141. löggjafarþing — 41. fundur
 23. nóvember 2012.
störf þingsins.

[10:32]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú í vikunni var haldinn fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins. Nefndin var sett á laggirnar samkvæmt tillögu í meirihlutaáliti Alþingis þegar aðildarumsóknin um aðild að Evrópusambandinu var send inn. Það var gert til að tryggja aðkomu þingsins og þátttöku í viðræðunum.

Ég verð að byrja á jákvæðum nótum, ég tel afar mikilvægt að nefnd þessi starfi vegna þess að upplifun mín af fundi um þessi mál í Strassborg í vikunni var sú að þingmenn á Evrópuþinginu, og ekki síður stækkunarstjóri Evrópusambandsins, voru ekki alveg með það á hreinu hvernig andrúmsloftið á Íslandi væri. Ég held að þessir aðilar fái ekki alla jafnan skilaboðin beint í æð eins og á fundinum í Strassborg.

Skoðanaskipti voru góð, umræður voru góðar. Við spurðum ýmissa spurninga. Stækkunarstjóranum, Stefan Füle, taldist til að 21 spurningu hefði verið beint til hans sem hann svaraði reyndar ekki heldur flutti hann frekar almenna tölu áður en hann þurfti að yfirgefa fundinn. Füle ætlar að senda okkur svörin skriflega og við munum ganga eftir því, þar á meðal við spurningum eins og hvenær sjávarútvegskaflinn verði opnaður og öðrum sem snúa beint að viðræðunum.

Ég ítreka mikilvægi þess að Evrópuþingið og Evrópusambandið (Forseti hringir.) fái að heyra báðar hliðar þessa máls, hver raunveruleg staða (Forseti hringir.) aðildarumsóknarinnar er á Íslandi, ekki bara einhliða mærðarræður (Forseti hringir.) frá íslenska utanríkisráðuneytinu.



[10:35]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú berast af því fréttir að hjúkrunarfræðingar segi unnvörpum upp störfum hjá ríkinu og tel ég það mjög alvarlegar fréttir. Íslenska ríkið og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga undirrituðu síðast kjarasamning við fjármálaráðherra 4. júní 2011. Í þeim samningi segir að stofnanasamningur sé hluti af kjarasamningi. Stofnunarsamningar hafa ekki verið endurnýjaðir eins og loforð voru gefin um hjá fjármálaráðherra og er það m.a. þess vegna sem uppsagnir eiga sér stað á heilbrigðisstofnunum og spítölunum.

Þingflokkur Framsóknarflokksins brást við því nú á dögunum og fékk Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga til sín á þingflokksfund til að fara yfir stöðuna. Þar kom fram að launaflokkar ríkisins eru 18 en hjúkrunarfræðingar eru fastir í flokki 6 og 7, sem er mjög alvarlegt því að með einu handtaki er hægt að hækka þessa stétt um flokka og verðmeta þau störf rétt sem hjúkrunarfræðingar vinna.

Það vakti sérstaka athygli mína að starfsmenn Stjórnarráðsins, sem eru með sambærilega menntun og hjúkrunarfræðingar, hafa hækkað um tæp 22% á þessu tímabili. Hér er því mikil mismunun á ferðinni, virðulegi forseti.

Það er einkar sérkennilegt í ljósi þess að þessi ríkisstjórn fór fram með mikil loforð um launajafnrétti, að konur og karlar skyldu fá svipuð laun fyrir sambærileg störf. Það skyldi þó ekki vera að hjúkrunarfræðingar, þessi fjölmenna kvennastétt sem telur rúmlega 2.000 manns, sitji eftir hjá norrænu velferðarstjórninni vegna þess að það eru konur sem þiggja þessi laun?



