141. löggjafarþing — 33. fundur
 13. nóvember 2012.
vextir af lánum frá Norðurlöndum.

[13:44]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Vegna orðaskipta hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hér áðan er rétt að nota tækifærið og minna hæstv. ráðherra á að framsóknarmenn hafa lagt fram enn eina tillöguna um hvernig koma megi til móts við þau heimili sem lítið hefur verið gert fyrir með úrræðum ríkisstjórnarinnar fram að þessu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér það.

Erindið var að spyrja um annað þó að það sé á vissan hátt tengt, því að komið hefur til umræðu á þjóðþingum Norðurlanda, einkum í Noregi, að Íslendingar hafi verið látnir greiða of háa vexti af lánum sem Norðurlöndin veittu í tengslum við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hafa þau lán verið borin saman við lán þeirra sömu landa til Írlands sem bera töluvert lægri vexti þó að staða mála á Írlandi sé síst betri en hér á landi. Fram kom að hæstv. fjármálaráðherra hefði nýverið hitt fjármálaráðherra Noregs, Sigbjørn Johnsen, en ekki hefur verið upplýst um hvað nákvæmlega þau ræddu en þau ræddu þó að einhverju leyti þetta vaxtamál.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé mat hans að vextir Norðurlandalánanna, hinna svokölluðu vinalána, séu hærri en æskilegt og eðlilegt mætti telja með tilliti til aðstæðna og hver sé ástæðan fyrir því að ekki hafi verið leitað eftir því að fá þá vexti lækkaða því að fram kom í norska þinginu að Íslendingar hefðu einfaldlega ekki farið fram á lægri vexti. Það var svarið við því hvers vegna Íslendingar greiddu hærri vexti en Írar, að Íslendingar hefðu ekkert beðið um lægri vexti.



[13:46]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á því að rekja að vorið 2009 var mikið reynt til þess að ná þessum vöxtum niður. Ég fór í sérstaka ferð til Norðurlandanna, hitti marga af kollegum mínum og talaði við hina til þess að reyna að semja um hagstæðari kjör en þau sem áformuð höfðu verið. Það má kannski segja að upp úr því krafsi hafi hafst 25 punkta lækkun eða svo. En það var allt og sumt sem mögulegt var að þoka þessu niður þarna á þessum vordögum.

Þá var staðan vissulega önnur en hún er á Íslandi í dag. Áhættuálagið á okkur var þá í hæstu hæðum, næstum í grískum hæðum, og óvissan miklu meiri um það hvernig okkar staða yrði til að endurgreiða þau lán sem við vorum þarna að taka.

Næst má segja að það hafi borið til í þessum efnum að á síðari hluta árs 2011 óskuðum við eftir því við Norðurlöndin að fá að geyma lántökuréttinn og breyta þessu í lánalínur því að það var augljóst mál að það mundi ekki kosta okkur mikið að eiga þarna upp á að hlaupa lántökumöguleika ef á þyrfti að halda. Þessu var því miður líka neitað. Þess vegna drógum við á lánin í lokin en tókum svo þann kost að endurgreiða þau hratt nú í byrjun þessa árs í tveimur skömmtum. Er svo komið að við höfum endurgreitt rúmlega helminginn.

Í því ljósi séð — og ég held að enginn efist lengur um getu Íslands til að endurgreiða svo þessi lán þegar þar að kemur, við erum búin að borga afborganir fram til 2018 — teldi ég fullkomlega eðlilegt að ræða við Norðurlöndin um að við færum núna aftur yfir kostnaðinn af þessari lántöku. Það er augljóst mál til dæmis í tilviki Noregs, sem hefur eitthvert besta lánstraust í heiminum, er kannski með 15–20 punkta álag á Euribor- eða Libor-vexti, er 275 punkta álag býsna mikið af lánveitingum af þessu tagi til vinaþjóðar. Ég er því þeirrar skoðunar, já, að það sé ágætt að þessi umræða er komin af stað og að full ástæða sé til að fylgja henni eftir.



[13:48]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. ráðherra telji fullt tilefni til að reyna að semja á ný um vextina af þessum lánum. Umræðan um þessa lántöku á sínum tíma, af hálfu ríkisstjórnarinnar, var hins vegar iðulega á þeim nótum að þarna væru Norðurlöndin að gera Íslendingum sérstakan greiða og svo mikinn greiða að við ættum jafnvel að sætta okkur við að taka á okkur Icesave-kröfurnar til þess að af þeim greiða yrði.

Nú er hins vegar ljóst að þarna var um að ræða lán á töluvert háum vöxtum og það er líka rétt, sem hæstv. ráðherra nefnir, að æskilegra hefði verið að fá svokallaðar lánalínur frekar en eiginleg lán, eins og framsóknarmenn bentu á á sínum tíma. Ekki var hins vegar leitast eftir slíku fyrr en það var orðið of seint, að minnsta kosti að mati hæstv. ráðherra eins og kom fram hér áðan.

En betra er seint en aldrei og ástæða til að fagna því ef hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ætla að beita sér fyrir lækkun vaxta af Norðurlandaláninu.



[13:50]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt að það komi fram að það var ekki biðröð eftir því að lána Íslandi peninga í lok árs 2008 og framan af ári 2009, og samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var svona sett upp og þannig kom ég að henni að Norðurlöndin hefðu — (Gripið fram í.) Já, það fór nú eins og það fór með rússneska lánið, hv. þingmaður, sem og stóra lánið sem einhver ætlaði að sækja til Noregs. Það var ekki biðröð eftir því að lána til Íslands, það var ekki þannig, og óvissan var mikil.

Það er vísu líka rétt að taka það fram að tvær þjóðir sýndu Íslandi einstakt veglyndi við þessar aðstæður. Það voru Færeyjar, sem buðu fram sitt rausnarlega lán á góðum kjörum strax, og það var Pólland, sem bauðst til að taka þátt í fjármögnun samstarfsáætlunar með Alþjóðgjaldeyrissjóðnum og lagði sérstaka áherslu á að fram kæmi að pólska lánið væri veitt án skilyrða. Það voru vinalán.

Varðandi Norðurlöndin hef ég litlu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ástæðan fyrir því að umræðan kemur fyrst og fremst upp núna er sú (Forseti hringir.) að alveg fram undir lok síðasta árs (Forseti hringir.) bundum við vonir við að geta breytt því sem eftir stóð af lántökuréttinum í línu og hefðum þá ekki þurft að draga á það og ekki borið af því kostnað. Þess vegna er umræðan um vaxtakjörin nú fyrst að koma upp.