141. löggjafarþing — 38. fundur
 20. nóvember 2012.
störf þingsins.

[13:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu að hæstv. velferðarráðherra sé með hugmyndir um að flytja sjúkraflutninga til Landspítalans. Ég vek athygli á því að um afskaplega stórt og mikilvægt mál er að ræða. Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum að Landspítalinn hefur ekki sóst eftir þessu.

Ég þekki nokkuð til þessa málaflokks. (Gripið fram í.) Þetta var skoðað mjög vel í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, hún hét það alveg fram á haustið 2008 en eftir það var hún bara ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, og þar kom þetta aldrei fram. Sérstakur vinnuhópur skoðaði sjúkraflutninga, fór í alla þætti málsins og kom með tillögur til úrbóta en þar kom þetta aldrei fram. Ég veit ekki til þess að í þeim hópum sem hafa skoðað málið í framhaldinu eða í þeim úttektum og skýrslum sem hafa verið gerðar hafi neitt annað komið fram en að það fyrirkomulag sem er til staðar núna sé faglega gott, og ekki bara faglega heldur fjárhagslega líka.

Eina dæmið sem við þekkjum þar sem við förum aðra leið, er í Árborg, og þar er einingaverðið langhæst á þessum flutningum, rúmlega fjórum sinnum hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna kemur verulega á óvart að sjá þetta í fjölmiðlum.

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að fara yfir þetta mál. Ef það er raunverulegur vilji hæstv. ráðherra að gera þetta held ég að fyrir því þurfi að koma mjög sannfærandi rök. Niðurstöður vinnuhópa sem og skýrslna og úttekta, (Forseti hringir.) sem eru fjölmargar, benda allar til þess að það sé hagkvæmt, bæði faglega og fjárhagslega, (Forseti hringir.) að vera með sjúkraflutninga í samvinnu við (Forseti hringir.) Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.



[13:34]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær var kunngerð skýrsla sem hæstv. innanríkisráðherra hefur látið gera um alvarlegt ástand löggæslustarfsemi í landinu, svört skýrsla þar sem lýst er mjög erfiðum aðstæðum í þessum mikilvæga málaflokki. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að láta gera þessa úttekt og gera ríkisstjórninni og þinginu grein fyrir þessari alvarlegu stöðu.

Ég talaði um það hér í gær að ábyrgð þingsins væri mikil þegar kemur að þessum grundvallaratriðum. Ég beini orðum mínum fyrst og fremst til hv. stjórnarþingmanna þegar ég bendi á að í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti fyrir um tíu dögum, kennir ýmissa grasa. Á næsta ári á til dæmis að setja um 1 þús. milljónir í grænan fjárfestingarsjóð, 50 milljónir í grænar fjárfestingar, 500 milljónir í grænkun fyrirtækja, 200 milljónir í vistvæn innkaup og 938 milljónir í skapandi greinar. Ég geri ekki lítið úr þessum verkefnum en held að menn þurfi að forgangsraða betur við fjárlagagerð fyrir næsta ár. Við verðum að forgangsraða í þágu mikilvægra málaflokka. Þar horfi ég fyrst og fremst til þess mikilvæga málaflokks sem löggæslumál og heilbrigðismál falla undir. Það gengur ekki að við sýnum fram á að til séu nógir peningar í þessi verkefni en getum ekki staðið við lágmarksinnkaup á tækjabúnaði til Landspítalans og tryggt lágmarksöryggi borgaranna og öfluga löggæslu í landinu. (Forseti hringir.) Svona forgangsröðun gengur ekki, virðulegi forseti. Það þýðir ekki að segja: Ja, það varð hrun og við urðum að skera niður. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin sýnir fram á að nægir fjármunir séu til í einhver gæluverkefni (Forseti hringir.) sem er ekki hægt að kalla annað við þessar erfiðu aðstæður.