[10:37]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um kynbundinn launamun eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og ítreka að nú er tækifæri hjá ríkisstjórninni til að gera myndarlega gangskör í að leiðrétta laun stórs hóps sem er að langstærstu leyti konur — ég held að karlar séu 1% eða 2% hjúkrunarfræðinga hér á landi — að setja í gang endurmat á stofnanasamningum. Launaflokkarnir eru 18, eins og fram hefur komið, en hjúkrunarfræðingar raðast hæst í 7. flokk þannig að það eru 11 launaflokkar eftir. Það er merkilegt að við metum þessi störf ekki hærra en svo þegar gerðir eru stofnanasamningar. Kannski skýrir það að einhverju leyti þann óútskýrða, kynbundna launamun sem menn hafa talað um á liðnum vikum og mánuðum og reyndar í allt of mörg ár.

Hér er klárlega tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að sýna frumkvæði í verki en setja málið ekki bara í nefnd rétt fyrir kosningar og tala um að nú eigi að fara að gera eitthvað í lok kjörtímabilsins, heldur að gera alvörugangskör í því að reyna að leiðrétta þennan ósanngjarna og óskiljanlega kynbundna launamun. Það er ótrúlegt að á árinu 2012 skuli menn ekki enn vera búnir að átta sig á því að sambærileg störf eiga að fá sambærilegar greiðslur óháð því hvort um er að ræða karlastörf eða kvennastörf. Ég vil því hvetja ríkisstjórnina til að gera betur og ekki síst hæstv. forsætisráðherra sem hefur oft og tíðum talað nokkuð digurbarkalega um þessi mál án þess að nokkuð hafi skilað sér í þeim efnum.



[10:40]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum nokkuð fjallað um endurútreikning gengislána og er ástæða til að fagna ánægjulegum fréttum frá Íslandsbanka í gær en bankinn hefur ákveðið að endurreikna 8 þús. lán auk þeirra 6 þús. lána sem áður hafði verið ákveðið að endurreikna. Það þýðir að Íslandsbanki endurreiknar 14 þús. lán hjá sér. Gengið er fram með líkum hætti og Arion banki gerir sem hefur ákveðið að endurreikna bæði lengri og skemmri lán hjá sér, en því miður stendur enn á einum viðskiptabankanna, þ.e. Landsbankanum sem hefur ákveðið að endurreikna aðeins 2–3 þús. lán. Má segja að staðan á milli þessara banka sé þá um það bil 14:2. Það er auðvitað óviðunandi að stærsti viðskiptabanki landsins sé með tugi þúsunda samninga undir og sé ekki tekinn til við að endurreikna nema lítið brot af þeim þegar gengnir eru ítrekaðir dómar í Hæstarétti og október er liðinn og nóvember að verða liðinn.

Ég hef gert ráðstafanir til þess að viðskiptabankarnir, Lýsing og Drómi, komi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á þriðjudaginn og geri grein fyrir stöðu þessara mála hjá sér. Við hljótum að vonast eftir því að næsta vika færi okkur, eins og þessi vika, fréttir af bönkum sem tekið hafa ákvarðanir um að endurútreikna þúsundir og aftur þúsundir af lánasamningum því að það á að endurreikna þá samninga. Dómar eiga standa.



[10:41]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hafa nokkur mál verið viðruð í störfum þingsins. Mig langar að koma inn á nokkur þeirra, einkum og sér í lagi það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson nefndu varðandi kynbundinn launamun sem er að sjálfsögðu meinsemd í samfélagi okkar og við þurfum að vinna á. Hún er því miður ekki ný af nálinni og í skrifum hjúkrunarfræðinga hefur komið fram að launamunurinn og þau laun sem hjúkrunarfræðingar búa við hafa ekki batnað frá því fyrir hrun. Á árunum fyrir hrun var þessi launamunur til staðar og jafnvel meiri. Það er auðvitað umhugsunarvert að á hinum svokölluðu góðærisárum hafi þessari mikilvægu stétt heilbrigðisstarfsmanna verið boðið upp á þau laun sem raun ber vitni.

