141. löggjafarþing — 34. fundur
 14. nóvember 2012.
sjúkratryggingar, 1. umræða.
stjfrv., 303. mál (samningar sjúkratryggingastofnunar). — Þskj. 336.

[16:18]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Í frumvarpinu er lagt til að við ákvæði laganna um samningsumboð til handa Sjúkratryggingum Íslands vegna samninga um heilbrigðisþjónustu verði bætt inn nýrri málsgrein um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu greinarinnar. Þá er lagt til í frumvarpinu að gildistökuákvæði um að Sjúkratryggingar Íslands annist gerð samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili verði frestað um tvö ár, eða til 1. janúar 2015.

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skal sjúkratryggingastofnun semja við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða veitendum heilbrigðisþjónustu endurgjald samkvæmt samningi. Í samræmi við það annast Sjúkratryggingar Íslands nú gerð samninga sem áður voru á hendi samninganefndar ráðherra og samninga sem heilbrigðisráðuneytið gerði áður. Lögin tóku gildi 1. október 2008, en gert var ráð fyrir að ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2010. Gildistöku þeirra ákvæða hefur hins vegar verið frestað með lögum í þrígang, eitt ár í senn.

Að óbreyttu mun ákvæði um samninga um heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins taka gildi 1. janúar 2013. Frá þeim tíma munu Sjúkratryggingar Íslands taka við samningagerð um veitingu eða kaup á heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, þ.e. sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Þar með eiga Sjúkratryggingar Íslands meðal annars að semja við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða þeim endurgjald samkvæmt samningi í samræmi við 39. gr. laganna.

Í athugasemdum við 39. gr. kemur meðal annars fram að sjúkratryggingastofnunin taki við hlutverki sem heilbrigðisráðuneytið hefur sinnt á sviði samningsgerðar við heilbrigðisstofnanir og fjárveitingar til heilbrigðisstofnana. Ákvæði 39. gr. sjúkratryggingalaga, um umboð sjúkratryggingastofnunar til samningagerðar, eru afar opin og kunna að leiða til óvissu um framkvæmd þrátt fyrir 4. gr. laganna þar sem segir að ráðherra fari með yfirumsjón sjúkratrygginga og samningagerðar um heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð samkvæmt lögunum og yfirstjórn sjúkratryggingastofnunar. Þetta á einnig við þó að í 2. gr. laganna segi að ráðherra marki stefnu innan ramma laganna, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga og að ráðherra sé enn fremur heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, meðal annars hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.

Vegna þessa þykir því rétt að bæta við 39. gr. nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, meðal annars hvað varðar heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins.

Rétt er að geta þess að ekki er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um gerð samninga við ríkisreknar heilbrigðisstofnanir fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að fela stofnuninni aukna samningsgerð, en slíkt krefst aukins mannafla og fjármagns.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er nú unnið að undirbúningi á flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaga og er stefnt að því að flutningurinn komi til framkvæmda í síðasta lagi 1. janúar 2015. Því þykir eðlilegra að ákvarðanir um fyrirkomulag samninga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skilgreiningu heilbrigðisþjónustu sem veitt verði á hjúkrunarheimilum verði teknar í tengslum við undirbúning flutnings málaflokksins til sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands komi að þeirri vinnu.

Því er lagt til að gildistökuákvæði laganna, um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili, verði frestað til 1. janúar 2015. Af því leiðir að framlengja þarf heimild í ákvæði til bráðabirgða IV, heimild til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð. Lagt er til að sú heimild verði sömuleiðis framlengd um tvö ár.

Með vísan til framangreinds þykir rétt að fresta um sinn gildistökuákvæði um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili. Lagt er til að gildistöku verði frestað í tvö ár. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða IV, um heimild til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð, verði framlengt til sama tíma.

Haft var samráð við Sjúkratryggingar Íslands, en afstaða stofnunarinnar var sú að mikilvægt væri að lögin taki að fullu gildi um næstu áramót þannig að ágreiningur var við ráðuneytið um þann þátt. Þá var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að minnsta kosti ekki fyrst um sinn.

Eins og fram hefur komið felst í frumvarpinu ákvæði um heimild til ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu á samningsumboði og frestun lokaáfanga á flutningi samningsgerðar til Sjúkratrygginga Íslands.

Hef ég nú gert grein fyrir hvoru tveggja. Ég legg áherslu á það sem hér er lagt til, þ.e. að ákvæði sem annars tekur gildi 1. janúar 2013 verði frestað um tvö ár. Það er nauðsynlegt að frumvarpið verði því að lögum á haustþingi. Leyfi ég mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.



[16:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög dapurlegt að þetta frumvarp sé komið fram aftur. Forsaga þess er að við stofnun Sjúkratrygginga Íslands — og gengið var frá því haustið 2008 — var því frestað um eitt ár að sjúkratryggingar tækju að fullu alla samninga sem varða heilbrigðisþjónustu í landinu eins og lagt var upp með. Sjúkratryggingar Íslands voru einfaldlega stofnaðar til að hafa á einum stað alla samningagerð ríkisins. Með mikilli einföldun var það til þess að við gætum náð sem hagstæðustum samningum fyrir sjúklinga. Það er nú þannig að þetta er hagur okkar allra — það er ríkisvaldið sem greiðir fyrir þessa samninga og fyrir heilbrigðisþjónustuna að langstærstum hluta, rúmlega 80%. Það er mikil skynsemi í því að fara að dæmi nágrannalanda okkar sem hafa farið þá leið að hafa samningsgerðina á einum stað. Það þýðir að þangað safnast mesta þekkingin og reynslan. Áður en Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar var þessi samningagerð í höndum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar Íslands, síðan í höndum sérsamninganefndar heilbrigðisráðherra og síðan í heilbrigðisráðuneytinu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að á ýmsu gekk haustið 2008 þannig að hluta af verkefnum sjúkratrygginga var frestað um eitt ár. Svo það sé bara sagt snerist það ekki um að auka útgjöld sjúkratrygginga eða setja í þær meiri fjármuni og mannafla, þetta snerist fyrst og fremst um tilfærslu á því fólki sem að hluta er að vinna í heilbrigðisráðuneytinu og, ef ég man rétt, á Landspítalanum og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, yfir í stofnunina þannig að við næðum þeim markmiðum sem til var ætlast. Hugmyndafræðin er einföld: Þetta gekk út á það að kostnaðargreina þjónustuna, meta faglegu þættina þannig að við værum alltaf að ná sem hagkvæmustum samningum.

