141. löggjafarþing — 52. fundur
 13. desember 2012.
vernd og orkunýting landsvæða, frh. síðari umræðu.
stjtill., 89. mál (rammaáætlun). — Þskj. 89, nál. 526, 549 og 554, brtt. 553, 712 og 713.

[19:30]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í heilsíðuauglýsingu Alþýðusambands Íslands í dag þar sem enn eina ferðina er talað um vanefndir og svikabrigsl hæstv. ríkisstjórnar. Í auglýsingunni segir eins og alþjóð er kannski kunnugt að orð skuli standa. Þar eru tilgreind nokkur atriði sem ASÍ telur að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við. (Gripið fram í.) Þar á meðal er nefnt: „Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar — ekki efnt.“ Þetta er akkúrat það sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir og það eru alltaf sömu svörin hjá ríkisstjórninni, alveg sama hver bendir á það, þegar ríkisstjórnin svíkur gefið samkomulag, þá kannast hæstv. ríkisstjórn ekkert við það eða forustumenn hennar. Það er svo sem ekkert nýtt. (Gripið fram í.)

Það veldur miklum vonbrigðum að ekkert skyldi vera gert með það frumvarp sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram um að færa málið aftur til verkefnisstjórnarinnar og láta raða þeim kostum sem um ræðir í þrjá flokka sem snúa að nýtingu, verndun og bið. Það segir okkur að þessi rammaáætlun er bara áætlun núverandi hæstv. ríkisstjórnar.

Af hverju skyldi ASÍ gagnrýna þetta mál? Það er vegna þess að það mun hafa áhrif á lífskjör fólks í landinu og þar á meðal umbjóðenda þessara samtaka. Það vita það allir sem vilja vita.

Það sem er líka merkilegt og væri áhugavert ef hæstv. umhverfisráðherra gæti svarað því í andsvörum sem ég ætla að vekja athygli á. Það er ósamræmið hjá hæstv. ráðherrum, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra á þeim tíma, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Það væri auðvitað mjög athyglisvert að fá svör við því hér í umræðunni hvers vegna þessi niðurröðun er lögð fram, annars vegar það sem snýr að vatnsaflsvirkjunum þar sem búið er að taka sex kosti og endurraða í biðflokk og hins vegar þau rök sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og liggja til grundvallar þessum ákvörðunum, þ.e. rökstuðningurinn fyrir því að fara í virkjanir á háhitasvæðum þegar mun sterkari athugasemdir snúa að hinum þáttunum. Það fást engin svör við því. Tilgangurinn er kannski sá að setja allt í bið. Það kemur mjög skýrt fram í umsögnum eins og til að mynda hjá Orkustofnun. Ég vitna í umsögnina, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að með þessu verði markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu. Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarma eykst, það tæknilega og efnahagslega öryggi og þar með sú hagkvæmni sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl verður ekki fyrir hendi. Orka í sífelldri endurnýjun sem ekki er beisluð í vatnsföllum er glötuð meðan orku í jarðvarmalindum má að einhverju marki líta á sem forða sem bíður nýtingar.“

Þetta eru auðvitað spurningar sem hæstv. ráðherrar verða að svara: Hvers vegna er flokkunin eins og lagt er til í þeirri þingsályktunartillögu sem við erum að ræða? Hver er ástæðan? Er hún sú að það á að stoppa allt?

Það kemur líka mjög skýrt fram í umsögn Landsvirkjunar að verið er að taka hagkvæmustu virkjunarkostina út, sem eru mest rannsakaðir og mest er vitað um hvaða áhrif hafa á umhverfið. Það eru engin svör.

Svo er mjög athyglisvert að fara yfir þingsályktunartillöguna og síðan nefndarálit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þegar færður er rökstuðningur fyrir því að færa sex vatnsaflsvirkjanir er talið nauðsynlegt að kanna einstök áhrif þessara virkjunarkosta, varúðarsjónarmið búi þar að baki. Jú, það er í fínu lagi. En þegar maður les síðan varnaðarorð í áliti meiri hlutans sem snúa einmitt að virkjunum á háhitasvæðum þá er það nokkuð athyglisvert. Ég ætla að fá að vitna orðrétt í álit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem telur að gæta þurfi varúðarsjónarmiða með vatnsaflsvirkjanirnar út af laxastofninum, sem ég gef reyndar ekki mikið fyrir nema hugsanlega á Urriðafosssvæðinu en það er ekki svo mikil hætta með tvær efri virkjanirnar þótt hún sé kannski örlítil, en varúðarsjónarmið gilda ekki þegar meiri hlutinn hefur jarðvarmavirkjanirnar á háhitasvæðunum áfram í nýtingarflokki. Hvað skyldi standa hjá meiri hlutanum? Ég ætla að lesa það beint, með leyfi forseta:

„Efasemdir og áleitnar spurningar hafa vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, um mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.

Þá ber að hafa í huga að samkvæmt eðli máls felast veruleg umhverfisspjöll í hverri einustu virkjunarframkvæmd á háhitasvæði. Slíkt rask á sér einnig stað við rannsóknarboranir og því þarf að fara fram af sérstakri varúð.“

Hvort vegur þyngra, það sem hér er sagt, mengun grunnvatns og hugsanleg jarðskjálftavirkni, eða áhrif á laxastofn sem þegar hafa verið boðaðar mjög miklar mótvægisaðgerðir til að bregðast við af hálfu Landsvirkjunar? Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að meiri hlutinn og hæstv. umhverfisráðherra leggja til að þrátt fyrir að það geti mengað grunnvatn, sem er neysluvatn, og valdið jarðskjálftum — við þekkjum umræðuna og það sem hefur gerst í kringum Hellisheiðarvirkjun — verði virkjanir á háhitasvæðum í nýtingarflokki. Hvor rökin eru sterkari? Að mínu viti er enginn vafi þar um. Þetta er í raun algerlega óskiljanlegt. Ég hef ekki fengið svör við þessu. Það væri mjög athyglisvert ef hæstv. umhverfisráðherra kæmi hingað og útskýrði hvers vegna jarðvarmavirkjanir eru í nýtingarflokki en ekki vatnsaflsvirkjanirnar. Er það bara til að setja allt í stórt stopp? Það getur vel verið, en það er mjög merkilegt þegar maður les röksemdafærslu og ástæður fyrir þessu hjá meiri hlutanum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd því að það er engin samfella í því.

Síðan er mikilvægt að átta sig á einu þegar þetta er gert, sem kemur mjög skýrt fram þegar ég spyr: Hvað eru áhyggjur af mengun grunnvatns eða því að boranir á háhitasvæði valdi hugsanlega jarðskjálftum til samanburðar við þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar eru til að mynda í þeim virkjunum sem snúa að neðri hluta Þjórsár? Það segir sig sjálft. Mjög ítarleg greinargerð og skýrsla sem fylgdi umsögninni frá Landsvirkjun segja til um hvernig eigi að bregðast við. Það merkilegasta við þetta allt saman er að þarna er verið að veiða nánast 98% í net — þó að ég sé ekki að gera lítið úr laxveiðinni eða hlunnindunum sem að henni snúa. Ég sat fund sem varamaður í hv. atvinnuveganefnd þegar málið var þar, sem hugnaðist ekki hæstv. ríkisstjórn þannig að það var fært á milli nefnda, með fullri virðingu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og því fólki sem þar situr. Ég hlustaði einmitt á þessa aðila þegar þeir komu á fund hv. atvinnuveganefndar, bæði þá sem töluðu fyrir því að fara varlega út af laxastofninum og þá sem komu frá Veiðimálastofnun og útskýrðu hvernig yrði brugðist við. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér fannst röksemdafærsla frá fulltrúum Veiðimálastofnunar mun sterkari en þeirra sem ætla veiða áfram lax í net.



[19:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Samanburðurinn sem hv. þingmaður fór yfir var athyglisverður, þ.e. þegar borin voru saman rök og forsendur fyrir því að færa virkjanir í Þjórsá úr nýtingarflokki í biðflokk og hins vegar áherslan á jarðhitann. Hv. þingmaður nefndi að þessar virkjanir hefðu meðal annars verið færðar milli flokka vegna varúðarsjónarmiða og benti á að sömu varúðarsjónarmið virtust ekki eiga við þegar kom að því að ákveða að jarðhitavirkjanir skyldu vera í nýtingarflokki. Þá hljótum við að spyrja: Hvað er þarna á ferðinni? Má kalla þetta hræsni? Eru þetta mistök eða er þetta kannski það sem mér heyrðist hv. þingmaður segja, og ég bið hann að leiðrétta það ef ég hef rangt eftir, að þetta væri beinlínis gert til að koma á virkjunarstoppi og koma þá að sjálfsögðu í veg fyrir að virkjanir í Þjórsá yrðu að veruleika?

Það er vitanlega búið að fara yfir það nokkuð oft að þetta eru þær virkjanir sem er líklega fljótlegast að fara í vilji menn afla hér frekari orku. Við þekkjum vatnsaflið mun betur en jarðhitann. Maður hefði einmitt haldið að varúðarsjónarmiðin ættu frekar við jarðhitann en vatnsaflið. Svo spyr maður sig hvort hálmstráið, þ.e. að færa þessar virkjanir úr nýtingarflokki í biðflokk, hafi einmitt verið þetta hugtak, (Forseti hringir.) varúðarsjónarmið.