Ég tek undir með hv. þingmönnum um að það er meinsemd sem vinna þarf á, ekki bara tala um heldur taka raunverulega á. Það hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda að gera það, fara í endurmat á stofnanasamningum eins og hér hefur verið nefnt.

Ég ætla líka að nefna það og fagna því sérstaklega að 1. umr. um stjórnarskrármálið lauk í gær. Það mál er nú komið til nefndar. Ég fagna því að vinna við það mikilvæga mál haldi nú áfram. Það fær meðferð í þingnefnd og vonandi vinnur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hratt og vel þannig að við fáum að taka málið til 2. umr. áður en langt um líður.

Ég fagna því jafnframt að í dag er á dagskrá umræða um rammaáætlun sem er eitt af stórum málum núverandi ríkisstjórnar. Það er mjög þýðingarmikið mál, það er stórt í sniðum og þess sér stað í mjög ítarlegum nefndarálitum. Þar koma fram alls konar sjónarmið, sem er eðlilegt í svo stóru máli. Uppi eru ólík sjónarmið en vonandi tekst okkur að vinna okkur fram úr því þannig að við fáum góða (Forseti hringir.) og heildstæða rammaáætlun áður en yfir lýkur.



[10:44]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau sjónarmið og þá brýningu sem komið hefur fram hjá ýmsum þingmönnum hvað varðar það að eyða þeirri meinsemd sem kynbundinn launamunur er, að við beitum okkur fyrir samstilltu þverpólitísku átaki til að útrýma honum. Það er óþolandi að við séum enn að kljást við hann á þeirri öld sem nú er.

Ég kveð mér hins vegar hljóðs til að taka á allt öðru máli úr allt annarri átt. Það er mál sem ég stóð fyrir sérstakri umræðu á á sínum tíma og varðar velferð dýra. Fyrir liggur þinginu mikilvægt frumvarp um velferð dýra þar sem ýmsar réttarbætur er að finna. Ég og fleiri þingmenn sem kvöddum okkur hljóðs á sínum tíma töluðum öll fyrir því hversu mikilvægt það væri að Alþingi tæki af skarið og styrkti stoðir þess umhverfis sem leitast við að tryggja betur velferð dýra.

Ég hefði gjarnan viljað fá þetta mál inn í umhverfis- og samgöngunefnd en ég vil hvetja atvinnuveganefnd til að greiða götu þess hið fyrsta en fara jafnframt ofan í saumana á því sem enn þarf að bæta í frumvarpinu og það sem er borið út af því sem sérstök nefnd lagði til. Það varðar m.a. geldingu grísa og drekkingu minka. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé bætt og að í framhaldinu séu lagðar línur um það hvernig við ætlum að taka á verksmiðjubúskap, á kerfisbundinni, óþolandi vanvirðingu í garð dýra og líðan þeirra. Það er einn grunnþátturinn í samfélaginu að mínu mati (Forseti hringir.) að við sýnum mannúð og virðingu fyrir vellíðan dýra á allan hátt.



[10:46]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á yfirlýsingum forustumanna úr atvinnulífinu annars vegar og hins vegar forustumanna Alþýðusambands Íslands um stöðuna í kjaramálum. Það er augljóst að sú krafa er uppi af hálfu Alþýðusambandsins, og fyrir því hefur forseti þess talað, að það þurfi hér að hækka laun til að mæta verðlagsþróun.

Á sama tíma liggur það fyrir að síðustu kjarasamningar voru mjög ríflegir og byggðu á því að hagvöxtur yrði umtalsvert meri en raun varð á. Kjarasamningar sem eru umfram hagvöxt, sem er ekki innstæða fyrir, kalla á hækkun verðlags. Það var einmitt það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við í skýrslu sinni, það er hinn forni fjandi víxlverkan launa og verðlags.