Hvað þýðir það að ná sem hagkvæmustum samningum? Það þýðir að við veitum betri þjónustu. Það sem vantar í íslenska heilbrigðisþjónustu er betri skilgreining á því hvað stofnun á að gera og það vantar sömuleiðis betri mælingar á því hvað stofnun eigi að gera. Það vantar samræmdar mælingar á milli stofnana og þess vegna er umræðan um íslenska heilbrigðisþjónustu oft á tíðum alhæfukennd, og byggir á tilfinningu eða skoðunum en ekki staðreyndum.

Nú er staðan sú að núverandi ríkisstjórn er búin að fresta þessu allt kjörtímabilið. Það hefur alltaf fylgt að lengri tíma þurfi til að undirbúa þetta. Nú er komið að lokum kjörtímabilsins og enn erum við ekki á þeim stað að ríkisstjórnin treysti sér til að klára þetta verk og láta sjúkratryggingarnar taka þetta hlutverk um næstu áramót. Það eru auðvitað mjög slæmar fréttir, það eru slæmar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Það er algjörlega óskiljanlegt af hverju þessu hefur verið frestað ár eftir ár. Það er sömuleiðis fullkomlega óskiljanlegt af hverju menn ætla að fresta þessu um tvö ár. Hér eru nefndar ástæður, þ.e. að hluti af þessu snúi að því að flytja eigi ákveðinn málaflokk, sem ekki er svo sem búið að ganga frá, frá ríki til sveitarfélaga. Nú veit ég ekki hvernig sú vinna stendur, en það kæmi mér verulega á óvart ef við sæjum fyrir endann á henni. Látum það liggja á milli hluta. Það breytir ekki því að þegar verið er að flytja ákveðna þjónustu frá ríki til sveitarfélaga er afskaplega mikilvægt að hún sé vel skilgreind. Það skiptir miklu máli að hún sé kostnaðargreind því að annars horfum við upp á sama vanda og upp kom þegar málefni sem tengdust geðfötluðum voru flutt yfir til sveitarfélaganna, allt í einu kom í ljós að ástandið er mjög bágborið á mörgum sviðum varðandi búsetu geðfatlaðra. Við höfum horft upp á deilur á milli aðila í fjölmiðlum undanfarið út af þeim málum.

Hvaða málaflokk sem meiningin er að flytja til sveitarfélaganna, alveg sama hver hann er, skiptir mjög miklu máli að hann sé skilgreindur og það skiptir miklu máli að það sé skýrt hvað þeir sem veita þar þjónustu eigi að gera og hver sé kostnaðurinn á bak við það. Það þarf ekkert að rökstyðja það neitt sérstaklega, það er svo augljóst.

Það snýr að hluta þessara mála, annað snýr að þeim stofnunum sem eru hjá ríkinu. Hver einasti aðili sem hefur komið að þessum málum, hvort sem um er að ræða rekstraraðila eða aðila í stjórnsýslu eða í stefnumótun, erlenda aðila sem að þessum málum hafa komið — allir komast að sömu niðurstöðunni: Það er ekki nægjanlega vel skilgreint hvað hver á að gera. Ég hélt að allir væru sammála um, sama í hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi er, að vilja sjá meira um samninga, betur skilgreint hvað hver á að gera og hvað er greitt fyrir það.

Það að hæstv. ríkisstjórn sé búin að gefast upp á þessu verkefni — því þetta er bara uppgjöf, þetta er fullkomin uppgjöf, við höfum tekið þessa umræðu á öllum haustþingum frá því þessi ríkisstjórn tók við. Iðulega hafa komið góð orð um að klára eigi þetta verkefni, það þurfi bara eitt ár í viðbót eða lengri tíma til að klára þetta. Nú er niðurstaðan þessi: Menn eru búnir að gefast upp. Í ofanálag á að fara þá leið að fresta þessu og ekki bara um eitt ár heldur um tvö ár. Ég vil nú ætla að sú ríkisstjórn sem tekur við af þessari verði röskari í þessum málaflokki svo að við sjáum fram á að þetta mál verði klárað sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Sama hvaða skoðanir menn hafa í heilbrigðismálum þá hlýtur að vera samstaða um að það sé vel skilgreint hver eigi að gera hvað, hvaða skyldur eru hjá hverri stofnun og hvað á að greiða fyrir viðkomandi þjónustu. Það getur ekki verið deilumál, ég bara trúi því ekki. Þá er það spurning um leiðirnar.

Hugmyndin um Sjúkratryggingar Íslands var ekki fundin upp á Íslandi. Þetta er ekki íslensk uppfinning. Hún snýr að því að við höfum verið að skoða það sem gerist í nágrannalöndunum. Við höfum verið svo lánsöm að geta farið í smiðju Norðurlandanna sem hafa farið í þessa vegferð og gert ákveðin mistök. Við þurfum ekki að gera þau mistök vegna þess að við getum lært af mistökum þeirra. Þau eru nú komin mun lengra á veg en við, kannski fyrst og fremst vegna þess að þau fóru þá leið sem liggur að baki hugmyndinni um Sjúkratryggingar Íslands.

Virðulegi forseti. Þetta verður rætt hér í þinginu, það segir sig sjálft, og örugglega líka í hv. velferðarnefnd. Það er ekki boðlegt fyrir sjúklinga þessa lands að menn séu að gefast upp með þessum hætti.



[16:33]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er beinlínis hlægilegt að hlusta á það hjá hv. þingmanni að þetta snúist um það hvernig þjónustan er veitt sjúklingum. Þetta snýst um hvernig við getum búið til umhverfi um samkeppni, kaup og sölu á skilgreindum verkefnum. Það verður að segjast nákvæmlega eins og er að við þær aðstæður sem við höfum búið höfum við ekki náð tökum á því sem hv. þingmaður nefnir, að færa til og búa til samningateymi á einum stað. Við höfum verið í vandræðum og ekki náð að halda samningum hvorki við sérgreinalækna, sem er þó verkefni sjúkratrygginga, né tannlækna. Við höfum ekki náð þeim inn á samning frekar en fyrrverandi ráðherrar. Við skulum ræða það á þeim forsendum. Það er ekki verið að tala um þjónustuna við fólkið.

Það er líka verið að gera tillögu um að ráðherra fái leyfi í gegnum reglugerð til að taka upp samninga á einstökum stofnunum í framhaldinu þannig að hægt sé að stíga ákveðin skref. Aftur á móti þykir ekki eðlilegt að byrja á því að gera samninga við einstakar stofnanir í öldrunarmálaflokknum fyrr en við vitum, og getum sammælst um það við sveitarfélögin, hvaða þjónustustig eigi að vera á þeim þannig að þeir sem eiga að taka við málaflokknum séu við borðið þegar við skilgreinum um hvað á að semja. Það er byrjað á öfugum enda með því að semja við einstök hjúkrunarheimili áður en við skilgreinum samningsmarkmiðin og þau gæði þjónustunnar sem þar eiga að vera.

