141. löggjafarþing — 24. fundur
 23. október 2012.
lokafjárlög 2011, 1. umræða.
stjfrv., 271. mál. — Þskj. 303.

[15:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2011 sem dreift hefur verið á þskj. 303. Í frumvarpi þessu eru annars vegar lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna frávika í ríkistekjum stofnana milliuppgjörs tekna samkvæmt ríkisreikningi 2011 og áætlunar þeirra í fjárlögum og fjáraukalögum 2011 og hins vegar gerðar tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok. Þá fylgir frumvarpinu yfirlit um fjárheimildastöður í árslok 2011 sem gert er ráð fyrir að verði fluttar til ársins 2012. Frumvarpið er einnig til staðfestingar á niðurstöðum ríkisrekstrarins samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2011.

Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og tillögur um uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok byggjast á sömu viðmiðunarreglum og áður. Í fylgiskjali 2 er yfirlit yfir talnagrunn frumvarpsins. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2011, bæði fyrir ríkissjóð í heild og líka einstök viðfangsefni. Þar er um að ræða fluttar stöður fjárheimilda frá fyrra ári, fjárlög, fjáraukalög, millifærðar heimildir innan ársins og breytingar á fjárheimildum vegna frávika ríkistekna samkvæmt þessu frumvarpi. Því næst eru tilfærð útgjöld samkvæmt ríkisreikningi og loks fjárheimildastaða í árslok, þ.e. mismunur fjárheimilda og reikningsfærðra útgjalda.

Heildarfjárheimildir á árinu 2011 námu 544,6 milljörðum kr., útgjöld samkvæmt ríkisreikningi urðu 575,9 milljarðar, afgangsheimildir eru 23,3 milljarðar og umframgjöld 54,6 milljarðar. Fjárheimildastaða í árslok er því neikvæð um 31,3 milljarða og svarar það til 5,8% af heildarfjárheimildum ársins. Þar vegur þyngst gjaldfærsla í ríkisreikningi 2011 á 20,2 milljarða kr. endurgjaldi ríkissjóðs til Landsbankans hf. vegna stofnfjárframlags og ábyrgða á innstæðum eftir yfirtöku bankans á SpKef sparisjóði í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar frá 7. júní á þessu ári. Einnig vegur þar þungt um 7,1 milljarður kr. vegna niðurfærslna á eignarhlut ríkissjóðs í Byggðastofnun og 4,9 milljarðar kr. niðurfærsla á eignarhlut ríkissjóðs í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins sem gjaldfærðar voru í reikninginn. Þá voru gjaldfærðir í ríkisreikning 3,5 milljarðar kr. vegna fasteigna í eigu ríkisins sem voru afhentar fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra milli stjórnsýslustiganna. Loks má í þessu sambandi nefna að útgjöld vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér urðu 1,2 milljörðum kr. hærri en fjárheimildir vegna breytinga á reikningsskilum varðandi stofna til skattsins. Hér er um að ræða reikningshaldslegar uppgjörsfærslur sem samtals nema nærri 37 milljörðum kr. og voru ófyrirséðar við afgreiðslu fjáraukalaga ársins 2011 þar sem þær eru gerðar við lokun á ríkisreikningi um hálfu ári síðar.

Að þessum óreglulegu uppgjörsfærslum frátöldum var árslokastaða gagnvart fjárheimildum í heildina tekið jákvæð um 5,6 milljarða.

Í frumvarpinu er að vanda lagt til að árslokastöður verði annaðhvort felldar niður, eins og fram kemur í 2. gr., eða yfirfærðar til næsta árs eins og fram kemur í fylgiskjali 1.

Vík ég þá nánar að lagagreinum frumvarpsins. Í 1. gr. frumvarpsins, samanborið nánari skiptingu í sundurliðun 1, eru tillögur um breytingar á fjárheimildum ársins 2011 vegna frávika markaðra skatttekna og annarra rekstrartekna stofnana frá áætlunum fjárlaga og fjáraukalaga. Alls er lagt til að fjárheimildir verði auknar um tæplega 896 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun stofnana og verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að ráðstafa þessum tekjum, ýmist í samræmi við það hverjar þær urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf reyndist vera. Almennt gildir að útgjaldaheimildir hækka ef markaðar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum stofnana og verkefna hafa verið umfram fjárlög en lækka hafi tekjurnar reynst minni. Þetta viðmið er þó ekki algilt því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna ríkistekjufrávika ef ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar á þann hátt að breytingar í tekjum hafi bein áhrif á kostnað eða ef útgjaldaheimildir í fjárlögum eru ákvarðaðar út frá verkefnum án tillits til hugsanlegra breytinga á fjármögnun með mörkuðum ríkistekjum.

Í 2. gr. frumvarpsins, samanborið nánari skiptingu í sundurliðun 2, eru tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok 2011. Ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok byggjast á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöldin séu lögbundin eða stjórnist frekar af hagrænum, kerfislægum eða reikningshaldslegum þáttum heldur en fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila. Einnig er miðað við að yfirfærsla milli ára á afgangsheimildum í almennum stofnanarekstri og reglubundnum rekstrarverkefnum fari almennt ekki umfram 10% af fjárlagaveltu viðkomandi verkefna nema sérstakar ástæður séu taldar til annars. Heimildastaða verkefnis í árslok fellur einnig niður ef viðkomandi verkefni er lokið.

