141. löggjafarþing — 38. fundur
 20. nóvember 2012.
stjórnarskipunarlög, frh. 1. umræðu.
frv. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 415. mál (heildarlög). — Þskj. 510.

[20:02]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fagna því í upphafi að loksins skuli þetta mál vera komið fyrir Alþingi og það til efnislegrar umfjöllunar vegna þess að við höfum gagnrýnt það mjög að það skuli ekki hafa hlotið efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nú er mjög langt síðan hið svokallaða stjórnlagaráð skilaði af sér til þingsins. Ég er jákvæð á það og hef kallað mjög eftir því að þetta mál komi inn í þingið því að þrátt fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi fengið til sín marga sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar, umhverfisréttar, auðlindaréttar o.s.frv. hefur það ekki skilað sér neitt inn í umræðuna. Þessir aðilar gerðu fyrst og fremst grein fyrir sínum áherslum í því plaggi sem kom frá stjórnlagaráði en nú er þetta komið til umræðu og því ber að fagna.

Þrátt fyrir að ég sé ekki sátt við þann feril sem þessi stjórnarskrármál hafa verið sett í, og rétt að nefna í upphafi að þessu ráði var ekki falið að skrifa drög að nýrri stjórnarskrá heldur einungis gera tillögur að stjórnarskrárbreytingum, liggur samt fyrir í frumvarpsformi að hér eigi að taka upp splunkunýja stjórnarskrá. Það á að kasta fyrir róða þessari fallegu litlu stjórnarskrá sem hefur staðist tímans tönn. Mér finnst alveg með ólíkindum þegar þingmenn stjórnarflokkanna segja fullum fetum í þinginu að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt, ekki hafi tekist að breyta stjórnarskránni undanfarin ár eða réttara sagt frá því að hún tók gildi. Það er rangt og vísa ég því algjörlega á bug. Mestu breytingarnar voru gerðar 1995 þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var færður inn í stjórnarskrá Íslands og tókst um það mikil sátt. Minni háttar breytingar hafa auðvitað verið gerðar á stjórnarskránni alla tíð og vísa ég þar til dæmis í ákvæði um kosningar.

Ég varð að koma þessu að, frú forseti, vegna þess að mér finnst umræðan oft og tíðum á villigötum.

Í upphafi langar mig einnig að benda á að mér finnst með ólíkindum að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi tekið ákvörðun um að úthýsa málinu enn frekar frá Alþingi þegar svo stutt er til alþingiskosninga sé einhver vilji til staðar í þá átt að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. Formaður nefndarinnar kynnti í dag að það ætti að færa hluta þessara draga, þessa frumvarps, inn í allar nefndir þingsins. Það er sérstaklega eftirtektarvert þegar maður skoðar 8. tölulið 13. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þar stendur að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé að fjalla um stjórnarskrármál.

Nú skal þingnefndum drekkt fyrir jól þegar fjárlagavinnan nær hámarki og allar nefndir eiga að fá þetta frumvarp að stjórnarskrá til sín eftir málaflokkum og skila áliti til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég tel að málið liggi núna fyrst og fremst hjá þinginu og í öðru lagi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við sem í þeirri nefnd sitjum getum samkvæmt þingsköpum kallað til okkar þá sérfræðinga sem við teljum að eigi að koma að þessu máli en ekki dreifa heimsóknum þeirra á allar nefndir þingsins. Við ætlum að hafa hér öflugt starf í vetur, að ég tel, og það er aldrei brýnna en nú að koma atvinnulífinu af stað og koma skuldugum heimilum til hjálpar. Þess vegna á ekki að drekkja öllum nefndum þingsins í þessu máli, samkvæmt þingsköpum liggur valdið hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég sagði áðan að ég teldi að um mikið valdaframsal væri að ræða vegna þess að stjórnlagaráð sem var skipað af naumum meiri hluta þingsins tók þá ákvörðun að semja alveg nýja stjórnarskrá í stað þess að gera tillögur um úrbætur á núgildandi stjórnarskrá. Það tók þá ákvörðun að skrifa þessa og ég ætla að fara aðeins yfir ferilinn. Ég tel að honum sé ekki haldið nægilega vel til haga. Þetta byrjaði með lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, þá ákvað Alþingi að kosið skyldi til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins — ég endurtek: endurskoða. Á grundvelli laga nr. 90/2010 kaus Alþingi sérstaka stjórnlaganefnd sem var falið það verkefni að standa að þjóðfundi um stjórnarskrána og stjórnarskrármálefni þar sem kallað yrði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og breytingar á stjórnarskránni. Þeirri nefnd var jafnframt falið að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um þær breytingar sem gera þyrfti á stjórnarskrá landsins.

Þarna erum við ekki enn þá komin að því valdaframsali sem ég er að tala um því að þarna er alltaf verið að tala um að það ætti að gera nauðsynlegar breytingar, breyta núgildandi stjórnarskrá. Það var kallað saman til þjóðfundar um stjórnarskrána og með þeim þjóðfundi var ætlunin að fá fram meginsjónarmið og áherslur almennings um stjórnskipan landsins og hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Svo fóru fram stjórnlagaþingskosningar á grunni þessa og þær voru, eins og frægt varð, kærðar til Hæstaréttar og stjórnlagaþingskosningarnar dæmdar ólöglegar. Þá fór meiri hluti Alþingis þá leið að breyta þessu í nefnd sem við köllum hér eftir stjórnlagaráð og var þá raunverulega klippt á milli þess að þetta væru fulltrúar þjóðarinnar. Þetta var þvert á móti nefnd skipuð af Alþingi með naumum meiri hluta.

Samkvæmt þeirri þingsályktun sem þetta stjórnlagaráð byggði á var hlutverk þess skýrt og því falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar var aldrei fjallað um að skrifa ætti nýja stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ganga svo langt að kalla þetta tilraun til valdaráns en þarna er ákveðinni nefnd falið að gera tillögur fyrir þingið að breytingum á stjórnarskránni, en nefndin fer svo freklega út fyrir valdsvið sitt að hún skilar frumvarpsdrögum til þingsins sem eru búin að vera í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til umfjöllunar að einhverju leyti. Það endar svo með því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur þetta fram sem fullbúið þingmál í þinginu.

Þess er rétt að geta áður en lengra er haldið að við framsóknarmenn erum viljugir til að breyta stjórnarskránni. Við höfum bent á þau atriði sem við viljum breyta. Við viljum að auðlindir þjóðarinnar verði bundnar í stjórnarskrá og hef ég, ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins, lagt fram þingsályktunartillögu sem felur það í sér að skrifað verði lagafrumvarp sem skilgreinir hverjar auðlindir landsmanna eru, hvernig skuli nýta þær og hver auðlindarenta af þeim skuli vera. Þarna kemur vilji Framsóknarflokksins skýrt fram því að ein auðlind þjóðarinnar er varin með lögum, sjávarútvegsauðlindin, og það er í gegnum lög um erlent eignarhald. Þá er ég að vísa í fiskveiðiauðlindina okkar.

Við þurfum að standa vörð um allar þessar auðlindir. Það þarf að binda þær allar í stjórnarskrá, sérstaklega í ljósi þess að nú liggur inni umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Við vitum hvað Evrópusambandið ásælist hér á landi. Það hefur beinlínis komið fram í máli þeirra aðila sem tala fyrir Evrópusambandið að þeir þurfa á okkur að halda, þess vegna er mjög brýnt að við komum því ákvæði í gegn fyrir þinglok að auðlindir þjóðarinnar skuli bundnar í stjórnarskrá.

