141. löggjafarþing — 51. fundur
 12. desember 2012.
störf þingsins.

[15:02]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar til að kveðja mér hljóðs undir þessum lið vegna stöðu þingsins þessa dagana. Við ræðum nú rammaáætlun og það eru víst einhver áhöld um það hvort hér sé um málþóf að ræða eða ekki.

Ég hlustaði svolítið á umræðuna í gær og verð að viðurkenna að ég er mjög hneykslaður á málflutningi margra í þeirri umræðu þar sem ég hef setið með þeim í nefndum, ferðast með þeim um virkjunarstaði, tekið á móti gestum með þeim og svo koma þeir hingað upp og tala gegn betri vitund. Ég veit ekki hvað slík umræða á að þýða eða hverju hún á að skila, en ég bendi á að miðvikudaginn í næstu viku munu formenn stjórnmálaflokkanna enn einu sinni setjast inn herbergi og loka að sér og ákveða sín á milli, persónulega, hvaða mál fái framgang í þinginu. Tugum mála mun verða sópað út af borðinu vegna þess að ekki hefur gefist tími til að ræða þau. Með því er verið að gera meira en að sópa málum út af dagskrá; verið er að sópa lýðræðinu sjálfu út úr þingsal Alþingis. Það gengur ekki að slíkt fyrirkomulag verði við lýði hér þing eftir þing. Þetta er fjórða þingið sem ég sit á þar sem nákvæmlega þetta gerist. Það gerðist síðast nú í vor þegar um 70–80 málum var sópað út af borðinu og allri þeirri lýðræðislegu vinnu og umræðu sem fylgdi þeim var sópað út úr þinghúsinu í leiðinni.

Ég geri þá tillögu til hæstv. forseta þingsins að tekið verði almennilega á þessu máli og að skilgreindur verði fyrir fram sá tími sem fara á í að ræða þau þingmál sem eftir er að afgreiða á þessu þingi fram í miðjan mars. Annað er algerlega óboðlegt ef Alþingi á að kallast vettvangur lýðræðislegrar umræðu.



[15:04]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vek athygli forseta á því að á fundi fjárlaganefndar í gær barst svar fjármálaráðherra við erindi stjórnarandstöðunnar þar sem óskað er upplýsinga svo hún geti rækt lögbundið hlutverk sitt. Eftir mikla eftirgangsmuni við meiri hluta fjárlaganefndar var tekið til bragðs að bóka sérstaklega og krefjast á grundvelli 51. gr. þingskapa ákveðinna upplýsinga í tengslum við fjáraukalagagerð ársins 2012. Sú bókun og það erindi var sent ráðuneytinu 6. nóvember síðastliðinn. Við fengum svar 10. desember þó svo að ráðuneytið hafi aðeins lögbundna sjö daga til að svara umræddu erindi. (Gripið fram í.) Ekki nóg með það heldur er erindið með þeim hætti að það er forkastanlegt, svo ekki sé meira sagt, þ.e. hvernig það er sett upp. Í rauninni sniðgengur ráðherra með því erindi og með afgreiðslu þess lögbundið hlutverk sitt og gengur á snið við þingsköp Alþingis. Það er í mínum huga grafalvarlegur hlutur og krefst þess að forseti Alþingis taki það mál til sérstakrar umfjöllunar og geri kröfu til Stjórnarráðsins og þeirra ráðherra sem hér undir heyra að þeir bæti ráð sitt.

Undir þeim kringumstæðum er þingmönnum gersamlega ókleift að rækja það hlutverk sem þeir taka að sér þegar þeir taka sæti á hinu háa Alþingi. Full ástæða er til að undirstrika að orðalagið í bréfinu er með þeim hætti að gefið er til kynna að þingmenn skulu ekki hafa ráð á því sjálfir til hvaða aðgerða þeir grípa til að rækja hlutverk sitt heldur er bent á að það sé ráðuneytisins að ákveða slíkt. (Forseti hringir.) Þegar svo er komið er Alþingi Íslendinga í alvarlegri stöðu.