Tilgangur þess að takmarka yfirfærslu rekstrarfjárheimilda milli ára er að koma í veg fyrir að heimilt verði að efna til umtalsverðra útgjalda umfram fjárlög, enda auka útgjöld sem efnt er til á grundvelli yfirfærðra fjárheimilda kostnað og skuldasöfnun ríkissjóðs á nákvæmlega sama hátt og útgjöld sem efnt er til á grundvelli heimilda í fjárlögum viðkomandi árs. Við undirbúning frumvarpsins var farið yfir þau tilvik þar sem afgangsstöður fjárheimilda eru umfram framangreint viðmið. Í ljós kom að málsatvik voru í nokkrum tilvikum með þeim hætti að fagráðuneytin töldu nauðsynlegt að flytja meiri afgangsheimildir til ársins 2012. Dæmi um slíkt er ef framkvæmd verkefna hefur frestast yfir áramót eða ef stofnað hefur verið til skuldbindinga á grundvelli fenginna fjárheimilda sem ekki voru greiddar út og gjaldfærðar á árinu. Að öðru leyti hefur verið farið yfir alla fjárlagaliði eins og jafnan áður við undirbúning lokafjárlaga og tillögur um yfirfærslu eða niðurfellingar gerðar með hliðsjón af málsatvikum samkvæmt sömu viðmiðunarreglum og áður.

Á rekstrargrunni falla niður 44,7 milljarðar kr. gjöld umfram heimildir en á greiðslugrunni falla niður 1,2 milljarða gjöld umfram heimildir. Mismunur milli rekstrargrunns og greiðslugrunns hvað varðar niðurfelldar fjárheimildastöður er 43,4 milljarðar og skýrist að mestu leyti af óreglulegu liðunum sem ég fór yfir hér áðan. Til viðbótar má nefna aðra óreglulega liði sem þó hefur að miklu leyti verið gert ráð fyrir í fjárheimildum fjárlaga, þ.e. niðurfellingu 4,6 milljarða kr. umframgjalda vegna afskrifta skattkrafna og niðurfellingu 4,1 milljarðs kr. umframgjalda vegna gjaldfærðrar breytingar á skuldbindingum ríkisins í tengslum við lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Í öllum þessum tilvikum er um að ræða reikningshaldslegar gjaldfærslur umfram fjárheimildir án greiðslna úr ríkissjóði á árinu.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er yfirlit yfir fjárheimildastöður sem gert er ráð fyrir að yfirfærist til ársins 2012. Hrein aukning fjárheimilda á árinu 2012 vegna þessara ráðstafana nemur rúmlega 13,3 milljörðum kr. eða sem svarar til 2,3% af gjaldaheimild fjárlaga 2012.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir meginþætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2011 og vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi um meginatriði í framvindu ríkisfjármála og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Ég legg til þegar þessari umræðu verður lokið, virðulegi forseti, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.



[15:27]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hennar býð ég hana velkomna til starfa í nýju embætti og óska eftir góðu samstarfi við hæstv. ráðherra við þau verkefni sem bíða okkar í fjárlaganefnd. Það er full ástæða til að óska þess að um gott samstarf verði að ræða því að breytingar í embætti fjármálaráðherra eru töluvert örar. Til dæmis má geta þess, forseti, að frá áramótum er núverandi hæstv. fjármálaráðherra hinn þriðji sem gegnir því embætti og á þessu kjörtímabili hefur fjárlaganefnd haft fjóra formenn. Breytingar eru því mjög örar í forustu þessara mála hjá okkur nú um stundir og ég er ekki viss um að það sé allt til bóta upp á festuna, þekkinguna og eftirfylgni mála sem nauðsynleg er á þeim tímum sem við lifum í fjármálum ríkisins.

Við sjáum þess ágætlega stað í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að það er nokkur lausung í þeim tökum sem þurfa að vera á ríkisfjármálum. Við sjáum það til dæmis í þeirri einföldu staðreynd sem kemur fram í frumvarpinu á bls. 87 um umframgjöld eru 54,6 milljarðar kr. Það eru gjöld sem eru umfram fjárheimildir í samþykktum fjárlögum fyrir árið 2011 og samþykktum fjáraukalögum fyrir árið 2011, brúttóumframgjöldin eru 54,6 milljarðar kr. Þetta setur eðlilega mark sitt á afkomu ríkissjóðs, skuldsetningu og annað. Það er engum blöðum um það að fletta að mesta áhyggjuefnið í huga okkar sem sýslum með afkomu ríkissjóðs eru þær breytingar sem orðið hafa á skuldastöðu ríkissjóðs, ekki síst þegar haft er í huga að sú skuldaaukning á sér stað samhliða umtalsverðum skattahækkunum.

Það er full ástæða til að undirstrika að af þessari stöðu ber að hafa allnokkrar áhyggjur þar sem miklar viðsjár eru á erlendum mörkuðum fyrir framleiðsluvörur okkar. Það eru sömuleiðis miklar spekúlasjónir uppi innan lands um raunverulega stöðu íslensks efnahagslífs. Þetta ber að hafa í huga þegar við fjöllum um stöðu ríkissjóðs í tengslum við það frumvarp sem hér liggur fyrir um lokafjárlög ársins 2011, ekki síst í ljósi þess að þegar síðasta áfall dundi yfir okkur árið 2008 var ríkissjóðurinn svo til hallalaus. Í stöðunni eins og hún birtist nú má ríkissjóðurinn ekki við miklum áföllum öðruvísi en að illa fari og þar af leiðandi hlýtur ýmislegt varðandi skuldastöðuna og afkomu ríkissjóðsins að valda okkur áhyggjum sem fjöllum um þessi mál dagsdaglega í fjárlaganefnd.

Ýmsir þættir eru váboðar á lofti. Við eigum eftir að fá niðurstöðu út úr málaferlum vegna Icesave, við getum nefnt umræðu um fjárhagslega stöðu Íbúðalánasjóðs og sömuleiðis mætti ræða stöðuna á innlendum vinnumarkaði eða afköst íslensks efnahagslífs. Þetta er hinn ytri veruleiki sem við okkur blasir sem ég tel fulla ástæðu til að geta í tengslum við þær niðurstöður sem birtast hér vegna þess að við höfum af ýmsum ástæðum, sem ég kem raunar að á eftir, ekki fylgt þeirri lagasetningu sem Alþingi hefur sett um fjárlögin sjálf og síðan fjáraukalögin sem sett voru undir lok ársins 2011.

