþjóðasamvinnu segir, með leyfi forseta:

„Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem leggi áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum. Ísland sé málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Öryggi landsins skal tryggt.“

Virðulegi forseti. Þetta er úr niðurstöðum þjóðfundarins sem voru leiðarljós stjórnlagaráðsins og mér finnst undarlegt ef mikil andstaða er við þessar niðurstöður.

Hver hafa verið helstu gagnrýnisefnin? Eitt af því er um ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Menn segja að það sé óskýrt. Það er tekið úr lögunum sem sett voru um Þingvelli árið 1928 en þar segir, með leyfi forseta:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

Sami skilningur er á hugtakinu í frumvarpi dr. Gunnars Thoroddsens árið 1983, frumvarpi Davíðs Oddssonar frá 1995 og loks er talað um sameign þjóðarinnar í skýrslu auðlindanefndar árið 2000 undir forustu dr. Jóhannesar Nordals. Það eru ekki ómerkari menn en þetta sem hafa notað þetta hugtak.

Virðulegi forseti. Það læðist að manni sá grunur að eitthvað annað en orðalag og orðnotkun valdi því að sumir hv. alþingismenn fella sig ekki við þetta ákvæði í stjórnarskrá landsins. Það er enginn vafi á því að valdamikill en ekki fjölmennur hagsmunahópur hefur allt á hornum sér varðandi þetta ákvæði.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal stagast á því ákvæði að 5/6 alþingismanna geti breytt stjórnarskrá. Hann virðist ekki heyra það eða vita af því sem hefur verið sagt mjög oft að á fundi sínum 8.–11. mars samþykkti stjórnlagaráðið að falla frá þessu ákvæði. Þannig er nú gagnrýnin sem hefur verið sett fram á þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslan er einn áfangi á langri leið til að setja okkur nýja stjórnarskrá. Hingað til hefur heildarskoðun á því grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar og undirstöðu laga sem þjóðinni eru sett mistekist. Kannski er það að stjórnlagaráðinu tókst að ljúka verkinu einmitt einn vitnisburður um að aðrir en stjórnmálamenn og lögfræðingar eigi að koma að þessum málum.

Virðulegi forseti. Það var alltaf hugmynd landsfeðranna í upphafi lýðveldisins að þjóðin sjálf ætti að setja sér stjórnarskrá. Það er margítrekað í greinum og þingræðum. Nú er komið að þjóðinni að ljúka því verki sem var hafið árið 1942. Í máli þessa forustufólks íslensks lýðveldis kom skýrt fram að Ísland átti að verða lýðræðisríki sem viðurkenndi í öllum stjórnarfarslegum áherslum sínum að fólkið ætti að ráða. Nú er rétti tíminn að fullnusta verk feðra vorra og skila stjórnarskránni til þjóðarinnar.



[15:12]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjóðaratkvæðagreiðsluna sem skal fara fram á laugardag, eftir tvo daga. Það er rétt að byrja á að segja það sem virðist hafa farið fram hjá mörgum, eða því er verið að breyta í umræðunni, að Framsóknarflokkurinn vill breyta stjórnarskránni. Framsóknarflokkurinn vill breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem þarf að breyta. Framsóknarflokkurinn hefur aldrei talað fyrir því að hér yrði stjórnarskráin okkar sett í ruslið og ný skrifuð þannig að því sé til haga haldið. Umræðan hefur snúist upp á margar hliðar undanfarna mánuði, allt frá því að ég sjálf tók þátt í þjóðfundi á haustdögum 2010 og til dagsins í dag. Þetta hefur verið grýtt leið og hef ég gagnrýnt þennan feril mjög mikið vegna þess að ef við ætlum að reisa Alþingi til vegs og virðingar verða þingmenn sjálfir, og ekki síst ráðherrar, að fara að gildandi lögum, fara að stjórnarskrá.

Það er óþarft að minnast á það að nú þegar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gerst sekir um að brjóta lög. Ég tek sem dæmi hæstv. forsætisráðherra sem situr í þingsalnum, hún var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög. Ég segi, virðulegi forseti: Förum að þeim lögum sem eru í gildi, förum að þeirri stjórnarskrá sem er í gildi áður en við förum að skrifa ný lög eða nýja stjórnarskrá.

Það er það eina sem ég bið um.

Þeim spuna er mjög haldið hér á lofti að þingmenn verði að fara að þeim vilja sem birtist í atkvæðagreiðslunni nk. laugardag, að segi mikill meiri hluti landsmanna já við 1. spurningunni beri þingmönnunum 63 að fara að þeirri niðurstöðu. Ég verð því miður að hafna þessari fullyrðingu því að ég tek ekki þátt í því að brjóta núgildandi stjórnarskrá. Mér er það óheimilt. Sem þingmaður hef ég undirritað drengskaparheit samkvæmt stjórnarskránni um að ég fari að sannfæringu minni í störfum mínum en taki ekki við skipunum frá kjósendum, sér í lagi vegna þess að þetta er ráðgefandi skoðanakönnun, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að það sé á hreinu. Ég kem aldrei til með að taka þátt í því að brjóta stjórnarskrána á meðan ég starfa sem þingmaður.

Allur sá útafakstur í þessu máli sem hefur átt sér stað sem kostar 1.300 milljónir þegar atkvæðagreiðslan um næstu helgi hefur farið fram leiðir það af sér að ef þjóðin hafnar þessu plaggi er þingið statt á byrjunarreit.

Sem þingmaður Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hef ég kallað eftir því frá upphafi að nefndin fengi málið til efnislegrar umræðu. Við þeirri beiðni hefur ekki verið orðið. Það var farið í gegnum þau drög sem komu frá stjórnlagaráði, ég er ekkert að fara yfir það að Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingið ógilt en samt fór naumur meiri hluti Alþingis í þá vinnu að skipa sömu aðila í stjórnlagaráð þannig að stjórnlagaráð situr í umboði nokkurra meirihlutaþingmanna hér í þinginu, svo það sé bara sagt hér, en frá því að þessir aðilar skiluðu skýrslu til þingsins hefur ekki verið nokkur leið að fá hana efnislega rædda.

Það var farið í að kalla til sérfræðinga eftir kaflaskiptum skýrslunnar. Við nefndarmennirnir höfðum vissulega tækifæri til að spyrja þessa aðila út úr. Flestir þeirra höfðu miklar og veigamiklar athugasemdir við það plagg sem nú liggur fyrir, en það var aldrei nokkur einasta ákvörðun tekin um það hvar þær breytingartillögur sem þessir aðilar lögðu til ættu að koma inn í plaggið.

Svona stendur málið, því miður, því að þingið stendur núna á þeim tímamótum þegar hálft ár er fram að boðuðum kosningum — þær geta brostið á hvenær sem er — að tíminn er að fjara út. Stundaglasið er að tæmast.

Ég sé ekki í hendi mér að hér verði hægt að breyta stjórnarskránni það sem af er þessu þingi. Eftir næstu helgi, hver sem úrslitin verða — segi þjóðin já við tillögunum á efnislega umræðan eftir að fara fram hér í þinginu og komast að niðurstöðu því að þessi skýrsla er ekki endanleg, eins og nú er búið að viðurkenna. Fólk er ekki að greiða atkvæði um endanlegar tillögur. Því var lengi haldið fram og keyrt áfram af spunameisturum að það væri verið að ganga til kosninga og greiða atkvæði um endanlega tillögu stjórnlagaráðs.

Það er erfitt að kljást við það að koma sannleikanum á framfæri þegar allir spila með á þennan hátt. Nú hefur verið upplýst að svo er ekki. Meira að segja ráðsmaðurinn Þorvaldur Gylfason er nýbúinn að halda þessu fram í Kastljósi þannig að við sjáum alveg hvert er verið að fara með þetta. Það er verið að beita blekkingum.

Meira að segja eru tillögurnar ekki endanlegri en svo að nú þegar er starfandi lögfræðiteymi til að lesa yfir tillögurnar, samræma, laga til og gera orðalagsbreytingar. Það er ekki einu sinni tími til að bíða eftir því hvað þessir sérfræðingar segja. Þetta eru lögfræðingar og lögmenn sem hafa þekkingu á því að lesa þetta saman. Nei, nei, það tekur því ekki að bíða eftir því.

Það er enn ein sóunin, bæði á peningum og tíma þessara sérfræðinga, verði niðurstaðan sú að landsmenn hafni þessum tillögum á laugardag. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil, ábyrgð hæstv. forsætisráðherra er mikil á þessu máli. Þetta sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og fyrst og fremst vilja til að eyða almannafé þegar jafnvel hefði verið hægt að nota það í eitthvað betra. Þá nefni ég til dæmis tækjakaup á Landspítalanum.

Kostnaðurinn nú þegar við þessar ímynduðu breytingar á stjórnarskránni er sambærilegur við það sem það kostar að endurnýja tækin á Landspítalanum sem eru á fjárhagsáætlun. Við skulum hafa það hugfast á sunnudaginn þegar búið verður að telja upp úr kössunum.

