141. löggjafarþing — 38. fundur
 20. nóvember 2012.
stjórnarskipunarlög, frh. 1. umræðu.
frv. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 415. mál (heildarlög). — Þskj. 510.

[21:30]
Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þeim merka áfanga sem er orðinn að staðreynd, hér er komið til 1. umr. í þingsal frumvarp um heildstæða endurskoðun og í raun algerlega nýja og framsýna stjórnarskrá fyrir lýðveldi okkar. Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þessa frumvarps.

Það er rétt að rifja upp í stuttu máli það ferli sem verið hefur allt frá því að þjóðin fékk lýðveldisstjórnarskrá sína í sumarbyrjun 1944. Í yfirlýsingu sem stjórnarskrárnefndin sem útfærði lýðveldisstjórnarskrána sendi frá sér segir, með leyfi forseta:

„Skilar nefndin með þessu stjórnarskrárfrumvarpi og greinargerð fyrri hluta þess verkefnis sem henni var falið en mun áfram vinna að seinni hluta verkefnisins, sem sé að undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt. Þangað til því verki yrði lokið ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram að nægja.“

Þetta var árið 1944. Þáverandi þingmenn féllust á takmörkuðu breytingarnar á stjórnarskránni og voru þar að auki sammála um að stjórnarskrárnefndin héldi áfram starfi sínu eftir stofnun lýðveldisins. En þrátt fyrir að hafa einungis lokið helmingi fyrirætlaðs starfs lognaðist nefndin út af og lauk aldrei þeirri gagngeru endurskoðun sem hún sjálf taldi nauðsynlega. Heildarendurskoðun á stjórnarskránni átti að fara fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett árið 1944. Þeirri endurskoðun hefur hins vegar aldrei verið að fullu lokið.

Næst voru stjórnarskrárnefndir skipaðar 1947 og aftur 1972 en þær luku ekki störfum. Ný stjórnarskrárnefnd var skipuð 1978 sem sendi frá sér nokkrar skýrslur um málið og lagði fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Alþingi árið 1983. Í því fólust verulegar breytingar en það náði ekki fram að ganga. Þrátt fyrir það hafa sumar greinar þess komist í framkvæmd í stjórnarskrárbreytingu eða með almennri lagasetningu.

Einstakar breytingar á stjórnarskránni hafa þó náð fram að ganga, oftast um tilhögun kosninga og kjördæmaskipan en einnig umfangsmeiri, svo sem endurskoðun á mannréttindakaflanum árið 1995 og á starfsháttum Alþingis 1991. Í ársbyrjun 2005 skipaði forsætisráðherra nefnd sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og árið 2007 skilaði nefndin áfangaskýrslu þar sem fram kom að hún þyrfti lengri tíma til að ljúka fyrirætluðum störfum. Ferlið sem hefur verið í þessu máli í framhaldi af efnahagshruninu haustið 2008 er öllum kunnugt.

Þau drög að stjórnarskipunarlögum sem stjórnlagaráð hefur unnið að eru mun ítarlegri en núgildandi stjórnarskrá. Hér er um að ræða 114 greinar sem auk aðfaraorða skiptast í níu kafla. Vinnulag stjórnlagaráðs byggði á opnu og gegnsæju ferli þar sem haldnir voru opnir fundir, mögulegt var fyrir almenna borgara að senda inn erindi og samræður fóru fram á netinu. Leiðarstefin sem stjórnlagaráð hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð.

Í tillögum stjórnlagaráðs hafa ákvæði um mannréttindi verið endurskoðuð, réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum tryggður og ákvæði færð til nútímahorfs. Jafnræðisreglan er ítarlegri en í núgildandi stjórnarskrá og kveðið er á um réttindi barna. Meðal nýmæla eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og auðlindir þar sem kveðið er á um að þær séu eign þjóðarinnar. Meginform núgildandi stjórnskipulags helst hins vegar óbreytt. Stjórnarform landsins er lýðveldi, haldið er í þingræðisskipan og áfram byggt á þrígreiningu ríkisvaldsins.

Þá kýs Alþingi sér forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga í stað þess að hann sé valinn af stjórnarflokkunum. Þá er tillaga um að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi. Með þessum breytingum, ef af verða, yrði Ísland meðal þeirra þjóða sem tryggja einna best rétt almennings til þátttöku í opinberum ákvörðunum og beint lýðræði aukið verulega.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fór ítarlega yfir fram komnar tillögur stjórnlagaráðs í fyrravetur. Fjölmargir sérfræðingar og umsagnaraðilar voru kallaðir fyrir nefndina. Ákveðnum ábendingum vísaði nefndin til frekari umfjöllunar og yfirferðar hjá stjórnlagaráði sem kom saman að nýju og skilaði inn viðbótaráliti í fyrravor. Í framhaldi af því lagði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram lykilspurningar sem lagðar yrðu fyrir þjóðina til að fá mat hennar og álit á fram komnum tillögum stjórnlagaráðs. Eins og við þekkjum stóð upphaflega til að sú kosning færi fram samhliða forsetakosningum á sumri en málþóf á þingi dró þá atkvæðagreiðslu fram til 20. október.

Samhliða undirbúningi þeirrar atkvæðagreiðslu samþykkti meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að setja niður vinnuhóp sérfræðinga í lögum til að yfirfara og samlesa þann texta sem liggur nú fyrir í tillögum og greinargerð. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir í þessu frumvarpi. Skerpt hefur verið á texta og áherslum, setning um endurráð og annað umorðað en meginstefna og áherslur í tillögum stjórnlagaráðs eru efnislega óbreytt í nánast öllum atriðum. Þá fylgir með ítarleg og vönduð greinargerð, samtals vel á þriðja hundrað þéttritaðar blaðsíður.

Það er mikilvægt að fá víðtæka og breiða efnislega umræðu um fram komnar tillögur og virkja allar þingnefndir og alla kjörna fulltrúa á Alþingi til að taka þátt í þeirri yfirferð og umfjöllun eins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hefur lagt til og kynnti hér fyrr í dag. Það er skynsamlegt verklag, bæði tryggir það víðtæka aðkomu og umfjöllun út frá öllum sjónarhornum og mun einnig geta flýtt fyrir umræðu og afgreiðslu. Þjóðin hefur verið virkur þátttakandi í mótun og gerð þessara tillagna og Alþingi sem heild þarf að sama skapi að vera virkur þátttakandi í lokaafgreiðslu þessa máls.

Í skilagrein sérfræðinganefndarinnar eru ábendingar sem mikilvægt er að fara vel yfir og meta og skoða nánar í vinnunni fram undan. Þar er meðal annars vikið að skyldum einkaaðila varðandi mannréttindi, mögulegum áhrifum þess að fella alfarið niður þröskulda í kosningalögum, lagalegri ábyrgð forseta og hlutdeild í löggjafarvaldi, sjálfstæði tiltekinna ríkisstofnana, ákvæði um sérdómstóla og ýmsum öðrum atriðum sem vert er að fara yfir og skoða.

Þá er einnig ljóst að yfirfara þarf einstakar orðalagsbreytingar og umorðanir á upphaflegum texta stjórnlagaráðs og skoða gaumgæfilega þannig að almennur skilningur sé skýr og ótvíræður.

Viðbrögð og ummæli formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafa talað hér í dag komu því miður ekki á óvart. Ég vildi trúa því að nú þegar fyrir liggur niðurstaða úr þjóðaratkvæðagreiðslu með skýrum vilja þjóðarinnar til að fylgja þessum málum eftir og að auki vönduð og ítarleg yfirferð lögfræðihópsins væri almennur vilji á þingi til að taka upp efnislegar og málefnalegar umræður um stjórnarskrármálið. Það virðist hins vegar allt við það sama af hálfu forustumanna þessara flokka. Það er andstaða við breytingar. Við upplifðum þetta skýrt í fyrravor og fyrravetur þegar hér var andóf til að koma í veg fyrir umræðu og umfjöllun, andóf til að koma í veg fyrir að þjóðin fengi að segja hug sinn í þessu máli, andóf sem byggði á tæknilegum áherslum og formsatriðum, andóf þar sem kvartað var undan því að málið fengi ekki að koma inn í þingsal til efnislegrar umræðu.

Nú er hins vegar búið að snúa málinu við. Nú er frumvarpið sem hér liggur fyrir ekki tækt til umfjöllunar af því að það vantar frekari úttektir, það vantar meiri yfirlestur, það vantar frekara mat og það vantar frekara álit. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði í umræðum fyrr í dag og lýsti því yfir að að sínu mati væri óraunhæft að ljúka þessu máli fyrir lok þinghalds næsta vor. Ég fagna því hins vegar að það var greinilegur munur á því sem kom fram í máli formannsins og varaformanns flokksins, hv. þm. Ólafar Nordal, sem opnaði í umræðunni í dag fyrir málefnalegar og efnislegar umræður.

Í stað þess að fara í þá efnislegu umræðu sem þörf er á að þingið taki fyrir á næstu dögum, vikum og mánuðum sýnist mér að verið sé að leita leiða til að koma í veg fyrir það með ýmsum hætti. Nú er hins vegar rétti tíminn til að taka þessa efnislegu umræðu og draga fram öll efnisleg álit og skoðanir. Ég kalla eftir að boðaðar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem lýstu því yfir fyrr í þessari umræðu í haust og sumar að lagðar yrðu fyrir þingið, komi á dagskrá. Af hverju sýna menn ekki á spilin? Hvernig á að vera hægt að ná fram umræðu og leita samráðs og samkomulags ef aðilar eru ekki reiðubúnir að taka þátt í umræðunni og leggja fram tillögur sínar?

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt einn og sér fram ítarlegar athugasemdir og tillögur sem er vert að gefa gaum og fara yfir í þeirri efnislegu umræðu sem við eigum eftir að taka hér. Ég kalla að sjálfsögðu eftir því að aðrir þeir sem hafa komið inn í umræðuna og haft uppi umvandanir og átalið það að tíminn hafi ekki verið nýttur eins og kostur væri til að fara í þessa umræðu séu þá tilbúnir að sýna tillögur sínar og leggja þær inn í umræðuna.

Það hefur komið fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun óska eftir mati og umsögn frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Slíkt mat er mikilvægt í þeirri yfirferð sem nú er fram undan og í skilabréfi sérfræðinganefndarinnar er einnig vikið að nokkrum mikilvægum álitaefnum sem rétt er að lögð verði sérstök áhersla á að fara yfir á eins ítarlegan máta og kostur er. Það er dálítið sérkennilegt að hafa fylgst með umræðunni í dag, nú þegar við erum að taka þetta mál fyrir, og sjá að nú má að mati sumra ekki taka þetta mál til þeirrar efnislegu umræðu sem þörf er á vegna þess að það þarf að fara með þetta allt í ítarlegt álagspróf.

Í umræðunni hefur fram til þessa verið lagt upp með að hér væri villandi umræða, illa orðaðar spurningar sem ætti að leggja fyrir þjóðina sem hún skildi ekki og við værum að fara í einhverjar platkosningar. Það er allt fyrir bí vegna þess að umræðan var að sjálfsögðu upplýsandi. Þjóðin skildi vel um hvað var spurt og úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru skýr og leiðbeinandi fyrir framhald málsins.

En hvað er næst? Jú, það þarf að leita nýrra vopna. Nú er hættan sú samkvæmt þeirri umræðu sem sérskipaðir sérfræðingar hafa verið með á lofti að þjóðfélagið muni ekki þola svo stórkostlegar breytingar sem ný stjórnarskrá mun hafa í för með sér. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi áðan ringulreið og réttaróvissu, að lýðræðislegur réttur almennings og áhrif væru að verða of mikil, forsetinn væri að fá of mikil eða hugsanlega líka of lítil völd, að umboð og staða Alþingis væri að breytast og umbyltast gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Stöldrum aðeins við. Hvaða álag þoldi gildandi stjórnarskrá frá árinu 1944 sem var sett til bráðabirgða á sínum tíma og átti að endurskoðast og aðlagast íslenskum aðstæðum strax á fyrstu árum nýja lýðveldisins? Hvað hefur sagan kennt okkur á þeim nærri sjö áratugum sem liðnir eru með nær óbreytta stjórnarskrá? Hvar hafa veikleikarnir verið? Hverju er verið að mæta með þeim tillögum sem liggja núna fyrir í frumvarpsformi að nýrri stjórnarskrá? Er ekki einmitt verið að taka á þeim veikleikum með breyttum áherslum í tillögum varðandi það að efla og styrkja rétt almennings til áhrifa, koma á hreint hver staða og hlutverk forseta Íslands er, styrkja stöðu Alþingis sem löggjafa og eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdarvaldinu og tryggja aukið réttlæti, gegnsæi og jafnrétti í íslensku samfélagi? Hvað er að óttast og hvað er það sem samfélagið mun ekki þola? Eru það aukin áhrif almennings til lýðræðislegrar þátttöku og ákvarðanatöku? Er það jöfnun kosningarréttar og aukið valfrelsi kjósenda? Er það styrkara og betra Alþingi? Er það meira gegnsæi með bættu aðgengi að upplýsingum og stjórnkerfi? Er það aukið réttlæti, m.a. með sameign þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar?

Síðast en ekki síst eru stóraukin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg mannréttindi sem snúa meðal annars að heilbrigðisþjónustu, menntun, jafnrétti kynslóðanna, þróun samfélagsins og friði. Hverjir óttast um hag sinn og stöðu? Kannski þeir sem hafa haft áhrif og völd langt umfram það sem eðlilegt er, þeir sem hafa ráðið ferðinni, lagt línurnar og stjórnað á bak við tjöldin.

Það er líka athyglisvert að horfa til þess sem hefur komið fram í umræðunni og var endurtekið af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir stuttu, að komist á breytt hlutföll eftir kosningar næsta vor sé einboðið að sú stjórnarskrá sem hugsanlega, væntanlega og vonandi verður afgreidd frá þingi á vordögum verði ekki staðfest á nýju þingi. Menn skilja áður en skellur í tönnum. Það er ljóst að menn gefa með þessum boðskap það upp að beitt verði þeim ráðum sem menn hafa tök á komist þeir til áhrifa til að vinna gegn þeim vilja sem hefur skýrt komið fram, m.a. í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir skömmu, vilja þjóðarinnar til breytinga í þessum efnum. Þá er ágætt að þjóðin gangi að því vísu í kosningunum eftir örfáa mánuði að stjórnarskrármálið verður eitt af okkar stóru kosningamálum, ef ekki það stærsta. Stjórnarskrárbreytingar munu ekki ná í gegn öðruvísi en að við fáum þá nýju stjórnarskrá staðfesta á nýju þingi.