Ég hef einnig lagt á það áherslu að það verði sett í forgang að breyta köflum I, II og V í stjórnarskrá Íslands og að þeir verði settir í forgang í þinginu. Ef Alþingi ætlar að breyta stjórnarskránni eins og lagt er til með máli þessu, kollvarpa henni og raunverulega taka upp nýja blasir við að af því hlýst mikið slys.

Kafli I snýr að stöðu okkar, kafli II að forseta Íslands og kafli V að dómstólum. Ég tel að þingið eigi að taka þessa þrjá kafla til endurskoðunar, gera á þeim þær bætur sem þarf, setja inn auðlindaákvæðið og þar með náist sátt um þessi atriði. Við vitum að til dæmis málskotsréttur forsetans hefur verið umdeildur.

Ég tel að þetta sem er ætlunin að fara í núna sé óvinnandi vegur. Raunverulega eru margar af þessum tillögum hættulegar almannahagsmunum þjóðarinnar, þá er ég til dæmis að vísa í að hér er verið að innleiða í stjórnarskrá tillögur um að Árósasamningurinn gildi hér á landi. Fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar var hann felldur úr lögum á síðasta þingi vegna þess að það er eins og aðilar átti sig ekki á því hvað felst í Árósasamningnum. Hann snýr að umhverfismálum, og það sem lagt er til í frumvarpi þessu er að allir hafi kærurétt hér á landi þegar kemur að stórum umhverfisákvörðunum. Þetta þýðir sem dæmi að hér geti útlendingar komið og kaffært íslensku stjórnsýsluna í kærum ef umdeilt umhverfismál eða virkjunarmál er í uppsiglingu. Ég tel algjörlega ófært að binda svona í stjórnarskrá, þarna erum við farin að binda réttindi annarra þjóða inn í íslensku stjórnarskrána.

Það eru mörg svona ákvæði sem stangast á við gildandi sannfæringu okkar sem þjóðar.

Svo er eitt sem ég er mótfallin í frumvarpi þessu, hinum svokölluðu þriðju kynslóðar réttindum, eins og ákvæði um dýravernd í stjórnarskránni. Stjórnarskrá hvers ríkis á fyrst og fremst að verja þegna landsins fyrir ágangi stjórnvalda. Við getum ekki farið að verja dýr í stjórnarskrá Íslands.

Virðulegi forseti. Málið er komið út um víðan völl. Það er gott að það skuli vera komið inn í þingið, það er gott að það er komið í þann farveg að við getum farið að ræða málið efnislega. Það er svo brýn þörf á því að leiðrétta þann misskilning sem felst í mörgum tillögum stjórnlagaráðs um þessi ákvæði.

Ég ætla ekki að fara yfir jöfnun atkvæðisréttar og þau mál því að því hafa verið gerð góð skil hér í dag í ræðum, en ég er alveg hissa á því að það er ekki nægilega vel tekið, að mínu mati, á því hvað til dæmis hugtakið „þjóðar“ er. Það hefur verið ágreiningsefni bæði fyrir dómstólum og meðal þjóðarinnar hvað nákvæmlega „þjóðin“ þýðir. Náttúruauðlindir skulu vera í þjóðareign. Það er reynt að útskýra þetta í greinargerðinni, en það er ekki skýrt nægilega vel til að enginn vafi leiki á því hvað hin svokallaða þjóð er. Eru það Íslendingar sem búsettir eru á Íslandi? Er þjóðin Íslendingar búsettir í útlöndum? Er þjóðin Íslendingar og útlendingar búsettir hér á landi? Hvað er þjóðin?

Hér var tækifæri til að útskýra þetta í eitt skipti fyrir öll svo þetta ákvæði mundi halda fyrir dómstólum, en það eru svona meginþættir sem vantar enn. Okkur er talin trú um að þetta frumvarp hafi fengið mjög faglega meðferð. Ég kem til með að kalla í vetur eftir skilgreiningu á því hvað þetta þýðir nákvæmlega.

Tími minn er að verða búinn en ég get sagt að þarna eru til dæmis tillögur um að ráðherrar undirriti eiðstaf að stjórnarskránni. Þarna er talað um að embættismenn undirriti eiðstaf að stjórnarskránni. Málið er ekki nægilega vel unnið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið þetta til sín og það verður að fara mjög vel yfir málið en ég tel (Forseti hringir.) á nýjan leik að við eigum að breyta þeirri stjórnarskrá sem er í gildi, þeim ákvæðum sem eru ekki nægjanleg í dag, í stað þess að semja hér nýja stjórnarskrá.



[20:18]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Mig langar að víkja að einu atriði sem hún hafði ekki tök á að nefna, það er 111. gr. þar sem fjallað er um framsal ríkisvalds. Þar sýnist mér vera opnar heimildir til að framselja ríkisvaldið. Þar er kveðið á um að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem feli í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland eigi aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.

Ef maður skoðar athugasemdakaflann kemur þar fram að þetta mál virðist í fyrsta lagi kveða á um að þessi heimild nái til allra þriggja þátta ríkisvalds, löggjafarvaldsins, þ.e. valds Alþingis, dómsvaldsins, sem verður yfirþjóðlegt dómsvald, og loks framkvæmdarvaldsins. Það sem vekur áhyggjur mínar til viðbótar er að í skýringartextanum koma fram einhvers konar vangaveltur um það hvað þetta gæti að öðru leyti þýtt. Það er sagt að á þessum grundvelli geti verið heimilt að framselja vald til stofnunar sem samið hefur verið um aðild að, en það taki þó ekki gildi fyrr en (Forseti hringir.) sá samningur hefur verið samþykktur. Mér sýnist því í fyrsta lagi að um sé að ræða mjög umsvifamikið valdaframsal, (Forseti hringir.) og í öðru lagi mikið mat á því til hvaða þátta það þó nær.



[20:20]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða spurningu.

Það er til dæmis ákvæðið sem ég gagnrýndi mjög í Icesave-samningunum sem fól í sér framsal á dómsvaldi. Þarna er þetta valdaframsal ekki bara löggjafarframsal komið inn í stjórnarskrá Íslands. Ef við lesum þessi drög eða þetta frumvarp snýr það mjög mikið að því að laga okkur að Evrópusambandinu. Það var líka svolítið merkilegt að þegar þetta kemur fram og þetta lögfræðingateymi las þessa grein yfir taldi það að frekar langt væri gengið í þessum málum því að við þyrftum jafnvel bara meiri hluta alþingismanna til að framselja vald okkar að litlu leyti, t.d. með eina og eina tilskipun. En þarna er lagt til að þetta feli í sér framsal ríkisvalds að því leyti að einfaldan meiri hluta þurfi á Alþingi og svo þjóðaratkvæðagreiðslu á milli. Þarna getur stemmning (Forseti hringir.) samfélagsins leitt til þess að við getum til dæmis gengið í Evrópusambandið með litlum meiri hluta landsmanna sem dæmi.



[20:21]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði felur í sér mjög víðtækt valdaframsal. Það er valdaframsal gagnvart dómsvaldi, framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi, þ.e. öllum þremur meginstoðum okkar samfélags. Eins og ég nefndi hér áðan er það síðan dálítið uggvekjandi að engu að síður er það svo að í greinargerðinni er mjög í vangaveltustíl reynt að leggja út frá því hvað þetta þýði í raun og sann.

