141. löggjafarþing — 40. fundur
 22. nóvember 2012.
sérstök umræða.

staða þjóðarbúsins.

[13:31]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eftir efnahagshrunið gafst Íslendingum tækifæri til þess að taka á vandanum sem því fylgdi með mjög afgerandi hætti. Þau tækifæri voru að nokkru nýtt með setningu neyðarlaganna en það ferli sem var nauðsynlegt og hófst með setningu neyðarlaganna var hins vegar ekki klárað. Við stöndum því enn frammi fyrir miklum vanda vegna þess að tækifærin voru ekki nýtt. Það verður smám saman ljósara hversu stór vandinn er og þar af leiðandi hversu mikil þörfin er fyrir það að bregðast við á afgerandi hátt. Fjárfesting hefur verið vanrækt á undanförnum árum að því marki að gjaldeyrissköpun er ekki næg til að standa undir þeim útgreiðslum sem fyrirsjáanlegar eru að óbreyttu.

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum hvað eftir annað vanmetið stórlega hreina erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins. Síðast í maí á þessu ári áætlaði Seðlabankinn í peningamálum að skuldastaða þjóðarbúsins væri neikvæð um u.þ.b. 50% af vergri landsframleiðslu. Þetta mat hefur smátt og smátt verið hækkað, bæði hjá Seðlabankanum og raunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum líka, sem í síðustu þremur skýrslum sínum hefur jafnt og þétt hækkað mat sitt á því hver skuldastaða íslenska þjóðarbúsins er. Nú virðist blasa við að ef fram heldur sem horfir munum við, íslenska þjóðarbúið, ekki geta aflað nægs gjaldeyris til að standa straum af vaxtagreiðslum og öðrum greiðslum vegna þessa skuldastabba.

Þó að skuldastaða ríkisins gæti vissulega verið verri, eins og við sjáum dæmi um víða í Evrópu, bætast við miklar erlendar skuldir íslenskra lögaðila sem færa skuldastöðuna það hátt að nýjasta mat, m.a. hagfræðiprófessorsins Ragnars Árnasonar, gerir ráð fyrir því að þegar tekið hefur verið tillit til uppgjörs á þrotabúum bankanna verði hrein erlend skuldastaða í kringum 100% af vergri landsframleiðslu, geti orðið um 1.600 milljarðar króna. Miðað við nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu mála á Íslandi sem birtist fyrr í þessum mánuði eru nettóáhrif þrotabúanna þar af 30–40% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru gífurlega háar upphæðir sem breyta algjörlega möguleikum okkar á því að standa straum af vaxtakostnaði, þ.e. þjóðarbúsins, svo framarlega sem ekki verði gripið þarna inn í.

Jafnframt sjáum við af þessum nýjustu tölum og uppfærðum tölum Seðlabankans að það hefði verið óframkvæmanlegt fyrir íslenska ríkið að bæta Icesave-vöxtunum ofan á þá vexti sem fyrirséð er að muni þurfa að greiða úr landi í erlendri mynt. Ef Icesave-samningar hefðu verið samþykktir á sínum tíma væri ekki með nokkru móti hægt að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ísland stefndi í þrot eða væri komið í þrot.

En enn er hægt að leysa vandann. Enn er hægt að grípa þarna inn í. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra, og það er tilefni þessarar umræðu: Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin bregðast við stöðu þjóðarbúsins svoleiðis að afborganir af þessum skuldum, bæði einkaaðila, sveitarfélaga og ríkisins, verði sjálfbærar? Ef ekkert verður að gert mun, samkvæmt spá sem fyrrnefndur Ragnar Árnason háskólaprófessor hefur gert og birtist í Morgunblaðinu í dag, skuldastaðan fara stöðugt versnandi næstu 60 árin og verða 230% af vergri landsframleiðslu. Það mun að sjálfsögðu fela í sér gríðarlega kjaraskerðingu fyrir Íslendinga alla og ófyrirséðar afleiðingar, hugsanlegan landflótta, draga úr öllum möguleikum okkar á að byggja upp íslensk atvinnutækifæri, íslenska framleiðslu og vinna okkur út úr vandanum. Með öðrum orðum, það stefnir í mjög hættulega neikvæða keðjuverkun sem setur efnahag landsins í voða. Því er fullt tilefni til þess að stjórnmálamenn, ríkisstjórnin ekki hvað síst og hæstv. forsætisráðherra, bregðist við þeim vanda og skýri (Forseti hringir.) með hvaða hætti verði tekið á honum.



