141. löggjafarþing — 37. fundur
 19. nóvember 2012.
einelti á vinnustöðum.
fsp. EyH, 251. mál. — Þskj. 278.

[16:29]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég spyr hvað hæstv. velferðarráðherra hefur gert til að draga úr einelti á vinnustöðum.

Á síðasta löggjafarþingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn til velferðarráðherra um hvernig ráðherra hefði framfylgt tillögum sem koma fram í greinargerð frá júní 2010 um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Þá kom fram að í ráðuneytinu hefðu menn sérstaklega horft til þess hvort setja þyrfti lög um skyldur þjónustuaðila í vinnuvernd, verið væri að skoða það að veita þolendum stuðning á þremur heilsugæslustöðvum sem tilraunaverkefni frá 1. júní 2011 til 1. júní 2013, og að vinna við forvarnaáætlun hefði ekki hafist. Mér skilst að aðilar vinnumarkaðarins hafi unnið að sameiginlegum reglum um það hvernig mætti bregðast við einelti og mismunun á vinnustöðum. Í ljósi þess að nýlega héldum við upp á eineltisdaginn fannst mér við hæfi að við tækjum þetta mál upp á þingi og ræddum um það sem við höfum gert hingað til.

Í könnun sem unnin var á meðal starfsmanna ríkisins árið 2008 kom fram að 11% ríkisstarfsmanna töldu sig hafa orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði og fjórðungur hafði orðið vitni að einelti á sínum vinnustað. Það kom líka fram að í þeim tilvikum þar sem formleg kvörtun var lögð fram var í 76% tilvika ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Nær helmingur þeirra sem gripu til aðgerða vegna eineltis sem þeir urðu fyrir sagði að ástandið hefði ekki breyst eða jafnvel versnað og fjórðungur fór í kjölfarið að leita sér að annarri vinnu.

Í grein sem ég skrifaði í morgun í DV benti ég á umræðuna í Svíþjóð en þar hafa þegar verið sett lög sem snúa við sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum. Þar þurfa skólar að sýna fram á að þeir hafi brugðist við eineltinu á fullnægjandi hátt til að firra sig ábyrgð og skaðabótaskyldu, og þar er rætt um að setja sambærileg lög fyrir atvinnulífið í heild.

Ég vil spyrja ráðherrann, í framhaldi af því sem hann hefur þegar gert, hvort það komi til greina að gera hið sama hér. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt hversu alvarlegar afleiðingar eineltis eru. Það þarf ekki barsmíðar til heldur getur andlega ofbeldið sem einelti felst oft fyrst og fremst í skilið eftir gífurlega mikil sár. Það sýnir sig meðal annars að tíðni sjálfsvígstilrauna og áfengis- og fíkniefnaneyslu er mun hærri hjá þeim hópi sem hefur orðið fyrir einelti en öðrum.

Þetta gildir að sjálfsögðu jafnt um börn og fullorðna, (Forseti hringir.) en hér er spurt sérstaklega um fullorðna og þá vinnustaði sem falla undir málefnaflokk velferðarráðherra.



[16:32]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir beinir til mín fyrirspurn um hvað ég hafi gert til að berjast gegn einelti á vinnustöðum.

Í því sambandi benti hv. þingmaður réttilega á að í júní 2010 var samþykkt í ríkisstjórn Íslands aðgerðaáætlun í 30 liðum sem hafði það að markmiði að vinna gegn einelti á vinnustöðum og í skólum. Aðgerðaáætlunin var afrakstur samstarfsverkefnis þriggja ráðuneyta sem voru ráðuneyti heilbrigðismála og félags- og tryggingamála á þeim tíma, sem nú starfa undir sama hatti sem velferðarráðuneyti, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðgerðaáætlunin var unnin í samstarfi við fjölda hagsmuna- og fagaðila sem létu sig málið varða.

