141. löggjafarþing — 30. fundur
 6. nóvember 2012.
sérstök umræða.

Fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek upp mál sem hefur verið til umfjöllunar á þingi í allt að tíu ár en hefur aldrei fengið almennilega úrlausn og er reyndar stöðugt í þróun. Í kjölfar kjördæmaviku þingmanna stóð það upp úr hjá nánast öllum sveitarstjórnum á Suðurlandi, sérstaklega þeim sem hafa yfir dreifbýli að segja, að þar séu þessi mál í miklum ólestri. Það er alveg sama hvort við erum að ræða GSM-samband eða internet, jafnvel sjónvarp, allir bentu á þá stefnumótun sem verið hefur um að allir eigi að hafa aðgang og að almennilegt internet og GSM-samband sé forsenda atvinnuuppbyggingar í dreifbýli og hefur meðal annars verið bent á ferðaþjónustuna.

Eins og við þekkjum söguna átti fjarskiptasjóður að koma þarna inn til að jafna þessa stöðu á landsbyggðinni en vegna þess að horft var til samkeppnissjónarmiða var settur upp einhver listi yfir staði sem fjarskiptasjóður mátti koma inn á en annars ekki. Það voru um það bil tíu fyrirtæki sem fóru meira af vilja en getu og settu upp internetsamband víðs vegar um landið sem varð til þess að þau svæði eru álitin samkeppnissvæði en stóru fyrirtækin og þar af leiðandi fjarskiptasjóður hafa ekki sinnt þessum svæðum sem skyldi. Þar fyrir utan verður að segjast eins og er að forgangsröðunin er svolítið sérstök. Dæmi eru um mjög veik landsvæði atvinnulega séð, og vil ég nefna Skaftárhrepp, sem litlu fyrirtækin fóru ekki inn á en engu að síður hefur ekki enn verið lögð sérstök áhersla á þau svæði hjá fjarskiptasjóði. Á árinu 2005 var fyrirspurn í þinginu þar um og sagt að í forgang yrðu Vestfirðir og Norðausturland. Ég spyr hæstv. ráðherra af hverju önnur sambærileg landsvæði, eins og Skaftárhreppur, voru ekki þar inni.

Á landsfundi og flokksráðsfundi Vinstri grænna undanfarin tvö ár hefur verið fjallað um að ríkið ætti að eignast Mílu svo að þetta kerfi yrði aftur í eigu hins opinbera, þ.e. ljósleiðari hringinn í kringum landið, eins og um hringveginn, yrði í eigu hins opinbera og samkeppnissjónarmiðin ættu við gagnvart þeim fyrirtækjum sem keyptu sér aðgang að því til að þjónusta fólk um allt land. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það standi til. Það má líka minnast á að þingsályktunartillaga sem lögð var fram 2006 og 2007 af tveimur fyrrverandi ráðherrum og tveimur núverandi ráðherrum Samfylkingarinnar laut að því sama, þ.e. að byggja upp traust internetsamband á landinu öllu. Þess vegna vil ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hver staðan sé núna og forgangsröðunin og hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir þessu.

Í grein sem dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur birti í Morgunblaðinu í mars á þessu ári fjallaði hann um fjarskiptaáætlun og talaði um að útlit væri fyrir að utan veitusvæðis Gagnaveitu Reykjavíkur mundi internetið aðeins sinna þörfum til heimilisnota. Spurning hans var í raun og veru: Á engin nútímastarfsemi að þrífast utan höfuðborgarsvæðisins? Meðalafköst á netinu eru nú þegar lakari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum samkvæmt alþjóðlegri tölfræði og þess vegna er veruleg þörf á nýrri stefnumörkun af hálfu hins opinbera í þessu máli. Internetið er jafnan í almannaeigu í nágrannaríkjunum og þar fjárfesta rafveitur, sem oft eru reknar af sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum, í ljósleiðara en smásalan er svo í höndum annarra og oft í samkeppni, eðlilega. Hlutverk opinberra aðila er meðal annars að auka jöfnuð og jafna tækifæri, eins og kemur fram í grein áðurnefnds dr. Hauks Arnþórssonar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver á að tryggja jafnræði landsmanna í þessu tilliti? Fram hefur komið í fréttum á þessu ári að Síminn segir: Ekki ég. Vodafone segir: Ekki ég. Þetta minnir svolítið á söguna um litlu gulu hænuna. Þá er spurningin: Hver ætlar að tryggja jafnræði landsmanna að öflugu internetsambandi? Hverjir ætla að koma að því að byggja það upp eða er ekki meiningin að það verði gert?