Ég hvet hins vegar til þess að við náum saman í þinginu (Forseti hringir.) um þá efnislegu umræðu, um þá hluti sem þarf að fara í gegnum, um þær ábendingar og athugasemdir sem liggja fyrir, og vinnum saman af heilindum til að ná sátt og samkomulagi um þá mikilvægu (Forseti hringir.) hluti sem á að byggja á í þeirri nýju stjórnarskrá sem þetta Alþingi, (Forseti hringir.) væntanlega og vonandi, mun afgreiða frá sér fyrir vorið.



[21:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ræðuna. Hann á sæti í þeirri hv. nefnd sem hefur fjallað um málið, hann flytur það og mér leiddist dálítið að heyra hann segja að stundað hefði verið málþóf hérna í vor. Það vill svo til að ég notaði tækifærið, ásamt örfáum fleiri þingmönnum, til að ræða stjórnarskrána efnislega sem þjóðin átti eftir að greiða atkvæði um. Mér fannst algert lágmark að þjóðin vissi um hvað hún ætti að greiða atkvæði og það væri búið að ræða það í sölum þingsins. Svo er það kallað málþóf.

Í ekki einni einustu ræðu minni endurtók ég mig eða var langorður. Ég var að ræða þetta vegna þess að ég var búinn að fara í gegnum hvert einasta atriði í tillögum stjórnlagaráðs, hverja einustu grein, greina hana niður og bera saman við núgildandi lög. Mjög margt er gott, annað er hættulegt. Mörgu þarf að breyta. Ég tel það ekki málþóf.

Hins vegar stöndum við nú frammi fyrir því að málið er komið aftur inn á þing og ég þarf sennilega að skrifa nýja umsögn. Ég mun sjá til hvort ég fái ekki fleiri þingmenn, t.d. í mínum þingflokki, til að vera samstiga um að koma með breytingartillögur sem menn geta verið sammála um. Það er nefnilega mjög margt í núgildandi stjórnarskrá sem verður að laga. Hún er úrelt að mörgu leyti en að öðru leyti góð.

Ég held að við ættum að fara að vinna í þessu efnislega, allir hv. þingmenn. Við erum stjórnlagaþingið og ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér tillögur mínar sem eru í mjög löngu máli. Sumar tillögur samþykkti ég en kom með breytingartillögur við aðrar. Þær hafa væntanlega verið ræddar í hv. nefnd sem um þetta fjallar og vegnar léttvægar — eða ekki. Ég veit það ekki.



[21:48]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna aðkomu hv. þm. Péturs Blöndals að þessari umræðu, bæði í dag í þeim ræðum sem hann hefur flutt og ekki síður þátttöku hans í því þegar málið kom inn á síðasta þingi. Ég tiltók það sérstaklega í ræðu minni að hann, einn þingmanna stjórnarandstöðunnar, hefði lagt inn málefnalega efnislega þætti í þá umfjöllun og hann gerði það af miklum myndarskap. Ég hef lesið þau gögn yfir og í þeim eru ýmis atriði sem ég get tekið undir.

Tilvísanir í lagasetningar eru fjölmargar og voru sumar í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs. Það er búið að gera ýmsar lagfæringar og breytingar á því en þar eru ýmis atriði sem er vert að hafa í huga og horfa til varðandi staðfestingu á stjórnarskrá og þau atriði sem þar hafa verið nefnd sérstaklega. Ég tel að það sem verið er að leggja inn í umræðuna með þeim tillögum sé af hinu góða. Ég auglýsti í ræðu minni áðan, og geri það enn og aftur, eftir efnislegum tillögum frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa því miður allt of margir komið upp í þessari umræðu nú, ég tala ekki um á fyrri stigum, til þess að eyða tíma sínum fyrst og fremst í formsatriði og umfjöllun um það að illa hafi verið farið með tímann. Ég sé ekki að þeir sömu hv. þingmenn hafi notað tímann sjálfir til mikils gagns nema þá með einstaka undantekningum til að koma fram með þau efnislegu atriði sem við þurfum á að halda til að geta farið saman yfir rök og tillögur um það hvað betur má fara í þessum efnum. Menn geta þá borið það saman við þær áherslur sem eru kynntar í því frumvarpi sem hér er til umræðu.



[21:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég gæti gert athugasemdir við mjög margt í tillögum stjórnlagaráðs, eins og það að allir eigi meðfæddan rétt til lífs. Á fóstrið engan rétt til lífs því að það er ekki fætt og hefur þar af leiðandi ekki meðfæddan rétt? Þetta er eitt atriði af fjöldamörgum. Þetta finnst mér að þurfi að laga og mér finnst að það ætti hreinlega að segja: Engan mann má drepa. Punktur. Þá liggur það alveg fyrir og engin skrúðmælgi um að menn eigi rétt til lífs. Hvernig er með mann sem lifir á líknardeild? Á hann rétt til lífs? Og hver ætlar að gefa honum réttinn?

Svo eru atriði sem ég hef bent á áður í 109. gr., að ef gerð yrði árás á Ísland ætti að kalla saman Alþingi til að spjalla á meðan menn hertaka hér allar götur. Það má nefnilega ekki beita vopnavaldi nema með samþykki Alþingis. Þetta þarf að undanskilja, varnir landsins, að sjálfsögðu.

Svo er atriði með forseta þingsins. Ef maður sem býður sig fram til löggjafarstarfa skyldi vera kosinn forseti Alþingis er hann ekki lengur í löggjafarstörfum.



[21:52]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega eru ýmis atriði eins og ég tiltók í ræðu minni áðan sem er ástæða til að fara yfir, bæði þær ábendingar sem komu frá sérskipaðri lögfræðingasveit sem fór yfir þessi mál, í textanum eins og hann er í frumvarpinu, ábendingar sem komu fram, þær sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt inn í umræðuna og ýmsir aðrir. Við þurfum að nota tímann vel á næstu vikum og mánuðum, vil ég meina. Við höfum tíma fram í febrúar, byrjun mars til að ljúka þeirri yfirferð. Ef við höldum vel á spöðunum getum við farið mjög langt með þetta mál og við eigum að einsetja okkur að ljúka því. Við eigum ekki að gefast upp áður en lagt er af stað eins og mér fannst því miður óma í ummælum forustumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í dag. Mér þótti það miður.



[21:53]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að nota tímann núna í pólitískar skylmingar við hv. þm. Lúðvík Geirsson um hver sagði hvað í hvaða umræðu. Ég ætla að spyrja hann einnar spurningar sem varðar framhald málsins og það er í ljósi þeirrar athugasemdar sem kom fram hjá lögfræðingunum fjórum sem fóru yfir frumvarpið í umboði meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem þeir víkja að mati á áhrifum tillagnanna. Í texta þeirra ágætu lögfræðinga segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Gera verður kröfu um að tilefni og markmið breytinga á núgildandi stjórnskipan sé skýrt og rök séu færð fyrir því að leið frumvarps sé skynsamleg. Það er einnig grundvallarsjónarmið varðandi gæði lagasetningar að metin séu áhrif tillagna sem fela í sér breytingar. Dregnir séu fram bæði kostir og hugsanlegar neikvæðar afleiðingar og heildarmat unnið sem leiðir í ljós að samanlagt sé ávinningur af samþykkt tillögu.“

Síðar í þessum texta segir lögfræðingahópurinn, með leyfi forseta:

„Ekki hefur hins vegar farið fram heildstætt og skipulagt mat á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild. Það verkefni kallar á þverfaglega vinnu sem hópnum var ekki falin. Hópurinn gerir ráð fyrir að slíkt mat muni fara fram á vettvangi Alþingis en bendir að auki sérstaklega á þau atriði sem að hans mati kalla einkum á nánari skoðun.“

Kannski er það misskilningur en mér fannst í máli hv. þingmanns áðan gæta nokkurrar andúðar á því sjónarmiði sem hafði vissulega komið fram fyrr í þessari umræðu, að nauðsynlegt væri að skipulagt heildarmat færi fram og þess vegna spyr ég hann um afstöðu hans til þessara orða (Forseti hringir.) lögfræðinganna fjögurra.



[21:55]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ábendingar lögfræðinganefndarinnar mjög skynsamlegar hvað þetta snertir. Ég tel fulla ástæðu til að við skoðum málið í heild sinni og náum þannig utan um það. Til að nýta tímann sem best í þeim efnum hafa verið kynntar tillögur um að setja verkefnið í hendur fastanefnda þingsins þannig að hver fastanefnd taki sinn part fyrir og fari ítarlega yfir þá þætti sem að þeim lúta. Þar undir heyra mörg atriði, hvort sem eru umhverfismál, mannréttindi eða kosningalöggjöfin ein og sér og hvernig stjórnkerfið á að virka og staðan gagnvart Alþingi, þannig að ég held að því fleiri sem koma að málinu þeim mun betra sé það einmitt.

Feneyjanefndin mun fara yfir ákveðna álagsþætti, hvernig stjórnkerfið mun virka saman og hefur auðvitað víðtækan samanburð í þeim efnum og þekkir það af sínum störfum í gegnum árin hvernig hún getur lesið út úr þeim efnum. Það liggur fyrir að þeir eru tilbúnir að ljúka sinni vinnu í lok janúar. Það sem ég hins vegar benti á og vara við er að menn mæti í upphafi fyrsta dags í umræðu loksins þegar þetta frumvarp er komið inn. Það var ekki svo lítið gert úr því í allt vor og sumar að ekki væri hægt að ræða málið efnislega í þingsalnum af því að frumvarpið lægi ekki fyrir, það væri í skoðun, yfirferð, mati og undirbúningi einhvers staðar annars staðar en í þingsalnum. Þess vegna hrekkur maður illilega við að þegar málið er komið í frumvarpsformi inn í þingið stilla menn málinu upp á þann veg, eins og ég var að benda á, að eiginlega sé ekki hægt að ræða það í þinginu af því að það þurfi að álagsprófa það, meta, skoða og kanna á alla kanta lengur og áfram áður en hægt er að taka það fyrir. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að stilla málinu upp eins og mönnum hentar. Auðvitað eru menn með þessum hætti að reyna að halda aftur af umræðunni og tefja það að málið fái framgang. Við hljótum að geta komið okkur saman um að vinna þetta sameiginlega (Forseti hringir.) í nefndum þingsins og ná fram þeim heildaráhrifum með slíkri yfirferð og samvinnu.



[21:57]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að öðru slepptu vildi ég geta þess að það vinnulag sem hefur verið kynnt í þessari umræðu af hálfu talsmanna meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um að aðrar nefndir þingsins komi að einstökum þáttum, er ekki að mínu mati það heildarmat á áhrifum tillagna stjórnlagaráðs sem talað er um í niðurstöðubréfi sérfræðihópsins. Það er ekki að mínu mati skipulagt heildarmat af því tagi sem við erum vön að gera kröfu um til lagafrumvarpa. Það kemur til viðbótar. Sú ágæta hugmynd að einstakar nefndir þingsins fjalli um ákveðnar greinar eða ákveðna kafla er fín, en hún kemur ekki í staðinn fyrir þetta skipulagða heildarmat sem talað er um.

Feneyjanefndin er fín og gott að fá hennar álit en það er ekki verið að vísa til hennar þessu heildarmati. Lögfræðingahópurinn (Forseti hringir.) talar um þetta sem tvo aðskilda þætti og þess vegna spyr ég hv. þingmann (Forseti hringir.) um afstöðu hans til heildarmats af þessu tagi, mats á áhrifum tillagna. Það er (Forseti hringir.) löng hefð fyrir því hér á landi að áhrif lagabreytinga séu metin. (Forseti hringir.) Það er í handbókum og í leiðbeiningum núverandi ríkisstjórnar og víðar er talað um mat á áhrifum lagafrumvarpa. Slíkt mat hefur ekki farið fram á þessu þingi.



[21:59]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma og minnir á að ræðutími er aðeins ein mínúta í seinna andsvari.



[21:59]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum togast á um það fram á nótt hvað er heildarmat og hvernig eigi að túlka það og meta. Ég bendi á að mjög gott teymi lögfræðisérfræðinga hefur farið yfir þetta mál og lagt upp þann grunn að stjórnarskránni sem honum var falið að gera. Hann hefur bent á ýmsa þætti sem hann telur sjálfur að þurfi að skoða betur og er vel inni í þeim málum.

Ég leit þannig á að við hefðum tækifæri til þess núna að fara yfirvegað yfir málið, grunda það, kalla hingað inn álit, skoðanir og umsagnir og eiga samtöl við ýmsa sérfræðinga sem hafa tjáð sig um þessi mál í þeim fastanefndum sem ákveðnir málaflokkar falla undir. Við getum dregið saman niðurstöðu úr því inn á eitt borð og haft til ráðgjafar og samráðs í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem mun auðvitað leiða þetta mál, þá sérfræðinga sem hafa verið okkur innan handar og þekkja þetta mál betur en aðrir. Þeir vinna sitt álit og gera mat á því með okkur sem eigum að leiða þetta mál hingað inn til frekari umræðu og afgreiðslu í þinginu. Ég tel að það sé vel gerlegt að ljúka því verki svo vel sé á þeim tíma sem við höfum til stefnu.



[22:01]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er ég nokkru nær um það hvernig hv. nefnd ætlar að svara þessu ákalli lögfræðingahópsins um að fram fari heildstætt mat á áhrifum fyrirliggjandi frumvarps. Það er gott og blessað og ég er sammála því að menn fari vel ofan í einstök efnisatriði og það má vel fela einstökum fagnefndum að gera það hvað þær áhrærir. Heildarmatið liggur samt sem áður eftir. Hv. þingmaður vísaði mjög til þess að þessi lögfræðingahópur hefði lagt upp með gott veganesti. Það er alveg rétt að svo miklu leyti sem hann hafði umboð til. Umboðið var mjög þröngt og ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna var þetta umboð haft svona þröngt? Af hverju mátti ekki skoða þessi mál í heild sinni? Hefði það ekki verið málinu til gagns að reyna að undirbúa það sem allra best, fara ofan í þessar efnislegu forsendur og þessi efnislegu atriði sem kveðið er á um í frumvarpinu og reyna að átta sig á því í heildarsamhengi?

