141. löggjafarþing — 25. fundur
 24. október 2012.
aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, fyrri umræða.
þáltill. ÁI o.fl., 228. mál. — Þskj. 239.

[17:14]
Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er að finna á þskj. 239, þetta er 228. mál þingsins. Tillagan er nú flutt í annað sinn. Að henni standa 17 þingmenn úr öllum flokkum og hreyfingum innan þings, utan Sjálfstæðisflokksins.

Markmið tillögunnar er að þegar verði hafist handa við að aðskilja hefðbundna viðskiptabankastarfsemi og áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi. Flutningsmenn telja að nú sé lag. Fjárfestingarbankastarfsemi er enn lítil í íslensku bönkunum, talin vera um 5%, en var komin upp í um og yfir 30% við hrun og benda flutningsmenn á að þess vegna muni aðskilnaður ekki verða bönkunum dýr, þetta sé einföld aðgerð og hún muni ekki heldur hafa truflandi áhrif á starfsemi bankanna.

Síðast en ekki síst teljum við flutningsmenn tillögunnar að rétt sé að ganga þetta skref nú til fulls áður en fjárfestingarbankastarfsemi tekur aftur öll völd í íslensku bankakerfi en ljóst er að þótt hún sé lítil enn sem komið er fer hún vaxandi.

Í tillögugreininni felst að bankamálaráðherra skipi nefnd sem fari yfir starfsemi bankanna og fjármálamarkaðarins í því skyni til að aðskilja þessa starfsemi, líti til nágrannalandanna hvað er að gerast þar og skili niðurstöðu eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. En ljóst er af því sem gerst hefur á undanförnum dögum að það þarf kannski alls ekki svo langan tíma. Það gæti verið að hægt væri að vinna þetta verk miklum mun fljótar vegna þess hver þróunin hefur orðið bara frá því þessi tillaga var lögð fram nú öðru sinni í haust.

Til hvers að aðskilja þessa starfsemi, kynni nú einhver að spyrja? Aðskilnaður þessara tveggja ólíku tegunda fjármálastarfsemi er af flestum talin muni minnka hefðbundna kerfisbundna áhættu í fjármálakerfinu fyrir þjóðarbúið. Sumir benda auðvitað á að aðskilnaður leysi ekki allan vanda sem fjármálakerfi getur valdið í efnahagslífinu og heldur ekki allan þann vanda sem fjármálakerfið á við að stríða. En aðrir benda á að þetta sé algjör forsenda fyrir stöðugleika í efnahagslífinu og fyrir heiðarlegt viðskiptalíf. Með aðskilnaði er nefnilega tryggt að sparifé almennings verði ekki aftur nýtt sem spilapeningar í áhættusömum útlánum og fjárfestingum bankaeigenda. Með aðskilnaði er komið í veg fyrir að baktrygging ríkisins á venjulegum innlánum, sem sagt sparnaði, verði misnotuð aftur, þannig að tap af á áhættusömum viðskiptum með útlánum og fjárfestingum falli ekki aftur á skattgreiðendur og ríkissjóð.

Frú forseti. Hefðbundinn sparnaður sem lagður er á banka til ávöxtunar, venjuleg innlán og útlán til heimila og fyrirtækja, flokkast undir venjulega bankastarfsemi. Þau innlán eru eins og við þekkjum baktryggð með einhverjum hætti með ríkisábyrgð. Þegar saman fara slík baktryggð innlán, spákaupmennska og áhættumiðuð fjárfestingarstefna, verður til eitruð blanda sem getur lagt og hefur lagt heilt fjármálakerfi í rúst með alvarlegum afleiðingum fyrir heimili og ríkissjóð, afleiðingum sem við þekkjum svo vel hér á landi.

Það er enginn vafi í huga þeirra sem mest hafa skoðað þetta að rekja megi afleiðingar bankahrunsins hér á landi m.a. til þess sem ég kalla hér eitraða blöndu.