Þetta snýst á engan hátt um þjónustu við sjúklingana. Þetta snýst um það að við höfum haft af því svolítil vandræði hvernig hefur verið búið um kerfið og stöðu þeirra sem eru með einkafyrirtæki á markaðnum. Það er það stór hópur, um 400–500 þús. heimsóknir til sérgreinalækna, að við höfum ekki getað lagt þá þjónustu af. Enda engin ástæða til, við höfum viljað hafa þá þjónustu. Því miður hafa sjúkratryggingar, ráðuneytið og við sem að þessu störfum ekki getað haldið þeim samningum og við höldum áfram að borga þjónustuna til fólksins.

Ég kom hér upp til að vekja athygli á því að þetta snýst ekki um þjónustuna við sjúklingana heldur um ytri umgjörð í samkeppnissamfélaginu okkar. Hvort það sé raunveruleg samkeppni, þvinguð samkeppni eða fákeppni. Þess vegna höfum við frestað þessu. Við viljum stíga skrefin varlega. Þess vegna er sett inn reglugerðarheimild en ekki bein frestun á þeim kafla en vinna er í fullum gangi við að skilgreina gæðaþjónustu öldrunarheimilana sem fyrst. Við höfum ákveðið að gefa okkur tíma því að svona yfirfærsla á að taka tíma og á að vinnast í samstarfi sveitarfélaga og ríkisins. Ég vona að þetta fái framgang. Það skiptir miklu máli.

Ágreiningurinn sem hefur verið um sjúkratryggingar hefur fyrst og fremst verið um að sjúkratryggingar telja að þeir hafi heimild við núverandi lög til þess að vera ekki með samninga, þ.e. að ráðuneytið geti eftir sem áður ákveðið að það þurfi ekki að gera samninga. Lögfræðingar í velferðarráðuneytinu hafa metið ákvæðin í lögunum það afdráttarlaust að sú heimild að fresta samningum sé ekki hjá ráðherra ef ekki er lagaheimild og þess vegna kemur þetta hér inn sem frumvarp. Það er ekki endilega ágreiningur um það hvaða verkefni viðkomandi stofnun á að vinna.



[16:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú ekki eins og hæstv. ráðherra væri hlátur í huga þegar hann flutti þessa ræðu enda er þetta grafalvarlegt mál. Samningar við ríkisstofnun snúast ekki um samkeppnisumhverfi. Það er öllum ljóst að stór hluti, og kannski langstærsti hluti, heilbrigðisþjónustu á Íslandi verður aldrei rekinn í neinu samkeppnisumhverfi. Hér eiga ekki við hefðbundin samkeppnisumhverfi eins og er á mörgum öðrum sviðum. Það mætti í rauninni segja að hugmyndin á bak við stofnun sjúkratrygginga væri í rauninni mjög samkeppnishamlandi því hugmyndin er að setja alla samningagerð á einn stað til þess að ná sem bestum samningum fyrir ríkið og fyrir sjúklingana. Það er auðvitað þvert á anda samkeppni.

Hæstv. ráðherra ætti að vita að til dæmis Landspítalinn hafði forgöngu um, og það er öfugt við það sem gerist í flestum öðrum löndum, að kostnaðargreina þjónustu. Vanalega er það þannig í þeim löndum sem við berum okkur saman við að hið opinbera hefur gengið í það að kostnaðargreina og stofnanir gengið á eftir.

Það er alveg ljóst að við verðum ekki með marga landspítala. Langstærsti hlutinn af þeirri þjónustu sem þar er veitt verður bara veitt þar. Það að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við ríkisstofnanir snýst ekkert um samkeppni. Það snýst um fagleg vinnubrögð. Það snýst um að við skilgreinum hvaða þjónustu við ætlum að veita og kostnaðargreinum hana og að við náum sem hagstæðustum samningum fyrir sjúklingana sem þurfa á þeirri þjónustu að halda.

Það að halda því fram og tala í þessu samhengi um að hér sé eitthvað í fullum gangi hljómar ekki sannfærandi þegar menn koma hér í lok kjörtímabils (Forseti hringir.) og fresta málinu enn og aftur.



[16:39]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá yfirlýsingu um að ekki eigi að vera samkeppni heldur eigi þetta að vera sameiginlegur ríkisrekstur og ábyrgðin á ríkinu hvað varðar heilbrigðiskerfið. Þannig er það í lagaumhverfinu og þannig hefur meiri hluti þjóðarinnar viljað hafa það. Þannig viljum við hafa það áfram.

Það að kostnaðargreina og fylgjast með þjónustu o.s.frv. hefur ekkert með þetta frumvarp að gera svo að það sé sagt. Að láta það líta út þannig að stefnumótunin færist til sjúkratrygginga og þar verði þarfagreiningin og allt slíkt, það kemur ekkert þaðan. Það kemur eftir sem áður úr ráðuneytinu og frá þeim stefnum sem eru. Þar hefur verið unnið gríðarlega mikið starf, ekki með látum og ekki verið að breyta eða kúvenda, til þess að reyna að horfa til framtíðar á erfiðum tímum, niðurskurðartímum sem við höfum þurft að ganga í gegnum. Að endurskipuleggja miðað við þjónustu á landinu í heild, endurskipuleggja hvað er í þjónustunni á Landspítalanum, það gerum við ekki endilega með því að fara í samninga á milli sjúkratrygginga og Landspítala um einstök verk þegar aðeins einn aðila er við að semja. Við munum, eins og kemur hér fram, fylgjast áfram með kostnaði og vinna þetta áfram.

Það sem ég var að bregðast alvarlega við, og var þess vegna grafalvarlegur á svipinn, er að menn tengja þetta við þjónustuna við sjúklinga. Það fannst mér ómaklegt og að láta að því liggja að hér sé verið að rýra eitthvað þjónustu finnst mér ekki rétt.



[16:41]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gekk bara út á eitt að setja Sjúkratryggingar Íslands af stað: Að bæta þjónustu við sjúklinga. Svo einfalt er það. (Gripið fram í: Hefur það gerst?) Ég vona það, virðulegi forseti. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði var biðlistum eftir augnsteinaaðgerðum til dæmis eytt vegna þess að menn fóru í þá hugmyndafræði að kostnaðargreina og gerðu samninga við þá sem gerðu það með hvað hagkvæmustum hætti. (Gripið fram í: Þeir eru enn þá með það.)