Það er hins vegar athyglisvert að hópurinn skilaði engu að síður kafla þar sem lauslega var vikið að ýmsum þáttum sem þyrfti að gera betur. Þarna er um að ræða talsvert veigamikil efnisleg atriði og ég spyr hv. þingmann: Verður tekið tillit til þess?

Ég ítreka spurninguna um þetta: Hvernig á þetta heildarmat að fara fram? Það er ekki heildarmat að fela einstökum þingmönnum afmörkuð verkefni út úr þessu frumvarpi. Heildarmatið fer allt öðruvísi fram og hv. þingmaður veit það auðvitað.

Síðan höfum við sjálfstæðismenn hvað eftir annað kallað eftir því að hér fari fram sú efnislega umræða sem nú er loksins að gerast og hv. þingmaður segist fagna því og þá spyr ég hv. þingmann: Nú fer fram þessi efnislega málefnalega umræða en til hvers á hún að leiða? Á þetta að vera bara málfundur eða lítur hv. þingmaður ekki svo á að með því að við séum að hefja málefnalega umræðu séum við um leið að segja sem svo: (Forseti hringir.) Við höfum opnar heimildir til að gera þær breytingar á þessu frumvarpi sem við teljum skynsamlegastar? (Forseti hringir.) Hv. þingmaður er væntanlega að segja að hann sé ósammála þeim sem hafa talað fyrir því að við séum bundin í báða skó af þessu frumvarpi og höfum takmarkað svigrúm til breytinga.



[22:03]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að benda á í ræðu minni áðan, maður fær því miður ekki nema korter til að tala og kemur kannski ekki öllu að. Þetta endurspeglast akkúrat í því sem ég sagði, nú snýst málið ekki um efnisleg atriði, nú snýst það ekki um rök, viðbrögð eða tillögur eða eitthvað annað sem má fara þarna inn í stjórnarskrána heldur þarf nú allt að snúast um þetta heildarmat, hvað það sé, hvernig eigi að vinna það og hvað taka út úr því vegna þess að ekki sé hægt að vinna málið öðruvísi fyrr en þetta heildarmat liggi fyrir. Það er nákvæmlega komið á daginn sem ég sagði að væri í umræðunni í vor og fram eftir sumri, í málþófinu hér. Þá var stjórnarandstaðan uppfull af því að ekki væri hægt að búa við það að fá ekki frumvarpið inn á borð til að ræða það efnislega og þegar á að fara að ræða málið efnislega og menn kalla eftir viðbrögðum og einhverju efni inn í þá umræðu er ekki hægt að fara í hana vegna þess að menn þurfa að fara í svo mikið heildarmat.

Við getum alveg gert heildarmat á áhrifunum af því að auðlindaákvæðin eru komin inn í nýja stjórnarskrá eins og þau eru lögð fyrir og hvaða áhrif það hefur á fiskveiðistjórnarkerfið. Við getum gert heildarmat á því hvernig stjórnkerfið virkar eins og Feneyjanefndin á að taka fyrir. Við getum gert heildarmat á því hvernig málið snýr að kosningafyrirkomulagi og áhrifum þess. Þetta eru þættir sem við höfum tækifæri og tíma til að fara yfir. Ég sé ekki að neitt eigi að trufla okkur í því að vinna málið á þann máta.



[22:05]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að gera sjálfum sér þann greiða og okkur hinum líka að vera ekki með útúrsnúninga og mælskubrögð í þessu máli. Við höfum einfaldlega kallað eftir svörum um hvort hv. þingmaður sé ekki sammála lögfræðingahópnum um að fram þurfi að fara heildarmat. Þá þýðir ekki að vera með útúrsnúninga eins og hv. þingmaður var með.

Við þurfum að fara vel niður í einstök efnisatriði og það munum við væntanlega gera. Það breytir ekki því að hið raunverulega heildarmat þarf engu að síður að fara fram. Við höfum stanslaust kallað eftir því að hér gæti farið fram efnisleg umræða. Hún á sér núna stað. Ég var með þessu andsvari auðvitað ekki að hefja mína efnislega umræðu. Skárra væri það ef ég ætlaði að láta hana standa bara í tvær eða þrjár mínútur. Ég var einfaldlega að reyna að átta mig á vilja hv. þingmanna stjórnarliðsins til að þessi málefnalega umræða leiddi til einhverrar niðurstöðu.

Ég spurði hv. þingmann áðan: Ef við erum í efnislegri umræðu, málefnalegri umræðu, er hv. þingmaður ekki þar með að segja að sú efnislega og málefnalega umræða eigi að leiða til einhverrar niðurstöðu (Forseti hringir.) og að sú niðurstaða kunni meðal annars að fela í sér verulegar breytingar ef hún hefur það í för með sér á þessu frumvarpi? (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ekki að segja að við séum ekki bundin af niðurstöðunni eins og hún liggur fyrir í frumvarpinu?



[22:06]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skiptir það ekki máli í þeirri umræðu sem við erum væntanlega að fara í gegnum að þá liggi fyrir allar tillögur sem snúa að þessu máli til að fá þetta endurmat og heildarmat? Er ekki ástæða til að þær athugasemdir og breytingar sem til að mynda þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa boðað og lýst yfir að þeir muni leggja fram í tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá verði lagðar á borðið þannig að við getum lagt þær inn í þetta heildarmat? Ég held að það skipti máli fyrir okkur öll á sama hátt og menn telja ástæðu til að það liggi fyrir eitthvert heildarmat á þeim tillögum sem liggja á borðinu áður en hægt er að fara í hina efnislegu umræðu. Ég held að það sé rétt að við séum þá bara með öll spilin uppi á borðinu eins og ég nefndi í ræðu minni áðan. (EKG: Svara …)

Við vitum nákvæmlega um hvað málið snýst og hvað það er sem menn eru að meta og hvaða áhrif ákveðnar breytingar í þeim efnum hafa að segja hvað þetta snertir. (EKG: Svara spurningunni, takk.) Já, ég er búinn að svara henni. Hún liggur fyrir nákvæmlega með þessum hætti.



[22:08]Útbýting:

[22:09]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Á þeim takmarkaða tíma sem við höfum til umráða í 1. umr. ætla ég að neita mér um að svara öllum þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og ástæða væri til að gera athugasemdir við. Ég ætla ekki að fjalla um forsögu málsins eða þá gagnrýni sem ég og fleiri höfum haft uppi á þær aðferðir sem notaðar hafa verið á hinum ýmsu stigum þessa máls. Afstaða mín til forsögunnar liggur nokkuð skýrt fyrir í þingskjölum og annars staðar þannig að ég ætla ekki að eyða tímanum í þá umræðu núna.

Nú erum við í þeirri stöðu að komið er fram í fyrsta sinn frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs og þess vegna eru, eins og fleiri ræðumenn hafa nefnt í dag, komnar aðrar forsendur til að ræða málið efnislega. Fram til þessa hafa þær tillögur sem hafa komið inn í þingið fyrst og fremst snúist um málsmeðferð og umræðan í þinginu hefur eðli málsins samkvæmt þar af leiðandi legið mjög mikið á formhliðinni. Þær tillögur sem við fjölluðum til dæmis um í þinginu síðasta vetur snerust ekki um innihaldið heldur um formið og þess vegna var umræðan mjög á þeim nótum.

Nú er komið fram efnislegt frumvarp um breytingar á stjórnarskrá sem undirritað er af fulltrúum meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og við hljótum að fjalla um það eins og það liggur fyrir. Á síðari stigum getum við svo í tilefni af orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar rætt hvaða breytingartillögur aðrir en tillöguflytjendur sjálfir vilja gera við þetta frumvarp, hvaða athugasemdir koma fram og slíka þætti en hér er frumvarp sem verður að ræða og fjalla um á þeim forsendum sem það sjálft leggur upp með. Á síðari stigum eins og venja er í málsmeðferð í þinginu koma fram breytingartillögur eða eftir atvikum ný frumvörp ef um það er að ræða.

Ég ætla í þessari ræðu fyrst og fremst að drepa á nokkur atriði út frá því sem fjallað er um í ágætu skilabréfi sérfræðingahóps um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem dagsett er 12. nóvember og skilað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Bara til upprifjunar er rétt að nefna að eftir að meiri hluti Alþingis hafði í vor, maílok, samþykkt að efna til þeirrar atkvæðagreiðslu sem svo fór fram 20. október ákvað meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fá til liðs við sig þennan sérfræðingahóp sem þá var aldrei talað um sem nefnd eða hóp heldur sem aðgreinda sjálfstæða sérfræðinga, hvern á sínu sviði. Látum það liggja á milli hluta. Ákvörðun meiri hlutans var að leggja þetta til. Ég fagnaði því á sínum tíma og taldi að þó að til hópsins væri stofnað að ákvörðun meiri hlutans í nefndinni og þó að það væri meiri hlutinn í nefndinni sem ákvað umboð hópsins og verkefni væri ástæða til að fagna þessu svo langt sem það næði.

Það kom fram í þinginu að ég teldi að umboð þessa hóps ætti að vera víðtækara en kom fram í bókun meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en þetta var niðurstaða þessa sama meiri hluta og kannski ekki óeðlilegt í ljósi þess að þessi meiri hluti leit svo á að þarna væri verið að undirbúa frumvarpsflutning sem útlit væri fyrir að meiri hlutinn stæði einn að þannig að það liggi fyrir.

Lögfræðingahópurinn skilaði sem sagt af sér í haust, fyrr í þessum mánuði, og leggur til það sem ég kalla lögfræðilegar lágmarksbreytingar á þeim texta sem kom frá stjórnlagaráði. Mér finnst á texta lögfræðingahópsins og því sem fram kom bæði á fundi hans með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku og eins á opinberum fundi sem haldinn var á föstudaginn í Háskólanum í Reykjavík að lögfræðingahópurinn hafi tekið umboðið frá meiri hlutanum og valið frekar þrengri túlkun á umboði sínu en víðtækari. Mér finnst það koma skýrt fram í skilabréfinu að þær breytingartillögur sem hópurinn gerir byggist á því að hópurinn skilgreini umboð sitt frekar þröngt en haldi síðan utan við og í sérkafla í skilabréfinu ábendingum um aðra hluti sem hann telur utan síns beina umboðs. Nóg um það.

Breytingartillögurnar frá lögfræðingahópnum, beinar breytingartillögur við tillögur stjórnlagaráðs, eru 75 sem er auðvitað umtalsvert hvernig sem á það er litið. Breytingarnar eru mismiklar en í sumum tilvikum er verið að gerbreyta ákvæðum, a.m.k. að orðalagi og framsetningu. Í sumum tilvikum eru breytingarnar vissulega smávægilegri en þegar 75 breytingartillögur eru teknar saman er um umtalsverðar breytingar að ræða.

Ég vil taka það fram að ég tel við fyrsta yfirlestur að langflestar þeirra breytinga sem lögfræðingahópurinn leggur til séu til bóta, svo langt sem þær ná. Það eru örfá atriði þarna sem ég áskil mér rétt til að skoða betur en mér sýnist í fljótu bragði sem lögfræðingahópurinn geri góðar tillögur um lögfræðilegar lágmarksbreytingar á þessum tillögum, svo langt sem það nær. Það er sjálfgefið að við munum fjalla um þetta á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ef til vill annars staðar. Ég tel þó að megináherslan hjá okkur eigi að vera í því að fjalla um þessar ábendingar sem eru þá minna lagatækni, ef við notum það orð, og meira efnislegar ábendingar sem fram koma í síðari hluta skilabréfs lögfræðingahópins. Bara til upprifjunar er rétt að geta þess að það er víða komið við í þessum ábendingum.

Í fyrsta lagi varpa lögfræðingarnir í hópnum fram spurningu sem við þurfum líka að spyrja okkur. Hvað á heima í stjórnarskrá og hvað á heima í almennum lögum? Í tillögum stjórnlagaráðs eru fjölmörg atriði sem gætu allt eins átt heima og eru jafnvel í almennum lögum í dag. Mér finnst alveg rétt, án þess að við gefum okkur nokkrar niðurstöður í því fyrir fram, að við veltum því fyrir okkur í sambandi við einstök tilvik, bara svo dæmi sé tekið varðandi störf Alþingis og skylda þætti, hvað á að vera í þingsköpum og hvað á að vera í stjórnarskrá. Ég held að við ættum að fara yfir þetta í þessari yfirferð.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að velta fyrir sér því atriði sem nokkuð hefur verið til umræðu og ég vona að ekki verði ágreiningur um þegar lengra líður og það er í sambandi við mat á áhrifum. Ég treysti mér alveg til að fara í efnislega umræðu núna um þessar tillögur án þess að slíkt mat liggi fyrir en ég held að það sé nauðsynlegt að fyrir liggi skipulagt heildarmat á þessum tillögum og áhrifum þeirra áður en afgreiðslu þingsins lýkur. Læt ég nægja að segja það um það efni.

Síðan eru einstök atriði sem lögfræðingahópurinn er með ábendingar um og þau varða flesta kafla stjórnarskrártillagnanna. Það eru athugasemdir við atriði sem varða undirstöðukaflann, I. kafla tillagnanna, athugasemdir sem varða mannréttindi og náttúru sem er II. kaflinn, Alþingi, forseta, ráðherra, ríkisstjórn, dómstóla, utanríkismál og stjórnarskrárbreytingar. Þetta eru ábendingar um mjög víðtæk atriði sem þarf að taka til skoðunar og ég fagna því að fá tækifæri í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ef til vill öðrum nefndum þingsins til að fjalla um þessa þætti. Ég er þeirrar skoðunar að við séum ekki komin að niðurstöðu í þessum efnum. Við höfum fengið í hendurnar frumvarp sem við sem þingmenn þurfum að fara yfir, ræða, meta og láta meta fyrir okkur, ekki bara út frá því hvort tillögurnar geti gengið upp út frá lögfræðilegum lágmarkskröfum heldur líka út frá því hvort þetta eru góðar tillögur, hvort þær leiða til batnandi stjórnskipunar, hvort þær fela í sér betri réttarvernd fyrir einstaklinga landsins o.s.frv. Þetta eru atriði sem við þurfum að ræða.