Í skýrslu sem hv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram í apríl sl. á 140. þingi um framtíðarskipan fjármálakerfisins er fjallað um þennan aðskilnað á bls. 84–85. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á því leikur ekki vafi að einmitt óheppileg tengsl milli innlánsstarfsemi og fjárfestingarstarfsemi átti snaran þátt í rótum kreppunnar 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis komst einnig að þeirri niðurstöðu að íslenskir bankar hefðu í auknum mæli snúið sér að fjárfestingarbankastarfsemi í aðdraganda hrunsins.“

Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að fylgjast grannt með framvindu þessa máls á alþjóðavettvangi áður en ákvarðanir eru teknar hér á landi um róttækar breytingar á skipulagi banka og annarra fjármálafyrirtækja. Einsætt virðist að efla megi fjármálastöðugleika með skýrari greinarmun á þessum tveimur þáttum bankastarfseminnar. Sem stendur eru hættumerki um óheppileg tengsl þessara tveggja starfsþátta ekki sérstakt áhyggjuefni í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi.“

Ég vek athygli á því að ég er að vitna hér til skýrslu sem lögð var fyrir þingið í apríl sl. Þar segir sem sagt að ekki sé hættumerki „í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi“. Síðan segir að lokum, með leyfi forseta:

„Í ljósi dýrkeyptrar reynslu er ástæða til að vera vel á verði og útiloka ekki aðgreiningu eða aðskilnað þessara starfsþátta sem framtíðarfyrirkomulag, ekki síst ef þróunin stefnir í þá átt á alþjóðavísu.“

Í greinargerð með tillögunni — hún er býsna löng, frú forseti, ég hyggst nú ekki fara yfir hvert atriði í henni, hún er einar fimm blaðsíður — er rakið hvernig fullkominn aðskilnaður þessara tveggja þátta bankastarfsemi var tryggður í Bandaríkjunum eftir hrun kauphallarinnar í New York og í kjölfar heimskreppunnar sem fylgdi. Svokölluð Glass-Steagall-lög voru í gildi frá árunum 1933–1999 og fjármálakerfi heimsins fylgdu í fótspor Bandaríkjamanna í því efni, en á árinu 1999 var þeirra ekki lengur talin þörf í Bandaríkjunum. Þau voru afnumin og það tók aðeins innan við tíu ár fyrir nýja bankabólu að springa á árunum 2007–2008 frá því fjármálastofnunum var aftur heimilað að blanda saman viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi á nýjan leik.

Það er ljóst að nýjasta bankahrunið hefur kallað á endurmat beggja vegna Atlantsála um þessi atriði eins og rakið er í greinargerðinni, en þar er stiklað á stóru í þróuninni hvað varðar Bandaríkin, Bretland og Evrópuríkin, en einnig tekið fyrir umfjöllunin hér á landi.

Í stuttu máli má fullyrða að hugmyndum um aðskilnað á nýjan leik í anda Glass-Steagall-laganna hefur vaxið fylgi um allan hinn vestræna heim. Tregða bankakerfisins og meðfædd íhaldssemi fjármálalífsins, sérstaklega í Bretlandi, hefur hins vegar orðið til þess að margir leita annarra leiða en fullkomins aðskilnaðar og vilja fremur reisa svokallaðar girðingar innan sama fjármálafyrirtækis, þ.e. girða af og gera sérstaklega upp þessa áhættusömu starfsemi, sem allir eru sammála um að megi ekki blanda saman við venjulega bankastarfsemi, eða jafnvel setja fjárfestingarbankastarfsemi í sérstakt fyrirtæki ef hlutfall af rekstri fjármálastofnunarinnar er yfir tilteknu hámarki.

Þetta er mikið deiluefni og umræðuefni í Evrópu nú um stundir. Margir áhrifamenn í bankalífi vara við því að menn ætli sér ekki að ganga alla leið og útvatna tillögur sem fram hafa komið um aðskilnað. Takmarkandi reglur hafa þegar verið lögleiddar í Bandaríkjunum kenndar við Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, en í Bretlandi er staðan sú að tillögur nefndar sem kenndar eru við John Vickers, um að fjármálastofnunum verði leyft að sinna í senn viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi í aðskildum deildum innan sama bankans, hafa verið útvatnaðar verulega í frumvarpi sem hefur verið lekið til fjölmiðla. Um það standa miklar deilur. Hins vegar eru þær tillögur þannig að ekki er gert ráð fyrir að þær taki gildi fyrr en á árinu 2019.