Virðulegi forseti. Ég hvet nú hæstv. ráðherra til að koma hér upp og taka umræðuna. Við skulum gera það. Það sagði enginn, og ef hæstv. ráðherra hefur haldið því fram hef ég misskilið málið í grundvallaratriðum, að stefnumótun ætti að fara til sjúkratrygginga. Hún átti aldrei að gera það. Stefnumótunin á að vera í ráðuneytinu. Þetta snýst um að vera með á einum stað þekkingu til þess að kostnaðargreina þjónustuna og gera samninga við þá aðila, eins og t.d. Landspítalann og fjölmarga aðra, sem gera hluti sem eru hvergi gerðir annars staðar. Af hverju? Til þess að nýta skattfé betur svo við getum veitt meiri þjónustu. Þetta gengur bara út á þjónustu við sjúklinga. Til þess var farið í þessa vegferð.

Það er alvarlegt ef hæstv. ráðherra kemur hér í lok kjörtímabils og hefur ekki meiri skilning á þeirri hugmyndafræði. Það er mjög alvarlegt því að þetta snýst um eitt: Þjónustu við sjúklinga.

Ég hef aldrei hitt neinn í heilbrigðisþjónustunni sem hefur ekki kallað eftir skýrari samningum og reyndar bara samningum. Það skiptir engu máli hvort það eru forustumenn Landspítalans, hjúkrunarheimila, heilsugæslunnar og hvort sem það er úti á landi, í Reykjavík eða hvar þeir eru.



[16:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það vegna þess að það skiptir máli og ég hélt, virðulegi forseti, að samstaða væri innan þingsins um að bæta góða heilbrigðisþjónustu. Það er alltaf nauðsynlegt en þó sérstaklega á tímum eins og þeim þegar við höfum minni fjárráð en við höfum haft áður. Í því felast ákveðin vandamál en líka tækifæri.

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar ég sá þetta frumvarp koma fram. Það eru engar afsakanir gildar þegar menn eru að fresta þessu einu sinni enn. Engar. Það hefur margoft verið hrakið, þetta snýst ekki um að eyða meiri peningum. Þetta snýst um að við færum á einn stað þá sem þekkja best til þessara mála. Er það ekki skynsamlegt, virðulegi forseti? Að sjálfsögðu er það skynsamlegt. Þess vegna fór ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þessa leið, ríkisstjórn sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu nú alltaf ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins þangað til það breyttist haustið 2008 og sá flokkur hvarf úr þeirri ríkisstjórn, í það minnsta í sögubókum Samfylkingarinnar.

Við verðum að setja markið hátt í heilbrigðisþjónustunni. Við eigum að geta náð þverpólitískri samstöðu um að vinna faglega að þeim málaflokki. Það getur vel verið að við náum ekki saman um einhverja hluti, það er allt í lagi, en ég held að við séum sammála um svona 90–95%. Ég hef ekki hitt neina þá aðila, hvorki innan heilbrigðisþjónustunnar né í stjórnmálum, sem hafa virkilega kynnt sér málin og ekki verið sammála því að við skilgreinum hvað hver á að gera. Og er þá sama hvort þeir vilja stórt hlutverk einkareksturs eða ríkisreksturs, að rekstrarformið verði fjölbreytt eða að allt verði ríkisrekið sem er ákveðin öfgaskoðun sem ég held að einn stjórnmálaflokkur hafi á stefnuskrá sinni. Það gerist ekki af sjálfu sér. Það leikur enginn vafi á því að ef við gerum það náum við betri árangri.

Ég nefndi hérna augnsteinaaðgerðirnar. Lengstu biðlistarnir voru á sínum tíma í augnsteinaaðgerðir. Eftir að vera búin að bera saman hina ýmsu þjónustuaðila náðum við samningum við nokkra, bæði opinbera og einkaaðila, sem gerði það að verkum að við gátum gert þetta fyrir fólkið með hagkvæmari hætti. Þetta voru ódýrari aðgerðir.

Það sem er jákvætt í því líka, virðulegi forseti, er að þar komu líka einkaaðilar, fyrirgefið að ég segi frá því, sem eru að þjónusta ekki bara Íslendinga heldur líka útlendinga. Í hverri viku koma hingað Norðurlandabúar í augnaðgerðir sem gerir það að verkum að við getum haft fleira íslenskt heilbrigðisstarfsfólk að störfum í stað þess að það fari til útlanda og veitir okkur ýmsar aðrar tekjur. Þar er eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, stærsti kúnnahópurinn og vinir okkar í raun, Færeyingar. Ef rétt er á málum haldið eigum við að geta nýtt okkur stöðuna, vegna þess að við eigum fyrst og fremst hæft starfsfólk en líka aðstöðu sem getur nýst fleirum en bara Íslendingum.

Það eru mikil sóknarfæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég bið hæstv. ráðherra að hugsa málið, hvort við getum ekki náð samstöðu um það að breyta þessu frumvarpi því um það verður ekki friður eins og er núna.



[16:47]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmann sagði að það hefði ekkert átt að kosta að stofna sjúkratryggingar á sínum tíma. Hann sat við borðið á þeim tíma sem ráðherra þegar verið var að stofna sjúkratryggingastofnun og ég tók raunar þátt í þeirri vinnu fyrir hönd Samfylkingarinnar meðal annars og átti ágæta fundi í tengslum við það og hef því skilning á því um hvað var rætt og hvaða kröfur við gerðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi það ekki: Hvað var áætlað að fjölgað yrði um marga starfsmenn? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni það.

Hér voru nefndar augnsteinaaðgerðir. Það er ljóst að Sjúkratryggingar Íslands sjá um slíka samninga og marga aðra og við erum með fjölda samninga í gangi í dag. Hér erum við að ræða hvort færa eigi alla samninga afdráttarlaust frá og með 1. janúar 2013 yfir til sjúkratrygginga, þar með hjartaaðgerðir á Landspítalanum og ýmsar aðrar aðgerðir.

Mig langar líka að heyra frá hv. þingmanni hvort honum finnist ekki eðlilegt að við bíðum með að semja við einstakar stofnanir þar til við höfum gert gæða- og forsendulýsingar varðandi hjúkrunarheimilin, taka út einstakar stofnanir þar, á sama tíma og við vinnum með sveitarfélögunum að því hvaða kröfur eigi að gera.