[19:43]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt mjög athyglisvert að lesa skýringarnar sem fylgja þessu máli, og ég fór meðal annars yfir í ræðu minni áðan, og ástæður meiri hlutans, ekki minni hlutans eða stjórnarandstöðunnar heldur meiri hlutans, að menn hafi áhyggjur af laxastofninum í Þjórsá vegna virkjana þar, sérstaklega neðstu, auðvitað miklu minna í tveimur efri, og þess vegna skuli gæta sérstakrar varúðar. Það verður líka að athuga að þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun hyggst grípa til við þessar virkjanir eru mjög miklar. Það er talið af Veiðimálastofnun, þaðan sem helstu sérfræðingar okkar í þessum málum koma, að virkjanir þarna muni hafa óveruleg áhrif. Síðan les maður álitið frá meiri hlutanum þar sem segir að við virkjun á háhitasvæðum skapist hætta á brennisteinsmengun út í andrúmsloftið og það allt saman, virkjun muni menga grunnvatnið og jafnvel valda jarðskjálftum en þeir virkjunarkostir eru samt áfram í nýtingarflokki. Þess vegna kallaði ég eftir útskýringum í dag þegar hæstv. umhverfisráðherra sat og hlustaði á ræðuna mína en ég fékk engin svör. Það er auðvitað hrópandi ósamræmi í þessu.

Síðan er líka bent á — þess vegna er maður að leiða hugann að því — og kemur til að mynda fram í umsögn frá Orkustofnun, að þessar virkjanir séu ekki sjálfbærar. Það er miklu meiri óvissa sem snýr að virkjunum á háhitasvæðum en vatnsafli. Þær virkjanir sem eru teknar þarna út og settar í biðflokk eru mest rannsakaðar, mest er vitað um þær, rannsóknir þar eru lengst komnar. Það er því mjög skrýtið að lesa rökin hjá hv. þingmönnum sem leggja þessa tillögu fram um nýtingu á háhitasvæðunum og aftur á móti rökin vegna varúðarsjónarmiða á vatnsaflssvæðunum.



[19:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það er búið að kalla töluvert eftir rökum fyrir því að þessi breyting hafi verið gerð. Sá rökstuðningur hefur ekki komið fram, þó er margbúið að kalla eftir honum.

Við hljótum líka að velta þessu fyrir okkur þegar við lesum nefndarálit meiri hlutans. Þar er áherslan á jarðhitavirkjanir í nýtingarflokki og ekki settur neinn fyrirvari við þær, varúðarsjónarmiðið virðist ekki gilda þar, en samt sem áður er að finna upptalningu í textanum, merkt stafliðum, þar sem kemur fram að hitt og þetta þurfi að skoða, kanna, rannsaka, velta fyrir sér o.s.frv. Það er í sjálfu sér ekki gert vegna varúðarsjónarmiða heldur vegna þess að menn telja að það vanti rannsóknir og slíkt. Hefði ekki verið nær að fjalla skýrar um kostina sjálfa?

Annað sem hefur vakið athygli er að verkefnisstjórnin setti sér nokkurs konar ramma þegar hún fór af stað til að vinna eftir. Þegar verkefnisstjórnin fjallaði um áhrifasvæði virkjana var til dæmis horft á vatnasvið eða jarðhitageyminn þar sem jarðhitavirkjanir eru fyrir hendi. Síðan sjáum við það í nefndarálitinu að talað er um verndarsvæði og þau kölluð „buffer zone“ á enskri tungu en það er engin skýring á því. Það er engin skýring gefin af hverju meiri hlutinn vill stækka að því er virðist það svæði sem er í dag talið áhrifasvæði og verkefnisstjórnin gaf sér. Hvað liggur þar að baki? Hvaða forsendur hefur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að ætla að stærra svæði verði sett þarna undir?



[19:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem sumir óttuðust er að gerast í þessu máli. Þegar farið var í þetta ferli fyrir öllum þessum árum, um 14 árum síðan, ætluðu menn að leiða þetta mál í jörð, eins og sagt er. Það kemur líka fram í umsögn Orkustofnunar hvernig menn fóru að málinu.

Þessi pólitísku fingraför eru algerlega óþolandi og ólíðandi. Það sem er verst við þetta að mínu mati er að þetta er bara rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar. Það gefur auga leið. Auðvitað munu stjórnvöld sem taka við ekki vera bundin af þessu vegna þess að samkomulagið var brotið með því að fara með málið í þennan farveg. Það hefði auðvitað verið skynsamlegra fyrir allt og alla ef menn hefðu látið verkefnisstjórnina raða kostunum upp á nýtt og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er búinn að leggja fram frumvarp þess efnis að málinu verði bara vísað aftur til verkefnisstjórnarinnar og hún látin raða þessum kostum eftir eigin höfði, enda búin að vinna við þetta í öll þessi ár, og síðan mundu menn hlíta því og það yrði þá grunnurinn á því samkomulagi. Auðvitað er það ekki hægt, það má ekki.

Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn tala um fagleg vinnubrögð. Það er náttúrlega lýðskrum og vitleysa og ekkert annað. Það hefur tekist að eyðileggja þetta mál eins og nánast öll önnur. Það er því miður þannig. Það er mjög slæmt að mínu viti að búið sé að eyðileggja þetta ferli. Það er alveg sama hvað hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn kemur nálægt, það er alveg sama hvað það er, það er allt í þessa veru. Síðan þegar bent er á svikin og allt sem er búið að lofa og að ríkisstjórnin hafi gengið á bak orða sinna þá kannast hæstv. ríkisstjórn aldrei við nokkurn skapaðan hlut. Það er alveg sama hver á í hlut, Samtök atvinnulífsins, ASÍ, eins og sést í auglýsingunni í dag, ríkisstjórnin hefur aldrei svikið neitt. Vinnubrögðin eru bara með þessum hætti.



[19:49]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðum mínum í dag og undanfarið um rammaáætlun hef ég komið mjög lítið að hinum efnahagslega þætti málsins. Ekki er það vegna þess að ég hafi talið að hann skipti ekki máli heldur vegna þess að málið er auðvitað svo margbrotið, svo galið og svo illa undirbúið og mótsagnakennt í sjálfu sér að ég hef orðið að fjalla um ýmsa þætti þess án þess að geta vikið að hinum efnahagslega þætti svo nokkru nemi.

Í dag gerðust hins vegar mjög mikil tíðindi, söguleg tíðindi í raun og veru, í samskiptum ríkisvaldsins við verkalýðshreyfinguna sem gera að verkum að það er algerlega óhjákvæmilegt einmitt núna á þessu kvöldi að setja rammaáætlun í það efnahagslega ljós sem henni ber. Meðal forsendna fyrir áframhaldandi kjarasamningum sem Alþýðusambandið setti var að gengisvísitala íslensku krónunnar mundi breytast þannig að gengi krónunnar mundi styrkjast. Nú er gengisvísitalan í kringum 230 en forsenda kjarasamninganna að mati ASÍ er sú að gengisvísitalan væri komin í um 190 og hefði þróast í þá átt smám saman á þessu ári. Við vitum að þarna er á milli himinn og haf. En hvað hefur það með rammaáætlun að gera?

Forseti Alþýðusambands Íslands var í útvarpsviðtali með hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, einum af höfuðábyrgðarmönnum þessa plaggs sem við ræðum hér, og lýsti nákvæmlega samspili rammaáætlunar eins og hún stendur, eins og hún var lögð fram, og gengisþróunar í landinu. Það sem forseti Alþýðusambands Íslands sýndi fram á var að gengi krónunnar hefði verið að veikjast vegna skeytingarleysis ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu atvinnulífsins. Hægar hefði gengið við uppbyggingu atvinnulífsins og ríkisstjórnin hefði búið til alls konar stíflur á innstreymi erlends fjármagns inn í íslenskt atvinnulíf og það hefði orðið til þess að veikja íslensku krónuna. Þetta, sagði forseti Alþýðusambands Íslands, á sérstaklega við þegar kemur að rammaáætlun. Hann vakti athygli á því að rammaáætlun eins og hún var lögð fram þýðir í raun og veru virkjunarstopp í vatnsaflsvirkjunum. Það eru þær virkjanir sem búið er að rannsaka best, það eru þær virkjanir sem við þekkjum best, eru sannarlega hagkvæmastar og hægt væri að fara í undir eins.

Það sem forseti Alþýðusambands Íslands sagði okkur var að rammaáætlun sem núna er til efnislegrar meðferðar í síðari umræðu á Alþingi stuðlar í raun og sann að veikingu íslensku krónunnar. Hún er þess vegna sérstök atlaga að kjarasamningum. Hún veikir og rýrir kaupmátt íslenskra launþega og gerir það að verkum að þeir verða að reyna að ná kaupmættinum upp með öðrum hætti, með auknum launakröfum á hendur atvinnulífinu sem atvinnulífið þarf síðan því miður í einhverjum tilvikum að velta út í verðlagið. Er ekki myndin þá farin að verða býsna gamalkunnug? Mynd víxlhækkunar launa og verðlags, alveg eins og við þekkjum, eins og við festumst í og menn komust ekki út úr fyrr en verkalýðshreyfingin, atvinnulífið og Bændasamtökin tóku höndum saman og réðust gegn ríkisstjórninni fyrir rúmum 20 árum og þeim tókst að knýja fram þjóðarsáttarsamningana sem rufu þennan vítahring.