Nú hafa menn heyrt yfirlýsingar forustumanna Alþýðusambands Íslands og þær ber að taka alvarlega. Það ber að taka það alvarlega þegar forseti ASÍ talar með þeim hætti sem hann hefur gert, og það er alvarlegt mál fyrir okkur ef verðbólgan fer aftur af stað. Það þýðir að Seðlabanki Íslands mun hækka stýrivexti sína, eins og reyndar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mælt með. Það mun þýða að það verður pressa m.a. á þau heimili sem tekið hafa lán með breytilegum vöxtum, óverðtryggð lán, þau munu horfa upp á afborganir sínar hækka hratt þar af leiðandi. Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin taki mark á þessum yfirlýsingum og breyti efnahagsstefnu sinni þannig að það verði hér innstæða fyrir kjarabótum.



[10:48]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að tala á sömu nótum og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði áðan varðandi Evrópusambandið. Ég vil líka að það komi fram að þegar stækkunarstjóri sambandsins var spurður um undanþágur frá reglum sambandsins kom skýrt fram að ekki er hægt að veita undanþágur frá lagaramma sambandsins. Það hljótum við öll að skilja, það er auðvitað ekki hægt að veita undanþágu frá lögum og það á að sjálfsögðu við um íslensk lög líka.

Mig langar að vekja athygli á einu undarlegu máli. Á heimasíðu Neytendasamtakanna er frétt þar sem fram kemur að fulltrúar Bændasamtakanna hafi gengið út af fundi samningahóps um landbúnaðarmál í þessum viðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að ekki er tekið fram í samningsafstöðunni að Ísland ætli að halda tollvernd gagnvart vörum frá Evrópusambandinu eða öðrum ríkjum.

Það er mjög sérkennilegt fyrir þingmann sem situr í utanríkismálanefnd að lesa um samningsafstöðuna í fjölmiðlum. Við erum bundin trúnaði í utanríkismálanefnd um samningsafstöðuna, við megum ekki ræða hana. Svo eru fulltrúar í samningshópnum eins og Neytendasamtökin að tala um þetta úti um allar jarðir að mér heyrist. Við hljótum því að gera alvarlegar athugasemdir varðandi það að svo virðist sem utanríkismálanefnd sé bundin trúnaði en þeir sem eru í samningshópunum séu ekki bundnir trúnaði. Enn og aftur, forseti, óska ég eftir því að tekið verði á þessari stöðu utanríkismálanefndar.

Svo vil ég benda á annað. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason var ráðherra landbúnaðarmála gaf hann út erindi eða sendi bréf til þeirra sem vinna að viðræðunum um hver væri samningsafstaða ráðuneytisins, þ.e. hvaða línu það hefði gefið. Hún reyndist vera sú að ekki er samið um afnám tollverndar. Við hljótum því að spyrja: Er nýr atvinnuvegaráðherra og landbúnaðarráðherra búinn að breyta þeirri stefnu? Er búið að skrifa nýtt bréf þar sem fram kemur að (Forseti hringir.) óhætt sé að gefa eftir tollvernd?

Frú forseti. Þetta er undarlegt mál sem við hljótum að krefjast að fá skýringu á.



[10:51]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, Gunnari Braga Sveinssyni. Ég held að þörf sé á að fara aðeins yfir stöðuna á þessu sviði.

Ég vil líka vekja athygli á þeim ummælum sem féllu í upphafi umræðunnar hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur þar sem hún sagði frá fundi úti í Strassborg. Við sem heima sitjum höfum heyrt frekar misvísandi fréttir af þeim samtölum og viðræðum sem þar áttu sér stað. Hvað sem því líður eru þau tvö atriði sem þessir tveir hv. þingmenn nefna í umræðunni ákveðin vísbending og merki um vandræðagang sem er á stöðu aðildarumsóknarinnar.