Ég er svo heppin að hafa farið til Noregs með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir nokkrum dögum. Þar fræddumst við um hvernig norska Stórþingið vinnur og hvernig þingmenn í Noregi vinna. Það var að sjálfsögðu spurt út í það hvernig Norðmenn breyta stjórnarskrá. Þeir sögðu: Við gerum það í miklum friði en ekki ófriði, stjórnarskrá verður ekki breytt nema það ríki nokkur sátt meðal landsmanna um að breyta henni.

Þeir eru nýbúnir að ganga í gegnum stjórnarskrárbreytinga. Hvað gerðu þeir? Fimm ára ferill fór af stað þar til stjórnarskránni var breytt, það þarf 2/3 þingmanna norska Stórþingsins til að breyta stjórnarskránni. Þar með er orðið tryggt að mikill meiri hluti bæði þingmanna og landsmanna stendur að þeim breytingum. Á þetta er ekki hlustað hér. Það er farið fram með stjórnarskrármálið í ófriði en ekki friði. Friður var í boði lengi vel, allir tilbúnir að setjast niður og vinna að því að finna þær greinar sem hægt var að breyta en sá friður var ekki í boði hjá ríkisstjórninni.

Það er sorglegt hvernig þetta mál hefur farið. Hér eru þingmenn að rugla saman bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Hér eru menn ekki alveg með á hreinu hvað er löggjafinn og hvað stjórnarskrárgjafinn. Löggjafinn er 63 þingmenn plús forseti, stjórnarskrárgjafinn er tvöfalt þing. Ég ætla að útskýra það hér áður en tími minn er úti, virðulegi forseti. Stjórnarskrá er þannig breytt að það er lagt fram frumvarp áður en þingi er slitið og þingmenn greiða atkvæði um það frumvarp fyrir þinglok. Þá eru komnir 63 þingmenn á því þingi. Síðan er boðað til kosninga og nýtt þing kemur til starfa. Segjum sem svo að það séu 30 þingmenn sem taka sæti, 30 nýir þingmenn á síðara þinginu og þá eru það 93 þingmenn auk forseta sem koma að því að breyta stjórnarskránni.

Þetta eru þingmenn ekki alveg með á hreinu. Þetta mál er keyrt á þann hátt að það sé bara hægt að fara með þetta út úr þessu þinghúsi og gera breytingar. Það er búið að tala um að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að það væri Alþingi ofviða að breyta stjórnarskránni. Það er sorglegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra tala niður til þingsins með þessum hætti þótt sá þingmaður hafi bráðum 35 ára starfsreynslu hér. Hún ætti þá kannski að vita hvernig þetta er búið að vera hér undanfarin ár. Framsóknarflokkurinn treysti sér til þess að setjast niður og breyta þeim köflum eða greinum stjórnarskrárinnar sem þarf, en þetta gengur ekki svona. Þingið eitt getur breytt stjórnarskránni. Ríkisstjórnin verður að sætta sig við þá staðreynd, þess vegna bíð ég spennt eftir úrslitunum næsta sunnudag, hvort þessi 1.300 millj. kr. för hafi verið sneypuför.



[15:23]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Siðgæði, lýðræði, valddreifing, ábyrgð, gegnsæi, réttlæti. Þetta eru orð sem voru meðal þeirra gilda sem þjóðfundur 950 manna valdi tveimur árum eftir hrun haustið 2010 og stjórnlagaráð byggði vinnu sína á.

Fyrir fjórum árum var íslenskt samfélag í upplausn. Stjórnvöld höfðu brugðist gjörsamlega, helstu eftirlits- og stjórnsýslustofnanir höfðu reynst leiðitamir dansfélagar siðblindu og græðgi. Það var ekki aðeins hin ráðandi pólitíska stefna frjálshyggjumanna sem varð gjaldþrota, Seðlabankinn og einkavinavæddir risabankar urðu það líka. Og við erum enn að glíma við afleiðingarnar. Bara í gær var upplýst að gjaldþrot Seðlabankans hefði kostað hvert einasta mannsbarn á Íslandi 800 þús. kr.

Hrunið var sannarlega efnislegt en það var um leið sálrænt áfall fyrir þjóðina í heild, menn misstu vinnuna þúsundum saman, verðbólga og vextir ruku upp, skuldir heimilanna tóku stökkbreytingum, krónan féll um helming, sett voru hryðjuverkalög á landið, það var aðeins til gjaldeyrir til kaupa á lyfjum og olíu til þriggja mánaða.

Hvað kemur þetta svo stjórnarskránni við? spyrja menn. Jú, á slíkum stundum hugsa menn ráð sitt, huga að grunngildunum, líta í eigin barm og spyrja sig: Hvað fór eiginlega úrskeiðis? Hverju þarf að breyta? Svarið var: Nánast öllu. En kröfurnar sem hljómuðu í þetta hús frá Austurvelli voru ótrúlega samhljóða: Skipta út ríkisstjórninni, kjósa upp á nýtt, skipta um í brúnni í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og setja á stofn stjórnlagaþing til þess að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Það heyrist gjarnan að hrunið hafi ekki verið stjórnarskránni að kenna og það má til sanns vegar færa. En staðreynd er að í henni reyndist lítið hald og ekkert aðhald fyrir þá sem fóru óáreittir sínu fram í stjórnmála- og viðskiptalífi. Það sýnir skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og það sýnir líka skýrsla þingmannanefndarinnar vel en Alþingi samþykkti einmitt 63:0, munið þið, tillögur þingmannanefndarinnar um að endurskoða stjórnarskrána.

Af hverju skyldu menn vilja endurskoða stjórnarskrána nú eins og á árinu 1944? Jú, stjórnarskráin geymir grunnreglur samfélagsins, þær sem stjórnskipan landsins byggir á, um valdmörk og ábyrgð stjórnvalda, um aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, um eftirlit með stjórnvöldum almennt, um lýðréttindi og geymir þær reglur sem öll önnur lög skulu byggja á. Stjórnarskráin er sem sagt það bjarg sem byggt skal á, eins og einhver kynni að orða það, og okkar samfélag þarf aðrar undirstöður en þær sem kóngsveldið skildi eftir sig og nær aftur til einveldisins. Þess vegna var sú krafa uppi og skiljanlega eftir hrun að skrifuð skyldi ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og við henni var brugðist, því að hálfu ári eftir hrun, vorið 2009, lögðu forustumenn allra flokka á Alþingi, nema Sjálfstæðisflokksins að sjálfsögðu, fram frumvarp um að kosið skyldi til stjórnlagaþings sem skrifaði nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Í því frumvarpi, sem Framsóknarflokkurinn var m.a. aðili að, var einnig ákvæði um að 15% þjóðarinnar gætu kallað mál til þjóðaratkvæðis og að allar náttúruauðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti skyldu vera þjóðareign sem ekki mætti selja eða láta varanlega af hendi. Þannig var nú það.

Það frumvarp náði ekki fram að ganga en hins vegar náðist samstaða allra flokka um það í allsherjarnefnd á árinu 2010 um að efnt skyldi til þjóðfundar, sett skyldi niður stjórnlaganefnd, kosið til stjórnlagaþings og að stefnt skyldi að þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þess áður eða eftir að þingið hefði afgreitt það. Forseti þingsins tók við tillögum stjórnlagaráðs 29. júlí, fyrir rúmu ári síðan, og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur síðan fjallað um þær og tekið þær til efnislegrar meðferðar.

Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að engin umræða, athugun eða skoðun hafi farið fram í nefndinni á þeim tillögum. Það liggur fyrir í greinargerð eða yfirliti frá nefndinni að nefndin hélt yfir 20 fundi og hún fékk á fimmta tug gesta, hún fékk ótal ábendingar, umsagnir og tillögur og hún hitti bæði formenn einstakra nefnda í stjórnlagaráði og stjórnlagaráðsmenn.

Nú hefur þessu frumvarpi stjórnlagaráðs verið vísað til þjóðarinnar, og Alþingi ákvað í vor að óska eftir leiðbeiningum frá þjóðinni um framhaldið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er reiðubúin og hefur undirbúið sig undir það að taka við leiðbeiningu þjóðarinnar eftir kosningarnar á laugardaginn kemur og vinna áfram með það í þeirri von að við getum fyrir kosningar næsta vor lokið verkefninu og sett Íslandi nýja stjórnarskrá.

Frú forseti. Ég ætla ekki að segja mönnum hvað þeir eigi að gera á laugardaginn, en ég ætla að segja fólki hvað ég ætla að gera og minna á að með hjásetu og heimasetu eru menn að veita þeim sem mæta á kjörstað umboð sitt til þess að ráða niðurstöðu máls. Ég er ekki sammála öllu því sem stendur í tillögum stjórnlagaráðs en þær eru að mínu mati góður grundvöllur fyrir frumvarp að nýrri stjórnarskrá en það er einmitt fyrsta spurningin sem upp er borin. Ég mun því segja já við þeirri spurningu. Það eru margar ástæður fyrir því en ég ætla að sýna ykkur hér eina.