Nú þegar hafa tvö sveitarfélög á Suðurlandi lagt ljósleiðara, annars vegar Öræfin eða sveitarfélagið Hornafjörður og hins vegar Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Önnur sveitarfélög eru að velta því fyrir sér. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Kæmi til greina að fjarskiptasjóður kæmi þar inn og styrkti þessa starfsemi hjá öðrum sveitarfélögum og þá líka hringinn í kringum landið til að tryggja jafnræði allra landsmanna að (Forseti hringir.) þessari nauðsynlegu þjónustubraut?



[14:45]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvar ég á eiginlega að byrja en mig langar þó að byrja á því að segja að Íslendingar eiga heimsmet í nettengingum. Það er rangt að staðan sé verri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. (Gripið fram í: Gæti verið betri.) — Gæti verið betri, það er alveg rétt, það er margt sem gæti verið betra á Íslandi og við erum að vinna að því að bæta það.

Ég vil vekja athygli þingmannsins á því að fjarskiptaáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi. Hún hefur ekki verið afgreidd frá þinginu en ég hef mælt fyrir henni. Hún er núna til umfjöllunar í nefnd. Í henni er tilgreindur fjöldi markmiða og verkefna sem snerta meðal annars aðgengi og afköst í gagnaflutningi, aðkomu stjórnvalda og þar af leiðandi ljósleiðaravæðingu og útbreiðslu farnets.

Ég vek athygli á því að framkvæmdir vegna verkefna fjarskiptasjóðs eru boðnar út. Þar er um að ræða tvö meginverkefni, að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og helstu ferðamannastöðum og í öðru lagi að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum. Uppbyggingu í kjölfar tveggja útboða sjóðsins árið 2007 á GSM-uppbyggingu lauk fyrir árslok 2008. GSM-samband var bætt á yfir 50 vegarköflum og svæðum um allt land. Svokallað háhraðanetsverkefni var boðið út árið 2008.