Því miður verð ég að segja að í raun bendir ekkert til þess að við munum greiða niður skuldir í allra næstu framtíð, þvert á móti, að óbreyttu og ef við höldum á málum eins og hér birtist munum við frekar bæta í og það er mjög erfitt að horfa framan í það. Við getum sett þetta í samhengi við ýmsa aðra þætti en ég ætla ekki að lengja mál mitt að því leyti til í þessari almennu umfjöllun heldur fara örlítið í frumvarpið sjálft og reyna að rýna það allnokkuð.

Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu liggur fyrir að afgangsheimildir sem nýttust til að brúa þennan umframakstur upp á 54,6 milljarða kr. voru 23,3 milljarðar þannig að nettóstaða í árslok var umframakstur eða umframeyðsla upp á 31,3 milljarða kr. Stærstu liðirnir í þessu eru nefndir í frumvarpinu og þeir eru aðallega þrír gjaldamegin. Það er í fyrsta lagi gjaldfærsla í ríkisreikningi á árinu 2011 vegna skuldbindinga og endurgjalds ríkissjóðs til Landsbankans vegna stofnfjárframlags og ábyrgða á innstæðum eftir yfirtökuna á Sparisjóði Keflavíkur. Þetta eru rúmir 20 milljarðar. Einnig er þar um að ræða 7,1 milljarð í niðurfærslu á eignarhlut í Byggðastofnun og 4,9 milljarðar eru færðir niður á eignarhlut ríkissjóðs í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þetta eru stærstu liðirnir.

Við þetta er nauðsynlegt að gera nokkrar athugasemdir, þó að ekki væri nema vegna þeirra skýringa sem eru gefnar í frumvarpinu á bls. 87 á því hvers vegna þessar þrjár stærðir, samtals rúmir 30 milljarðar, eru teknar inn í ríkisreikninginn sem kemur út um mitt ár 2012 en eru ekki teknar með í fjárlagagerð ársins 2011 og ekki heldur í gerð fjáraukalaga. Reynt er að skýra þetta á bls. 87 í frumvarpinu, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ekki var gert ráð fyrir fjárheimildum á móti þessum útgjöldum í fjárlögum eða fjáraukalögum, enda erfitt að spá fyrir um þau þar sem um er að ræða gjaldfærslur í ríkisreikningi sem ráðast af ákvörðunum um forsendur reikningshaldslegs uppgjörs eftir að árið er liðið.“

Ég fullyrði að um stærstan hluta þeirrar fjárhæðar sem liggur undir, við skulum athuga að þetta eru rúmir 30 milljarðar, var algjörlega fyrirsjáanlegt í hvað stefndi. Það eru hreinar línur að ekkert nýtt ber til á árinu 2012 sem veldur því að afskrifa þurfi rúma 7 milljarða á Byggðastofnun og tæpa 5 milljarða í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Það er heldur ekkert nýtt að það þurfi milljarðaútgjöld vegna greiðslu ríkissjóðs fyrir Sparisjóð Keflavíkur til Landsbankans.

Sem dæmi má nefna að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisábyrgðir og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar, sem gerð var í janúar 2012, er greint frá því að ríkið stofnaði nýjan sparisjóð, Sparisjóð Keflavíkur til að taka yfir innstæðuskuldir og eignir og starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík. Sparisjóðurinn bar nafnið SpKef. Í mars á árinu 2011 ákvað FME að Landsbankinn tæki yfir rekstur og skuldbindingar SpKef og fyrirtækin tvö sameinuð. Þessi ákvörðun var tekin í samráði við fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðuneytið og Bankasýslan höfðu þá komist að þeirri niðurstöðu að heppilegra væri að sameina sparisjóðinn Landsbankanum en að fjármagna hann sjálfstætt.

Þrátt fyrir að fyrir lægi það sjónarmið FME, sem byggt var á grundvelli matseigenda eða stjórnenda SpKef, að eigið fé þessa nýja sjóðs væri neikvætt um 11 milljarða og rúmlega 19 milljarða vantaði upp á að sparisjóðurinn fullnægði kröfum Fjármálaeftirlitsins um lágmark eigin fjár var þetta engu að síður gert. Gert var samkomulag milli ríkisins og Landsbankans um að ríkissjóður mundi leggja nýju stofnuninni til fé.

Þetta lá fyrir allan tímann og það liggur meira að segja fyrir í umsögn frá Ríkisendurskoðun í tengslum við fjáraukalög ársins 2011 að skilyrðislaust bæri að færa til gjalda í fjáraukalögin eða á fjárlögin að lágmarki 11,2 milljarða kr. vegna þessarar færslu.

Þetta er kannski ekki stóra málið í þessu, við getum rifist um það endalaust hvers vegna þetta var ekki gert. Stærri spurning er hins vegar sú að það lá fyrir að tapið vegna þessara viðskipta mundi lenda á ríkissjóði. Þess vegna er sú gjaldfærsla sem hér er rætt um talin fram. Spurningarnar sem við ættum að spyrja okkur í tengslum við þetta mál, vegna þess að draga má af því lærdóm víðar í rekstri ríkisins, eru hvaða kröfur ríkissjóðurinn gerir til samningagerðar í þessum efnum.

Hvernig má það vera að deilt sé um einhverja 16 milljarða stærð eftir að eignarhlutur hefur verið keyptur af ríkissjóði? Við hljótum að spyrja okkur hvers lags mistök hafi í raun verið gerð af hálfu þeirra sem um véluðu á þessum tíma í samningsgerðinni ef sveigjan eða opnunin í þeim samningum nemur um 16 milljörðum kr. Það er áleitin spurning og ég tel að við þurfum að átta okkur á því hvaða kröfur við gerum til þess þegar staðið er að svona samningum um fjárhagslega skuldbindingu ríkissjóðsins.

