141. löggjafarþing — 42. fundur
 29. nóvember 2012.
neytendavernd á fjármálamarkaði.

[11:01]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftirlit eða neytendavernd á fjármálamarkaði hefur verið í skötulíki hér á landi. Mjög lítil og hefur valdið heimilum landsins ómetanlegu tjóni.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hvar hún hyggist staðsetja neytendavernd á fjármálamarkaði, hjá Fjármálaeftirlitinu eða Neytendastofu, og hvort það sé ekki ástæða til að stórefla neytendavernd.

Tilefni þeirrar spurningar er að hér hafa verið ólögleg gengistryggð lán í sjö ár án þess að neinn segði neitt, markvisst voru seld stofnbréf og hlutabréf til sparisjóðseigenda án þess að neinn segði neitt. Á sparnaði eru neikvæðir vextir sem eru meira að segja skattaðir og enginn segir neitt. 55 þús. heimili töpuðu um 80 milljörðum kr. á hlutabréfaeign og 13 þús. heimili hafa tapað á raunlækkun húsnæðis, alls um 45 milljörðum kr., og enginn segir neitt.

Hér er notkun almennings á yfirdrætti, sem er skuld án gjalddaga, einsdæmi miðað við önnur lönd. Svo er í gangi hérna útgáfa lánsveða og ekki þarf að nefna hvað þau hafa valdið miklu tjóni.

Að síðustu verð ég að nefna smálánafyrirtækin sem hafa komið upp á yfirborðið og við stöndum einhvern veginn varnarlaus gegn. Vandinn er sá að neytendavernd á fjármálamarkaði er á tveimur stöðum: Hjá Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu. Það er ekki klár verkaskipting á milli og enginn virðist sinna því af fullum hug.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að bæta úr neytendavernd á fjármálamarkaði.



[11:03]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór vítt og breitt yfir sviðið og tók á ýmsu því sem hafa komið upp sem afleiðingar hrunsins og við höfum verið að taka á í gegnum þau þrjú eða fjögur ár sem mín ríkisstjórn hefur setið. Ég get tekið undir ýmislegt sem hv. þingmaður segir um neikvæða vexti og yfirdráttarlánin sem eru einsdæmi og o.s.frv. og hafa verið vandamál lengi. Gengistryggðu lánin þekkjum við nú öll og í þeim er verið að vinna og reyna að ná utan um það mál sem ég held að gangi vel.

Þannig að neytendavernd er nú kannski víða í samfélaginu. Hún er líka hjá ríkisstjórninni vegna þess að við höfum verið að taka á því með margvíslegum hætti og erum núna að taka á því sem hv. þingmaður nefndi líka, lánsveðin sem eru stórmál sem hefur tekið allt of langan tíma að taka á. Það er fundur í dag um þau mál og fleiri sem snúa að skuldavanda heimilanna í sérstökum ráðherrahópi sem er að skoða þau. Við skulum vona að það komist einhver niðurstaða í málið. Það hefur dregist allt of lengi sökum tregðu lífeyrissjóðanna.

Sama gildir um smálánafyrirtækin. Það er hér í þinginu og þar eigum við náttúrlega að ganga eins langt og hægt er til þess að koma í veg fyrir að smálánin séu bara notuð sem okurstarfsemi, eins og hefur verið reynslan.

Varðandi hvar á að vista neytendaverndina. Ég tel alveg sjálfsagt að taka á því og skoða hvar það er best gert. Það hefur ekki verið nægjanlega vel gert, að mínu viti, að því er varðar í Fjármálaeftirlitinu, eins og hv. þingmaður nefndi. Hann nefndi Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu.

Síðan þurfum við að skoða betur, í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á Stjórnarráðinu, hvar í því sé best að vista neytendaverndina. (Forseti hringir.) Það er eitt af því sem við erum að skoða í framhaldi á þeim breytingum sem hafa orðið á Stjórnarráðinu.



[11:05]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Mér fannst það ekki fullnægjandi. Það á að skoða og athuga. Hefur hæstv. ríkisstjórn enga stefnu í því máli? Hvar ætlar hún að vista neytendavernd á fjármálamarkaði? Ég tel mjög brýnt að hún sé á einum stað og ég tel að Neytendastofa eigi að hafa hana á sinni könnu og eigi þá virkilega að bera ábyrgð á því.

Við horfum upp á að heimili landsins hafa orðið fyrir óskaplegu tjóni. Menn hafa verið plataðir til að kaupa hlutabréf. Aldraðir hafa verið plataðir til að kaupa hlutabréf sem svo hurfu og sparnaðurinn fór. Einstaklingar nota yfirdrætti eins og að drekka vatn. Það vantar illilega neytendavernd á fjármálamarkaði, illilega, og ég sé engin merki þess, hvorki í fjárlögum né annars staðar, að það eigi að gera nokkuð af viti í þeim málum.

Þannig að ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka sig nú á.



[11:06]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan erum við náttúrlega að taka á neytendamálum, raunverulega frá degi til dags. Á ótal mörgum ríkisstjórnarfundum er verið að fjalla um málefni sem snerta fjölskyldur og neytendur í landinu með einum eða öðrum hætti. Það er ekki síst skuldavandi heimilanna sem við höfum verið að taka á og gífurlega miklir peningar hafa verið settir í. Það vantar eftirlitsþátt með ýmsu í samfélaginu og við sjáum náttúrlega alveg það sem við fórum í gegnum varðandi hrunið, þar brugðust eftirlitsaðilar mjög mikið.

Hv. þingmaður höfðar hér sérstaklega til neytenda og ég er alveg sammála honum í því. Hvort það á að vera Neytendastofa sérstaklega þá hefur hún unnið gott starf og mér finnst það vel koma til greina. Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið hlutverk sem af því verður ekki tekið. Af því að ég held að hv. þingmaður sé sérstaklega að tala um eftirlit varðandi einstaklinga þá tel ég að Fjármálaeftirlitið sé alls ekki fullnægjandi í því efni. (Forseti hringir.) Ég fullvissa hv. þingmann um að neytendamál eru ofarlega á blaði hjá þessari hv. ríkisstjórn og hefur verið allt kjörtímabilið.