141. löggjafarþing — 23. fundur
 22. október 2012.
húsakostur Listaháskóla Íslands.
fsp. SER, 147. mál. — Þskj. 147.

[16:55]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Listir setja sterkan svip á samfélagið og það er til marks um gæði í fari hvers samfélags. Listirnar gefa samfélaginu vissulega mikið gildi. Listnám hefur verið stundað á Íslandi um langt árabil en að mati þess sem hér stendur hefur það oft átt undir högg að sækja sakir aðstöðu og er það miður því að þessi grein á að njóta jafnræðis á við aðrar greinar á háskólastigi og við eigum að hlúa jafn vel að listnámi og öðru mikilvægu háskólanámi á Íslandi.

Engu að síður er það svo að Listaháskóli Íslands hefur um langt árabil verið á hrakhólum hvað húsakost varðar. Skólinn er dreifður víða um bæinn sem er miður vegna þess að það er úr takti við þá þróun sem orðið hefur í listunum á undanliðnum árum. Samlegðin milli listgreina hefur orðið æ ríkari og í dag má varla sjá þann mun sem var á milli fjölda ólíkra listgreina á fyrri tíð. Rithöfundar vinna æ meira í leikhúsi, leikhúsmenn vinna æ meira í kvikmyndum, myndlistarmenn vinna æ meira í leikhúsi og þar á meðal myndhöggvarar og þannig rennur margt saman í eina stóra heild, þannig er þróunin einfaldlega. Áður fyrr voru menn hver í sínu horni með sína listsköpun en nú rennur þetta meira og minna saman í eina samfellda heild.

Þess vegna skyldi maður ætla að mjög mikilvægt væri fyrir nemendur sem stunda nám í ýmsum listum að njóta þeirrar samlegðar sem er farin að gera vart við sig úti á markaðnum. Það er mjög mikilvægt fyrir listafólk sem hefur sérhæft sig í einni grein að geta unnið og eftir atvikum numið með fólki í öðrum listgreinum. Þannig eflast allar listgreinarnar fyrir vikið og nú sjáum við dæmi þess að um eins konar fjöllistir megi ræða þegar margar listgreinar leggja saman í eitt verk.

Þess vegna spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þetta efni, hvað líði áformum um að koma (Forseti hringir.) húsakosti Listaháskóla Íslands í varanlegt og gott horf.



[16:58]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og get tekið undir með honum að umhverfi listanna hefur tekið miklum breytingum. Hugsunin á bak við Listaháskóla Íslands, sem sinnir æðri menntun á sviði listgreina og er mjög mikilvæg stofnun fyrir íslenskt samfélag, hefur alltaf verið sú að efla einmitt flæði á milli listgreina. Þar höfum við séð mjög dýrmæta sprota koma upp. Ég nefni sem dæmi ýmsar þær nýju námsleiðir sem skólinn hefur mótað og byggir á að nemendur úr ólíkum listgreinum taki höndum saman og ég held að það verði ekki vanmetið.

Ég lít svo á, af því að hv. þingmaður ræddi almennt um stöðu Listaháskólans, að skólinn hafi í raun á skömmum tíma skipað sér mikilvægan sess. Hann byggir auðvitað á þeirri arfleifð sem í honum felst, þ.e. þeim menntastofnunum sem voru fyrir — ég nefni Myndlista- og handíðaskólann, Leiklistarskólann o.fl. Með áherslu sinni á þverfaglegt samstarf og þverfaglega samlegð hefur skólinn þegar skipað sér mjög mikilvægan sess í íslensku samfélagi og við sjáum það líka á þeirri verðmætasköpun sem greina má í kringum listirnar og hinar skapandi greinar. Þar hefur Listaháskólinn haft mjög mikilvægu hlutverki að gegna.

Mig langar að segja hér í framhjáhlaupi að á föstudag var kynnt skýrsla um stöðu skapandi greina og hvernig megi byggja upp samfélag hinna skapandi greina, ekki einungis sem vísinda- og menningarstarfsemi heldur líka sem atvinnustarfsemi. Það vakti athygli mína hve áherslan var mikil á menntun á sviði lista og rannsóknir á sviði lista. Þarna á Listaháskólinn auðvitað eftir að gegna mjög mikilvægu hlutverki.

Eins og hv. þingmaður nefndi er skólinn ekki á einum stað, hann er til húsa á þremur stöðum í borginni. Hann leigir 4.500 fermetra húsnæði af Fasteignum ríkissjóðs á Laugarnesvegi 91, sem eitt sinn var sláturhús, 2.300 fermetra að Sölvhólsgötu 13, þar sem tónlistar- og leiklistardeild eru til húsa, og enn fremur leigir skólinn 4.100 fermetra húsnæði í Þverholti 11 og fjögur útihús eða svokallaðar lausar kennslustofur sem eru alls 670 fermetrar á lóðinni Sölvhólsgötu 13. Listaháskólinn hefur því nú til umráða á tólfta þúsund fermetra.

Frá stofnun skólans árið 1999 hefur hins vegar verið stefnt að því að koma honum undir eitt þak og uppi hafa verið ýmsar hugmyndir í því samhengi. Fyrst má nefna að hugsunin var á einhverjum tímapunktinum sú að færa starfsemina í byggingu sem stendur við Laugarnesveg 91. Það hafa komið fram hugmyndir að nýbyggingu fyrir skólann og ég nefni sérstaklega hugmynd sem gekk út á að byggja upp húsnæði fyrir hann við Laugaveg í Reykjavík. Eins og allir þekkja hefur efnahagsástandið komið í veg fyrir að áfram hafi verið hægt að vinna að þessu máli af fullum krafti en það er mín von og framtíðarsýn, af því að hv. þingmaður spyr um hana, að Listaháskólinn komist undir eitt þak innan fárra ára enda er núverandi ástand óviðunandi til lengri tíma.