[13:36]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Stöðu þjóðarbúsins tel ég vera góða miðað við aðstæður og hagvaxtarhorfur hér á landi eru bjartari en meðal annarra iðnvæddra ríkja að mati bæði innlendra og erlendra sérfræðinga. Ný spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 2,5% hagvexti á þessu ári og fer vaxandi næstu ár og verður 3,75% samkvæmt spánni 2015. Þetta sýnir að verðmætasköpun í samfélaginu er að aukast.

Allt þetta ár hefur atvinnuleysi verið að minnka og starfandi einstaklingum er að fjölga á ný eftir að hafa fækkað töluvert í kjölfar hrunsins. Á síðasta ári jókst hlutur atvinnuvegafjárfestinga í landsframleiðslu í fyrsta sinn frá árinu 2006, eða um 25%. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 10 milljarða innspýtingu í fjárfestingar í innviðum samfélagsins og í græna hagkerfinu og ný könnun Seðlabankans um fjárfestingaráform innlendra fyrirtækja bendir einnig til þess að fjármunamyndunin verði meiri í ár en áður var gert ráð fyrir.

Staða heimila og fyrirtækja er jafnt og þétt að batna á ný. Heildareignir að frádregnum heildarskuldum námu yfir 1.800 milljörðum um síðustu áramót og höfðu aukist um tæp 17% á milli ára. Skuldir fyrirtækja og heimila eru nú 280% af landsframleiðslu, en voru 510% þegar það náði hámarki haustið 2008. Skuldir heimila og fyrirtækja frá hruni hafa því lækkað um næstum helming sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er auðvitað brýnt að ljúka endurskipulagningu skulda fyrirtækja og heimila sem fyrst, ekki síst endurútreikningum ólögmætra gengislána.

Eitt helsta verkefni kjörtímabilsins hefur verið að stoppa upp í um 300 milljarða fjárlagagat. Ekkert bendir til annars en að rekstur ríkissjóðs verði nánast sjálfbær á næsta ári. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin staðið fyrir stórfelldri hækkun vaxta og barnabóta, lækkun skattbyrði um 60% allra heimila, auknum útgjöldum til velferðarmála og stórauknum tekjujöfnuði í samfélaginu.

Sé litið til skulda hins opinbera er talið að þær hafi náð hámarki á síðastliðnu ári þegar þær námu 101% af landsframleiðslu. Á þessu ári munu þær lækka í um 97% af landsframleiðslu.

Hrein skuldastaða hins opinbera er hins vegar 66% af landsframleiðslu í ár, en gert er ráð fyrir að þær lækki og nemi 53% af landsframleiðslu í lok árs 2015. Skuldir hins opinbera eru hérlendis svipaðar og í ýmsum öðrum iðnríkjum og staðreyndin er sú að íslenska ríkið ræður vel við skuldir sínar og á ekki við skuldakreppu að stríða.

Mikilvægt er að fjármagnshöftum verði aflétt eins fljótt og auðið er. Þar verðum við þó að fara með mikilli gát og tryggja með öllum tiltækum ráðum að lífskjör almennings verði varin fyrir mögulegu gengishruni og óðaverðbólgu.

Umræðan um fyrirhugaða nauðasamninga gömlu bankanna er á nokkrum villigötum. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um að þetta mál er og verður eitt af stóru málunum á borði þessarar ríkisstjórnar, Seðlabankans og Alþingis. Það er hins vegar alveg ljóst að Seðlabankinn fékk yfirráð yfir útgreiðsluferlinu með lögunum frá 12. mars sem er afar mikilvægt. Seðlabankinn hefur því regluvaldið þegar kemur að útstreymi gjaldeyris og hann mun ekki setja neinar reglur sem gætu ógnað hér lífskjörum eða markmiðum um fjármálastöðugleika, en það er mjög mikilvægt þegar litið er til efnahagsþróunar og inn í framtíðina að vel sé að þessu máli staðið.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að vinna þetta mál áfram í sátt og senda erlendum kröfuhöfum þau skýru skilaboð að pólitísk staða á Íslandi breyti engu um meðhöndlun þeirra því að einhugur sé um að ganga eins langt í vörn fyrir íslenska hagsmuni og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa. Ég tel mikilvægt að við getum verið sammála um það og náð samstöðu um hvernig á eigi að taka og hvernig standa eigi að afnámi gjaldeyrishaftanna. Þetta eru stóru málin inn í framtíðina sem ég vona að við getum náð sæmilega breiðri sátt um.