Í þessum ágæta bæklingi sem Alþingi gaf út eru öðrum megin sett upp ákvæði, tillögur stjórnlagaráðs, og hinum megin ákvæðin sem eru í stjórnarskránni okkar. Þessi síða er algjörlega auð, hún er alveg auð, vegna þess að í núgildandi stjórnarskrá er ekki að finna stafkrók um menningarverðmæti, um náttúru Íslands og umhverfi, um náttúruauðlindir, aðgang að upplýsingum og málsaðild.

34. gr. tillagna stjórnlagaráðs er mér hjartfólgin. Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeign séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, þær megi aldrei selja eða veðsetja og þær skuli nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla.

Herra forseti. Ég hlakka til að taka þátt í kosningunum á laugardaginn og segja já við þessari spurningu og ég hvet menn til þess að fjölmenna á kjörstað á laugardag.



[15:30]
Jón Kr. Arnarson (Hr):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessum umræðum þar sem ég sit stuttan tíma nú á þingi og eins að mér verði þá fyrirgefið það að ég ætla ekki endilega að stilla mér upp með ákveðnum hætti öðrum hvorum megin við víglínu stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ferlið í þessu stjórnarskrármáli hefur verið mjög merkilegt. Boðað var til þjóðfundar og síðan var þetta stjórnlagaráð skipað. Úr þessu koma þær tillögur sem verða lagðar fyrir Alþingi. Þetta er ákaflega merkilegt og merkileg tilraun til að veita almenningi aðgang að því að semja nýja stjórnarskrá.

Umræðan hefur samt oft verið á þann veg að það er eins og frekar sé verið að reyna að rugla málið en einfalda það. Tímans vegna ætla ég þá fyrst og fremst að ræða um fyrstu spurninguna: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Varðandi þessa spurningu er í raun afskaplega skýrt hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Einhverjir hafa verið að tala um að þetta þýði að alþingismenn séu að taka við skipunum frá kjósendum sem sé ólöglegt og þess háttar. En það sem gerist er kynnt í hinum ágæta bæklingi sem dreift hefur verið á öll heimili. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Það er lögbundin meðferð allra frumvarpa á Alþingi að þau geta breyst í meðförum þingsins, ýmist í kjölfar skriflegra eða munnlegra athugasemda eða umræðna á Alþingi. Það á einnig við um stjórnarskrárfrumvarp hvort sem það verður lagt fram með breytingum eða óbreytt miðað við tillögur stjórnlagaráðs.“

Varðandi þessa spurningu er í raun mjög klárt hvert framhaldið verður og hvað spurningin þýðir. Í raun er þetta ein mikilvægasta spurningin. Ég get tekið undir margt sem hér hefur verið sagt um frumvarp stjórnlagaráðs, ég er ekki endilega sammála öllu sem þar kemur fram. Ég bendi til dæmis á það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan um þjóðaratkvæðagreiðslu. Engu að síður eru í þessum tillögum stjórnlagaráðs mjög merkilegir hlutir. Mig langar sérstaklega að minnast á tvennt, það er annars vegar mannréttindakaflinn. Við heyrum allóhuggulegar fréttir af því núna á síðustu dögum að enn einu sinni sé öfgafull þjóðernishyggja vaxandi í Evrópu og í mannréttindakaflanum er tekið nokkuð klárt á því að slíkt muni ekki líðast og sé í raun brot á stjórnarskrá.

Annað er það að mér finnst kaflinn um náttúruvernd mjög merkilegur. Sjálfur er ég á því að eitt mikilvægasta verkefni okkar kynslóðar sé einmitt jarðvegsvernd og gróðurvernd og að laga fyrri skemmdir og á því er tekið í þessum nýju tillögum.

Virðulegur forseti. Ég kem hingað inn sem þingmaður í stuttan tíma og er ekki skráður félagi í þeim flokkum sem eiga sæti á Alþingi. Mér finnst ég því geta talað að mörgu leyti hér sem fulltrúi hins almenna kjósanda. Því vil ég skora á alla kjósendur þessa lands að kynna sér vel þær spurningar sem kosið er um, mæta á kjörstað og greiða atkvæði eftir sinni bestu samvisku. Ég verð þó að segja að ég vona að sem flestir kjósendur segi já við fyrstu spurningunni þannig að það merkilega starf sem unnið var á þjóðfundi og í stjórnlagaráði verði lagður sem grundvöllur að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá á Alþingi.



[15:34]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég hef aldrei upplifað þetta ferli á þann veg að það mundi ekki fara fram efnisleg umræða um nýja stjórnarskrá í þessum sal. Ég hef alltaf upplifað þetta ferli á þann veg að við höfum lagt upp með það að við ætluðum fyrst, áður en efnislega umræðan færi fram af mikilli dýpt í þessum sal, að spyrja þjóðina hvað henni fyndist og fara í þetta samráðsferli. Það hefur farið fram að stórum hluta, stærstum hluta, og ég skynjaði það aldrei öðruvísi en að víðtæk sátt ríkti um það hvernig þetta samráðsferli ætti að vera. Það var þjóðfundur, svo var stjórnarskrárnefnd sem vann úr þjóðfundinum, svo stjórnlagaráð sem skilaði tillögum, það voru 25 manns sem náðu þar samkomulagi um það hvernig stjórnarskráin ætti að vera eftir mjög ríkt umsagnarferli, og þúsundir Íslendinga sem skiluðu inn umsögnum í þeirri vinnu, og niðurstaðan er drög að stjórnarskrá.

Ég hef alltaf upplifað það þannig að hugsunin hafi verið sú að það væri núna á þessum tímapunkti, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um helgina, sem málið kemur inn í þingið. Þá kemur það inn í þingið með allt þetta veganesti sem mér finnst mjög mikilvægt. En ég skil ekki alveg þessa óþreyju eftir efnislegri umræðu. Efnislega umræðan hefur farið fram út um allt samfélagið og mér finnst skjóta skökku við að þeir sem hvað hæst hafa kallað eftir efnislegri umræðu í þessum sal ætli að segja nei á laugardaginn og reyna þar með að koma í veg fyrir að drögin sem smíðuð hafa verið í öllu þessu ferli komi hingað inn í þingsal. Þar mundi ferlið stöðvast ef svarið verður nei á laugardaginn. Mér finnst þetta svolítið þversagnarkennt.

Reynt er að þyrla upp moldviðri í hverju einasta skrefi í þessu máli og núna virðist mér moldviðrið vera það að reynt er að sannfæra fólk um að engu megi breyta ef svarið verður já við því að leggja eigi drögin til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ef svarið verður já á laugardaginn. Þá er sagt að engu megi breyta. En samt stendur á kjörseðlinum nákvæmlega hver ferillinn verður. Ef svarið verður já þá verður tillaga stjórnlagaráðs lögð fram sem frumvarp og hún fer í þrjár umræður og meira að segja í umsagnarferli og allt saman. Mér finnst þetta svolítið skrýtin umræða. Við erum bara í miðju ferli og það er auðvitað galdur að vera í miðju ferli. Óþreyjan má ekki ná tökum á okkur en þetta er allt að gerast. Svo koma kosningar og svo þarf annað þing að samþykkja nýja stjórnarskrá ef af verður.

Mér finnst svolítið merkilegt að ég hjó eftir orðalagi hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hann sagði að það væri grundvallarstaðreynd í málinu að þessi stjórnarskrárdrög væru ótæk sem grunnur. Er það grundvallarstaðreynd? Hvernig getur hann talað með þessum hætti? Ég er algerlega annarrar skoðunar. Ég tel þetta tækan grunn, ég tel þetta mjög góðan grunn þannig að hér verða menn að gera greinarmun á grundvallarstaðreyndum og skoðunum sínum.



[15:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Já, það er eitt og annað sem hægt er að ræða í tillögum stjórnlagaráðs, eitt og annað sem hægt er að taka undir og annað ekki. Það er eins og gengur.

Áður en ég ætla að fara út í það að ræða þjóðkirkjuna og það ákvæði þá vil ég örstutt segja við forseta að það er mjög kómískt að upplifa það að breyting á forsetaembættinu fékkst einfaldlega ekki rædd í stjórnarskrárnefndinni sem starfaði fram til 2007 vegna mótþróa Samfylkingarinnar. Og það er enn þá kómískt að við fáum þessar breytingar ekki enn ræddar í þessum merkilega þingsal. Við höfum bara eftirlátið forsetanum að ræða breytingar á forsetaembættinu ú þessum stól. Að mínu viti og þegar ég les tillögu stjórnlaganefndarinnar þá er verið að efla framkvæmdarvaldið með forsetann sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins. Það er verið að auka forsetaræði á kostnað löggjafarvaldsins. Ég er því ósammála að fara þessa leið og ég tel þetta ekki vera léttvægan grunn eins og hæstv. efnahags- og atvinnuvegaráðherra sagði áðan.