Ég minnist þess að áður en þing kom saman í haust, í ágúst eða í byrjun september, var svo að heyra á talsmönnum annars ríkisstjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, a.m.k. tveimur ráðherrum úr ríkisstjórninni og raunar einnig formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að ástæða væri til að taka stöðu aðildarumsóknarinnar og aðlögunarferlisins til endurskoðunar í haust. Það voru býsna skýrar yfirlýsingar hjá hæstv. ráðherrum, Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, og í kjölfarið fylgdi síðan hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Ég veit ekki hvort yfirlýsingar þeirra tengdust umræðu sem átti sér stað á tilteknum flokksstjórnarfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þetta leyti, en ég verð að játa að lítið hefur frést af málinu síðan. Ég vek athygli á því vegna þess að við margir í þinginu bundum vonir við að einhver meining væri á bak við þetta, að það væri einhver alvara í því að ríkisstjórnarflokkurinn, sem í orði kveðnu er andvígur aðild (Forseti hringir.) að ESB, ætlaði að taka málið til endurskoðunar. En síðan hefur ekkert heyrst.



[10:53]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í gær hlýddum við á umræðu um stöðu þjóðarbúsins. Ég saknaði þess í þeirri umræðu að enginn hafði litið á málið heildstætt. Vandinn felst í eignum erlendra kröfuhafa hér á landi, bæði vegna gamalla jöklabréfa og vegna föllnu bankanna.

Ef maður lítur á heildarmyndina er þetta um það bil þannig að kröfuhafarnir eiga á Íslandi 2.000 milljarða í gjaldeyri og 1.200 milljarða í krónum, samtals 3.200 milljarða, gífurlegar fjárhæðir. Ef það tækist að fá niðurfellingu á því um 20% væru það um 600 milljarðar og það mundi leysa krónuvandann að miklu leyti, af því að það kæmi inn á krónuvandann. Þetta er mjög mikilvægt og varðar eiginlega þjóðaröryggi að við höfum tangarhald á þeim 2.000 milljörðum sem eru í eigu þrotabúanna og notum það sem þátt í því að semja við kröfuhafana um lausn á vandanum.

Ég hef spurt um hvað íslenskt þjóðarbú geti framleitt mikinn gjaldeyri, það er ný hugsun. Ég spurði Seðlabankann að því fyrir nokkru síðan, það eru tvær, þrjár vikur síðan, því að við getum ekki greitt kröfuhöfunum nema við framleiðum til þess gjaldeyri með útflutningi á fiski, á áli, á ferðamannaþjónustu.

Ég tel mjög brýnt að þingmenn allra flokka standi saman að því að leysa málið. Þetta er miklu stærra mál en svo að það varði einhverja flokkshagsmuni eða prófkjör eða jafnvel kosningar. Þetta er eitthvað sem við verðum að leysa saman á hinu háa Alþingi og ég vil gjarnan að menn sjái myndina í heild sinni. Við megum ekki missa tökin á þeim 2.000 milljörðum sem eru í erlendum gjaldeyri og eru eignir þrotabúanna.



[10:55]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með málefni hjúkrunarfræðinga. Hér á landi starfa 2.800 hjúkrunarfræðingar en fram til ársins 2020 munu 950 hjúkrunarfræðingar fara á lífeyri en einungis 900 koma til starfa.

Það leiðir hugann að því að sá fjöldi hjúkrunarfræðinga sem nú er starfandi á vegum íslenska ríkisins og hér á landi er nákvæmlega heildarþörfin hjá Norðmönnum. Þá vantar nú tæplega 3.000 hjúkrunarfræðinga til starfa og árið 2035 verður hjúkrunarfræðingaþörf Norðmanna 28.000, sem eru tíu sinnum fleiri hjúkrunarfræðingar en starfa hér á landi.

Það eru alvarleg tíðindi, frú forseti, sérstaklega í ljósi þess að Norðmenn sækja mjög í íslenska hjúkrunarfræðinga. Við eigum frábært starfsfólk og það er ekki nema von að Norðmenn sæki hingað til hjúkrunarfræðinga okkar þegar þörfin úti er svo brýn. Það er kannski m.a. þess vegna sem hjúkrunarfræðingar eru nú farnir að segja upp á Landspítalanum.