Eins og ég sagði hafa drög að frumvarpi sem byggt er á tillögum hinnar óháðu bankanefndar John Vickers í Bretlandi lekið til fjölmiðla. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt það harðlega hversu útvatnaðar tillögurnar eru orðnar í meðförum ríkisstjórnarinnar er Mervyn King, seðlabankastjóri Breta, og Sir John Vickers sjálfur, sem var formaður nefndarinnar. Í leiðara Financial Times í síðustu viku er tekið undir þá gagnrýni um útvötnun tillagnanna. Þetta er mikið hitamál í breskri pólitík og Ed Miliband, formaður breska Verkamannaflokksins, hefur lýst því yfir að ef bankarnir breyta ekki stefnu sinni og menningu verði þeim skipt með lagaboði komist Verkamannaflokkurinn til valda eftir næstu kosningar. Þessi harða umræða byggir kannski ekki síst á umræðunni um LIBOR-hneykslið svokallaða í Bretlandi. Ed Miliband segir að banka eigi ekki að „reka eins og spilavíti“ heldur eigi þeir að „einbeita sér að kjarnastarfsemi svo sem lánum til viðskiptavina sinna“. Það er svo sannarlega ástæða til að taka undir það.

Ég vil, frú forseti, minna á að 2. október sl. skilaði nefnd undir forustu finnska seðlabankastjórans, Erkki Liikanens, tillögum um þessi málefni. Nefndin leggur til að fjárfestingarstarfsemi sem er yfir tilteknum mörkum miðað við stærð bankans skuli skilin frá hefðbundinni bankastarfsemi og vera á hendi sérstaks lögaðila eða félags en innan sömu samsteypu. Það er sem sagt ekki lagður til fullkominn aðskilnaður í anda Glass-Steagall-laganna. Þarna er fylgt svipuðum leiðum og farnar hafa verið í Bandaríkjunum og tillögur eru uppi um í Bretlandi.

Frú forseti. Í greinargerðinni er það rakið hvað varðar útlán til tengdra aðila og glæfralegar og óarðbærar fjárfestingar í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana, hvernig spilað var með tryggð innlán með þeim afleiðingum sem við hér þekkjum. Þegar á árinu 2010 töldu margir þingmenn hér í þessum sal brýnt að taka af skarið um stefnu stjórnvalda í þessum efnum og banna að hefðbundin viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi væri rekin í sama félaginu. Meiri hluti viðskiptanefndar komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að svo komnu máli á árinu 2010 að leggja í slíkar breytingar. Vildu menn þá bíða eftir því hvað gerðist í öðrum löndum.

Eins og ég nefndi áðan var í skýrslunni sem við fengum í vor fjallað um kosti og galla þess að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemina frá viðskiptabankastarfseminni. Það er ljóst að orðalagið í þeirri skýrslu olli talsverðum vonbrigðum, alla vega þeirrar sem hér stendur, enda þótt þar sé alveg tekið undir það hversu stóran hluta ábyrgðarinnar á bankahruninu má rekja til þessa samspils.

Á umræðuþingi sem Félag hagfræðinga og viðskiptafræðinga hélt í byrjun september lýsti forstjóri Fjármálaeftirlitsins því yfir að henni fyndist „ekki alveg tímabært að svo stöddu“ að aðskilja þessa þætti og vísaði hún þar til vinnu nefndar á vegum Evrópusambandsins. Ljóst má því vera að Fjármálaeftirlitið mun ekki hafa frumkvæði að breyttu regluverki hvað þetta varðar. Þá hefur greiningardeild Arion banka varað við því að Íslendingar taki þetta skref.

Frú forseti. Það nýjasta sem gerst hefur í þessu máli er að núna í vikunni skilaði þriggja manna nefnd skýrslu, sem hv. bankamálaráðherra skipaði síðastliðið vor þar sem átti að skoða heildarumgjörðina í bankakerfinu hér. Þar er fjallað um aðskilnað, en því miður er svo vægt til orða tekið að aðeins er sagt að það eigi að athuga „gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.“ Þarna er sem sagt tekin sama lína og er í Evrópusambandinu.