Við skulum skoða hvað þetta getur greinilega haft í för með sér. Ef við tökum bara dæmi af einhverju sem er nokkuð nærri okkur í tíma, þ.e. þessar hugmyndir um að ganga í Evrópusambandið. Ef það yrði niðurstaða þjóðar okkar að gera það, eða niðurstaða Alþingis öllu heldur, þyrfti ekki frekar að spyrja um það mál. Allar heimildir til að framselja vald, íslenskt vald, fullveldi okkar, væru til staðar. Ef við gengjum í Evrópusambandið þyrfti að breyta stjórnarskránni til að opna á þessar heimildir, að minnsta kosti í þessu tiltekna atriði, en í stað þess er hér um að ræða (Forseti hringir.) mjög almennar opnar heimildir sem verið er að setja í stjórnarskipunarlög okkar.



[20:22]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að þessi umræða skuli koma upp núna vegna þessa valdaframsals því það er ekki bara verið að binda í stjórnarskrá að um fullt framsal ríkisvalds sé að ræða, heldur stendur nánar í greininni að með almennum lögum skuli og afmarka það í hverju valdaframsalið felst.

Ég gleymdi að tala um það í ræðunni áðan að þetta frumvarp er fullt af ákvæðum um að frekari ákvæði skuli gilda í almennum lögum. Við vitum hvernig lagasetning á Alþingi hefur þróast, hún hefur farið út í reglugerðafargan. Almenn lög segja til um að ráðherra skuli setja nánari ákvæði í reglugerðum og þá er raunverulega kominn stjórnskipunarleki út úr þessu frumvarpi. Það er verið að framselja stjórnarskipunarvaldið alveg niður í framkvæmdarvaldið með þessu. Það tel ég vera mjög alvarlegt atriði og raunverulega stórgalla á þessu frumvarpi, því að það má aldrei gerast.

Það á að vera erfitt að breyta (Forseti hringir.) stjórnarskrá. Það er ekki hægt að framkvæma nánast hverja einustu lagagrein í stjórnarskránni með lagaframsali (Forseti hringir.) með þessum hætti.



[20:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir skorinorða ræðu eins og hennar er von og vísa. Ég er yfirleitt mjög ánægður með hennar ræður.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann, sem hefur starfað í hv. þingnefnd sem um þetta mál vélar og flytur málið, eða meiri hluti hennar, hvort það sé rétt sem sagt hefur verið að þar hafi farið fram efnisleg umræða, mjög ítarleg, allt síðasta þing frá byrjun til enda. Ég vil fá það staðfest.

Ég vil líka spyrja hana hvort nefndin hafi lesið allar umsagnir þar á meðal umsögn mína upp á 13 plús 25 síður þar sem ég geri fjöldann allan af athugasemdum og breytingartillögur.

Ég vil líka spyrja hana hvort þau hafi ekki líka skoðað frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á 79. gr. sem gerir það mögulegt, og ég sé enga aðra leið rökfræðilega, að þjóðin greiði atkvæði með bindandi hætti um stjórnarskrána sína.



[20:25]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar.

Því er til að svara að ekki hefur orðið efnisleg umræða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að sérfræðingar komu fyrir nefndina á færibandi og aldrei var unnið með tillögur þeirra og þá gagnrýni sem kom fram, að undanteknu samtali við stjórnlagaráð, sem ég taldi að ekki hefði átt að eiga sér stað á sínum tíma, vegna þess að stjórnlagaráð var búið að skila af sér til þingsins. Þá uppástendur meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að nefndin sjálf skuli fara út í bæ og hitta þessa fulltrúa til að gera tillögubreytingar á sínu plaggi. Ég boðaði strax forföll því að Alþingi er með stjórnskipunarvaldið. Svo var það kynnt hér af formanni nefndarinnar í dag hvernig þetta hefði verið og þar með var þessum kosningakafla skúbbað út úr þessu, því að það sáu allir í upphafi að hann væri algjörlega ónothæfur.

Ég verð að fá að svara spurningunum í seinna andsvari. (MT: Með sannleikanum.)



[20:26]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Í umræddri umsögn minni — og það er einsdæmi að þingmaður skili umsögn til nefndar — kem ég inn á 109. gr. tillagnanna. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.“

Nú ræðst inn í landið 50 manna lið hryðjuverkamanna. Þá þarf að fara að kalla saman þing og ræða hvort fara megi í hernaðaraðgerðir til að verjast þeim. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Þarna þarf að undanskilja, eins og ég geri tillögu um, varnir landsins.



[20:27]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara þeim spurningum sem ég átti eftir að svara áðan.

Jú, ég hef lesið allar umsagnir með þessu frumvarpi og þar með tillögur hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég hef líka lesið sérstaklega tillögu hans um breytingar á 79. gr. og er þingmanninum ekki sammála. Ég tel að það verði að vera faglegur ferill, stjórnskipunarvaldið er tvö þing og kosningar á milli. Eins og ég hef svo oft farið yfir áður þá sitja 63 þingmenn á þingi, það eru alþingiskosningar. Þá er kosið um stjórnarskrá í leiðinni. Það koma 30 nýir þingmenn inn á þingið, þá er stjórnskipunarvaldið 93 þingmenn. Við erum með virkt fulltrúalýðræði.

Þetta með herskylduna, það var gott að þingmaðurinn kom inn á það. Það stendur í tillögum stjórnlagaráðs að herskyldu megi aldrei í lög leiða. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að fara að því ef samþykkt verður að ganga í Evrópusambandið og í Lissabon-sáttmálanum er ákvæði um herskyldu? Þarf þá að rjúfa þing og koma saman og breyta (Forseti hringir.) stjórnarskránni til þess að það megi stofna her hér á landi? Svona eru andstæðurnar í þessu. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég að hvetja til þess að afmörkuðum þáttum verði breytt en að þessu verði ekki breytt svona alhliða.



[20:29]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu eins og hennar er von og vísa.

Ef þessi drög verða að stjórnarskrá okkar Íslendinga er búið að umbylta algjörlega þeirri stjórnarskrá sem við búum við núna, sem þýðir að öll afleidd lög taka tilhlýðilegum breytingum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann, sem er lögfróð manneskja: Er líklegt að mikil lagaóvissa verði í kjölfarið? Er líklegt að þetta geti skapað upplausn í lagaumhverfinu fyrstu árin eftir að ný stjórnarskrá tekur gildi?



[20:30]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nákvæmlega spurningin sem þurfti að koma fram í umræðunni í framhaldi af því sem ég talaði um áðan, það er mikið lagastjórnskipunarframsal falið í þessu frumvarpi. Oftar en ekki er kveðið á um það í lagagreinunum að frekari framkvæmd skuli eiga sér stað með almennum lögum. Það er það sem er að gerast.

Lögfræðiteymið var spurt að því hvað fælist nákvæmlega í ákvæðinu. Enn er ekki búið að vinna neitt heildstætt plagg um hversu mörgum lögum þarf að breyta ef þetta verður óbreytt að stjórnarskrá Íslands.

Frumvarpið setur jafnframt öll fordæmi í hæstaréttardómum í uppnám. Ég er að vísa í mannréttindakaflann sem var lögleiddur 1995 og er komin góð réttarframkvæmd á þannig að Íslendingar vita orðið, þegar miðað er við dómaframkvæmd, hvaða réttindi þeir búa við hér á landi. Virðulegi forseti. Verði þetta samþykkt skapast ringulreið og réttaróvissa.



