141. löggjafarþing — 50. fundur
 11. desember 2012.
staða ríkisfjármála.

[13:40]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum undanfarnar vikur rætt mikið ríkisfjármálin í tengslum við umræður um frumvarp til fjárlaga. Þar hefur margoft komið fram í máli stjórnarliða að staðan sé nú öll önnur en þegar stjórnarflokkarnir tóku við vorið 2009, það sé búið að ná ríkishallanum úr um 216 milljörðum niður í ekki neitt raunverulega eða sáralítið, 1.600 milljónir núna miðað við frumvarpið.

Það sem ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. atvinnumálaráðherra er um muninn á bókhaldslegum aðferðum sem eru notaðar til að gera grein fyrir 13 milljarða framlagi Íbúðalánasjóðs vegna taps á sjóðnum annars vegar og hins vegar 192 milljörðum sem notaðir voru til að færa inn í Seðlabankann fjármögnun vegna tapaðra krafna sem rekja má til veðlána hans og tryggingabréfa aðalmiðlara. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki örugglega rétt hjá mér að ef sama aðferð er notuð hafi hallinn 2008 verið 24 milljarðar en ekki 216 milljarðar eins og hingað til hefur verið talið, þ.e. að ef við notum aðferð ríkisstjórnarinnar hafi hallinn verið 24 milljarðar, ekki 216.



[13:42]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Nei, þetta er því miður, frú forseti, ekki réttur skilningur hjá hv. þingmanni. Það kemur á óvart að hann skuli bera upp spurningu af þessu tagi miðað við allan sinn lærdóm á sviði hagfræði og stærðfræði.

Rétt eins og þegar ríkið setti 33 milljarða í Íbúðalánasjóð vegna þegar áfallinna afskrifta eða fyrirsjáanlegra afskrifta varð það niðurstaða ríkisreikninganefndar að þá fjármuni yrði að afskrifa samtímis. Af hverju var það gert? Vegna þess að það myndaðist ekkert eigið fé og það stæði ekkert eigið fé eftir á móti þegar framlagið hefði farið fram. Þannig var það með Seðlabankann haustið 2008. Þetta var sokkinn kostnaður, þegar tapað fé og það var bara horfst í augu við afskriftina upp á 192 milljarða sem þar var að verða. Það varð ekki til neitt eigið fé á móti færslunni.

Þegar eiginfjárframlag verður hins vegar sett inn í Íbúðalánasjóð núna mun það sannanlega auka umtalsvert eigið fé Íbúðalánasjóðs og þar verður eignfærsla á móti þannig að bókhaldslega eru þetta óskyldir hlutir. Það sem ræður úrslitum er það hvort um raunverulegt eiginfjárframlag er að ræða sem myndar eigið fé í efnahag viðkomandi aðila eða hvort þetta er sokkinn kostnaður, þegar tapað fé.

Síðan þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því að fjárlagafrumvarpið sem er í okkar höndum núna er mikið ánægjuefni og ef stefnir í að því verði lokað á svipuðum nótum og frumvarpið kom fram, með +/- 3 milljarða halla eða svo, 0,2% af vergri landsframleiðslu, eru það ævintýraleg tímamót sem ég veit að hv. þingmaður tekur undir með mér að eru mikið fagnaðarefni.

Það sem líka vekur bjartsýni um að þetta gangi betur eftir en kannski fyrri fjárlög er að tekjuhliðin er sannanlega að styrkjast. Það sem gerir okkur kleift að mæta ýmsum útgjöldum núna án þess að hallinn aukist er að tekjuhliðin er að styrkjast þannig að tekjuöflunaraðgerðirnar undanfarin ár eru að sanna gildi sitt.



[13:44]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er klókur maður, en ég held að þetta svar hafi ekki bjargað honum úr klípunni. Hið raunverulega sem er í gangi hér er að verið er að þvælast á milli annars vegar uppgjörs á rekstrargrunni og hins vegar greiðslugrunni. Ef sambærilegar aðferðir eru notaðar er hallinn 24 milljarðar árið 2008 samkvæmt rekstrargrunni og ef við tökum Íbúðalánasjóð inn í núna er hann í kringum 16 milljarðar. Ef við tökum lífeyrisskuldbindingar ríkisins með líka erum við komnir í nærri 70 milljarða.

Í bókhaldi hverfa hlutirnir ekki, það er ekkert til sem heitir sokkinn kostnaður eða sokkið tap í bókhaldi, það er til í hagfræði. (Forseti hringir.) Þetta er frekar aumur útúrsnúningur. Bókhaldslærðir menn ættu að geta staðfest þetta við hæstv. ráðherra. Þetta er enn ein blekkingin sem á að reyna að beita.



[13:45]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér finnst mér hv. þingmaður seilast ansi langt um hurð til lokunar. Sjálfstæðisflokknum er svo mikið í mun að drekkja einhvern veginn þeirri staðreynd að það hefur náðst gríðarlegur árangur í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs að það er öllum meðulum beitt eins og þeim að reyna að rugla fólk með því að tala um rekstrargrunn og greiðslugrunn. Við erum ekki að tala um það hér. Ég veit að hv. þingmaður ætti að þekkja muninn þar á, annars vegar hina hefðbundnu bókhaldslegu færslu skuldbindinga og útgjalda og hins vegar greiðslustreymið, hvenær útgjöldin falla til og hvenær tekjurnar skila sér. Þetta er grundvallarmunurinn á rekstrargrunni og greiðslugrunni.

Það hefur ekkert að gera með hina efnahagslega reikningsfærslu ríkissjóðs. Það er það sem ræður þegar ríkisreikninganefnd ákveður hvort framlög til aukningar eigin fjár í fyrirtækjum séu raunveruleg aukning eigin fjár og að þar með myndist eign á móti eða hvort þar sé verið að mæta þegar sokknum kostnaði og þá verður engin eignfærsla og þá verður (Forseti hringir.) að afskrifa framlagið strax sem tapað fé. Það er það sem þetta snýst um.