141. löggjafarþing — 49. fundur
 8. desember 2012.
dómstólar, 1. umræða.
stjfrv., 475. mál (fjöldi dómara). — Þskj. 613.

[13:08]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði dómstólalaganna sem kveður á um að fjöldi dómara í héraði skuli vera 43 verði framlengt um eitt ár en heimildin fellur úr gildi um næstu áramót.

Þá er lagt til að heimild til að skipa varadómara í Hæstarétt verði rýmkuð. Í kjölfar þess aukna álags sem varð hjá bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti í kjölfar bankahrunsins var gerð breyting á lögum um dómstóla og dómurum í héraði fjölgað úr 38 í 43 og í Hæstarétti úr 9 í 12. Er þessi fjölgun dómara tímabundin að því leyti að eftir 1. janúar 2013 verður ekki ráðið í þær dómarastöður sem losna þar til fjöldi dómara í héraði er aftur orðinn 38 og fjöldi dómara í Hæstarétti er aftur 9. Búast má við því að á næstu tveimur til þremur árum gangi þessi fjölgun hæstaréttardómara til baka og þrír héraðsdómarar munu hætta störfum á næsta ári. Fyrir liggur að álag á dómstólunum er enn mikið þar sem ekki hefur verið leyst úr öllum þeim ágreiningsmálum sem varða slitastjórnir bankanna og mál frá embætti sérstaks saksóknara. Hefur dómstólaráð og Hæstiréttur farið þess á leit við ráðuneytið að gripið verði til aðgerða svo áfram verði unnt að leysa innan ásættanlegs tíma úr þeim málum sem lögð eru fyrir dómstólana.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að framlengt verði til 1. janúar 2014 ákvæði dómstólalaganna um að dómarar í héraði skuli vera 43 en eftir þann tíma verði ekki ráðið í þær dómarastöður sem losna fyrr en dómarar í héraði eru aftur orðnir 38.

Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að skipa varadómara í Hæstarétti í einstökum málum, þó svo að sæti dómara sé ekki autt. Um áramótin fellur úr gildi ákvæði 45. gr. dómstólalaganna sem kveður á um að dómarar í Hæstarétti verði 9. Ekki verður því skipað í þær stöður dómara sem losna eftir þann tíma. Með því að rýmka heimildina til skipunar varadómara verður unnt að fjölga dómurum í Hæstarétti til að takast á við aukinn málafjölda án þess að skipa þá varanlega í embætti. Er lagt til að þessi heimild verði tímabundin og falli úr gildi 31. desember 2016.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að skipa varadómara sem orðnir eru 70 ára úr hópi þeirra sem uppfylla skilyrði dómstólalaga til að gegna embætti hæstaréttardómara. Einnig verði unnt að setja hæstaréttardómara tímabundið í starf dómara sem fengið hefur leyfi frá störfum þó að hann hafi náð 70 ára aldri.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.



[13:10]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessa ræðu. Ég og minn flokkur erum mjög fylgjandi því að dómstólar njóti styrkingar. Þar sem þeir eru hluti af þrígreiningu ríkisvaldsins verður að ríkja um þá sátt og þeir þurfa að vera frjálsir í störfum sínum. Þess vegna gleðst ég yfir því að styrkja eigi þá enn frekar með því í fyrsta lagi að framlengja þetta lagaákvæði um héraðsdómara og svo hitt að með þessu kemur aukið fjármagn og þá er hægt að leysa hraðar úr þeim málum.

Í greinargerðinni kemur fram að munnlega fluttum einkamálum hafi í heildina fækkað en ágreiningsmál sem varða gjaldþrotaskipti hafa tæplega tífaldast. Það kemur fram að þau séu mjög þung og tímafrek í vinnslu. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að áhersla skuli lögð á að dómstólarnir skuli styrktir. Það er öllum til hagsbóta að dómstólarnir vinni hratt og örugglega úr þeim málum sem eru ágreiningsmál.

Eitt af því sem vakti athygli mína í frumvarpinu, og ætla ég að spyrja hæstv. innanríkisráðherra að því, er ákvæði um að rjúfa megi 70 ára aldursskilyrði hæstaréttardómara. Er svo mikill skortur á lögmönnum með þessa reynslu að víkja þurfi frá þessu aldursákvæði? Eða hver er skýringin á því að nú skuli vikið frá því ákvæði að dómarar skuli ekki starfa við réttinn séu þeir orðnir 70 ára?



[13:12]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er gert ráð fyrir því að dómari verði fenginn til að sinna tímabundnum verkefnum en ekki fastráðningu til langs tíma. Þá er talið mjög heppilegt að hægt sé að kalla til starfa einstaklinga sem hafa gegnt þessum störfum og þurfa ekki að setja sig inn í nýtt verklag. Ég held að þetta sé mjög hyggileg ráðstöfun.