Þegar maður tekur þetta allt saman er rétt að minna á 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og þá ábyrgð sem þar er lögð á herðar ráðherra hverju sinni um eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans.

Það er annað mál í þessu sem ég tel líka rétt að nefna sem lýtur að hallarekstri ríkisstofnana og þeirra stofnana sem hafa verulegan uppsafnaðan halla. Þessum vanda hafa menn ýtt á undan sér og það er í rauninni ekkert nýtt, þetta hefur verið gert í mörg ár. Við í fjárlaganefnd höfum meðal annars fengið ótal ábendingar frá Ríkisendurskoðun um þessi mál. Síðast fengum við mjög gott yfirlit í maí á þessu ári sem lýtur að framkvæmd fjárlaga frá janúar til mars 2012. Þar er meðal annars fjallað um rekstur stofnana í A-hluta og taldar upp þær stofnanir sem hafa verið með verulegan uppsafnaðan vanda.

Í tengslum við lokafjárlög núna er rétt að vekja athygli á því að það svigrúm sem þessar stofnanir og fleiri í ríkisrekstrinum hafa haft til að nýta geymdar fjárveitingar til að fjármagna starfsemi sína á næsta fjárlagaári er óðum að dragast saman. Það er alveg gefið að miklu þrengra verður um þær ríkisstofnanir sem hafa fjármagnað sig með þessum hætti en áður hefur verið. Til viðbótar bætist sá vandi sem felst í verulegum uppsöfnuðum hallarekstri og ekki hefur verið tekið á.

Það liggur fyrir að ráðuneytin hafa ýmsar leiðir til að taka á þessu en engu að síður gengur þetta þannig ár eftir ár að viðkomandi fagráðuneyti skjóta sér undan því að taka á vandanum. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér fyrir því að taka á vandanum og þessu verklagi verði hætt, snúið verði af þessari braut, einfaldlega vegna þess að gildandi lög og reglur leggja skýrt bann við því að ráðuneyti og þar með ráðherra samþykki rekstraráætlanir hjá einstökum stofnunum sem gera ráð fyrir því að þær haldi áfram hinum svokallaða uppsafnaða halla. Í regluverkinu er alls staðar gert ráð fyrir því að hann verði greiddur upp og ef við ætlum að fara öðruvísi með verðum við að taka á því, annaðhvort við fjárlagagerðina sjálfa eða með sameiginlegum hætti við lokafjárlagagerð ársins 2011.



[15:42]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kveðjurnar sem hann sendi mér. Mér þykir leitt að hafa valdið honum svona miklu hugarangri með tíðum breytingum í fjármálaráðuneytinu en svona er þetta þegar ungar konur í svona störfum ákveða að fara í barneignir.

Hv. þingmaður fór yfir skuldastöðu ríkissjóðs og hvernig hún hefði breyst á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þó það nú væri. Hér blasti við okkur algjört hrun á árinu 2008. Það er rétt að þá var ríkissjóður algjörlega skuldlaus en hið sama var ekki hægt að segja um sveitarfélög, fyrirtækin í landinu eða heimilin í landinu á sama tíma.

Virðulegi forseti. Þegar við horfum á skuldastöðu ríkissjóðs hljótum við alltaf að þurfa að horfa á hana í samhengi við skuldir annarra í samfélaginu. Það er ekki hægt að guma af skuldlausum ríkissjóði ef skuldir annarra hafa hækkað jafndramatískt og þær gerðu á árunum fyrir hrun og ég nefndi áðan. Vissulega var ríkissjóður þá skuldlaus eða skuldlítill en hins vegar blasti við 216 milljarða gat í fjárlögum sem þessi ríkisstjórn hefur verið að berjast við að brúa allt kjörtímabilið með erfiðum ákvörðunum um skattahækkanir og niðurskurð. En það hefur svo sannarlega tekist og núna, þingmönnum vonandi til mikillar ánægju, sjáum við til lands með það að skuldasöfnunin geti stöðvast á næsta ári og á árinu 2014 erum við loksins komin með tekjur umfram skuldir samkvæmt áætlun og getum farið að greiða niður skuldir okkar.

Ég vona að við hv. þingmaður eigum eftir að vera hér á komandi árum og eiga gott samstarf til að tryggja að þessi áætlun megi halda.



[15:44]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég hef engar meiningar um það af hvaða ástæðum þessi tíðu ráðherraskipti eru, það er fullkomlega eðlilegt að fólk taki sér barneignarfrí. Það sem ég vek athygli á er ákveðin lausung í öllu utanumhaldi um fjármál ríkisins, m.a. í ljósi tíðra mannaskipta í stöðum þeirra sem eru í forustu fyrir þá vinnu, hvort heldur er hjá framkvæmdarvaldinu í ráðuneytinu eða í forustu fyrir fjárlaganefnd. Ég veit ekki til þess að neinn í fjárlaganefnd hafi farið í barneignarfrí, svo að því sé haldið til haga.

Varðandi skuldsetninguna er rétt að vitna til orða hæstv. ráðherra sjálfs í umræðu nýverið á Alþingi um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Við erum sammála um að ríkissjóður var sem betur fer skuldlaus þegar hrunið átti sér stað en hæstv. ráðherra hefur sjálf sagt í umræðu að einungis 28% af heildarskuldum vegna endurreisnarinnar stafi af bankahruninu. Það þýðir að 72% eru til komin af öðrum ástæðum.

Það sem ég bendi á er að þrátt fyrir þetta hefur verið að safnast í skuldir ríkisins. Ég benti einnig á í ræðu minni að ef haldið verður utan um fjárlagaheimildir með sama hætti á árinu 2012 og 2013, eins og gert var á árinu 2011 og lokafjárlagafrumvarpið leiðir í ljós, er ekki hægt að tala um að þessi skuldasöfnun stöðvist. Það er svo langur vegur frá. Það kemur fram í lokafjárlögunum sjálfum að það er farið fram úr afgreiddum útgjöldum sem nemur 54 milljörðum. Ef við höfum slík lausatök áfram í ríkissjóðnum erum við langan veg frá því að geta talað um skuldlausa fjárlagagerð á árinu 2013 og 2014, því miður.



