141. löggjafarþing — 29. fundur
 5. nóvember 2012.
aflaregla.
fsp. EKG, 218. mál. — Þskj. 226.

[15:59]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og menn vita hefur verið í gildi aflaregla varðandi þorskveiðar frá fiskveiðiárinu 1995/1996. Lengst af hefur aflareglan gengið út á það, gróft sagt, að miðað hefur verið við að veiðin væri ekki umfram 25% af viðmiðunarstofni sem er þorskur fjögurra ára og eldri. Ýmsar undanþágur hafa síðan verið gerðar frá þessu, ég ætla ekki að rekja þær, en síðustu árin hefur verið miðað við að veiðihlutfallið væri 20%. En vegna þess að að hálfu er tekið tillit til aflamarks síðasta árs og veiðistofninn hefur verið að stækka er ljóst að veiðiálagið er núna innan við 20%. Við erum í raun ekki með 20% veiðireglu heldur 17–18% veiðireglu sem er langlægsta veiðiálag sem ég hygg að skjöl nái yfir.

Þegar þessi veiðiregla var innleidd á sínum tíma var það auðvitað umdeilt, en árið 2009 var ákveðið í ríkisstjórninni að senda ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðinu, bréf þar sem óskað væri eftir því að ráðið legði mat sitt á sjálfbærni og virkni 20% veiðireglunnar. Jafnframt þessu hefur verið talsverð umræða um það upp á síðkastið að skynsamlegt kynni að vera að hafa veiðireglu eða aflareglu sem næði til fleiri tegunda. Í því sambandi hefur einkanlega verið rætt um gullkarfa, ufsa og ýsu. Nýverið, á haustdögum, kom fram á opinberum vettvangi að tillögur þar að lútandi hefðu verið lagðar fyrir hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að setja á laggirnar aflareglu um veiðar á þessum þremur tegundum. Í þeim tillögum væri lagt á ráðin með það hvernig sú aflaregla ætti nákvæmlega að líta út þannig að hægt væri að taka til hennar afstöðu.

Ég nefni þetta vegna þess að í júní 2009 skilaði nefnd, sem hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði skipað um þessi mál, áliti sínu og kynnti viðhorf sín til þessa máls. Nú er málið komið lengra, í vor var ákveðið samráðsferli og hæstv. ráðherra fékk síðan þessar tillögur.

Þess vegna hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í þremur liðum sem er svohljóðandi:

1. Hvaða tillögur liggja nú fyrir um aflareglu við veiðar á ýsu, gullkarfa og ufsa?

2. Hver er afstaða ráðherra til þessara tillagna?

3. Hver hefði orðið úthlutun aflamarks í þessum tegundum á yfirstandandi fiskveiðiári ef tillögum að aflareglu hefði verið fylgt?

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að árétta eitt. Hvaða skoðun sem menn hafa á aflareglu er aðalatriðið að menn hafi sannfæringu fyrir því að stofnmat á hverjum tíma sem er framkvæmt af Hafrannsóknastofnun endurspegli veruleikann. Við vitum það til dæmis varðandi ýsuna sem er ein þeirra þiggja (Forseti hringir.) fisktegunda sem um ræðir að þar er gríðarlega mikil tortryggni ríkjandi. Mat Hafrannsóknastofnunar virðist ekki vera í samræmi við veruleikann sem sjómenn og útvegsmenn (Forseti hringir.) mæta þessa dagana.



[16:02]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurninguna, svo ég noti tímann í að reyna að svara spurningunum beint, um hvaða tillögur liggi fyrir um aflareglu við veiðar á ýsu, gullkarfa og ufsa, er því til að svara að tillögurnar eins og þær standa ganga í fyrsta lagi út á aflareglu fyrir ýsu sem er í grófum dráttum svohljóðandi:

Aflamark næsta fiskveiðiárs verði 40% af áætluðu magni 45 sm og stærri ýsu í upphafi næsta aflamarksárs.

Síðan er önnur regla sem gæti tekið til við tilteknar aðstæður, þ.e. ef áætluð stærð hrygningarstofns á sama tímapunkti er undir skilgreindum varúðarmörkum sem eru þá 45 þús. tonn. Þá skuli lækka veiðihlutfallið þannig að það sé að hámarki 0,4 sinnum stærð hrygningarstofns í upphafi næsta almanaksárs deilt með varúðartölunni 45 þús. tonn.

Í öðru lagi liggur fyrir aflaregla um ufsa sem er svohljóðandi:

Aflamark næsta árs verði 20% af viðmiðunarstofni fjögurra ára og eldri ufsa og aflamarki síðasta fiskveiðiárs. Það er mjög sambærileg regla við það sem er í gildi í þorskinum.

Þar er líka lögð til varúðarregla ef hrygningarstofn á úttektarári fer niður fyrir svokölluð gátmörk eða „Btrigger“ sem lagt er til að verði 65 þús. tonn í tilviki ufsa. Þá skal lækka veiðihlutfallið með hlutfallinu stærð hrygningarstofns á úttektarári deilt með 65. Ekki er tekið tillit til aflamarks síðasta fiskveiðiárs í þeirri fráviksreglu.