Nú er svo komið að hvert og eitt einasta lögheimili landsins á kost á sítengdu internetsambandi hvort heldur er á markaðsforsendum eða gegnum verkefni sjóðsins. Fram að síðustu áramótum bjó fjarskiptasjóður við sólarlagsákvæði. Við þær aðstæður voru engar forsendur til að undirbúa frekari verkefni á hans vegum. Um síðustu áramót var líftími hans framlengdur um fimm ár auk þess sem hann fær nú tekjur af tíðniuppboðum. Nú þegar hafa komið um 180 millj. kr. tekjur í sjóðinn vegna tíðniuppboða en eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær, held ég að það hafi verið, er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun bjóði út tíðnir sem henta til uppbyggingar á fjórðu kynslóðar farneti, svokölluðu 4G. Það er ekki auðvelt að ætla á þessari stundu hversu miklar tekjur munu renna til sjóðsins í því uppboði en rætt hefur verið um 300 millj. kr. eða svo í því sambandi. Ljóst er að slík uppbygging hleypur á milljörðum kr. og óvíst á þessu stigi um áform markaðsaðila, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Ég bendi mönnum á að missa ekki sjónar á því sem hefur gerst í þessum efnum. Hvaða breytingar urðu þegar Síminn var markaðsvæddur á sínum tíma? Við vorum með kerfi sem var rekið á vegum ríkisins. Það símkerfi skilaði okkur reyndar umtalsverðum hagnaði á ári hverju, á þeim tíma 2–3 milljörðum, auk þess sem okkur var tryggt ódýrasta símkerfi í heiminum. Innanlandssíminn á Íslandi var ódýrastur í heiminum. Þegar umræða fór síðan fram í þessum sal um hvernig við ættum að haga málum þá vildu margir að grunnnetið allt yrði áfram á vegum ríkisins. Á það var ekki fallist. Af því tilefni að þingmaðurinn rifjar upp ályktanir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þess vegna Samfylkingunni vil ég minna hann á að það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ákvað að fara þessa vegferð. (SIJ: Gamla Framsókn.) — Gamla Framsókn, þið kallið ykkur enn nafni Framsóknarflokksins. Það varð niðurstaða þeirrar ríkisstjórnar að fara þessa vegferð. En til að tryggja þeim landsmönnum sem ekki mundu njóta árangurs af markaðskerfinu var settur upp fjarskiptasjóður. Hann átti að fjármagna þau svæði sem markaðslögmálin og fyrirtækin hefðu ekki áhuga á. Eins og ég gat um var ætlunin sú að sá sjóður starfaði í tiltölulega stuttan tíma. Ég hafði hins vegar frumkvæði að því að framlengja líf þessa sjóðs til að fara inn á svæði sem markaðurinn réð ekki við eða sinnti ekki. Inn á önnur svæði höfum við ekki heimild til að fara. (Gripið fram í.) Hvers vegna? Nema breyta þeim? Við erum háð regluverki Evrópska efnahagssvæðisins um hvernig eigi að haga þessum málum, sem Framsóknarflokkurinn hafi líka veg og vanda af að innleiða á sínum tíma. Þetta eru staðreyndir sem hv. þingmaður verður að horfast í augu við. Þetta er veruleikinn.

Nú er komin upp ný tíð á Íslandi og við verðum að laga allar okkar gjörðir að (Forseti hringir.) þessum nýja veruleika og það erum við að reyna að gera.



[14:50]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Fjarskiptasjóður hefur valdið vonbrigðum frá upphafi. Ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna á sínum tíma, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, reyndist þeim til skammar vegna þess að sjóðurinn klikkaði. Hann hefur aldrei náð sér á strik, hann hefur aldrei tekið ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga heldur alltaf geðþóttaákvarðanir. Líklega eru of margir hámenntaðir sérfræðingar þar um borð sem geta ekki tekið af skarið, geta ekki tekið ákvarðanir.

Það er rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að tugur fyrirtækja varð í rauninni þröskuldur í framgangi fjarskiptaáætlunar á landinu. Gott dæmi um það væri hægt að nefna uppsveitir Suðurlands og víðar um land.

Það þarf að skipta um stjórnendur fjarskiptasjóðs, hæstv. ráðherra, það þarf að breyta leikreglunum og ganga til verka. Þetta er eini sjóðurinn í landinu sem hefur um langt árabil búið við mikla peninga, nóg af peningum, en hann vinnur eins og Norðmenn sem eiga nóga peninga en eru svo nískir að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann. Þannig á fjarskiptaþjónustan á Íslandi ekki að vera, það verður að vera framsýni.

Míla er til að mynda apparat sem maður gæti haldið að væri frá annarri stjörnu og eru mikil mistök að það fyrirtæki skuli ekki vera í eigu ríkisins í dag. Það þarf að kaupa þá sjoppu í heilu lagi og gera hana brúklega fyrir land og þjóð en ekki vera með þann feluleik sem er í þeim efnum um allt.

Þannig er staðan. Ég tek undir orð hv. fyrirspyrjanda, það verður að taka af skarið og sinna þessum þáttum. Ég skora á ráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum og koma á ærlegu fjarskiptakerfi um allt land því að það er til nóg af peningum í það. (Forseti hringir.) Til hvers að geyma þá undir kodda?