Hér hefur verið kallað eftir umfjöllun um einstök efnisleg atriði. Í þessari 1. umr. eru auðvitað takmarkaðar forsendur og takmarkaður tími fyrst og fremst til að ræða það. Ég tel, hæstv. forseti, að það séu full rök til þess fyrir okkur í þinginu að taka góða umræðu um það hvort við viljum til dæmis gera þær breytingar á mannréttindakaflanum sem stjórnlagaráð leggur til, hvort við teljum að sú breyting, að sumu leyti má segja sú mikla breyting, sem felst í tillögum stjórnlagaráðs varðandi mannréttindakaflann sé til góðs eða ekki. Það hafa komið fram ábendingar, m.a. úr háskólasamfélaginu og víðar að, um að þarna sé kannski verið að gera miklu róttækari breytingar en sýnist í fyrstu. Það er nokkuð sem við þurfum að ræða þannig að við göngum þá að því verki með opnum augum hvað við viljum gera í því sambandi.

Hið sama varðar þann hluta þessa kafla sem snýr að náttúru og náttúruauðlindum. Þar vitum við af umræðu undanfarinna ára að orðalag og framsetning ákvæðis, t.d. um sameign þjóðarinnar á auðlindum eða þjóðareign á auðlindum, getur skipt gríðarlega miklu máli. Orðalagsbreytingar sem ekki virðast merkilegar við fyrstu sýn geta falið í sér mikla efnislega breytingu og falið í sér að túlkun ákvæðanna verði með allt öðrum hætti en ella hefði getað orðið. Það verkefni er fyrir höndum. Ég vek athygli á því að sérfræðingahópurinn breytir nokkuð orðalagi tillagna stjórnlagaráðs að þessu leyti og svo hafa auðvitað komið fram fleiri tillögur um orðalag slíks ákvæðis eins og nefnt hefur verið fyrr í þessari umræðu, bæði innan þings og svo nýlega frá háskólamönnunum Skúla Magnússyni og Ágústi Þór Árnasyni sem raunar sendu inn tillögu sem byggði á því sem varð niðurstaða í stjórnlaganefnd sem starfaði á fyrri stigum þessa ferils sem mér finnst að komi vel til greina að skoða í þessu sambandi líka.

Varðandi alþingiskaflann og slíka þætti er mér efst í huga spurningin um það hversu mikið á að vera í stjórnarskrá og hversu mikið í þingsköpum. Ég held að stjórnlagaráð gangi býsna langt í því að færa ákvæði inn í stjórnarskrártexta sem heldur ættu heima í þingsköpum. Ég velti líka fyrir mér spurningum, eins og reyndar hefur komið fram í þessari umræðu áður, um kosningaákvæðið sem ég held að ekki sé ofmælt að fáir telji sig skilja til hlítar, þ.e. átta sig á því hvernig það kemur til með að virka. Ég hef heyrt marga lýsa sig samþykka markmiðum frumvarpsins um jöfnun atkvæðisréttar og aukið persónukjör, en ég hygg hins vegar að fleirum sé farið eins og mér að þrátt fyrir að hafa oft lesið þennan texta áttum við okkur ekki alveg á því hvernig þetta kemur til með að virka. Það er fagnaðarefni ef þetta atriði verður tekið til sérstakrar skoðunar og reynt að meta áhrifin.

Ég nefni líka forsetaembættið eins og fleiri hafa gert í þessari umræðu og held að þar þurfum við einfaldlega að átta okkur betur á því hvað við viljum gera og útfæra síðan tillögurnar eftir því, en tillögur stjórnlagaráðs finnst mér leiða til nokkurrar óvissu. Ég er ekki einn um þá skoðun. Fræðimenn á þessu sviði hafa bent á það og vitnað hefur verið í túlkun forseta Íslands um það efni sem stangast mjög á við það sem einstakir menn úr stjórnlagaráði hafa haldið fram. Ég hygg að það sé ófært annað en að komist verði að niðurstöðu í þessum efnum sem sameiginlegur skilningur ríkir um í meginatriðum, en ekki mjög ólíkur skilningur eins og uppi er núna. Tek ég þó ekki afstöðu til efnislegrar niðurstöðu, heldur bara þess að niðurstaðan verði skýr. Ég get hugsað mér öflugt forsetaembætti og ég get hugsað mér veikt forsetaembætti en það er óheppilegt að blanda þessu mikið saman.

Ég ætla ekki að fara lengra í þetta. Tími minn er búinn (Forseti hringir.) en ég vildi þó áður en ég lýk máli mínu nefna eitt atriði sem ég tel að við þurfum að skoða sérstaklega vel og það varðar ákvæði sem snerta fullveldisframsal. (Forseti hringir.) Þar er ég þeirrar skoðunar að hvorki tillaga stjórnlagaráðs né það sem kom frá sérfræðingahópnum sé fullnægjandi niðurstaða og held að við þurfum (Forseti hringir.) að verja töluverðum tíma í það mikilsverða umfjöllunarefni.



[22:25]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að hann fari í andsvari sínu yfir þá nýjung sem lagt er til að fari inn í stjórnarskrá Íslands um hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi sem hafa verið í umræðunni í dag og virðast ekki mæta miklum skilningi. Fólk áttar sig ekki á því hvað verið er að gera mikla grundvallarbreytingu á stjórnarskránni. Þarna er ég að vísa í náttúruverndarákvæðin og vernd dýra en mig langar líka til að spyrja þingmanninn hvaða álit hann hafi á því að leggja til að bylta stjórnarskránni með þessum hætti. Það er vísað í stjórnarskrár annarra ríkja, Suður-Afríka minnir mig að sé nefnd í þessu tilfelli, og ég upplifi þetta frumvarp á þann hátt að það sé brot af því besta úr mörgum stjórnarskrám og tekin ákvæði frá mismunandi löndum inn í þetta frumvarp.

Það er vísað mjög til þýsku stjórnarskrárinnar varðandi ákveðin atriði en Þjóðverjar settu sér nýja stjórnarskrá eftir hinn svokallaða Hitlerstíma sem var hörmungarástand hjá þeim og þeir áttu lífið að leysa við að endurreisa samfélag sitt eftir þá hörmungartíma sem gengu yfir. Telur þingmaðurinn að það gangi upp að blanda saman stjórnarskrá svona margra landa, setja í eitt plagg og leggja til að verði ný stjórnarskrá Íslands?



[22:27]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margoft lýst yfir áhyggjum af því að því vinnulagi væri beitt varðandi þær stjórnarskrárbreytingar sem hér um ræðir. Það eru margir þættir sem ég hef áhyggjur af í því sambandi, það er of langt mál að fara yfir það, en ég hef frá upphafi þessa máls vakið athygli á því að það væri á margan hátt óráðlegt og ekki góð vinnubrögð að ætla sér að breyta öllu í einu, einfaldlega vegna þess að það gefur okkur miklu erfiðari aðstæður til að fjalla í grunninn um einstök atriði. Ef við værum að fjalla um afmarkaðri atriði í stjórnarskránni ættum við þess kost að fara dýpra í hvert atriði. Ég held að það væri út af fyrir sig betra. Þess vegna hef ég, og kemur kannski engum á óvart, verið þeirrar skoðunar að við ættum frekar að vinna þetta mál út frá því að gera endurbætur á núverandi stjórnarskrá, taka fyrir ákveðna þætti frekar en að fara í að endurskrifa stjórnarskrána frá A til Ö og bæta við fjöldamörgum atriðum. Ég held að það leiði til óvissu á mörgum sviðum og ég er svo sannarlega ekki einn um þá skoðun.

Varðandi hins vegar það vinnulag að verið sé að klippa búta úr mismunandi stjórnarskrám, eins og hv. þingmaður lýsti því, skella þeim saman og bæta svo við atriðum úr einstaka mannréttindasáttmálum er það allt í lagi á fyrri stigum svona verks, þ.e. að sækja hugmyndir annað. Auðvitað er allt í lagi að sækja hugmyndir annað en hins vegar er ekki fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að gera einhverja tiltekna breytingu að slíkt ákvæði megi finna í einhverri stjórnarskrá einhvers staðar án þess að það sé hugsað í hvaða samhengi það er. Það eru ekki næg rök fyrir því að setja eitthvað inn í stjórnarskrá Íslands að það standi í stjórnarskrá Suður-Afríku, næsta atriði komi úr stjórnarskrá Kanada og þriðja úr stjórnarskrá Vestur-Þýskalands. (Forseti hringir.) Það er ekki fullnægjandi rökstuðningur en auðvitað gætum við sótt hugmyndir víða.



[22:29]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir með þingmanninum um að fólk á að kynna sér málin vel og þar með hvernig önnur ríki skipa sínum málum, en við erum líka sammála um að það gengur ekki að byggja upp frumvarp að nýrri stjórnarskrá með öllum þeim fyrirbrigðum inni í sem þingmaðurinn fór yfir. Það er hreinlega galið og það er ekki nóg með þetta sem ég fór yfir heldur gagnrýndi lögfræðiteymið, sem gerði skil fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki eingöngu það að verið væri að taka nýja stefnu í stjórnskipunarmálum Íslendinga varðandi þessi þriðju kynslóðar réttindi heldur væri jafnframt verið að útfæra einkarétt í stjórnarskránni. Stjórnarskrá á að mínu mati fyrst og fremst að verja borgara viðkomandi ríkis gagnvart sitjandi stjórnvöldum hverju sinni. Þegnar ríkisins verða að hafa þann stjórnarskrárvarða rétt að geta vísað til stjórnarskrárinnar þyki þeim ríkisvaldið brjóta á rétti sínum.

Það er til dæmis ákvæði í þessari stjórnarskrá þar sem fjallað er um friðhelgi heimilisins og ég tek sem dæmi, af því að mér finnst það mjög athyglisvert ákvæði, að enginn þurfi að þola ofbeldi á heimili og þá ekki kynferðisofbeldi.

Þetta er farið að skarast á við friðhelgi einkalífsins sem og það að einstaklingar geti sótt sín á milli á grundvelli stjórnarskrárinnar þannig að þetta er komið að mínu mati út um víðan völl. Við erum með refsilöggjöf sem tekur til dæmis á kynferðisbrotum í almennum hegningarlögum sem flokkast sem almenn lög þannig að þarna er líka verið að setja inn í stjórnarskrána svo mörg ákvæði sem eiga heima í almennum lögum og eru nú þegar varin þar. Hvað finnst þingmanninum um þetta?



[22:31]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að koma inn á þriðju kynslóðar réttindin í fyrra svari mínu við andsvari hv. þingmanns. Þar er ég þeirrar skoðunar að við eigum að fara töluvert varlega. Ég játa að ég hef íhaldssöm viðhorf í þessum efnum og mér finnst hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi einkennast of mikið af almennum stefnuyfirlýsingum fremur en handföstum lagareglum. Ég held að á vissan hátt sé óheppilegt að fjölga mikið hinum almennu stefnuyfirlýsingum í stjórnarskrá vegna þess að það er mjög óljóst hvaða rétt það raunverulega færir mönnum fyrir dómstólum. Stjórnarskrá er auðvitað lög og menn eiga að geta borið fyrir sig stjórnarskrárvarin réttindi fyrir dómstólum.

Um leið og við höfum óljós stefnumið í ríkara mæli í stjórnarskrá erum við í raun að framselja löggjafarvald til dómstóla. Þá erum við að segja: Við viljum stefna að því að hafa hér allt voða fínt og fagurt. Við stefnum að því að allir njóti andlegs og líkamlegs heilbrigðis að hæsta marki sem unnt er, eins og segir í einni greininni í þessum tillögum. En hver á að útfæra það? Hvað felst í því? Jú, segja menn, það er auðvitað löggjafinn sem á að gera það. Ef menn eru ekki sáttir við það sem löggjafinn gerir, hvað gera menn þá? Jú, menn fara til dómstóla og hver er það þá sem ákveður inntak reglunnar, þ.e. hvaða réttindi raunverulega felast í þessu ákvæði? Jú, það eru dómstólarnir.

Þetta er óhjákvæmilegt að einhverju leyti í stjórnarskrártexta en því fleiri ákvæði sem við höfum sem fela í sér óljósar stefnuyfirlýsingar af þessu tagi þeim mun meira vald erum við að færa úr þessum sölum yfir til dómstóla og það er í raun og veru andstætt minni hugsun um lýðræði.



[22:34]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í það sem hann kom inn á í lokaorðum ræðu sinnar, og hafði auðsjáanlega ekki tíma til að fara betur út í. Það snýr að 111. gr. þessara tillagna stjórnlagaráðs og þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga um framsal ríkisvalds þar sem opnað er á að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem feli í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Það skuli þó vera afturkræft og skuli borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað honum fyndist um þessa grein. Hann byrjaði að ræða þetta í máli sínu. Telur hv. þingmaður að fullveldið sé nægilega vel varið í þessari grein? Hvað mundi hv. þingmaður vilja hafa öðruvísi í þessari grein? Það væri mjög fróðlegt ef þingmaðurinn gæti komið inn á niðurstöðu sérfræðingahópsins í þessa veruna.

Mig langar síðan að biðja hv. þingmann að tvinna inn, ef tími vinnst til, það sem kemur fram í 67. gr. þar sem talað er um að einstaklingar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðna þætti. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Ef stórir málaflokkar falla undir fullveldisafsal, eins og t.d. Evrópusambandsaðild, sem nær yfir mjög marga málaflokka samfélagsins, skilur hv. þingmaður 67. gr. þá þannig að ekki sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nein málefni er heyra undir slíka samninga? Það eru þá engin lög sem heyra undir slíka samninga. Telur hv. þingmaður að hugsanleg úrsögn úr Evrópusambandsaðild — að þjóðin gæti ekki krafist slíkrar atkvæðagreiðslu vegna 67. gr.? Gæti hv. þingmaður farið yfir þessar tvær greinar, svona velt þessu upp.



[22:36]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar þó að þær séu allt of viðamiklar til að svara í stuttum svörum við andsvörum.

Ég ætla fyrst að nefna 67. gr. Ég held að það eigi eftir að skoða það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hvernig samspil þessara tveggja ákvæða sé, ég held að menn eigi eftir að velta því svolítið fyrir sér og þá einmitt út frá þeim forsendum sem hann nefnir. Annaðhvort er talað um þjóðréttarsamninga, í 67. gr. sem er undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum og hins vegar er ákveðin krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu í tilteknum tilvikum varðandi framsal ríkisvalds. Það þarf að lesa þetta saman og meðal annars út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir.