Hæstv. forsætisráðherra kom fram í fréttum fyrir örfáum dögum og sagði það vera óþolandi ástand að standa frammi fyrir launamun kynjanna. Hún talaði eitthvað á þeim nótum að aðilar mundu alltaf finna sér leið til að viðhalda kynjabundnum launamun.

Ég vil minna á það, frú forseti, að valdið í þessu máli liggur hjá ríkisstjórninni, þetta er samningsmál milli félagsins og ríkisins og ég skora því á hæstv. forsætisráðherra, sem hefur alla tíð verið talsmaður jafnréttis, að ganga nú í það að semja við hjúkrunarfræðinga, þá fjölmennu kvennastétt, og sýna það í verki að hún meinar það sem hún segir.



[10:57]
Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í Fréttatímanum í dag er frétt þar sem vitnað er í Norrænu hagtölubókina frá 2012 sem kom út í fyrradag. Þar er samanburður á útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála Norðurlandaþjóðanna á hvern íbúa. Fram kemur að við verjum minnst allra í þessa málaflokka og í fréttinni er haft eftir forstjóra Landspítalans að framlög til heilbrigðismála séu fjórðungi lægri nú en fyrir fimm árum. En það sem vekur athygli mína er að við verjum mest allra Norðurlandaþjóða til menningarmála.

Virðulegi forseti. Við þurfum að forgangsraða. Án þess að ég geri lítið úr mikilvægi menningar fyrir okkur finnst mér að við þurfum að velja og hafna og forgangsraða þegar staða ríkissjóðs er eins þröng og raun ber vitni. Ég vildi koma því á framfæri þar sem er enn verið að vinna við fjárlagagerðina. Það hlýtur að vekja meiri hlutann til umhugsunar um það þegar skera þarf niður hvar við skerum niður og í hvað við setjum peningana.

Einnig væri forvitnilegt að skoða og bera saman tölur á framlögum til löggæslu sem svo mikið hafa verið í umræðunni. En spurningin er alltaf: Hversu mikla peninga höfum við og í hvað eigum við að setja þá? Það er þessi forgangsröð sem alltaf er verið að ræða. Peningarnir hljóta að þurfa að fara í grunnþjónustu, í heilbrigðismál, í menntamál, í löggæslu, eitthvað sem við getum ekki verið án.

Að sjálfsögðu vil ég að við setjum peninga í menningu en við þurfum aðeins að skoða hvað er að gerast fyrst staðan er orðin svona.



[11:00]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka heils hugar undir með hv. síðasta ræðumanni. Ég lýsi mig algerlega sammála því sem hún sagði að við þær aðstæður sem nú eru uppi í ríkisfjármálum er algert lykilatriði að horft sé í hverja einustu krónu og skal fjármunum skattgreiðenda varið af raunsæi og með réttu forgangsröðunina að leiðarljósi. Með því að leggja umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til hliðar mætti til dæmis spara fleiri hundruð milljónir. Kostnaðurinn við það brölt mun nema að minnsta kosti 1 milljarði þegar því er lokið og það finnst mér sóun á fjármunum þegar við erum að velta fyrir okkur hverri krónu.

Ég kem líka hingað til að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um hversu óþolandi er að lesa um það á vefsíðu samtaka úti í bæ hver samningsafstaða Íslands í landbúnaðarmálum eigi að vera í því aðildarferli. Neytendasamtökin eru af einhverjum ástæðum ekki bundin trúnaði í þeirri vinnu sem samningahópur um landbúnaðarmál eins og við í utanríkismálanefndinni erum. Ég verð að segja að það ástand er fullkomlega óþolandi og ég lýsi því eiginlega yfir að ég neita að viðhafa þennan trúnað þegar í ljós kemur að um þetta er rætt á opinberum vettvangi hingað og þangað um bæinn. Ég ítreka kröfu mína og ósk um opinn fund í utanríkismálanefnd til að ræða sérstaklega stöðuna í XII. kaflanum og almennt hvernig farið er með aðkomu Alþingis og trúnað á þeim upplýsingum.