[14:53]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt nokkrum öðrum þingmönnum tillögu til þingsályktunar um háhraðatengingar í dreifbýli og smærri þéttbýlisstöðum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Háhraðanettenging flokkast sem grunnþjónusta í nútímasamfélagi …

Á meðan svo háttar til að mikill fjöldi Íslendinga býr ekki við háhraðatengingar og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni eru heimabyggðir þeirra ósamkeppnishæfar þegar kemur að vali fólks og fyrirtækja til búsetu.“

Síðan hefur að sjálfsögðu margt breyst til betri vegar og stærstur hluti landsins er ágætlega tengdur en enn eru svæði utan þess að geta talist viðunandi tengd við háhraðanettengingar og fjarskipti af fullkomnustu gerð.

Á sínum tíma var ákveðið, eins og rakið var í upphafi máls málshefjanda, að fjarskiptasjóður færi ekki inn á tiltekin skilgreind samkeppnissvæði. Tilteknum hreppum var til dæmis skipt í tvennt þar sem var þjónustað af einkaaðila á háhraða um örbylgju og þar sem það var ekki gert. Það var góðra gjalda vert og virðingarvert og aðdáunarvert framtak hjá litlum aðilum að reyna af veikum mætti að miðla háhraðatengingum þar sem ekki var um að ræða fasttengingar í jörðu. En þessi ákvörðun og þessi skilgreining reyndist röng. Þetta var of þröng skilgreining og hún skildi þessi svæði, tiltölulega fámenn og strjálbýl, eftir utan viðunandi tengingar. Þetta skapaði ójafnræði á milli íbúa svæðanna og þeirra sem heyra undir fjarskiptasjóð og það er sú aðkoma fjarskiptasjóðs að háhraðatengingum sem þarfnast endurskoðunar og endurskilgreiningar þannig að sjóðurinn geti farið inn á tiltekin svæði. Sveitarfélög eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur eru að ljósleiðaravæða hreppinn og stórt sveitarfélag á eigin kostnað en það þarf að gæta jafnvægis. Nú skiptir háhraðaaðgengi að fyrsta flokks samskiptum sköpum hvað varðar búsetuskilyrði. Þess vegna er traust net á landinu öllu grundvallaratriði í nútímabyggðastefnu.

Það er ágætt að ræða þetta hérna og hvetja til þess að þessi skilgreining á fjarskiptasjóði og afkomu hans sé endurskoðuð.



[14:55]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er engin nýlunda og menn vita það að GSM-samband og netsamband víða á landinu er í ólestri. Það hefur oft verið rætt í þingsal. Það er ágætt að því hafi verið haldið til haga af hæstv. ráðherra að að hluta til sé þetta afleiðing einkavæðingarinnar á grunnneti símans sem voru mikil mistök á sínum tíma. Þó að Síminn hafi á sínum tíma ekki verið mjög gott þjónustufyrirtæki að öllu leyti — ég man þá tíð þegar það tók margar vikur að fá heimasíma tengdan en það hefur skánað — er grunnnet hans ein af grunnstoðum samfélagsins sem hefði áfram átt að vera undir eftirliti og verksviði hins opinbera. Forgangsröðunin miðast að sjálfsögðu við arðsemi hjá einkafyrirtækjum og þar er gróðanum fleytt ofan af en ekki hirt um ábyrgð á þeim sem skila ekki miklum hagnaði í kassa fyrirtækisins. Fjarskiptasjóður sem átti að sjá um þetta virðist ekki hafa valdið verkefni sínu.

Tiltölulega einföld spurning fyrir hv. þingmenn sem koma hingað upp í hverri einustu viku og tala um að mikilvægt sé að viðhalda byggð um allt land er: Myndu þeir flytja á landsvæði þar sem væri ekki netsamband? Myndu þeir flytja á landsvæði þar sem væri ekki GSM-samband? Svarið er einfaldlega nei, þeir mundu ekki gera það og engir landsmenn gera það.