[15:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að því máli sem ég ætlaði að nefna hér verð ég aðeins að koma inn á ræðu hv. þm. Þórs Saaris. Það er ekki hægt að sitja undir þeim ávirðingum og þeirri furðulegu ræðu sem hv. þingmaður flutti hér. Það liggur við að manni verði flökurt þegar hv. þingmaður talar um lýðræði með þessum hætti. Er það ekki verkefni okkar þingmanna að fara yfir þingmál og ræða þau til hlítar? Hvar var hv. þingmaður þegar við ræddum rammaáætlun eða fjárlög? (ÞSa: Ég var hér í salnum.) Þingmenn eiga að taka þátt í umræðunni. (ÞSa: Ég var hér í gær.) Það sem er að lýðræðinu (Gripið fram í.) er að sumir þingmenn eins og hv. þm. Þór Saari líta svo á að þingið sé afgreiðslustofnun fyrir meiri hlutann á hverjum tíma. (Gripið fram í.) Hér á bara að rúlla málunum í gegn (Gripið fram í.) án þess að þau séu rædd með vitrænum hætti. Hv. þingmaður er greinilega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hefur alltaf verið. (Gripið fram í.) Þess vegna liggur honum á að koma málunum hér í gegn. Það er algerlega ólíðandi að sitja undir ræðu eins og hv. þingmaður hélt, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar og ekki bara þrisvar. Það er Alþingi til skammar, frú forseti. (ÞSa: Ræddu þingmál.)

Virðulegi forseti. Getur hv. þingmaður kannski haft hljóð meðan ég tala hérna? Ég er að skamma hann úr ræðustól, hann á ekki að grípa fram í.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Við sjáum það í fjölmiðlum í dag að vandinn og vandræðagangurinn á evrusvæðinu eykst. Nú berast fréttir af því að svokallað bankabandalag sé í uppnámi. Svíar hafa lýst því yfir að þeir taki undir með Bretum þegar kemur að því að ræða bankabandalagið og það eykur enn á vandræðaganginn og óvissuna innan Evrópusambandsins. Á meðan haga stjórnvöld á Íslandi sér eins og ekkert hafi í skorist. Enn er haldið áfram á þeirri vonlausu vegferð að semja við Evrópusambandið og ekki nóg með það heldur kemur líka fram í fjölmiðlum í dag að ef Íslendingar ætla sér að ganga í Evrópusambandið verða þeir að taka allan lagabálkinn upp (VigH: Já.) eins og hann er, eins og hann liggur fyrir. Hvað með allar undanþágurnar eða þá skapandi hugsun sem er búið að ræða í þessum ræðustól af hæstv. utanríkisráðherra, svo einhver sé nefndur hér? Er hægt að beita skapandi hugsun við að breyta lagabálki Evrópusambandsins þegar fyrir liggur að það er ekki í boði? Hvað í ósköpunum eru menn að tala um?

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum (Forseti hringir.) alvarlega umræðu í þingsal um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og athugum hvort meiri hluti er fyrir því í þinginu að halda henni áfram eða ekki.



[15:09]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hingað upp og ræða þá atburði sem fram undan eru um helgina varðandi stjórnarskrármál. Nú er fræðimenn að vakna til lífsins í þessum málum og eru orðnir gagnrýnni á þær niðurstöður sem fram koma í þeim frumvarpsdrögum sem liggja fyrir þinginu. Fréttir bárust af því að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, væri á förum til að hitta Feneyjanefndina.

