141. löggjafarþing — 31. fundur
 7. nóvember 2012.
breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað, fyrri umræða.
þáltill. MSch o.fl., 118. mál. — Þskj. 118.

[18:30]
Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hingað kominn til að mæla fyrir þingsályktunartillögu sem hljóðar á þessa lund:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem kanni þá skattahvata sem erlend ríki hafa innleitt til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans og skoði hvort taka megi þá hvata upp hér á landi í samræmi við reglur EES um ríkisaðstoð. Starfshópurinn verði meðal annars skipaður fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hátækni- og sprotavettvangs. Starfshópurinn skili Alþingi skýrslu ekki síðar en 1. maí 2013.“

Tillaga þessi var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi. Hún er hugsuð í þeim anda sem kemur til dæmis fram í mjög fróðlegri skýrslu sem nýlega kom út og heitir upp á enska tungu Charting a Growth Path for Iceland, eða í lauslegri þýðingu að styrkja vegvísi vaxtar á Íslandi, og er unnin af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey í Skandinavíu. Þar er ítarlega fjallað um þá vaxtarmöguleika sem íslenskt hagkerfi á og hvernig við getum eflt verðmætasköpun og lífskjör til framtíðar.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að áhersla á auðlindagreinar, fisk, orku og ferðamenn muni ekki skila okkur nægum verðmætum til að skapa störf eða verðmæti til að viðhalda góðum lífskjörum. Þess vegna þurfi að leggja áherslu á alþjóðlega geirann, þekkingargeirann eða þann hluta atvinnulífsins sem byggir á hugviti starfsfólks og á möguleika til að selja vörur sínar og þjónustu erlendis. Það sé besta leiðin til að efla hagvöxt á Íslandi.

Þorra landsframleiðslu hér á landi eða lífskjörum er haldið uppi af löngum vinnudegi starfsmanna. Þannig skyggir hátt vinnuframlag á lága framleiðni víðast hvar í atvinnulífinu. Íslensku hagkerfi er hætta búin þegar neysla fer að aukast en fjárfesting ekki því að þá myndast viðskiptahalli, þ.e. við Íslendingar eyðum meira en við öflum og förum að safna skuldum á nýjan leik.

Það er niðurstaða skýrslunnar að helsta hindrun Íslands á veginum til hagvaxtar á næstu árum eru fjármagnshöft og hár fjármagnskostnaður fyrirtækja sem um leið stendur í vegi fyrir fjárfestingum. Að mati ráðgjafarfyrirtækisins felst lausnin í því að styrkja til muna alþjóðlega geirann með betra rekstrarumhverfi fyrirtækja sem geta sótt á erlenda markaði og byggja viðskiptalíkur sínar á hugviti starfsfólks. Eins og dæmin sanna hefur okkur ekki tekist mjög vel upp í þeim efnum. Össur, Actavis og Marel eru dæmi um fyrirtæki sem hafa nú þegar flutt lykilþætti starfsemi sinnar úr landi og vöxtur annarra fyrirtækja er mikið til utan Íslands í þessum geira. Stóriðjan, sjávarútvegurinn og fjölmörg önnur alþjóðleg fyrirtæki hafa nú þegar sagt skilið við krónuna, þ.e. gefist upp á háum fjármagnskostnaði hennar og gera nú upp í erlendum myntum. Það er ljóst að stóru alþjóðlegu fyrirtækin eru að gefast upp á Íslandi, sama í hvaða geira þau eru, sérstaklega í áðurnefndum þekkingargeira.

Ég vil leggja á það áherslu að nú þurfa stjórnmálamenn úr öllum flokkum að sameinast um að styrkja þekkingargeirann, auka vægi menntunar og rannsókna og breyta rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem skapa hagvöxt hér á landi. Við þurfum að styrkja nýsköpunardrifið hagkerfi því það er ljóst að auðlindadrifið hagkerfi þar sem við leggjum áherslu á sjávarútveg, rafmagnsframleiðslu og ferðaþjónustu mun ekki geta vaxið með þjóðinni og skapað næg störf eða næg verðmæti. Þess vegna þurfum við að marka nýja atvinnustefnu í anda þess sem áðurnefnd skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins víkur að og í þeim anda er þessi tillaga flutt.