[20:31]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt og gott svar. Ég vil ekki nota orðið ringulreið en þar sem íslensk lög eru afleidd af grunnlögunum sem felast í stjórnarskránni mun verða mikil lagaóvissa þangað til dómaframkvæmd hefur skapað einhverja hefð, hvernig á að túlka stjórnarskrá og annað slíkt.

Þegar maður les mannréttindakaflann í þessum drögum dettur manni í hug að frekar sé um fagurt stefnumið að ræða en að verið sé að rígnegla réttindi fólks í grunnlög. Það er ljóst að sumt af þeim greinum sem eru í mannréttindakaflanum eru óframkvæmanlegar og (Forseti hringir.) jafnframt finnst mér afar sérstakt að blanda saman réttindum manna og dýra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Mun þetta ekki valda dómstólum gríðarlegu álagi þegar maður og annar fer að kvarta yfir (Forseti hringir.) stjórnarskrárbrotum og fara í mál og annað slíkt út af ákvæðum sem ríkið getur ekki uppfyllt?



[20:33]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þjónar ekki hagsmunum neinnar þjóðar að taka í gildi stjórnarskrá sem leiðir af sér að það skapast réttarleg óvissa. Ég talaði um ringulreið áðan. Ég tel að það sé réttnefni vegna dómaframkvæmda sem þarf að fara í í kjölfarið. Almenningur ber mikinn kostnað af því að fara í dómsmál og ríkið ber helminginn. Hefur íslenska ríkið efni á því nú um stundir? Nei, ég get ekki séð það.

Þau réttindi sem er verið að færa inn í stjórnarskrána voru gagnrýnd af lögfræðiteyminu sem kom fyrir nefndina því eins og ég kom að í máli mínu áðan á stjórnarskráin að verja réttindi þegna fyrir ofríki stjórnvalda.

Hér er til dæmis 10. gr. í þessu frumvarpi, Vernd gegn ofbeldi, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggð vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.“

Þarna er verið að leggja til að einkaaðilar geti farið í mál hver við annan (Forseti hringir.) á grundvelli stjórnarskrár. Svo ég nefni sem dæmi þekkist það ekki í neinni stjórnarskrá.



[20:35]
Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir hér þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir skörulega ræðu.

Fyrst vil ég nefna að mér þótti hún orða mjög vel hvernig hún telur litla þörf á 36. gr. um dýravernd í plagginu að nýrri stjórnarskrá okkar. Mér fannst hún færa mjög haldgóð rök fyrir því að það ákvæði eigi ekki heima þar. Ég er sammála henni í því.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi heyrt umræðu í nefndinni um breytingu á aldurstakmarki, þ.e. á kosningaaldri. Nú hefur hv. þm. Vinstri grænna, Árni Þór Sigurðsson, viðrað þá hugmynd sína í fjölmiðlum, m.a. í morgun. Ég vil gjarnan vita hvort það hefur hlotið umræðu í nefndinni?



[20:36]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar.

Til að skýra nánar hvað dýraverndarákvæðið er að mínu mati fáránlegt segir lögfræðiteymið um 36. gr. í nýrri greinargerð, með leyfi forseta:

„Af skýringum stjórnlagaráðs verður ráðið að markmið þess sé að leggja ákveðinn grunn að almennum lögum um dýravernd og vera stefnumarkandi á því sviði.“

Verið er að vísa í að við erum að sjálfsögðu með dýraverndarlög. Það eru almenn lög sem gilda fyrir dýr og það á ekki að binda ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá. Það er algjört tabú að mínu mati.

Spurningin varðandi kosningaaldurinn er góð. Nei, að vísu er kosningakaflinn sem lagður var til í algjöru uppnámi og honum hefur verið breytt fram og til baka en ég hef ekki fyrr heyrt hugmyndir um að lækka beri kosningaaldurinn. Ég tel frekar að við ættum að samræma lögráðaaldur, kosningaaldur, (Forseti hringir.) áfengiskaupaaldur og bílprófsaldur í stað þess að þræla kosningaaldrinum niður í 16 ár.



[20:37]
Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. og vil upplýsa að ég var ekki alveg með á nótunum um að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur þegar lagt fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem varðar breytingu á kosningaaldri á Íslandi. Ég er sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún nefnir að helst væri þörf á því að samræma öll þau aldurstakmörk sem við búum við í þjóðfélaginu í dag, samræma aldur hvað varðar kosningarrétt, sjálfræði, áfengiskaup o.s.frv. Þetta eru ágætistillögur sem er hægt að ræða og færa rök fyrir með eða á móti, hvort færa eigi aldurinn niður um tvö ár. En ég hef mikla fyrirvara á því, alla vega eins og sakir standa.



[20:39]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afar áhugaverð umræða sérstaklega ef við skoðum 6. gr. frumvarpsins sem ber yfirskriftina Jafnræði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu,“ o.s.frv.

Þarna leggur stjórnlagaráðið til að allir skuli njóta jafnræðis vegna aldurs. Þá er mjög eðlilegt að verði þetta að nýrri stjórnarskrá beri löggjafanum líklega að leggja til breytingar á frumvörpum er varða þau aldursákvæði, sem var farið yfir í andsvari, og jafna það út. Það má ekki vera nokkurs konar mismunun. Þarna er t.d. gott dæmi sem ég var ekki búin að koma auga á að stangast á og er ekki í samræmi í frumvarpinu. Þess vegna er frumvarpið, virðulegi forseti, á engan hátt tilbúið til þess að verða afgreitt á fimm mánuðum.



[20:40]
Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Hér hefur að mörgu leyti farið fram mjög málefnaleg og skemmtileg umræða um það stóra mál sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu allt þetta kjörtímabil og töluvert lengur en það.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerir hér mikinn ágreining vegna ákvæðis um dýraverndarlög. Ég verð að segja að ef það atriði er að hennar mati frágangssök í þessu máli þá eru vandamálin sem við þurfum að takast á við ekki mikil. Í rauninni er ég þeirrar skoðunar eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar í þessu máli að ekki sé svo ýkja langt á milli manna þegar hlustað er eftir efnisatriðunum. Okkur ætti í sjálfu sér að duga sá tími sem er til kosninga til að fara yfir þann ágreining og reyna eftir fremsta megni að ná sátt.

Dan nokkur Quayle, sem var einu sinni varaforseti Bandaríkjanna og frægur að endemum fyrir ambögur og skrýtnar setningar, sagði eitt sinn að útbreiðsla lýðræðis væri óumflýjanleg, [Hlátur í þingsal.] en það gæti breyst. Jafnundarlega og sú setning hljómar er samt sem áður sannleikskorn í henni vegna þess að manni finnst lýðræðið vera aðferð sem hefur virkað mjög vel til að taka ákvarðanir og að það hljóti að vera niðurstaða okkar í sögulegu samhengi að það sé besta leiðin. Í því felst ferli fyrir fólk sem er með mismunandi skoðanir að komast að niðurstöðu, í ferlinu er skipst á skoðunum því að eðlilegt er að vera með mismunandi skoðanir og á endanum er kosið um hvaða leið skuli fara. Meiri hlutinn ræður, það er ferlið.