Það er ekki boðlegt að hafa þetta fyrirkomulag. Hér er um sögulegt vandamál að ræða sem lagast ekki við það að benda alltaf á einhverja sökudólga. Það þarf einfaldlega að bretta upp ermar, eins og einhver sagði hér áðan, og koma þessum málefnum í lag.

Það er einfaldast í mínum huga að flytja grunnnet símans, bæði farsíma og farsímanet, til hins opinbera aftur svo að það sé skýrt hvar ábyrgðin liggi og jafnræði allra landsmanna að þessari þjónustu sé tryggt. Það þarf heldur ekki að vera dýrt vegna þess að tæknibreytingar eru örar og kynslóðaskipti farsímakerfa, t.d. úr þriðju kynslóð í fjórðu kynslóð, gera það að verkum að eldri tæknibúnaður úreldist og verður verðlaus. Þetta er því ekki spurning um að kaupa einhvern eldri tæknibúnað fyrir hið opinbera heldur yrði einfaldlega komið á og sett upp nýtt kerfi og það tekið yfir á algerum lágmarkskostnaði. Ég held að hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) ætti að láta skoða það rækilega hvort ekki væri vænlegt að fara þá leið frekar en vera endalaust að púkka upp á (Forseti hringir.) fjarskiptasjóð sem nú tíu árum eftir stofnun hefur einfaldlega sýnt sig að virkar ekki.



[14:58]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé mjög mikilvæg. Í þessum málaflokki þarf víða að gera verulegar úrbætur hvað þetta snertir því að ástandið vítt og breitt um landið er engan veginn nægilega gott. Við fáum í allt of miklum mæli, þingmenn, sveitarstjórnir og aðrir, upplýsingar um að á ákveðnum svæðum séu fjarskiptamál í lamasessi.

Hér í umræðunni um grunnnet símans er ég hjartanlega sammála þeim sem hafa tekið til máls um að rétt væri að við skoðuðum hvort ekki væri mögulegt að ríkið leysti það aftur til sín. Það er hárrétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að það var í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem grunnnet símans var selt. En það er líka hárrétt sem hefur komið fram hérna, m.a. hjá hv. þm. Þór Saari, að það ber okkur ekki til neinna lausna að velta okkur upp úr þeirri fortíð. Ég veit að málshefjandi, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, er mér hjartanlega sammála um að það var rangt að selja grunnnet símans frá Símanum á sínum tíma. Þá var hann starfandi dýralæknir á Suðurlandi og sá sem hér stendur var háskólanemi við Landbúnaðarháskóla Íslands. En hæstv. innanríkisráðherra var þá starfandi þingmaður á Alþingi og barðist gegn því að grunnnetið yrði selt.

Nú er kjörið tækifæri fyrir hæstv. innanríkisráðherra, og ég veit að þingmenn allra flokka munu fylkja liði á bak við hann, að skoða hvort ekki sé mögulegt að ríkið leysi aftur til sín grunnnet símans. Ekki skortir ályktanir VG í þeim efnum. Á flokksráðsfundi VG, sem haldinn var 15.–16. janúar fyrir tveimur árum, var því beint til ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að ríkið gæti eignast Mílu, grunnnet símans. Hv. þm. Árni Johnsen, hv. þm. Þór Saari, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og fleiri sem hafa tekið til máls munu styðja innanríkisráðherra fyllilega í þeirri baráttu að grunnnet símans verði aftur í þjóðareigu og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[15:00]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau varnaðarorð sem höfð voru uppi við einkavæðingu Símans hafa því miður gengið eftir. Því var spáð að uppbygging grunnnetsins í fámennari byggðarlögum á landsbyggðinni yrði látin mæta afgangi og það er einmitt sá veruleiki sem mörg fámennari svæði búa við. Símafyrirtækin hafa ekki sinnt uppbyggingu grunnnetsins á óhagkvæmari stöðum og þar sitja íbúar og fyrirtæki ekki við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar háhraðatengingar og fullan aðgang þeim sjónvarpsrásum sem eru í boði.