[13:37]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég á erindi við hæstv. forseta Alþingis og bið hann að taka upp mál í forsætisnefnd þingsins. Málið varðar, að mínu mati, ámælisverð vinnubrögð hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar. Þannig er mál með vexti að í gær var upplýst á Alþingi að hæstv. innanríkisráðherra hefði sent einum hv. þingmanni skýrslu um stöðu lögreglunnar. Um það spunnust umræður sem hafa verið í fjölmiðlum síðan. Fréttir um stöðu lögreglunnar hafa birst á nánast öllum miðlum landsins. Mér brá mjög við þær fréttir í gær að einn hv. þingmaður hefði fengið þessa skýrslu en ekki allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Sú er hér stendur er í þeirri nefnd og samkvæmt þingsköpum á hún að fjalla um málefni löggæslunnar.

Ég spurði hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson út í þetta og hann svaraði um hæl að hann mundi strax láta senda allsherjar- og menntamálanefnd þessa skýrslu. Skýrslan hefur ekki borist. Ritari allsherjar- og menntamálanefndar hefur heldur ekki fengið hana og við stöndum hér og getum ekki rætt þessi mál þar sem við höfum ekki skýrsluna nema bara í gegnum einn hv. þingmann. Hann er ágætur og ber þessi mál fyrir brjósti en ég átel þessi vinnubrögð og bið forsætisnefnd að fara sérstaklega yfir vinnubrögð hæstv. ráðherra og framkomu hans gagnvart þinginu að þessu leyti. Ég tel óásættanlegt að fagnefnd fái ekki gögn en hv. þingmenn sem senda bréf í ráðuneytið fái þau. (Forseti hringir.)

Hæstv. innanríkisráðherra segist ætla að senda gögnin en svo kemur ekki neitt. Þetta gengur ekki upp, virðulegur forseti.



[13:39]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er að taka upp mál sem ég hef fylgt eftir frá því að ég var kosin þingmaður, málefni Farice-sæstrengsins og þeirrar ríkisábyrgðar sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra veitti félaginu eftir bankahrunið. Ég hef verið mjög gagnrýnin á þessa aðgerð og nú kemur í ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ríkisstjórn sú sem nú starfar hefur veitt þessu tiltekna fyrirtæki afar ríka ríkisábyrgð og það að einhverjum hluta heimildarlaust. Það er mjög alvarlegt hvernig komið er fyrir fjárveitingavaldinu í fjármálaráðuneytinu vegna þess að við hv. þm. Pétur H. Blöndal, svo einhver nöfn séu nefnd, höfum gagnrýnt mjög þá ríkisvæðingarábyrgð sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, stóð fyrir. Nú berst skýrsla eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda þar sem beinlínis er gefið í skyn að ríkisstjórnin fari á svig við lög sem er mjög alvarlegur hlutur að mínu mati.

Á árunum 2002–2011 veitti ríkissjóður Farice-félaginu, sem rekur þennan sæstreng á milli Íslands og Evrópu, alls 4,2 milljarða. Þetta eru jafnframt forverar þess félags. Að sama skapi veitti ríkissjóður, og fjármálaráðuneytið undir stjórn þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, 7 milljarða kr. ábyrgð vegna lántöku eftir hrunið. Í kjölfarið var svo gefið loforð um ríkisábyrgð sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra taldi þinginu trú um að ekki yrði virkjuð en nú hefur komið á daginn að rekstur þessa félags er mjög slæmur og hefur þurft að ræsa (Forseti hringir.) ríkisábyrgðina út. Á þessu verðum við þingmenn að taka þegar veittar eru opnar heimildir eins og þessi, (Forseti hringir.) jafnvel án laga, því að svo sitja skattgreiðendur uppi með þessar röngu ákvarðanir.



[13:42]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi ræða aðeins um forgangsröðun, bæði í löggjafarstörfum okkar og eftirliti með meðal annars framkvæmdarvaldinu. Í dag verður rætt hér um stjórnarskrána og væntanlega seinna í vikunni rammaáætlun þar sem lagt er til í tillögum meiri hlutans að taka burtu nánast alla möguleika á að byggja upp áframhaldandi orkufrekan iðnað, koma einhverri hreyfingu á byggingargeirann í landinu og skapa störf, fjárfestingu og gjaldeyri.

