141. löggjafarþing — 37. fundur
 19. nóvember 2012.
snjóflóðavarnir.
fsp. SER, 244. mál. — Þskj. 268.

[17:08]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Hundruð Íslendinga hafa illu heilli farist í snjóflóðum á liðnum öldum og stafar enn mikil hætta af hvers konar ofanflóðum víða um land. Við heyrum nú fréttir þess efnis að snjóflóðahætta sé víða á landinu, jafnt á Vestfjörðum sem um norðanvert landið og austur fyrir Mývatnsöræfi. Þessi vandi minnir á sig á hverjum einasta vetri, ef svo má segja, á Íslandi enda ber landið nafn með rentu í þessum efnum.

Það er ánægjulegt að sjá hversu ágætum upphæðum landsmönnum og stjórnvöldum á hverjum tíma hefur tekist að verja í snjóflóðavarnir ofan byggða víða um landið, jafnt á Vestfjörðum sem á miðju Norðurlandi og austur á fjörðum. Sá sem hér stendur telur þetta mikilsverðar aðgerðir til að beina flóðum fram hjá byggð eða hindra för þeirra að öllu eða mestu leyti. Reynslan af snjóflóðavörnum víða um land hefur sannað sig svo um munar með þeim margvíslegu aðgerðum sem gripið hefur verið til hvort heldur er með stálþilum sem slegin hafa verið niður í jörð við vegi, með skálum eða með leiðigörðum og varnargörðum fyrir ofan byggð eins og þekkist á Siglufirði, Súðavík, Ísafirði, Ólafsfirði, Neskaupstað, Bolungarvík og svo mætti áfram telja.

Mig langar að vita, herra forseti, hvernig þessum málum er háttað nú um stundir og beini eftirfarandi spurningum til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Hvar á landinu er nú unnið að snjóflóðavörnum?

2. Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til málaflokksins frá 2009?

3. Hversu miklum fjármunum er áætlað að verja til málaflokksins á næstu árum?

4. Hversu miklir fjármunir eru nú í ofanflóðasjóði?

5. Hvenær er áætlað að viðamestu snjóflóðavörnunum ofan íbúðabyggðar á Íslandi verði lokið? — Þetta er kannski undarleg spurning í ljósi þess að hér þarf viðkomandi hæstv. ráðherra að leggja mat á hvað sé viðamest í þessum efnum, en það getur svo sem breyst með tíð og tíma og breyttum aðstæðum.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti svarað þessum spurningum hér og nú.



[17:11]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi staðsetningar núverandi framkvæmda standa nú yfir framkvæmdir við varnargarða annars vegar undir Kubba á Ísafirði, sem er áætlað að ljúki á þessu ári, og hins vegar á Tröllagiljasvæðinu á Neskaupstað en þar er áætlað að verkinu ljúki á næstu tveimur árum. Framkvæmdum var að ljúka við varnargarða í Bolungarvík og í Ólafsfirði og við svokölluð upptakastoðvirki á Tröllagiljasvæðinu í Neskaupstað. Þá eru framkvæmdir að hefjast við varnargarð ofan skóla og sjúkrahúss á Patreksfirði og við færslu lagna á Ísafirði vegna fyrirhugaðra framkvæmda við varnargarða undir Gleiðarhjalla, en stefnt er að því að bjóða það verk út í vetur. Einnig er unnið að gerð útboðsgagna vegna fyrsta áfanga upptakastoðvirkja á Siglufirði og krapaflóðavarna í Fáskrúðsfirði og er stefnt að því að bæði þessi verk verði boðin út í vetur.

Hv. þingmaður spyr hversu miklum fjármunum hafi verið varið til málaflokksins frá 2009. Því er til að svara að á þessum árum, þ.e. frá 2009 til ársins í ár, hefur verið varið alls 5.290 millj. kr. til ofanflóðaverkefna og í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir 1.264 millj. kr. til verkefna á vegum sjóðsins.

Höfuðstóll ofanflóðasjóðs, af því að um það er spurt, í árslok 2011 var tæpir 10 milljarðar kr. og þar af var bundið eigið fé um 8,5 milljarðar.

Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun á nýtingu hættusvæða kveður á um að framkvæmdum við brýnustu varnaraðgerðir gegn ofanflóðum fyrir öll svonefnd svæði C samkvæmt hættumati verði lokið eigi síðar en á árinu 2020. Til að svo geti orðið miðað við stöðuna eins og hún er nú og verðlag dagsins í dag er áætlað að verja þurfi um 2 milljörðum kr. á ári til verkefnisins en mjög gróflega áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð snjóflóðavarna, samkvæmt þeirri áætlun sem unnin var í kjölfar snjóflóðahamfaranna í Súðavík og á Flateyri 1995, er talinn liggja á bilinu 14–17 milljarðar kr.

Ég vona, virðulegur forseti, að ég hafi náð að svara efnislega þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín hér áðan. Ég tel þó rétt að halda því til haga í þessari umræðu, af því að við erum á óvenjulegum tímum og dregið var úr framkvæmdum vegna efnahagshrunsins eða hægt á þeim, að í raun hefur verið dregið úr framkvæmdum til ofanflóðaverkefna tvisvar, annars vegar vegna þenslu vegna Kárahnjúkavirkjunar, en þá var ákveðið að seinka framkvæmdum við ofanflóðavarnir á tímabilinu 2002–2007 til að draga úr þenslu í hagkerfinu, og hins vegar var nýlega dregið úr framkvæmdum eða hægt á þeim vegna hrunsins 2009. Því má með réttu halda því fram að nánast hafi verið samfellt tímabil samdráttar í framkvæmdahraða miðað við það sem áætlað var upphaflega frá árinu 2002. Af sjálfu leiðir að í öllum tilvikum hafa tekjur sjóðsins verið vel umfram það sem varið hefur verið til framkvæmda því að tekjur hans hafa verið jafnar og þéttar. Það er meginástæða þess að fyrirsjáanlegt er að það mun taka nokkur ár enn að ljúka þeim framkvæmdum sem ákveðið var í samráði viðkomandi sveitarfélaga að ráðast í þegar verkefnið hófst á árinu 1996.

Ég vænti þess og deili þeirri sýn með hv. þingmanni að okkur takist að halda takti þannig að unnt verði að ljúka þessum verkefnum fyrir fyrirhugaðan tíma, ekki bara vegna þess að þetta eru mikilvæg atvinnu- og byggðaverkefni heldur auðvitað fyrst og fremst vegna þess að þetta snýst um öryggi þeirra íbúa sem búa á þessum svæðum.



[17:16]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og ráðherra fyrir svörin. Það er staðreynd að við þurfum að halda dampi í þessum framkvæmdum sem því miður hafa dregist saman undanfarin ár. Það er staðreynd að þessi mannvirki hafa öll varið byggð og sannað gildi sitt, þrátt fyrir að margir segi gjarnan að það hafi ekki fallið snjóflóð í manna minnum. Í mínu kjördæmi, eins og ráðherra kom inn á, eru mjög margar framkvæmdir búnar að vera í gangi sem er að ljúka. Afar mikilvægt er að ljúka þeim því að það er enn verið að rýma hús sökum þess að þær hafa ekki klárast vegna þeirra tafa sem urðu eins og réttilega var hér nefnt, vegna hruns og þenslu.

Það má heldur ekki gleyma því, af því að hér er talað um peninga og sjóði og annað því um líkt, að ofanflóðasjóði er væntanlega ætlað að leggja fram fé til að viðhalda öllum þessum mannvirkjum. Ég taldi hér til mörg mannvirki sem reist hafa verið (Forseti hringir.) og þeim þarf sjóðurinn að halda við á móti sveitarfélögunum, þannig að menn mega heldur ekki sjá ofsjónum yfir þeim fjárhæðum sem þar hafa safnast.



[17:18]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ofanflóðasjóður verður ekki til á himnum. Í hann fer skattfé borgaranna á Íslandi, fasteignaeigenda á Íslandi, og menn verða að muna að það á að fara vel með það fé, það er það fé sem okkur er trúað fyrir.