Ég og að minnsta tveir aðrir úr stjórnarandstöðunni í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum farið fram á það við nefndina að fulltrúi stjórnarandstöðunnar fari með til að lýsa þeim sjónarmiðum og þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið. Við erum að hugsa um að fara með það á hærra stig og ég veit að viðræður hafa verið á milli þingmanna Framsóknarflokksins og forseta þingsins um það. Ég spurði hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í gær hvort ekki yrði sagt frá þeim gagnrýnisröddum sem uppi hafa verið um frumvarpið á þingi. Hún taldi svo ekki vera og taldi það óþarft vegna þess að nefndin sjálf væri að koma hingað til landsins eftir áramót.

Ég fer fram á það við forseta þingsins að fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái leyfi til að fara til fundar við Feneyjanefndina. Þegar ríki sendir erindi til Feneyjanefndarinnar, yfirlestur á stjórnarskrám, eru það fulltrúar stjórnarandstöðunnar í viðkomandi ríki sem fara á fund nefndarinnar til að koma sjónarmiðum sínum að því að eðli málsins samkvæmt er það alltaf meiri hluti þjóðþings sem leggur fram frumvörpin, alveg eins og hér á landi. En hér á landi er því að sjálfsögðu snúið við undir stjórn þessarar vinstri ríkisstjórnar, fulltrúi meiri hlutans fer á fund nefndarinnar. (Forseti hringir.) Það er óásættanlegt.



[15:11]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði áðan við afgreiðslu hæstv. fjármálaráðherra á beinum upplýsingum úr hv. fjárlaganefnd. Á mínum stutta tíma á þingi hef ég séð mörg hrokafull bréf og svör frá ýmsum aðilum, en þetta keyrir algerlega um þverbak. Af hverju segi ég það? Jú, það kemur fram í bréfinu, sem sent er 6. nóvember — en ráðuneytið hefur samkvæmt þingsköpum sjö daga til að afgreiða málið, þ.e. í síðasta lagi til 13. nóvember — að þar sem fjáraukalagafrumvarpið hafi verið afgreitt 19. nóvember komi það okkur nánast ekkert við. Það er mjög umhugsunarvert í hvaða stöðu þingið er gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Síðan vil ég ræða undir þessum lið þau miklu vonbrigði mín sem snúa að svokölluðum breytingum á safnliðum. Mér var eiginlega öllum lokið, ég var einn af þeim sem tóku þátt í því að breyta fyrirkomulaginu á úthlutun safnliða. Síðan gerist það við 2. umr. fjárlaga að settir eru inn nokkrir safnliðir og við 3. umr. fjárlaga, í breytingartillögum meiri hlutans, eru mjög margir liðir settir þar inn.

Mín skoðun er sú alveg skýr, þarna er gengið þvert á sett markmið með breytingum á safnliðunum. Sumir sem vilja fá áheyrn hjá þinginu til að sækja um fé til ýmissa framfaramála fá ekki aðgang en einhverjir aðrir fara ekki til fjárlaganefndar heldur hafa þeir beinan aðgang að fulltrúum stjórnarmeirihlutans. Það er til háborinnar skammar og það er alger mismunun sem var einmitt það sem breyta átti með því að færa safnliðina í faglegri farveg. Ég lýsi miklum vonbrigðum með þessar tillögur meiri hlutans og ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að sumir hv. þingmenn sem hér eru inni greiði atkvæði með þessum breytingum ef haft er í huga (Forseti hringir.) það sem á undan er gengið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:14]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart hve mörgum hv. þingmönnum í dag er heitt í hamsi eftir ánægjulegan fundardag í gær og fram á nóttina þar sem skipst var á skoðunum um þýðingarmikil mál sem til umræðu eru á hv. Alþingi, ekki minna en rammaáætlun um vernd og orkunýtingu og er fyrirhugað að ræða hana áfram á næstunni. Það kemur mér á óvart að mönnum skuli vera heitt í hamsi á miðri aðventunni þegar frekar er ástæða til að gleðjast yfir því sem fram undan er.