Hvað varðar þjóðkirkjuna þá er rétt að undirstrika að það er ekki alltaf sem ég hef verið sátt við þjóðkirkjuna. Ég ber mikla virðingu fyrir henni og það er líka rétt að geta þess að ég er ekki í þjóðkirkjunni. Spurningin sem blasir við landsmönnum næsta laugardag er að mínu viti óljós, hún er opin og hún vísar á engan hátt í tillögu stjórnlagaráðsins. Það eru misvísandi skilaboð, einmitt á kjörseðlinum sjálfum, hvað verður um þjóðkirkjuna sem slíka. Menn sem gerþekkja til þessara mála hafa bent á að það er óheimilt að finna út þá vernd sem þjóðkirkjan hefur í dag á grundvelli okkar stjórnarskrár án bindandi atkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslan á laugardaginn er ekki bindandi.

Stóra spurningin varðandi þjóðkirkju og stóra málið hvað hana varðar er hvaða þýðingu það hefur að afnema þjóðkirkjuákvæðið úr stjórnarskránni. Sú umræða er að mínu mati alveg eftir. Við eigum eftir að taka efnislega umræðu í þessu máli sem öðrum þáttum innan veggja Alþingis. Erum við hrædd við að viðurkenna að við erum kristið samfélag og höfum verið það allt frá árinu 1000? Erum við að hverfa frá grundvallaratriðum íslensks samfélags, sem byggir á kristnum gildum, þ.e. erum við að hverfa frá því að þau verði áfram grundvallaratriði í okkar samfélagi eða ekki? Sumir segja að svo sé, aðrir ekki. Það er mín einlæga skoðun að frjálslynt, umburðarlynt og lýðræðislegt samfélag sé hvergi sterkara en þar sem kristnin hefur leikið stórt hlutverk í samfélagsgerðinni. Þetta ákvæði allt þarf að skýra betur þó menn hafi síðan ákveðnar skoðanir á því hvað tengist aðskilnaði ríkis og kirkju í öðru samhengi.

Tillögurnar geta því að mínu viti falið í sér mjög stórar breytingar sem engan veginn sér fyrir endann á, aldeilis ekki. Og enn er allt á huldu um það hvernig niðurstöður kosningarinnar á laugardaginn verða túlkaðar. Miðað við það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hegðað sér, meðal annars gagnvart dómum Hæstaréttar, þá er nokkuð ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir munu túlka niðurstöðuna eftir sínum pólitíska barómeter líki mönnum það betur eða verr. Sá barómeter er eins og við vitum alls ekki hagstæður fyrir almenning eða fyrir stjórnarskrána, hvort sem litið er til skemmri tíma eða lengri.



[15:42]
Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Atkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs sem fram fer á laugardaginn er einstakt tækifæri fyrir þjóðina til að hafa bein áhrif á þær tillögur að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins sem Alþingi mun taka til umfjöllunar og afgreiðslu nú í vetur. Valkosturinn er skýr og valið er okkar kjósenda. Samþykkt nýrrar stjórnarskrár er vandasamt verkefni. Við Íslendingar höfum farið einstaka leið samráðs og samvinnu við að móta tillögur og drög að þeirri nýju stjórnarskrá sem þjóðin hefur beðið eftir svo áratugum skiptir.

Vinnuferlið hefur vakið óskipta athygli víða um heim enda erum við fyrirmynd annarra þjóða í því að færa umræðu og ákvörðunarvald út til almennings en loka það ekki af hjá útvöldum hópi sjálfskipaðra sérfræðinga eða kjörnum fulltrúum. Tillögur stjórnlagaráðs eru sprottnar upp úr farvegi víðtækrar umræðu, samtala og vel heppnaðs þjóðfundar. Þær endurspegla þær óskir og væntingar sem komið hafa fram með skýrum hætti um nýtt og lýðræðislegt samfélag með hagsmuni og framtíðarsýn þjóðarinnar að leiðarljósi.

Meginstefið er aukið lýðræði og gegnsæi í allri stjórnsýslu landsins, skýr réttur almennings til aðkomu og ákvarðanatöku í öllum veigamiklum málum, aukið jafnræði allra landsmanna og ný og afdráttarlaus ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign bæði til lands og sjávar.

Ekkert mannanna verk er svo fullkomið að ekki megi gera á því betrumbætur. Einmitt þess vegna er mikilvægt að þjóðin segi álit sitt á þeim tillögum sem liggja fyrir. Þetta er einstakt ferli og þetta er einstakt tækifæri heillar þjóðar til að hafa slíkt mótandi áhrif á fullnaðargerð nýs þjóðarsáttmála. Það mun aldrei verða svo að hver og einn íbúi þessa lands skrifi sína eigin stjórnarskrá. Við erum sem þjóð að skrifa þennan mikilvæga sáttmála saman. Endanleg niðurstaða byggir á sátt og samkomulagi á sama hátt og stjórnlagaráð hafði að leiðarljósi í störfum sínum. Nú er það þjóðin sem mun á laugardaginn leggja sitt af mörkum til að skýra línur enn frekar í þessu víðtæka samstarfsverkefni okkar allra. Það er í fullu samræmi við skýrar óskir þjóðarinnar um samráð og samvinnu og undir þær óskir hefur stór meiri hluti Alþingis tekið. Mat þjóðarinnar á fram komnum tillögum liggi fyrir áður en umræða og afgreiðsla fari fram hér í þessum þingsal.

Í umræðunni í síðustu viku hefur komið fram í máli sumra þeirra sem lýsa sig andvíga framkomnum tillögum að það nægi að vera ósáttur eða andvígur einu atriði í tillögum stjórnlagaráðs og þá sé ekki hægt að samþykkja það sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Hér er um mikla einföldun að ræða. Við kjósendur allir hljótum, í mati okkar á tillögunum, að bera þær saman við gildandi stjórnarskrá. Það er hinn eini raunhæfi samanburður og mælikvarði. Það verður að horfa á heildarmyndina og bera saman þá valkosti sem eru til staðar. Öll umræða á öðrum nótum er ekki til annars fallin en drepa málum á dreif og koma í veg fyrir að raunverulegar efnislegar breytingar verði gerðar á stjórnarskrá landsins.

Þjóðin er fullfær um að taka ábyrga, framsýna og skynsamlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli og þjóðin þarf hvorki á að halda pólitískri leiðsögn héðan úr þingsal né flokkslegum fyrirskipunum.

Fjölmörg ákvæði í gildandi stjórnarskrá eru bæði ófullnægjandi og óskýr. Margar greinar eru í beinni mótsögn hver við aðra og fjölmörg ákvæði sem ættu að vera í nútímastjórnarskrá fyrirfinnast ekki. Á þeim vanköntum er tekið í tillögum að nýrri stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Við höfum um margt lifað einstaka tíma í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Margt fór úrskeiðis en það hefur jafnframt gefið okkur tækifæri til að endurmeta stöðu okkar og endurskipuleggja þjóðfélag okkar. Nú gefst okkur einstakt tækifæri til að laga og endurbæta það sem beðið hefur úrlausnar áratugum saman. Valkosturinn er skýr. Horfum til framtíðar og framfara þegar við mætum í kjörklefann á laugardaginn.



[15:46]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tel að sú umræða sem orðið hefur um stjórnarskrána og aukinn lýðræðislegan rétt almennings að beinni aðkomu um einstök mál séu mjög af hinu góða. Það er afar dýrmætt að koma hér með tillögur um að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Ég minni á kröfuna um þjóðaratkvæði um EES sem ekki var orðið við. Ég minni á þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka sem ekki var orðið við, um einkavæðingu Landssímans, um Icesave. Kannski var Icesave-kosningin eins konar gegnumbrot í þessari umræðu. Engu að síður eiga grundvallarstjórnarskrárbreytingar að vinnast í sem víðtækastri sátt, ekki aðeins meðal þingmanna og flokka á Alþingi heldur einnig við þjóðina. Það hefur því miður ekki verið gert í þessu máli að mínu mati. Ferlið hefur verið afar ósannfærandi frá upphafi. Ég minni á kosningar til stjórnlagaþings þar sem aðeins um þriðjungur kosningarbærra manna tók þátt. Meginþorri þeirra sem kosinn var í ráðið var héðan af höfuðborgarsvæðinu. Lítil þátttaka og það hvernig kosningar skipuðust endurspeglaði síðan mikla tortryggni úti á landsbyggðinni gagnvart þessu ferli öllu. Sú tortryggni er enn til staðar. Það bætti heldur ekki úr skák að Hæstiréttur skyldi síðan dæma kosninguna ógilda.