Mér sýnist að verkefni ofanflóðasjóðs hljóti að vera nokkuð langt komin. Núna hljótum við að undirbúa breytingar á sjóðnum þess eðlis að hann taki til almannavarna yfir höfuð, ekki bara ofanflóða, heldur líka annarra tegunda af vá. Í nýlegri skýrslu sem kom út um sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu voru taldar upp 22 tegundir af vá og ofanflóð eru, eins og mönnum er kunnugt, ekki meðal hinna skelfilegustu hér á þessu svæði.

Þetta er verkefnið (Forseti hringir.) sem við erum að fara að undirbúa. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til þess að hefja það.



[17:19]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að auðvitað þurfum við sem höldum um peninga ríkisins að horfa vel til allra þeirra ógna sem eru í kringum byggð. Þar er Reykjavíkursvæðið að sjálfsögðu ekki undanskilið þegar kemur að bæði jarðskjálftum og hraunrennsli sem munu fyrr eða síðar ógna byggð á þéttbýlu höfuborgarsvæðinu.

Ég vil samt halda því til haga þegar kemur að hinum eiginlega ofanflóðasjóði, sem hefur verið einkum notaður til að gera leiðigarða og varnargarða og annað í þeim dúr, að þrátt fyrir efnahagshrunið benda allar tölur eindregið til þess að stjórnvöld hafi lagt sitt rækilega af mörkum til þess að halda þó þeim dampi sem hefur verið í þessum málum á undanliðnum árum og hvergi slakað á í þeim efnum. Það er athyglisvert að einmitt á þenslutímanum, 2002–2009, var dregið úr þessum framkvæmdum. Þrátt fyrir efnahagshrunið sjálft, sem er miklu óskaplegra heldur en nokkurn tímann skeiðið sem var þar á undan, höfum við ekki farið niður fyrir það framleiðslustig sem var á þeim tíma fyrir hrun. Það er gleðiefni. Fyrir það ber að þakka.

Margir kynnu að halda að á árinu eftir hrun hafi verið dregið verulega úr slíkum framkvæmdum frá því sem það var fyrir hrun, en þessar tölur, þetta svar hæstv. ráðherra, sýnir svo ekki verður um villst að dampurinn er enn þá sá sami. Það vitnar um þá staðreynd að líf fólks og velferð er í (Forseti hringir.) öndvegi hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er við stjórnvölinn.



[17:21]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ágæta umræðu og þakka sérstaklega hv. fyrirspyrjanda fyrir að halda því til haga að við lögðum á það áherslu að halda dampi eins og nokkur var kostur eftir efnahagshrunið. Við lögðum mikla áherslu á að halda framkvæmdastiginu eins háu og hægt var, ekki síst vegna byggða- og atvinnusjónarmiða og vegna þess að það var samdráttur í efnahagslífinu sem olli atvinnuleysi víða um land.

Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hélt því vel til haga að verkefnunum er engan veginn lokið. Eftir að búið er að byggja þessi mannvirki þarf auðvitað að viðhalda þeim. Ábending hv. þm. Marðar Árnasonar er hins vegar mjög þess virði að leiða hugann að, þar sem það er vel hugsanlegt þegar nýframkvæmdum lýkur að auka hlutverk ofanflóðasjóðs eða útvíkka það til að sinna verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá almennt og þar með talið vinnslu hættumats fyrir allar tegundir náttúruvár. Það er eitthvað sem við verðum að gera á þessu landi þar sem við búum í svo nánu sambýli við náttúruna.

Mér finnst koma vel til greina að endurskoða lög um aukið og víðara hlutverk sjóðsins sem tæki við í fyllingu tímans þegar ofanflóðasjóður hefur lokið sínum verkefnum samkvæmt lögum. Þau verkefni eru enn þá ærin og okkar mikilvægasta hlutverk akkúrat núna er að halda dampi og ljúka því sem var lagt upp með eftir hörmungarnar 1995.