Frú forseti. Aukinn hagvöxtur, minna atvinnuleysi, lægri skuldir, minnkandi verðbólga, jafnari lífskjör, og meiri bjartsýni á meðal heimila og fyrirtækja eru allt merki um að við séum á réttri leið og að ríkisstjórnin hafi (Forseti hringir.) með margvíslegum hætti brugðist rétt við. En auðvitað er margt óunnið en allir helstu hagvísar sýna að það er merki um batnandi hag hér á landi.



[13:42]
Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu um stöðu þjóðarbúsins og þakka jafnframt forsætisráðherra fyrir sýn hennar á málið. Ég tel að staða íslenska þjóðarbúsins sé býsna alvarleg, þ.e. í þeim skilningi að ef ekki verður gripið til réttra ráðstafana getur stefnt í mjög mikið óefni. Hins vegar eru góðu fréttirnar þær að ef rétt er haldið á málum getum við Íslendingar unnið okkur mjög hratt út úr þessari stöðu, út úr höftunum, út úr þeirri stöðnun sem hefur verið viðvarandi frá því þessi nýja ríkisstjórn tók við, sem hefur ekki sýnt langtímahagvexti neinn alvörustuðning. Ekki hefur verið unnið með þeim sem hafa viljað koma hingað og fjárfesta á Íslandi.

Sú staða sem dregin er upp, og hæstv. ráðherra og málshefjandi hafa komið inn á, og snýr að gjaldeyrishöftunum er þessi: Við Íslendingar munum ekki framleiða þann gjaldeyri sem þarf til þess að standa í skilum við þær skuldbindingar sem þjóðarbúið hefur gengist undir. Það er staðan. Út af fyrir sig er rétt að ríkið hefur ekki tekið á sig allar þessar skuldbindingar en sú staðreynd að þjóðarbúið er með þessar kröfur á sig er mjög alvarleg. Þess vegna skiptir höfuðmáli að vel takist til við að ljúka uppgjöri bankanna og að sjálfsögðu er það óþolandi staða að nú fjórum árum eftir hrun sé fullkomin óvissa um það í hvaða höndum allar stóru fjármálastofnanirnar á Íslandi eru. Hverjir eru eigendur þeirra? Þetta er eins óheilbrigt ástand í einu landi og það getur helst orðið. Hverjir eiga fjármálakerfið á Íslandi? Þetta er auðvitað algjörlega óásættanleg staða, fullkomlega.

Leiðin fyrir okkur Íslendinga er að örva fjárfestingar, auka framleiðni. (Forseti hringir.) Það eru tækifæri til sóknar í öllum hefðbundnu framleiðslugreinunum og við getum dregið hingað heim nýjar fjárfestingar á nýjum sviðum. Við þurfum að framleiða okkur út úr þessari stöðu.



[13:44]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu þjóðarbúsins, horfurnar og á hvaða stað við erum.

Það má auðvitað halda nokkra tölu um stöðu þjóðarbúsins fyrr og nú. Staðan í dag hefur kannski sjaldan verið verri, hún hefur oftast nær verið betri allan lýðveldistímann en einmitt í ár og undanfarin ár. Staðan í dag er hins vegar betri en hún hefur verið frá hruni. Ef við reynum að leggja mat almennt á stöðu þjóðarbúsins undanfarin ár og áratugi hefur hún sjaldan verið verri, en hún er miklu betri en hún var þegar allt hrundi í hausinn á okkur árið 2008 og allar vísbendingar benda í þá átt að staðan muni batna hægt og bítandi og örugglega á næstu missirum og árum.