Á meðan eru alls kyns jafnvel minni hlutir sem við látum fara fram hjá okkur. Ég tók umræðu hér í gær við hæstv. umhverfisráðherra um byggingarreglugerð sem mun hafa þær afleiðingar að byggingarkostnaður hækkar um jafnvel 10–20% bara við innleiðinguna. Hæstv. ráðherra virtist ekki skilja alvarleika þess að hækka byggingarkostnaðinn og talaði um samkeppnissjónarmið og aðra hluti. Auðvitað var margt jákvætt í þessari reglugerð en það er alvarlegt að hækka byggingarkostnaðinn með svo gríðarlegum tölum sem reyndar eru ekki allar komnar fram. Enn hefur ekki verið reiknað út í ráðuneytinu hver verða bein áhrif á vísitöluna og þar með lán heimila. Það er sú forgangsröðun sem við hefðum átt að vera að tala um í þinginu, þ.e. hvernig við ætlum að koma til móts við skuldug heimili. Þar höfum við framsóknarmenn ítrekað lagt fram ítarlegar tillögur, m.a. um að setja þak á verðtrygginguna og koma til móts við skuldir fólks með almennum hætti.

Ég hefði líka kosið að hér væri talað um sókn í atvinnumálum til að koma atvinnulífinu í gang, minnka atvinnuleysi og brottflutning fólks, hvað þá það sem hefur verið rætt, m.a. í gær, um öryggi borgaranna, löggæsluna og nauðsyn þess að tryggja grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu hvar sem er á landinu. Þetta hefði að mínu mati, frú forseti, verið eðlilegri forgangsröðun en sú sem hér er beitt.



[13:44]
Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um sjúkraflutningana, þetta er nokkuð sem ég held að velferðarnefnd þingsins ætti að skoða.

Mikilvæg umræða um tannheilsu barna og unglinga hefur átt sér stað undanfarið og er hún löngu tímabær. Starfshópur á vegum hæstv. velferðarráðherra skilaði af sér minnisblaði í október sl. með tillögum að framtíðarskipulagi tannlækninga barna. Þar er lagt til að verkefninu verði áfangaskipt, að það hefjist á árinu 2013 og að á hverju ári verði bætt við árgöngum. Ef tveimur árgöngum er bætt við á ári tekur sex ár að innleiða kerfið. Skiptar skoðanir eru á þessu fyrirkomulagi en nú er boltinn hjá ráðherra.

Nú hefur komið fram þingsályktunartillaga um skólatannlækningar og hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem vinni tillögur að því að hefja að nýju tannvernd og tanneftirlit í grunnskólum — og eftir atvikum tannlækningar að einhverju marki ef nefndin metur svo.“

Virðulegi forseti. Við getum öll verið sammála um að tannheilsa barna og unglinga er stórt vandamál. En eru skólatannlækningar rétta svarið?

Þegar farið var að innheimta greiðslu fyrir hluta kostnaðar hjá forráðamönnum skólabarna brast grundvöllur skólatannlækninga. Þá var ekki lengur hægt að kalla nemendur út úr tíma til eftirlits án skriflegs samþykkis eða fylgdar forráðamanns. Hæstv. velferðarráðherra upplýsti á Alþingi hinn 22. október sl. að stofnkostnaður við tannlæknastofur í um helmingi grunnskóla landsins — ég veit ekki af hverju hann talar bara um helming þeirra — geti numið allt að 2,6 milljörðum.

Á ríkið að leggja út í þennan kostnað? Væri ekki skynsamlegra að nota þessa fjármuni í að gera við tennur í börnum og unglingum? Málið snýst um að ná samningum og við verðum að muna að það er mikilvægt að einbeita okkur að því (Forseti hringir.) að hafa forvarnir og fræðslu í forgrunni til að fyrirbyggja að þetta vandamál verði viðvarandi.



[13:47]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því sem er harla óvenjulegt, að taka undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar (Gripið fram í.) um skipulag sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu og afstöðu fjármálaráðuneytisins og ráðuneytanna almennt í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt að halda þessu samstarfi áfram. Reynsla íbúa í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ af samstarfi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og sjúkraflutninga er góð. Þetta er örugg og góð þjónusta sem við reiðum okkur öll á og hefur skilað mikilvægum árangri í forvörnum á sviði eldvarna.