Með samþykkt aðgerðaáætlunarinnar veitti ríkisstjórnin einnig fjármagn til þriggja ára til að vinna að framgangi tillagnanna. Snemma árs 2011 var sett á fót sérstök verkefnisstjórn um aðgerðir gegn einelti með fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsmálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis í þeim tilgangi að fylgja aðgerðaáætluninni eftir. Verkefnisstjórnin er enn að störfum og með henni hefur einnig starfað sérstakur verkefnisstjóri.

Verkefnisstjórnin hefur mótað skýra tímaáætlun og forgangsröðun til að tryggja árangur og framgang verkefnanna í aðgerðaáætluninni og metur hvort tveggja reglulega.

Ein af tillögunum í aðgerðaáætluninni sem lýtur að vinnumarkaðnum er að endurskoða reglugerð um einelti á vinnustöðum frá árinu 2004, og kem ég betur að því verkefni hér á eftir.

Önnur tillaga í aðgerðaáætluninni var sú að tileinka einum degi á ári baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Dagur eineltis var fyrst haldinn 8. nóvember fyrir ári síðan. Þá var opnað fyrir undirritanir á þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti og skrifuðu meðal annars þrír ráðherrar undir ásamt borgarstjóra og forvígismönnum stéttarfélaga, hagsmunasamtaka, stofnana og félagasamtaka. Með undirritun sinni skuldbindur fólk sig til að vinna gegn einelti og þjóðin er þannig hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Enn er opið fyrir undirskriftir á heimasíðu verkefnisstjórnarinnar og hafa safnast tæplega 13.400 undirskriftir. Ég hvet þingmenn sem og aðra landsmenn til að kynna sér þetta mál hafi þeir ekki þegar gert það.

Dagur eineltis var haldinn í annað sinn fimmtudaginn 8. nóvember síðastliðinn. Í tilefni dagsins stóð verkefnisstjórnin um aðgerðir gegn einelti fyrir hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu. Var dagurinn mjög vel heppnaður í alla staði, m.a. var kvennalandsliðinu í knattspyrnu veitt viðurkenning fyrir áhrifaríkar aðgerðir gegn einelti á árinu, en þær útbjuggu mjög öflugt myndband og skemmtilegt sem minnir á að einelti er dauðans alvara. Stefnt er að því að veita ávallt slíkar viðurkenningar á þessum degi.

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni er eitt af verkefnum í aðgerðaáætluninni að endurskoða reglugerð um einelti á vinnustöðum. Af því tilefni skipaði ég nefnd árið 2011 sem fékk það hlutverk að endurskoða reglur í lögum og reglugerð um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega áreitni. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Vinnueftirlits ríkisins, Jafnréttisstofu, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Kennarasambands Íslands. Áætlað er að nefndin skili tillögum sínum til mín fljótlega á nýju ári.

Nefndinni var sérstaklega falið að hafa til hliðsjónar þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur bent mér á sem og Vinnueftirlit ríkisins og Jafnréttisstofa. Þá ber nefndinni að líta til rammasamnings aðila vinnumarkaðar á Evrópuvísu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum sem og að fjalla um önnur álitaefni sem upp hafa komið í tengslum við einelti á vinnustöðum.

Hæstv. forseti. Öll getum við verið sammála um að einelti, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera á vinnustað. Stjórnendur og starfsmenn bera mesta ábyrgð á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar og mikilvægt er að leysa ágreiningsmál og hagsmunaárekstra sem upp kunna að koma á vinnustöðum áður en þau þróast til verri vegar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað skiptir miklu máli að menn hafi skipulagða ferla, hafi eineltisáætlanir eins og skólarnir eru farnir að vera með og það sé klárt til hvaða viðbragða eigi að grípa. Það kom einnig mjög skýrt fram á ársfundi sem Vinnumálastofnun hélt hversu mikils virði það er fyrir stofnanir að hafa þetta í lagi því að einelti getur kostað gríðarlega fjármuni, fyrir utan allan skaðann af því að fólk sé lagt í einelti og skaðann af því að gera ekki neitt.