Í þeim grundvallargreinum sem stjórnlagaráð leggur fram eru atriði sem ég get ekki sætt mig við. Að sjálfsögðu er ýmislegt mjög þarft og gott í þessum 114 greinum og sjálfsagt að vinna áfram með það. En þar er meðal annars lagt til að fellt sé brott úr núverandi stjórnarskrá þessi grein, með leyfi forseta:

„Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.“

Hér er verið að leggja til að fella brott þessa takmörkun, þá heimild sem er í stjórnarskránni til þess að setja lög sem takmarka eignarhald erlendra aðila í fasteignarréttindum í þessu landi. Er það í takt við umræðuna um sölu á Grímsstöðum á Fjöllum? Eða er það í takt við umræðuna sem á sér stað gagnvart Evrópusambandinu þar sem krafist er að við gefum eftir eignarrétt okkar og eignarréttindi í íslenskum sjávarútvegi og fasteignum hér á landi?

Nei, þetta eru grundvallarréttindi sem ég er ekki sammála að vikið sé úr stjórnarskrá. Sama máli gegnir um þjóðaratkvæðagreiðslurnar. Það er mjög lofsvert að þarna sé lagt til að ákveðinn hópur eða hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, en í tillögum stjórnlagaráðs er tekið fram að það gildi ekki um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum né heldur um skattaleg málefni. Bíddu við, þarna er bara verið að tala um hreint fullveldisframsal á stórum þáttum sem ég er ekki sammála. Það má vel vera að þeir sem hlynntir eru því að við göngum þrautagöngu inn í Evrópusambandið séu hlynntir því að við framseljum valdið með þessum hætti.

Frú forseti. Þetta eru grundvallaratriði sem ég get ekki fallist á. Að sjálfsögðu styð ég þjóðkirkjuna og að sjálfsögðu styð ég aðkomu þjóðarinnar að þjóðaratkvæðagreiðslum, en þegar við endurskoðum stjórnarskrána megum við ekki fela svona grundvallaratriði í einhverjum 114 greinum sem fela í sér verulegt framsal á því fullveldi sem þjóðin hefur nú þegar.

Því segi ég alveg skýrt nei við fyrstu spurningunni, frú forseti, um að tillögur stjórnlagaráðs skuli lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá í framhaldi af þeirri vinnu sem þar var unnin.



[15:50]
Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Undir mistökum hæstv. forseta varð ég fyrir þeirri hugljómun sem leitt gæti til þess að við gætum lagt til hinstu hvílu öll helstu deilumál samtímans og þjóðfélagsumræðunnar og rifið landið upp úr hjólförum átaka, ekki bara stjórnmálaflokkanna, þannig að við mundum aldrei segja frá skoðunum okkar. Við gætum alveg haft skoðanir en við mundum bara halda þeim fyrir okkur. Að vísu er sá galli á hugmyndinni að í framkvæmd hennar mundi ekkert breytast, sem er ágætt fyrir þá sem aðhyllast engar breytingar en verra fyrir þá sem vilja breytingar. Hinn gallinn er sá að þannig virkar lýðræðið ekki. Það gengur út á að við skiptumst á skoðunum og það er eðlilegt að við höfum mismunandi skoðanir. Það er gott fyrir þá sem eru sífellt að ræða um sáttina og mikilvægi hennar í þessu máli að hafa í huga að það er eðlilegt að vera með ólíkar skoðanir.

Við erum að fara að leysa úr hluta þeirra ólíku skoðana með því að taka þátt í atkvæðagreiðslu á laugardaginn og er ástæða til að hvetja fólk til þess að gera það og taka þannig þátt ekki bara í afgreiðslu á tillögum stjórnlagaráðs heldur löngu ferli sem átt hefur sér gríðarmikinn aðdraganda og mikla efnislega umræðu og á enn þá eftir mikla efnislega umræðu. Áður en þetta kjörtímabil hófst og áður en hv. allsherjarnefnd setti ferlið af stað hafði átt sér stað töluverð umræða um stjórnarskrá Íslands.

Í allsherjarnefnd var mikið rætt um málið. Það voru allir sammála um það ferli sem þá fór af stað með stjórnlaganefnd. Það var algjör samstaða á milli allra flokka í allsherjarnefnd um hverjir yrðu skipaðir í þá nefnd. Það var algjör samstaða í allsherjarnefnd um að halda þjóðfund og að hann mundi byggja á niðurstöðum stjórnlaganefndar. Ekki var samstaða um stjórnlagaráð eða stjórnlagaþing en við náðum lendingu í málinu. Sá afrakstur er til umfjöllunar núna, hann hefur ekki enn þá komið til efnislegrar umfjöllunar í þinginu vegna þess að við erum stödd í miðju ferli.

Við ætlum að halda því áfram eftir að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu lýkur. Ég ætla að segja já við drögum að nýrri stjórnarskrá vegna þess að ég tel að það sé betri útgáfa og betri stjórnarskrá fyrir Ísland. Það er skoðun mín.



[15:53]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það hlýtur að vekja mikla athygli í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður á laugardaginn að ekkert sé spurt um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands. Er það ekki síst athyglisvert í ljósi þess að stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar hafa margsinnis haft athugasemdir við störf forseta til dæmis um ákvarðanir hans um að synja lögum staðfestingar samkvæmt 26. gr. núgildandi stjórnarskrár.

Þá eru tillögur stjórnlagaráðs er lúta að embætti forseta Íslands í stjórnskipuninni mjög óljósar. Hugmyndin virðist vera sú að efla Alþingi sem löggjafarvald en þegar tillögurnar eru lesnar gaumgæfilega kemur í ljós að embætti forseta Íslands er þvert á móti styrkt á margan hátt. Dæmi um það er að forsetinn virðist að vissu leyti vera settur með framkvæmdarvaldinu í tillögunum en heldur þó synjunarréttinum. Forseti skýrði afstöðu sína í málinu í ræðu sinni við þingsetningu í fyrra. Þar færði hann rök fyrir því að í reynd fælu þessar tillögur í sér eflingu á umsvifum forseta á vettvangi stjórnkerfisins og færðu embættinu aukin áhrif.

Forseti tók dæmi um hlutverk sitt við myndun ríkisstjórna þar sem forseti hefði í tillögunum miklu stærra hlutverk en nú er. Hann hélt því líka fram að tillögurnar mundu á ýmsan auka hátt bein tengsl forseta við Alþingi. Engin raunveruleg umræða hefur farið fram um þá túlkun forseta. Þó tjáðu ýmsir fulltrúar stjórnlagaráðs sig um að ekki hefði verið hugmyndin að efla embættið á þennan hátt og auka völd þess.

Alþingi hefur á þeim 14 mánuðum sem liðnir eru frá því að formaður stjórnlagaráðs skilaði inn tillögum ráðsins ekki tekið þá þætti til efnislegrar meðferðar frekar en aðra.

Í ljósi þess hversu miklu það skiptir að stjórnskipulegur grundvöllur lýðveldisins Íslands sé traustur er það skilyrði að þær tillögur sem lagðar eru fyrir þjóðina séu fullbúnar, vel ígrundaðar og skýrar. Afleiðingar þeirra og merking má aldrei vera með þeim hætti að hægt sé að túlka það á marga vegu. Þegar hafa komið fram ólíkar túlkanir forseta og þeirra sem unnu að tillögunum hvað varðar embættið og við verðum að leggja við hlustir þegar sá sem situr í embætti forseta Íslands túlkar tillögurnar á annan hátt en virðist hafa verið ætlun stjórnlagaráðs. Er þá komin fram svo mikil óvissa um skýrleika þessara ákvæða að á þeim er ekki hægt að byggja.

Færustu sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar hafa einnig lýst yfir miklum áhyggjum af þessum þætti málsins. Í því sambandi má nefna Skúla Magnússon og Ágúst Þór Árnason sem telja vafasamt að tillögur stjórnlagaráðs feli í sér eiginlega styrkingu Alþingis sem vettvang fyrir lýðræðislega umræðu og ákvarðanatöku í helstu málefnum þjóðarinnar. Þá nefna þeir að stjórnskipuleg staða þingsins sé mjög sterk í dag og taka jafnframt fram að þingið hafi í lagalegum skilningi allar nauðsynlegar heimildir til að styrkja stöðu sína sjálft.

Að mínum dómi eru tillögur stjórnlagaráðs innlegg í þá vinnu sem breytingar á stjórnarskrá eru en það stendur upp á Alþingi að taka þessar tillögur, ásamt öðrum tillögum og hugmyndum sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskránni, og vinna úr þeim heildartillögur sem hægt er að leggja fyrir þjóðina.

Ég veit ekki hvort allir geri sér grein fyrir því en í breytingunum er gert ráð fyrir að forseti Alþingis hafi forsetavald þegar forseti lýðveldisins getur ekki gegnt embættisfærslum sínum. Hefur einhver gert sér grein fyrir því ? Er þjóðin spurð um það á laugardaginn hvort hún vilji að forseti Alþingis sé eins konar varaforseti þjóðarinnar? Nei, það er ekki spurt um það. Tillögurnar, í þeim búningi sem þær eru, eru ekki tilbúnar til þess að leggja fyrir þjóðina á þessu stigi. Ég mun að sjálfsögðu fara á kjörstað á laugardaginn og nýta minn lýðræðislega rétt og ég mun segja nei.