Það er mikilvægt að ferlið sem við erum með stjórnarskrána í sé virkt. Þegar fyrir liggur að við komumst ekki nær hvert öðru, við höfum ekki sömu sýn á hvernig endanlega útgáfan á að vera þá höfum við hv. þingmenn tæki sem felst í tökkunum á borðinu okkar þannig að meiri hlutinn ræður og tekin er ákvörðun um framhaldið.

Það er mikilvægt í þeirri umræðu sem fram fer núna að menn beiti ekki því sem hefur of mikið verið stundað í pólitík, að forða því að ákvörðun verði tekin og koma í veg fyrir að menn gangi ferlið á enda. Það ferli sem málið er í hefur verið umfangsmikið og langt. Samhliða því hefur farið fram mikil efnisleg umræða um þau atriði sem eru í drögum að nýrri stjórnarskrá. Burt séð frá því hvort menn horfa á ferlið sjálft og það sem gerðist innan stjórnlaganefndar, innan þjóðfundarins, innan stjórnlagaráðs, innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða í meðförum sérfræðinga sem komið hafa að málinu þá hefur verið mikil efnisleg umræða í samfélaginu um fullveldisframsalið, um tengsl Íslands við umheiminn, um tengsl Íslands við EES, tengsl Íslands við ESB og hvað það feli í sér.

Það er rangt sem haldið hefur verið fram í þessari umræðu að við höfum ekki tekið efnislega umræðu um málið því að það höfum við gert þó að sú umræða hafi ekki beinlínis verið tengd þessu frumvarpi.

Gríðarlega mikil umræða hefur farið fram á undanförnum missirum og árum um stöðu íslensku þjóðkirkjunnar. Samfélagið allt hefur tekið þátt í umfangsmikilli umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar. Í þessari tillögu er komin niðurstaða sem ég get vel fellt mig við. Ég held hún sé góð lending og í takt við vilja þjóðarinnar og veit að hún er það.

Gríðarlega mikil umræða hefur farið fram um stöðu forsetaembættisins, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur allt frá árinu 2004 þegar forseti lýðveldisins beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar í fyrsta skipti.

Eignarhald á náttúruauðlindum hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi áratugum saman.

Jöfnun atkvæðisréttar hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi áratugum saman, kjördæmaskiptingin sömuleiðis.

Á þessu kjörtímabili hefur verið gríðarlega mikil umræða um samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þingsetu ráðherra o.s.frv.

Það er alrangt að ekki hafi farið fram efnisleg umræða um það sem þessi tillaga um nýja stjórnarskrá felur í sér. Efnisleg umræða hefur farið fram hér á þingi, á vettvangi fræðimanna, í fjölmiðlunum og út um allt í samfélaginu.

Það sem er fram undan er auðvitað prófsteinn á þá stjórnmálaflokka sem skipa þingið og okkur þingmenn sem hér sitjum hvort við getum hafið okkur upp úr þeim hjólförum flokksátaka sem því miður eru orðin allt of rótgróin í íslenskum stjórnmálum og eru ástæðan fyrir því að ég ásamt öðrum hef ákveðið að ganga til liðs við nýja hreyfingu sem kennir sig við bjarta framtíð og ætlar að reyna eftir fremsta megni að koma með hugarfarsbreytingu inn í íslensk stjórnmál, að nálgast hlutina með öðrum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu stóra máli að við sem hér sitjum reynum að gera það líka. Ég held að það sé vel mögulegt. Það hefur verið gert í þessu máli og tókst vel. Ég vísa þá til upphafs málsins í allsherjarnefnd þegar ágætissamstaða náðist um það ferli sem síðan fór af stað.

Í hinni hefðbundnu pólitík sem stunduð hefur verið, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan, væri það kappsmál stjórnarflokka að ljúka þessu máli fyrir kosningar til að geta sagt í aðdraganda kosninga: Þessu lofuðum við, þetta stóðum við við. Það væri að sama skapi kappsmál fyrir stjórnarandstöðu hvar sem er, ekki bara á Íslandi heldur víðs vegar um heiminn, að stöðva slíkt ferli til að sýna fram á að stjórnarflokkunum sé ekki treystandi, þeir séu óhæfir, vanhæfir, það eigi að kjósa einhverja aðra. Þetta er ekki mál til að stunda slík vinnubrögð. Þetta er ekki víglínan sem stjórnmálaflokkarnir eiga að draga í sandinn í þessum efnum.

Við erum nefnilega ekki í spreng við að klára nýja stjórnarskrá. Okkur vantar ekki nýja stjórnarskrá í maí á næsta ári. Það er ekki heldur ástæða til að hætta ferlinu. Það hefur tekið langan tíma. Það er að mörgu leyti vandað og er nú komið til efnislegrar umræðu hér.

Þá hljóta menn að spyrja: Hvar eru hugmyndirnar? Ef stjórnarandstaðan gagnrýnir stjórnarmeirihlutann fyrir að hafa látið 18 mánuði líða frá því að tillögurnar komu frá stjórnlagaráði, hvar eru þá hugmyndirnar frá stjórnarandstöðunni, fyrir utan 37 blaðsíðna greinargerð frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem er góðra gjalda verð en ekki hugmynd stjórnarandstöðunnar eins og hún leggur sig, eins og við heyrðum hér áðan? Hvar er sú fræðivinna sem stjórnarandstaðan kallar eftir? Af hverju hefur hún ekki leitað til sérfræðinga? Af hverju kemur hún ekki með tillögur um það hvernig beri að skilgreina þjóðina, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór hér yfir áðan? Af hverju spyr hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ítrekað í ræðustól hvernig menn skilgreini þjóð? Af hverju kemur hv. þingmaður ekki með tillögu í þeim efnum?

Ef það er markmið stjórnarandstöðunnar að tefja málið og koma í veg fyrir að það verði afgreitt fyrir kosningar er ekki eftir neinu að bíða, þá eigum við að ganga strax til atkvæða. En ef stjórnarandstaðan er með efnislegar tillögur í málinu sem þarf að fara yfir og getur tekið tíma eigum við að viðurkenna að það geti tekið tíma og fara efnislega yfir málið. Þá getum við samþykkt frumvarp hv. þm. Péturs Blöndals um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér að á næsta kjörtímabili getum við breytt stjórnarskránni og borið hana síðan undir atkvæði þjóðarinnar sem staðfestir þá breytinguna. Það er ekki auðveld leið til að breyta stjórnarskránni en það er auðveldari leið en sú sem við höfum nú. Hún felur ekki í sér, ef okkur vinnst ekki tími til að ljúka þessu máli fyrr en eftir kosningar, að við þurfum að bíða til ársins 2017 eftir nýrri stjórnarskrá. Þetta er sú leið sem við höfum til þrautavara í þessum efnum.

Það er mikilvægt í þessu efni að sem flestir séu sáttir við niðurstöðuna. Það yrði mjög óheppilegt ef helmingur þjóðarinnar væri ósáttur við stjórnarskrá sína. Það gengi ekki upp. Það er til mikils að vinna að ná sátt í málinu. Það er ekki síður mikilvægt að ferlið, lýðræðið og sú aðferð sem við sem samfélag höfum ákveðið að nota til að komast að niðurstöðu verði virt. Hér stendur málið nú.

Ég er í sjálfu sér ekki búinn að fara mikið efnislega í tillöguna sjálfa. Ég er einn af flutningsmönnum hennar og það felur í sér að ég er mjög sáttur við hana eins og hún er. Það þýðir ekki að það megi ekki breyta neinu. Það þýðir einfaldlega að ég auglýsi eftir hugmyndum, efnislegum tillögum, rökum og ábendingum um það sem betur má fara.