[15:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lausatökin hér eru nú ekki meiri en svo að við erum búin að vinna okkur út úr þeim halla sem við getum öll verið sammála um að hafi verið brjálæðislegur yfir í það að vera búin að ná jöfnuði á næsta ári. Það hlýtur, virðulegi forseti, að vera stóra málið. Menn hljóta, sama hvar þeir standa í flokki, að fagna þeirri niðurstöðu, ég trúi ekki öðru.

Virðulegi forseti. Við erum líka enn að súpa seyðið af hruninu sem hér varð á árinu 2008, hruni fjármálakerfisins og hruni gjaldmiðilsins. Við höfum verið að fá ansi marga reikninga þess vegna í höfuðið, þar á meðal SpKef eins og fram kom hér áðan. Þess vegna kemur það inn á óreglulega liði og kemur inn í ríkisreikning og lokafjárlögin. Vonandi er það líka síðasti reikningurinn sem við fáum úr þessu eftir hrunið með þessum hætti.

Hv. þingmaður vísaði í orð mín sem ég lét falla á þingi um daginn þar sem verið var að ræða skýrsluna um framlögin í bankakerfið. Það er rétt hjá honum, ég sagði að 28% af skuldum ríkisins væru vegna hruns fjármálakerfisins beint, þ.e. þetta voru hin beinu framlög inn í bankana og skuldir sem eru tilkomnar út af því. Síðan eru ótaldar skuldirnar, og hinar skuldirnar má vissulega rekja til annarra afleiðinga og allra hliðaráhrifanna sem hrunið hafði, þannig að það sé haft algjörlega rétt eftir mér. Þetta voru 28% af beinum kostnaði.

En hliðarafleiðingarnar hafa verið stórkostlegar eins og hv. þingmaður veit, virðulegi forseti, það er það sem við erum að gjalda fyrir með töluverðum skuldum. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt á það ofurkapp að stöðva skuldasöfnunina til að við getum farið að greiða þær skuldir hratt og örugglega niður.



[15:49]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að stöðva þá skuldasöfnun. En ég ítreka þá skoðun mína í ljósi þess sem ég sagði í ræðu minni að ég hef fulla ástæðu til að óttast það eða vera með beyg í brjósti gagnvart því að við séum langan veg frá því að ná þeim tökum á fjármálum ríkisins sem ég held nú raunar innst inni að flestir óski eftir þótt maður sjái þess ekki nægilega vel stað í meðferð núverandi ríkisstjórnar á ríkisfjármálum, því miður.

Það er alveg hárrétt að vandamálið var gríðarlega mikið vexti. Þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að stór hluti af þeim halla sem varð á árunum 2008–2009 stafaði af einskiptisframlagi inn í Seðlabanka Íslands. Það er í sjálfu sér ekkert kraftaverk að þurfa ekki að framlengja það árlega, slíkt einskiptisframlag.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á að það liggur fyrir að þessum þætti mála er ekki lokið. Það er til dæmis ekki króna inni í fjáraukalagafrumvarpinu að því sem lýtur að úrbótum eða endurgerð á fjárhagslegri stöðu Íbúðalánasjóðs. Þar hefur maður heyrt af umræðum, m.a. í fjárlaganefnd, fjárhæðir allt að 16 milljörðum kr. Það má spyrja: Hvernig ætla menn að fara í gegnum það? Á að taka það inn í fjáraukalög ársins 2012 við 2. umr.? Eða ætla menn að fara enn og aftur þá sömu leið að geyma sér að taka á þeim vanda og birta hann almenningi þar til við fáum ríkisreikning fyrir árið 2012 og birta það einhvern tímann upp úr miðju ári á árinu 2013?

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni ekki vinna með þeim hætti og býst því þar af leiðandi við að á þessum málum verði tekið við 2. umr. fjáraukalagagerðarinnar.



[15:51]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011. Enn og aftur gerist það sem eru svo sem engar fréttir að lokafjárlög eru lögð fram löngu seinna en ríkisreikningur, sem er auðvitað bagalegt. Það á ekki að vera þannig — lokafjárlögin eru reyndar bara þingskjal með ríkisreikningi, þannig að það þarf að verða breyting á því.

Ef ég sný mér að frumvarpinu sjálfu kemur fram í 1. gr. frumvarpsins — ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar um málið — að verið er að bregðast við svokölluðum mörkuðum tekjum, að mestu leyti, þ.e. að sækja um útgjaldaheimild löngu eftir að hún er samþykkt. Sem undirstrikar það hversu mikilvæg sú breyting er sem unnið hefur verið að í góðri samvinnu fjármálaráðuneytisins og hv. fjárlaganefndar um að allir þeir mörkuðu tekjustofnar sem unnt er að setja beint inn í ríkissjóð fari þangað inn. Ekki þarf að hafa mörg orð um það. Þá getur maður komið að því hver aðkoma og geta þingsins er til að gera breytingar á því frumvarpi sem er lagt fram, en hún er nánast engin vegna þess að það er búið að ráðstafa þeim fjármunum sem hér um ræðir og ekki er hægt að bregðast við því.

Síðan mundi ég halda að lokafjárlög fyrir árið 2011 yrðu samþykkt einhvern tímann eftir áramót án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það, en það er svona reynslan í gegnum árin. Nú á þetta eftir að fara til umsagnar hjá Ríkisendurskoðun og svo í framhaldi af því sýnist mér að það mundi hugsanlega dragast fram yfir áramót.