Mér datt í hug áðan þegar formenn stjórnarandstöðuflokkanna héldu ræður sínar í þessari umræðu, umræða sem átti sér stað í þessum sal fyrir tveim til þrem árum síðan og fjallað var um Parísarklúbbinn, hvort ekki væri rétt að við segðum okkur til sveitar og gengjum til liðs og mundum sækja um í hinn svokallaða Parísarklúbb eftir liðsinni og fá þar inni. Sýn þeirra á framtíðina er svartsýni, þ.e. þeir eru svartsýnir á framtíðina. Þeir virðast telja sjálfum sér trú um það, jafnvel þótt þeir trúi því ekki alveg sjálfir, að það sé svart fram undan og miklu, miklu verra en nokkurn mann órar fyrir. Það er þeirra trú á framtíðina. Það er þeirra boðskapur sem þeir flytja inn í þingið, inn í samfélagið, að sýnin sé svört, það geti jafnvel allt verið við það að hrynja aftur í hausinn á okkur. En hvar eru vísbendingarnar um það? Hvar eru merkin (Forseti hringir.) um það og þau rök byggð á þeim málflutningi sem fór fram áðan hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni? Þau eru ekki í neinum (Forseti hringir.) þeim opinberu gögnum sem þingmenn (Gripið fram í.) hafa.



[13:46]
Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Þetta er brýn og þörf umræða. Ég þakka framsögumanni, hv. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að brydda upp á henni.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda og skiptir ekki máli þó að hæstv. forsætisráðherra telji upp tölur eða formaður fjárlaganefndar tali um hvað menn séu svartsýnir. Við búum við það að skuldir þjóðarbúsins eru gríðarlegar. Skuldir ríkisins eru gríðarlegar, skuldir flestra sveitarstjórna eru gríðarlegar og skuldir heimila eru gríðarlegar. Þær skuldir eru til komnar vegna þess froðuhagvaxtar og þeirrar bólu sem varð fyrir hrun og hrundi svo algjörlega til grunna.

Skuldastaðan er einfaldlega orðin slík. En stjórn og stjórnarandstaða vill ekki viðurkenna að ekki er hægt að vinna sig út úr þeirri stöðu með fjárfestingu eða hagvexti. Skuldsetningin er orðin allt of mikil til að það sé hægt. Það er eitthvað sem menn þurfa að fara að leiða hugann að og við höfum verið að benda hér á í rúmlega þrjú ár. Eina leiðin út úr þeirri stöðu er sú að stórfelldar afskriftir og niðurfellingar skulda þurfi að fara fram á öllum þeim vígstöðvum sem ég taldi upp.

88 milljarðar kr. bara í vexti af skuldum ríkissjóðs á ári er staða sem þarf ekki að horfa nema örstutt á til að sjá að verður aldrei staðið við nema grunnstoðum samfélagsins verði slátrað. Það er þegar byrjað. Við vitum það, við sjáum það úti um allt. Við sjáum það í löggæslunni, menntamálum og heilbrigðismálum. Þetta vilja menn ekki viðurkenna.

Ég tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan að ástandið í þessum málum er eins óheilbrigt og það getur orðið. Það er meðal annars óheilbrigt vegna þess að fólk vill ekki viðurkenna það heldur kemur hingað upp eina ferðina enn, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason og talaði um Parísarklúbbinn, fólk sem hefur ekki hugmynd um hvað Parísarklúbburinn er, hvað hann (Forseti hringir.) gerir, hvers vegna hann var stofnaður, og vill ekki heldur horfast í augu við það að Ísland mundi aldrei fara í neinn Parísarklúbb, því það (Forseti hringir.) er ekki á hans umráðasvæði að meðhöndla skuldir þjóða eins og (Forseti hringir.) Íslands. Þetta er því dapurleg umræða.



[13:49]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Margir gerðu lítið úr skuldavandanum fyrir hrun og gera enn. Fyrir hrun prentuðu bankarnir peninga með útlánum sem þeir gerðu að innstæðum. Útlánin voru notuð til að fjármagna kaup á hlutabréfum og fasteignum og verð þeirra hækkaði með aukinni peningaprentun. Við bankahrunið féll verð á hlutabréfum og fasteignaverð lækkaði ásamt því að útlán fóru í vanskil. Nafnverð verðbréfanna á bak við upphaflegu útlánin lækkaði hins vegar lítið og hrægammasjóðir keyptu bréfin á hrakvirði.