Ég veit að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margar spurningar, en ég hef líka spurningar til þeirra. Ég vil fá að vita hvernig þeir vilja breyta einstökum greinum, hvað það er nákvæmlega sem er frágangssök í þeirra huga. Er það rétturinn til lífs? Má það ákvæði í hugum einhverra ekki vera í stjórnarskránni? Er það óskýrt í huga einhvers? Er ákvæðið um dýravernd þannig að það sé frágangssök og ástæða sé til að hætta allri vinnunni og lýsa frati á það sem hér liggur fyrir? Ég held ekki.

Ég hvet fólk, sem er að fylgjast með þessu máli, til að taka sér klukkutíma í kvöld og lesa bæði skjölin, lesa núgildandi stjórnarskrá og bera hana saman við þá tillögu sem við höfum hér. (ÍR: Klukkutíma?) Já, hv. þm. Íris Róbertsdóttir, ég held að það taki ekki lengri tíma að lesa þær greinar sem fyrir liggja en um það bil hálftíma, fjörutíu mínútur og núgildandi stjórnarskrá ekki meira en tuttugu mínútur, að renna yfir þessi tvö skjöl og bera þau saman. Það blasir við hverjum þeim sem ber þau saman að tillagan sem hér liggur fyrir er betri en núgildandi stjórnarskrá. (Gripið fram í: Oh, my god.) Hún er miklu skýrari, miklu aðgengilegri, nútímalegri og betri í alla staði. Fyrir þá sem ekki treysta sér í strípaðan lagatextann er til ágætur kynningarbæklingur sem hægt er að grípa til og var dreift á öll heimili í landinu þar sem menn geta borið þetta saman. Þessi tillaga er að mínu mati betra skjal og það ræður afstöðu minni í málinu.



[20:53]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður situr hálflamaður eftir ræðu hv. þm. Róberts Marshalls, að telja að hægt að sé að fara í gegnum stjórnarskrármál á hálftíma eða klukkutíma lýsir náttúrlega málinu. En á sama tíma telur þingmaðurinn að málið sé vel unnið, umfangsmikið og efnisleg umræða hafi verið mjög mikil. Það er rangt — alfarið rangt.

Því langar mig til að nefna við hv. þingmann, vegna þess hann telur að það sé svo mikil samstaða um þetta mál hjá vinstri mönnum, að nú eru vinstri menn í ríkisstjórn og þá á allt í einu meiri hlutinn að ráða för. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa verið lengi saman í ríkisstjórn af lýðveldistímanum og aldrei hefur okkur dottið í hug að fara með stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið á einhverju meirihlutavægi. Aldrei höfum við hótað því. Það er því merkilegt að núna þegar við sitjum uppi með vinstri stjórn eigi allt í einu meiri hlutinn að gilda. Þetta er samfélagssáttmáli, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, en ekki stjórnarskrá vinstri manna.



[20:55]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að sig hefði sett hljóða yfir ræðu minni. Það hefði verið betra ef svo væri. Ég veit eiginlega ekki hverju ég á að svara. Ég var að lýsa þeirri umræðu sem hefur farið fram í samfélaginu um þau fjölmörgu atriði sem hér eru til umfjöllunar, ekki bara í tengslum við þetta frumvarp heldur á vettvangi fjölmiðla og stjórnmálanna, um tengsl framkvæmdarvaldsins, stöðu forsetans og stöðu þjóðkirkjunnar. Auðvitað er það hluti af hinni lýðræðislegu umræðu. Það er ekki eins og við séum hér í einhverju tómarúmi að koma að þessu í fyrsta sinn. Það er sá veruleiki sem ég er að lýsa.



[20:56]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skyldi þó ekki gerast eftir næstu alþingiskosningar að í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sæi nýkjörið Alþingi sig knúið til að fella stjórnarskrárbreytingar sem verða hugsanlega samþykktar í vor, það skyldi þó ekki verða raunin þar sem vinstri menn hafa verið við stjórn og ætla að koma stjórnarskrá sinni í gegnum þingið. Það kemur nýr þingmeirihluti sem þarf að staðfesta stjórnarskrárbreytingarnar eftir þingkosningar, nýtt þing, nýir þingmenn og það er í þeirra valdi hvort ný stjórnarskrá tekur gildi eða ekki. Hv. þingmenn vinstri flokkanna skulu átta sig á því. Þess vegna þýðir ekki að beita ofbeldi í þinginu og segja að þetta verði afgreitt á meirihlutaatkvæðum nokkurra þingmanna. Ég tel að vinstri menn átti sig ekki á alvarleika málsins, alls ekki.

Svo er kallað hér eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni. Ég nefni til dæmis endurskrift á þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi frá Ágústi Þór Árnasyni og Skúla Magnússyni (Forseti hringir.) lögmönnum sem hafa lagt til glæsilegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Það er það sem við eigum að ræða, [Hlátur í þingsal.] að breyta núgildandi stjórnarskrá en ekki skrifa nýja. Gaman að heyra hvað allir vinstri menn hlæja við þessa ræðu mína. (Gripið fram í: Ég er ekki vinstri maður.)



[20:57]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri ekki langt á milli manna, það væri hægt að ná sátt. Ég vona það líka. Virðing fyrir stjórnarskránni er þvílík að hún er yfirleitt rædd á Alþingi um nætur. Nú er klukkan orðin 21. Mér finnst það ekki virðing við stjórnarskrána að ræða hana á þessum tíma, ég segi bara eins og er. (VigH: Sammála.)

Þegar maður fer í gegnum einstakar greinar — ég fór í gegnum hverja einustu grein stjórnlagaráðs, hverja einustu, en ég var ekki eins klár og almenningur að ég þyrfti til þess tvo tíma, ég þurfti til þess allt jólafríið í fyrra og lungann úr janúar, (Gripið fram í.) ég er náttúrlega takmarkaður og vinn greinilega ekki nógu hratt — þá komst ég til dæmis að því að forseti Alþingis missir löggjafarvaldið ef hann sem þingmaður býður sig fram til forseta Alþingis. Finnst hv. þingmönnum það eðlilegt? Hann er kosinn í löggjafarvald en hefur svo allt í einu ekki atkvæðisrétt.

Síðan segir hv. þingmaður að það hafi verið gríðarleg umræðu utan Alþingis. Það getur vel verið, en hún hefur ekki verið innan Alþingis.



[20:59]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég væri mjög sáttur við þá tillögu sem liggur fyrir, enda er ég einn af flutningsmönnum hennar. Það virðist vera einhver misskilningur um hvað ég var í raun og veru segja í ræðustól. Ég sagði að ef menn væru tilbúnir til þess að koma með efnislegar tillögur og ræða sín á milli um hvernig væri hægt að ná sátt um það plagg sem hér liggur fyrir þá fyndist mér að við ættum að taka tíma í það. En ef slíkar tillögur eru ekki fyrir hendi, þeim er ekki til að dreifa, er engin ástæða til að draga málið neitt mikið lengur því að það er búið að vera í löngu ferli og fullkomin ástæða til að láta meiri hlutann ráða.

Síðan er það auðvitað þannig, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á, að þjóðin kýs í apríl og á þing kemur nýr meiri hluti sem heldur væntanlega áfram með málið.