Það er von mín að sú endurskoðun laga og reglna sem varðar einelti á vinnustað sem hér hefur verið sagt frá, ásamt framkvæmd annarra aðgerða sem komu fram í aðgerðaáætluninni, komi til með að stuðla að aukinni virðingu, umhyggju og jafnrétti meðal fólks á vinnustað og aukinni vellíðunar almennt.



[16:37]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svörin.

Þetta svar er mjög sambærilegt því sem ég fékk fyrir um tæpu ári. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að heyra ekki tölur eða upplýsingar um árangurinn af þeim áætlunum sem við erum nú komin með, árangurinn af því að vera búin að skipa verkefnisstjóra og koma á eineltisdeginum. Eru til tölur um það að t.d. færri ríkisstarfsmenn þurfi að þola einelti? Eru til upplýsingar um að færri hafi þurft að vera frá vinnu eða færri hafi þurft að hætta í vinnu vegna þess að þeir hafi upplifað andlegt ofbeldi á vinnustað?

Ég mundi gjarnan vilja að ráðherra svaraði mér því, þó að það hafi ekki komið fram í skriflegu spurningunni, hvort það hafi verið í umræðunni hjá honum eða þeim starfshópum sem hann nefndi áðan að setja lög sem tryggja betur réttarstöðu þolenda, þeirra sem verða fyrir ofbeldinu. Ég vil skilgreina einelti sem ofbeldi. Ég spyr hvort þetta hafi verið rætt því að núna stendur það upp á fórnarlambið að sýna fram á að ekki hafi verið tekið á málum á réttan hátt. Hvort sem það er á vinnustað eða í skóla hafa þolendur eineltis fyrst þurft að upplifa eineltið og síðan þurfa þeir að leita réttar síns. Það getur hreinlega reynst fólki ofviða þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að það að verða fyrir stöðugu einelti hefur áhrif sem má einna helst líkja við áfallaröskun (Forseti hringir.) og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu þeirra sem fyrir verða.



[16:39]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr hvort eitthvert talnaefni liggi fyrir um árangur. Svar mitt er nei, því miður. Það hefur ekki verið unnið enn þá. Menn hafa aftur á móti verið að gera slíkar kannanir. Það þarf lengri tíma til að sjá hver árangurinn verður. Það hefur verið gripið til aðgerða í skólunum — það hefur raunar verið í gangi í mörg ár, en þeim verður að fylgja enn þá betur eftir. Árangur á vinnustöðum á eftir að koma í ljós þegar fer að reyna á þær reglur sem verða settar af þeim hópi sem er að vinna núna þannig að við getum staðið betur að þessum málum.

Ég hef ekki fylgst náið með vinnunni og get því ekki sagt nákvæmlega hvað hefur verið tekið fyrir þar, en vonandi verður þessi umræða hér til þess að hópurinn ræði það sem kom fram hjá hv. þingmanni í fyrirspurn hennar, hvort við ættum að snúa við sönnunarbyrðinni í skólum og atvinnulífi. Mér finnst það koma mjög vel til greina vegna þess að við sjáum það alls staðar að á meðan menn eru alltaf að bíða eftir áverkum eða sýnilegum skaða sleppa ansi margir frá því að fá eðlilega sök, ef svo má segja, af þeim gjörningi að leggja annan í einelti.

Þetta snýr einnig að því sem hv. þingmaður ræddi um hvernig við tökum á vandamálinu þegar fólk hefur orðið fyrir einelti og hvernig við fylgjum því eftir og þjónustum það fólk í framhaldinu, þ.e. reynum að bæta stöðu þolenda. Þá þurfum við auðvitað að gera hvort tveggja eins og alltaf hefur verið ljóst. Við þurfum að hjálpa þolendum þannig að þeir losni út úr því hlutverki sem þeir oft komnir í, oftast sem veikasti aðilinn, en ekki síður að tryggja rétt þolenda. Ég mun vekja athygli nefndarinnar á því að skoða þetta sérstaklega í framhaldi af þessari fyrirspurn þannig að málið fái örugglega umfjöllun í þeim hópi sem vinnur að reglum og reglugerðum í þessu efni.