Í fjögur ár hafa stjórnvöld afneitað skuldavandanum. Á meðan hafa hrægammasjóðir fengið sem nemur 50% af þjóðarframleiðslu í erlendum gjaldeyri úr þrotabúunum. Hrægammasjóðir vita að stjórnvöld geta stoppað greiðslur úr búunum. Þeir hafa því markvisst bætt samningsstöðu sína með kaupum á kröfum í þrotabú, lánveitingum til fyrirtækja, ásamt uppkaupum á ríkisskuldabréfum og fasteignum.

Herra forseti. Það er ekkert um að semja við hrægammasjóði. Við framleiðum okkur ekki út úr vandanum nema með því að ganga á auðlindir komandi kynslóða. Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar dugar vart til að borga af núverandi skuldum, hvað þá af skuldabréfi í erlendum gjaldeyri.

Aðeins ein leið er fær. Leggja verður háan skatt á eignir þrotabúanna í gegnum til dæmis upptöku nýkrónu. Þannig verður til gjaldeyrir til að hleypa restinni út og tryggja lífskjör almennings.

Herra forseti. Hugsum í lausnum sem gefa þjóðinni von.



[13:51]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var tvennt sem olli mér verulegum áhyggjum í ræðu eða svarræðu hæstv. forsætisráðherra. Annars vegar mantran um að hér gangi allt vel og tiltekin sjónarmið eru höfð frammi um að hagvöxtur sé á bilinu 2–3,5% meðan allir vita að við þyrftum að hafa a.m.k. 5% hagvöxt til að skila nægilega miklu til að standa undir þeim skuldbindingum sem við erum með. 25% aukning fjárfestinga í atvinnulífi, en frá hvaða tölu? Lægstu fjárfestingu Íslandssögunnar. Því miður er ekkert að marka þetta og ég hef áhyggjur af því.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því sem kom fram í svarræðu hæstv. forsætisráðherra, léttúðinni yfir skuldastöðunni, að vilja ekki gera sér grein fyrir hver skuldastaðan er. Kannski er það að hluta til vegna þess að Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa verið að endurmeta skuldirnar látlaust og við höfum aldrei fengið rétt svör, eins og málshefjandi, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á í inngangi sínum. Það er auðvitað alveg ótrúlegt að við skulum ekki hafa þær tölur. En mér finnst mun alvarlegra að léttúð hæstv. forsætisráðherra gagnvart þessu skuli vera þvílík að segja að þetta mál sé meira og minna allt í höndum Seðlabankans og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Hvar er hin pólitíska forusta?

Í ummælum sem höfð eru eftir hv. þm. Árna Páli Árnasyni í blaðaviðtali segir hann, með leyfi forseta:

„Að mínu viti hefur umgjörðin í tengslum við afnám gjaldeyrishafta aldrei verið hluti af peningalegu sjálfstæði Seðlabankans. Þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra var forustan um afnám hafta á minni hendi. Þannig að það er alveg skýrt að það er hin pólitíska forusta sem hefur valdið í þessum efnum.“

Það er akkúrat það sem skortir. Tækifærin eru sannarlega til staðar á Íslandi, þau hafa hins vegar ekki verið nýtt síðustu árin. Þau gefa okkur þá von að við getum komist út úr þessu. Það þarf að taka annars vegar á skuldavandanum með hörku og hins vegar að setja (Forseti hringir.) þá framleiðni í gang sem er möguleg á landinu og byggir á þeim tækifærum sem íslenskar auðlindir og mannvit gefa tilefni til.



[13:53]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forsætisráðherra og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir innlegg þeirra í dag og fagna þeim samhljóm sem er í málflutningi þeirra gagnvart erlendum kröfuhöfum. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að þau skilaboð séu þverpólitísk og skýr.

Alþingi stendur einhuga að baki Seðlabankanum í því að gæta ýtrustu þjóðarhagsmuna í þeim efnahagslegu ákvörðunum sem taka þarf á næstu missirum. Með mars-lögunum hefur bankinn fengið þau tæki sem hann þarf til að standa þann vörð en þurfi hann á frekari tækjum að halda mun ekki standa á Alþingi við að veita honum þau.