[15:58]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Wikipedia skilgreinir stjórnarskrá svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum. Hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, til dæmis geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni.“

Í mínum huga er stjórnarskrá sáttmáli þjóðar byggður á lagalegum og hugmyndafræðilegum grunni. Í stjórnarskrá þurfa að koma fram þau gildi sem við viljum byggja samfélag okkar á svo og þær reglur sem við viljum að myndi ramma utan um samfélag okkar og stjórnskipun. Í mínum huga eru þessi atriði jafnmikilvæg, gildin og lagaramminn. Ofuráhersla á lagalegt gildi stjórnarskrárinnar er að mínu mati takmarkandi í sáttmála sem þjóðin á að upplifa sem sinn.

Það segir mikið um tillögu að nýrri stjórnarskrá hversu framarlega í henni kaflinn um mannréttindi er og hversu ítarlegur hann er miðað við samsvarandi kafla í núverandi stjórnarskrá þrátt fyrir endurskoðun þess kafla 1995. 6.–36. gr. í drögunum, alls 31 grein, fjalla um mannréttindi miðað við 62.–79. gr., alls 18 greinar, í núverandi stjórnarskrá. Áhersla er lögð á þriðju kynslóðar mannréttindi í tillögunni, þau sem oft eru nefnd samstöðuréttindi. Dæmi um slíkt er réttur til friðar og óspillts umhverfis og er talsverð ábyrgð lögð á einstaklinginn. Til samanburðar ná fyrstu kynslóðar mannréttindi yfir hin svokölluðu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi og annarrar kynslóðar mannréttindi yfir félagsleg réttindi.

Mig langar að gera 8. gr. að sérstöku umtalsefni. Hún er nýmæli og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Hér er virðingin fyrir fjölbreytileikanum orðuð skýrt. Slíkt ákvæði í stjórnarskrá ætti að móta viðhorf og breyta hugsanagangi. Það er hlutverk samfélagsins að fræða og ryðja burtu hindrunum þannig að fordómar gegn þeim sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar eða annars sem gerir hópa fólks öðruvísi en það sem við köllum venjulega normalt, hverfi. Áherslan er á styrkleika og getu, ekki á veikleika og vangetu, á mannréttindi en ekki ölmusu.

Aðfaraorð tillögu stjórnlagaráðs ítreka gildi þessarar greinar, en þau hljóða svo, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman eigum við og berum ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi, náttúru, sögu, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum. Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis. Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni. Með þessa hugsjón að leiðarljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Við stöndum á merkilegum tímamótum í lýðræðisumbótum á Íslandi. Nú liggur fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá, sannkölluðum mannréttindasáttmála sem saminn er í lýðræðislegu ferli. Þjóðin fær tækifæri nú á laugardaginn til að vega og meta og segja skoðun sína á tillögunni.

Hið lögbundna ferli stjórnarskrárbreytinga tekur síðan við í þinginu að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni. Vonandi berum við gæfu til að hafa þá umræðu uppbyggilega. Þjóðin á skilið að það sé mannleg reisn yfir umræðu um stjórnskipan landsins og þær áherslur sem við viljum leggja rækt við í íslensku samfélagi í nútíð og framtíð.



[16:02]
Davíð Stefánsson (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Hér fylgja fáein orð um spariföt, samábyrgð og gjána milli þings og þjóðar. Fyrst örstutt um spariföt, því að það er að koma laugardagur sem lengi verður í minnum hafður sem sögulegur snúningur í sjálfsmynd Íslendinga, laugardagurinn 20. október 2012. Ég ætla að klæða mig upp og fagna með Íslendingum sem skilja sjálfstæði og taka eigin ákvarðanir, Íslendingum sem láta ekki mata sig af flokkspólitískum áróðri heldur mæta á kjörstað til að hrópa sína eigin skoðun niður á blað, Íslendingum sem skilja að stjórnarskrármálið er ekki fúsk heldur flókið og viðkvæmt mál sem tekur tíma.

Það er að koma laugardagur og sparifötin bíða í skápum okkar allra. Um hvað snýst þessi 20. október 2012? Hann snýst um samábyrgð og sögulegt samstarf þings og þjóðar. Þetta samstarf hófst með kröfum um nýja stjórnarskrá í þeirri fallegu gjörð sem var búsáhaldabyltingin. Þar fundum við mörg að við höfðum sofið á verðinum, að valdastéttin hafði fengið að ráða of miklu of lengi, að við þurftum að láta í okkur heyra. Við stóðum því saman á Austurvelli og tjáðum skoðanir okkar í verki rétt eins og hægt er að gera í kjörklefanum á laugardag. Ein krafan úr þeirri mótmælagjörð var ný og skýrari stjórnarskrá, síðar staðfest með afgerandi og fallegum þjóðfundi.

Hvers vegna eiga allir landsmenn að mæta á kjörstað og segja skoðun sína í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Til að tryggja fjöregg framtíðarinnar og til að brúa gjána á milli þings og þjóðar, til að leggja línurnar fyrir hrætt og ráðvillt Alþingi, til að hjálpa Alþingi. Ein staðreynd vill nefnilega gleymast í umræðunni: Krafan um nýja stjórnarskrá kom alls ekki frá Alþingi. Hún kom frá Íslendingum sem vildu hreinan skjöld. Á mannamáli: Þjóðin sagði: Við viljum nýja stjórnarskrá. Alþingi hefur nú svarað: Hér eru tillögur að nýrri stjórnarskrá, unnar af stjórnlagaráði, byggðar á þjóðfundi þínum. Hvað finnst þér um þær?

Þetta er laugardagurinn, þetta er ekki flókið. Og hverju ætlar þjóðin að svara? Ætlar hún að sitja heima í þessum veigamestu kosningum Íslandssögunnar? Eða ætlar hún að mæta á kjörstað, uppáklædd og sjálfstæð og segja sína skoðun með því að svara sex einföldum spurningum með já-i eða nei-i? Er íslensk þjóð slík þjóð að hún ráði við þetta verkefni? Alþingi ræður nefnilega ekki við það upp á eigin spýtur, það heyrist best hér í dag. Alþingi þarfnast leiðsagnar þjóðar sinnar. Valdið liggur því hjá okkur kjósendum og það er falið í nokkrum skrefum á kjörstað, það er falið í nokkrum krossum á blað í lokuðum klefa. Er íslensk þjóð slík þjóð að hún ráði við þetta verkefni? Auðvitað er hún það.

Frú forseti. Það er koma laugardagur. Ég ætla að klæða mig í sparifötin, flíka eigin styrk og sjálfstæði mínu, kjósa og fagna með sterkri þjóð sem segir skoðun sína skýrt og ákveðið. Alþingi þarf skýra leiðsögn. Það er að koma laugardagur, til hamingju með 20. október 2012.



[16:06]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í 5. spurningu sem við munum þurfa að svara á laugardaginn kemur er spurt hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá sé ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta þýðir að færa á sex þingmenn sem nú eru í landsbyggðarkjördæmum til höfuðborgarsvæðisins.

Felur tillaga stjórnlagaráðs þetta í sér? Nei, það gerir hún ekki því að tillaga stjórnlagaráðs er sú að kerfið verði tvískipt, annars vegar verði þingmenn kosnir úr kjördæmunum, þar með kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu, og þeir verði 30, og síðan verði 33 kosnir af landslista. Þetta þýðir að í raun og veru kemur ekki jafnt vægi atkvæða út úr þessu. Það mun leiða til þess að einungis ellefu þingmenn af landsbyggðinni verða kosnir á grundvelli kjördæmaskipanarinnar sjálfrar. Það er veruleikinn sem við blasir.

Í raun leiða tillögur stjórnlagaráðsins ekki til þess sem við höfum kallað í daglegu tali jafnt vægi atkvæða, þvert á móti munu þær hafa í för með sér nýtt ójafnvægi, nýtt óréttlæti að þessu leyti af stærðargráðu sem við höfum ekki áður séð á lýðveldistímanum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfnum tillögunni því hún snýst ekki um að jafna vægi atkvæða eins og margoft er kallað eftir, hún er ekki tillaga um að rétta hlut landsbyggðarinnar eða höfuðborgar. Hún er tillaga um ójafnræði, hún er tillaga um óréttlæti. Því eitt blasir við, eins og Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri hefur bent á, og bendir á í grein í Fréttablaðinu í gær. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar grundvallarspurning hvort íbúar ólíkra svæða eigi sér lögmæta hagsmuni sem gæta verði á Alþingi. Sumir telja að landskjörnir þingmenn geti einfaldlega hafið sig yfir hagsmuni einstakra kjördæma og unnið að hagsmunum landsins í heild. Oft eru hagsmunir þó einfaldlega svæðisbundnir og veruleg hætta á því að landskjörnir þingmenn taki ekki tillit til hagsmuna fámennra svæða ef þeir stangast á við hagsmuni fjölmennari svæða. Þannig væri þeim landskjörna þingmanni eflaust voðinn vís sem héldi fram sjónarmiðum sem væru verulega óvinsæl á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem beitt væri prófkjöri, persónukjöri eða uppstillingu sem höfðaði til meirihluta kjósenda.“

Með öðrum orðum, það fyrirkomulag sem liggur til grundvallar spurningunni og það fyrirkomulag sem stjórnlagaráð leggur til felur í sér að verið er að færa völd frá landsbyggðinni, ekki í samræmi við kröfuna sem stundum heyrist um jafnt vægi atkvæða heldur miklu meira, miklu verra.