Hins vegar hefur bankamálaráðherra, hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagt að hann telji að ganga eigi lengra í þessum efnum.

Frú forseti. Tillögur Liikanen-nefndarinnar fara nú í langvinnt ferli umsagna og ráðslags og ljóst er að það mun taka langan tíma áður en þær verða að veruleika og þær kunna að verða útvatnaðar verulega á þeirri vegferð eins og gerst hefur og er að gerast með bresku tillögurnar.

Við hér á Íslandi höfum hins vegar einstakt tækifæri núna til þess að stíga þetta nauðsynlega skref til fulls. Það er nauðsynlegt að mati flutningsmanna þessarar tillögu að Alþingi taki af skarið og segi hug sinn í þeim efnum. Þess vegna er þessi tillaga flutt.



[17:29]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu um þessa tillögu til þingsályktunar sem hún flytur ásamt fleiri þingmönnum. Það er orðin einhver árátta, og hefur svo sem verið frá því að þessi ríkisstjórn tók við fyrir tæpum fjórum árum, að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt, nefna hann alltaf til sögunnar sem einhvern blóraböggul og einhvern til að skamma.

Hv. þingmaður hélt þeirri reglu rétt áðan í ræðunni, sagði að hér væru þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. En það vill svo til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt efnahagstillögur í tvígang eða þrígang og þetta atriði er þar inni. Það er ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafnframt á þessari tillögu, hann er þegar með þetta í efnahagstillögum sínum. Þegar þetta mál var lagt fram nýverið var ég ekki spurður hvort ég vildi vera meðflutningsmaður.



[17:30]
Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að það flokkist undir áráttu að kenna Sjálfstæðisflokknum um alla mögulega hluti. Ég tel að það sé ósköp eðlilegt að rifja upp aðkomu Sjálfstæðisflokksins að þeirri eitruðu blöndu viðskiptalífs og stjórnmála sem hér ríkti fyrir hrunið. Ég orðaði það hins vegar á engan hátt hér áðan. Hv. þingmaður má ekki vera svo viðkvæmur. Það sem ég sagði var að 17 þingmenn úr öllum pólitískum flokkum og hreyfingum sem hér eru á Alþingi standi að þessari tillögu utan þingmanna og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er staðreynd, það er satt og rétt og það er engin áráttuhegðun fólgin í því að nefna það. Það er sjálfsögð kurteisi.

Hv. þingmaður hefur verið lengur en ég í þessum sölum og þekkir hvernig kallað er og óskað eftir meðflutningi úr þingflokkunum. Það er gert með því að ýmist starfsmenn eða 1. flutningsmenn senda tölvupósta til formanna þingflokka og biðja kurteislega um að leitað verði stuðnings. Síðan innir maður eftir því hvort einhver stuðningur er en í þessu tilfelli var því ekki svarað og enginn hefur lýst áhuga á því.

Hv. fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því hins vegar yfir í viðtali að Sjálfstæðisflokkurinn væri með tillögur af þessu tagi og þar að auki væri verið að skoða þetta í kerfinu og af því mátti ráða að henni þætti óþarft að flytja þessa tillögu.

Ég tel hins vegar að það sé mjög brýnt. Það er gott ef Sjálfstæðisflokkurinn verður með okkur í að samþykkja þessa tillögu, ég vona það og les það út úr orðum hv. þingmanns að það sé vilji Sjálfstæðisflokksins sem mun þá væntanlega styðja framgang þessarar tillögu þegar hún kemur hér til atkvæða.



[17:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lagt fram á Alþingi fjöldann allan af málum. Stundum er ég einn með þau og stundum með öðrum þingmönnum og ég er ekkert að telja það upp þó að hv. þingmaður eða hennar flokkur hafi ekki verið meðflutningsmenn. Að mínu mati er þar í sumum tilfellum um ágætismál að ræða, en kannski ekki að mati hv. þingmanns.