Ég er sannfærður um að okkur mun lánast að afgreiða þau þýðingarmiklu mál sem liggja fyrir þinginu. Haft hefur verið á orði að nú væri runninn upp sá tími þegar stjórnarandstaðan byrjar með sitt hefðbundna málþóf. Ég veit ekki hvort það er sanngjarnt að kalla málin því nafni en vitaskuld verður stjórnarandstaðan að ráða því hvaða mál hæstv. forseti setur á dagskrá þingsins hverju sinni. Það er eðlilegt að hún ráði því og það er það sem komið hefur fram í málflutningi hennar þegar hún tekur til máls, t.d. undir liðnum fundarstjórn forseta, þ.e. hún setur fram kröfur sínar. Ég er alveg undrandi á því að þingmenn úr stjórnarliðinu skuli hafa athugasemdir við að stjórnarandstaðan haldi uppi þeim málflutningi sem hún vill eins lengi og hún vill. Það sem kemur á óvart er að hún skuli yfirleitt greiða atkvæði gegn því á þessum tíma að haldnir séu fundir fram á kvöld og nætur til að ljúka afgreiðslu mála sem vissulega eru þýðingarmikil og við þurfum að ljúka.

Vegna orða hv. 8. þm. Reykv. s. tel ég einboðið að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, (Forseti hringir.) bjóði hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur með sér til Feneyja. (VigH: Þakka þér fyrir.)



[15:16]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hvað það varðar að hér var ágæt umræða í gær um rammann. Það sem var ólíkt því sem oft hefur verið er að stjórnarliðar tóku ágætan þátt í umræðunni. Fjöldi stjórnarliða hélt ágætar ræður og hér fór fram umræða um þetta mikilvæga mál. Það var jákvætt og ég vona að það verði áfram því að við þurfum að ræða það mikilvæga mál hvernig við eigum að haga verndar- og nýtingarstefnu á náttúruauðlindum í landinu.

Ég vil vekja athygli á öðru. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var undrandi yfir því að mönnum væri heitt í hamsi. Mér er kannski ekki heitt í hamsi en verð að játa að ég hef nokkrar áhyggjur af yfirlýsingum seðlabankastjóra. Það liggur fyrir að Seðlabankinn er ekki að hækka vexti sína en því fylgdi yfirlýsing um að Seðlabankinn hefur áhyggjur af tvennu, annars vegar þróun efnahagsmála erlendis og hins vegar verðbólgu, eðlilega, og kjarasamningum hér eftir áramótin. Það er ástæða til að veita þessum orðum seðlabankastjóra athygli.

Við höfum vandann og deiluna á Landspítalanum sem er augljóslega erfið staða. Forseti Alþýðusambands Íslands hefur gefið fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar þá einkunn að það setji stöðu kjaraviðræðna í uppnám, að það éti upp og eyði svigrúmi fyrirtækja til að standa undir launahækkunum, það sé hætta á verðbólgu og þar af leiðandi augljóslega á hækkun lána heimilanna. Seðlabankastjórinn segir: Ef launahækkanir fara tiltekið yfir framleiðniaukninguna er komin pressa á vaxtahækkun. Það er einmitt vegna þessa sem við höfum áhyggjur af þessu fjárlagafrumvarpi, (Forseti hringir.) út af því að við höfum áhyggjur af verðbólgunni, við höfum áhyggjur af kjarasamningunum og lánum heimilanna. Það er það sem við höfum reynt (Forseti hringir.) að leiða fram í umræðunni.



[15:18]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanna um umræðuna um rammann í gær og reyndar þegar hún hófst fyrir tæpum þrem vikum. Umræðan í gær var góð, hún var málefnaleg, hún var ítarleg, hér fóru fram skoðanaskipti og ég tek undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að ég vona að hún verði það áfram og menn forðist málþóf, ljúki umræðunni í dag eða á morgun og staðfesti rammann sem er ótvírætt framfaraskref í náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda okkar um leið og með honum er settur ákveðinn rammi til frambúðar fyrir orkufyrirtækin þannig að þau séu betur í stakk búin til að gera áætlanir inn í framtíðina. Það þurfum við að gera fyrir áramót.