Það sama á við um opinbera starfsmenn. Þeir geta tekið að sér verkefni fyrir hið opinbera. Þótt þeir hafi náð 70 ára aldri og þurfi að láta af störfum af þeim sökum, föstum störfum, geta þeir tekið að sér verkefni í hlutastörfum undir 50% eða sinnt tímabundnum verkefnum. Ég lít svo á að við séum hér að fást við svolítið svipaða grunnreglu að þessu leyti.



[13:14]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín prinsippafstaða er sú að lúta eigi þeim reglum sem gilda um aldurstakmörk á vinnumarkaði, sér í lagi þegar atvinnuleysi er mikið í landinu. Það á kannski ekki við um þá aðila sem þetta frumvarp fjallar um, að hægt sé að ráða hæstaréttardómara sem er orðinn sjötugur. Ég geld varhuga við því að slík regla verði að almennri reglu, sérstaklega í ljósi atvinnuleysistalna og þess hve margir háskólamenntaðir sérfræðingar eru atvinnulausir. Segja má að það sé í fyrsta sinn sem svo hefur verið hér á Íslandi og er það eftir haustdagana 2008.

Hér er verið að tala um að þessir hæstaréttardómarar verði ekki fastráðnir heldur verði hægt að leita til þeirra í ákveðnum málum, að þeir komi þá í Hæstarétt og létti af álagi. Eru uppi hugmyndir um að þetta séu aðilar með sérhæfða reynslu af ýmsum málaflokkum? Eiga þessir aðilar að koma inn í dómsmál þar sem dómar eru fordæmisgefandi, þegar dómur er fjölskipaður eins og gjarnan er í fordæmisgefandi málum, eða er það bara hin almenna regla að Hæstarétti sé falið það vald að kalla til þessa aðila þegar mál eru orðin svo mörg hjá réttinum að rétturinn sér ekki fram úr verkefnum sínum? Hvernig er þetta nákvæmlega hugsað en svo virðist sem þessir aðilar eigi bara að koma inn í eitt og eitt mál?



[13:16]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er fyrst og fremst hugsað þannig að þeir komi inn í tiltekin mál og að Hæstiréttur kalli þá til og ég hygg að það sé mjög heppilegt að nýta starfskraftana með þessum hætti. Í störfum fyrir Hæstarétt eins og á öðrum starfsvettvangi þurfa menn að sjálfsögðu að öðlast reynslu. Þeir sem hafa setið þar og gegnt störfum um árabil eru betur til þess fallnir en þeir sem eru að koma nýir til starfa. Þetta er því spurning um að reyna að nýta fjármuni á eins markvissan hátt og hægt er og reynslu og þekkingu manna.



[13:16]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir varðandi þetta mál og ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um þessa 70 ára reglu, að menn geti verið eldri en 70 ára. Ég vil fagna því að það sé verið að leita til þeirra sem hafa almennt meiri reynslu og það á að vera frekar algild regla. Mér finnst miður til dæmis að eitt það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að taka af frítekjumark þeirra sem eru 70 ára og eldri, fólks sem er á besta aldri, getur sinnt ýmsum störfum o.s.frv.

Varðandi þetta sérstaka mál er ég að velta fyrir mér, af því að hér stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þetta felur til dæmis í sér að fyrrverandi hæstaréttardómarar með mikla reynslu gætu tekið sæti í einstökum málum en slíkt ætti að stuðla að meiri skilvirkni en ef varadómarar kæmu úr röðum þeirra sem ekki búa yfir slíkri starfsreynslu.“

Erum við þá að segja að til dæmis héraðsdómarar sem hafa áralanga reynslu, jafnvel áratugareynslu, séu ekki jafnburðugir til þess að sitja sem varadómarar og þeir sem eru fyrrverandi hæstaréttardómarar, 70 ára og eldri? Síðan velti ég líka fyrir mér aðkomu lögmanna. Ég held að það skipti mjög miklu máli varðandi réttinn, Hæstarétt Íslands, og það er umhugsunarefni hvernig valið er inn í hann, bara þannig að því sé haldið til haga. Ég er ekki viss um að það fyrirkomulag sem nú er sé endilega það besta varðandi það að velja hæstaréttardómara og ég held í ljósi reynslunnar að það sé eitthvað sem við eigum að fara betur yfir, en það er önnur saga.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þetta: Hvað með lögmenn? Af því að rétturinn verður að búa líka yfir þessari fjölbreytni varðandi lögmennina. Við eigum ekki eingöngu að taka úr dómarastéttinni heldur verða þetta að vera lögmenn o.s.frv. Ég spyr: (Forseti hringir.) Er ekki einmitt upplagt að heimila lögmönnum í ríkara mæli að fara inn og vera varadómarar til þess að þjálfa þá (Forseti hringir.) upp í að verða hæstaréttardómarar síðar meir?



