141. löggjafarþing — 36. fundur
 19. nóvember 2012.
Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 138. mál. — Þskj. 138, nál. m. brtt. 488.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:12]

Brtt. í nál. 488 samþ. með 41:4 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁÞS,  BÁ,  BLár,  BjG,  BjarnB,  BVG,  EKG,  GuðbH,  GLG,  GStein,  GErl,  HHj,  IllG,  ÍR,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LGeir,  MSch,  MÁ,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  TÞH,  VBj,  ÞKG,  ÖJ,  ÖS.
nei:  GBS,  SIJ,  SF,  VigH.
5 þm. (AtlG,  BirgJ,  LMós,  MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
13 þm. (ÁsmD,  ÁRJ,  BJJ,  BjörgvS,  EyH,  GÞÞ,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KÞJ,  SDG,  ÞrB) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:10]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi já við breytingartillögunni og ég sagði já áðan við atkvæðagreiðslunni um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Ég ætla að nota tækifærið fyrst ég er kominn í stólinn og segja já við frumvarpinu í heild sinni á eftir og lýsa mikilli ánægju minni yfir því að málið skuli loksins vera til lykta leitt á Alþingi. Það hefur mikinn og góðan hljómgrunn og hefur verið unnið að því vel og lengi. Þetta hefði mátt gerast fyrr en betra er seint en aldrei.

Ég er alveg viss um, virðulegi forseti, að við erum að stíga góð skref. Þetta er vinna sem hófst fyrir nokkuð mörgum árum síðan í minni samgönguráðherratíð eftir stjórnsýsluúttekt sem gerð var og mikla og faglega vinnu vinnuhópa sem sett var í gang í framhaldi af því. Hér er sem sagt afraksturinn af því og ég óska okkur til hamingju með að klára það þótt seint sé.



[16:11]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn höfum gert grein fyrir því að okkur þyki þetta mál ekki nægilega vel undirbúið. Því styðjum við að gildistökunni verði frestað svo að betri tími vinnist til þess að undirbúa þetta betur og framkvæmdin verði þannig að sómi verði að.

Ég vek athygli á þeim ummælum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þegar hann lýsir því að ekki hafi verið orðið við óskum um að aðilar kæmu á fund nefndarinnar til þess að gera grein fyrir meðal annars reynslu annarra þjóða. Það gerist of oft í þinginu, virðulegi forseti, að það skorti á málsmeðferðina. Ég minnist yfirlýsinga margra hv. þingmanna um nauðsyn þess að vanda vinnubrögð, um gegnsæi og samvinnu. Þessi vinnubrögð eru ekki í samræmi við það.



Frv., svo breytt, samþ. með 25:20 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  BirgJ,  BjG,  BVG,  GuðbH,  GLG,  GStein,  GErl,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LGeir,  MSch,  MÁ,  ÓÞ,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁJ,  BÁ,  BLár,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GBS,  IllG,  ÍR,  JónG,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SER*,  SIJ,  SF,  TÞH,  VigH,  ÞKG.
5 þm. (AtlG,  ÁÞS,  LMós,  MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
13 þm. (ÁPÁ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BJJ,  BjörgvS,  GÞÞ,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KÞJ,  SDG,  ÞrB) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að hann studdi á rangan hnapp í atkvgr.; ætlaði að segja já.]

1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:13]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um að við stígum hér gæfuspor. Við erum að hugsa samgöngumálin upp á nýtt, að hafa þau öll heildstætt undir, samgöngur á sjó, samgöngur á landi og samgöngur í lofti. Við erum að laga stofnanakerfið að þeirri nýhugsun.

Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að ekki hafi verið ástunduð vönduð vinnubrögð. Menn eiga ekki að einblína um of á það sem gerst hefur innan veggja þingsalarins. Það er í stofnunum og í stofnanakerfinu sem mikil vinna hefur farið fram, starfshópar hafa komið þar að verki, fjölmargir starfsmenn. Ég hef átt fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og allra þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Ég staðhæfi að það hefur verið unnið að málunum á vandaðan hátt. Ég fagna því að við séum að stíga þetta gæfuskref.