Ég hef ítrekað úr þessum stól varað við óraunsæjum væntingum um skjótt afnám gjaldeyrishafta. Ég fullyrði og fagna því að fleiri eru að átta sig á því að óraunsæjar væntingar um það hamla því að við getum unnið úr vandanum. Það er nefnilega þannig að aflandskrónueigendur og erlendir kröfuhafar þurfa að átta sig á því að þær krónur sem hér eru innlyksa fara ekki neitt. Það eina til hagsbóta fyrir íslenskt þjóðarbú og þessa aðila sem hægt er að gera við þær krónur er að fjárfesta, fjárfesta og fjárfesta í gjaldeyrisskapandi starfsemi á Íslandi. Því aðeins verða búin til einhver þau verðmæti sem unnt væri með tíð og tíma að flytja út úr landinu.



[13:55]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfstætt vandamál hversu langan tíma það hefur tekið að komast að því hver raunveruleg skuldastaða þjóðarbúsins er. Það er vægast sagt gagnrýni vert að Seðlabankinn hafi ítrekað þurft að endurskoða spár sínar og áætlanir um skuldir. Ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi að athuga það sérstaklega hvernig á því stendur að vafi sé um það hér svo hundruðum milljarða munar hvað íslenska þjóðarbúið skuldar. Það mál finnst mér vera þess eðlis að það hlýtur að vera á forgangslista hæstv. forsætisráðherra að fara yfir það hvernig á slíku getur staðið.

Hitt er það sem stendur upp á hæstv. forsætisráðherra að svara en hún kemur sér undan því. Hvernig hyggst hún í ríkisstjórn sinni borga þær skuldir sem á okkur hvíla? Allt tal um að hagvöxturinn sé mun meiri en í öðrum löndum skiptir auðvitað engu máli. (Gripið fram í: Nú?) Það skiptir auðvitað engu máli þegar litið er til þess að við getum ekki borgað þær skuldir sem á okkur hvíla. Það er ekki hægt að bera sig saman við aðrar þjóðir öðrum megin en ekki hinum megin. Menn verða að sjá það að til að geta greitt skuldirnar þarf að skapa gjaldeyri. Hvað er þessi ríkisstjórn að gera í því? Hvernig gengur ríkisstjórninni að efla gjaldeyrisskapandi verkefni? Hvernig tekur ríkisstjórnin á móti erlendum fjárfestingum? Hverjar eru horfurnar þar?

Að tala síðan um að 25% aukning í atvinnuvegafjárfestingu sé mikil, 25% aukning af engu, af því lægsta sem við höfum nokkurn tímann séð. Að segja að það sé dæmi um að atvinnuvegafjárfestingin sé komin á gott skrið er auðvitað ekki boðlegur málflutningur, hæstv. forsætisráðherra.

Ég held að löngu tímabært sé, virðulegi forseti, að menn fari að tala um stöðuna eins og hún er. Að sjálfsögðu getum við unnið okkur út úr þessum vanda en til þess þurfa menn að taka nauðsynlegar ákvarðanir, átta sig á því hver skuldastaðan er og fara að skapa gjaldeyri. Hvenær ætlar hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að byrja á því?



[13:57]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skiptar skoðanir kunna að vera á því hvernig meta eigi árangur í ríkisfjármálum og hvort viðunandi árangur hafi náðst eftir hrun. Stjórnvöld hafa tekið á málum. Tölurnar tala sínu máli svo ekki er um að villast. Við erum á réttri leið.

Á hrunárinu 2008 var fjárlagahallinn 216 milljarðar. Með því að grípa strax til aðgerða tókst að ná honum niður í 140 milljarða árið 2009. Samkvæmt áætlunum verður ríkissjóður hallalaus árið 2014. Það skiptir sköpum að þeim árangri var náð með blönduðum aðgerðum aðhalds og tekjuaukningar sem eiga sinn þátt í að staðan er nú mun betri en gert var ráð fyrir að hún yrði á þessum tímapunkti. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að hlífa grunnþjónustunni en ná fram meiri hagræðingu í almennri stjórnsýslu og rekstri ríkisins. Er það til samræmis við markmið stjórnvalda um að verja velferðarsamfélagið.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lagt áherslu á að nota skattkerfið ásamt félagslegum stuðningi til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Við hvers kyns ráðstöfun fjármuna hefur verið reynt að beina þeim til þeirra sem helst þurfa á þeim að halda. Það er af sem áður var.