Mig langar til að víkja augnablik að vinnunni við stjórnarskrárfrumvarpið og orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að nú væru fræðimenn að vakna til lífsins. Það kann að vera að einhverjir séu að vakna til lífsins en fræðimenn hafa verið að fjalla um stjórnarskrána, m.a. á fundum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í rúmt ár, hv. þingmaður, og ég hef ekki orðið vör við annað en að þeir hafi verið bærilega vel vakandi og áhugasamir. Það kom ágætlega fram í góðri frétt Ríkisútvarpsins í hádeginu í gær, (Forseti hringir.) það var viðtal við Guðmund Alfreðsson þjóðréttarfræðing (Gripið fram í.) þar sem hann fór yfir samskipti sín við nefndina sem var á fundi í gærmorgun.

Það er rétt að vekja athygli á því að allir fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þetta mál eru opnir fjölmiðlum. Mig langar aðeins til að segja að það er að sjálfsögðu rétt að leita eftir áliti Feneyjanefndarinnar og ég vek athygli hv. þingmanns á því að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er boðinn til nefndarinnar til að leggja málið þar fyrir. Það er ekki eins og (Forseti hringir.) það sé verið að senda formanninn á vegum þingsins. Þetta er boð til formanns (Forseti hringir.) nefndarinnar um að leggja málið fyrir.



[15:21]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi stjórnarskrána og Feneyjanefndina tel ég fullkomlega eðlilegt að á sama hátt og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar óskaði eftir að verða boðaður fyrir Feneyjanefndina muni stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd jafnframt óska eftir því að fulltrúi stjórnarandstöðunnar fari þá sömu leið og verði einnig boðaður. Það er fullkomlega eðlilegt. Í öðrum löndum þar sem fjallað hefur verið um þetta, til að mynda í Finnlandi, fór stjórnarandstaðan fram á að málið yrði sent til Feneyjanefndarinnar og fór fyrir nefndina með það mál. Ég held að við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem við berum okkur oft saman við og þá sjáum við að það er skynsamlegt að fara sömu leið.

En varðandi yfirlýsingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að okkur sé heitt í hamsi og að við ættum að gleðjast yfir þeim málum sem til stendur að afgreiða hér verð ég að segja við hv. þingmann, frú forseti, að það er ekkert gleðiefni að afgreiða fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út. Það er langt þar frá. (Gripið fram í.) Það er heldur ekkert gleðiefni að afgreiða rammaáætlun eins og hún lítur út, langt þar frá. Þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni reynt með umræðu að varpa ljósi á þá þætti sem við teljum nauðsynlegt að breyta og fá þann möguleika að opna augu meiri hlutans á því að það sé hægt.

Forseti þingsins er forseti allra þingmanna, bæði í meiri hluta og minni hluta, og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan hafi skoðun á því hvað sé eðlilegt þó að stjórnarandstaðan ráði því auðvitað ekki. Þrátt fyrir yfirlýsingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar eru 24 mál á dagskrá og ef það er mat meiri hlutans að það sé skynsamlegt að eyða þessum sex til sjö síðustu þingdögum fyrir jól í að ræða rammaáætlun gerum við það en það er líka (Forseti hringir.) skynsamlegt að okkar mati að taka eitthvað af hinum málunum og afgreiða þau sem nauðsynlegt er.



[15:23]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Enginn hv. þingmaður hefur haft fleiri orð um hversu slæmt fyrirkomulag hefur verið varðandi Dróma en hæstv. forsætisráðherra sem lýsti því yfir í fyrirspurnatíma að það hefði verið skoðað lengi hvernig hægt væri að breyta því. Það væri ekki vitlaust að hv. stjórnarliðar mundu upplýsa okkur hvar það mál stendur sem er búið að vera í skoðun svona lengi og hæstv. forsætisráðherra hefur jafnsterkar skoðanir á og raun ber vitni.