Ég tek það reyndar fram að ég hef mjög miklar efasemdir um þær takmarkanir sem er að finna í 67. gr. Mér er ljóst að ákveðnar takmarkanir eru í stjórnarskrám víða varðandi það hvaða mál er hægt að bera undir þjóðaratkvæði en ég óttast að þarna sé verið að víkka þetta út umfram það sem eðlilegt væri. Eins og bent hefur verið á í umræðunum hefði þetta ákvæði, eins og það er orðað þarna, komið í veg fyrir að tiltekinn hluti þjóðarinnar hefði getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana á sínum tíma. Þannig að það sé sagt. Sá möguleiki hefði vissulega áfram verið fyrir hendi fyrir forseta að neita að staðfesta lagafrumvörp á þessum forsendum. Ef forsetinn hefði nú ekki hirt um það en andstaðan verið jafnmikil í þjóðfélaginu hvar hefðum við þá verið stödd? Þetta er atriði sem ég tel að sé ófullnægjandi eins og það er útfært þarna.

Varðandi 111. gr. þá hef ég mjög margar athugasemdir um hana. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fara yfir þetta, orðalag í þessu tilviki. Ég er ekki andvígur því að einhver grein af þessu tagi sé inni en ég hef gagnrýnt að tillaga stjórnlagaráðs hafi verið allt of opin, opnað allt of mikið, og að takmarkanirnar fyrir því að hægt væri að samþykkja fullveldisframsal í þjóðaratkvæðagreiðslu væru ekki nægar, það þyrftu einfaldlega að vera einhverjir þröskuldar þarna.



[22:38]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Þrátt fyrir að mjög gaman væri að fara dýpra ofan í 111. gr. ætla ég aðeins að fara betur ofan í 67. gr. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er eitthvað sem þarf að skoða miklu betur.

Tökum dæmi sem er okkur nærtækt, sem er hugsanleg aðild að Evrópusambandinu eða EES-samningurinn eða annað sambærilegt. Fari svo að Ísland ákveði að framselja slíkt ríkisvald til Evrópusambandsins þá, eins og þetta kemur fram í 67. gr., má vel draga þá ályktun — það sem er undanþegið þjóðaratkvæðagreiðslum, með leyfi frú forseta:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Samningar af þessu tagi hljóta að falla undir það með einhverjum hætti. Þá eru það öll mál sem heyra undir slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þá eru það öll mál sem heyra undir málaflokka Evrópusambandsins, öll mál sem heyra undir EES-mál og annað því um líkt. Getur hv. þingmaður farið ofan í þetta, hvort þetta sé rangur skilningur hjá þeim sem hér stendur? Eða kemur einhvers staðar fram í gögnum málsins eitthvað sem styður það að sá sem hér stendur hafi rangt fyrir sér hvað þetta snertir?



[22:40]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nákvæmlega um þetta samspil 67. gr. og 111. gr. ætla ég ekki að segja annað á þessu stigi en að ég held að ábendingar hv. þingmanns séu þarfar og nauðsynlegt sé að fara í þetta, hvernig þetta virkar saman, t.d. þegar talað er um þjóðréttarskuldbindingar í þessu sambandi og hvernig það tengist síðan hugsanlegu fullveldisframsali varðandi aðild að Evrópusambandinu o.s.frv. Við skulum athuga að þjóðréttarskuldbindingar geta verið af ýmsum toga og mjög mörg lagafrumvörp eru byggð á þjóðréttarlegum skuldbindingum. Mér finnst langt gengið, eins og gert er í þessum texta, að undanskilja allar slíkar ákvarðanir fortakslaust þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði almennings. Mér finnst það mjög langt gengið og ég set miklar efasemdir við þetta ákvæði 67. gr. af þeim sökum.

Varðandi 111. gr. sem ég hef kannski velt aðeins meira fyrir mér; ég játa að ég hef haft meiri áhyggjur af henni sem slíkri. Þar velti ég því upp hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa með skýrari hætti og skýrari framsetningu mismunandi leiðir ef svo má segja. Það er kannski óheppilegt að taka þannig til orða en ég geri það hér, af því að mér dettur ekki betra orðalag í hug á staðnum, að við þyrftum að hafa mismunandi leiðir varðandi mismikið framsal ríkisvalds, þ.e. þeim mun meira sem framsal ríkisvalds er samkvæmt einhverjum ákvörðunum Alþingis þeim mun hærri eigi þröskuldarnir að vera. Mikið framsal ríkisvalds krefjist þjóðaratkvæðagreiðslu og eftir atvikum tiltekins hlutfalls kjósenda sem styður það en minna framsal ríkisvalds krefjist einhverrar einfaldari leiðar en þó kannski vandaðri leiðar með hærri þröskuldum en á við um venjulega lagasetningu.



[22:43]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Loksins tökum við til efnislegrar umfjöllunar tillögur að nýrri stjórnarskrá í þinginu eftir langan og faglegan feril þessa máls. Feril sem þó hefur orðið fyrir áföllum og töfum af ófyrirséðum orsökum á köflum en hefur samt náð fram að ganga og er málið komið hingað á þeim tímapunkti sem við stöndum nú og tökum það til umfjöllunar. Það er fagnaðarefni. Ég fagna því sem alþingismaður að geta komið formlega að efnislegri umfjöllun tillagna að nýrri stjórnarskrá.

Við þekkjum þann feril sem að baki er og það er óþarfi að rekja hann náið úr ræðustóli enda hefur hann verið rakinn hér fyrr í dag en lokahnykkurinn þar á eru tillögur sérfræðingahóps sem skipaður var til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs. Sá hópur gerði allmargar, ég held 75, tillögur að breytingum sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú gert að sínum, allflestar, og koma þær fram í því frumvarpi sem liggur fyrir. Það má auðvitað deila um það að hve miklu leyti þessar tillögur eru tæknilegs eðlis eða orðalagsbreytingar annars vegar og hins vegar efnisleg atriði.

Það er til dæmis ábyggilega enginn vafi á því að sú breyting að taka upp óbreytta grein um þjóðkirkjuna úr núgildandi stjórnarskrá er efnisleg breyting frá tillögum stjórnlagaráðs en hún kemur af sjálfu sér þar sem spurt var sérstaklega um þetta atriði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór þann 20. október síðastliðinn og meirihlutavilji kjósenda kom fram um að við skyldum hafa slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Þann vilja ber að sjálfsögðu að virða þó að meiri hlutinn hafi ekki verið mjög mikill. Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að Alþingi geti í lögum tryggt rétt lífsskoðunar- og trúfélaga og trúfrelsi í reynd til samræmis við 18. gr. sem hnykkir á því líka.

Þá er það auðvitað efnisleg breyting að bæta við grein um menntun, að virða skuli rétt foreldra til að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram 20. október var sérstaklega spurt um fimm álitamál sem fyrr segir. Niðurstaða kosningarinnar var skýr varðandi flest þau atriði en skýrust var þó niðurstaðan varðandi afstöðu almennings eða kjósenda til hins nýja auðlindaákvæðis sem 74% kjósenda guldu jáyrði við. Það kveður á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu eins og stóð í tillögum stjórnlagaráðs en talað er um að þær séu ekki háðar einkaeignarrétti í frumvarpinu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, enginn geti fengið þær til eignar eða varanlegra afnota eða réttindi tengd þeim og aldrei megi selja þær eða veðsetja og fyrir nýtingu þeirra skuli koma fullt gjald. Þetta er mjög mikilvægt nýmæli í stjórnarskránni og eins og kemur fram í skýringum stjórnlagaráðs á það sér langa forsögu sem ráða má af ítrekuðum en hingað til árangurslausum tilraunum stjórnvalda til að koma inn í stjórnarskrá nýju ákvæði um þjóðarauðlindir.

Það er hins vegar umhugsunarefni, sem ég vil nefna hér, að sérfræðingahópurinn lagði til breytingu á þessu ákvæði og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði hana að sinni, þ.e. að í stað þess að tala um einkaeigu skyldi tala um einkaeignarréttindi í skilningi laga. Ég tel að ástæða sé til að huga mjög vel að merkingarlegu inntaki slíkrar breytingar því að það verður auðvitað að vera tryggt að ekki sé verið að samþykkja eignarhaldskröfu til dæmis núverandi kvótahafa yfir fiskveiðiauðlindinni. Um það efni hafa staðið hatrammar deilur og málaferli og lagaþrætur árum saman. Það má ekki gerast að stjórnarskráin færi þeim sem hlotið hafa forgangsúthlutun að nýtingu þjóðarauðlindar í 30 ár eignarhald yfir þeim nýtingarrétti. Mér finnst mikilvægt að nefna þennan fyrirvara og reisa varúðarskorður við þetta atriði.

Annað mjög mikilvægt nýmæli í tillögum að nýrri stjórnarskrá er náttúruákvæðið, þ.e. 33. gr. sem kveður á um að náttúra Íslands eigi sinn rétt sem öllum beri að virða og vernda og að öllum skuli tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar eins og það er svo fagurlega orðað í þessu ákvæði. Þetta er auðvitað löngu tímabær grein um vernd og stöðu náttúrunnar og á sér langan aðdraganda. Stjórnlagaráð getur þess líka í greinargerð sinni að sambærileg ákvæði um umhverfi og náttúru hafa ratað inn í stjórnarskrár annarra landa og verið meira að segja ítarlegri og afdráttarlausari þar. Það er fagnaðarefni að koma staðfestingu þess í stjórnarskrá að skilningur á mikilvægi umhverfis fyrir heilbrigði og afkomu mannkyns fari vaxandi og að þar með sé tekið undir það í reynd að réttur núlifandi og komandi kynslóða til að njóta náttúrugæða sé ríkur.

Ég fagna líka mjög 35. gr. um upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings varðandi ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á, og að með lögum skuli tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru sem og heimild til að leita hlutlausra úrskurðaraðila. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði og mikilvægur þáttur í mannréttindum og forsenda ákveðinna lífsgæða, eins og stjórnlagaráð hefur bent á. Þar segir líka réttilega að til þess að geta varið rétt sinn þurfi einstaklingar að njóta aðgangs að upplýsingum og hafa tök á því að taka þátt í ákvörðunum um umhverfismál. Ég fagna þessu mjög. Þetta varðar rétt almennings til heilbrigðra lífsskilyrða en líka til lýðræðislegrar þátttöku til að hafa áhrif á líf sitt og aðstæður.

Þetta tengist öðru sem var sérstaklega spurt um í þjóðaratkvæðagreiðslu og er nú komið inn í frumvarpið, þ.e. spurningunni um jafnt atkvæðavægi í landinu og áhrif þess á lýðræðislega stöðu landshlutanna. Það ákvæði hefur valdið miklum skoðanaskiptum og kemur ekki á óvart að meiri hluti þeirra sem lagðist gegn þeirri breytingu séu íbúar og kjósendur utan af landi. Eins og við höfum rætt hér og hefur komið fram í umræðunni þá mun þessi breyting þýða það að fulltrúum landsbyggðarinnar á Alþingi fækkar mikið frá því sem nú er og rödd landsbyggðarinnar mun þar með dofna. Það er óskemmtileg tilhugsun í ljósi þess áhrifaleysis sem landsbyggðin býr við nú þegar þar sem stjórnsýsla og ákvarðanavald hefur safnast fyrir á höfuðborgarsvæðinu þangað sem meginþorri opinberra fjármuna rennur.

Við getum sagt að prufukeyrsla á jöfnu atkvæðavægi hafi átt sér stað í sjálfri stjórnlagaþingskosningunni en niðurstaða þeirrar kosningar var sú að aðeins tveir utan af landi náðu kjöri af 25 fulltrúum. Þar af leiðandi held ég að það sé mjög mikilvægt að Alþingi geri ráðstafanir til að jafna lýðræðislega stöðu landshlutanna í ljósi þessarar niðurstöðu því að krafan um jafnrétti á ekki aðeins við um fólk, hún á líka við um samfélagshópa, þar á meðal landsbyggð andspænis höfuðborg. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að beita heimildinni í 39. gr. um að í lögum megi mæla fyrir um tiltekinn fjölda þingsæta, allt að 30, þannig að hann sé bundinn einstökum kjördæmum. Þessa heimild held ég að sé mikilvægt að nýta í löggjöf til að vega upp á móti þeim lýðræðishalla sem annars er hætt við að hljótist af. Í hjarta okkar erum við sammála því að hver maður eigi að hafa jafnt atkvæðavægi á við manninn sem við hliðina á honum stendur en við verðum líka að átta okkur á því hvaða þýðingu það hefur. Jafnrétti samfélagshópa skiptir líka máli í þessu sambandi.

Enn eitt nýmæli í tillögunum sem hlaut gott brautargengi í þjóðaratkvæðagreiðslunni með stuðningi 68% kjósenda var persónukjör. Sú breyting verður vafalítið til góðs ef rétt er á málum haldið en það veltur að sjálfsögðu á útfærslunni. Ég vil í því sambandi leyfa mér að minna á frumvarp hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og fleiri um sama efni þar sem gert er ráð fyrir að kjósandi geti skipt atkvæði sínu á fleiri en einn frambjóðanda þannig að þeir hljóti þá sama brot atkvæðis. Það er dæmi um útfærslu sem ég held að gæti vel gengið upp í þessu samhengi.

Önnur merkileg nýjung sem ástæða er til að nefna og gera að umtalsefni er að hægt sé að leggja fram þingmál að frumkvæði kjósenda, að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi. Með því ákvæði er verið að stíga skref í átt til beins lýðræðis sem hefur verið vaxandi krafa í þjóðmálaumræðunni undanfarin ár. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja að ég held að við þurfum að fara varlega í þeirri umræðu allri því að hún getur auðveldlega borið okkur á villigötur ef við missum sjónar af markmiðum lýðræðis. Við búum við þingræði sem er í reynd fulltrúalýðræði. Almenningur kýs fulltrúa til að taka veigamiklar ákvarðanir um stjórn landsins og löggjöf og um leið og það er af hinu góða að eiga samtal við kjósendur og leita álits þeirra þarf að gæta þess að sú tilhneiging fari ekki út í hreina ákvarðanafælni og þar með ábyrgðarleysi kjörinna fulltrúa. Sum mál eru þess eðlis að þau verða ekki leyst með vinsældakosningum, t.d. erfiðar ákvarðanir sem varða fjármál ríkisins, neyðarráðstafanir líkt og grípa þurfti til fyrst eftir hrun o.s.frv.