Í aðdraganda hrunsins var að hætti nýfrjálshyggjumanna svigrúm í fjárlögum hverju sinni helst notað til að lækka skatta hjá vel stæðum einstaklingum með lækkun á fjármagnstekjuskatti og arðgreiðslum. Því þurfti að breyta og það höfum við gert.

Þegar horft er til aðhaldsaðgerða hefur þolmörkum vissulega víða verið náð og álag á starfsfólk orðið umtalsvert. Sem betur fer höfum við nú tækifæri til að vinna okkur upp á við aftur þó enn þurfi að gæta aðhalds.

Í þessum sal hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar mótmælt svo gott sem öllum skattahækkunum. Það er alvarlegt umhugsunarefni sem vert er að staldra við. Hver væri staðan í skólum landsins og á sjúkrahúsum ef engir skattar hefðu verið hækkaðir heldur skorið tvöfalt meira niður en hingað til hefur verið gert?

Sagt hefur verið að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. Það er hægt að taka undir þau orð og fagna þeim árangri sem rauðgræn ríkisstjórn hefur náð í þeim efnum.

Hver var valkosturinn við leið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar? Það hlýtur að hafa verið leið Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem hefði falið í sér harkalegan niðurskurð og áframhaldandi einkavæðingu.

Við skulum því fagna því sem (Forseti hringir.) fagna ber. Við höfum starfhæfa skóla og sjúkrastofnanir, stjórnsýslan virkar, atvinnuleysi fer minnkandi. Hagvöxtur er með því besta sem þekkist í Evrópu. Og eyðingaröfl (Forseti hringir.) frjálshyggjunnar eru blessunarlega í stjórnarandstöðu.



[14:00]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að geta haldið hér áfram. Ég talaði áðan um að eina leiðin út úr þessum vanda væru stórfelldar afskriftir eða niðurfellingar skulda. Hagvaxtarumræðan er einfaldlega ekki viðeigandi í þessu ástandi, það mun aldrei duga til að tala um einhvern hagvöxt til að komast út úr þessari stöðu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan. Skilvirkasta leiðin út úr stöðunni virðist vera einhvers konar skiptigengisleið með upptöku nýkrónu þar sem mismunandi tegundir eigna og skulda eru færðar yfir í nýja mynt með mismiklum áföllum. Öðruvísi er mjög erfitt að eiga við þetta mál.

Við búum við þá stöðu að enn þá, fjórum árum eftir hrun, er eignarhald á fjármálafyrirtækjum óljóst. Við vitum ekki hver á fjármálafyrirtækin í landinu. Fjármálaeftirlitið neitar að veita upplýsingar. Ég hefði seint trúað því að við mundum sitja uppi með Fjármálaeftirlit sem væri eins eða verra en það Fjármálaeftirlit sem var fyrir hrun, en því miður virðist staðan vera sú.

Uppbygging fjármálakerfis á öðrum forsendum en fyrir hrun hefur algjörlega mistekist. Fjármálamenningin er sú sama. Fyrirtækjamenningin er sú sama. Talað hefur verið um og var sagt áðan að aflandskrónueigendur og kröfuhafar ættu að nota peningana sína í innlenda fjárfestingu. Þeir eru að því. Þeir eru að kaupa upp íbúðir og íbúðarhúsnæði í stórum stíl í Reykjavík. Hvað þýðir það fyrir íslenska íbúðareigendur og fyrir hagkerfið í heild? Hvers konar staða er komin þar upp þegar kröfuhafar og aflandskrónueigendur eiga orðið stóran hluta af íbúðarhúsnæði? Það hefur ekkert verið skoðað. Þetta er villta vesturs ástand og því miður er það þannig. Fjögur ár hafa verið til að taka ærlega til en það hefur ekki verið gert nema í litlum mæli.

Mig langar að enda orð mín á því að benda mönnum á að allt tal um hagvöxt og að hægt sé að vaxa út úr þessum vanda með auknum hagvexti er (Forseti hringir.) í rauninni alveg óraunhæft. Vandinn er of stór til þess.