Þetta er ekki bara niðurstaða mín, þetta er ekki bara niðurstaða sem Þóroddur Bjarnason hefur komist að. Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur hefur komist að sambærilegri niðurstöðu og tjáð þau viðhorf sín í fjölmiðlum. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og við blasir. Þess vegna hika ég ekki við að segja þessa skoðun mína úr ræðustóli Alþingis. Ég er ekki eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem fer með sjónarmið sitt eins og um væri að ræða ríkisleyndarmál. Hann hefur greinilega ekki ætlað sér að taka afstöðu til þeirra ábendinga sem hafa komið fram um að í raun og veru feli tillögur stjórnlagaráðs ekki í sér hugmyndir um jafnt vægi atkvæða heldur sé með þeim búið til nýtt ójafnvægi, óréttlæti af stærðargráðu sem við höfum ekki séð fyrr á lýðveldistímanum. Það býður hættunni heim og eykur á sundrungu meðal þjóðarinnar.

Það er þetta sem er svo alvarlegt og þess vegna er nálgunin svo röng í þessu plaggi. Þess vegna er eðlilegt að við höfnum því að tillögur af þessu tagi verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Við eigum fremur að leggja til grundvallar núverandi stjórnarskrá okkar, gera á henni þær breytingar sem við teljum eðlilegar og um það getur örugglega tekist sátt á Alþingi og meðal þjóðarinnar.



[16:10]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að fullyrða að kosningarnar á laugardaginn marki þáttaskil í lýðræðissögu landsins hvernig svo sem þær fara. Hver sem niðurstaðan verður í einstökum spurningum er þetta í fyrsta sinn sem öllum atkvæðisbærum Íslendingum gefst tækifæri til að greiða atkvæði beint og milliliðalaust og taka þannig afstöðu til meginatriða í stjórnarskrá lýðveldisins, hvort sem lýtur að jöfnun atkvæðisréttar, sjálfstæðum rétti til að kalla mál í þjóðaratkvæði, hvort leyfa eigi aukið persónuval við röð frambjóðenda þvert á flokka og mörg önnur stórmál, lýðræðislegar umbætur sem mörg okkar sem höfum talað hér í dag styðjum eindregið. Þau mál öll sem ég nefndi gæti ég haft langt mál um, ég hef oft talað um þau í þinginu, margoft fjallað um þau á síðustu árum og flutt frumvörp um sum þeirra og þingsályktunartillögur um önnur. En ég ætla að staldra við eitt mál, sem er spurning nr. 2.

Í bæklingnum segir að í núgildandi stjórnarskrá sé ekki ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum. Spurning nr. 2 hljóðar þannig: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Í tillögum stjórnlagaráðs er sagt að enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, aldrei megi selja þær eða veðsetja og þær verði nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla.

Fyrir mér er þetta mikilvægasta ákvæði frumvarpsins og það er að finna í 34. gr. þess þar sem segir að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, verði sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Ákvæðið kveður einnig á um að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og og almannahag að leiðarljósi og að leyfi til nýtingar auðlinda skuli veita gegn sanngjörnu gjaldi í tiltekinn tíma. Þetta eru algjör grundvallaratriði. Þá er lagt upp með að kveðið sé á um að slík leyfi skuli veita á jafnréttisgrundvelli og þau leiði aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Ég tel að ef frumvarpið verður samþykkt og spurningin um þjóðareign auðlinda fái meiri hluta, sem ég vona svo sannarlega að verði, í kosningunum á laugardaginn muni það hafa gífurlega mikla þýðingu bæði hvað varðar umræðu um endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða og einnig hvað varðar alla aðra nýtingu auðlinda landsins í nútíð og framtíð, hvort sem kemur að nýjum tækifærum við að afla raforku eða hverjum öðrum þætti auðlindanýtingarinnar.

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og það sem hefur valdið hvað hörðustu átökum og deilum í samfélagi okkar á liðnum árum og áratugum. Núna gefst okkur tækifæri til að það verði stjórnarskrárbundið og skilyrðislaust ákvæði gegn hvers konar einkavæðingu auðlinda sem eru ekki nú þegar í einkaeigu. Þetta er mikilvægasta einstaka breytingin sem gera þarf á fyrirkomulagi okkar að mínu mati. Ég skora á alla atkvæðisbæra Íslendinga að láta þetta einstaka tækifæri ekki fram hjá sér fara svo hægt verði að taka af allan vafa um hver sé vilji meiri hluta atkvæðisbærra manna á Íslandi til þess hvort náttúruauðlindirnar skuli vera lýstar þjóðareign eða ekki. Hver sem niðurstaðan verður gagnvart einstökum öðrum þáttum, sem má hafa langt mál um eins og ég sagði, þá skiptir þetta að mínu mati gífurlega miklu. Vona ég svo sannarlega að afgerandi niðurstaða fáist um það á laugardaginn hver vilji meiri hluta atkvæðisbærra Íslendinga er.



[16:14]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að neita mér um að ræða um forsögu þessa máls, aðdragandann og þau skref sem stigin hafa verið fram til þessa. Ég hef gagnrýnt mjög margt í því og læt við það sitja að minna á það við þessa umræðu. Ég ætla þó að segja að það er á vissan hátt galli og litar auðvitað þessa umræðu að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu meðan mál er í miðju vinnsluferli. Það hefur verið staðfest í dag af flestum sem talað hafa að Alþingi á auðvitað eftir að breyta ýmsu í því sem hér liggur fyrir, jafnvel þó að niðurstaðan á laugardaginn verði já. Alþingi á eftir að breyta ýmsu.

Ég spyr eins og ég spurði í vor þegar ákvörðunin um þjóðaratkvæðagreiðslu var tekin í þinginu: Af hverju er verið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í miðju kafi þegar ekki liggur fyrir endanlegt plagg, endanlegar tillögur, endanleg afurð? Það finnst mér óskynsamlegt. Ég ætla að láta þetta nægja um formið og aðdragandann.

Í mínum huga eru margar ástæður fyrir því að segja nei á laugardaginn. Í fyrsta lagi vil ég nefna að plaggið er ekki tilbúið og mér finnst of mikil skuldbinding fólgin í því að segja já við tillögum sem augljóslega þarfnast mikillar vinnu við. Við vitum ekki hvaða breytingar verða á síðari stigum þegar búið er að fara yfir alls konar annmarka sem eru á málinu, sem fræðimenn eru reyndar sammála um, svo því sé haldið til haga, að séu á þessum tillögum. Jafnvel þeir fræðimenn sem eru jákvæðir í garð tillagnanna segja: Þær eru ekki tilbúnar, þær geta ekki orðið að stjórnarskrá eins og þær eru, það verður að breyta þeim, verkinu er ekki lokið. Jafnvel þeir sem eru jákvæðir og eru þeir þó fjölmargir sem eru miklu neikvæðari en þetta. Þetta geta menn kynnt sér. Þetta vita þeir sem til dæmis sátu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta ári, þeir vita þetta. Þeir hafa hlustað á þessa gagnrýni.

Kannski er ástæðulaust að hugsa of mikið um lögfræði í sambandi við stjórnarskrá. En það vill reyndar þannig til að stjórnarskrá eru grundvallarlög, lög sem menn geta beitt í dómsmálum, lög sem eru grundvöllur annarra laga þannig að það er dálítið léttvægt þegar sagt er að ekki megi hafa þennan lagalega fókus eða lagalegu sýn á málin.

Ég ætla að nefna einn kaflann sem mér finnst stórgallaður, það er mannréttindakaflinn. Ekki vegna þess að markmiðin séu slæm, ekki vegna þess að þar séu ekki sett fram fögur fyrirheit og jákvæð markmið. Nei, frágangurinn er þannig að það skapar heilmikinn vanda í samfélaginu ef þetta verður samþykkt í því formi sem það er. Ég get vitnað til fjöldamargra um það.

Þegar menn semja stjórnarskrá eru þeir ekki að semja stefnuyfirlýsingu fyrir flokk eða kosningayfirlýsingu eða eitthvað þess háttar. Það er verið að búa til reglur sem eiga að gilda sem einstaklingar eiga að geta borið fyrir sig í dómsmálum til að gæta réttinda sinna. Og þegar farið er að hringla með þær reglur verða menn að hafa í huga að hvert hugtak, hvert orð getur haft mikla merkingu. Það er verið að taka mikla áhættu í mannréttindakaflanum á því sem Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst, hefur sagt að sé merkingarusl með því að vera að breyta orðalagi og framsetningu ákvæða út og suður algjörlega að ástæðulausu.