Ég hef átt gott samtal við Listaháskólann um þetta og að störfum er hópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis, sem hefur það hlutverk að meta þá kosti sem koma til greina fyrir framtíðaruppbyggingu Listaháskólans. Það liggur líka fyrir að áður en unnt er að taka frekari ákvarðanir um málið þarf að ljúka umfjöllun um fyrri áform Listaháskólans um nýbyggingu við Laugaveg í Reykjavík. Þarna er horft á ólíka kosti sem koma til greina.

Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að nú þegar við horfum vonandi fram á aðeins léttara líf í ríkisrekstrinum er þetta eitt af þeim verkefnum sem þarf að komast til framkvæmda; að skoða framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskólann á einum stað.



[17:02]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra um leið fyrir svörin sem mér finnst byggja á miklu raunsæi. Við vorum á sínum tíma að reyna að koma upp ákveðnu húsnæði fyrir Listaháskólann. Það gekk ekki eftir út af því sem síðan gerðist, hruninu á haustdögum 2008.

Ég tel málin vera í eðlilegum farvegi. Mér finnst gott að vita til þess að verið er að undirstrika mikilvægi Listaháskólans, bæði af hálfu fyrirspyrjanda og líka ráðherra, að námið í Listaháskólanum geti gengið þvert yfir allar greinar. Það er mikilvægt að námið þar verði þverfaglegt og nýtist fleiri háskólum. Ég velti fyrir mér hvort það sé raunsætt fyrr en samstarfsnefnd um háskólastigið hefur komist að niðurstöðu og hvernig við sjáum uppbyggingu allra háskóla á landinu háttað til lengri tíma litið, hvaða hlutverki Listaháskólinn hefur að gegna í þeirri stóru mynd allri. Ég tel að hann muni gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki.

Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að það verði í farsælu samstarfi og samvinnu eða að hann verði hugsanlega sameinaður við einhvern af þessum stóru háskólum. En ég held að þau svör sem hér bárust hafi verið og séu mjög skiljanleg í ljósi allra aðstæðna.



[17:04]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þessa umræðu sem er efnisleg og málefnalega góð. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og reyndar hæstv. menntamálaráðherra líka að listsköpun og nám í listsköpun er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið og er að mínu viti einn af lykilþáttum við að sækja fram fyrir íslenska þjóð. Ég tel að það verði þannig að við þurfum hvort tveggja á tæknimenntuðu fólki að halda í æ ríkari mæli inn í framtíðina og síðan fólki sem á listnám að baki.

Það eru gríðarleg sóknarfæri á báðum þessum sviðum og ef við ætlum að auka hér störf í hinum skapandi greinum þá leggst þetta tvennt saman; tæknigreinarnar og listnámið í mjög þróttmiklu samstarfi. Á það hefur verið bent að þær greinar þurfa öðru fremur að svara þeim fjölda fólks sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum því að fjölgunin verður ekki í sjávarútvegi miðað við tækniframfarir og heldur ekki í landbúnaði miðað við tækniframfarir. Þær verða fyrst og síðast í tæknigreinunum og hinum skapandi greinum. Þess vegna þurfum við að byggja undir nám krakkanna okkar, ungmennanna á því sviði. Þess vegna þurfum við að sýna þá djörfung að teikna upp komandi háskóla listanna til að þau hafi og sjái að stjórnvöld meina eitthvað með stefnu sinni í þessum menntamálum.

Ég þakka fyrir svar hæstv. ráðherra en spyr hana jafnframt að því hvar hún sjái nýjan Listaháskóla Íslands rísa. Ég sé hann fyrir mér rísa (Forseti hringir.) að sjálfsögðu í Reykjavík, en hvar og hvenær?



[17:06]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka á ný fyrir þessar umræður. Ég held að skapandi greinarnar og listirnar séu í raun og veru á mjög merkilegum stað núna. Á þeim fundi sem ég vísaði í áðan var farið yfir starfsumhverfi skapandi greina, sem er að mörgu leyti frekar óformbundið ef við getum rætt það sem slíkt, það er mjög formbundið þegar við hugsum um þetta sem listastarfsemi, en þar sem frumsköpuninni sleppir og við getum farið að tala um þetta sem atvinnugrein þá þarf að formgera betur aðkomu stjórnvalda og hvernig við getum byggt slíkt starfsumhverfi upp. Og þar var sú samlíking rædd að kannski væru skapandi greinar núna á þeim stað þar sem ferðaþjónustan var fyrir 20 árum. Það er mjög spennandi framtíðarsýn sem þarna má finna. Það er mín bjargfasta trú að Listaháskólinn hafi þar lykilhlutverki að gegna.

Hv. þingmaður spyr hvar og hvenær. Svar mitt er: Það er of snemmt að segja til um það. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en ég horfi fyrst og fremst á það að mjög æskilegt væri að ná fram sýn til lengri tíma og hvort einhverjar lagfæringar þurfi að gera á núverandi húsnæði þar til hún getur orðið að veruleika. Það væri mjög gott að hafa einhverja aðgerðaáætlun og sýn fyrirliggjandi á þessum vetri.