Síminn telur það ekki hlutverk sitt að tryggja jafnan aðgang landsmanna að nettengingu og vísar til fjarskiptasjóðs. Í lögum um fjarskiptasjóð kemur fram að hlutverk hans sé að styðja við uppbyggingu fjarskiptakerfa á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Hlutverk fjarskiptasjóðs er því gífurlega mikilvægt í byggðalegu tilliti og brýnt að sjóðurinn sinni vel hlutverki sínu og úthluti fjármagni í verkefni sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun hverju sinni. Sú forgangsröðun skiptir miklu fyrir búsetuskilyrði í dreifðum byggðum, þjónusta við íbúana verður að vera í lagi og uppbygging atvinnulífs getur staðið og fallið með öflugri háhraðatengingu.

Ég nefni staði fyrir vestan sem ég þekki vel til, Hnífsdal, Suðureyri, Þingeyri, og Flateyri. Þar eru komnir ljósleiðarar en endastöðvabúnaðurinn er gamall og kemur í veg fyrir öfluga háhraðatengingu. Sömu sögu er að segja um allt of marga staði á landsbyggðinni. Útibú Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Flateyri getur ekki bætt við sig starfsfólki vegna lélegrar nettengingar. Það er óásættanlegt og kemur í veg fyrir uppbyggingu á atvinnulífi í þeim byggðum sem ekki búa við þessar háhraðatengingar.

Það má líka koma fram að Míla, sem er einkarekið þjónustufyrirtæki, hefur einungis einn starfsmann á öllum Vestfjörðum og annar þess vegna ekki hlutverki sínu. Þess vegna tel ég mikilvægt að við endurskoðum þessi mál í því samhengi og tryggjum aðgengi allra landsmanna að þessari sjálfsögðu (Forseti hringir.) þjónustu sem og öryggi íbúa alls staðar á landinu.



[15:03]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann gerði um síðustu áramót þegar hann framlengdi líftíma sjóðsins um fimm ár. Það er gríðarlega mikilvægt því að við vitum öll að verkefnum sjóðsins var ekki lokið.

Málið snýst að mínu mati fyrst og fremst um tvo þætti, annars vegar að óþarfi er að hafa of miklar áhyggjur af stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru fyrir samkeppni, þó að auðvitað þurfi að hafa vissar áhyggjur af þeim, og hins vegar, eins og komið hefur fram hjá mörgum hv. þingmönnum, að það er mjög mikilvægt út frá byggðalegu sjónarmiði og öryggissjónarmiði að koma GSM-sambandi og nettengingu í betra horf. Það eru verkefnin sem eru fram undan sem við þurfum að ráðast í.

Auðvitað þarf að tryggja sjóðnum nægilegt fjármagn til að geta gengið í þau verkefni. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom með ábendingu áðan um hvort ekki þurfi að skilgreina betur þau svæði sem sjóðurinn má fara inn á. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða það betur. Nú þekki ég ekki hvort hann hefur svigrúm til þess eða hvort það er bundið í svokallaðar EES-reglur. Það getur verið að það hafi fallið á milli skips og bryggju, eins og stundum er sagt, og er auðvitað mikilvægt að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að jöfn búsetuskilyrði séu fyrir hendi hvar sem menn búa á landinu, hvort heldur sem það snýr að GSM-sambandi eða nettengingu, til að samfélög geti þrifist í nútímanum, að landsmenn hafi jafnan aðgangur að þessari þjónustu.



[15:05]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu. Það skiptir mjög miklu máli að við ræðum þessi mál. Það var ekki rétt ákvörðun að selja grunnnet símans og því miður er fjárhagsstaða ríkisins þannig að við höfum ekki efni á því að leysa grunnnetið til okkar aftur núna, en að því þurfum við að stefna. Það er eðlilegt að jafnmikilvæg auðlind og fjarskipti eru fyrir byggð í landinu sé í eigu og umsjá hins opinbera.