Það á ekki að hrófla við eða grafa undan því sem vel er gert. Það er ekki einfalt að reka þetta stóra batterí en það má spara í því, m.a. með því að hafa fjölbreyttari bíla til ráðstöfunar en nú er. Það er ófært að nota sérútbúna neyðarbíla til að flytja fólk sem hefur fótavist á milli sjúkradeilda eða í rannsóknir frá hjúkrunarheimilum.

Það er miklum mun dýrara að slíta í sundur slökkviliðið og sjúkraflutningana en að reyna að halda þessu saman. Það sýndi sig í athugun sem var gerð meðan ég var í heilbrigðisráðuneytinu að viðbótarkostnaðurinn skipti tugum ef ekki hundruðum milljóna. Til þessa verðum við að horfa.

Ég bið um að fá að komast aftur á mælendaskrá.



[13:49]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli á skoðanakönnun sem var gerð í byrjun október og snýr að vilja þjóðarinnar til að ganga í Evrópusambandið. Niðurstöður hennar eru nokkuð athyglisverðar en það ótrúlega við þessa skoðanakönnun er þó að þegar hún birtist sá okkar ágæta Ríkisútvarp, meðal annarra fjölmiðla, ekki ástæðu til að fjalla um hana. Erlendir fjölmiðlar höfðu talsvert meiri áhuga á henni. Ég nefni til að mynda nokkra fjölmiðla á Norðurlöndum, Bloomberg og EU-Observer.

Í þessari skoðanakönnun var spurt hvort Íslendingar væru hlynntir eða andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar kom fram að 57,6% þjóðarinnar eru andsnúin ESB-aðild en einungis 27,3% eru hlynnt ESB-aðild. 15% eru óákveðin. Sé þessi skoðanakönnun skoðuð betur kemur í ljós að þeir sem eru að öllu leyti andsnúnir Evrópusambandsaðild eru álíka margir og þeir sem eru að öllu leyti hlynntir, mjög hlynntir eða frekar hlynntir aðildinni. Þeim fer fækkandi sem eru óákveðnir og þeir eru allir að færast yfir í það að vera andsnúnir Evrópusambandsaðild.

Í þessari skoðanakönnun var líka spurt:

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu?

Því hefur verið haldið fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þjóðin vilji klára þetta ferli. Skoðanakönnunin sem gerð var í byrjun október sýndi að 53,7% þjóðarinnar vilja draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu en 36,4% eru því andvíg. Þetta sýnir svart á hvítu að meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn þeirri utanríkisstefnu sem rekin er af ríkisstjórninni.

Nú er mikið talað um að við eigum að fylgja vilja þjóðarinnar. Í þessu efni er hann skýr, en vilji ríkisstjórnarinnar er annar.



[13:51]
Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar og vil spyrjast fyrir um málefni tengd Reykjavíkurflugvelli og innanlandsfluginu. Ég er í hópi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem vilja sjá Reykjavíkurflugvöll festan betur í sessi í Vatnsmýrinni og fyrir því liggja að mínu mati gild rök sem ég ætla ekki að tíunda hér. Tel ég að við hæstv. ráðherra séum skoðanasystkin í þessu máli og ef marka má kannanir er mikill meiri hluti bæði borgarbúa og landsmanna á sama máli.

Í ljósi þessa meirihlutavilja þjóðarinnar er því merkilegt að endalausar tafir virðast einkenna allt sem lýtur að endurbótum á Reykjavíkurflugvelli. Hvað líður til dæmis betrumbótum á aðstöðu fyrir flugfarþega og flugfélög á Reykjavíkurflugvelli? Er eitthvað að frétta í þeim efnum eða er málið bara á ís um ófyrirsjáanlega framtíð?

Fáum dylst andúð borgaryfirvalda á Reykjavíkurflugvelli. Nýlegri beiðni Isavia um uppsetningu lendingarljóss sem auka átti öryggi var hafnað. Beiðni um að leyfa byggingu skemmu fyrir snjómoksturstæki var hafnað.