[11:02]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær lukum við umræðu um stjórnarskrármálið, breytingar á stjórnskipun Íslands. Það var málefnaleg umræða og mörg sjónarmið sem þar komu fram. Ég vona svo innilega að meiri hlutinn hafi lagt ríkt við hlustir í því máli þótt ég verði að viðurkenna að í lok ræðu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar túlkaði ég það alla vega þannig að það væri áframhald á þeirri vegferð sem meiri hlutinn hefur verið á að þetta mál skyldi keyrt í gegn með litlum breytingum. En ég vona innilega að menn séu tilbúnir að hlusta á pakkann í heild sinni og hlusta á þau sjónarmið sem þar koma fram til að breikka samstöðuna um það mikilvæga mál.

Á eftir ætlum við að ræða rammaáætlun. Sú vinna sem þar hefur verið á hendi meiri hlutans og ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar hefur verið sama marki brennd. Þar hefur verið gengið nokkuð skarpt fram að mínu mati og öfgar sem ég vil telja að í aðra áttina hafi fengið að njóta sín meira en ella. Afleiðingin verður sú að plagg eins og rammaáætlun, sem var faglega til stofnað og menn bundu miklar vonir við að væri leið til að ná sáttum milli ólíkra afla í samfélaginu, verður pólitísk stefnumörkun sem hver ríkisstjórn mun þá væntanlega leggja fram að nýju í framtíðinni.

Því vil ég segja núna áður en umræðan hefst að í gær áttum við að frumkvæði formanns Framsóknarflokksins umræður við hæstv. forsætisráðherra um stöðu þjóðarbúsins. Þar var hæstv. forsætisráðherra að guma sig af gríðarlega miklum hagvexti umfram önnur lönd meðan við vitum að hér þarf að vera að minnsta kosti 5% hagvöxtur til að við getum staðið undir þeim skuldbindingum sem við erum með og til að standa undir því velferðarkerfi og launum sem við viljum greiða fólkinu sem vinnur meðal annars hjá hinu opinbera og í samfélaginu öllu. Þess vegna þarf meðal annars að skoða rammaáætlunina og önnur atvinnuskapandi tækifæri með opnum huga og opnari huga en gert hefur verið til þessa.



[11:05]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli á öðru máli er tengist þessu Evrópubrölti öllu saman. Ég verð að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af því. Við vitum að háskólasamfélagið hefur oft verið gagnrýnt fyrir náin samskipti við atvinnulífið og ég hef ekki alltaf verið sammála því. Ég held að það sé mjög gott fyrir háskólasamfélagið.

Svo fer maður að velta hlutunum fyrir sér. Nýverið óskuðu samtök sem heita Þjóðráð eftir samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um að standa fyrir málþingi. Því var hafnað af hálfu Alþjóðamálastofnunar. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem sitja í stjórn þeirrar ágætu stofnunar og ég ætla, frú forseti, að vera býsna hreinskilinn, hafi of mikil áhrif á það hvernig hún starfar. Í stjórninni er ágætisfólk. Þarna eru fulltrúar háskólans sem ég geri engar athugasemdir við, prýðisfólk allt saman. Síðan er í stjórn stofnunarinnar deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, forseti Alþýðusambands Íslands og fyrrum formaður eða framkvæmdastjóri Já Íslands. Ég velti því fyrir mér hvort stofnunin geti talist sérstaklega óháð með þá þrjá kumpána í stjórn hennar. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég efast um það. Ég hef miklar áhyggjur af því að þeir þrír sem allir vinna að inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafi rík áhrif og mikil á það hvernig stofnunin starfar. Það er slæmt og að mínu viti ekki til eftirbreytni. Ég skora hreinlega á þá að segja sig úr stjórninni og að aðrir verði skipaðir þarna inn til að auka trúverðugleika hennar.