Í þriðja lagi langar mig að velta upp hvort hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á því að þessi framsetning á frumvarpinu núna er breytt frá því sem var áður vegna þess að ekki er tekin afstaða gegn því að gerðir verði samningar. Það er kveðið á um að ráðherra hafi heimild til að gefa út með reglugerð við hverja skuli semja og þar er tekið á því ágreiningsefni sem verið hefur á milli sjúkratrygginga og ráðuneytisins hvað núverandi lög þýða. Ef lögin taka gildi túlkar ráðuneytisfólkið, lögfræðingarnir, það þannig að það sé afdráttarlaust að allir samningar verði gerðir í gegnum sjúkratryggingar frá og með þeim degi. Sjúkratryggingar segja: Við getum ráðið því hversu hratt þetta verður innleitt. Á þessu er tekið með (Forseti hringir.) reglugerðinni. Er það ekki fullnægjandi breyting?



[16:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisandsvar og ég tel að ef við ræðum þetta á þessum nótum geti það orðið grunnur að málefnalegri og góðri umræðu. Ég tel afskaplega mikilvægt að við skilgreinum hvaða þjónustu við ætlum að færa frá ríki til sveitarfélaga.

Miðað við þær sem upplýsingar sem ég fæ frá sveitarstjórnarmönnum um síðustu tilfærslu telja þeir að ekki hafi verið nógu vel vandað til verka. Ég skal viðurkenna að þetta er bara það sem ég hef heyrt í samtölum við fjölda sveitarstjórnarmanna, meðal annars bæjarstjóra og aðra. Við þekkjum það í gegnum söguna að oft hefur vantað upp á að við höfum skilgreint nógu vel hvaða þjónustu við ætlum að færa yfir. Síðan hafa staðið endalausar deilur milli ríkis og sveitarfélaga um hvað var í rauninni samið um og hvort nægilegir fjármunir hafi fylgt og svo framvegis. Ég held því að það sé lykilatriði að skilgreina þetta vel. Þeir sem hafa rekið hjúkrunarheimili hafa mjög oft, ég held bara á hverjum einasta fundi sem ég hef farið á með þeim, talað um að það sé verið að bera saman epli og appelsínur þegar kemur að þjónustunni. Þeir eru ósáttir við að ekki séu samningar í gildi og ekki skýrt hvað þeir eigi að gera. Sá þáttur skiptir því mjög miklu máli.

Hvað sjúkratryggingar varðar veit ég auðvitað að það er ekki verið að taka neitt af þeim, en hæstv. ráðherra nefndi að við værum að tala um aðgerðir á spítölum og annað slíkt, að það ætti að semja um þetta allt saman. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það í þessu stutta andsvari, ég fer betur yfir það á eftir, en ef við skoðum hvernig þetta er á Norðurlöndunum þá er alla jafna ekki samið um hverja einustu aðgerð. Það eru vissar aðgerðir sem menn eru með en síðan er gerð kostnaðargreining á aðgerðum til að meta þær, til dæmis má gera það milli íslenskra stofnana eða þá á milli landa og stofnana þar. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt, en ég fer betur yfir þetta í seinna andsvari.



[16:52]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að sveitarfélögin hafi ekki verið sátt við yfirfærsluna og ekki hafi alls staðar verið vandað til verka. Nú veit ég ekki hvað hann á við. Varðandi málefna fatlaðs fólks held ég að almennt séð hafi sveitarfélögin og þeir sem hafa notið þjónustunnar verið mjög ánægðir með yfirfærsluna. Þótt það hafi komið upp ágreiningur um einstaka þætti er skýr farvegur fyrir það. Það sem er ólíkt því sem gert var á sínum tíma þegar grunnskólinn var færður yfir er að núna er sett inn að árið 2014 skuli meta árangurinn af yfirfærslunni, fara yfir fjárhagslega útkomu, þróun þjónustunnar og svo framvegis.

Það er nákvæmlega þess vegna sem við höfum seinkað því að færa málefni aldraðra yfir. Þess vegna erum við að tala um tvö ár, við ætlum að bíða og sjá hver niðurstaðan verður á sama tíma og við munum vinna af fullum krafti við að undirbúa yfirfærslu á málefnum aldraðra. Samtímis verðum við að gera okkur grein fyrir því að það verður erfitt að skilja á milli heilsugæslu og öldrunarþjónustu hjá einstaka stofnunum úti á landi. Víða er þessi þjónusta á hendi einnar stofnunar og þá verður hugsanlega að vera valkvætt hversu stór hluti er fluttur yfir.

Það eru auðvitað fordæmi fyrir því að sveitarfélög reki heildstæða þjónustu eins og til dæmis á Höfn í Hornafirði og víðar. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur um að það eigi að meta kostnað og vinna nákvæmar úttektir um það hver afköstin eru í heilbrigðiskerfinu og við munum halda þeirri vinnu áfram algjörlega óháð þessu. Við getum svo farið að taka inn einstaka þætti með þessari reglugerðarbreytingu til að starfsfólk sjúkratrygginga sé undir það búið að geta farið að þróa ákveðna vinnu í framhaldinu.

Þetta er hugmyndafræðin hér á bak við og ég held að ég deili því með hv. þingmanni að það er ánægjulegt að heyra að þverpólitísk samstaða hefur verið um meginþætti heilbrigðiskerfisins. Þannig (Forseti hringir.) þarf það auðvitað að vera áfram. Það skiptir okkur miklu máli.



[16:54]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum komin á þann stað sem ég mundi vilja hafa okkur, við erum að minnsta kosti að ræða það sem við erum sammála um. Við erum sammála um að það eigi að kostnaðargreina þjónustuna og vinna þetta eins faglega og hægt er. Ég tel þess vegna að það sé skynsamlegt að hafa þekkinguna á einum stað og það sem snýr að því sem við getum kallað kaupendahlutverkinu, alla vega sem snýr að þeim sem greiða þetta sem eru fulltrúar skattgreiðenda. Þess vegna var ákveðið að setja Sjúkratryggingar Íslands á fót, til að hafa þekkinguna á einum stað.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að á mörgum stöðum er mjög erfitt að greina á milli þjónustunnar. Ég hef ekki verið neinn sérstakur talsmaður þess að færa málefni aldraðra yfir og hefði viljað sjá góð rök fyrir því. En vegna þess að aðstæður eru mismunandi á milli landshluta, sveitarfélaga og svo framvegis tel ég að það verði að fara svolítið fjölbreyttar leiðir í þessu.