Má líta á þetta og fleira í þessum dúr sem afdráttarlausan ásetning skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að bola flugvellinum burt? Er það ásættanlegt fyrir ríkisvaldið?

Auknar opinberar álögur á innanlandsflugið valda einnig verulegum áhyggjum og eru teikn á lofti um að rekstrargrundvöllur flugsins, einkum til jaðarsvæða, sé að veikjast verulega vegna þeirra. Hækkun fargjalda hefur orðið til þess að almenningur veigrar sér við að nýta flugið vegna kostnaðar. Íþróttafélög sem eru fjarri höfuðborginni og hafa til þessa reynt að nýta flugið sem mest eru sum nánast hætt að fljúga með liðin sín því að kostnaðurinn er orðinn svo gríðarlegur.

Hefur það verið metið hvaða áhrif auknar gjaldtökur ríkisins hafa á framtíðarmöguleika innanlandsflugsins? Til að fá svör við þessu, virðulegi forseti, hef ég lagt fram skriflega fyrirspurn (Forseti hringir.) til hæstv. ráðherra og vænti þess að henni verði svarað skjótt og vel.



[13:53]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í nýlegu svari hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn um framboð háskólanáms á Austurlandi kemur fram að Austurbrú hafi á undanförnum árum boðið íbúum Austurlands upp á fjarnám á háskólastigi í gegnum starfsstöðvar sínar víða í fjórðungnum. Áhersla hefur verið á aukið námsframboð háskóla í formi dreifnáms enda telur ráðherrann mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytt nám í heimabyggð þar sem eftirspurn og forsendur eru til staðar.

Til að nýta slík úrræði þarf aðgengi nemenda að framhaldsskólanámi einnig að vera gott. Undanfarin missiri hefur nokkuð farið fyrir umræðu um framhaldsskóladeild á Vopnafirði þar sem ungmennum byðist tveggja ára nám í heimabyggð í námsveri líkt og þegar hefur verið gert á nokkrum stöðum á landinu og hefur gengið með ágætum. Frá Vopnafirði þarf að fara um fjallvegi og öræfi til að fara í framhaldsskóla og líklega þarf enginn hópur að sækja sér menntun um jafnlangan veg og þau börn sem koma frá Vopnafirði.

Á aðalfundi Foreldrafélags Vopnafjarðarskóla var gerð ályktun og segir þar, með leyfi forseta:

„Aðalfundur foreldrafélags Vopnafjarðarskóla haldinn 17. september 2012 hvetur menntamálayfirvöld til þess að sett verði á stofn framhaldsskóladeild á Vopnafirði og að nú þegar verði haldið áfram nauðsynlegum undirbúningi í samstarfi við menntamálaráðuneytið, framhaldsskólana á Austurlandi og sveitarstjórn svo það megi gerast eigi síðar en haustið 2013. Ljóst er að afstaða menntamálaráðherra og Alþingis ræður úrslitum um að af þessu geti orðið.“

Í könnun sem gerð var meðal foreldra grunnskólabarna kemur fram mikill áhugi á slíku námsfyrirkomulagi og sveitarfélagið hefur alla aðstöðu og menntaða framhaldsskólakennara til að styðja við starfið. Það er afar mikilvægt að börn okkar hafi val um að stunda nám í heimabyggð í öryggi fjölskyldu sinnar og vina. Unglingsárin eru mikilvægur þroskatími og handleiðsla og stuðningur foreldra mikilvægur unglingum í vegferð sinni til aukins sjálfstæðis og fullorðinsáranna.

Þar sem ég hef reynslu af slíku fyrirkomulagi í mínu sveitarfélagi, Fjallabyggð, tel ég að slíkt aðgengi skipti sköpum fyrir nemendur og foreldra í litlum sveitarfélögum. Frekar er hægt að sporna við brottfalli, og fjölbreytni í félags- og menningarstarfi eykst sem aftur hefur jákvæð áhrif á búsetuþróunina og líkur aukast á því að ungt fólk setjist að til frambúðar. (Forseti hringir.) Því hvet ég mennta- og menningarmálaráðherra til að svara ákalli nemenda og foreldra í Vopnafirði og sjá til þess að slíkt nám verði í boði frá og með næsta skólaári.