Ég geri mér hins vegar væntingar um það, og hef kannski engar efasemdir um það heldur, að það sem muni gerast við þessi lokafjárlög verði sams konar vinna og var farið í við lokafjárlög 2010. Í þó nokkuð langan tíma var lögð töluverð vinna í það af hálfu hv. fjárlaganefndar. Hv. fjárlaganefnd átti einmitt mjög gott samstarf við fjármálaráðuneytið þar sem voru gefnar skýringar á þeim hlutum eða fjárhæðum sem eru ýmist felldar niður, felldar niður að hluta eða færðar yfir. Sú vinna var mjög fín í fyrra. Ég sat fund bæði með fjármálaráðuneytinu og eins með Ríkisendurskoðun þar sem farið var í gegnum þetta, og það voru engar athugasemdir gerðar við það. Það er auðvitað mjög mikilvægt að unnið sé með þeim hætti áfram. Ég hef eins og ég sagði áðan engar efasemdir um að svo verði.

Það sem ég staldra aðeins við í upphafi máls míns eru þessir 4,9 milljarðar sem er niðurfærsla á eignarhlut ríkissjóð í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem eru gjaldfærðar í reikningnum. Ég geri ekki athugasemd við niðurfærsluna sem slíka vegna þess að væntanlega hefur hún verið tekin á þeirri forsendu, sem kemur reyndar fram, að eignarhluturinn sé ekki meira virði. Og þess vegna sé hann færður til raunvirðis.

Það sem ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við er að sá gjörningur, þ.e. niðurfærslan á eignarhlutnum, hefur aldrei verið kynnt fyrir hv. fjárlaganefnd, aldrei komið þar til tals af hálfu iðnaðarráðuneytisins eða neinna þeirra sem um þetta mál fjalla. Það hlýtur því að þurfa að kalla á yfirsýn með ríkisfjármálunum í heild sinni. Það er mjög sérstakt að verið sé að færa 5 milljarða niðurfærslu út úr þeim sjóði án þess að hafa nokkurn tímann komið til umræðu í hv. fjárlaganefnd sem fer, eins og allir vita, yfir þessa hluti.

Síðan getum við svo sem endalaust rætt um árangurinn, eins og gert var í andsvörum og svörum hæstv. ráðherra við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég vil nálgast þetta út frá því hvert verkefnið er í raun og veru. Verkefnið er gríðarleg skuldsetning ríkissjóðs og það er gríðarlega mikilvægt að við förum að greiða niður skuldir. Við sjáum hvernig það hefur verið undanfarin ár. Í raun og veru eru fjárlög og fjáraukalög, þegar er búið að samþykkja þau, sem eru þá heildarfjárheimildir viðkomandi árs, þær eru bara væntingar um það sem muni gerast á komandi ári. Hins vegar er ríkisreikningur og lokafjárlög niðurstaðan sem kemur út úr rekstri viðkomandi árs. Það sjáum við klárlega í þessu máli þar sem fjárlög og fjáraukalög gerðu ráð fyrir að rekstur ríkissjóðs mundi kosta 527 milljarða en niðurstaðan er hins vegar tæpir 576 milljarðar, það skeikar um tæpa 50 milljarða.

Síðan má halda því fram, og það er auðvitað rétt, að kannski er stærsti hlutinn af því einhvers konar einskiptisaðgerðir, sem klárlega er í þessu tilfelli. En við megum samt ekki ganga út frá því að þeim sé lokið. Þær munu að mínu mati halda áfram að koma fram, því miður. Besta dæmið um það er eins og kom fram hér áðan fjárþörf í Íbúðalánasjóði upp á mjög háar tölur og svo mætti eflaust telja margt fleira.

Mig langar aðeins að staldra við verkefnið sem er fram undan. Ég hef sagt það áður að ég tel mjög mikilvægt, og ég er sammála hæstv. ráðherra, að við þurfum ekki að deila um það að við þurfum að ná tökum á að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hvernig gerum við það? Ég held að það sé lífsnauðsynlegt eða bráðnauðsynlegt fyrir Alþingi að setja sér svokallaða fjármálareglur til að setja ákveðin bönd á stjórnmálamennina á hverjum tíma, sama hvaðan þeir koma, því að verkin og það sem verið er að gera sýnir manni að oft á tíðum er ekki mikill skilningur á því.

Ef við förum yfir fjárlögin fyrir árið 2013, yfir svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar — ég ætla ekki að leggja mat á það hversu góð eða slæm hún er — þá er gert ráð fyrir að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum og fá arðgreiðslur út úr þeim fyrirtækjum til að hrinda af stað þessari fjárfestingaráætlun. Þó er ákveðinn varnagli á því að ekki megi raska því að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum, en það hafa því miður ekki allir hæstv. ráðherrar mjög mikinn skilning á því. Það kom berlega fram í umræðum við 1. umr. um fjárlögin fyrr í haust.

Síðan verður að spyrja þeirrar spurningar, þegar verið er að selja eignarhluti í fyrirtækjum eða eignir ríkisins á annað borð, hversu skynsamlegt það er að setja þær í aukinn rekstur í staðinn fyrir að greiða niður skuldir. Mikið er talað um hvað þurfi að gera en verkin sýna aðra vegferð. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Það verður að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs og það verður að setja fjármálareglur til að gera það, því annars er verið að velta vandamálunum inn í framtíðina á komandi kynslóðir. Það blasir einhvern veginn við að mjög mikilvægt er að fara yfir þessi mál.