Varðandi það að hér hafi verið eitruð blanda af pólitík og atvinnulífi þá mótmæli ég því. Það var meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð fyrir því að selja ríkisbankana sem var virkilega eitruð blanda af atvinnulífi og stjórnmálum þar sem Alþingi kaus bankaráðsmenn. Alþingi kaus bankaráðsmenn þegar ég kom inn á þing 1995 og það kalla ég eitraða blöndu. En Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir því að selja ríkisbankana og minnka áhrif Alþingis á fjármálamarkaði.

Ég ætla svo ekkert að tala um þá blöndu sem nú er í gangi, hvort hún er eitruð eða sæt. Ég ætla ekkert að fara að egna til óvinafagnaðar með það.



[17:33]
Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði nú frekar kosið að andsvör og að þessi stutta umræða hefði fjallað um efni tillögunnar sem við ræðum. Ég vek athygli á því að á morgun, vonandi snemma dags, fáum við tækifæri til að ræða þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna, það er þeirri sölu sem hv. þingmaður nefndi hér og rakti til Sjálfstæðisflokksins en aðrir kjósa að kalla einkavinavæðingu. Við munum væntanlega komast að því hver áhrif hennar voru, til hvers hún var gerð, hverjum hún gagnaðist og hvar hún endaði, að þeirri rannsókn lokinni.

Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að það var gamalt og er algjörlega úrelt viðhorf að skipa stjórnmálamenn í bankaráð banka, fjármálastofnana eða hlutafélaga. Það er liðin tíð sem betur fer, ég tek undir það. En við skulum ræða þennan stutta tíma þá tillögu sem hér liggur fyrir um að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og venjulega viðskiptabankastarfsemi til að við getum eignast heilbrigðara fjármálalíf. Við skulum tala um einkavæðingu á bönkum við annað tækifæri.



[17:35]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ásamt hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og fleirum flutningsmaður að þessu máli. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir frumkvæði að því enda er hún 1. flutningsmaður þess og það er að mínu mati ákaflega brýnt. Eftir því sem ég hef unnið lengur með viðskiptamálin, sem flutt voru fyrir ári inn í nefndina sem áður var efnahags- og skattanefnd en heitir nú efnahags- og viðskiptanefnd, verð ég æ sannfærðari um að þetta sé eitt af brýnustu verkefnum okkar Íslendinga að taka á eftir hrun.

Við þurfum að læra af þeirri bitru reynslu sem við höfum aflað okkur og setja leikreglur samfélaginu til framtíðar sem verði því farsælli í efnahagsuppbyggingu og þeim vexti sem við væntum að verði hér á næstu árum en var fyrir hrun.

Það að aðskilja fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi felur ekki í sér að fordæma aðra starfsemina en lofa hina heldur einfaldlega þá afstöðu að þetta tvennt eigi illa saman. Það lærðu Bandaríkjamenn af heimskreppunni miklu og þar höfðu stjórnmálamenn pólitískt þrek til að skilja þar á milli. Ég tel að það sé ein af þeim lykilákvörðunum sem lögðu grunninn að áratugalöngum efnahagslegum uppgangi Bandaríkjanna og sífellt vaxandi lífskjörum þar í landi um áratugaskeið.

Illu heilli var horfið inn á aðrar brautir undir lok síðustu aldar og það hafði alvarlegar afleiðingar, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðamörkuðum. Ástæðan fyrir því að skilja þarf á milli þessarar starfsemi er sú að hún er svo eðlisólík. Annars vegar er viðskiptabankastarfsemin sem eru nauðsynlegir innviðir fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki í landinu til að hafa launareikninga sína, fá yfirdrátt þegar þannig stendur á, sækja til um fjármögnun á heimilisbílnum eða aðstoð við húsnæðisöflunina og aðrar slíkar grunnþarfir venjulegs fólks og fyrirtækja í landinu.