Með öðrum orðum, rammaáætlun eins og hún blasir við okkur núna, fyrst með framlagningu tillögunnar og sérstaklega eftir að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar fór um hana sínum höndum, er í raun aðferð við að veikja gengi íslensku krónunnar. Þegar það gerist mun það leiða til þess í frekari mæli að lífskjör þjóðarinnar versna, lífskjör almennings, launþega versna, kaupmáttur verður minni. Þess vegna verðum við að skoða rammaáætlun í samhengi, ekki bara við efnahagslífið almennt heldur við kjarasamningana og stöðu þeirra núna. Og það skyldi þó ekki vera að rammaáætlun verði þess einmitt valdandi að kjarasamningum verði sagt upp, það verði ófriður á vinnumarkaði, mikil óvissa og upplausn fram undan? Það væri undarlegt ef það yrði svo, en því miður er greinilega verið að efna í slíkt með afgreiðslu rammaáætlunar verði hún á þá lund (Forseti hringir.) sem hér er lagt til.



[19:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var mjög athyglisvert viðtal sem hv. þingmaður var að vitna til og það hefur verið vitnað í þetta sama viðtal og sagt frá því á netmiðlum. Síðan voru þeir í Kastljósi í sjónvarpinu, skilst mér, atvinnuvegaráðherra ásamt forseta ASÍ. En þetta er nákvæmlega það sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa varað við í umræðum um rammaáætlun. Þetta stopp eða hvað á eiginlega að kalla það, öll þessi frestun mun leiða til þess að efnahagsbatanum seinkar.

Nú kemur forseti ASÍ fram og segir að hér vanti að hleypa málunum á skeið, ef má orða það þannig, og það muni leiða til veikingar krónunnar. Það leiðir til þess að hagur heimilanna á Íslandi versnar. Þetta eru skilaboðin sem forseti Alþýðusambandsins er að senda, hann varar okkur við, en þó er það þannig að ekki á að hlusta á hann frekar en á okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar. Við höfum ekki fengið áheyrn meiri hlutans með athugasemdir okkar. Á virkilega að keyra þetta mál áfram samt sem áður? Á að klára það þó svo að nú séu aðilar vinnumarkaðarins farnir að vara við þeim hörmungum sem gætu fylgt í kjölfarið?

Það kann að vera að stjórnarflokkarnir hugsi þetta nákvæmlega þannig, að þetta skipti engu máli. Veltum þessu bara yfir á framtíðina, veltum þessu yfir á næsta þing, látum næstu ríkisstjórn taka við vandanum sem við erum að skapa hér. Það er augljóst að þessu mun fylgja mikill vandi ef mark er tekið á orðum forseta ASÍ og þeim varnaðarorðum sem við þingmenn höfum margir haft uppi. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé nauðsynlegt að herða róðurinn í þessari umræðu til að reyna að fá stjórnarflokkana til að opna augun.



[19:57]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg rétt, það þarf örugglega að herða róðurinn í þessum efnum því það er greinilegt að skilaboðin sem fram hafa komið í þessari umræðu hafa ekki náð eyrum ráðamanna.

Ég er áhugamaður um pólitíska sögu. Þess vegna finnst mér dálítið fróðlegt að skoða núna þá stöðu sem greinilega er komin upp í samskiptum ríkisvaldsins undir forustu núverandi stjórnarflokka við verkalýðshreyfinguna.

Sú var tíðin að forverar þeirra stjórnarflokka sem nú sitja kölluðu sjálfa sig verkalýðsflokka eða öllu heldur eins og sagt var á þeim bæjum, „verklýðs“-flokka, með sérstakri áherslu. Þar var talað um órofa tengsl verkalýðsflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Nú kveður allt í einu við nýjan tón. Það eru ekki lengur þessi órofatengsl, þetta heilaga bandalag. Nei, nú eru hafðar uppi heitingar. Ég hlustaði á viðtal forseta Alþýðusambands Íslands og hæstv. atvinnuvegaráðherra áðan í útvarpinu. Maður kallar ekki allt ömmu sína og hefur ýmislegt heyrt og séð en ég verð að játa að ég átti ekki von á því að það yrði slíkt neistaflug milli fulltrúa verkalýðsflokksins og Alþýðusambands Íslands. Við heyrðum forustumann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala um að forseti Alþýðusambands Íslands kynni ekki mannasiði og færi fram með endemis ósvífni. Þetta segir okkur auðvitað að þarna á milli er orðinn alger trúnaðarbrestur. Það á sér meðal annars skýringar í þessu þingskjali sem við erum með hér, rammaáætlun sem forseti Alþýðusambands Íslands færði rök fyrir að væri sérstakt tilræði við kjarasamninga vegna þess að hún leiddi til lækkunar á gengi íslensku krónunnar, veikti lífskjörin í landinu og væri þess vegna sérstakt neikvætt innlegg í kjarasamningaviðræður í landinu.



[19:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að það er ekki ætlun stjórnvalda á neinn hátt að reyna að liðka til fyrir kjarasamningum. Í stað þess standa stjórnvöld nú í miklu rifrildi við Alþýðusamband Íslands. Ég tek undir með hv. þingmanni: Öðruvísi mér áður brá þegar vinstri stjórn og Alþýðusambandið tala saman.

Því hefur reyndar verið haldið fram — ég hef svo sem ekki séð það staðfest neins staðar, en það er auðvelt að fá það staðfest — að verkalýðshreyfingin hefur yfirleitt náð fram sínum kjarabótum þegar það er ekki vinstri stjórn við völd, vegna þess að þá hafa þeir sjálfsagt beitt harðari aðgerðum en ella. En hvað um það. Við hljótum að hafa áhyggjur af því sem mun taka við á næstu mánuðum, ekki síst ef kjarasamningar verða lengi í uppnámi.

Svo er hitt að við þingmenn höfum varað við því og núna Alþýðusamband Íslands að þetta muni hafa veruleg áhrif og seinka efnahagsbatanum sem er svo mikilvægur fyrir okkur. Það er svo mikilvægt að við förum að sjá framkvæmdir, við förum að búa til störf og framleiða vörur og skapa meiri gjaldeyri en við gerum nú þegar. En þetta er klárlega allt á sömu bókina lært, allt gert til að seinka því.

Það er vitanlega grafalvarlegt þegar hæstv. ráðherra fer fram með þeim orðaflaumi sem mér heyrðist hann gera í þessu viðtali og ég las það uppprentað á netmiðlum núna rétt áðan þar sem hann sakar meðal annars forseta Alþýðusambandsins um lygi. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort þeir sem stóðu að þessari auglýsingu, það var ekki bara forseti Alþýðusambands Íslands sem birti þessa auglýsingu um verk ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) heldur var stór hópur manna þar að baki, hljóti þá ekki allir að vera lygarar að sama skapi.



[20:02]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og forseti Alþýðusambands Íslands vakti athygli á í útvarpsviðtali fyrr í dag standa heildarsamtök íslenskra launþega, 100 þús. manns, á bak við þessa auglýsingu. Það sem við þurfum að átta okkur á er heildarsamhengið sem forseti Alþýðusambands Íslands og Alþýðusambandið undirstrika. Bent er á það sem kemur til dæmis fram í umsögn Orkustofnunar að með því að færa þessa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk eins og ríkisstjórnin lagði til er verið að taka hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostina úr nýtingarflokki, setja þá í biðflokk, setja þá í óvissu. Síðan bætir meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gráu ofan á svart og ákveður að setja þannig skorður við allt sem snertir jarðhitaverkefnin að greinilegt er að þar er ekki tíðinda að vænta á næstu árum ef fram heldur sem horfir. Það er heildarsamhengið sem verkalýðshreyfingin er að vekja athygli á, það er í raun verið að koma í veg fyrir allar framkvæmdir á þessu sviði.

Þó er öllum ljóst að fljótlegasta aðferðin til að drífa af stað alvöruhagvöxt felst í að koma þessum verkefnum af stað. Nú geri ég ekki lítið úr annarri atvinnusköpun í landinu sem skiptir miklu máli. En við vitum líka að ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að bregða fæti fyrir hana. Þessi verkefni eru af því taginu að þau eru fullrannsökuð og búið hefur verið svo um hnútana að hægt er að fara í framkvæmdir á mjög skömmum tíma. En þessi ákvörðun þýðir að komið er í veg fyrir að hægt sé að hleypa þeim af stað og þannig er stöðvuð sú uppbygging sem þeim mundi fylgja. Það er þetta heildarsamhengi sem verkalýðshreyfingin, orðin svo langþreytt á svikum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar, bendir á.