Þegar ég kem að því sem snýr að umframútgjöldum þar sem afgangsheimildir eru færðar á milli, þá verðum við að átta okkur á því að afgangsheimildirnar eru margar kunnuglegar að því leyti til að það eru ákveðnir liðir — við getum nefnt Ofanflóðasjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra og fleira og fleira sem eru með ákveðin framlög inni. Þeim liðum er ekki ráðstafað í neinar framkvæmdir aðrar en þessar þannig að mikilvægt er að átta sig á því að umfangið í rekstri ríkisins í mörgum stofnunum hefur verið að ganga á svokallaðan uppsafnaðar heimildir, eða eins og stundum hefur verið sagt, að ganga í hlöðurnar. Þær eru margar hverjar því miður að tæmast hjá mörgum stofnunum. Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þó svo að afgangsheimildir sem færast á milli lækki ekki nema um 3 milljarða þá segir það ekki allt um það þótt talan sé ekki hærri sem því nemur, því það mun vigta mjög mikið á aðra. Það er mikilvægt að það verði gert líka með þeim hætti, og það verður vonandi gert núna eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að til umfjöllunar verði þessi óskrifaða regla sem er að það megi færa 10% að hámarki en síðan eru 4% sem má safna upp á viðkomandi ári. En það eru samt ákveðnir liðir hér sem vekja upp spurningar, ég ætla svo sem ekki að fara yfir þær en mikilvægt er að það verði gert við meðferð málsins í hv. fjárlaganefnd.

Síðan er það hið kunnuglega, að ekki er tekið á þeim vanda sem snýr að til dæmis Landspítalanum, sem er nú kannski skýrasta og besta dæmið, sem er með um tæplega 3 milljarða í uppsafnaðan halla og er settur í svokallaða frystibrúsameðferð á meðan viðkomandi stofnun heldur sig innan fjárlaga. Og það eru fleiri stofnanir sem falla þarna undir. Það hefur margoft verið talað um það í umræðum um fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög að tekið verði á því. Viðkomandi forstöðumönnum verði gert að ganga frá þeim hlutum, hvort sem þeir þurfa að vera með stofnunina hallalausa í tvö, þrjú eða fjögur ár, og það sama gildi í raun og veru um alla. En það býður upp á geðþóttaákvarðanir eins og þetta er, að sumir geti fengið frystan hala en aðrir ekki.

Við sáum það á heilbrigðisstofnunum á síðasta ári. Sumir fóru mjög stíft eftir því sem lagt var upp með, aðrir ráku stofnanir inn í halla og voru þær þá settar í svokallaða frystibrúsameðferð eins og ég hef kallað það. Það er mjög ósanngjarnt. Þetta er hvati til að verðlauna skussana, eins og ég hef stundum sagt. Það megum við ekki gera á þann hátt eins og hefur verið gert. Það þarf að vera hafið yfir vafa hvernig staðið er að þessum hlutum.

Mig langar til að koma aðeins inn á eitt í restina. Maður staldrar við — ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í tæknilega vinnu gagnvart þessu frumvarpi fyrr en það kemur í nefndina og ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra geti brugðist við einhverjum einstaka hugleiðingum mínum. En það vekur athygli mína eftir að ég fór lauslega í gegnum þetta að mikið er um svokallaðar millifærslur, þ.e. sem menn eru að færa út af safnliðum hjá viðkomandi ráðuneytum. Kannski eru eðlilegar skýringar á þessu, væntanlega eru þær það. Hins vegar vekur það athygli að mjög mikið er um millifærslur út úr óskiptum pottum. Það hefur trúlega eðlilegar skýringar.

Þó staldra ég við eitt atriði sem ég mun fara betur yfir og ræða í nefndinni. Sett var inn í fjáraukalög ársins 2011 nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði, verkefnið Nám er vinnandi vegur held ég að sé kallað. Það er ákveðinn skiptipottur sem er síðan deilt niður á menntastofnanir eftir því hvað þær taka mikinn þátt í þessu verkefni. Heimildin inni í þessu er 220 milljónir. Ráðstafað er úr pottinum eða millifært úr honum 210 milljónir og heimild skilin eftir upp á 10 milljónir, síðan er reikningur upp á 26 milljónir. Þannig að liðurinn er skilinn eftir í mínus 16 milljónum. Þetta skil ég ekki sjálfur prívat og persónulega svona í fyrstu atrennu við að fara yfir þennan hluta.

Það vakna auðvitað upp spurningar sem ég fæ væntanlega svör við þegar við fjöllum um þetta mál nánar, hvort þetta sé einhver umsýslukostnaður eða hvernig það má vera að þegar verið er með ákveðinn millifærslulið í fjáraukalögunum, eða þá í fjárlögunum, skuli hann koma negatífur út. Það finnst mér mjög sérkennilegt að skildar eru eftir 10 milljónir en síðan er settur reikningur upp á 26 milljónir, sem gerir það að verkum að niðurstaðan og staðan í árslok, sem er millifærð yfir á árið 2012, skuli vera negatíf. Ég tel mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari vel yfir þetta til að vita hvað þarna liggi að baki. Við höfum heyrt og fengið gagnrýni hjá Ríkisendurskoðun sem hefur komið skýrt fram þar sem hún hefur iðulega bent á að oft sé verið að færa — eða hafi verið fært, að minnsta kosti, ég ætla ekki að taka sterkar til orða, út úr svokölluðum millifærsluliðum, sem snýr að því að ráðuneytið færi inn á aðalskrifstofurnar af verkefnum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég vonast til og vænti þess að hv. fjárlaganefnd muni fara eins ítarlega og vandlega yfir þetta frumvarp og gert var árið 2010. Þar mun þeim spurningum sem ekki er svarað hér í þessari umræðu verða svarað. Ég treysti á að gott samstarf verði við ráðuneytið hér eftir sem hingað til og ég tel gríðarlega mikilvægt að Ríkisendurskoðun bakki okkur upp í þeirri vinnu sem fram undan er.



[16:06]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir óska nýjum fjármálaráðherra velfarnaðar í starfi og vonast eftir góðu samstarfi við hana eins og fjárlaganefnd hefur átt við fyrirrennara hennar. Það skiptir miklu máli að samstarfið sé gott vegna þess að nú hefur verið ráðist í breytingar á fjárreiðulögum. Það er ágæt samstaða um það í fjárlaganefnd að auka aga og breyta vinnubrögðum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fjármálaráðherra blandi sér í þá vinnu og stígi þau skref sem fjárlaganefndin hefur lagt til og talað fyrir undanfarin ár.