Eins og hér hefur verið sagt eru fjarskipti víða í ólestri í dreifðustu byggðum landsins. Víðs vegar eru þau mál í alveg þokkalega góðu lagi en því miður er ekki svo alls staðar. Ég var sveitarstjórnarmaður þegar fjarskiptasjóðsútboðið var gert og ég verð að segja að ég skildi eiginlega ekki alveg þessar markaðslegu forsendur vegna þess að að í dreifðustu byggðum landsins er ekki mikið um markaðslegar forsendur, það er bara þannig.

Alltaf er að koma fram ný tækni; talað er um ljósnet, 4G, talað er um ýmislegt. Er ekki bara komið að því að þetta markaðsdót verði bara afskrifað og við tökum upp nýjar reglur þannig að þetta verði alveg á hreinu? Dreifðustu byggðir landsins hafa í raun mesta þörf fyrir háhraðatengingu og GSM-samband öryggisins vegna og vegna ákveðinna verkefna og félagslegrar einangrunar. Ég held því að við hljótum að verða skoða betri leið. Þessar markaðslegu forsendur eru hreinlega brostnar, þess vegna er tímabært að endurskoða málið með byggðastefnu að leiðarljósi.



[15:07]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Netið og fjarskiptakerfið eru vegir 21. aldarinnar, það er bara þannig. Góðri tengingu á netinu fylgir mikið frelsi, við getum búið þar sem við viljum, við getum unnið þar sem við viljum, en til þess þurfa þessir vegir okkar að vera í lagi. Ef þeir virka ekki, eru ekki einu sinni einbreiðir, er þetta frelsi tekið af okkur og jafnræði íbúanna er ekki fyrir hendi.

Mig langar að nota tækifærið og benda á tvær greinar sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá; í fyrsta lagi 15. gr., sem fjallar um rétt okkar til upplýsinga, og svo 14. gr. frumvarpsins. Hún fjallar um skoðana- og tjáningarfrelsi. Í 3. mgr. 14. gr. segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“

Verði þessi stjórnarskrá að lögum, sem ég vona, held ég að við þurfum að hysja upp um okkur, þótt fyrr hefði verið, og bæta úr þessum málum. Við þurfum að átta okkur á því að ef við ætlum að halda úti byggð í landinu kostar það peninga og við þurfum að vera tilbúin að horfast í augu við það að leggja þarf fé í þessi mál til að jafnræði ríki á milli fólksins í landinu og svo allir sitji við sama borð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:09]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega þá málefnalegu umræðu sem farið hefur fram og mér heyrist allir þingmenn sem hér hafa talað vera sammála. Því er nokkuð augljóst að hæstv. ráðherra þarf ekki að vera að velta fyrir sér fortíðinni í þessu máli heldur því hvað hann og ríkisstjórnin geta gert í framtíðinni. Það er greinilega breiður stuðningur við þá hugmyndafræði sem hér hefur verið rædd. Ef ég hefði verið spurður á sínum tíma hvort einkavæða ætti grunnnet símans hefði ég sagt nei. Ég hef alla tíð verið á móti því og hef barist fyrir því síðan ég settist á þing að þessi leið yrði farin, þ.e. að bæta nettengingu og slíkt þar sem þess er þörf.

Þetta hefur ekkert með EES-samninginn að gera því að þá mundu ekki nágrannaríki okkar á Norðurlöndum geta gert það sem þau eru að gera. Við eigum að horfa yfir svona hluti. Við búum í landi langt norður í Atlantshafi. Við búum við sérstakar aðstæður og við eigum að leita allra leiða til að bæta þessi mál. Það er hægt.