Ég held að það sé mjög æskilegt að fara þá leið sem farin var á Höfn, Akureyri og öðrum stöðum. Ég vildi sjá það gerast á fleiri stöðum að sveitarfélög taki yfir heilbrigðisþjónustu og samnýti við aðra þjónustu og samnýting gæti verið jafnvel meiri en verið hefur fram til þessa. Það fyndist mér æskilegt. Aðstæður er hins vegar mjög mismunandi hjá sveitarfélögum í landinu.

Virðulegi forseti. Málið er að það var farið af stað í þessa vegferð 2008 og síðan hefur þessari yfirfærslu verið frestað ár eftir ár. Nú er komið 2012 og þá ætla menn að fresta þessu til ársins 2015, að ég held. Það er bara ekki gott fyrir þjónustuna. Við erum sammála um að það þurfi að kostnaðargreina. Það er af því að við erum að hugsa um þjónustuna. Við erum ekki að greina kostnaðinn, hvort sem hann er á spítölum eða annars staðar, bara af því að við erum svo forvitin um tölur. (Forseti hringir.) Þetta snýst um að bæta þjónustuna.



[16:56]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að blanda mér aðeins í þessa umræðu þó að seint sé, ég vona að hún lengist ekki mjög mikið við það. Ég er hingað komin til þess að vekja athygli á þeim skýru fyrirvörum sem minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hafði og hefur við löggjöfina um Sjúkratryggingar Íslands.

Okkar grunnstefna er sú að heilbrigðisþjónustan skuli rekin af sameiginlegum sjóðum okkar allra, þ.e. fyrir skattfé, og að allir fái notið hennar eftir þörfum án tillits til fjárhagsstöðu. Þetta er það sem kallað hefur verið norræna módelið í heilbrigðisþjónustu. Það er allt annars eðlis en ameríska módelið sem er á hinum endanum þar sem menn þurfa að kaupa sér læknisþjónustu af eigin aflafé eða með tryggingum, sem atvinnurekendur í flestum tilfellum borga, eða vera án hennar ella.

Því er það nú svo að milljónir manna og sérstaklega barna í Bandaríkjunum eru án trygginga þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, en sú er ekki raunin þar sem norræna módelið er lagt til grundvallar.

Það er áhugavert að taka á ný þátt í umræðum um þessi mál og ég ætla sannarlega að vona að heilbrigðisþjónustan og skipulag hennar komi oftar á dagskrá þingsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af þessu tilefni um Sjúkratryggingar Íslands. Tilefnið er orðaskipti hans og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem fór á sínum tíma hér í gegn með lögin um sjúkratryggingar á afskaplega óvenjulegan hátt, svo vægt sé til orða tekið, rétt fyrir hrun og vakti miklar deilur, bæði aðferðafræðin, vinnubrögðin og niðurstaðan. Það sem hann er að verja hér er nokkuð sem minn flokkur greiddi atkvæði gegn og styður ekki. Studdi ekki og styður ekki.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hugmyndir séu uppi um að kanna hver reynslan er af stofnun og rekstri Sjúkratrygginga Íslands, þeirrar nýskipunar í heilbrigðisþjónustu sem taka átti upp og sótt var fyrirmynd til Svíþjóðar og Bretlands, þessa kaup- og söluhugsunarháttar sem átti að yfirskyggja allt. Í lögunum er meira að segja tekið fram að ekki megi semja við stéttarfélög eins og Ljósmæðrafélag Íslands. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru áhrifin á Tryggingastofnun ríkisins? Þeirri stofnun var skipt upp og búnar til tvær stofnanir í stað einnar. Ég spyr í ljósi þess að nú hafa félags- og tryggingamálaráðuneytið sem þá hét svo og heilbrigðisráðuneytið sem þá hét svo verið sameinuð í eitt ráðuneyti velferðarmála.

Ég heyrði ekki að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson svaraði spurningu hæstv. ráðherra um það hversu margir starfsmenn hefðu átt að vinna hjá Sjúkratryggingum Íslands. Ég man að aðeins á skrifstofunni í yfirstjórninni átti að fjölga um 14 manns, haustið sem við ræddum þetta í þáverandi hv. heilbrigðisnefnd. Mig langar því til að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvaða áhrif þessi nýja stofnun hefur haft og hvort einhverjar nýjar hugmyndir séu uppi um að samræma eða sameina einhverja af þeim þáttum sem nú eru hjá stofnununum tveimur. Ég er ekki að spyrja hvort til standi að ganga skrefið alla leið til baka, ég hygg að það sé ekki hægt, en ég tel hins vegar mjög nauðsynlegt að skoða í þessum efnum eins og öllum öðrum í ríkisrekstrinum tækifæri til samlegðar og sameiningar, til að bæta þjónustu og spara fé.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvers staðar hafi verið höfð uppi sú skoðun að athuga ætti hvort stofnun Sjúkratrygginga Íslands hafi leitt til sparnaðar í kerfinu og þá hvar og fyrir hvern. Hafa þeir samningar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert verið árangursmetnir á einhvern hátt? Hafa þeir skilað einhverju öðru en síhækkandi kröfum um fjárveitingar frá Alþingi? Það sjáum við sem gleggst í fjárauka- og fjárlagatillögum til sérfræðiþjónustu vegna þess að það þarf líka að árangursmeta þá samninga sem Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki gert. Ég spyr um kostnað af því, ekki aðeins fyrir ríkissjóð heldur ekki síður fyrir þá sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu sem eru þúsundum saman án heilsugæslulæknis, án heimilislæknis og leita beint til sérfræðilækna. Þar hafa ekki verið samningar í gildi í eitt og hálft ár, hygg ég. Á þeim tíma hefur engin þörf verið fyrir sérgreinalækna að fara á samning vegna þess að þeir hafa tekið sér launahækkun úr vasa sjúklinga sinna með því að krefja þá um sérstakt álag á komugjöldin sem nemur allt að 3 þús. kr. í heimsókn hjá hverjum sérgreinalækni. Þar er ekki spurt hvort menn séu öryrkjar eða hvort þeir séu með mörg börn á heimili.

Herra forseti. Þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum svo sannarlega að ræða miklu frekar. Ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með að ekki hafi enn komið fram frumvarp um breytingu á heilbrigðisþjónustunni í þá veru sem allir þingmenn sem tjáðu sig hér fyrir tveimur til þremur árum voru sammála um að taka upp, en það er valkvætt tilvísanakerfi sem mundi að mínu mati leiða til verulegs sparnaðar og bættrar þjónustu í heilbrigðismálum á Íslandi. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra til að taka til hendinni í þeim garði.



[17:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hér er kannski komin skýringin á þessum sífelldu töfum því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kemur hingað upp og segir að hún hafi ekki stutt og styðji ekki enn Sjúkratryggingar Íslands.