Það spannst smáumræða um skuldastöðu ríkissjóðs áðan á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og það er rétt að það er áhyggjuefni hverju sem um er að kenna. Ríkissjóður var skuldlaus á árunum 2007–2008 en ég get ekki látið hjá líða að minnast á að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók til starfa árið 2007 voru ríkisútgjöld aukin um heil 20%. Ég held að sá gjörningur hafi átt stóran þátt í því að skapa þann vanda sem við glímum við í dag. Að vísu voru aðrar hugmyndir um hvernig færi á Íslandi. Ég held að margir hafi samt séð að þenslan í hagkerfinu mundi leiða af sér það hrun sem svo varð.

Ég held að vert sé að geta þess einnig að Svíar gengu í gegnum sambærilega erfiðleika fyrir um 20 árum og þeir tóku verulega til í sinni fjárlagagerð. Þeir juku agann og nú dettur engum manni í hug að lofa upp í ermina á sér, lofa fjármunum sem ekki eru til staðar í framkvæmdir. Ráðherrar hafa ekki heimild til þess að útdeila fjármunum eins og því miður er enn þá hér á landi. Við skulum vona að það myndist breið og góð samstaða um að breyta fjárreiðulögum. Ég held að það sé kominn tími til, ef ég man rétt þá var það síðast gert í lok síðustu aldar, í kringum 1998.

Staða fjárheimilda í árslok 2011 er neikvæð um 31,3 milljarða kr. og svarar það til um 5,8% af heildarfjárheimildum ársins. Þessi staða skiptist í 23,3 milljarða kr. afgangsheimildir og 54,6 milljarða umframgjöld. Umframgjöldin skýrast að stærstum hluta af um 37 milljarða kr. óreglulegum og einskiptisuppgjörsfærslum sem flestir færast á liði undir fjármálaráðuneytinu.

Það var ekki gert ráð fyrir fjárheimildum á móti þessum útgjöldum í fjárlögum eða fjáraukalögum. Má segja að það hafi verið erfitt að spá fyrir um þau að nokkru marki þar sem um er að ræða gjaldfærslur í ríkisreikningi sem ráðast af ákvörðunum um forsendur reikningshaldslegs uppgjörs eftir að árið er liðið. Ég vil samt meina að stór hluti þess sem féll á SpKef hafi verið fyrirsjáanlegur. Ég tek undir það sem hefur verið sagt í umræðunum, 16 milljarða sveifla á þeim samningi sem fjármálaráðuneytið og Bankasýslan gerðu sín á milli er eitthvað sem þarf að skoða og breyta í framtíðinni.

Í mínum huga lá fyrir að tapið mundi lenda með einum eða öðrum hætti á ríkissjóði, jafnvel þó að kannski hafi verið erfitt að gera sér í hugarlund að það yrði jafnmikið og raun ber vitni. Þetta fellur undir svokallaðar ríkisábyrgðir og þar er tilgreindur stofnkostnaður fyrir Sparisjóð Keflavíkur upp á 19.198 milljónir en ef þar bætist við niðurfærsla hlutafjár fáum við þessa rúmu 20 milljarða sem getið er í lokafjárlagafrumvarpinu.

Það er annað sem ég hef áhyggjur af og vert er að skoða. Rekstrarvandi Landspítalans upp á 2,9 milljarða er áfram færður á milli ára. Það er ekki gerð sú krafa að ná hagræðingunni og klára hallann heldur verður það verkefni komandi kynslóða og væntanlega næstu ríkisstjórnar að taka á þessum vanda. Það er stærsti liðurinn en það má einnig benda á minni liði eins og lögreglustjórann á Suðurnesjum þar sem um 142 millj. kr. halli er færður á milli ára. Það er vissulega jafnvægi innan ársins en embættinu er gert að dragnast með hallann áfram. Það er enn meira áhyggjuefni að okkar ágætu háskólar á landsbyggðinni, Hvanneyri og Hólar, bæta enn á þann vanda sem fyrir er.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til mars árið 2012 segir að það sé vissulega svigrúm til þess að minnka þann vanda sem blasir við. Því miður virðist traust á Ríkisendurskoðun hafa brostið að einhverju leyti en ég hvet ríkisstjórnina og Alþingi allt til þess að sameinast um að auka á trúverðugleika stofnunarinnar. Hún er í rauninni okkar eina tæki til þess að fylgja eftir þeim fjárheimildum sem gefnar eru í fjárlögum og eina tækið til eftirfylgni um meðferð á fjármunum.

Þetta skiptir gríðarlegu máli við að ná fram þeim aga í ríkisfjármálum sem við höfum talað um. Annað vandamál sem blasir við er að ríkisstjórnin sjálf setti sér markmið í skýrslu fjármálaráðuneytisins um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árin 2009–2013. Vísitalan mælist í hæstu hæðum. Það átti að vera búið að ná henni niður í 1,6% fyrir árið 2012 en hún mælist vel yfir 4,4% og hefur verið stöðug þar í allnokkurn tíma. Ef eitthvert tæki er betra en annað til þess að minnka sveiflur í hagkerfinu þá er það agi í ríkisbúskapnum og honum verður einfaldlega ekki náð nema allir flokkar á Alþingi tileinki sér ný vinnubrögð og þá tel ég mikilvægt að horft verði til Svíþjóðar eins og ég minntist á áðan.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Ég vænti góðs samstarfs í fjárlaganefnd eins og hefur verið að undanförnu. Það þarf að fara í gegnum marga liði og bera saman á milli ára. Það er mikið um tilfærslur þar sem fjárheimildir eru færðar til sem bendir til þess að við þurfum að stíga þau skref sem þarf til þess að auka agann vegna þess að ég tel að við þurfum að horfa til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hefur bent á að slíkt gangi ekki til lengdar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.