Það er því mjög mikilvægur fyrirvarinn sem kemur fram í 67. gr. frumvarpsins og lýtur að því að hvorki sé hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þetta er til áréttingar því sem ég sagði, að beint lýðræði geti verið af hinu góða sé því beitt í þágu sjálfs lýðræðisins en ekki gegn því eins og getur hæglega orðið ef ekki er rétt að farið. Það hefur gerst hér í þungum og veigamiklum málum sem hafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og eru enn ekki útkljáð fyrir vikið.

Frú forseti. Ég get líka tekið undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að sumt í þessu frumvarpi ætti kannski meira erindi við lög en stjórnarskrá. Það er nokkuð sem þingið getur með góðri samvisku, finnst mér, íhugað að breyta vegna þess að meginhugsunin í þeim ákvæðum sem ég er að hugsa um í því samhengi getur haldist þó að ákvæðunum yrði breytt. Þar vil ég nefna ákvæðið um að Alþingi geti sjálft ákveðið fjölda kjördæma í landinu en síðan er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að fjöldinn sé takmarkaður við átta, ef ég man rétt. Þarna er verið að gefa Alþingi þann rétt að ákveða þetta sjálft og þá finnst mér engin ástæða til að setja einhver fjöldatakmörk á það. Sama gildir um ákvæðið um fjölda ráðherra. Ég er ekki viss um að slíkt ákvæði, um að tiltaka ákveðinn fjölda ráðherra, eigi erindi í stjórnarskrá úr því að megininntak ákvæðisins er það að forsætisráðherra og þingið geti ákveðið fjölda ráðherra. Ég sé þá ekki ástæðu til að vera með fjöldatakmarkanir á því. Þetta er bitamunur en ekki fjár, útfærsluatriði sem þarf ekki að koma við megininntak umræddra ákvæða.

Fagnaðarefnið er að við skulum nú vera komin í efnislega umræðu. Það er mest um vert, tel ég, að við berum gæfu til þess að virða þá miklu vinnu sem liggur hér að baki, virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sem fór fram í haust og útfæra tillögur stjórnlagaráðs á grundvelli þess þjóðarvilja sem er kominn fram. Það sýnist mér að frumvarpið geri og ég vona innilega að þessar tillögur verði ekki pólitískt bitbein í stundarhagsmunum stjórnmálaflokkanna heldur að við (Forseti hringir.) vinnum hér gott og vandað verk.



[22:58]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ræðuna. Við erum að sjálfsögðu ekki sammála um alla hluti í þessu sambandi en hins vegar fannst mér hún nálgast málin af yfirvegun og á málefnalegan hátt, sem ber að fagna.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að hv. þingmaður gerir efnislegar athugasemdir við nokkra þætti í þessum tillögum. Um sumt er ég sammála henni, ég held að þarna séu atriði sem við þurfum virkilega að íhuga. Varðandi kosningakerfið hef ég töluvert miklar efasemdir um útfærsluna sem þarna er að finna, ég hef ákveðnar áhyggjur af því að erfitt verði að útfæra þetta svo vel sé. Ef ég bara orða þá hugsun mína í stuttu máli get ég vel ímyndað mér kosningakerfi sem annars vegar byggir á kjördæmakosningu og hins vegar landskjöri, það eru fordæmi fyrir því.

Mér sýnist hins vegar að þarna sé að finna einhvers konar blöndu af þessum tveimur kerfum, m.a. að menn geti bæði boðið sig fram í kjördæmi og á landslista og mér finnst margt frekar óskýrt í þessari útfærslu. Ég tel að þó ekki væri nema þess vegna þurfum við að fara afskaplega vel yfir þessi ákvæði.

Síðan eru auðvitað hárrétt þau sjónarmið sem hún nefnir varðandi stöðu landsbyggðarinnar sem ótvírætt mundi veikjast á þingi yrðu þessar tillögur að veruleika. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að heimilt sé að binda tiltekinn fjölda þingsæta við tiltekin kjördæmi mundi það engu að síður leiða til töluverðrar fækkunar þeirra þingmanna sem kæmu utan af landi, það má gefa sér það miðað við að haldið sé í regluna einn maður, eitt atkvæði.



[23:01]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans innlegg og athugasemdir við ræðu mína. Ég held hins vegar að þær áhyggjur sem við deilum að hluta til um kosningakerfið og áhrif jöfnunar atkvæðavægisins — ég held að það mál sé leysanlegt.

Ég er hins vegar ekki nógu sérfróð til að geta kveðið upp úr um það úr þessum ræðustóli hvort þær ráðstafanir sem 39. gr. opnar á eru nægjanlegar einar og sér eða hvort þingið þarf að skýra þetta og skerpa betur með löggjöf. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu, jafnvel þó að ákvæðið stæði óbreytt í stjórnarskrá, að þingið geti gert sínar ráðstafanir til mótvægis við þann lýðræðishalla sem við höfum augljóslega bæði áhyggjur af vegna jöfnunar atkvæðavægis.

Fara þarf mjög vel yfir þetta vegna þess að ég held að allir hljóti að vera sammála um að markmiðið hlýtur að vera það að ná fram annars vegar jafnrétti milli fólks með jöfnun atkvæðavægis en líka að halda einhverju ásættanlegu jafnvægi milli landshluta.



[23:02]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að fyrirbyggja misskilning er ég ekki andvígur hugmyndinni um að jafna atkvæðavægi í landinu, ég hef verið baráttumaður fyrir því á vettvangi míns flokks í langan tíma. Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af þeirri útfærslu sem þarna er að finna. Ég held að við getum lent í nokkrum ógöngum með þetta kerfi ef við erum að tala um þessa blöndu af landskjöri og kjördæmakjöri. Ég vildi gjarnan fá skýrari línur í þetta áður en breytingar af þessu tagi eru gerðar, að við áttuðum okkur betur á því hvaða áhrif þær breytingar sem þarna er að finna hafa.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég er enginn sérstakur aðdáandi núverandi kjördæmafyrirkomulags og tel að á því séu margir gallar. Ég hef í gegnum árin velt upp ýmsum hugmyndum um aðrar breytingar og jafnvel róttækari á því sem þarna er að finna. Hrifnastur er ég af hugmyndinni um einmenningskjördæmi en ég tel að það sé heldur langt í land að við náum einhverjum slíkum breytingum fram.



[23:04]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi hv. þingmann ekki þannig að hann hefði talað gegn jöfnun atkvæðavægis og það bar ekki að skilja orð mín á þann veg. Í hjarta mínu er ég ekki mótfallin jöfnun atkvæðavægis, ég vil bara að við þá jöfnun verði ekki til annað óréttlæti sýnu verra og um það held ég að við þingmaðurinn séum sammála.

Um blöndu landskjörs og kjördæmakosningar, ég hef hugsað þetta líka. En eins og ég segi, ég held að fara verði mjög vel yfir þetta með þar til bærum sérfræðingum. Ekki er ég með þá lausn á reiðum höndum hvernig þetta getur komið út. Mér sýnist samt að þingið eigi alla möguleika á að útfæra þetta nánar, ef ekki með tillögu að breyttu stjórnarskrárákvæði þá með lögum í anda þess ákvæðis sem heimilar þetta. Hvort fulltrúatalan, að binda þetta við 30 þingsæti en ekki eitthvað fleiri — ég á erfitt með að leggja mat á það að svo stöddu en treysti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara mjög vel yfir þetta.



[23:05]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólína Þorvarðardóttir létu hann niður falla og ræða aðeins um kjördæmaskipanina og kosningalögin. Ég er þeirrar skoðunar að þessi umræða hafi allt of mikið verið einfölduð í gegnum tíðina, sérstaklega hér á landi. Hér hafa menn eingöngu verið að ræða spurninguna um jafnt vægi atkvæða. Það eru ýmis önnur álitamál sem koma líka til skoðunar þegar við ræðum þessi mál, mér tekst vonandi að fara yfir það í ræðu þegar ég kemst að með það.

Ég tel að hægt sé að færa fyrir því rök að ekki sé endilega skynsamlegt að horfa svona mikið á hugmyndina um jafnt vægi atkvæða. Á þessu stigi vil ég hins vegar gera mjög alvarlegar athugasemdir við ákvæðið í 39. gr. eins og það er lagt hér fram. Það er þannig útfært að annars vegar er verið að tala um að kjördæmin, sem geta verið allt að 8, kjósi 30 þingmenn. Síðan eru landslistar sem kjósi 33 þingmenn. Hið jafna vægi atkvæða á að vera tryggt með því að kjördæmin allt að 8 fái sinn skerf úr 30 þingmannahópnum. Það á að byggjast á hugmyndinni um einn maður, eitt atkvæði.

Síðan er það landslistinn og þar munu málin horfa aðeins öðruvísi við. Í teoríunni getum við sagt að þar sé einn maður, eitt atkvæði, en það sem þetta mun hafa í för með sér er það sem menn hafa nefnt margfeldisáhrifin í óréttlætisátt með því að þeir sem bjóða sig fram á landslistanum hljóta eðli málsins samkvæmt — og lítum við hvert í eigin barm — að reyna að höfða til þess hóps sem stærstur er í hópi kjósenda. Þá er ljóst mál að mikil hætta er á því að landskjörnir þingmenn treysti sér ekki til að taka tillit til hagsmuna fámennra svæða ef þeir hagsmunir stangast á við hagsmuni fjölmennustu svæðanna, og þess vegna verði til nýtt ójafnvægi sem verði algjörlega (Forseti hringir.) á hinn veginn. Ég tel þess vegna að þessi útfærsla sé mjög slæm, að þetta sé mjög vond blanda sem þarna er verið að búa til og hvet (Forseti hringir.) eindregið til þess að horfið verði frá henni.



[23:07]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sætir eiginlega tíðindum að ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skulum vera svona hjartanlega sammála en það erum við núna. Ég tek undir það með þingmanninum að þessi umræða, þessi krafa; einn maður, eitt atkvæði, hljómar vel og enginn vill í hjarta sínu vera mótfallinn því. En þetta getur haft aðrar og óskemmtilegri afleiðingar, þ.e. að ýta undir áhrifaleysi ákveðinna landshluta og byggðarlaga og landsbyggðarinnar í heild sinni andspænis höfuðborginni.

Ég hef stundum líkt þessu við það að við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið og ættum þar aðild að ráðherraráðinu. Þar sitja löndin með eitt atkvæði hvert og ekki væri gerður greinarmunur á því hvort Ísland er 300 þúsund manna þjóð, ef við sætum við það borð, eða annað land með 30 milljónir. Það rynnu nú á okkur tvær grímur ef það ætti að fara að smætta atkvæðavægi Íslands við það borð, ef við sætum þar inni, með tilliti til íbúafjölda. Þetta er svipað því sem um er að ræða, finnst mér, í sambandi við jafnt atkvæðavægi í þessum nýju stjórnarskrártillögum. Landsbyggðin, kjördæmin, þarf að eiga sér sína fulltrúa og sína málsvara því að það eru samfélög sem standa að baki hverjum fulltrúa, ekki bara íbúafjöldi. Hversu margar kirkjur, hversu marga skóla, hversu mörg þorp þarf til að réttlæta það að ákveðinn þingmaður hafi ákveðið vægi á Alþingi Íslendinga?

Við erum bara sammála um þetta en ég vona líka að þessi rökræða okkar veki þá sem eiga um þetta að fjalla til verulegrar umhugsunar um það hvernig best sé að útfæra málið í þeirri stöðu sem það er núna.



[23:10]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það hefði kannski verið meira gaman, svona fyrir fjörið, ef við hv. þingmaður hefðum ekki verið að ræða 39. gr. heldur til dæmis 34. gr. En það er önnur saga. Maður verður að velja og hafna í þessari umræðu.

Það sem ég er einfaldlega að reyna að segja er þetta: Ef menn ætluðu að vera trúir því sem þarna segir, að atkvæði kjósenda alls staðar að á landinu eigi að vega jafnt, felur það í raun í sér að færa sex þingmenn sem nú eru kjörnir af landsbyggðarkjördæmunum þremur inn á höfuðborgarsvæðið, það er það sem þetta felur í sér, þannig að þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu mundi þá fjölga frá því sem nú er og verða upp undir 40.

Hérna er hins vegar farin, að mínu mati, algjörlega galin leið og allt of flókin leið sem býður upp á þá miklu hættu að vegna margfeldisáhrifanna og stærðar höfuðborgarsvæðisins muni landslistaleiðin sem þarna er verið að leggja til — sem á að ná til 33 þingmanna, meiri hluta þingmanna — leiða til þess að þingmennirnir sem kjörnir verða af landslista verði fyrst og fremst kjörnir af þeim stóra massa sem hér býr (Forseti hringir.) eða þá að kosnir verða menn sem eru kannski svo skoðanalausir um málefni landsbyggðarinnar, þó að þeir eigi þar einhverjar rætur, að menn telji óhætt að kjósa þá á þing. (Forseti hringir.) Ég vara mjög eindregið við þessu og ég held að þarna sé verið að fara úr öskunni í eldinn.



[23:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Hún fór í gegnum ýmis mál, t.d. jöfnun atkvæðisréttar og hér hefur verið rætt um að slíkt geti jafnvel snúist upp í öndverðu sína.

Alla tíð síðan ég kom inn á þing hef ég verið móti mismunandi atkvæðavægi í landinu. Ég tel að atkvæði séu mannréttindi og að við getum ekki mismunað fólki á grundvelli atkvæðisréttar. Þegar ég kom inn á þing var atkvæðavægið 1:4 þar sem verst lét. Svo var það minnkað niður í 1:2 og eftir það hef ég verið tiltölulega sáttur, vegna þess að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að fólk úti á landi býr við mikið óhagræði af því að allt ríkisvaldið vex í Reykjavík. Ríkisvaldið á Íslandi hefur vaxið alveg óskaplega síðustu 50–100 árin. Og það vex hvar, frú forseti? Á Reykjavíkursvæðinu, í kringum Alþingi, í kringum stjórnarráðsbyggingarnar o.s.frv. Allt landsbyggðarfólk skal koma til Reykjavíkur til að sækja þjónustu, til að biðja um þetta og hitt, og ég vil að menn nálgist hlutina með allt öðrum hætti.