Virðulegi forseti. Við munum, af því að hæstv. ráðherra …

(Forseti (KLM): Forseti þarf að gera aðvart um að nota ekki farsíma í þingsal.)

Ég var ekki að nota neinn farsíma.

(Forseti (KLM): Enda var orðum að sjálfsögðu ekki beint til hans heldur til annars, en ég bið hv. þingmann að halda áfram ræðu sinni og tíma verður bætt við vegna þessara tafa.)

Getur virðulegur forseti kannski bent mér á hvar ég var í ræðunni? Það er ekki svo. Ég þarf þá að rifja það upp. Hér hefur komið skýrt fram — ekki fæ ég neinn viðbótartíma, virðulegi forseti, á klukkuna. Verður örugglega séð til þess?

Virðulegur forseti. Hér kom skýrt fram að hv. þingmaður Vinstri grænna studdi ekki og styður ekki enn Sjúkratryggingar Íslands eða hugmyndafræðina á bak við þær. Við munum atganginn hjá hv. þingmanni þegar hún var ráðherra gagnvart þeirri stofnun og forustunni þar. Það var mjög alvarlegt en ég ætla ekki að fara út í það hér og heldur ekki útleggingar hennar á heilbrigðiskerfum almennt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að tvennu: Telur hv. þingmaður að ástæðan fyrir því að ekki náðust samningar — og nú hefur hæstv. ríkisstjórn misst sérfræðinga af samningi sem er alvarlegt — sé vegna Sjúkratrygginga Íslands og að það sé út af Sjúkratryggingum sem sérfræðingar fóru af samningi? Trúir hv. þingmaður því virkilega? Hv. þingmaður getur þá kannski útskýrt fyrir okkur af hverju tannlæknar fóru af samningi fyrir mörgum árum því að þá var ekki búið að stofna Sjúkratryggingar Íslands.

Síðan hitt, af því að hér er talað um valkvætt tilvísanakerfi, … (Forseti hringir.)

Hvað nú, virðulegur forseti?

(Forseti (KLM): Ja, nú hefur forseti bætt við þeim tíma sem ræðumaður varð fyrir truflun og þessum andsvaratíma hv. þingmanns er því lokið að þessu sinni.)

Já, ég vil bara spyrja: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur, ef farið verður út í tilvísanakerfi, af þeim stóra vanda í heilbrigðiskerfinu hvað eru fáir heimilislæknar? (Forseti hringir.)



[17:07]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum er ekki skýring á þeim töfum sem orðið hafa á því máli sem við ræðum. Þvert á móti, þetta módel gengur einfaldlega ekki betur upp en svo. Það er óþarfi að vera undrandi á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum eða stefnufestu minni og annarra þingmanna okkar.

Ég nefndi áðan að þessi hugmynd hefði verið sótt til Svíþjóðar einna helst þar sem hún hefur þegar, sérstaklega hvað varðar heilsugæsluna, leitt til sífellt verri þjónustu þar sem hennar er mest þörf. Þetta þekkja menn mjög vel. Sænska módelið er því miður ekki lengur það fyrirmyndarmódel sem það var áður vegna þess að hægri menn hafa haldið þar of lengi um stjórnartauma og eru komnir býsna langt með að eyðileggja heilbrigðisþjónustuna. Ég gæti rökstutt þetta ef ég fengi til þess lengri tíma.

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki væri samið og hvort ég teldi að það væri út af Sjúkratryggingum Íslands. Nei, ég kenni þeim ekki um en mér er ljóst, eins og hv. þingmanni hlýtur líka að vera, að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki dugað til að ná samningum á þeim vettvangi og var það er þó eina hlutverkið sem þeim var ætlað í þeim efnum. Ég var að vekja athygli á því.

Varðandi tannlæknana er rétt að það er enginn hvati til þátttöku þeirra í samningum við ríkið meðan ríkið tekur ekki þátt í neinum niðurgreiðslum á tannlæknaþjónustu fyrir þá sem mest nota hana (Forseti hringir.) sem eru á bilinu 18 ára til 67 ára.



[17:09]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að þær fréttir hafi ekki borist til landsins að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé orðið ónýtt. Þetta eru örugglega stærstu fréttir dagsins og þær hafa ekki borist um internetið þannig að það er kannski skip á leiðinni með þessar fréttir til að styðja það sem hv. þingmaður, formaður velferðarnefndar (Gripið fram í: Fyrrverandi.) — fyrrverandi formaður velferðarnefndar, upplýsir alþjóð um, að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé ónýtt, hvorki meira né minna. Til upplýsingar þá er heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð skipt upp eða því stjórnað eftir kommúnum þannig að það er svolítið mismunandi, eða var það síðast þegar ég vissi, en ég vissi ekki betur en að það væri til mikillar fyrirmyndar og að almennt litu menn til þess eins og heilbrigðiskerfis annars staðar á Norðurlöndum, alla vega síðast þegar ég skoðaði OECD-tölur var ekki hægt að sjá annað. Síðan eru ýmsar útfærslur í kommúnunum eins og annars staðar og menn hafa hvergi í heiminum náð fullkomnun en ég held að það sé eitthvað í að það muni gerast. En látum það liggja milli hluta.

Ég spurði hv. þingmann út í tilvísanakerfið. Ef við erum með tilvísanakerfi þá þýðir það að allir þurfa að fara í gegnum heimilislækni. Ég þarf stundum að nota heimilislækni og fjölskyldan mín, eins og aðrir Reykvíkingar, og ég veit alveg hvað það tekur langan tíma, þó þurfum við ekki að gera það ef við ætlum að sækja einhverja sérfræðiþjónustu. En ef það væri tilvísanakerfi, hvort sem það væri valkvætt eða ekki, mundi aukast mjög álag á þessa fáu heimilislækna sem hér eru. Við vitum líka að það vantar heimilislækna úti á landi. Einnig hafa menn miklar áhyggjur af því að þeir séu almennt komnir á aldur því að það hefur verið allt of lítil endurnýjun. Ég spyr hv. þingmann því aftur: Hefur hún engar áhyggjur af því ef við tökum upp tilvísanakerfi að það kæmi niður á þjónustunni og mundi lengja enn meira biðina eftir þjónustu heimilislækna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu?



[17:11]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, auðvitað er það mikill og alvarlegur vandi hversu fáir heilsugæslulæknar eru og hversu lítil afköst þeirra eru í dagvinnutíma en þeim mun meiri á læknavaktinni á kvöldin. Þetta er skipulagsatriði og það skiptir verulega miklu máli að styrkja stöðu heilsugæslulækninga í læknadeild Háskóla Íslands og hvetja til þess að menn fari í þá grein læknisfræðinnar því að það er eins og menn hafi algjörlega misst áhugann á því. Á undanförnum misserum hefur áhuginn þó vaknað aftur og síðast þegar ég vissi stóðu vonir til þess að þetta væri eitthvað að breytast.