Fyrir gullkarfann liggja fyrir svohljóðandi tillögur:

Aflamark næsta fiskveiðiárs byggi á að meðalveiðidauði 9–19 ára karfa verði ekki hærri en 0,097. Sömuleiðis ef hrygningarstofn fari niður fyrir gátmörk, sem lagt er til að verði 220 þús. tonn, lækki veiðidauði sem ráðgjöf byggir á með hlutfallinu stærð hrygningarstofns í upphafi úttektarárs deilt með 220.

Í tilviki gullkarfans er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að reynt verði að láta regluna taka til Íslands, Grænlands og Færeyja.

Í öðru lagi er spurt hver sé mín afstaða til þessara tillagna. Henni væri kannski best svarað ef tíminn leyfði með því að rekja þau samskipti sem hafa verið t.d. á þessu ári. Í upphafi árs skrifaði ég Hafrannsóknastofnun og fór fram á að stofnunin legði af stað með aflareglur í ýsu, ufsa og karfa á grundvelli þeirrar vinnu sem fyrir lá. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að byggja á langtímanýtingarstefnu og aflareglur eru það tæki sem menn hafa kannski mest verið að þróa og horfa til. Við höfum þar af leiðandi unnið þessa vinnu áfram á þeim grundvelli fyrir tegundirnar þrjár með samráði við umhverfisráðuneytið og fjölmarga aðila innan greinarinnar. Vissulega eru skoðanir skiptar, því er ekki að leyna, en kostir þess að festa í sessi viðurkenndar aðferðir til að grundvalla á langtímanýtingarstefnu eru ótvíræðir. Það er ljóst að því fylgir agi. Það eykur að sjálfsögðu líkur á því að fiskveiðistjórn okkar teljist standast grundvallarkröfur um sjálfbærni og að vottun sé möguleg í kjölfarið sem getur haft heilmikið að segja fyrir markaðsstarf.

Staða málsins núna er að þegar hefur verið sent bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins vegna ufsa og ýsu þar sem ráðið er beðið um að meta framangreindar tillögur út frá varúðarreglunni og hvort þær séu líklegar til að leiða til hámarks sjálfbærrar nýtingar, eða „maximum sustainable yield“ eins og það er kallað, þegar til lengri tíma er litið.

Varðandi gullkarfann er málið aðeins skemmra á veg komið þar sem verið er að leita samráðs við Grænland og Færeyjar og reyna að ná saman um að senda síðan í kjölfarið sameiginlegt erindi til Alþjóðahafrannsóknaráðsins í sama skyni. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt þar sem um deilistofn er að ræða að nokkru leyti með þessum nágrönnum okkar, þó langmestur hluti tegundarinnar komi í okkar hlut.

Þriðja spurningin er: Hver hefði orðið úthlutun aflamarks í þessum tegundum á yfirstandandi fiskveiðiári ef tillögum að aflareglu hefði verið fylgt? Svarið er að þá hefði aflamark í ýsu orðið 32 þús. tonn í stað þeirra 36 þús. tonna sem nú eru. Í gullkarfanum hefði aflamarkið orðið 45 þús. tonn, sem er það sama og við erum að taka í ár, þó þannig að ef við hefðum t.d. tekið tillit til veiða Grænlendinga og Færeyinga í fyrra sem voru um 2.300 tonn hefðu 42.700 af því komið í okkar hlut. (Forseti hringir.) Í þriðja lagi hefði aflareglan fyrir ufsa gefið 51 þús. tonn í staðinn fyrir þau 50 þús. tonn sem er úthlutað aflamark í ár.



[16:08]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína að fá upplýsingar um það hvernig málið er unnið í raun og veru. Nú segir hæstv. ráðherra að búið sé að senda bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins til að fara yfir þessar reglur.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur þetta verið kynnt fyrir atvinnuveganefnd? Er þetta það fyrsta sem þingið fær að vita um hvað er verið að gera? Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mjög skynsamlegt sé að hafa ákveðnar nýtingarreglur, en þá þurfum við að ná lengra með það því við vitum að tillögur Hafrannsóknastofnunar eru ekki óumdeildar. Það þarf að reyna að ná sátt því að tillögur stofnunarinnar endurspegla ekki ástandið á miðunum. Skýrt dæmi um það sést einmitt þessa dagana.

Mig langar að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að áður en menn fái þetta stimplað frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu verði að tryggja að þeir séu ekki fastir í einhverri gildru og geti ekki bakkað út úr stöðunni. Mér finnst að breyta þurfi vinnubrögðunum í þessum málum, hvort sem um er að ræða þetta mál eða heildaraflamarksúthlutun, á meðan svona mikil tortryggni ríkir á milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar.