[14:02]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka góða umræðu. Ég var þó misánægður með svör stjórnarliða í dag. Ég get tekið undir ræðu hv. formanns efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvars, en aðrar ræður stjórnarliða fjölluðu um eitthvað allt annað en við ættum að vera að ræða. Þar voru furðuyfirlýsingar á borð við það hjá hæstv. forsætisráðherra að við ættum ekki við skuldakreppu að stríða. Á sama tíma gerir íslenska ríkið erlendan gjaldeyri upptækan til að það og aðrir aðilar geti staðið straum af erlendum skuldum.

Enn er talað um hagvöxtinn sem varð til vegna falls gjaldmiðilsins og notkunar á séreignarsparnaði og tímabundinna, vonandi ekki svo tímabundinna, makrílveiða. Fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og talar um sérstaka fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem áður voru bara hefðbundin verkefni ríkisins og dugar ekki einu sinni til að ná fjárfestingu hins opinbera upp í eðlilegt horf við þessar aðstæður.

Svo er enn og aftur talað um tekjujöfnuð. Hvernig varð hann til? Með því að tekjur allra lækkuðu og rýrnuðu. Atvinnuleysið sem enn er að minnka, atvinnuleysistölur fara jú lækkandi, en hafa orðið til ný störf? Nei, það vantar nú eitthvað upp á það. Á sama tíma verður ekki til sá gjaldeyrir sem við þurfum til að standa straum af erlendum skuldum þjóðarbúsins. Það er hin einfalda staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að bregðast við því. Þess vegna þarf skýra sýn frá hæstv. forsætisráðherra um hvernig eigi að bregðast við þeim vanda. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að bregðast við honum með því að framleiða aukinn gjaldeyri og með því að grípa inn í það ferli sem nú á sér stað og er líklegt til þess að auka enn á útgreiðslur í erlendri mynt. Sé ekki brugðist við með mjög afgerandi hætti er staðan ekki góð. Þess vegna þurfum við forustu frá hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum.



[14:04]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg óþarfi af hv. stjórnarandstöðu að reyna að skapa ótta um stöðu þjóðarbúsins og koma því inn hjá þjóðinni að hér sé allt í kalda koli. Það er bara ekki svo. Það hefur komið fram hjá Seðlabankanum að hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins sé viðráðanleg eftir að þrotabúin hafa verið gerð upp. Hér er kallað eftir því og sagt að stjórnvöld hafi ekkert gert í því að borga niður skuldir. Hvað höfum við gert? Það kom fram í máli mínu áðan að skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um 200% af landsframleiðslu á þremur árum. Mér finnst það alveg ótrúlegur árangur. (Gripið fram í.) Hvað höfum við gert varðandi ríkissjóð? Við erum að ná honum niður í jafnvægi, sennilega á næsta ári úr 300 milljörðum. Ég tel að það sé gífurlega mikill árangur.

Það kemur hér mjög misvísandi fram hjá stjórnarandstöðunni, þ.e. sjálfstæðismenn tala um að hagvöxtur skipti engu máli meðan framsóknarmenn tala um að hann sé allt of lítill. Síðan komu fram áhyggjur af gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Það er nú svo að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands hafa í tvígang fyrir fram greitt komandi gjalddaga á lánum tengdum efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðs til að lækka kostnað á gjaldeyrisforðanum.

Ég tel að engin alvarleg staða sé varðandi gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins ef frá er skilið það sem við þurfum að skoða vel og er verið að reyna að ná fram, þ.e. endurfjármögnun á Landsbankabréfinu.

Þegar við erum að tala um erlendar skuldir og framleiðni á gjaldeyri liggja spár þannig að við getum lækkað hreinar skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu nokkuð hratt miðað við undirliggjandi viðskiptajöfnuð næstu ára sem er áætlaður um 2–3% af landsframleiðslu, en viðskiptaafgangur af þessari stærðargráðu og hagvöxtur (Forseti hringir.) í kringum 3% ætti að skila því.

Ég tel því alveg óþarfa að vera með svona svartagallsraus varðandi stöðu þjóðarbúsins. Við þurfum að vinna (Forseti hringir.) vel úr málum og við erum að gera það.