[20:04]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Oft er það þannig að þegar við í stjórnarandstöðunni viljum ræða mál erum við sökuð um málþóf. Við erum sökuð um að tefja fyrir málum, reyna að skemma fyrir. Það sem gerist oft í umræðu eins og þessari er að nýjar upplýsingar koma fram og andrúmsloftið í þjóðfélaginu breytist. Við sáum til dæmis í morgun auglýsingu þar sem Alþýðusamband Íslands, sem inniheldur flesta starfsmenn á vinnumarkaði eins og við vitum, kallar það brotið loforð hvernig farið er með þessa rammaáætlun. Við höfum líka séð hvernig atvinnuvegaráðherrann tekur á hlutunum, bæði í Speglinum í Ríkisútvarpinu og í Kastljósi rétt í þessu, hvernig hann raunverulega svarar þeirri gagnrýni sem beinist að ríkisstjórninni vegna þessa máls. Þar blasir ekki við fögur mynd en hún endurspeglar hvernig ríkisstjórnin nálgast þessa hluti. Hún endurspeglar hversu mikið samráð hún vill hafa við fólkið í landinu og í raun algjöra uppgjöf, getum við sagt, gagnvart því verkefni að koma hagvexti af stað í landinu.

Það er hægt að orða það svo að fleiri en stjórnarandstaðan sjá eitthvað athugavert við þetta háttalag, við það hvernig þessi mál eru afgreidd af ríkisstjórninni. Ég veit ekki hvort þetta er einsdæmi en þetta er að minnsta kosti með sjaldgæfari hlutum sem maður sér, að verkalýðshreyfingin sjái sig knúna til að kaupa auglýsingu í dagblaði til að minna á hvernig ríkisstjórnin hagar sér.

Í blaðaviðtali segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista það að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.“

Þetta er merkilegt, ekki bara í ljósi þess að hér talar forseti ASÍ, heldur miklu heldur að hann er að tala til þeirra tveggja flokka sem eiga hvað dýpstar rætur í verkalýðshreyfingunni. Þær rætur eru greinilega dánar og stjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, eru orðnir algjörlega einir á báti, búnir að missa baklandið í þeirri vegferð sem er verið að fara hérna. Það er alvarlegt (Gripið fram í: Mjög.) fyrir stjórnmálaflokk. (Gripið fram í: Mjög alvarlegt.) Og það er enn alvarlegra að hér skuli vera auglýst brotin loforð ríkisstjórnarinnar um slíkt grundvallarmál sem til dæmis þessi rammaáætlun er.

Eins og ASÍ er þjóðin að bíða eftir því að losna við þessa ríkisstjórn þannig að hægt sé að taka til við að byggja hér upp í þessu landi, hefja framkvæmdir, auka útflutning og bæta lífskjör.



[20:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og (Gripið fram í.) djúpa. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á því að 19. nóvember 2012 skilaði hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson af sér áliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar um þessa þingsályktunartillögu. Í lokaorðum þess álits segir, með leyfi forseta:

„Önnur afleiðing verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeira. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna.“

Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega það sama og forseti Alþýðusambands Íslands er að vara við akkúrat í dag og hefur afrekað það að reita hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til mikillar reiði, eins og sjá mátti áðan í sjónvarpinu. Það er í sjálfu sér ekki nýtt að við þessu sé varað. Það má kannski segja að það sé með ólíkindum hversu mikið langlundargeð Alþýðusambandið hefur haft að fara ekki fyrr fram með jafnákveðnum hætti og það hefur nú gert, en það er mjög gott að Alþýðusambandið skuli gera þetta og vekja athygli á þessu. Það hafa fleiri gert og þetta undirstrikar þá að sjálfsögðu alvarleika málsins. Þetta eru ekki bara einhverjir hundleiðinlegir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eru að kvelja ríkisstjórnina, þetta er grafalvarlegt mál. Það er verið að fjalla um þetta hér af jafnmikilli alvöru og Alþýðusamband Íslands gerir. Við hljótum því að spyrja og ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé full ástæða til að setjast núna niður, fara betur yfir þetta og velta fyrir sér hvort virkilega sé hægt að ganga frá þessu með öllum þeim fyrirvörum sem menn hafa sett.



[20:12]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek algjörlega undir þessi lokaorð greinargerðarinnar hjá hv. þingmanni og bendi á að Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar lagt til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem það verði endurskoðað. Það er gott mál. Við höfum lagt fram tillögu í þinginu til formlegrar meðferðar um að í stað þessa pólitíska flokkunarlista virðulegs umhverfisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýjar Harðardóttur, eigi að vinna sérfræðingaálitið áfram þannig að hægt verði að ná sátt um hlutina. Allir skynsamir menn hljóta að sjá að það gengur ekki að þjóðfélagið sé komið á annan endann, að þjóðfélagið rísi upp gegn ríkisstjórninni vegna þess hvernig hún vinnur hlutina, að verkalýðshreyfingin skuli kaupa auglýsingar til að benda á þessa augljósu hluti, að hæstv. atvinnuvegaráðherra skuli standa í hávaðarifrildi í fjölmiðlum. (Gripið fram í.) Þetta gengur ekki lengur. Það sjá allir skynsamir og sanngjarnir menn að það verður einhvern veginn að reyna að leiða þetta mál í jörð og reyna að sætta það.



[20:14]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski óhætt að segja að aldrei komi of mikið af varnaðarorðum þegar þessi vinstri ríkisstjórn er í umræðunni eða við þurfum að tala við hana. Það er athyglisvert að sú framtíðarsýn sem okkur er boðin þegar kemur að rammaáætlun er að mínu viti mjög óljós vegna þess að það er frekar leitast við að skapa óvissu en að eyða henni, hvað þá að reyna að ná sátt. Nú er svo komið að um þá sátt sem átti að ríkja um rammaáætlun og hefur brugðist á Alþingi gildir hið sama fyrir utan Alþingi. Úti í samfélaginu eru menn búnir að átta sig á því að þetta plagg gengur ekki upp. Þar er einnig orðið ósætti sem kemur best fram í auglýsingu Alþýðusambandsins í dag og síðan viðtölum við forseta Alþýðusambandsins. Þetta er hins vegar sá tónn sem við þingmenn erum búnir að heyra í langan tíma frá verkafólki úti um landið, frá þeim sem veita forseta ASÍ umboð sitt. Þeir ágætu einstaklingar sem við mann hafa rætt hafa varað nákvæmlega við þessu. Er skemmst að minnast varnaðarorða formanns Verkalýðsfélags Akraness sem hefur barist mjög ötullega fyrir því að halda þessum hlutum á lofti.

Fram undan eru kjarasamningar. Því ætla ég að spyrja hv. þingmann spurningar sem kann að verða erfitt fyrir hann að svara: Hvert getur útspil ríkisstjórnarinnar orðið í aðdraganda kjarasamninga? Það er ekki gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpinu en (Forseti hringir.) það mun kosta ríkissjóð eitthvað. Nú er það vinnumarkaðurinn.



[20:16]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvert útspil ríkisstjórnarinnar gæti verið. Ég held að það væri eðlilegast að ríkisstjórnin viðurkenndi að henni hefði mistekist verk sitt og að hún eigi bara að segja af sér. Ég held að hennar vænsta framlag inn í þann óróleika sem er orðinn á vinnumarkaðnum væri einfaldlega að hverfa frá verkinu. Það er alveg bersýnilegt að ríkisstjórnin ræður ekki við það. Þegar svo er komið að Alþýðusambandið segir í skriflegri yfirlýsingu að það hafi ekkert lengur við ríkisstjórnina að tala er komin upp alvarleg staða. Auðvitað á ríkisstjórnin stóra aðild að því máli að reyna að sætta aðila á vinnumarkaði og passa að hér verði ekki verkföll og annað slíkt. Nóg er nú samt.



[20:18]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér var hálfbrugðið áðan að fylgjast með Kastljóssþættinum og sjá hvers lags djúpstætt vantraust virðist vera orðið á milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Mér fannst hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fara ágætlega yfir það í ræðu sinni hve grafalvarlegt ástandið er orðið.

Nú erum við að ræða um einn hluta þess sem hefur valdið þessu vantrausti og mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða leiðir hann sjái út úr þeirri krísu sem ríkisstjórnin virðist núna vera í og heldur í raun og veru íslensku samfélagi í um leið. Verkalýðshreyfingin hefur gefið það út að hún ætli sér ekki að eiga meiri samskipti við þessa ríkisstjórn á þessu kjörtímabili, heldur verður það verkefni verkalýðshreyfingarinnar að ræða við nýja ríkisstjórn eftir næstu kosningar um framfaramál.

Við erum að ræða mál þar sem Vinstri grænir vilja stórlega skera niður framkvæmdir tengdar orkufrekum iðnaði með því að færa sex vatnsaflsvirkjanir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Þetta hefur valdið mörgum mönnum vonbrigðum, mér þar á meðal. Við erum ekki ein sem ræðum þetta í stjórnarandstöðunni, heldur er það verkalýðshreyfingin líka.

Hv. þingmaður endaði ræðuna sína áðan á að tala um brotin loforð og þá datt mér í hug tilvitnun í frægan texta eftir Bubba Morthens. Hann hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

Brotin loforð alls staðar,

brotin hjörtu á dimmum bar,

brotnar sálir biðja um far

burt, burt, heim.

Fá orð eiga eins vel við á þessu kvöldi sem skilaboð til þessarar ríkisstjórnar.



[20:20]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir umræðan farin að dýpka. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þessar ljóðlínur úr hinu fagra ljóði Bubba Morthens eiga mjög vel við, sérstaklega hér í kvöld. Þeir sem horfðu á Kastljósið og þeir sem hlustuðu á Spegilinn gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin er komin í algjörar ógöngur með alla þessa hluti.

