141. löggjafarþing — 22. fundur
 22. október 2012.
Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 133. mál (heildarlög). — Þskj. 133, nál. 252.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:36]

[15:31]
Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru að koma til atkvæða eftir 2. umr. tvö merkileg frumvörp, annars vegar um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og hins vegar þar á eftir um Vegagerðina, Framkvæmdastofnun samgöngumála.

Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið hingað til atkvæðagreiðslu. Forsagan er dálítið löng. Hún hófst árið 2008 með stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á þessum stofnunum í framhaldi af hinu fræga Grímseyjarferjumáli, ef svo má að orði komast, og í framhaldinu fór stýrihópur eða vinnuhópur í gang og skilaði skýrslum um málið og út úr því kom þetta frumvarp sem var fyrst lagt fram í júníbyrjun 2010. Meðgöngutíminn er sem sagt orðinn nokkuð langur.

Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að um tímamótaverk er að ræða og fagna því að það skuli vera komið til 2. umr. og atkvæðagreiðslu og trúi ekki öðru en að þingmenn styðji það sem hefur verið gert og málið fái fljóta yfirferð í 3. umr. þannig að við getum klárað það sem fyrst (Forseti hringir.) vegna þess að þessar stofnanir eiga að taka til starfa 1. janúar á næsta ári.



[15:33]
Róbert Marshall (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til máls um atkvæðagreiðsluna til að gera grein fyrir því að við ætlum að kalla málið inn til hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að beiðni hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem tók þátt í umræðum um það, til að fara yfir gildistökuákvæðin. Það á ekki að tefja málið.

Ég hvet alla hv. þingmenn til að styðja þetta fína mál.



[15:33]
Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þegar stofnanir eru lagðar saman eða þeim hreyft þá verður oft titringur og upp kemur ótti um framtíðina og stöðu starfsmanna og þeirra sem næstir standa. Ég held að í þetta sinn sé engin ástæða til slíks ótta. Ég held að við séum að gera vel, séum bæði að beita hagræðingu sem í þetta sinn er jákvæð og krefst ekki mikilla fórna og að bæta skilvirkni í stjórnsýslunni.

Eins og rakið var áðan þá hefur þetta mál tekið nokkuð langan tíma í þinginu, en að þeim leiðarlokum sem fram undan eru þakka ég tveimur forustumönnum í málinu, fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Kristjáni Möller, og núverandi hæstv. innanríkisráðherra og ráðherra samgöngumála, Ögmundi Jónassyni.



[15:34]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er verið að fara með Farsýsluna og Vegagerðina í gegnum atkvæðagreiðslu í þinginu. Sameiningar á þessum stofnunum með nýjum nöfnum hafa fengið mikla gagnrýni og það er búið að setja norðurslóðamálin í uppnám með þessum frumvörpum.

Ég tilkynni það hér með, virðulegi forseti, að þingmenn Framsóknarflokksins koma til með að greiða atkvæði á móti báðum frumvörpunum.



[15:35]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum sitja hjá við þessa umræðu. Við fögnum því að málið gangi til nefndar milli umræðna. Það er rétt sem hv. framsögumaður málsins, Róbert Marshall, nefndi að það hlýtur að vera til þess að skoða gildistökuákvæðið sem gerðar voru athugasemdir við í umræðum. Ég vil geta þess að það má vera að í því nefndarstarfi verði einnig gerð enn ein tilraunin til að fá upplýsingar um áætlanir varðandi fyrirkomulag þessara mála, fjármögnun, skiptingu fjárheimilda og fleira þess háttar. En við sitjum hjá við þessa umræðu og áskiljum okkur rétt til að taka aðra afstöðu síðar þegar málið kemur til 3. umr. að nefndarstarfi loknu.



 1. gr. samþ. með 23:4 atkv. og sögðu

  já:  ArnaJ,  ÁPÁ,  BVG,  DSt,  GuðbH,  GStein,  HLÞ,  HHj,  JRG,  KaJúl,  KLM,  LGeir,  MÁ,  OH,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÖJ.
nei:  BirgÞ,  EyH,  GBS,  VigH.
18 þm. (ArnbS,  AtlG,  ÁI,  ÁsbÓ,  BÁ,  BirgJ,  EIS,  IllG,  JKA,  KÞJ,  LMós,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  UBK,  ÞKG,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
18 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BJJ,  BjarnB,  BjörgvS,  GLG,  GÞÞ,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  KJak,  MSch,  SDG,  SF,  ÞBack,  ÖS) fjarstaddir.

 2.–20. gr. og ákv. til brb. samþ. með 22:4 atkv. og sögðu

  já:  ArnaJ,  ÁPÁ,  BVG,  DSt,  GuðbH,  HLÞ,  HHj,  JRG,  KaJúl,  KLM,  LGeir,  MÁ,  OH,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÖJ.
nei:  BirgÞ,  EyH,  GBS,  VigH.
18 þm. (ArnbS,  AtlG,  ÁI,  ÁsbÓ,  BÁ,  BirgJ,  EIS,  IllG,  JKA,  KÞJ,  LMós,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  UBK,  ÞKG,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
19 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BJJ,  BjarnB,  BjörgvS,  GLG,  GÞÞ,  GStein,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  KJak,  MSch,  SDG,  SF,  ÞBack,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til um.- og samgn.