Það eru 18 þingmenn með mér á þessu máli og við leggjum til að farið verði ítarlega yfir þá möguleika sem okkur gefast innan EES-samstarfsins og hvernig við getum breytt skattumhverfi okkar til að styrkja áðurnefndan vaxtargeira. Þessi fyrirtæki hafa næstum ótakmarkaða vaxtarmöguleika enda byggja þau tilvist sína á hugviti starfsmanna öfugt við aðrar útflutningsgreinar. Þessi fyrirtæki stunda óefnislega alþjóðlega nýsköpun, hafa mikla vaxtarmöguleika, þurfa minna fjármagn til fjárfestinga í upphafi, launakostnaður er mjög samkeppnishæfur og fjarlægðir skipta minna máli. Þess vegna geta fyrirtæki héðan, þrátt fyrir að þau komi frá landi lengst norður í ballarhafi, átt mikla möguleika á alþjóðlegum mörkuðum.

Við getum nefnt dæmi um hugverkaiðnað, t.d. leikjaiðnaðinn á Íslandi, en fyrir tíu árum var sá geiri varla til hér á landi. Í dag teljast til hans tíu fyrirtæki á mismunandi vaxtarstigum. Þau velta um 8–9 milljörðum kr. og skapa nærri 500 störf og tvö stór og öflug fyrirtæki starfa nú innan þessa geira, Betware og CCP. En betur má ef duga skal. Okkur stendur ógn af því að fjölmörg önnur lönd bjóða í þessi fyrirtæki og bjóða kjör og kosti sem gerir erfitt fyrir fyrirtækin að réttlæta það fyrir þeim sem hafa fjárfest í þessum fyrirtækjum að opna ekki útibú eða flytja höfuðstöðvar utan þar sem t.d. skattumhverfi og rekstrarumhverfi er mun betra en við getum boðið upp á hér á landi. Reyndar tel ég prívat og persónulega að helsta ástæða þess að við náum ekki að búa nógu vel að þessum fyrirtækjum sé hin íslenska króna og sá hái fjármagnskostnaður sem henni fylgir, en við erum ekki að taka á því máli með þessari þingsályktunartillögu heldur er markmiðið með henni fyrst og fremst að athuga hvort við getum endurskoðað með einhverjum hætti skattstefnu okkar til að styrkja vaxandi rannsóknar- og tæknifyrirtæki.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að rekja hvað Kanadabúar hafa gert í þessum efnum. Í Quebec-fylki í Kanada er sérstakur skattfrádráttur sem er ætlaður til að styrkja tölvuleikjaiðnaðinn þar. Þá er Quebec-ríki einnig með skattfrádrátt fyrir erlenda starfsmenn innlendra fyrirtækja og þá er sérstaklega horft til starfsmanna sem vinna á sviði rannsókna og þróunar. Þeir geta fengið 100% afslátt á tekjuskatti fyrstu tvö árin í starfi en svo lækkar skattafslátturinn smátt og smátt. Þetta gerir fyrirtækjunum kleift að vera samkeppnishæf í launum, samanborið við önnur alþjóðleg fyrirtæki, og að bjóða til sín starfsmönnum sem hafa kunnáttu, þekkingu eða sérhæfingu sem er nauðsynleg fyrir uppbyggingu fyrirtækjanna. Það væri sérstaklega hentugt ef við Íslendingar gætum horft til einhvers í þeim dúr.

Í Nova Scotia fylki í Kanada er í boði endurgreiðsla á hluta launakostnaðar fyrirtækja sem setjast að eða stækka í fylkinu en endurgreiðslan er reiknuð út frá efnahagslegu framlagi fyrirtækisins til svæðisins en er svo greidd út árlega fyrstu fimm árin.