Í þessu sérstaka máli held ég að vænlegast sé að fara þá leið að láta sérfræðingana um að koma með tillögu að flokkun virkjunarkosta þannig að haldið sé áfram þeirri vinnu sem hefur verið unnin síðasta rúma áratuginn og að Alþingi samþykki þá tillögu óbreytta. Ég held að það skapi sáttina. Það skapar ekki sátt að loka sig inni í forsætisráðuneytinu með kertaljós og tala ekki við nokkurn mann nema aðstoðarmann sinn. Það skapar enga sátt.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við reynum að laða fram þessa sátt alveg eins og við þurfum að gera í stjórnarskrármálinu, alveg eins og við þurfum að gera í öllum þeim stóru málum sem standa nú fyrir dyrum. Það þýðir ekkert að loka sig inni með Hrannari B. Arnarssyni við kertaljós.



[20:22]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að hér er um grafalvarlegt ástand að ræða. Það væri ágætt af því að hv. þingmaður er sigldur maður í lífsins ólgusjó eins og sagt er að hann mundi fræða mig um það, vegna þess að ég man ekki eftir því að Alþýðusamband Íslands hafi áður sagt skilið við sitjandi ríkisstjórn með jafnafdráttarlausum hætti og gerðist í dag þar sem svo fast var kveðið að orði að Alþýðusamband Íslands, fulltrúi 100 þús. launamanna, mundi ekki hafa meiri samskipti við þessa ríkisstjórn, það yrði hlutverk þess að ræða við næstu ríkisstjórn, þ.e. eftir kosningar, um málefni sem brenna á þjóðinni. Við erum að tala um gríðarlega mikilvægt mál. Það er kannski þess vegna sem við ræðum það ítarlega hér. Það að skera niður fjárfestingu sem mögulega gæti hljóðað upp á 270 milljarða á fjórum árum, samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu Gamma, er ekkert smámál. Þetta er stórmál sem við ræðum hér.

Ég endurtek spurningu mína til hv. þingmanns: Rekur hann minni til þess að Alþýðusamband Íslands hafi komið fram með svo afdráttarlausa yfirlýsingu gagnvart nokkurri ríkisstjórn? Í raun eru yfirlýsingar Alþýðusambandsins og reyndar Samtaka atvinnulífsins um brotin loforð alls staðar, ekki bara í þessum málaflokki heldur mörgum, og þetta hlýtur að segja okkur eitthvað og gefa okkur einhverja vísbendingu um það hvernig þessi ríkisstjórn heldur á atvinnumálum þjóðarinnar.



[20:24]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningu hv. þingmanns vil ég svara á þennan hátt: Ég veit ekki til þess að þetta hafi gerst áður. Ég þekki það ekki. Það er ákaflega merkilegt ef maður skoðar þetta í sögulegu samhengi að þetta skuli gerast núna hjá þessum tveimur flokkum, að þeir missi svona algjörlega tengslin við ræturnar. Þessir flokkar eiga rætur í verkalýðshreyfingunni en hún hefur núna algjörlega yfirgefið ríkisstjórnina. (BJJ: Þeir áttu sínar rætur.) Eins og hv. þingmaður bendir á er rétt að tala núna um að þeir hafi átt sínar rætur í verkalýðshreyfingunni, en það er greinilega liðin tíð. Þegar við sjáum fyrirsagnir eins og núna á ríkisfjölmiðlinum um að þetta sé lygi og annað slíkt undrar mann að þetta skuli vera samskiptin milli foringja annars stjórnarflokksins og þess sem segir að hann ráði þessu öllu saman raunverulega einn og geri þetta allt saman. Manni ofbýður að svo skuli vera komið að menn geti ekki einu sinni talað saman lengur. Það er grafalvarlegt mál og afleiðingarnar af því eiga eftir að koma í ljós hér á næstu dögum, vikum og mánuðum. En það er alltaf ljós einhvers staðar og ljósið er í apríl, þá geta landsmenn sagt sína (Forseti hringir.) meiningu.



[20:26]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hefur umræðan staðið nokkuð lengi og verið góð. Það er einn ljóður á því, herra forseti, sem ég sé ákveðna lausn á eins og stendur þar sem hæstv. umhverfisráðherra er við fundinn. Ég og margir fleiri hv. þingmann höfum stöðugt verið að spyrja og ekki fengið svör. Formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur komið hér nokkrum sinnum og svarað og það hefur varpað ljósi á sumt, t.d. hvað það þýði að ákveðinn virkjunarkostur er í biðflokki. Má þá ekki rannsaka neitt? Þá kom fram hjá hv. þingmanni að það væri vegna þess að hún óttaðist svo mikið rask. Þá er spurningin: Væri hægt að breyta þessu þannig að það mætti að sjálfsögðu rannsaka í biðflokki en leitast skyldi við að hafa rask sem allra minnst? Ég beini þessari spurningu til hæstv. ráðherra og ef hann gæti svarað því strax kynni það að stytta umræðuna töluvert mikið.

Síðan hefur líka komið fram að mikil áhersla er lögð á það að banna vatnsaflsvirkjanir sem þó er miklu betri þekking á á Íslandi og lögð áhersla á jarðvarmavirkjanir sem eru lítt rannsakaðar eða hefur ekki enn verið komið til botns í. Við sjáum að við Hellisheiði ráða menn ekki við brennisteinsvetnisvandann. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið tilgangurinn sem hér hefur komið fram. Var tilgangurinn að beina athyglinni að varmaorkuvirkjunum vegna þess að þar er minna rannsakað og að hugsanlega lendi menn í vandræðum?

Svo verð ég að vísa í þá auglýsingu sem birtist í morgun í blöðunum. Það kemur þessu máli við. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar — ekki efnt.“

Þá kemur spurningin: Var það samkomulag við ASÍ að rammaáætlun skyldi vera efnd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar? Hvers vegna brugðu menn frá því? Af hverju gerðu menn eitthvað annað, tóku eina sex nýtingarkosti og settu í biðflokk sem dregur úr atvinnumöguleikum á Íslandi, minnkar virkjanir og annað slíkt? Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hún hafi ákveðið sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, og ríkisstjórnin öll, að hverfa frá þessu. Og nú stendur í auglýsingu að orð skuli standa en að ekki hafi verið staðið við þau.

Síðan kemur merkileg setning í þessari auglýsingu:

„ASÍ hvetur Alþingi til að standa með íslensku launafólki.“

Það virðist benda til þess að hún treysti hreinlega ekki hæstv. ríkisstjórn og þar með hæstv. umhverfisráðherra til að standa við þessi orð.

Svo hef ég sjálfur velt upp þeim vanda sem við erum í gagnvart umheiminum, þeim að íslensk orka er sú hreinasta í heimi. Jafnvel ál sem hér er brætt með koldíoxíðmengun vegna kolaskautanna mengar margfalt minna en ál sem brætt er í Kína eða Sádi-Arabíu þar sem raforkan er framleidd með brennslu jarðefna. Spurningin er þá hvort ekki sé allt að því skylda Íslands að virkja sem allra mest með hliðsjón af umhverfisverndarsjónarmiðum heimsins. Þetta er einn hnöttur, herra forseti, sem kunnugt er.

Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvort þá væri ekki ráð að taka þessa ályktun frá sérfræðinganefndinni sem flestir eru sammála og virkja það sem hún leggur til bara hreint út sagt og vera fljót að því. Síðan getum við notið þess á eftir að hafa virkjað það sem hægt er, alveg sérstaklega jarðvarmann, því að það vatnsafl sem þar fer forgörðum kemur aldrei aftur. Það sem er að renna akkúrat núna niður þennan klukkutímann er orka sem Ísland er að tapa, það vatn fer út í sjó bara og hitar kannski bergið eitthvað pínulítið og vatnið. Öðru máli gegnir um jarðvarmavirkjanirnar, þær eru á vissan hátt geymdar og mér finnst að við ættum að bíða betur eftir tækninni þar sem er í mjög hraðri þróun.



[20:32]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt innlegg. Fyrr í dag var ég að velta fyrir mér hvað gerist verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt. Á bls. 25 í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir, með leyfi herra forseta:

„Meiri hlutinn beinir því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls að:

a) meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana,

á) láta störf næstu verkefnisstjórnar taka einnig til annarrar orkuvinnslu en úr vatnsafli og jarðvarma, svo sem möguleika á vindorku og sjávarfallaorku, og haga vinnunni þannig að þessir framtíðarkostir yrðu metnir í samhengi við þörf fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir.“

Mér finnst hér verið að víkka allverulega umboð verkefnisstjórnarinnar. Ég spyr hv. þingmann hvort verkefnisstjórnin eigi, þegar rætt er um smærri virkjanir, að fjalla um ef virkja á bæjarlækinn við sveitabæinn. Þarf að leita til verkefnisstjórnarinnar sem fer yfir öll samfélagsleg áhrif sem sú litla virkjun mun valda? Á hvað er verið að opna hér?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti af hverju verið sé að fela verkefnisstjórninni að rannsaka sérstaklega virkjunarkostina í Þjórsá frekar þegar við höfum horft upp á það á undangengnum árum að framkvæmdaraðilar annast þessar rannsóknir. Nú á þessi verkefnisstjórn allt í einu að fara í einhverjar umfangsmiklar rannsóknir á, ég veit ekki hvað það er, vistkerfinu eða hvað það er. Maður veltir fyrir sér hvað þetta kosti allt og hver eigi að borga. Hefur hv. þingmaður eitthvað hugleitt þennan þátt málsins?