Herra forseti. Mig langar aðeins, af því að hv. þingmaður nefndi hávaða í kringum Sjúkratryggingar Íslands þegar ég var ráðherra, að nota tækifærið til að segja að ég er afskaplega hreykin af því að hafa getað komið því til leiðar þrátt fyrir mikla andstöðu Sjúkratrygginga Íslands að þeir sem fæddir eru með skarð í vör og klofinn góm eða með meðfætt tannleysi af einhverjum öðrum orsökum fái nú notið heilbrigðisþjónustu í tannlækningum og tannísetningum eins og þeir þurfa.

Ég tel að valkvætt tilvísanakerfi, eins og við höfum oft rætt um hér, væri af því góða. Það þyrfti auðvitað að innleiða það í tilteknum áföngum og skrefum. Ég hygg að hv. þingmaður sé mér sammála um að það mundi leiða til betri þjónustu, bættrar skilvirkni og jafnvel sparnaðar í kerfinu.



[17:13]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spurði mig hvort gerð hefði verið úttekt á sjúkratryggingum og kannað hver reynslan hefði verið. Já, gerð var úttekt á rekstri og umfangi og hvernig hefði tekist til varðandi kostnað og annað. Úttektin kom afar vel út fyrir sjúkratryggingar. Reksturinn hafði verið hagkvæmur en samtímis verðum við að viðurkenna að þar var ekki um að ræða gæðamat á vinnu. Eftir sem áður hef ég ákveðið á þeim tíma sem ég hef verið ráðherra að halda áfram rekstri sjúkratrygginga og ekki farið í róttækar breytingar þess efnis að hverfa til baka eða færa þetta verkefni inn í ráðuneytið eins og sumir hafa viljað.

Varðandi áhrifin á Tryggingastofnun ríkisins þá held ég að í sjálfu sér hafi aðalvandamálið verið ágreiningur um það hvernig stofnununum skyldi skipt upp. Sérstaklega var ágreiningur um tölvukerfi og eins var ágreiningur hvað varðar fjárveitingar og annað slíkt. Að hluta til er þessi ágreiningur enn óleystur.

Varðandi hvað hefur áunnist í samræmingu og sameiningu þá verður að viðurkennast að ekki hefur náðst sá fulli taktur sem ég hefði viljað sjá á milli velferðarráðuneytis og Sjúkratrygginga Íslands. Við þurfum einmitt að stilla betur saman strengi varðandi þau boð sem koma frá velferðarráðuneytinu og hvernig þeim er framfylgt af sjúkratryggingum varðandi stefnumótun, framkvæmd samninga og annað slíkt.

Ég svara þessu varðandi það hvort sjúkratryggingar hafi náð fram sparnaði: Já, það hafa þær gert á ýmsum sviðum eins og varðandi lyf, þó ekki S-merktu lyfin en það er auðvitað ekki bara við sjúkratryggingar að sakast þar. Það er rétt sem komið hefur fram að það hefur verið vandamál varðandi sérfræðilækna og samningar hafa ekki náðst og auðvitað bera bæði ráðuneytið og sjúkratryggingar ábyrgð á því en fyrst og fremst sérfræðilæknarnir sjálfir.

Varðandi tilvísanakerfið þá er það í heilbrigðisáætluninni að vinna eigi að því. Við höfum kallað þetta þjónustustýringu sem er auðvitað það sama og valkvætt vegna þess að ekki er (Forseti hringir.) hægt að færa þetta yfir með einu pennastriki.



[17:16]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör, sem mér finnst góð og fullnægjandi. Ég verð þó að segja að mér finnst orðið „þjónustustýring“ ekki par betra en „tilvísanakerfi“ sem er það orð sem við þekkjum yfir þessa þjónustu og ég hefði viljað halda í af stakri íhaldssemi sem ég er þekkt fyrir.



[17:16]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að svara í fyrra andsvarinu um samningsleysið og áhyggjur mínar, sem ég deili með hv. þingmanni, varðandi það að sérgreinalæknar eru sumir hverjir farnir að setja aukagreiðslur á sjúklinga, sem ekki eru innan þeirra hámarka eða þátttöku sem við miðum við í endurgreiðslu til sjúklinga, og það er alls kostar óásættanlegt. Í því samhengi vil ég vekja athygli á að í skýrslu sem starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins og mín, eftir vinnu sem Magnús Pétursson leiddi, kom fram mjög hörð gagnrýni á og efasemdir um að löglegt væri að greiða fyrir þjónustu sem ekki væri samningur um. Við þurfum því að fylgja því mjög eftir að þarna náist samningar.

Varðandi tilvísanakerfið og þjónustustýringu er það alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er svona ákveðinn orðaleikur. Þegar maður talar um tilvísanakerfið er það kannski skilningurinn hjá manni sjálfum að einhver eigi að vísa til annars. Þjónustustýringin getur verið með öðrum hætti, að menn þurfi stundum að fara í gegnum ákveðna tilvísun en einnig sé hægt að stýra með verði eða aðgengi eða einhverju slíku. Það hefur verið skoðað samhliða hvað er skynsamlegt miðað við að við höfum gríðarlegan mannauð í sérgreinalæknunum, en það var forsenda þess að ná samningum. Við þurfum líka að nýta okkur heilsugæsluna og efla hana. Ég held að enginn ágreiningur sé um það. Það hefur ekki tekist fyllilega þannig að við eigum þar mjög mikið verk óunnið.

Ég þakka umræðuna. Mér finnst gagnlegt að fá tækifæri hér, þó í kringum þetta frumvarp sé, til að fá smátíma til að ræða heilbrigðismálin. Heilbrigðisáætlunin kemur vonandi fljótlega inn í þingið. Þá verður vonandi umræða um heilbrigðismálin, langtímamarkmiðin og hvað við sjáum. Við erum líka komin með innanhússkýrslu sem er framhald af svokallaðri Boston Consulting vinnu, sem var starfshópur þar sem allir þeir hópar komu og skiluðu sinni vinnu. Það verður mikið fóður í umræðu líka þar sem þessi umræða þarf að eiga sér stað. (Forseti hringir.) Við þurfum að halda áfram að reyna að ná þjóðarsátt um það hvernig við byggjum upp sem best heilbrigðiskerfi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.