Mörg Evrópuríki hafa tekið upp skattfríðindi sem sérstaklega eru ætluð til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar. Í Frakklandi geta til dæmis fyrirtæki sem hanna tölvuleiki með sérstakri skírskotun til menningararfsins fengið allt að 20% skattafslátt af þróunarkostnaði. Þá hafa fjölmörg ríki innleitt reglur um skattafslætti til erlendra starfsmanna sem hafa til að bera sérstaka hæfni eða menntun sem erfitt er að öðlast í heimaríki fyrirtækisins.

Mín ályktun er sú að stjórnvöld eigi að beita sér fyrir aðgerðum til að gera íslenskum fyrirtækjum í hugverkaiðnaði kleift að vaxa hér á landi en þannig er hægt að skapa sjálfbæran hagvöxt til framtíðar. Við eigum í harðri samkeppni um þessi fyrirtæki en fjölmörg þeirra hafa nú þegar höfuðstöðvar sínar eða starfsstöðvar erlendis og fjölmörg önnur hafa fengið tilboð um að gera slíkt hið sama. Þess vegna tel ég áríðandi að stjórnvöld kanni til fulls hvaða möguleikar felist í skattalegum hvötum til að styrkja við helsta vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs. Ég legg þar tvö markmið sérstaklega til grundvallar, annars vegar að skapa fyrirtækjunum hagfelldan grundvöll til frekari uppbyggingar og hins vegar að gæta að því að þau flytji ekki úr landi vegna þess að umhverfið er hagstæðara erlendis. Ég er í fararbroddi 18 þingmanna, við erum 19 þingmenn alls sem leggjum til að nú verði skipaður starfshópur sem fari yfir þá möguleika sem okkur gefast til að breyta skattkerfinu svo við getum sérstaklega hugað að helsta vaxtarbroddi íslensks atvinnulífs.



[18:39]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega myndarlegur hópur þingmanna sem lætur sig varða starfsskilyrði í atvinnulífinu og gerir sér grein fyrir því að skattar og skattlagning hafa áhrif á skilyrði til rekstrar.

Tillaga þessi lýtur hins vegar að skattaívilnunum og við þær hef ég sitthvað að athuga. Ég tel farsælast og hef talið það hingað til að skattbyrðinni sé dreift jafnt á alla en að skattar séu um leið lágir og raunhæfir, í það minnsta með tilliti til skattheimtu. Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem koma fram í greinargerð með tillögunni, nokkrum áhugaverðum punktum og vel umræðunnar virði, tel ég.

Það kemur fram strax í upphafi greinargerðarinnar að núverandi ríkisstjórn hafi beitt sér fyrir breytingum á skattkerfinu til að efla innlenda atvinnustarfsemi. Ég tel að þetta hljóti að vera einhver mistök. Það kemur líka fram í greinargerðinni að þetta er gömul tillaga til þingsályktunar, en það er auðvitað ekki rétt fullyrðing, þvert á móti. Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir breytingum á skattkerfinu sem hafa haft allt önnur áhrif en þau að efla innlenda atvinnustarfsemi. Má þar auðvitað nefna skattahækkanir á einstakar atvinnugreinar og almennar skattahækkanir í atvinnulífinu.

Í öðru lagi geri ég athugasemdir við þetta hugtak, hugverkaiðnaður. Hér er vísað til hans sem eins helsta vaxtarsprota íslensks atvinnulífs og vissulega teljast þær greinar sem hér eru taldar upp svo sem leikjaiðnaður og hönnun til helstu vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi en um leið er auðvitað verið að viðurkenna hér að vaxtarsprotarnir eru fleiri. Ég vil benda á að þessi tillaga, eins og aðrar tillögur um skattaívilnanir, er til þess fallin að draga fram einstakar atvinnugreinar en skilja aðrar eftir.