[20:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru orð meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Fulltrúi þess meiri hluta er á fundinum og getur kannski svarað þessu. Ég get það ekki. Mér þætti það dálítið snúið ef bóndi sem ætlar að virkja lítinn bæjarlæk eða pínulítinn foss fyrir ofan bæinn þarf að fá leyfi úr Reykjavík til þess og þá fari í gang heilmikið umhverfismat og allt slíkt sem í rauninni er engin þörf á.

Mér finnst að við ættum líka að snúa spurningunni um Þjórsá til nefndarinnar því að þetta eru tillögur hennar. Svo veit maður ekki hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Er þá Alþingi búið að beina þessu til ráðherra og Alþingis alls af því að það er meiri hlutinn sem segir hér:

„Meiri hlutinn beinir því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls að …“

Þetta er mjög skrýtið ákvæði. Þá hefði átt að breyta ályktuninni sjálfri ef þetta hefði átt að vera þingsályktun Alþingis eða setja í greinargerð að þetta væri staðan sem væri samþykkt. Þá eru það lögskýringargögn.

Ég er sammála því að þetta er undarlegt orðalag. Það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra sem situr við umræðuna gæti svarað þessu sem fyrst þannig að það geti stytt umræðuna. Þá þurfum við ekki að spekúlera fram og til baka um hvað þetta þýðir. Eru þetta bæjarlækirnir eða virkjanir yfir 10 megavött? Eða um hvað eru menn að tala? Almenningur í landinu þarf að vita nokkurn veginn hvar hann stendur, en alveg sérstaklega náttúrlega er það spurningin um ASÍ sem ég hef velt fyrir mér. Það hefur heilmikil efnahagsleg áhrif og væntanlega heilmikil áhrif á lífskjör alls launafólks í landinu.



[20:36]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, við hv. þingmaður erum sammála um að hér vantar okkur svör við grundvallarspurningum um hvað gerist eftir að við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég skilji hlutina rétt í á-lið á bls. 25 þar sem verkefnisstjórninni er falið að meta þörf fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir. Það er alveg nýtt ef verkefnisstjórnin á að fara að leggja eitthvert mat á það hversu mikil þörf verði á orkuauðlindum á Íslandi eftir 10, 20, 30 ár. Það hlýtur að fara eftir stefnu stjórnvalda hverju sinni. Þetta er alveg nýtt hlutverk sem verkefnisstjórninni er falið með þessu orðalagi verði tillagan samþykkt eins og hún er. Maður veltir fyrir sér hvað þetta orðalag þýði nákvæmlega.

Hv. þingmaður er þingreyndur maður. Mér sýnist að það sé verið að víkka allmikið umboð og hlutverk þessarar verkefnisstjórnar ásamt því sem verkefnisstjórnin á að rannsaka einstaka virkjunarkosti sem er algjör nýlunda. Þetta hlýtur að kosta töluverða fjármuni. Þá hljótum við að spyrja ykkur og ég spyr hv. þingmann án þess að hann sé málsvari fyrir þetta mál, sem betur fer: Hvað kostar þetta? Um hvaða fjármuni erum við að tala? Hver á að borga þetta? Er það ríkissjóður eða eru það orkufyrirtækin? Mér finnst alveg skorta á núna í þessari umræðu að við vitum hreinlega hvað við erum að samþykkja ef þessi þingsályktunartillaga gengur til atkvæða. Erum við að tala um 100 milljónir? 500 milljónir? 50 milljónir? Hver veit það?

Þetta er ein grundvallarspurning sem við þurfum að fá svör við vegna þess að það er ekkert um það í neinu kostnaðarmati með þessari þingsályktunartillögu.



[20:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það ber svo vel í veiði að við erum að ræða fjárlagafrumvarpið við 3. umr. þannig að þar gætum við rætt ítarlega um hvort þetta sé í fjárlagafrumvarpinu og ef ekki hver eigi þá að greiða það, hvort það séu sveitarfélögin, virkjunaraðilar, eigendur bújarða eða aðrir. Það er góð hugmynd.

Það sem er undarlegt við þetta nefndarálit er, og við erum að ræða nefndarálitin, að þar eru nokkuð margar sérbókanir. (Gripið fram í.) Það er spurning hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Þar eru fyrirvarar Kristjáns L. Möllers, Þórs Saaris, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur o.s.frv. (Gripið fram í.) Það eru fyrirvarar út og suður. Maður veltir fyrir sér hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Er þá búið að samþykkja fyrirvarana líka? Eða án fyrirvaranna? Hvað þýða þessir punktar sem hv. þingmaður las upp um að það ætti að rannsaka Þjórsá o.s.frv.? Er það innifalið í samþykkt þessarar tillögu eða eru þetta bara einhverjar ábendingar eða spurningar sem svífa svo í loftinu á eftir þegar við ættum hugsanlega að skoða þetta, eitthvað svoleiðis?

Það er ekki nógu sniðugt þegar menn samþykkja þingsályktunartillögu að það sé ekki á hreinu hverju Alþingi er að beina til ríkisstjórnar því að þingsályktun er yfirleitt ályktun Alþingis til ríkisstjórnar. Það þarf að vera á hreinu hverju Alþingi er að beina til ríkisstjórnarinnar þannig að þegar búið er að samþykkja þetta liggi fyrir að það sé eitthvað ákveðið sem á að gera. Eins og hv. þingmaður velti upp felst þá í því að bændur þurfi að fara að sækja um leyfi fyrir litlu einkarafstöðinni sinni í bæjarlæknum. Þetta finnst mér ekki nógu klárt.



[20:40]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við áfram rammaáætlun. Ég tók þessa auglýsingu frá Alþýðusambandi Íslands með mér í ræðupúltið því að meira að segja verkalýðurinn er búinn að gefast upp á ríkisstjórninni. Ég sagði það í ræðu í síðustu viku að þingmenn væru búnir að gefast upp á ríkisstjórninni og landsmenn væru að gefast upp á henni, en nú er það komið í auglýsingaformi að Alþýðusamband Íslands er einnig búið að gefast upp á ríkisstjórninni.

Hér eru lagðir fram átta punktar sem ASÍ bendir á að ríkisstjórnin hafi ekki efnt. Við gerð kjarasamninga árið 2011 gaf ríkisstjórnin ASÍ loforð um mikilvægar aðgerðir á vinnumarkaði sem átti að ganga í til að draga úr atvinnuleysi. Að sjálfsögðu stendur ríkisstjórnin ekki við þetta loforð frekar en önnur. Ríkisstjórnin er meira að segja farin að brjóta skriflega samninga. Við vitum alveg hvað það þýðir fyrir dómstólum sem dæmi þegar samningar eru ekki virtir.

Það sem mig langar helst til að ræða í þessum punktum frá ASÍ er það efni sem er til umræðu núna, að rammaáætlun skuli vera afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndarinnar. Hér stendur „ekki efnt“ feitletrað í þessari auglýsingu. Því spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum gat ríkisstjórnin ekki komið þessu máli frá sér, skrifað undir samninga við Samtök atvinnulífsins og ASÍ 2011? Það er ekki efnt. Síðasti punkturinn frá ASÍ varðar róttækar aðgerðir í atvinnumálum og að ráðist verði í auknar fjárfestingar. Það er ekki efnt.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur meira að segja farið fram með þann dónaskap í dag í fjölmiðlum að brigsla forustumönnum Alþýðusambands Íslands um lygar. Þetta eru stór orð frá ráðherra sem fer fyrir öðrum flokki ríkisstjórnarinnar.

Umræðan í fjölmiðlum í dag hefur gengið út á að þetta með rammaáætlunina hafi verið svikið, að ekki sé farið eftir því plaggi sem var skilað til ríkisstjórnarinnar sem var svo skotið undir með lögformlegum hætti með lögum 2011, að Alþingi skuli taka valdið af ríkisstjórninni. Þetta hef ég oft heyrt síðan ég settist á þing, fólk segir við mig persónulega: Farið nú að reyna að fella þessa ríkisstjórn og koma henni frá völdum, þið eruð þingmenn og þið berið ábyrgð á því að þessi ríkisstjórn situr.

Það kristallaðist líka í umræðunni í dag að Alþingi geti tekið völdin af ríkisstjórninni. Það er ekki hægt, virðulegi forseti, á meðan ríkisstjórnin virðist lafa á naumum meiri hluta og það eru enn þá einhverjir fylgismenn við þessa ríkisstjórn af þeim 63 þingmönnum sem sitja í þessum sal og starfa sem fulltrúar þjóðarinnar.