[13:56]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar hafa verið hávær í fjölmiðlum að undanförnu. Þar er um að ræða sjálfseignarstofnun sem rekin er á dagpeningum frá ríkinu, stofnun sem hefur tekið við háum greiðslum frá skjólstæðingum sínum og ríkinu en meðhöndlað þá fjármuni eins og þeir væru ráðstöfunarfé stjórnenda, einhvers konar risnufé fyrir vini og vandamenn þeirra sem treyst var fyrir fjármununum.

Ríkisendurskoðun talar um örlætisgjörning. Ekki veit ég hvort þeir taka undir það, aðstandendur íbúa á Eir, t.d. gamla mannsins sem kom með 24 milljónir í ferðatösku fyrir fáum árum til að greiða fyrir íbúðina sem hann fékk að flytja inn í á Eir og greiddi síðan 63 þús. kr. mánaðarlega fyrir að fá að búa þar.

Þetta ógeðfellda mál hlýtur að verða rannsakað frekar og óhugsandi er annað en að stjórn heimilisins segi af sér eða verði látin segja af sér sjái hún ekki sóma sinn í því sjálf.

Málið allt vekur áleitnar spurningar fyrir okkur alþingismenn sem varða öryggi, eignastöðu og réttindi aldraðs fólks sem dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins. Því spyr ég formann velferðarnefndar Alþingis, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hvort hún telji ekki ástæðu til þess að sú nefnd fari heildstætt yfir málefni hjúkrunarheimilanna og það fyrirkomulag sem þar viðgengst varðandi framlag aldraðra skjólstæðinga til búsetu- og dvalarréttinda á þessum heimilum. Fólk greiðir háar fjárhæðir í upphafi og þarf auk þess að sæta jafnvel upptöku lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Er ekki kominn tími til að endurskoða þessi mál í heild sinni og megum við ekki vænta þess að hv. velferðarnefnd þingsins taki frumkvæði í þá veru?



[13:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur er Eirarmálið með þeim hætti að það má segja að þarna sé um að ræða mál sem varði rekstur fasteigna hjúkrunarheimilisins og sölu á íbúðum. Ég ætla ekki að hafa stór orð um það sem gerðist en þarna er augljóslega mjög alvarlegt mál á ferðinni og það verður rannsakað ofan í kjölinn enda um að ræða gríðarlega hagsmuni íbúa þessa heimilis.

Varðandi rekstur hjúkrunarheimila er hann með ýmsu móti á Íslandi. Velferðarnefnd hyggst í kjölfar ferðar sinnar um Suðurland fara yfir mat á þörf fyrir hjúkrunarrými og áætlanir um að uppfylla þörf fyrir hjúkrunarheimili. Varðandi rekstrarform og rekstur einstakra heimila væri aðkoma nefndarinnar einna helst sú að fara fram á að farið verði yfir rekstur allra hjúkrunarheimila á Íslandi, hvort þar sé eitthvað í gangi svipað þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið á Eir og hvort tryggt sé að eigendur leggi ekki ævifjármunina sína í hendurnar á fjárglæfrafólki.

Á þessari stundu vil ég ekki segja með hvaða hætti nefndin mun gera þetta, en ég tel eðlilegt að það séu einhverjir aðrir en velferðarnefnd sjálf sem fari yfir þessa þætti. Við munum samhliða því sem við ræðum um þörf fyrir hjúkrunarheimili og málefni hjúkrunarheimila út frá því sjónarhorni ræða með hvaða hætti hægt er að auka öryggi þeirra sem flytja á hjúkrunarheimili. Það er augljóst af þessu máli að traust fólks á þeim stofnunum sem reknar eru fyrir ríkisfé fyrir aldraða (Forseti hringir.) hefur borið alvarlegan skaða.



[14:01]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Orðið hafa miklar breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á mjög skömmum tíma. Við getum sagt að á undanförnum árum hafi sjávarútvegurinn á margan hátt búið við góðæri þar eð við höfum fengið inn í lögsöguna nýjar tegundir sem hafa sem betur fer búið til miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn. Við höfum líka búið við góðæri almennt talað á okkar helstu mörkuðum.