Þá vil ég líka gera athugasemd við þau ummæli sem koma fram í greinargerð með tillögunni að aðrar útflutningsgreinar byggi ekki á hugviti starfsmanna heldur byggi beint eða óbeint á takmörkuðum auðlindum. Ég held að allir viðurkenni í dag að til dæmis sjávarútvegurinn byggir að verulegu leyti á hugviti og mér finnst ekki við hæfi að viðhafa slík ummæli í greinargerð með tillögunni.

Þá velti ég því fyrir mér því sem kemur fram í greinargerðinni um að þær sérstöku greinar sem tillagan lýtur að þurfi minna fjármagn til fjárfestingar í upphafi og launakostnaðurinn sé samkeppnishæfur. Það kemur líka fram að hugverkaiðnaðurinn sem svo er kallaður hafi vaxið um 36% á ári. Því segi ég: Þetta gerist allt þrátt fyrir að ekki hafa verið fyrir hendi nokkrar sérstakar skattaívilnanir. Því spyr ég: Er einhver sérstök þörf á þessu? Er sérstök þörf á að hrófla við því sem lítur út fyrir að vera í ágætu horfi í dag?

Ég fagna því að þingmenn geri sér grein fyrir mikilvægi skatta fyrir skilyrði í atvinnulífinu og ég vil síst af öllu draga þrótt úr þeim þingmönnum sem bera fram tillöguna hvað það varðar og hvet þá til að velta þessum málum áfram fyrir sér. En ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki að sameinast um að búa öllum hagfelld skilyrði í atvinnulífinu í stað þess að taka út einstakar atvinnugreinar eins og þessi tillaga virðist ganga út á og búa þannig til einhvers konar sigurvegara og skilja aðra eftir.



[18:44]
Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Andersen fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Við erum ekki algerlega sammála um þetta mál en hins vegar er þroskandi og gott að taka umræðu um það. Ég óska eftir því að á vettvangi nefndarinnar verði sömuleiðis farið „grundigt“ yfir málið og það skoðað frá öllum hliðum, t.d. hvort menn telji að orðalag eða annað eigi að vera með öðrum hætti.

Markmiðið er hins vegar algerlega skýrt. Hér höfum við ákveðna vaxtargrein í íslensku atvinnulífi sem hingað til hefur vaxið mikið utan landsteinanna. Það er sá vöxtur sem við erum fyrst og fremst að horfa á í greinargerðinni. Vöxturinn hefur verið mjög mikill en hann hefur átt sér stað erlendis. Hann hefur verið hér á landi. Fyrst var það mjög svo sterkt gengi krónunnar sem háði vexti þessara fyrirtækja hér á landi og svo var það hrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið.

Við sjáum hins vegar að með sértækum aðgerðum getum við hjálpað ákveðnum atvinnugreinum, t.d. bendi ég á þann skattafslátt sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og lýtur að kvikmyndagerð. Það ætti enginn að efast um að það þurfti að leita í allar matarholur í kreppunni og ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að gæta jafnvægis á milli þess að skera niður og afla tekna. Þá þurfti að fara í allar matarholur og þess vegna höfum við þurft að breyta rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila í gegnum skattkerfið. Hins vegar höfum við gætt að því að hlífa þeim sem veikast standa eins og þrepaskiptur tekjuskattur er gott dæmi um.

En ég vil leggja áherslu á að ég tel það klóka leið til að nýta takmarkaða fjármuni sem við höfum úr að spila að reyna að veita þeim í þann farveg þar sem mestir möguleikar eru til að vaxa og skapa verðmæti sem geta runnið til baka aftur. Við getum ekki breytt skattkerfinu í heild fyrir alla en getum kannski hlúð sérstaklega að vaxtargreinunum með samþykkt þessarar tillögu.



[18:46]
Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þætti gaman að vita af hverju við getum ekki breytt skattkerfinu í heild fyrir alla. Mér finnst felast einhver uppgjöf í því.