Hins vegar er fjárfestingarbankastarfsemin sem á að vera áhættusækin, djörf og á stundum stórtæk vegna þess að hún þarf að fjárfesta í áhættusömum verkefnum, hún þarf að vera tilbúin til að taka áhættu, tapa fjármunum, leggja undir vegna þess að hún á að vera aflvaki nýsköpunar og nýrra fjárfestinga og aukinnar framleiðni og arðs í hagkerfinu öllu. En sú starfsemi fer ákaflega illa með hinni hefðbundnu viðskiptabankastarfsemi og hætt er við því að hún geti haft mjög óeðlileg áhrif á þá starfsemi, auk þess sem hún getur auðvitað sett í hættu þá innviði sem allt samfélagið treystir á sem er hin hefðbundna viðskiptabankastarfsemi.

Þannig er það til dæmis í veruleikanum að þóknanir í fjárfestingarbankastarfsemi geta verið gríðarlega háar, t.d. við hlutabréfaútboð og aðra slíka hluti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að slíkar tekjur á fjárfestingarbankasviði verði til þess að skapa óeðlilegan þrýsting á útlánastarfsemi í viðskiptabankanum til þess að greiða fyrir fyrirtækjum sem skapa mikla arðsvon fyrir fjárfestingararminn í samstæðunni.

Einnig er full ástæða til að hafa áhyggjur af því, í þeirri þríokunarstarfsemi sem er á fjármálamarkaði, þar sem þrjú fjármálafyrirtæki drottna yfir fjármálamarkaðinum, að allt samkeppnisumhverfi á fjárfestingarbankamarkaði sé brogað og að stór og öflug fyrirtæki geti notað aðstöðu sína til að gera erfitt fyrir um samkeppni á þessum markaði og nýjum aðilum erfitt að hasla sér völl sem hefur líka vond efnahagsleg áhrif fyrir samfélagið í heild sinni með því að draga úr samkeppni á þessu mikilvæga sviði. Síðast en ekki síst er það áhyggjuefni, sem fólk um heim allan hefur haft áhyggjur af, þ.e. hættan á því að innstæður í viðskiptabönkum verði veðandlag fyrir stöðutöku í fjárfestingarbankastarfsemi og menn hirði hagnaðinn af áhættusömum viðskiptum þegar vel gengur en síðan þegar illa gengur þá sé tapið þjóðnýtt með ríkisábyrgðum á innstæðum og öðrum slíkum þáttum sem eðlilega fylgja viðskiptabankastarfseminni.

Um heim allan eru menn að gera tillögur um að draga einhverjar línur þarna á milli, reisa einhverjar skorður við því að þessi starfsemi fari saman eða eignarhald. En flestum öðrum svæðum er sá vandi á höndum að þar eru mjög flókin tengsl á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi, eins og í Englandi, þar sem ein skýrslan hefur komið fram, eins og í Bandaríkjunum, eins og í Evrópusambandinu, og þess vegna þurfa menn þar að sníða tillögur sínar að þeim veruleika sem við blasir. Þeir geta sannarlega ekki gengið jafnlangt og við Íslendingar höfum tækifæri til að gera núna.

Ég held að við höfum einstakt tækifæri til að taka á þessu. Ég verð að lýsa mig ósammála því sem kom fram hjá Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóra finnska Fjármálaeftirlitsins, á dögunum um það að nú væri fjárfestingarbankastarfsemi hér í lágmarki og við gætum út af fyrir sig bara tekið á þessum aðskilnaðarþætti ef og þegar sú starfsemi færi að vaxa. Ég held að það væri mikið óráð að bíða þangað til vegna þess að þá eru orðnir hagsmunir í húfi. Þá verður miklu erfiðara um vik að taka hinar pólitísku ákvarðanir um aðskilnað. Þá mundu slíkar ákvarðanir bitna á fyrirtækjum sem starfa bæði á viðskipta- og fjárfestingarbankamarkaði.