[16:19]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði vissar efasemdir um ágæti þess að efna til þessarar umræðu svo seint í kosningavikunni einfaldlega vegna þess að Alþingi var búið að ákveða að biðja þjóðina um leiðsögn í þessu máli og kosningarnar fram undan, en eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið vel heppnað. Ég er ánægður með að það hefur dregist upp býsna skýr mynd hér af því að í raun og veru tel ég að talsmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafi talað hér í dag af ábyrgð og virðingu við það hlutverk sem við höfum beðið þjóðina að taka að sér í þessum efnum, að gefa okkur leiðsögn um stjórnarskrána og nokkrar lykilspurningar.

Vinur minn einn fyrir norðan, sem fyrir nokkru er farinn yfir móðuna miklu, sagði mér einu sinni frá því hvað það hefði verið gaman að lifa og vera ungur og frískur maður við lýðveldisstofnunina og árin þar á eftir, það hefði verið gaman að ganga til verka af eldmóði og byggja upp hið unga lýðveldi, slétta tún og hvað það nú var. Ég velti fyrir mér að í reynd erum við Íslendingar að sumu leyti aftur í sömu sporum. Við þyrftum sama anda aftur í samfélagið, nú þurfum við aftur að byggja upp eftir það hrun sem hér varð, við þurfum að endurreisa og endurmóta Ísland. Það er mikið verkefni og við vitum öll að þó að heilmikið hafi áunnist er líka mikið eftir. Ég held að það færi mjög vel á því og muni fara mjög vel á því, af því að ég trúi að svo verði, að við gerum það meðal annars á grundvelli nýrrar stjórnarskrár, að við einhendum okkur í það uppbyggingar-, endurreisnar- og endurmótunarstarf sem auðvitað er fram undan á Íslandi næstu árin, m.a. á grundvelli nýrrar stjórnarskrár.

Ég er bjartsýnn á að nú nálgist sá tími og mér endist meðal annarra aldur til þess hér á þingi að leiða það langþráða verkefni í höfn að Ísland eignist nýja eða endurskoðaða, heildstæða, nútímalega og góða stjórnarskrá.



[16:21]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel að það hafi komið mjög vel fram í umræðunni hér í dag hversu ótímabær atkvæðagreiðslan sem fram fer um helgina er í raun. Það er ekki vegna þess að þingið skorti frekari leiðsögn frá þjóðinni, eins og sagt var í ræðum í dag, sem málið er ekki tekið á dagskrá. Það virðist vera vegna þess að stjórnarflokkarnir eru einfaldlega ekki tilbúnir að taka afstöðu til þeirra fjölmörgu álitamála sem umræðan kallar á. Við höfum vinnu stjórnlagaráðsins, við höfum niðurstöðu þjóðfundarins, við höfum vinnu stjórnlaganefndarinnar og við höfum fyrri vinnu, eins og vinnu stjórnarskrárnefndarinnar. Allt þetta höfum við í höndunum og það er óþarfi að efna til kosningar um helgina um ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá.

Hingað koma margir liðsmenn stjórnarflokkanna og lýsa þeirri skoðun sinni að þeir hyggist styðja stjórnarskrárdrögin sem borin verða undir þjóðina um helgina, en ég sakna þess að í þeim ræðum sé til dæmis fjallað um mikilvægi þess að fella á brott ákvæðið um þjóðkirkjuna. Ég sakna þess að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. ráðherra efnahagsmála komi hér upp og fjalli um mikilvægi þess að fjölga þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu þannig að þeir geti orðið allt að 53. Það leiðir af breytingunum sem bornar verða undir þjóðina um helgina að þingmönnum sem koma af höfuðborgarsvæðinu getur fjölgað upp í 53. Hvers vegna er ekki minnst á svona stóra þætti í ræðum hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. efnahagsráðherra að kjördæmakjörnir þingmenn landsbyggðarinnar verði einungis 11? Þetta er einn þáttur. Við hljótum að vera sammála um að þetta er stór þáttur og mikilvægur en það er ekki minnst á það, jafnvel þótt fólk sé hvatt til þess að styðja tillögurnar.

Ég sakna þess líka að tekin sé afstaða til umræðunnar sem við höfum efnt til hér, umræðunnar um inntak auðlindaákvæðisins. Hvers vegna tala menn ekki um inntak þess auðlindaákvæðis sem við höfum hér verið að tala fyrir? Hvað hafa menn á móti þeirri hugmynd sem við höfum teflt fram, því orðalagi sem stjórnlaganefndin kom fram með um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Hvað hefur auðlindaákvæðið eins og stjórnlagaráðið hefur teflt því fram umfram hitt? Þessu er öllu ósvarað. Það er bara sagt: Ferlið er mikilvægt, það er mikilvægt að styðja við þetta.

Því er haldið fram um okkur að við tölum niður til þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað. Það er þvert á móti. Við fögnum því að þjóðin hafi verið fengin með í gegnum það ferli sem átt hefur sér stað, en nú er það okkar sjónarmið að það sé kominn tími fyrir þingið til að taka afstöðu til málsins. Það er ótímabært að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, við erum ekki með í höndunum þá vinnu sem hægt er að bera undir þjóðina, enda er niðurstaðan ráðgefandi, ekki satt?

Það er þá eitt sem við höfum lært af umræðunni í dag: Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru fullkomlega ósammála þeim fulltrúum stjórnlagaráðsins sem hafa talað fyrir því að niðurstaðan sé á einhvern hátt bindandi fyrir þingið. Við höfum þó að minnsta kosti fengið það fram hér í dag þannig að óháð því hver niðurstaðan verður um helgina virðist þingið hafa frjálsar hendur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum, (Forseti hringir.) þingið hefur allt það í höndunum sem það þarf til þess að hefja vinnuna og ég er ekki tilbúinn að binda hendur mínar í þeim efnum að nokkru leyti við þau megindrög sem fram koma í tillögum stjórnlagaráðs þó að þar sé að finna margar ágætishugmyndir.

Ég mun þess vegna segja nei við fyrstu spurningunni.



[16:25]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að ítreka það og minna á í lok þessarar umræðu að löggjafarsamkundan hefur í meira en hálfa öld glímt við það að reyna að færa þjóðinni nýja heildstæða stjórnarskrá. Það hefur ekki tekist. Þinginu hefur ekki tekist að koma því í framkvæmd. Núna fyrst hefur tekist að setja saman heildstæða stjórnarskrá af fólkinu í landinu. Fólkið sjálft í landinu hefur stigið risavaxið skref í átt til þess að klára málið sem Alþingi hefur guggnað á.

Hér eru gerðar athugasemdir við það að málið fari óklárað í þjóðaratkvæðagreiðslu, fólk sé ekki að kjósa um endanlegar tillögur, engu sé hægt að breyta og fólkið fái ekki að greiða atkvæði um fullbúna stjórnarskrá. Ég hef sagt að nefnd sé að skoða tæknilega annmarka sem í ljós koma á tillögum stjórnlagaráðs, að hægt sé að breyta tillögunum standi til þess málefnaleg rök eða það sé í samræmi við niðurstöðu kosninga. Síðast en ekki síst getur Alþingi, ef það svo kýs, borið stjórnarskrána eins og Alþingi gengur frá henni á þessum vetri, þ.e. fullbúna stjórnarskrá, undir þjóðaratkvæði á ný samhliða næstu alþingiskosningum. Það kemur til dæmis til móts við áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar sem sagði að það væru of miklar skuldbindingar að segja já nú þar sem tillögurnar væru ekki endanlegar og líka við það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, að þetta væri ótímabær atkvæðagreiðsla.

Fólk sem segir já nú við því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar þeirri vinnu sem fram fer á Alþingi að loknum kosningum á laugardag getur átt þess kost, ef Alþingi ákveður það, að greiða aftur atkvæði um fullbúna stjórnarskrá með þeim breytingum sem málið mun hafa tekið í meðferð Alþingis samhliða næstu kosningum. Kjósendur þurfa ekki að óttast að annmarkar sem kunna að vera á tillögum stjórnlagaráðs og í ljós verða leiddir við þinglega meðferð málsins verði ekki lagfærðir. Að sjálfsögðu verður það gert og síðan hefur Alþingi vald til þess að endanleg stjórnarskrá fari þá aftur til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum. Kjósendur geta því að þessu leyti óhræddir sagt já við 1. spurningunni á kjörseðlinum nk. laugardag og það hvet ég fólk til þess að gera. Látum það bara ekki gerast að vinna þeirra þúsunda Íslendinga sem komið hafa að því að móta þær tillögur sem nú liggja fyrir verði fyrir bí. Lokaáfanginn er fram undan og áfangastaðurinn gefur fyrirheit um breytt og bætt lýðræði. En umfram allt hvet ég kjósendur, óháð því hvernig þeir hyggjast verja atkvæði sínu, til að mæta á kjörstað og nýta lýðræðislegan atkvæðisrétt sinn. Það er það sem skiptir máli.