Í greinargerð með þessari tillögu er vísað í átakið Allir vinna sem er ágætt dæmi til að hugleiða vegna þess að það er mikilvægt að skoða það með tilliti til samkeppnisaðilanna. Sérhver atvinnugrein er í samkeppni við aðrar atvinnugreinar, t.d. um starfsfólk. Átakið Allir vinna, eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni, var sett á laggirnar til þess meðal annars að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Þetta tel ég varhugavert. Með þessu eru menn að viðurkenna að það hafi verið einhver svört atvinnustarfsemi á tilteknu sviði og í stað þess að komast að rót þess vanda er farið í að verðlauna þá sem hafa stundað svarta atvinnustarfsemi, það má líta á það þannig. Þarna eru einhverjar iðngreinar sem hafa fengið skattaívilnanir en eftir sitja margar aðrar iðngreinar. Ég nefni hárgreiðslukonur. Hvers eiga þær að gjalda, eða snyrtifræðingar eða aðrar starfsstéttir sem svo sannarlega urðu fyrir áföllum eftir hrunið?

Ég hvet hv. þingmann, flutningsmann þessarar tillögu, til að hugleiða aftur hvort ekki sé heillavænlegra að skoða skattkerfið í heild þannig að allir (Forseti hringir.) geti notið skattaívilnana.



[18:48]
Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnhugsun mín er sú að það sé gríðarlega kostnaðarsamt að veita öllum fyrirtækjum í landinu skattafslætti. Vegna þess að ríkissjóður er í svo slæmri stöðu um þessar mundir og í stað þess að keyra okkur á lánum og eiga ekki fyrir öllum útgjöldum ættum við að reyna að takmarka afslættina og horfa sérstaklega á þann hluta atvinnulífsins sem hefur mestu vaxtarmöguleikana og einbeita okkur að því að láta hann vaxa. Það er hugsunin með þessari tillögu.

Hvað snertir átakið Allir vinna er það öðrum þræði gert til þess að nýta fjármagn sem er bundið á bankareikningum og finnur sér ekki farveg í atvinnulífinu í kreppuástandi eins og við höfum upplifað. Það var góð leið til að hvetja fólk til að nýta það fjármagn sem það átti aflögu, ef það átti eitthvað aflögu, til að ráðast í endurbætur eða viðhald á húseignum sínum eða öðru. Það skilaði mjög góðum árangri og hélt uppi ákveðinni veltu í byggingargeiranum sem fór illa í hruninu.

Ég tel að við eigum að hugsa svona dæmi víðar. Maður getur ímyndað sér að það gæti verið hagfellt fyrir okkur að hvetja fjármagn sem liggur í bönkunum til fjárfestingar í atvinnulífinu. Væri skattafsláttur til hlutabréfakaupa í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum leið til þess þar sem fólk gæti annaðhvort beint eða í gegnum sjóði fjárfest í sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, tækni- og rannsóknarfyrirtækjum sem eru helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs? Við getum þá með einhverjum hætti hvatt til þess að fólk veiti fjármuni sína í þann farveg með því að veita því skattafslætti. Vonandi aukum við þá um leið tekjur ríkisins til lengri tíma litið.



[18:50]
Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gef mér að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því hvílíkri skekkju svona skattaívilnun veldur á markaði. Meira að segja skattaívilnun til hlutabréfakaupa er ekkert annað en stýring, með því er verið að stýra fjárfestingum manna. Ég tel þannig verið að stýra vexti í atvinnulífinu með óeðlilegum hætti.

Hv. þingmaður nefndi að ekki væru til peningar fyrir frekari skattaívilnunum. Hvernig réttlætir hann þessa skattaívilnun í einni grein gagnvart öðrum greinum sem eru í samkeppni við þær greinar, t.d. um mannafla? Hverju ætlar hann að svara ferðaþjónustunni, eða menningunni sem er líka vaxtarsproti í íslensku atvinnulífi? Á hún bara að sitja eftir og horfa á það að ákveðin grein fái skattaívilnun?

Ég tel að þetta gangi ekki upp heldur skapi óréttlætanlegt misvægi í atvinnulífinu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.