Ef þessi ákvörðun yrði tekin núna, við þær aðstæður sem við búum við í dag, þá, ólíkt því sem gerist hjá flestum öðrum þjóðum, hefði hún óveruleg neikvæð áhrif á viðskiptabankana í landinu. Menn gætu einfaldlega skipulagt vöxt sinn til framtíðar miðað við það umhverfi sem við viljum að sé hér til áratuga. En ef við bíðum verða þessir bankar auðvitað komnir í hendur nýrra eigenda, alla vega sumir, og ef fjárfestingarbankastarfsemi hefur vaxið umtalsvert frá því sem nú er og afkoma af því orðin umtalsverður hluti af starfsemi þessara viðskiptabanka verður auðvitað umtalsverður þrýstingur gegn því að nokkur viðskilnaður verði gerður. Því er um að gera að sæta lagi og ég held að þessi þingsályktunartillaga og samþykkt hennar væri leið að því marki.



[17:43]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Skorað var á mig að ræða þessar tillögur efnislega, ég get alveg gert það.

Þarna togast á tvenn sjónarmið, eins og alltaf, það eru alltaf tvær hliðar á medalíunni. Annars vegar er það að íslenskt atvinnulíf er mjög lítið. Ef við mundum, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka yrðu einingarnar, sérstaklega á fjárfestingarbankasviðinu, mjög litlar og verða þar af leiðandi verr til þess fallnar að taka á þeirri áhættu sem myndast í slíkri starfsemi. Þetta er eitt sjónarmiðið.

Hitt sjónarmiðið er að það fer illa saman að taka fé sem maður aflar með sparnaði og ráðdeild, þ.e. innlán, og blanda því saman við hasar og áhættu, sem er fjárfestingarstarfsemi. Og þegar þetta er í einu fyrirtæki er það í rauninni þannig að innlánin eru að veði fyrir spennunni og áhættunni. Það fer bara ekki vel saman, frú forseti. Ég hef flutt um það margar ræður í gegnum tíðina og spurt hvað það þýddi þegar sett var inn í lögin á sínum tíma að bankar mættu eiga hlutabréf til skamms tíma. Hvað þýðir skammtími? spurði ég mörgum sinnum en fékk aldrei svar.

Ég hallast að því og er sammála því í tillögunni um að aðskilja skuli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Og ég gæti alveg hugsað mér að styðja hana. Auðvitað þarf að leita umsagna og svo skoðar maður umsagnirnar. Ef þær benda á að þetta sé ekki skynsamlegt af einhverjum ástæðum gæti ég endurskoðað þá afstöðu.

Við fyrstu sýn er ég sammála tillögunni og hefði alveg getað verið á henni þess vegna.

Ef ég ætlaði að fara í einhverjar skotgrafir, eins menn tíðka hérna, er greinargerðin með tillögunni mjög gagnrýnin á einmitt starfsemi hæstv. ríkisstjórnar, hvað hún hefur verið hægfara í málinu og hvað hún hefur lítið gert. Hún er búin að vera hérna í fjögur ár, eða tæp fjögur ár, en ég ætla ekki að hengja mig í það. Mér finnst miklu betra að menn ræði málefnalega um þessi mál. Er skynsamlegt að hafa þetta eða ekki?

Svo vil ég benda á að nú er yfirlýsing frá ráðherra, þetta er yfirlýsing, um að allar innstæður séu tryggðar. Hún hefur verið endurtekin aftur og aftur, en það er ekki sama og ríkisábyrgð, ég vil koma því á framfæri, og ég hef meira að segja fengið það staðfest frá hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra.

Ég hef líka lagt til að innstæður yrðu tryggðar með þeim hætti að Alþingi samþykkti til dæmis 100 milljarða ríkisábyrgð sem yrði svo boðin út til bankanna. Þeir gætu þá boðið í innstæður með raunverulegri ríkisábyrgð, en þeir yrðu þá að borga fyrir það og væntanlega yrðu þá vextirnir sem því næmi lægri á þeim innstæðum en á öðrum innstæðum. Þá væri líka alveg á hreinu hvaða innstæður væru með ríkisábyrgð og hvaða innstæður væru ekki með ríkisábyrgð. Fyrir þessa ríkisábyrgð mundi ríkissjóður að sjálfsögðu taka gjald og hann mundi líka krefjast trygginga.

Það eru því ýmsar leiðir til að leysa þetta en á meðan þetta er ekki leyst finnst mér mjög slæm blanda að blanda saman því öryggi sem innstæður krefjast og þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingarbankastarfsemi.