Ég vil ekki að menn séu að versla með atkvæðisrétt á móti þessu óhagræði heldur vil ég hreinlega að mönnum verði greiddur sá kostnaður sem felst í því að búa úti á landi, greiddur sá kostnaður sem felst í því að fara til læknis, sækja heilbrigðisþjónustu, lögfræðiþjónustu og alls konar þjónustu gagnvart hinu opinbera og sjá hvort þá myndist ekki vilji til að flytja eitthvað af þessari þjónustu út á land, af því að það gæti verið ódýrara. Síðan verði atkvæðisrétturinn algjörlega jafn.

Ég vil vara við þeim hugmyndum sem eru í 39. gr. og ég skora á þingmenn að fara mjög ítarlega í gegnum það hvort ekki finnist önnur lausn sem er betri en þessi.



[23:14]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að atkvæðisréttur er mannréttindi og allt í góðu með það. En þau mannréttindi geta hins vegar liðið fyrir sjálf sig, má segja, ef þeim er ekki beitt rétt. Það er afleiðingin sem við sjáum af jöfnun atkvæðavægisins, hún getur orðið neikvæð fyrir mannréttindi og lýðræði ef við pössum ekki upp á útfærsluna.

Stundum er talað um að jákvæð mismunun geti átt rétt á sér og ég hef hingað til litið á misjafnt vægi atkvæða í landinu sem jákvæða mismunun í þágu landsbyggðarinnar sem býr við alvarlegt áhrifaleysi og ákveðinn lýðræðishalla. Ég vona því heitt og innilega að þeir sem um þetta fjalla í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og þeir sérfræðingar sem verða kallaðir fyrir þá nefnd, ljái þessu eyra og reyni raunverulega að finna leið til að jafna upp á móti áhrifunum af jöfnun atkvæðavægisins, sem er í sjálfu sér alls ekkert slæmt fyrirbæri eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu. Jöfnun atkvæðavægis er eitthvað sem við í hjarta okkar viljum vera sammála um en við viljum bara sporna gegn neikvæðum áhrifum sem hugsanlega gætu af því hlotist þannig að ekki verði mannréttindahalli á annan hátt.

Læt ég það duga sem svar að þessu sinni enda hef ég á tilfinningunni að ég sé búin að svara þessu þrisvar.



[23:16]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú einmitt það sem ég ætlaði að ræða, við erum að reyna að jafna aðstöðumun landsbyggðarinnar sem býr við halla vegna þess að ríkið er allt í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að reyna að jafna þann mun með mismunandi atkvæðavægi. Við eigum bara hreinlega að jafna muninn með því að borga fyrir kostnaðinn, bæði vinnutíma fólksins og eins ferðir.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann um 34. gr., þá fer nú að verða gaman. Þar stendur að auðlindir í náttúru Íslands séu háðar einkaeignarrétti og menn eru mjög einbeittir og fókuseraðir á sjávarútveginn. Nú er það þannig að hann skuli vera ævarandi eign þjóðarinnar. Þarf ekki að mati þingmannsins að skilgreina hvað er þjóð? Eða er þjóðin sama og ríkið sem er lögpersóna og alltumlykjandi og sívaxandi? Er það ekki stórhættulegt, því hverjir stjórna ríkinu? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hverjir stjórna ríkinu.



[23:17]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi óska að hv. þingmaður hefði spurt að þessu í fyrra andsvari sínu, þá hefði orðið meira gaman, þá hefði ég haft tvö tækifæri til að ræða þetta við hann.

Þjóð er í mínum huga sá hópur fólks sem deilir kjörum í einu landi eða innan samfélagsmarka, ríkið fer hins vegar með framkvæmdarvaldið fyrir þessa þjóð. Ég geri greinarmun á ríki og þjóð. Ef eitthvað er í eigu þjóðarinnar, eins og við hljótum að samþykkja að náttúran innan þess svæðis sem við höfum helgað okkur sé, og hver Íslendingur eigi arfborinn rétt til þess að njóta náttúrugæða, hljótum við að fela einhverri framkvæmdastjórn hagsmunagæslu fyrir þann almenning sem tilheyrir þessari þjóð. Sá hagsmunagæsluaðili er stjórnvöld, (PHB: Stjórmálamennirnir.) stjórnvöld ogframkvæmdarvald stjórnvalda, það er það sem við köllum í daglegu tali ríkið.



[23:18]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú er æði langt um liðið síðan stjórnlagaráð sem áður var kosið sem stjórnlagaþing, ég ætla nú ekki að minnast á alla þá sorglegu sögu, kom með tillögur að gjörsamlega nýrri stjórnarskrá inn til Alþingis og fór þar af leiðandi eins langt með sitt umboð og hægt var, því hún hefði getað komið með breytingar á stjórnarskránni án þess að kollvarpa henni. Þetta er að því leyti gleðidagur því loksins gefst mér færi á því, frú forseti, að ræða tillögur stjórnlagaráðs með réttum hætti en ekki með skökkum eins og þegar ég sagði þegar rætt var um ferlið, af illri nauðsyn til þess að fólk vissi um hvað það ætti að fara að greiða atkvæði. Við höfum nefnilega ekki enn þá nema af stuttri, sérstakri umræðu sem var reyndar lengd, getað rætt um tillögur stjórnlagaráðs sem að mörgu leyti eru afskaplega skynsamlegar, frú forseti. Ég hef margoft undirstrikað það og enginn þingmaður hefur enn þá sagt mér að það þurfi ekki að breyta núverandi stjórnarskrá, alla vega því ákvæði í stjórnarskránni sem segir að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki. Það náttúrlega vita allir að það er ekki rétt. Og deilurnar um 26. gr. sögðu mér það að stjórnarskráin er ekki í lagi. Það á ekki að þurfa sérfræðinga til að túlka einstök ákvæði.

Ég las þrjú álit á sínum tíma um niðurstöðu í fjölmiðlamálinu að mig minnir, um túlkun 26. gr. Lærð og mjög skynsamleg og rökföst — rökföst, frú forseti — álit þriggja sérfræðinga. Ég var eiginlega sammála þeim öllum. Það var ekkert þeirra samstiga, þau voru öll þvers og kruss um hvað 26. gr. þýddi, vegna þess að 13. gr. tekur allt til baka og segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, þá væntanlega líka valdið í 26. gr. Það er dálítið athyglisvert.

Ég ætla að ræða um ferlið. Því miður er það svo að hér var kosning um stjórnarskrá. Ég segi alltaf: Vesalings fólkið fór og kaus á kjörstað og greiddi atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá. Ég las viðtöl við fólk sem sagði að það hefði kíkt á þetta um morguninn og fjölskyldan hefði verið sammála um að greiða þessu atkvæði. Ég fór að hugsa: Ég er nú eitthvað verulega takmarkaður, frú forseti, því ég eyddi öllu jólafríinu síðasta og öllum janúarmánuði í að fara einmitt í gegnum þessar tillögur. Mjög margt hef ég bent á sem hreinlega stenst ekki og má ekki standa. Um þetta var fólk að greiða atkvæði.

Mér finnst að ferlið sé of létt. Þjóðin greiðir aldrei atkvæði um þetta með bindandi hætti. Menn eru að tala um að hafa atkvæðagreiðslu samhliða næstu alþingiskosningum. Til hvers? Það hefur ekkert að segja. Þetta verður samþykkt væntanlega, síðan verur kosið almennt til alþingiskosninga og hvað er fólk að hugsa um þá? Það er að hugsa um framtíðina. Hvernig ætlum við að leysa skuldavanda heimilanna og hvað ætlum við að gera við efnahagsmálin og hvernig ætlum við að leysa snjóhengjuna og hvað ætlum við að gera í því að skapa atvinnu í landinu til að fólk geti borgað af lánunum sínum og geti yfirleitt framfleytt sér? Þetta verða álitamálin. Ekki stjórnarskráin, langt í frá. Svo kemur nýtt þing. Þar koma galvaskir nýir þingmenn og gamlir líka, vonandi einhverjir, og þeir munu greiða atkvæði um óbreytta stjórnarskrá. Ef þeir samþykkja hana er það orðið stjórnarskrá landsins. Fólkið í landinu hefur aldrei komið að því með bindandi hætti. Það finnst mér miður, frú forseti. Fyrir utan að það hefur verið sagt að ef menn ætla að éta fíl ættu þeir að gera það bita fyrir bita en ekki í einum bita, það er talið betra, það er svona viðráðanlegra. Mér finnst menn vera að éta fíl í einum bita.

Ég hef lagt fram tillögu um breytingar á 79. gr. eingöngu. Þá geta menn samþykkt hana. Að henni samþykktri geta menn tveim mánuðum seinna sent alla stjórnarskrána í bindandi atkvæði til þjóðarinnar eða sem ég tel vera miklu skynsamlegra, hluta af henni. Til dæmis gætum við byrjað á því sem allir þingmenn eru sammála um, eins og ákvæðið um að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki, ég held að allir séu sammála um að það megi taka það burt. Þannig að við ættum að fara í gegnum það ferli, ég held að allir þingmenn séu sammála því að hafa ákvæði um Hæstarétt. Ég þekki ekki einn einasta þingmann sem vill ekki hafa ákvæði um Hæstarétt í stjórnarskránni. Í dag er það ekki, það er ekki orð um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá.

Síðan er ég t.d. persónulega mjög skotinn í hugmyndum um Lögréttu, eins konar stjórnlagadómstól, en Lögrétta eins og stjórnlagaráðið leggur til er afskaplega fátæklegt. Ég vil hafa það í miklu veigameira hlutverki, miklu veigameira. Ég vil nota það sem við höfum, fullskipaðan Hæstarétt. Fullskipaður Hæstiréttur myndar Lögréttu. Og þingmenn geta vísað þangað frumvörpum sem þeir telja að stangist á við stjórnarskrá, en almenningur getur líka vísað þangað málum ef hann telur að eitthvað ákvæði í lögum stangist á við stjórnarskrá. Ef Hæstiréttur lendir í þeirri stöðu eins og með öryrkjadóminn eða með kvótadóminn, setur hann á sig nýjan hatt fullskipaður og er Lögrétta og ákveður hvort þetta ákvæði í lögum standist stjórnarskrá. Þar með held ég að Lögrétta væri komin með virkilega flott hlutverk og kostaði lítið, ekki neitt.

Ég vil breyta því með því að breyta 79. gr. fyrst og síðan færu menn í vinnu við að breyta allri stjórnarskránni, en ég tel að ferlið sem er í þessum tillögum sé allt of létt. Meiri hluti Alþingis getur breytt stjórnarskrá, bara einfaldur meiri hluti — reyndar ekki í mannréttindamálum, þá fer það í atkvæðagreiðslu — en þetta er svo létt. Meira að segja einhver stemning í þjóðfélaginu getur komið fram ákveðinni stjórnarskrárbreytingu. Ég held þetta sé hættulegt. Við megum ekki hafa stjórnarskrána þannig að hún sé að breytast svona sí og æ vegna þess að þetta er grundvöllurinn, þetta er grundvöllur sem við öll tryggjum. Hún þarf að vera seig og það þarf að vera erfitt að breyta henni, en samt verður það að vera mögulegt.

Þess vegna vil ég að meiri hluti hv. nefndar sem flytur þetta mál og fær þetta til umsagnar, að hann bæti við bréf sitt til Feneyjanefndarinnar að skoða frumvarp mitt um 79. gr. og breytingu á henni, þannig að það skoði líka að breytingarnar séu bindandi og að þær verði ekki of léttar og ekki of erfiðar. Ég er með ákveðna þröskulda í mínum tillögum, þröskulda hérna á Alþingi, 40 þingmenn, þröskulda í þjóðfélaginu, að 50% kjósenda skuli samþykkja. Menn geta rætt það, kannski má hafa það 47% kjósenda, kannski má hafa eitthvað lægra. Eftir því sem við höfum það lægra þeim mun auðveldara verður að breyta stjórnarskrá og við þurfum að varast að sé of auðvelt, en það má heldur ekki vera svo erfitt að það gerist aldrei eins og mér skilst að sé í Danmörku.

Svo kem ég að því; hvað er eiginlega stjórnarskrá? Ég er ekkert viss um það að menn átti sig á því hvað stjórnarskrá er. Í mínum huga er stjórnarskrá mannréttindi og ekkert annað. Stjórnarskrá á að fjalla um mannréttindi. Hún á að fjalla um það hvernig ég sem einstaklingur í þjóðfélaginu og aðrir einstaklingar í þessu þjóðfélagi erum verndaðir og varðir fyrir öðrum einstaklingum. Það má t.d. ekki drepa neitt okkar, ég held að það sé númer eitt, það má ekki drepa neinn. Af hverju segjum við það bara ekki beint? Það er íslenska sem allir skilja. Ekkert okkar má drepa. Punktur. Það skilja allir. Þá má enginn ráðast á mig á götu og drepa mig og það er varið í stjórnarskrá.

Síðan finnst mér að málfrelsi og eignarréttur og annað slíkt vera mannréttindi. Það viljum við tryggja.

Svo eru kröfur á annað fólk, t.d. réttur barna á framfærslu foreldra. Réttur öryrkja og aldraðra á framfærslu og svo framvegis, þ.e. kröfur eins hóps á annan hóp. Ég vil að þetta séu jafnvel tvískipt réttindi; réttindi fyrstu gráðu, það er það sem ég legg mikið upp úr, frelsi einstaklingsins. Það er ekki einu sinni tryggt í þessum stjórnarskrárdrögum, að menn skuli vera frjálsir. Það er ekki sagt í drögunum að við skulum vera frjáls. Ég veit t.d. ekki hvort mansal væri leyft, ég er búinn að reyna að átta mig á því. Þetta þarf náttúrlega að vera alveg á tæru.

Ég hef nefnt nokkrum sinnum í kvöld rétt ófæddra til lífs. Hann er ekki tryggður. Það þykir mér miður. Auðvitað veit ég að það eru jaðartilfelli, hvenær verður manneskjan til, en það gerist örugglega ekki í vikunni fyrir fæðingu, það er löngu, löngu fyrr. Þannig að ég tel að stjórnarskráin sé aðallega mannréttindi.

Til þess að tryggja mannréttindi, hvað gerum við þá, frú forseti? Við stofnum ríki. Við stofnum ríki til þess að tryggja mannréttindi, lögreglu, dómsvald, löggjafarvald. Löggjafarvaldið tryggir og útfærir það hvernig mannréttindi skulu færð í lög, hvernig skal vinna með mannréttindin og síðan koma dómstólar og dæma og framkvæmdarvaldið framkvæmir. Svo til þess að halda þessu aðskildu og vernda borgarana fyrir ríkinu sem slíku, þrískiptum við því til þess að vernda þá.