Nú er markaðsástandið sjálft hins vegar að breytast mjög hratt. Vaxandi framboð af þorski, t.d. úr Barentshafinu, og miklir efnahagserfiðleikar í sunnanverðri Evrópu valda því að farið er að bóla á birgðasöfnun í einstökum afurðaflokkum. Farið er að bera á greiðslutregðu sem veldur því að kostnaðurinn við birgðasöfnunina lendir á herðum framleiðendanna. Farið er að bera á erfiðleikum við sölu, farið er að bera á verðlækkunum og í ýmsum tilvikum býsna miklum verðlækkunum. Með öðrum orðum, rekstrarumhverfið er að breytast mjög hratt.

Við vitum að sjávarútvegurinn hefur umfram flestar aðrar atvinnugreinar sýnt gríðarlega mikinn sveigjanleika. Ég ætla ekki að vera með neina heimsendaspádóma af þeim ástæðum sem ég rakti áðan. Ég vek hins vegar athygli á því að umhverfið er að breytast gríðarlega hratt og mun þess vegna hafa áhrif bæði fyrir þjóðarbúið í heild og ýmsar byggðir landsins.

Nefnt var á fundi atvinnuveganefndar í morgun um þessi mál að t.d. einstakir afurðaflokkar frá Noregi sem seldir hafa verið til Portúgals hafa lækkað um 50% á einu ári. Það mun hafa gríðarlega mikil áhrif. Það mun hafa sérstaklega mikil áhrif vegna þess að nú er búið að stórhækka veiðigjaldið. Veiðigjaldið er lagt á miðað við afkomu eitt og hálft eða tvö ár aftur í tímann en menn þurfa hins vegar að greiða það gjald með tekjum sem aflað er á þessu ári þegar svona illa horfir um tekjuöflun sjávarútvegsins í mörgum tilvikum.

Þess vegna segi ég að það er mjög mikilvægt að menn endurskoði löggjöfina sem allra fyrst til að afstýra miklum erfiðleikum. Hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði í umræðu sem ég hóf (Forseti hringir.) um þessi mál að veiðigjaldanefnd hefði ákveðna frumkvæðisskyldu. Það má vel vera, en hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hefur auðvitað líka sína frumkvæðisskyldu. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þeirri lagasetningu sem býr til þau vandamál og verður að bregðast við með einhverjum hætti.



[14:03]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið sem aðrir þingmenn hafa veitt með því að biðja ekki um orðið og leyfa mér að koma hér og taka aftur til máls.

Það eru mikil tíðindi sem gerst hafa hér í dag með því að búið er að dreifa og leggja fram nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Það er plagg upp á tæpar 70 blaðsíður, mjög þétt og vel unnið eins og vera ber, en á tveimur þingum, frá í fyrra og núna. Hér liggur fyrir niðurstaða meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar ásamt tveimur minnihlutaálitum og einnig álit frá meiri hluta atvinnuveganefndar ásamt tveimur minnihlutaálitum.

Í niðurstöðum meiri hluta í umhverfis- og samgöngunefnd segir að með samþykkt tillögunnar yrði stigið ótvírætt framfaraskref við náttúruvernd og umgengni við landið jafnframt því sem orkuöflun væri settur tiltekinn starfsrammi þannig að sú starfsemi búi við meira rekstraröryggi og minni átök þegar að nýframkvæmdum kemur. Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.

Frú forseti. Ég er ein af þeim sem skrifa undir álitið algerlega fyrirvaralaust en vek um leið athygli á því að á þeim 30 blaðsíðum sem álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er, er að finna fjölda ábendinga og leiðbeininga til bæði næstu verkefnisstjórnar og ráðherra, reyndar eru ellefu ábendingar til næstu verkefnisstjórnar og fimm til ráðherra. Ég tel að það séu mikil tíðindi og fagna því sérstaklega að vinnu í nefndunum skuli nú vera lokið og hlakka til að taka þátt í umræðum (Forseti hringir.) um þetta brýna málefni á komandi vikum.