[17:47]
Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég er sammála honum um að þetta fari illa saman og að innlán séu að veði í áhættusömum stöðutökum, fjárfestingum og útlánum.

Ég vil aðeins vekja athygli á því sem hv. þingmaður sagði um smæð fyrirtækjanna, að þau væru illa til þess fallin að skipta þeim upp, en þá er það svo að það er einmitt ákveðin áhætta fólgin í smæð fjármálamarkaðarins vegna þess að stórir fjárfestar og einstakir atburðir geta haft gríðarlega mikil áhrif einmitt í svona litlu bankakerfi og geta þess vegna valdið miklu meira tjóni. Þannig að smæðin í sjálfu sér er ekkert síður áhætta en stærðin var hér á sínum tíma þegar bankarnir voru orðnir tífaldir að stærð miðað við þjóðarframleiðsluna.

Ég vildi bara aðeins vekja athygli á þessu. Og enn fremur vegna þess að ég veit að hv. þingmanni er annt um samkeppnisstöðu í viðskiptalífinu, að þeir sem stunda hreina fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi, sem mun nú ekki vera nema kannski einn banki, hafa bent á þá staðreynd að samkeppnisstaða þeirra sé skert miðað við fjármálafyrirtæki sem geta nýtt sér tryggð og ódýr lán frá almenningi til þess að fjármagna áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.



[17:49]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í rökræðunni ræðir maður ýmis sjónarmið. Ég sagðist koma með tvenn sjónarmið sem ég hef heyrt, það voru ekki mín sjónarmið heldur sjónarmið frá öðrum um að íslenskur markaður væri lítill. Ég veit líka að lögmál hinna stóru talna í líkindafræðinni gildir fyrir fyrirtæki eins og annars staðar, að sveiflurnar stefna á meðaltalið eftir því sem stærðin vex og að lítil fyrirtæki búa við mikla áhættu. Það er löngu, löngu þekkt. Ég vissi af því líka. Menn þurfa bara að átta sig á því að áhættan er miklu meiri hérna fyrir sparifjáreigendur í þessu samkrulli en í stóru löndunum þar sem þetta jafnast út.



[17:50]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hvað varðar þá tillögu hér um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þá vil ég geta þess að þetta er búið að vera eitt baráttumála Vinstri grænna í mörg ár. Við höfum ítrekað flutt hér á Alþingi tillögur þess efnis, líklega í þrígang. Ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, núverandi ráðherra, höfum flutt tillögur um þennan aðskilnað á allmörgum þingum án þess að þær næðu fram að ganga.

Einnig hafa á undanförnum missirum komið ályktanir frá flokksráðsfundum og landsfundum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þetta væri gert. Ég minni á ályktun um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi á flokksráðsfundi Vinstri grænna frá 25. febrúar 2012 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.“

Ég tel því að í sjálfu sér liggi fyrir nægar upplýsingar um það hvernig þetta skuli gert, hvernig viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi skuli aðskilin með lögum. Skýrslur liggja fyrir um mat á því og auðvitað sýnist þar sitt hverjum. En það er pólitísk ákvörðun að gera þetta. Ég tel þess vegna miklu réttara að það verði bara gengið beint í verkið og lögum breytt þannig að tryggja megi þennan aðskilnað. Það þarf ekki neina nefnd til að rannsaka það neitt frekar, þetta liggur fyrir. Það er pólitísk ákvörðun að það verði gert, eins og ég segi, og þetta hefur verið eitt af baráttumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmanna hennar. Mér finnst reyndar slæmt hvað þetta hefur lent í miklum undandrætti hjá núverandi ríkisstjórn hvað þetta varðar.

Frú forseti. Ég kom hingað upp til að árétta það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingmenn hennar, hafa ítrekað flutt hér þingmál um þennan aðskilnað. Þær upplýsingar liggja fyrir sem þarf til að þetta verði gert. Þess vegna eigum við að láta verkin tala og það á að flytja hér frumvarp um að staðfesta þennan aðskilnað með lögum. Ég er reiðubúinn að standa að því, frú forseti.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.