Það er mjög erfitt að standa frammi fyrir kröfu um að Alþingi eigi að taka völdin af ríkisstjórninni þegar við getum ekki gert það vegna þess að ríkisstjórnin heldur hér naumum meiri hluta. Þess vegna verður sú umræða að skila sér út í þjóðfélagið að ríkisstjórnin ber ábyrgð á málum, bæði málefnum skuldugra heimila, málum atvinnuleysis og atvinnulausra. Við þingmenn getum einungis notað þennan ræðustól til að benda á það sem miður fer og leggja til úrbætur en lítið er á okkur hlustað. Eins og ég segi hefur þessi ríkisstjórn, að því er virðist, níu líf eins og kötturinn og situr hér á nánast, virðulegi forseti, ég ætla að segja það, lyginni einni saman.

Úr því að hæstv. umhverfisráðherra er í salnum vil ég nefna að ég fékk fyrirspurn í þessari umræðu sem ég gat ekki svarað vegna þess að ég hafði ekki tiltæk gögn og mig langar til að beina henni til hæstv. umhverfisráðherra: Hvaða gögn liggja að baki því að rammaáætlun var breytt frá því að sérfræðinganefndin skilaði af sér og þar til þetta kom fram í þessari þingsályktunartillögu? Hvaða gögn liggja að baki því að þessi ákvörðun var tekin og hvers vegna fá þingmenn (Forseti hringir.) ekki að sjá þau?



[20:46]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni auglýsingu sem vakið hefur mikla athygli í dag og kallað fram ofsafengin viðbrögð frá hæstv. ríkisstjórn. Þarf kannski engan að undra því að ríkisstjórnin er borin þar mjög þungum sökum þó að í sjálfu sér þurfi það ekki að koma á óvart vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið, eins og menn vita, krýnd sérstakri heimsmeistaratign af hálfu forseta Alþýðusambands Íslands fyrir svikin loforð.

Hv. þingmaður vísaði til eins atriðis í þeim lista sem birtist í auglýsingunni sem lýtur sérstaklega að rammaáætluninni. Þá vaknar spurningin: Hvaða erindi á það inn í umræðu Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamningana? Það sem býr augljóslega þar að baki og forseti Alþýðusambandsins útlistaði mjög vel í útvarpinu fyrr í dag er að það er beint samhengi milli stöðu gengisins, kaupmáttarþróunar almennings og þess plaggs sem við ræðum í dag sem er rammaáætlunin. Forseti Alþýðusambands Íslands útskýrði fyrir okkur útvarpshlustendum að rammaáætlun, eins og hún liggur fyrir frá hálfu hæstv. ríkisstjórnar og enn þá frekar eftir meðhöndlun meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, mundi stuðla að veikara gengi vegna þess að hún mundi gera það að verkum að þeir raforkukostir, virkjunarkostir, sem eru arðvænlegir, mest rannsakaðir og hagkvæmastir og er þess vegna hægt að fara fljótt í, eru út af borðinu og það er það sem er svo mikilvægt þegar við setjum málið allt saman í efnahagslegt og kjaralegt samhengi.

Ég veit að hv. þingmaður hefur lengi fylgst með umræðunni og kjaramálum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann um það hvernig hún meti málið út frá þeim sjónarhóli, hvort ekki sé samhengið milli rammaáætlunar, kjaramála, gengisþróunar og kaupmáttar.



[20:48]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Auðvitað vita það allir sem hafa heila hugsun að það er mikið samhengi þarna á milli og það er akkúrat það sem ASÍ bendir á. Verkalýðurinn er búinn að gefast upp á ríkisstjórninni, ég tiltók það áðan. Fleiri tugir þúsunda manna borga félagsgjöld sín í stéttarfélög í gegnum ASÍ og það er það fólk sem er atvinnulaust.

Við skulum vera sanngjörn. Ríkisstjórnin hefur jú staðið sig að einu leyti í því að skapa störf, ríkisstjórnin hefur einungis skapað opinber störf. Það fer varla frumvarp í gegnum þingið án þess að verið sé annaðhvort að stofna nýja ríkisstofnun eða fjölga opinberum störfum. Það er náttúrlega ólíðandi. Þeir sem ekki skilja að almenni vinnumarkaðurinn þarf að vera öflugur og skila miklum tekjum inn í samfélagið og mörgum störfum, skilja ekki samhengið á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar.

Hér á landi hafa mál þróast með þeim hætti undir stjórn þessarar ríkisstjórnar að opinberi vinnumarkaðurinn er að verða stærri en almenni vinnumarkaðurinn. Það gerðist á sínum tíma í New York, þá fóru vanhæfir menn með stjórn borgarinnar. Hvað gerði borgarstjórinn? Jú, hann fjölgaði opinberum störfum sem leiddi til þess að borgarstarfsmönnum fjölgaði mikið. Viðkomandi borgarstjóri hélt völdum einungis af því að þegar kom að kosningum voru opinberir starfsmenn og borgarstarfsmenn New York borgar orðnir svo margir að þeir kusu alltaf sömu stjórnvöld yfir sig.

Það er að gerast hér á landi og er hægt að tengja það við ESB-umsóknina. Það er ekki hægt að klára það mál vegna þess að það er alltaf verið að bíða eftir fylgismönnum, stækka opinbera geirann, (Forseti hringir.) fjölga störfum hjá ríkinu sem hagnast þeim beinlínis sem vilja ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) svo ég taki dæmi.



[20:50]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður gleymdi einum mjög veigamiklum þætti í atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar, sem er sérstaklega á ábyrgð Vinstri grænna, það eru IPA-styrkirnir. Ég er svolítið hissa á því að hv. þingmaður skuli hafa látið það fara fram hjá sér og ekki tekið eftir því að sú mikilvæga atvinnusköpun í boði Vinstri grænna á sér stað.

Síðan er auðvitað annars konar atvinnusköpun sem ekki má heldur gleyma, það eru störf án auglýsinga þar sem ríkisstjórnin hefur verið býsna dugleg við að skapa störf. Ég vil nú vera sanngjarn við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana og halda til haga því sem hún hefur þó verið að gera í þeim efnum.

Það sem er svo athyglisvert í þessu öllu saman er heildarsamhengið. Það er mjög mikið áhyggjuefni að það er ekki bara Alþýðusamband Íslands sem gagnrýnir rammaáætlun á efnahagslegum forsendum heldur líka Orkustofnun. Þar hefur verið bent á að aðferðin við að leggja áherslu á jarðhitaverkefni á sama tíma og vatnsaflsvirkjunum sé ýtt út af borðinu stuðli að ósjálfbærri þróun í orkunýtingu. Það blasir við. Við erum annars vegar með rannsakaða virkjunarkosti þar sem við þekkjum áhrifin. Við hefðum getað farið af stað með þær framkvæmdir og unnið að frekari rannsóknum á sviði jarðhitans á meðan við byggðum upp vatnsaflsvirkjanir og byggt smám saman upp þekkingu á því sviði. Við vitum líka að það er mjög háskalegt að fara í nýtingu á jarðhitasvæðum án þess að gera sér alveg grein fyrir því hvað svæðið þolir.

Þá umræðu fórum við vel í gegnum þegar deilur stóðu um Þeistareyki á sínum tíma. Þess vegna er það enn þá sérkennilegra þegar við horfum á málið í hinu umhverfislega samhengi, á spurningar um hina sjálfbæru þróun og umhverfisvernd. Ríkisstjórnin sendir frá sér mjög undarleg skilaboð hvað þetta varðar þannig að virðuleg stofnun eins og Orkustofnun kýs að hafa býsna stór orð, (Forseti hringir.) að minnsta kosti á mælikvarða opinberra stofnana, um málið.



[20:52]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara Orkustofnun sem gerir athugasemdir við það heldur fór ég yfir það í andsvari í dag að mikil vinna fer nú fram hjá Landsvirkjun varðandi hugsanlegan sæstreng til Skotlands, til Bretlands. Það vantar náttúrlega orku inn á þann streng og á meðan ríkisstjórnin vinnur að því að setja hér algjört stóriðjustopp og virkjunarstopp vinnur Landsvirkjun, ríkisfyrirtækið sjálft, að drögum að því að farið verði í stórkostlegan orkuútflutning.

Ég skil ekki alveg hvað er í gangi hjá ríkisstjórninni varðandi það. Ég vil samt taka það fram að ég vil ekki að Ísland verði hrávöruútflytjandi á orku. Ég er fyrst og fremst meðmælt niðurstöðum starfshóps um rammaáætlun sem unnið hafði mjög gott starf í 13–14 ár og farið í mikið ferli. Þar var haft samráð og gegnsæi í störfum hópsins, sem er það sem ríkisstjórnin þykist alltaf vera að vinna eftir. Þá kemur bara hin vinstri græna krumla inn og breytir málinu áður en það er þingfest. Það er alveg hreint óskiljanlegt. (Gripið fram í.)

Sem betur fer er líftími þessarar ríkisstjórnar á enda eftir nokkrar vikur. Sem betur fer verður kosið upp á nýtt. Eins og allir vita er Framsóknarflokkurinn mikill atvinnumálaflokkur (Gripið fram í.) og skilur mikilvægi þess að skapa hér atvinnu til að heimilin geti blómstrað og til að hér aukist hagvöxtur sem væri hægt að nýta í hinum opinbera geira.

Úr því að hv. þingmaður benti á IPA-styrkina er það nú eitt sem er náttúrlega algjörlega fáránlegt. Verið er að moka 5 þús. millj. kr. inn í opinbera geirann með einhverjum nýjum tölvukerfum og vitleysu. Það er nú eina atvinnusköpunin sem þessi ríkisstjórn stendur í (Forseti hringir.) í boði Vinstri grænna.