Þetta er mín hugsun og sýn með stjórnarskrána. Þess vegna vil ég að mannréttindakaflinn sé númer eitt. Ég er sáttur við þetta fororð sem er í tillögum stjórnarandstöðunnar, mér finnst það fallegt, en að mannréttindi komi númer eitt, það mundi ég vilja. Það mundi ég vilja að nefndin hefði hugrekki til að flytja kaflann þangað. Ég held að það sé nú ekki mikið mál.

Svo vil ég að stjórnarskráin sé ekki með skrúðmælgi. Það er hræðilegt ef menn eyðileggja stjórnarskrána með skrúðmælgi. Allir eiga rétt til að lifa með reisn. Hvað þýðir það eiginlega? Hvað þýðir það eiginlega að lifa með reisn? Maður á líknardeild, lifir hann með reisn? Getur hann vísað í það að í stjórnarskránni standi að hann eigi að lifa með reisn og maðurinn er að deyja? Hvernig ætla menn að útfæra svona?

Ég held að það sé miklu betra að hafa stjórnarskrána tæra og skýra þannig að svona 80% af þjóðinni skilji hana án þess að þurfa lögfræðing til þess að útskýra málið fyrir sér. Ég tel nefnilega að stjórnarskrá sé heimspekilegt vandamál en ekki lögfræðilegt. Ég vil að hún sé á einföldu máli og án skrúðmælgi, menn forðist það að vera að blanda einhverju öðru en því sem þeir ætla nákvæmlega að segja inn í hana.

Ég hef rætt hérna um jöfnun atkvæðisréttar. Ég vil hafa hann jafnan. Það truflar mig dálítið að vera að tala um hóp kjósenda. Hópur kjósenda í mínum huga er flokkur, bara svo menn viti það. Menn eiga bara að tala um flokka. Það er íslenska, þannig að menn séu ekki að fara út í svoleiðis tilfæringar.

Svo er allt of mikið í þessari stjórnarskrá sem á bara að vera í lagasafninu. Við eigum ekki að vera að taka inn í stjórnarskrá heilmikið um þingsköp og heilmikið af málum sem hefur verið sett inn í stjórnarskrá.

Svo ætla ég rétt aðeins að klára þetta með því að ræða um samskipti þjóðar og þings.

Hér er tillaga um það að 2% þjóðarinnar geti lagt fram lagafrumvarp. Almáttugur, hver einasti þingmaður, 63 geta lagt fram lagafrumvarp, forsetinn að auki. Ef væri einhver hópur manna 2% þjóðarinnar með tilbúið lagafrumvarp með greinargerð og öllu saman og hann fyndi ekki einn þingmann til að leggja það fram, það væri nú undarlegt. Þar með væri málið leyst.

Svo er talað um að 10% geti lagt fram lagafrumvarp sem Alþingi eigi að ræða fram og til baka. Það er gefið í það heilt ár, ég hugsa að ferlið allt taki svona eitt og hálft til tvö ár og fram og til baka og þetta er eiginlega deila kjósenda við Alþingi. Er ekki miklu heiðarlegra að segja bara að 15% kjósenda geti krafist atkvæðagreiðslu um þingrof eða vantraust á Alþingi ef það er orðið svona mikið? Þingrof og í kjölfarið kosningar. Væri það ekki miklu heiðarlegra? Mér finnst að menn þurfi að ræða svona hluti, séu ekki að koma með einhverja vitleysu hingað inn eins og ég tel að þessi 10% regla sé. Svo getum við rætt um hvort mörkin eigi að vera 10%, 15% eða 12%, en það er hlutverk nefndarinnar.



[23:33]
Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að því leytinu sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég lít fyrst og fremst á stjórnarskrána sem mannréttindaskrá. Okkur skilur hins vegar að í því að mér finnst hugrekki að leggja það til að taka inn í stjórnarskrá eins og það sem hv. þingmaður kallar að lifa með reisn. Ég tel að það að lifa með reisn sé að hafa alltaf það besta sem þjóðfélagið getur boðið upp á í þeirri ömurlegu stöðu sem hægt er að vera í. Það er talað um að deyja með reisn, það er hægt. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það sé skrúðmælgi. Hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á því öllu saman. Er hans staða sú að hann geti beygt eitthvað af sinni mjög svo ákveðnu braut í þessu? Hann segir að hitt og þetta sé vitleysa, eitthvað er gott. Ef það er fólk hér inni sem finnst eitthvað af því sem honum finnst vitleysa, er hann tilbúinn að ræða það eða á bara að henda því?



[23:35]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti minnir þingmenn á að ávarpa þingmenn fullu nafni og beina máli sínu til forseta.



[23:35]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög tilbúinn til að fallast á meiri hluta. Ég hef lagt fram hugmyndir um breytingar með rökum og ég vil að þeim sé tekið eða hafnað með öðrum rökum sem ég eða meiri hlutinn fellst á, það er fínt mál. Ég er að benda á að það er fullt af atriðum, eins og það sem ég benti á fyrr í kvöld, að ef ráðist er inn í landið förum við ekki að kalla saman Alþingi. Það þarf að bregðast við strax og fara í hernaðaraðgerðir. Þess vegna þarf að standa að hernaðaraðgerðir samkvæmt alþjóðalögum og til varnar landsins sé undanþegið. Það gengur ekki að við séum að kalla saman Alþingi í tvo daga á meðan menn ganga um Reykjavík með hríðskotabyssur og ekki má beita hervaldi, það má ekki beita valdi. Ég hef bent á þetta. Mér finnst það vera rök, eða hvað?

Ég hef bent á margt, margt annað sem þarf að laga eins og til dæmis, og mér skilst að búið sé að taka það inn að einhverju leyti, að setja skuli lög um hitt og þetta og að réttindi fjölmiðla skuli tryggð með lögum. Af hverju stendur ekki bara að fjölmiðlar skuli vera réttháir eða frjálsir? Það stóð að frelsi í fjölmiðlum skyldi tryggt með lögum.

Ég vil ekkert vera að þynna út stjórnarskrána út í að það þurfi atbeina Alþingis til þess að stjórnarskráin virki og gildi. Það eru svona atriði sem ég hef bent á. Ég geri ráð fyrir að menn muni fallast á þau rök að einhverju leyti. Svo eru önnur rök sem menn fallast ekki á, þá er það fínt. Ég ætla ekki að vera neinn alvaldur og einstrengingslegur og segja: Þetta eru mínar hugmyndir og samþykkið þær eða ekki neitt. Það er alls ekki svo. Ég kem með hugmyndir sem ég vil að fái umræðu í nefndinni og á Alþingi. Þess vegna gleðst ég yfir því að hér sé umræða um stjórnarskrána.



[23:38]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans innlegg í umræðuna. Það er áhugavert að geta tekið umræðuna á efnislegum nótum eins og hér hefur verið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal mætir tilbúinn í umræðuna og lýsir því jafnframt yfir að hann sé opinn fyrir því að taka rökum og mótrökum í henni. Það er akkúrat á þann máta sem við þurfum að fara í gegnum þetta ferli á næstu vikum, að menn mæti tilbúnir til að taka umræðuna. Eins og komið hefur fram fyrr í dag, og við þekkjum af fyrri umræðu í málinu, hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal lagt fram ítarlegar útfærslur sínar og athugasemdir við frumvarpið sem var hér fyrr í drögum frá stjórnlagaráði. Það hefur að vísu tekið ákveðnum breytingum en engu að síður liggja hans athugasemdir fyrir. Auðvitað er rétt að fara yfir það. Ég lýsti sjálfur í umræðunni að það eru ákveðnir hlutir sem ég tel áhugaverða og athyglisverða og þess virði að skoða.

Hitt er annað að þótt einstaka þingmenn komi vel nestaðir inn í þessa umræðu er það auðvitað þingið sem reynir sameiginlega að ná sátt og samkomulagi um að skrifa sína stjórnarskrá fyrir þjóðina þó að hvert okkar um sig vildi örugglega, og hefði efni og ástæðu til, útfæra það með sínum hætti. Þess vegna skiptir auðvitað máli að við náum saman um þá þætti og förum yfir þau atriði þar sem eru uppi álit og skoðanir.

Ég hefði gjarnan viljað heyra aðeins meira um tillögur, hugmyndir og sjónarmið hv. þingmanns varðandi kosningafyrirkomulag, persónukjör og annað sem að því lýtur og er í tillögunum sem hafa verið lagðar fram í frumvarpi, og einnig um stöðu og hlutverk forsetans gagnvart stjórnkerfinu. Ef hann gæti farið aðeins nánar yfir þau mál.



[23:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við þurfum að skoða kosningakaflann mjög vel með það að markmiði að reyna að jafna vægi atkvæða allra landsmanna og líka að koma á ákveðnu persónukjöri ef það er möguleiki. Ég veit að Þjóðverjar eru með svona kjör. Fjöldi þingmanna er ekki ákveðinn heldur getur hann sveiflast til eftir því hvernig persónukjörið fer. Ef margir kjósa einn flokk og fólk í öðrum flokki í persónukjöri fjölgar þingmönnum á þýska þinginu. Þess vegna liggur ekki fyrir hvað það eru margir þingmenn á þýska þinginu.

Ég veit ekki hvort þetta er góð lausn en það er örugglega hægt að finna lausn sem menn geta orðið sæmilega sáttir við, að ná þeim markmiðum að jafna atkvæðisrétt um allt land og hafa persónukjör.

Ég vil undirstrika að við eigum að bæta stöðu landsbyggðarinnar með öðrum hætti en með of miklum atkvæðisrétti. Ég hef nefnt að það á hreinlega að borga fyrir það ef menn hafa ekki aðgang að stjórnsýslunni eins og við í Reykjavík. Það á að jafna þann aðstöðumun. Fyrst við hrúgum stjórnsýslunni upp í Reykjavík eigum við bara að borga fyrir það, bæði tíma og ferðir. Það verður kannski til þess að eitthvað af stjórnsýslunni verður flutt út á land.

Ég kem kannski seinna í andsvari inn á hina spurningu þingmannsins en ég tel að við eigum að vinna þetta núna í anda sátta. Það getur vel verið að við náum ekki saman um allt og þá finnst mér við eiga að taka það sem við náum saman um og setja það sem breytingu.



[23:42]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Péturs H. Blöndals að við eigum að fara í þetta verkefni með það að markmiði að leita sátta. Ég held hins vegar að það skipti máli að við náum fram heildstæðri breytingu á stjórnarskránni, eins og kostur er, en séum ekki með það í einhverjum bútasaum með miklum takmörkunum eins og hefur verið í bráðum sjö áratugi.

Varðandi kosningafyrirkomulagið, vegna þess að það hefur komið fram í umræðunni fyrr í kvöld. Það endurspeglast í þeim tillögum, sem eru þó settar fram sem málamiðlun, að það virðist vera langt í land með að fulltrúar landsbyggðar séu sáttir með tillögurnar, eins og við heyrðum fyrr í umræðunni, og að hlutunum sé stillt upp á þann veg að höfuðborgarsvæðið sé að fara fram með ofurvaldi gagnvart dreifbýlisbyggðum. Hv. þingmaður vísaði í persónukjör sem er kosningafyrirkomulag sem til að mynda þekkist í Þýskalandi. Tillögur stjórnlagaráðs gerðu ráð fyrir margvíslegum útfærslum til þess að nálgast þennan jöfnuð gagnvart landinu í heild sinni og gagnvart flokkunum og skoðunum almennings. Maður spyr sig því í fyrsta lagi hvort mögulegt sé að nálgast þessi mál með því að fara fram með breytingar á kosningafyrirkomulaginu í ákveðnum áföngum þannig að það gerist kannski ekki í einu stökki. Þingið hefur auðvitað ákveðnar heimildir til þess hvernig útfærslan er þótt markmiðið samkvæmt stjórnarskránni sé að fara ákveðnar leiðir.

Maður spyr sig líka að því, ef við horfum til nálægra landa í svipaðri landfræðilegri stöðu eins og við, til að mynda Noregs, hvers vegna menn geti náð þar breiðri sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis um rétt samfélagsins til þess að tryggja þennan jöfnuð. Af hverju ættum við ekki að geta gert það líka á Íslandi?



[23:44]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er góð spurning. Mér finnst að við eigum að setja þessi markmið eða tilgang inn í stjórnarskrána og síðan er það verk Alþingis að útfæra hvernig við náum jöfnun atkvæðisréttar og persónukjöri vegna þess að það er ekkert voðalega einfalt. Ég nefni það. Það var rætt um einmenningskjördæmi og landið sem eitt kjördæmi. Tveir pólar. Einmenningskjördæmi geta valdið því að hér myndist gífurlegur lýðræðishalli. Ég geri ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, ef það er einmenningskjördæmi, fengi bara alla þingmennina. (Gripið fram í: Nei, ekki alveg.) Ekki hlæja að þessu. Í Bretlandi erum við með þrjá flokka og það eru alltaf tveir þeirra sem fá þingmenn en einn fær enga. Það er hárrétt. Segjum að það séu margir flokkar, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri með meiri hluta í öllum kjördæmunum fengi hann alla þingmennina. Allir þingmenn yrðu Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki slæmt en mér finnst það ólýðræðislegt. (Gripið fram í: Hann fengi það ekki í Hafnarfirði.) Ekki í Hafnarfirði, það yrði einn samfylkingarmaður á þingi, það verður gaman að sjá hann. Hann kæmist örugglega ekki í ríkisstjórn.

Hvað gerist ef landið er eitt kjördæmi? Flokksræðið vex. Þá er einn maður efstur í hverjum flokki og hann ræður öllu í honum. Þess vegna voru á sínum tíma valin sex kjördæmi, menn eru búnir að gleyma því. Það var sú hugsun á bak við, ekki einmenningskjördæmi, ekki eitt kjördæmi, heldur að hafa þau sex þannig að sex jafnréttháir oddvitar væru í hverjum flokki og flokksræðið minnkaði. Við náum samt þessum tilgangi með því að nálgast einmenningskjördæmin. Það eru 10 í hverju kjördæmi, svona nokkurn veginn, og það þarf 9% fylgi til að koma manni að.