[21:00]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Gildandi stjórnarskrá er forsenda margra hæstaréttardóma. Ég nefni kvótadóminn sem breytti mjög miklu í kvótamálum. Ég nefni öryrkjadóminn sem breytti mjög miklu fyrir öryrkja. Þessar forsendur bresta þegar stjórnarskránni er breytt að þessu leyti. Nú er allri stjórnarskránni breytt. Ég er hreinlega, frú forseti, skelfingu lostinn að hugsa til þess óöryggis sem kemur upp í landinu í kjölfarið. Það er þess vegna sem ég vara menn við því að gera svona miklar breytingar.

Ég vil miklu frekar að menn nái fram breytingum sem allir eru sammála um. Gerum það hratt og vel að samþykkja það. Síðan fari menn í alltaf sífellt meiri og meiri og meiri ágreiningsmál og semji sig niður til niðurstöðu, flest mál eru þannig að menn geta sameinast um þau.

Hvað er þjóð? Í tillögum stjórnlagaráðs er þetta út og suður, ríkisborgararéttur o.s.frv. Ég vil að þetta sé skilgreint nákvæmlega. Fyrir hvern gildir stjórnarskráin?



[21:01]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Minn ágæti vinur hv. þm. Pétur Blöndal er íhaldsmaður af guðs náð og því eðli málsins samkvæmt yfirleitt skelfingu lostinn yfir öllum boðuðum breytingum. (PHP: Nei, það er ekki rétt.) Ég veit ekki hvað það er sem ég get sagt til að verða honum til einhverrar huggunar í þessum efnum. Það er búið að fara yfir þetta mál (PHB: Nei.) í bráð og lengd. Nú er efnislega umræðan sem hv. þingmaður hefur svo lengi kallað eftir og kvartað yfir að þyrfti að fara fram. Þá eigum við bara að hlusta hver á annan, skiptast á skoðunum. Það er eðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt að menn séu ósammála. Menn nálgast stjórnmálin með mjög ólíkum hætti og það er kostur þess að búa í lýðræðissamfélagi. Það er eðlilegasti hlutur í heimi. En þegar menn ná ekki lengur saman og ná ekki að sætta ólík sjónarmið á einfaldlega að greiða atkvæði um hvaða leið eigi að fara.



[21:02]
Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og borið saman við orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrr í dag þá heyri ég að alla vega þessir tveir flutningsmenn tillögunnar eru opnir fyrir því að hlusta á ábendingar þingmanna úr minni hlutanum og jafnvel að koma til móts við þá. Í máli hv. þm. Róberts Marshalls kom líka fram að hann teldi oft og tíðum ekkert endilega svo langt á milli manna. Báðir virðast telja að svigrúm sé til breytinga og það held ég að sé vel.

Ég skynja hins vegar ákveðinn hæðnistón úr röðum meiri hluta þingmanna í garð þeirra sem eru að bera fram fyrirspurnir og mér finnst það ekkert sérstaklega farsælt til árangurs, til að mætast á miðri leið. Ég held að menn ættu að láta af slíkum málflutningi og ræða þessi mál af yfirvegun og virðingu við málefnið.



[21:04]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst margfaldlega afsökunar ef það hefur komið þannig út að ég væri að hæðast að þeim sem koma hingað upp með ábendingar og andsvör. Það er af og frá. Ekkert er fjarri huga mínum. Ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal höfum rætt um stjórnarskrána oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, við erum ágætisferðafélagar, erum saman í ÖSE-nefnd og höfum rætt þetta í þaula fram og til baka. Það er þá miklu frekar að hv. þingmaður hafi verið að sjá framhald af langri samræðu á milli okkar um þetta efni en að ég hafi verið að hæðast að honum.



[21:04]
Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átti hins vegar ekki bara við hann úr stjórnarliði því að ég hef tekið eftir þessu meðal annarra og jafnvel úr hópi minnihlutamanna.

Ég hjó eftir orðum hv. þingmanns um það að við værum ekki í spreng með að klára þetta mál. Þar held ég að hann eigi samhljóm í hópi minnihlutaþingmanna því að menn hafa talað fyrir því að ekki liggi lífið á að klára þetta fyrir kosningar heldur ættum við að vinna þetta vel og vandlega. Ég tek undir það.

Mig langar bara að spyrja innan úr nefndinni: Hvað ætla menn langan frest fyrir umsagnaraðila að skila inn umsögnum sínum? Erum við að tala um vikur, daga? Það væri ágætt að fá sjónarmið innan úr nefndinni hvað það varðar. Ég hef heyrt að umsagnaraðilar mundu helst vilja 4 til 6 vikur til að gera vönduð álit um þetta frumvarp.



[21:06]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið það lengi til umfjöllunar og þetta er, ef ég má leyfa mér að sletta, dálítið „usual suspects“ sem er að koma fyrir nefndina í þessum efnum. Ég held að hefðbundinn umsagnartími muni alveg duga í þessum efnum þó að ég eigi eftir að ráðfæra mig við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um þau mál.

Það er mjög mikilvægt að við leyfum okkur í þessari umræðu, og ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um það, að vera ósammála. Það skiptir mjög miklu máli í þessu máli að við séum að vanda okkur við það að tala af virðingu um hugmyndir hvert annars. Við skuldum þjóðinni það eftir þetta kjörtímabil. Í þessu máli, sem varðar sjálfan samfélagssáttmálann sem við viljum ná hvað mestri sátt um, er það gríðarlega mikilvægt.



[21:07]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hjá hv. þingmanni, eins og hv. þm. Birna Lárusdóttir kom inn á, að við erum ekki í spreng, hv. þingmaður orðaði það þannig. Við þurfum að gefa okkur góðan tíma, við þurfum að gera þetta vel og þetta þarf að vera í þessari svokölluðu sátt.

Mér finnst frábært ef það er það sem þingmaðurinn er að leggja til og vill gera. Við viljum öll hafa stjórnarskrá sem þjónar okkur og við þurfum að gera breytingar á henni. Ég held að enginn hafi komið hingað upp og sagt að ekki eigi að breyta neinu, ekki nokkur maður.

Mig langar að beina þessari spurningu til hv. þingmanns: Fyrst ekki þarf að gera þetta í spreng er þá ekki hægt að skipta þessu niður? Ef hann heldur að það sé hægt, af því að hann talaði um að kannski þyrfti ekki að klára þetta á þessu kjörtímabili eða á þessu þingi, hvernig mundi hann geta hugsað sér að skipta þessu? Er eitthvað sem hv. þingmaður mundi vilja taka fyrst og hvað þá helst?



[21:08]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meira í höndum stjórnarandstöðunnar hversu langan tíma þarf í þetta. (Gripið fram í: Nú?) Já, ég er náttúrlega að leggja þessa tillögu fram þannig að það ber í sér að ég er sáttur við hana. Ég get þess vegna afgreitt hana strax. Ég er ánægður með þessi drög. Það sem ég var að segja í ræðu minni er að sé stjórnarandstaðan með hugmyndir um breytingar þá verðum við að hlusta á þær ef þær koma fram. Ef það er eitthvað sérstaklega sem þeir vilja reyna að nálgast okkur sem berum þessa tillögu fram þá eigum við að sjálfsögðu að taka þann tíma í það sem þarf. En ef umræðan er öll um það að ekki hafi farið fram nein efnisleg umræða, að ferlið sé óvandað, það þurfi að taka 6 til 8 vikur í umsagnir eða eitthvað slíkt þá held ég að það sé ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum.

