141. löggjafarþing — 32. fundur
 8. nóvember 2012.
skýrsla McKinsey ráðgjafafyrirtækisins um íslenska hagkerfið.

[10:34]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku kom út skýrsla frá fyrirtækinu McKinsey þar sem þeir fara yfir íslenska hagkerfið og benda á það sem vel er gert og tækifæri til að gera enn betur. Það sem hefur greinilega tekist mjög vel hjá okkur Íslendingum undanfarna segjum tvo áratugi er að auka framleiðnina í íslenskum sjávarútvegi. Svo vel hefur það tekist hjá okkur að við berum höfuð og herðar að því er virðist yfir allar aðrar þjóðir í þeim efnum. Þetta hlýtur að vera ríkisstjórninni mikið umhugsunarefni þar sem meira eða minna allar tillögur hennar á þessu kjörtímabili hafa lotið að því að gera breytingar sem munu draga úr hagkvæmni veiðanna.

McKinsey benda á að það skipti sköpum fyrir lífsgæðin á Íslandi að okkur takist að hafa hámarksframleiðni í sem flestum greinum. Þar er bent á ýmsar aðrar greinar en sjávarútveginn, t.d. orkunýtinguna. Þeir ganga svo langt að segja að það geti skipt sköpum um lífskjör á Íslandi í framtíðinni að taka réttar ákvarðanir varðandi orkunýtinguna á næstu missirum. Ég vona að ríkisstjórnin horfi til þessa, sérstaklega núna þar sem við erum til dæmis að meðhöndla rammaáætlun sem getur haft mjög mikil áhrif á það úr hvaða kostum við höfum að spila á næstu árum.

Það er margt fleira sem rætt er í þessari skýrslu sem ég get ekki farið yfir hér en mig langar til að bera upp við forsætisráðherra þá spurningu hvort henni lítist ekki vel á þá hugmynd sem McKinsey koma fram með um að nú sé rétt, á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir hafa dregið saman, að koma á samráðsvettvangi milli stjórnmála og atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila á Íslandi til að vinna áfram með þann grunn sem þeir hafa lagt og byggja á honum áætlun til sjö eða tíu ára um það hvernig við færum hinar ýmsu stoðir efnahags okkar í átt til meiri framleiðni og þar með (Forseti hringir.) leggjum grunn að bættum lífskjörum í landinu. Hvernig tekur forsætisráðherra í þessa hugmynd?



[10:36]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í forsætisráðuneytinu höfum við allt þetta ár verið að vinna að skipulagningu á því hvernig við getum kortlagt betur sóknarfæri á Íslandi, tækifæri og ógnanir. Við vorum komin langleiðina með það hvernig við vildum skipuleggja þá vinnu þannig að skýrsla McKinseys kemur bara eins og kölluð inn í þá umræðu sem er í gangi í forsætisráðuneytinu. Ég tek sannarlega undir það sem hv. þingmaður segir, við eigum að nýta okkur það sem fram kemur í þessari skýrslu ásamt því sem við höfum verið að vinna að í forsætisráðuneytinu. Ég hef einmitt verið með það í undirbúningi og mun leggja það fyrir ríkisstjórn, annaðhvort á morgun eða þriðjudaginn, hvernig við eigum að fara í það að draga sem flesta að þessu borði og fara í þá vinnu sem kemur fram í McKinsey-skýrslunni og raunar vinnu við fleiri þætti sem við höfum unnið að.

Ég tel að fulltrúar stjórnarflokkanna eigi að koma að þessu borði sem og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og hugsanlega fleiri þannig að ég er svo sannarlega tilbúin að ræða þetta mál og hvernig við skipuleggjum það. Ég tel reyndar að við ættum að skoða sameiginlega hvernig við viljum leggja þessa vinnu fram og hvernig uppleggið á að vera í henni. Ég mun fyrr en seinna kalla fulltrúa stjórnarflokkanna að borðinu til að ræða hvernig við getum farið í þessa mikilvægu vinnu. Sóknarfærin liggja víða en það eru líka ógnanir sem þarf að taka á þannig að ég fagna þessari skýrslu og fagna því sem fram kemur í orðum hv. þingmanns um að allir komi að þessu borði enda fellur það nákvæmlega að þeirri hugmynd sem við höfum verið að vinna að (Forseti hringir.) í Stjórnarráðinu.



[10:39]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sem mér finnst eftirtektarvert varðandi skýrsluna er að engin alvörugagnrýni hefur komið fram á hana. Það er eins og meira eða minna öllum helstu niðurstöðum skýrslunnar sé tekið sem sjálfsögðum staðreyndum. Það er mikið fagnaðarefni og vonandi verður það til þess að ríkisstjórnin staldrar aðeins við og hinkrar með áform sín um að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu sem samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er greinilega framúrskarandi á alla mælikvarða.

Varðandi framhald málsins er stóra spurningin þessi: Ætlar forsætisráðherra að haga framhaldinu með þeim hætti að það sé allt á forsendum ríkisstjórnarinnar? Augljóst er að ekki er að búast við niðurstöðu um jafnviðamikið verkefni á þeim örfáu mánuðum sem líða fram að kosningum. Stendur til að búa til breiðan samstarfsvettvang þar sem engu skiptir í raun og veru að einn eða tveir aðilar séu með meiri hlutann? Verður þetta áfram á forsendum stjórnarflokkanna þannig að þeir hafi tögl og hagldir í framgangi vinnunnar (Forseti hringir.) eða á að ganga að þeirri hugmynd sem McKinsey leggur fram um að hafa viðræðugrundvöllinn miklu breiðari?



[10:40]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt margt sé fróðlegt í þessari skýrslu McKinseys og gagnlegt, sérstaklega uppleggið í henni, eru ýmsir þættir þarna sem menn eru ekki sammála um og þarf að ræða eins og hv. þingmaður nefndi, þar á meðal fiskveiðistjórnarkerfið.

Hvernig ég vil nálgast þetta? Ég vil að menn setjist að þessu borði og finni hvar samnings- og sáttafletir eru. Hvar er hægt að ná sátt og einingu um þau ýmsu verkefni sem þarna koma fram og reyndar fleiri sem ég vildi leggja upp með? Ég tel að breið fylking þurfi að koma að þessu borði þannig að skoðanir sem flestra fái að njóta sín og koma saman. Við eigum ekkert að flýta okkur í þessu. Ég tel ekkert sáluhjálparatriði að flýta þessu og fá einhverja niðurstöðu fyrir kosningar. (Forseti hringir.) Við eigum að taka okkur góðan tíma í þetta og finna út hvar sátta- og samningsleiðir eru í þessu máli. Það er af nógu að taka.