[13:19]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á þessu máli eru náttúrlega ýmsar hliðar. Hugsunin og tillagan er grundvölluð á álitsgerð dómstólaráðs og Hæstaréttar sjálfs, sem hefur kannski besta yfirsýn yfir hvernig störfunum er háttað og hvernig reynslan og fjármunirnir nýtast best. Það eru náttúrlega hagsmunir Hæstaréttar að láta málin ganga eins greiðlega fyrir sig og kostur er. Þá er hugsun þessara aðila sú að heppilegt sé að geta nýtt starfskrafta þeirra aðila sem hafa langa reynslu af þessum störfum.

Síðan er önnur hlið á þessu líka, um árabil hefur það tíðkast að einstaklingar eru settir í Hæstarétt tímabundið og hlaða þannig upp reynslu en líka ákveðnu forskoti gagnvart öðrum sem eru að sækja um stöður við dómarastörf í Hæstarétti. Ég eygi því ákveðna jafnræðishugsun í þessu fyrirkomulagi, að þegar þarf að setja hæstaréttardómara tímabundið sé það gert eftir því sem kostur er úr röðum þeirra sem hafa gegnt þessu embætti, en ekki skapað forskot með þeim hætti sem tíðkast hefur á undanförnum árum. Það er alla vega ein hlið á þessu máli sem ég hef komið auga á. Meginhugsunin er sú að nýta reynslu manna sem best og á sem markvissastan hátt.



[13:20]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vil geta þess að við munum fara mjög vel yfir þetta í nefndinni þegar málið kemur þangað til meðferðar.

Tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að ekki sé gert ráð fyrir 6 millj. kr. vegna varadómara í fjárlögum fyrir 2013. Hvar ætlar hæstv. ráðherra að taka þessar 6 millj. kr. fyrst það er ekki gert ráð fyrir þeim í frumvarpinu fyrir árið 2013? Það er gert ráð fyrir 76,6 millj. kr., en ekki 6 millj. kr. vegna einmitt varadómaranna sem eitt af ákvæðunum fjallar um. Það er fyrri spurningin. Seinni spurningin er varðandi millidómstigið.

Í lok greinargerðarinnar með frumvarpinu er sagt, með leyfi forseta:

„Verði millidómstig að veruleika hér á landi á næstu árum má gera ráð fyrir að þeir sem nú starfa sem héraðsdómarar hafi áhuga á að starfa við hið nýja áfrýjunardómstig og því muni fækka í hópi héraðsdómara verði millidómstig sett upp.“

Spurning eða hvatning? Ég hef nú þegar lagt fram þingsályktunartillögu varðandi millidómstigið þar sem ég vil gjarnan að þingið álykti að hæstv. ráðherra semji frumvarp á grundvelli niðurstaðna tillagna ýmissa starfshópa sem hafa alltaf verið á einn og sama veginn um hvernig það eigi að setja það upp. Nú heyri ég að hæstv. ráðherra er hugsanlega með eitthvert frumvarp í smíðum og ég fagna því. En er það byggt á grundvelli þeirra starfshópa sem hafa ályktað varðandi millidómstigið eða er verið að fara einhverjar nýjar leiðir varðandi millidómstigið? Hefur einhverjum einum ákveðnum manni t.d. verið falið að semja þetta frumvarp? Og er þá verið að gera það í samræmi við niðurstöður þeirra starfshópa sem hafa eindregið farið á sama veg varðandi fyrirkomulagið á millidómstiginu?



[13:22]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi fyrri spurninguna, fjárhagsþáttinn. Ég þarf að skoða það atriði nánar, treysti mér ekki til að svara því að svo stöddu. Eðlileg spurning og eðlilegt að ég hefði haft svar á reiðum höndum, sem ég hef ekki.

Varðandi millidómstigið er alveg rétt að samstaða hefur legið í loftinu milli nánast allra þeirra sem að réttarfarskerfinu koma, um þörfina á því. Síðan hafa verið mismunandi áherslur um hvaða leiðir við eigum að hafa og hve mikil og víðtæk verkefni við eigum að fela því annars vegar og Hæstarétti hins vegar.