Það er mjög mikilvægt að við upplýsum fólk um jafnstór mál og þarna eru á ferðinni. Hér kom hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og benti á að hann fengi ekki gögn sem hann á að fá samkvæmt lögum. Ég minni á að hlutverk okkar, hv. þingmanna, er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég vara við því hvernig hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ríkisstjórn hafa haldið á málum hvað þessa hluti varðar. Þau hafa miskunnarlaust haldið upplýsingum frá þinginu. Núna er aðferðin sú, virðulegi forseti, að þegar spurningar eru lagðar fram er svarað með þögninni.

Ég tek bara tvö dæmi sem við erum búin að vinna að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í langa tíð. Annars vegar eru slitastjórnirnar. Lögum samkvæmt á eftirlitsstofnun að hafa eftirlit með slitastjórnum eins og um bankaráð væri að ræða. Hún hefur bara ekkert gert og það er ekki upplýst um viðskipti við þriðja aðila. Einu upplýsingarnar sem komu fram eru þær sem stéttarfélag hefur kallað fram um eina slitastjórnina.

Varðandi Byr og SpKef var því lofað að ekki félli króna af kostnaði upp á 25 milljarða á skattgreiðendur. (Forseti hringir.) Síðast í sumar sendi ég bréf, fékk svör með útúrsnúningum en þó áhugaverð, sendi framhaldsspurningar í október og það bólar (Forseti hringir.) ekki á svörum.



[15:25]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í dag hefur verið minnst á ýmis mál sem eru þess virði að fjalla um. Ég ætla að láta mér nægja að fjalla um eitt sem er í mínum huga stóralvarlegt. Það er það mál sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa minnst á í dag, undandráttur fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra á því að svara eðlilegum fyrirspurnum þingnefndar þar sem brotin eru skýr ákvæði þingskapa um rétt þingmanna til upplýsinga og svar sent fjórum vikum eftir að frestur rann út með orðalagi sem, með leyfi hæstv. forseta, er út í hött.

Þetta mál krefst þess að forseti og forsætisnefnd taki það til meðferðar vegna þess að hér reynir á rétt þingmanna til upplýsinga frá ráðuneytum um mál sem eru til meðferðar í þingnefndum. Hér er um að ræða brot á ákvæðum sem voru styrkt sérstaklega með breytingum á þingsköpum á síðasta ári. Það var meðvitað og samhljóða gengið til þess að styrkja upplýsingarétt þingmanna og hv. þingmenn gætu munað að það var ein helsta ástæðan fyrir því að farið var í þá breytingu á þingsköpum sem gerð var. Það átti að styrkja rétt þingmanna til að kalla eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, ráðuneytum og ráðherrum.

Ákvæðin um það voru hert en í því tilviki sem hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson hafa þegar nefnt í umræðunni var þessi regla þverbrotin, vísvitandi, af hæstv. fjármálaráðherra. Það er stóralvarlegt ef ráðherrann verður látinn komast upp með þetta.



[15:27]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á alvarlegri stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem komin er upp og á sér nokkrar skýringar. Það má segja að allar þær verstu spár sem fram komu við umfjöllun á frumvörpum ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarmál séu að rætast.

Það er haft eftir formanni Landssambands smábátaeigenda að hann hafi ekki séð stöðuna svo svarta í 40 ár. Það kom fram hjá honum á fundi atvinnuveganefndar þar sem hann var gestur í gærmorgun ásamt framkvæmdastjóranum. Það hefur komið fram hjá stjórnarmönnum þess sambands að það sé fyrirsjáanlegur flótti úr þeirri grein og víðar hefur komið fram að nú séu forsvarsmenn lítilla og meðalstórra fyrirtækja að hugsa sér mjög til hreyfings og hvernig þeir geti komið sér út úr greininni og selt fyrirtæki sín.