[16:09]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör, sömuleiðis hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þátttöku í þessari umræðu. Hér komum við að gríðarlega mikilvægu máli. Það var heilmikið átak á sínum tíma 1995 og 1996 að setja á aflareglu í þorski. Við vitum líka að oft hefur reynt á þetta. Eins og ég nefndi stuttlega í fyrri ræðu minni hafa ýmsar breytingar verið gerðar á framkvæmd aflareglunnar, m.a. til að taka tillit til aðstæðna á hverjum tíma í hafinu.

Aflareglan gengur út á að reyna að veiða tiltekið hlutfall af viðmiðunarstofni og hafa síðan jöfnunarákvæði í reglunni til að koma í veg fyrir mjög miklar sveiflur. Það prinsipp finnst mér vera í meginatriðum skynsamlegt. Stóra málið og hitt atriðið sem við þurfum líka að leiða fram er að við undirbyggjum sem allra best þær rannsóknir sem við leggjum til grundvallar hlutfallinu af veiðinni. Þar held ég að sé gríðarlega mikið verk að vinna.

Auðvitað verða hafrannsóknir aldrei óumdeildar en við stöndum núna frammi fyrir því, sérstaklega varðandi ýsuna sem nú á að fara að setja inn í aflaregluna, að það er óskaplega mikill ágreiningur um matið á stærð ýsustofnsins. Við sjáum að samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunarinnar og að ef þeirri aflareglu sem nú er verið að leggja til hefði verið beitt, væri aflamarkið orðið 32 þús. tonn. Það er nálægt því sem er í dag en það hefði hins vegar ekki breytt því að samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar eru fram undan hugmyndir um frekari niðurskurð. Það er greinilega í ósamræmi við það sem sjómenn segja manni frá á miðunum þar sem þeir eru á harðaflótta undan ýsunni og eru í hreinum vandræðum með að veiða þorsk vegna þess að þá vantar ýsukvóta.

Þess vegna held ég að það skipti öllu máli (Forseti hringir.) þegar svona ákvörðun er tekin að sá grundvöllur að rannsóknum og mati sem þarf að vera til staðar liggi fyrir með eins ótvíræðum hætti og mögulegt er.



[16:11]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi samráð um þetta mál skal ég játa að ég þekki ekki að hve miklu leyti það hefur verið kynnt atvinnuveganefnd sérstaklega og Alþingi. Hafi það ekki verið gert biðst ég velvirðingar á því og tek það á mig.

Samráð við hagsmunaaðila í greininni hefur verið mjög umfangsmikið. Strax eftir að bréfið barst Hafrannsóknastofnun í janúarmánuði síðastliðnum fór það af stað og byggði auðvitað á því samráði sem að baki var, svonefndri Skúlanefnd og fleiru. Þetta rekur sig allt aftur til nóvembermánaðar 2009 þegar þáverandi ráðherra hefur samband við Hafrannsóknastofnun og setur ferlið með vissum hætti af stað. Að vísu er þá undir að endurskoða jafnvel að einhverju leyti aflareglu í þorski, en málið þróast svo yfir í að skoða jafnframt möguleika á aflareglum fyrir fleiri tegundir og heldur áfram með bréfi og samráðshópi sérfræðinga haustið 2010.

Í framhaldi af bréfinu til Hafrannsóknastofnunar nú í ársbyrjun hefst mjög víðtækt samráð þar sem fulltrúar útgerðarinnar, Landssambands smábátaeigenda, LÍÚ, Samtök íslenskra fiskimanna, fulltrúar allra sjómannasamtakanna, fiskvinnslunnar, bæði með og án veiðiheimilda, og fjölmennt lið frá Hafró vinna saman. Þá eru haldnir á annan tug funda og málið rækilega kynnt. Í framhaldi af þeirri kynningu gafst mönnum færi á og voru í raun beðnir um að skila inn skriflegum athugasemdum, ef einhverjar væru, um tillögurnar að aflareglum fyrir þessar þrjár tegundir.

Ég tek að sjálfsögðu undir það að mikilvægt er að menn ræði grunn ráðgjafarinnar sjálfrar í þessu samhengi. Vissulega þekki ég afar vel til stöðunnar með ýsuna þar sem sýnist sitt hverjum. Engu að síður held ég þó að kostir þess að reyna að þróa og móta langtímanýtingarstefnu séu ótvíræðir, eins og ég sagði áður.

Loks vil ég geta þess að ég er þeirrar skoðunar að við eigum í framhaldinu að taka líka til endurmats útfærslu aflareglunnar um þorsk (Forseti hringir.) í ljósi þess að uppbygging stofnsins hefur gefist vel. Það er ekki víst að eigi að innbyggja sömu varúðarmörk og sömu meðalreglur inn í aflaregluna þegar ástand stofnsins er orðið jafngott og raun ber vitni nú (Forseti hringir.) og kannski ætti jafnvel að endurskoða sjálfa veiðireglutöluna.