Ég efndi til samræðufundar fyrir fáeinum vikum með nánast öllum sem aðkomu hafa að réttarfarskerfinu, öllum hagsmunaaðilum, réttarfarsnefnd, öllum sérfróðum aðilum um þessi efni. Þar voru settar fram ýmsar hugmyndir sem réttarfarsnefnd er að fara yfir. Að hvaða marki það byggir á tillögunum sem nefndir sem hv. þingmaður vísar til hafa gert þarf í rauninni lengra mál en svo að það sé hægt að svara því í einu andsvari. En ég held að það væri ráð að við tækjum góða umræðu um þetta í þinginu, ég held að það sé áhugamál alls réttarkerfisins og líka Alþingis að koma þessu á laggirnar.

Ég hélt þegar ég kom fyrst í núverandi embætti mitt að það yrði hægur leikur að gera á þessu breytingar þegar nánast allir, öll samtök dómara, lögmanna og réttarkerfið í heild sinni virtust vera sammála um grunnforsendurnar. Enda er brýn nauðsyn til að gera á þessu breytingar samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart mannréttindasáttmálum. (Forseti hringir.) Það er hægara sagt en gert og þarf að taka tíma, en við vinnum mjög markvisst að þessu og ég er tilbúinn að koma með skýrslu til þingsins um stöðu málsins á nýju ári.



[13:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir hrun kom í ljós að mikið yrði um málaferli og mörg mál voru þá óleyst og óljós. Því miður hefur ekki tekist eins og skyldi að ráða úr úrlausnarefnum sem varða til dæmis skuldamál heimilanna, sem eru þannig að jafnvel enn þann dag í dag, fjórum árum eftir hrun, vita heimilin mörg hver ekki hvað þau skulda og hvað þau eiga. Fólk getur ekki skilið, fólk getur jafnvel ekki dáið því ekki er á hreinu hvað heimilin skulda eða eiga.

Þetta er náttúrlega alveg ófært ástand, frú forseti, en við breytum því ekki aftur í tímann. Hér er verið að bregðast við því að lengja það tímabil sem á að hafa fleiri dómara, sem var sem betur fer farið út í og ég er mjög hlynntur því. Hér er líka verið að tala um að ráða megi menn í stöður sem eru orðnir sjötugir. Þá kem ég inn á mál sem ég held að þjóðfélagið ætti nú að fara að velta fyrir sér. Þessi regla að taka menn út af atvinnulífinu með fullu og öllu við 67 ára aldur eða sjötugsaldur eða eitthvað slíkt — hjá opinberum starfsmönnum er það þannig að menn mega bara ekki vinna eftir sjötugt. Það held ég að sé mjög varasöm stefna vegna þess að hún nýtir ekki þá hæfileika og þá reynslu sem fólk býr yfir. Hún tekur ekki mið af þeirri staðreynd að fólk er miklu sprækara núna en það var fyrir 15, 20, 30 eða 40 árum. Þessi aldursmörk voru sett fyrir hálfri öld þegar dánarlíkur voru miklu meiri og lífslíkurnar miklu minni og fólk var bæði veikara og þreyttara en í dag.

Ég held að við þurfum að skoða þetta mjög nákvæmlega og hef flutt frumvarp nokkrum sinnum um að hækka þessi aldursmörk verulega og hyggst gera það aftur. Það getur vel verið að ég noti tækifærið þegar þetta frumvarp liggur fyrir og komi með breytingar á 31. gr., sem er um að það eigi bara að taka fríska dómara úr sambandi við sjötugt hvort sem þeir vilja eða ekki. Mér finnst að þeir dómarar sem vilja starfa áfram megi þá kannski minnka við sig hlutfall eða eitthvað slíkt, það skiptir ekki máli vegna þess að hæstaréttardómarar eru víst á fullum launum áfram. En að þeir sem vilja megi sem sagt taka þátt í dómstörfum og þjóðfélagið nýti þeirra reynslu og þekkingu sem er oft áratugareynsla og mjög verðmæt.

Ég mundi vilja að þeir sem vildu mættu minnka við sig hlutfallið, þyrftu ekki að hætta allt í einu eða ekki, og eins að menn geti frestað því að hætta að fullu jafnvel til áttræðs eða 85 ára aldurs. Sumir eru ótrúlega ferskir og sprækir langt fram eftir aldri, aðrir eru þreyttari og sumir orðnir mjög þreyttir 67 ára. Þeir sem eru þreyttir og farnir að gleyma og annað slíkt geta þá hætt 67 ára mín vegna og farið á lífeyri og annað slíkt. En að þjóðfélagið sé að segja mönnum að þeir eigi að hætta, sérstaklega opinberum starfsmönnum, það finnst mér mjög miður.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.