141. löggjafarþing — 26. fundur
 25. október 2012.
grunnskólinn á Tálknafirði.

[10:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. innanríkisráðherra hefur til meðferðar mál sem kemur frá menntamálaráðuneytinu og tengist málefnum Tálknafjarðar og skólastarfs þar. Menntamálaráðuneytið hefur vísað málinu til innanríkisráðuneytisins, sem er yfirvald sveitarstjórna, til umfjöllunar og úrlausnar.

Ég veit að það eru um það bil tvær vikur síðan málið var sent til innanríkisráðuneytisins og ég er komin hingað upp til að inna ráðherra eftir því hvenær hann ætli sér að úrskurða í þessu máli. Þetta skiptir hagsmuni þeirra sem búa á Tálknafirði mjög miklu máli en í stóra samhenginu er það þannig að sveitarfélög, oftar en ekki úti á landi, standa oft og tíðum frammi fyrir miklum vanda í rekstri grunnskóla. Þá skiptir máli að tryggja þjónustuna með hvaða hætti sem er.

Skólayfirvöld á Tálknafirði stóðu frammi fyrir því um mánaðamótin apríl/maí að enginn hæfur umsækjandi var að stöðu skólastjóra. Þá þurftu sveitarstjórnaryfirvöld á Tálknafirði sem bera ábyrgð á skólahaldi að leita annarra leiða. Leitað var til Hjallastefnunnar sem er einkarekið fyrirtæki en það skal dregið fram að fjármögnun skólastarfs verður alfarið á hendi sveitarfélagsins. Foreldrar þurfa ekki að greiða eitt eða neitt heldur er einfaldlega verið að tryggja rekstur skólans og að skólastarf fari fram eftir námskrám og svo framvegis.

Þar fyrir utan hafa um 93% barna og foreldra þeirra í Tálknafirði stutt þessa leið sveitarstjórnarinnar í Tálknafirði og þess vegna spyr ég ráðherra: Hvenær kemur úrskurður ráðherra í þessu máli? Það er ríkir hagsmunir að skólastarf sé með eðlilegum hætti í sveitarfélaginu og það á ekki að vera fyrirstaða þó að sá sem sjái um allt skólastarf (Forseti hringir.) og kennslu sé einkaaðili. Því spyr ég ráðherra: Ætlar hann ekki að úrskurða í þessu máli sem fyrst?



[10:38]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að sveitarfélaginu beri að sinna grunnþjónustu á borð við rekstur leikskóla á hvern hátt sem er, held ég að hv. þingmaður hafi komist að orði. Það er náttúrlega ekki svo. Það þarf að fara að þeim lögum og reglum sem samfélagið hefur sett sér. Að efni og innihaldi heyrir þetta málefni undir menntamálaráðuneytið en lögum samkvæmt er þetta einnig sveitarstjórnarmál og snertir samskipti ríkis og sveitarfélaga og sem slíkt hefur það ratað á borð okkar í innanríkisráðuneytinu. Þar er málið til skoðunar og til umfjöllunar og ég á von á því að frá ráðuneytinu heyrist innan skamms.



[10:39]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil brýna ráðherra til verka í þessu máli. Með fullri virðingu fyrir mörgum hér inni þá er það svo að ef einhver þekkir til grunnskólalaganna sem voru samþykkt 2008 er það sú sem hér stendur.

Það skiptir máli að tryggja að eðlilegt skólahald fari fram á Tálknafirði. Það stendur ekkert í lögunum sem bannar einkarekstur eða að einkaaðili sjái um skólareksturinn svo lengi sem það er á ábyrgð sveitarfélagsins og ekki greitt fyrir það aukalega heldur fjármagnað af hálfu sveitarfélagsins.

Ég óttast það hreint út sagt eftir að hafa hlustað á ráðherra, sem er hér í þinginu fyrir hönd Vinstri grænna, að hugmyndafræði Vinstri grænna sem vilji koma í veg fyrir einkarekstur í skólakerfinu muni ráða, fyrirmæli Kennarasambands Íslands muni ráða í þessu máli en ekki að menn hugi að velferð barnanna og kennslunni verði sinnt. Ég sé enga fyrirstöðu fyrir því að jafnábyrgur aðili og Hjallastefnan, sem hefur sinnt skólastarfi með eindæmum vel og aukið fjölbreytni í skólastarfi, sinni þessu hlutverki á Tálknafirði. Það skiptir máli að eðlilegt skólahald fari fram og það er hægt í samvinnu við Hjallastefnuna.



[10:40]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Margur heldur mig sig var einhvern tíma sagt. Ég beini því til hv. þingmanns að tala fyrir eigin hönd þegar hún gerir því skóna að menn fylgi þröngri pólitískri línu og taki við skipunum annarra þegar verið er að komast að faglegri niðurstöðu í máli á borð við þetta.

Auðvitað skiptir það máli þegar við smíðum lögin og reglurnar hvaða stjórnmálaskoðanir við höfum eðli máls samkvæmt, þannig starfar lýðræðið. En þegar fjallað er um mál af þessu tagi í ráðuneytinu er það gert á faglegan hátt.