Við þessu öll var varað í umfjöllun um fiskveiðistjórnarfrumvörpin sem lögð voru fyrir þingið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, það yrði aukin samþjöppun og þetta kæmi verst við lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er allt að ganga eftir.

Verum minnug þess að á þessum tíma fyrir einu ári þegar fyrirséð var að hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrímur J. Sigfússon settist í stól þess ráðuneytis sagði hann í þinginu að það mundi taka hann svona þrjár vikur að ljúka þessu máli, að létta þeirri óvissu af greininni sem þetta hefur kallað yfir hana.

Á sama tíma og þetta er staðan í íslenskum sjávarútvegi, undirstöðuatvinnugrein okkar, erum við að ræða rammaáætlun. Samtök atvinnulífsins og samtök fyrirtækja og verkalýðsfélaga kalla mjög eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það er alveg ljóst að sú rammaáætlun sem við fjöllum um hérna mun kosta stopp í beinni erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi þar sem helstu sóknarfæri okkar eru. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að segja að það sé bjart yfir íslensku atvinnulífi, kolsvart ský hangir yfir okkur og fólk verður að fara að sýna ábyrgð í þingsal. (Forseti hringir.) Þingmenn verða að fara að sýna ábyrgð og hætta að tala um eitthvert nýtt Ísland (Forseti hringir.) og einhverja öðruvísi framtíð byggða á öðrum grunni en þeim grundvallaratvinnugreinum sem við verðum að (Forseti hringir.) byggja afkomu þessarar þjóðar á.



[15:30]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur.



[15:30]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir kröfur og óskir hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi það að stjórnarandstaðan sendi líka fulltrúa sinn á fund Feneyjanefndarinnar. Ég segi það ekki síst í ljósi þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað innan allsherjar- og menntamálanefndar þingsins varðandi ákveðna kafla, veigamestu kaflana sem snerta breytingar á stjórnarskránni, varðandi mannréttindakaflann og margt fleira sem fellur undir málasvið allsherjar- og menntamálanefndar.

Margar ábendingar hafa komið frá virtum fræðimönnum í þessum efnum, m.a. sagði einn það alveg skýrt og skorinort að að sínu mati væri um umboðsskort að ræða af hálfu stjórnlagaráðs vegna þess að það hefðu ekki verið skilaboð þjóðfundarins að umbylta ætti mannréttindakaflanum. Það er þó nákvæmlega það sem verið er að gera með þessum tillögum. Hver höndin er uppi á móti annarri varðandi túlkun á mannréttindum, ekki síst þegar kemur að friðhelgi einkalífs gagnvart auknum upplýsingarétti, sem margir geta tekið undir. En þá þarf að vera skýrt hvað efla á og hvað á að skerða. Síðan er alveg ljóst í tillögum stjórnlagaráðs að ætlunin er að gerbreyta kafla um eignarréttinn. Þess vegna komu ábendingar, sem verða vonandi ekki hunsaðar, (Gripið fram í.) um að heildstætt mat, alla vega mat á þeim köflum sem snerta mannréttindin, yrði gert.

Ég tek undir kröfu og ósk hv. þingmanns áðan, ég trúi því bara ekki að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin hafi hafnað þeirri ósk. Er það virkilega rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi hafnað formlegri ósk stjórnarandstöðunnar um að senda einn fulltrúa til Feneyja? (Gripið fram í: Já.) Ég trúi því ekki fyrr en á reynir. Ef það er rétt er það enn ein vísbendingin um að stjórnarmeirihlutinn beitir þöggun í málinu. (VigH: Rétt.)



[15:32]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að vekja máls á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið enda er mikilvægt að þingmenn ræði sem oftast stöðuna í viðræðunum og sambandsins í heild. Það gefur mér tækifæri til þess í fyrsta lagi að vekja athygli á því að nú liggur fyrir samningsafstaða Íslands í kafla sem snertir matvælaöryggi. Þar kemur skýrt fram að Ísland krefst þess áfram að hafa bann við innflutningi lifandi dýra, sem kveður þá niður enn eina tröllasöguna sem verið hefur í gangi hvað snertir viðræðurnar. Það er gott og mikið hagsmunamál fyrir bændastéttina í landinu.