Varðandi Mílu svaraði hæstv. ráðherra engu um stefnu ríkisstjórnarflokkanna eða um eigin stefnu í því máli. Um næstu áramót á að taka upp stafrænt sjónvarp. Víða um land verður ekkert hægt að horfa á sjónvarp eftir það sem ekki er tengt ljósleiðara, beintengt, vegna truflana í örbylgjusendum hingað og þangað, það er einfaldlega þannig. Auðvitað mun tæknin hjálpa til. En við eigum að hætta að velta fyrir okkur — eða ég hélt alla vega að það væri nýja pólitíkin í þinginu — hvað gert hefur verið í fortíðinni heldur eigum við að hugsa um hvað við getum gert hér og nú. Nú eru nýir tímar, hæstv. innanríkisráðherra, það er rétt, en hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að jafna búsetuskilyrði landsmanna? Hver er stefnan? Ætlar hæstv. ráðherra að breyta áherslum fjarskiptasjóðs, til að mynda forgangsröðun, og fara fyrst á þau svæði þar sem skilyrðin eru verst á landinu og þurfa á mestum úrbótum að halda? Ætlar ráðherrann líka að breyta áherslum fjarskiptasjóðs um þessi samkeppnissvæði?

Ég spurði þáverandi samgönguráðherra árið 2009 um hvort til greina kæmi að kaupa upp þessi litlu fyrirtæki sem því miður þvælast fyrir á þessum markaði, talað var um 500 milljónir í því efni. (Forseti hringir.) Svar þáverandi samgönguráðherra var nei. Hvert er svar núverandi innanríkisráðherra sem fer með fjarskiptamál?



[15:11]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem ég vil að við gerum, höldum okkur við samtímann og horfum inn í framtíðina. Ég hef talað fyrir fjarskiptaáætlun. Þar er að finna stefnumótun og ýmsar tillögur og ég bíð þess að þingið taki þær til umfjöllunar.

Vikið hefur verið að fjarskiptasjóði. Hann hefur staðið sig mjög vel. Honum eru settar skorður, þær eru fjárhagslegar. Hann hefur úthlutað því fjármagni sem hann hefur til ráðstöfunar, hann hefur notað hverja einustu krónu og stuðst við sanngirni og fagmannleg vinnubrögð, ég fullyrði það.

Síðan var það gæfuspor að framlengja líf þessa sjóðs og þarf að tryggja honum tekjur vegna þess að víða eru brotalamir. Við skulum horfa til þess sem vel hefur verið gert. Eftir að fjarskiptasjóður var settur á laggirnar var hafist handa við að reyna að stoppa í götin. Í fyrstu áföngunum voru 50 vegakaflar bættir og þá fengu 1.700 heimili og fyrirtæki tengingu. En eins og komið hefur fram í umræðunni snýst þetta ekki bara um tengingu heldur líka um gæði tenginganna. Í dag sendi innanríkisráðuneytið formlegt bréf til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem stofnunin var beðin um að koma með tillögur að því að mæla gæði nettenginga á landsbyggðinni og skilgreina ákveðin lágmarksviðmið. Um það held ég að við séum öll sammála að þurfi að tryggja.

Þá er hin spurningin: Verður snúið til baka? Til er mismunandi fyrirkomulag hvað þetta snertir. Á ráðstefnu sem ég sótti í Poznan í Póllandi í fyrra kom meðal annars fram að Ástralir hafa ríkisnet á landsbyggðinni. Eigum við að taka þann kostinn? Það er dýr kostur, en ef við ætlum að stoppa upp í götin er það síðasta prósentan, mesta dreifbýlið er alltaf erfiðast og þangað hafa markaðsfyrirtækin ekki farið. Ef við lítum til EES-löggjafar snýst hún um það að þegar maður hefur markaðsvætt grunnnetið gilda um það ákveðnar reglur hvar maður má fara inn og hvar maður má ekki fara inn.

Hér var vakið máls á því að við getum tekið til skoðunar skilgreininguna á markaðsbrestum. Að minnsta kosti tveir hv. þingmenn hafa vakið máls á því þannig að fjarskiptasjóði yrði skapað meira svigrúm (Forseti hringir.) til að fara inn á svæði sem við teljum ekki vera ásættanleg, meðal annars með tilliti til gæða tenginganna. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem við þurfum að skoða í sameiningu á Alþingi.