Eftir að hafa hlustað á sjónarmið stjórnarandstöðunnar í dag þá held ég, eins og ég sagði, að ekki sé svo langt á milli manna í þessum efnum. Ég held að þetta sé ekki óbrúanlegt. Við eigum að einbeita okkur að því sem við erum ósammála um og reyna að nálgast hvert annað.



[21:10]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ef hv. þingmaður skynjar þennan samningsvilja, að það sé kannski ekki svo langt á milli manna, hvaða atriði eru í raun ófrávíkjanleg í huga þingmannsins og hvað finnst honum að þurfi að vera það sem fyrst er tekið fyrir. Ef við ætlum að breyta þessu þá þurfum við tíma til að gera það og við þurfum tíma til að geta rætt málin og náð lendingu. Ég trúi því ekki, af því að hv. þingmaður talaði um að hann væri flutningsmaður þessarar tillögu og væri tilbúinn til að samþykkja hana strax — hv. þingmaður er samt að opna á það að við getum breytt henni. Er hv. þingmaður tilbúinn að gefa þinginu, og þeim sem eru ekki alveg eins sáttir við tillöguna og hv. þingmaður, tíma til að breyta henni?



[21:11]
Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er það sem ég var að segja. Ef fram koma tillögur frá stjórnarandstöðunni inn í þá vinnu sem nú fer fram á vettvangi þessa þingsalar og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allra nefnda þingsins þá eigum við að taka þann tíma sem til þarf. En ég segi líka: Föllum ekki í þá gryfju að stjórnarandstaðan fari að tefja málið til að stjórnarmeirihlutinn komi illa út og reyni að keyra málið áfram til að ljúka því fyrir kosningar. Ef engar efnislegar athugasemdir eru gerðar eða ekkert efnislegt framlag er til umræðunnar eigum við að greiða atkvæði um það strax og ljúka málinu. Svo liggur það náttúrlega fyrir eftir næstu kosningar að ljúka málinu. Ef um er að ræða efnisatriði sem þarf að taka lengri tíma í, þá getum við samþykkt frumvarp hv. þm. Péturs H. Blöndals. Þjóðin kýs sér þá meiri hluta sem heldur áfram með málið á næsta kjörtímabili eða ekki.



[21:12]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðunni í allan dag. Hún er málefnaleg frá hendi allra þingmanna en ég hef orðið vitni að því ítrekað í dag að hér er hæðst að þingmönnum sem koma hér upp og ræða málefnalega stjórnarskrá Íslands. Jafnvel er gengið svo langt að menn sitja í þingsal og senda inn ógeðfelld skilaboð á Facebook um það hvað þingmenn eru að segja í ræðustól. Mér er nóg boðið, frú forseti. Fólk sýnir eigin starfi lítilsvirðingu og stjórnarskránni. Það er lítilmótlegt og þetta gengur ekki lengur. Menn verða að taka sjálfa sig taki og virða þá málefnalegu umræðu sem hér verður að fara fram um stjórnarskrána. Við erum ekki að tala um eitthvert pólitískt hitamál. Við erum að tala um grundvallarsáttmála þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) Þetta gengur ekki lengur, frú forseti.



[21:13]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég hef fylgst með umræðunni í dag og orðið vitni að því að það er flissað í þingsal þegar menn koma með málefnalega gagnrýni og ræða efnið málefnalega. Það er verið að senda inn Facebook-færslur og hæðast að þingmönnum sem fjalla um þessi mál á málefnalegan hátt.

Stjórnarskráin er grundvallarplagg allra Íslendinga, okkar allra, sama hvort menn eru í Samfylkingunni, Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum eða öðrum flokkum. Við eigum að fjalla um þessi mál af virðingu hvert fyrir öðru og gera okkur grein fyrir því að þetta er grundvallarplagg þjóðarinnar. Þannig á umræðan að vera. Hún á ekki að vera á þeim nótum að hér sé verið að fjalla um eitthvert gamanmál.



[21:14]
Lúðvík Geirsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég átta mig nú ekki á því hvaða upphlaup er hér í gangi. Ég hef fylgst með umræðunni í allan dag, hún hefur farið sómasamlega fram. Það hefur hins vegar verið ástæða til að hrökkva í kút í einstaka tilfellum þegar hér hefur verið farið með fleipur, rangfærslur og ósannindi um það hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig og jafnvel hvað stendur í þeim plöggum sem við erum að vinna með. Menn hljóta auðvitað að gera kröfu til þess að þegar við ræðum þetta stóra og mikla mál sé það gert af alvöru, sanngirni og heiðarleika.

Ég hvet þá sem eiga eftir að halda áfram í umræðunni á næstu dögum, vikum og mánuðum að við höldum umfjölluninni á því plani og tel að það sé sómi þingsins sem felist í því að þeir sem leggja inn í umræðuna geri það af sanngirni og heiðarleika.



[21:15]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki mjög langt síðan við þingmenn sátum og ræddum í mikilli alvöru um að setja þinginu tilteknar siðareglur. Eitt af því sem þar kom fram var að við ættum í fyrsta lagi að reyna að sýna virðingu gagnvart þeim málum sem við værum að fjalla um og virðingu gagnvart öðrum þingmönnum.

Nú hef ég ekki fylgst nægilega vel með umræðunni í dag til að geta dæmt um hvort hún hafi uppfyllt að minnsta kosti þau skilyrði og viðmið sem þingmenn voru mjög duglegir við að setja hátíðlega fram í þessari vinnu. En við erum að ræða um stjórnarskrá Íslands og verðum að gera gríðarlegar kröfur til okkar um að þessi umræða sé málefnaleg og menn noti hana ekki sem einhvers konar vettvang fyrir köpuryrði úti í þjóðfélaginu í garð einstakra þingmanna sem geta ekki varið sig við slíkar aðstæður. Ég veit ekki hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Ég er sennilega einn af þeim örfáu Íslendingum sem eru ekki á Facebook þannig að ég hef ekki möguleika til að fylgjast með því, en hitt veit ég að við eigum að reyna að gæta hófs og ræða málið efnislega. Stjórnarskráin okkar verðskuldar það.



[21:16]
Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem segja að við eigum að ræða af virðuleika um þetta mál og ég tel að við eigum að ræða efnislega um það. Ég tel að við eigum ekki að snúa út úr því sem hér er sagt. Það á við almennt. Þetta er að vísu eitt mikilsverðasta málið sem við ræðum í vetur en mér finnst að það eigi að gilda alla daga að fólk sé kurteist og snúi ekki út úr. Við eigum að bera virðingu hvert fyrir öðru og bera virðingu fyrir skoðunum annarra og ekki snúa út úr þeim alla daga.



[21:17]
Birna Lárusdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera nákvæmlega þetta efni að umræðuefni í ræðu minni á morgun um leið og ég mundi fjalla um það frumvarp sem liggur hér fyrir. Það hefur vægast sagt vakið furðu mína í dag að sitja hér á næstaftasta bekk og hlusta á það sem ég ætla að leyfa mér að kalla skrílslæti á aftasta bekk. Ég sit hér sem nýr þingmaður og er að þreifa fyrir mér og átta mig á því hverjar venjurnar og hefðirnar eru hér inni og ef þetta eru þær hugnast mér þær ekki.

Ég hef fylgst með því, einkanlega á aftasta bekk í dag, að tekinn er sérstaklega fyrir einn þingmaður úr röðum Framsóknarflokksins og mér hefur þótt það sem ég hef heyrt og það sem ég hef séð ljótt.