Það gefur mér einnig tækifæri að vekja athygli á því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, lét nýlega hafa eftir sér að hann vildi ekki að Bretar gengju úr Evrópusambandinu. Hann spurði þjóð sína: Viljið þið í raun vera í sömu stöðu og Norðmenn og fá löggjöfina úr faxtækinu frá Brussel? (Gripið fram í.) Nei, ég vil taka þátt í ferlinu, segir David Cameron, og þess vegna vil ég vera aðili að Evrópusambandinu áfram. Það var skoðun hans.

Ég ítreka að það er mikilvægt að við ræðum stöðuna í viðræðunum, að við ræðum Evrópusambandið og stöðu Íslands í því stórpólitíska samhengi sem allra oftast í þessum sal. Ég hvet til þess að þingmenn hafi um það sérstaka umræðu hvar við erum stödd í aðildarviðræðuferlinu og hvert við viljum halda.

Það geta verið skiptar skoðanir um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki og það er mikilvægt fyrir umræðuna að bæði sjónarmiðin komi fram, hvort hyggilegt sé fyrir Ísland að ganga til liðs við sambandið eða ekki. En gætum þó að einu, við skulum ekki taka þann rétt af þjóðinni að fá að taka ákvörðun um hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki því að það er líklega það óskynsamlegasta sem við getum gert. Við eigum að leyfa þjóðinni sjálfri að fá að taka ákvörðun um hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Þess vegna væri það röng ákvörðun að hætta aðildarviðræðunum á þessu stigi og taka af þjóðinni þann valkost sem Seðlabankinn telur hyggilegastan í myntmálum og taka upp aðra mynt í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Við skulum að minnsta kosti leyfa þjóðinni að taka þá ákvörðun. (Gripið fram í: … líka með tilboðinu jafnóðum?)



[15:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það eru engin rök fyrir því að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið.

Svo vil ég minna þingheim á að þjóðin var aldrei spurð um hvort hefja ætti viðræður, sem hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt (VigH: Kjósa.) — eða kjósendur. Síðan vil ég leiðrétta hv. þm Magnús Orra Schram, það er ekkert í samningsafstöðu varðandi dýraheilbrigði um að Íslendingar krefjist eins eða neins. Það er vandinn við samningsafstöðuna að ekki eru settar fram nógu skýrar kröfur. Þetta er moðsuða sem menn geta túlkað út og suður.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram áðan varðandi fjárlagagnefndina og þær upplýsingar sem við höfum fengið úr þeirri nefnd, ég ætlast til þess að hæstv. fjármálaráðherra verði gert að koma til þings og gera þingheimi grein fyrir því hvers vegna hann kemur svona fram við þingmenn og hvers vegna hæstv. ráðherra svarar ekki skilmerkilega í samræmi við þingsköp. Það hlýtur í það minnsta að vera tilefni til að ráðherrann komi hér og geri hreint fyrir sínum dyrum. Síðan hljóta forsætisnefnd og forseti þingsins að velta fyrir sér að beita einhverjum viðurlögum gagnvart ráðherra því að ég tel að þingmenn hafa verið víttir fyrir minni sakir en þessa.

Ég vil að endingu fagna því sem ég las um í fjölmiðlum, þ.e. að sífellt fleiri einstaklingar, fræðimenn og stjórnmálamenn virðist nú taka undir tillögu okkar framsóknarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd um að skynsamlegt geti verið fara þá leið að setja þak á verðtrygginguna. Ég hlýt þá að spyrja hvort ekki sé akkur í því fyrir þingið að afgreiða málið úr nefndinni, því að það er mikill akkur fyrir heimilin í landinu og þjóðina, núna þegar mikill sprengur virðist vera á sumum málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)