141. löggjafarþing — 35. fundur
 15. nóvember 2012.
varðveisla og viðhald gamalla skipa og báta, fyrri umræða.
þáltill. JBjarn o.fl., 392. mál. — Þskj. 468.

[17:25]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta. Flutningsmenn tillögunnar auk mín eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir.

Tillagan hljóðar svo, herra forseti:

„Alþingi ályktar að fela atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera tillögur um hvernig best megi tryggja varðveislu og viðhald gamalla skipa. Nefndin taki saman yfirlit yfir skip með varðveislugildi sem eru yfir tíu tonn að vigt, og léttari báta ef þeir hafa sérstakt varðveislugildi, skýri hvaða aðili hafi forræði yfir hverju varðveislu- og/eða viðhaldsverkefni fyrir sig, finni fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnanna og móti reglur um meðhöndlun þess fjármagns sem til ráðstöfunar kann að verða og um forgangsröðun verkefna. Í nefndinni sitji fulltrúar frá greinum sjávarútvegsins, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þjóðminjasafni Íslands og héraðssöfnum.“

Herra forseti. Með þessari tillögu er greinargerð sem ég mun hér rekja.

Þingmál þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta þingi, en náðist þá ekki að mæla fyrir því.

Viðurkennt er að hverri þjóð ber að varðveita sögu sína og menningararf. Hér á landi er það Þjóðminjasafn Íslands sem er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu. Því ber lögum samkvæmt að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar. Þessu hlutverki sinnir Þjóðminjasafnið en einnig starfa fjölmörg önnur söfn á landsbyggðinni sem sinna mörgum og mismunandi verkefnum til varðveislu á minjum og menningu, að því marki sem fjármagn og aðstæður leyfa. Þá má einnig minnast á Sjóminjasafnið í Reykjavík. Einn þáttur í þessu starfi er varðveisla gamalla skipa, þ.e. stærri skipa sem hafa sögulegt gildi. Í viðræðum við fulltrúa Þjóðminjasafnsins kom í ljós að kostnaður við að varðveita slík skip er það mikill að hvorki Þjóðminjasafn né önnur söfn ráða við verkið nema til komi sérstök fjárveiting. Á þess vegum eru því engin verkefni á döfinni hvað varðar stærri skip.

Þingmál hafa verið lögð fram með það að markmiði að marka sérstakan tekjustofn til þess að tryggja varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta. Ég minni þar á þingmál á 125. og 131. löggjafarþingi, en þau mál náðu ekki fram að ganga.

Á 125. þingi, veturinn 1999–2000, lögðu fimm þingmenn allra stjórnmálaflokka, sem þá áttu sæti á Alþingi fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skyldi vera 50 þús. kr. á hverja rúmlest skips sem tekið væri til varðveislu eftir 1. janúar 1990. Fyrsti flutningsmaður að því máli var hv. þáverandi þingmaður Guðjón A. Kristjánsson og meðflutningsmenn voru þingmennirnir Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Jón Bjarnason, sá sem hér stendur, lagði við þær umræður um málið áherslu á að eðlilegt væri að atvinnuvegurinn tæki jafnframt þátt í starfinu og væri ábyrgur fyrir sögu sinni og menningu. Afgreiðsla málsins á Alþingi varð sú að frumvarpinu var breytt í meðferð sjávarútvegsnefndar í nýja þingsályktunartillögu sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Tillagan var síðan samþykkt af Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. Með þeirri þingsályktun var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki meðal annars þátt í.

Nú við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða er eðlilegt að staða þessara mála sé könnuð og fundin umgjörð. Vel má hugsa sér að sjóðir sjávarútvegsins eða veiðigjald hafi hér hlutverk við fjármögnun verksins.

Á 131. þingi, veturinn 2004–2005, flutti þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, frumvarp um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Í því var gert ráð fyrir að sjóðurinn yrði lagður niður og eignum umfram skuldir, sem voru þá milli 400–600 millj. kr., skyldi ráðstafað til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Minni hluti sjávarútvegsnefndar lagði til með breytingartillögu að eignir umfram 400 millj. kr. færu til ríkissjóðs og yrði ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa, sem væri í samræmi við vilja Alþingis frá árinu 2000 og þá þingsályktun sem þar var samþykkt samhljóða.

Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, tók mjög undir breytingartillögu minni hlutans á þeim tíma um að marka farveg til varðveislu skipa í stað þess að vinna að förgun, „sökum einhverrar sjúklegrar tortryggni í garð fiskiskipa“, svo orðrétt sé vitnað í orð þáverandi hv. þingmanns, og jafnframt „að ekkert hefur verið gert með þann vilja Alþingis sem samþykktur var samhljóða á 125. löggjafarþingi, að menn reyndu að bæta fyrir syndir sínar sem orðnar voru.“ Hann minnti einnig á þann sorgaratburð þegar bátasafn Þjóðminjasafnsins brann.

