141. löggjafarþing — 22. fundur
 22. október 2012.
Stjórnarráð Íslands, frh. 1. umræðu.
frv. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 248. mál (skrifleg framlagning mála á ríkisstjórnarfundum). — Þskj. 274.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:44]

[15:39]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í fljótfærni og kjánaskap taldi ég óþarft þegar ég mælti fyrir þessu máli hér um daginn að það færi aftur til nefndar þar sem það hafði verið mikið rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Menn voru ekki sammála því og hv. þm. Þráinn Bertelsson lagði til að það færi til allsherjar- og menntamálanefndar en Birgir Ármannsson að það væri til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég hef haft samband við formann allsherjar- og menntamálanefndar og lagt það upp við hann að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd biðji um álit allsherjar- og menntamálanefndar og hvort hann sé sammála þeirri aðferð. Hann er það þannig að ég legg til að við styðjum tillögu hv. þm. Birgis Ármannssonar en við munum vissulega biðja um álit allsherjar- og menntamálanefndar á málinu.



[15:41]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel fráleitt að vísa þessu máli til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem það snýr að stjórnskipan ríkisins og á best heima í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Um þær upplýsingar sem komu fram áðan frá formanni nefndarinnar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, tel ég að ekki eigi að leita eftir áliti hjá allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að málið er einfaldlega farið úr höndum nefndarinnar.

Það er mjög ánægjulegt að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að styðja tillögu stjórnarandstæðings, hv. þm. Birgis Ármannssonar, og það gerum við framsóknarmenn líka.



[15:41]
Þráinn Bertelsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ber víst ábyrgð á því að flækja aftöku þessarar lagagreinar um að hljóðrita ríkisstjórnarfundi. Ég vil ekki standa í vegi fyrir þeirri aftöku, það er tilgangslaust. Hins vegar finnst mér snyrtilegri bragur á því að einhver önnur þingnefnd en sú sem flytur málið komi að umfjöllun um það.

Hitt er svo annað mál, að til að sýna fullkominn samstarfsvilja minn við þessa ógnarstjórn þá sætti ég mig fullkomlega við þá tillögu formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að biðja um álit allsherjar- og menntamálanefndar og tel það vera í anda góðrar, vandaðrar og opinnar stjórnsýslu.

(Forseti (RR): Forseti spyr hv. þingmann hvort hann kalli til baka sína eigin tillögu.)

Nákvæmlega.



[15:43]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú tjái ég mig um atkvæðagreiðslu sem mun ekki fara fram, þetta er mjög sérkennileg staða. [Hlátur í þingsal.]

Mig langar að rifja upp rætur þessa máls. Á sínum tíma var lagt fram frumvarp um Stjórnarráð Íslands og frumvarp um upplýsingalög. Þau frumvörp voru sögð byggja á fjórum skýrslum sem lagðar voru fram í kjölfar hrunsins. Sérstaklega var tekið fram í öllum þessum skýrslum að mikilvægt væri að skrá fundi þannig að rekjanleiki ákvarðana, þar á meðal á ríkisstjórnarfundum, væri á hreinu. Þegar þessi frumvörp komu inn í þingið voru þau greinilega skrifuð til að komast fram hjá niðurstöðum þessara skýrslna, þar á meðal ákvæði um ritun fundargerða ríkisstjórnarfunda. Ekki náðist í gegn breyting á því þannig að hljóðritunarákvæði kom inn í staðinn sem nokkurs konar sáttainnlegg í málið. Nú er búið að hafna því sáttainnleggi. Mér sárnar það að núverandi ríkisstjórn skuli fara fram með þessum hætti og hafna því að rekjanleiki ákvarðana á ríkisstjórnarfundum verði til staðar. (BirgJ: Heyr, heyr!)



Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.