Herra forseti. Til upplýsingar er rétt að rifja upp hvaða söfn flokkast sem sjóminjasöfn og mundu teljast væntanlegir þátttakendur í umræddum verkefnum. Fyrst má nefna Byggðasafnið í Görðum, en safnið var stofnað 1959 og er starfssvæði þess Akranes og Hvalfjarðarsveit. Markmið sjóminjadeildar safnsins er að safna, skrá, varðveita, rannsaka og sýna minjar sem tengjast sjó og sjómennsku frá byggðarlaginu. Þess er skemmst að minnast að þar er til varðveislu Kútter Sigurfari, en það hefur verið verulegur höfuðverkur um það hvernig skuli fjármagna verndun hans og friðun. Það er í sjálfu sér enn óleystur vandi þó að menn séu að reyna að finna leiðir, en slíkt kostar verulegt fjármagn.

Það má nefna Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði, en þar er að finna ýmsa muni sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Það má einnig nefna Sjóminjasafnið á Eyrarbakka, Byggðasafn Garðskaga, Byggðasafnið á Hnjóti, Sjóminjasafnið á Húsavík, Byggðasafn Vestfjarða, Tækniminjasafn Austurlands, Síldarminjasafn Íslands og Víkina, Sjóminjasafnið í Reykjavík, sem hefur vaxið mjög og er alhliða sjóminjasafn á einum besta stað við höfnina í Reykjavík. Við safnið er varðveitt varðskipið Óðinn, ásamt því að sögð er saga gæslu og björgunar við Ísland. Ég held að okkur flestum sem höfum farið um borð í Óðin finnist það mjög fróðlegt og gaman og upplýsandi að upplifa sögu björgunar og landhelgisgæslu hér við land.

Þá má nefna Sjóminjasafnið í Sjóminjagarðinum á Hellissandi og Bátasafn Breiðafjarðar, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði, en þar er varðveitt hákarlaskipið Ófeigur. Það eru sjálfsagt fleiri söfn og aðilar hér á landi sem hafa tekið að sér verkefni á þessu sviði, það má nefna bátafriðunarnefnd sem er hópur áhugamanna, og hollvinafélag um varðveislu Húna II sem er gamall eikarbátur sem tekist hefur mjög vel að gera upp en þarf stöðugt viðhald og endurbætur. Víða vinna bæði einstaklingar og félög að varðveislu báta og skipa en eiga það sameiginlegt að berjast í bökkum við að fá fjármagn til þeirra verkefna.

Við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar teljum að okkur beri skylda til að koma þessum málum í fastan og öruggan farveg. Sjósókn og sjávarútvegur, skipakosturinn og saga hans, er samofin atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar. Þó að margt gott hafi verið gert á þessum sviðum, einkum hvað varðar hina minni báta, er líka margt ógert. Skip sem eru nokkuð stærri en þeir róðrarbátar sem fyrst og fremst hafa verið varðveittir liggja algjörlega óbætt hjá garði hvað varðar stefnu um varðveislu þeirra.

Þessi þingsályktunartillaga er flutt til að farið verði skipulega í þessi mál, staðan greind, t.d. hvernig staða mála er varðandi varðveislu þeirra skipa sem nú eru til, skoðað hvernig bregðast eigi við til að tryggja að þau tortímist ekki og vinna að áætlun um það hvernig þau verða varin, endurgerð eða þeim viðhaldið, samkvæmt því sem skynsamlegast er að gera. Eins og rakið er í tillögunni eru mörg þessara verkefna fjárfrek og því eðlilegt að atvinnuvegurinn, atvinnugreinin, komi að þessu með beinum hætti, bæði til að meta menningar- og varðveislugildi þess sem hluta af sinni sögu en einnig að koma að þessu með fjármögnun. Þetta hefur verið gert í landbúnaðinum, ég nefndi ágætismiðstöð sem er landbúnaðarsafn á Hvanneyri. Víðar um land og á mörgum sviðum hefur landbúnaðurinn einmitt tekið þátt í varðveislu muna, minja og sögu sem tengjast greininni með því að sýna áhuga, leggja til fagþekkingu, hvatningu og einnig fjármagn eftir því sem hefur verið fært. Hið sama tel ég mjög mikilvægt að sjávarútvegurinn geri í enn ríkari mæli og það sé í föstum farvegi. Þar má gera verulegt átak.

Ég vil í lokaorðum mínum skora á sjávarútveginn og greinar hans að taka þetta mál upp innan sinna vébanda, innan sinna samtaka og félaga, og veita þessu máli brautargengi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni framsögu verði tillögu þessari um varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta vísað til atvinnuveganefndar, af þeirri ástæðu að ég tel að atvinnugreinin eigi að koma beint að þessu máli þó svo að framkvæmdarleg forsjá á verkefninu sem slíku geti síðar verið falin öðrum.

Herra forseti. Þetta er brýnt mál, okkur ber skylda til að varðveita sögu okkar og menningu í sjósókn og sjávarútvegi. Þau skip og þeir bátar sem hér um ræðir eru mikilvægir hlekkir, mikilvægir þættir í atvinnusögu okkar sem við eigum að standa vörð um.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.