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) komi ekki upp í ræðu eða andsvör við þingmenn vegna þess að hún situr hér í salnum.



[20:55]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Í máli mínu í dag og í gær hef ég ekki náð að fara yfir allar efnahagslegar forsendur sem tengjast því máli sem við ræðum. Ég hef mikið rætt um virkjanir á Suðurlandi og að búið skuli að færa þar fjölmarga kosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk að kröfu Vinstri grænna. Okkur framsóknarmönnum er hugleikin atvinnuuppbygging á Bakka við Húsavík og í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði að einhverju leyti drifinn áfram af atvinnuuppbyggingu þar.

Af hverju nefni ég það í þessu samhengi? Jú, vegna þess að samkvæmt rammaáætlun á að nýta hluta af þeim náttúruauðlindum sem þar eru til atvinnuuppbyggingar á Bakka við Húsavík. Það hefur verið baráttumál Þingeyinga um árabil að nýta þá orku sem er að finna í sýslunni til atvinnuuppbyggingar í heimabyggð, enda veitir ekki af. Heilmikil varnarbarátta hefur átt sér stað á umliðnum árum á norðausturhorni landsins og því er það sjálfsagt réttlætismál að fólk þar, heimamenn, fái að nýta orkuauðlindir sínar til þess að skapa fjölbreytt og öflugra atvinnulíf.

Nú bregður svo við og hefur komið í ljós hér í umræðunni í dag að til þess að hefja slíka atvinnustarfsemi á Bakka við Húsavík þarf að fjárfesta í innviðum, m.a. flutningsmannvirkjum, þ.e. rafmagnslínum frá til að mynda Þeistareykjasvæðinu og niður á Bakka. Fleira þarf til, eins og vegagerð og jafnvel hafnargerð o.fl. til þess að svæðið verði hæft til atvinnuuppbyggingar, þ.e. til þess að nýta orkuna á Bakka við Húsavík. Heimamenn telja að það þurfi 2,8 milljarða til að fjárfesta í innviðum þannig að svæðið verði tilbúið undir slíka atvinnuuppbyggingu.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 kemur hið undarlega fram að ekki er króna áætluð til þess að styrkja innviðina til að búa atvinnulíf á svæðinu undir iðnaðaruppbyggingu á Bakka. Þá veltir maður í fyrsta lagi fyrir sér hvort forsendur fjárlagafrumvarpsins haldi. Það verður náttúrlega engin uppbygging nema slík fjárfesting eigi sér stað og að ríkisstjórnin standi með heimamönnum í slíkri uppbyggingu. Í öðru lagi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það sé í raun og veru eitthvað að marka hin digru loforð sem ríkisstjórnin hefur verið að senda norður í land um að Þingeyingar skuli búa sig undir heilmikla uppbyggingu í atvinnumálum. Ég vonast nú til þess að Framsóknarflokkurinn komi að verkum eftir næstu kosningar og að þá verði hægt að setja innspýtingu í atvinnulífið á svæðinu og búa það undir það að hefja atvinnuuppbyggingu með orkunni úr Þingeyjarsýslum. En eins og staðan er núna er ekkert í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem bendir til þess að fjárfesta eigi í slíkum innviðum sem eru jú forsenda þess að uppbygging af þessu tagi geti átt sér stað.

Mér finnst nauðsynlegt að það sé rætt í umræðu um uppbyggingu orkukosta og eins hvernig við ætlum að nýta orkuna. Ef innviðirnir verða ekki styrktir, eins og heimamenn hafa talað fyrir og lagt að ríkisstjórninni að aðstoða sig við, er hætt við að orkan verði mögulega flutt burt af svæðinu. Við framsóknarmenn höfum ályktað um að slíkt komi ekki til greina. Það er mjög mikilvæg umræða hvernig við högum orkunýtingu til framtíðar litið. Mér finnst þarft að ræða það málefni sérstaklega hér, kannski ekki síst af því að ég er oddviti og þingmaður framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, vegna þess að ef af verður verður hægt að skapa hundruð starfa á þessu svæði sem hafa mun gríðarleg áhrif, ekki bara fyrir Þingeyjarsýslur heldur fyrir Eyjafjarðarsvæðið allt og jafnvel austur á land. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.

Ríkisstjórnin þarf að sýna fram á að henni sé alvara með að standa að baki þessari atvinnuuppbyggingu, en miðað við að heilir sex virkjunarkostir eru teknir úr nýtingarflokki og settir yfir í biðflokk sýnist mér það ekki beinlínis vera áhersla ríkisstjórnarinnar að stuðla að mikilli uppbyggingu í þeim geira atvinnulífsins.



[21:00]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á eitt atriði sem hefur vakið athygli og var mikið rætt hér í umræðunni um fjárlögin. Það liggur alveg fyrir að til þess að geta farið í þá atvinnuuppbyggingu á Bakka sem hv. þingmaður nefndi hér þurfa 2,6 milljarðar kr. að koma inn í fjárlögin. Það snýr að innviðunum, vegagerð og hafnargerð. Það stendur til að skrifa undir viljayfirlýsingu og samninga núna í vor þess efnis að fara í þessa atvinnuuppbyggingu.

Forsvarsmenn Norðurþings, sveitarfélagsins sem kemur að þessu, sögðu það með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti að verði þetta fjármagn ekki sett inn í fjárlögin muni sveitarfélagið ekki skrifa undir viðkomandi samninga. Flóknara var það ekki, það var bara þannig. Þá verður að sjálfsögðu ekki af þessari atvinnuuppbyggingu á Bakka, sem er forsenda fyrir hagvaxtarspánni sem er tekið mið af við gerð frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði á seinni hluta árs 2013, sem þýðir þá sannarlega tekjufall fyrir ríkissjóð, þannig að þá verður tekjuhlutinn orðinn laskaður.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áhyggjur af því að í raun og veru standi enn eina ferðina til að standa ekki við þau framlög sem þurfa að koma. Jafnvel að íbúar Norðurþings og forsvarsmenn sveitarfélaganna muni þá birta samsvarandi auglýsingu í blöðunum eins og kom fram frá Alþýðusambandinu í dag um að búið væri að svíkja þau loforð sem gefin voru. Einnig að ekki standi til, á meðan þessi ríkisstjórn hafi eitthvað um það að segja, annað en að halda áfram á þeirri braut sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið á, að ráðast gegn atvinnulífinu alls staðar á landinu hvar og hvenær sem er.



[21:02]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur varpað ljósi á að forsendur fjárlaga og fjárlögin sjálf standast ekki. Það er í raun og veru ákveðin mótsögn í þessu því að hagvaxtarspáin byggir á atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík, en til þess að af henni geti orðið þarf að fjárfesta fyrir 2,6 milljarða. Það er ekki í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013, þannig að maður veltir fyrir sér hvort hér sé verið að reyna með einhverjum hætti að fegra stöðu ríkissjóðs, fegra spána. Ef þessir fjármunir verða ekki til verður ekkert af þessari atvinnuuppbyggingu og þar með er tekjuhlið ríkissjóðs jafnvel ofmetin sem því nemur. Maður veltir því fyrir sér hvernig ríkisstjórnin hagar málum í þessu. Fyrir utan svo hitt að við sem höfum talað fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka höfum ekki fengið neinar sérstakar undirtektir frá þingmönnum Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar. Það er holur tónn í þeirri umræðu, jú nema til heimabrúks fyrir ákveðna þingmenn sem eru búsettir í kjördæminu, en aðrir hafa sýnt mjög takmarkaðan skilning á uppbyggingu atvinnuiðnaðar á þessu svæði.

Mér sýnist að hér sé um enn eitt dæmið að ræða í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar þar sem menn eru viljandi, vil ég meina — það sjá þetta allir — að fegra stöðu eða framtíðarhorfur ríkissjóðs, það er einfaldlega þannig. Og það er mjög mikilvægt að núna við 3. umræðu fjárlaga 2013 verði þetta atriði dregið aftur fram til þess að raunsönn mynd af stöðu ríkissjóðs birtist þá a.m.k. í þingtíðindum.



[21:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að það sé alveg á hreinu var gert ráð fyrir atvinnuuppbyggingu í stóriðju á seinni hluta árs 2013 í hagspá Hagstofunnar. Hún getur verið á Bakka þangað sem Landsvirkjun beinir öllum viðskiptavinum sem koma hingað til að fara í þá vegferð eða hafa áhuga á að fara í atvinnuuppbyggingu.

Við sjáum auðvitað í hendi okkar að ef þessi þingsályktun fer svona fram verður ekki sköffuð orka á suðvesturhorninu þannig að það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Þá er að sjálfsögðu líka rökrétt niðurstaða, þegar hluti af því sem á að bera uppi hagvöxtinn er undir, að hagspáin stenst ekki.

Það er auðvitað þess vegna sem forustumenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar koma fram með svona afgerandi hætti. Atvinnustefna og efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar er svo að ráðist er gegn öllu atvinnulífi og allri atvinnuuppbyggingu. Síðast réðist hæstv. ríkisstjórn að ferðaþjónustunni. Það þýðir auðvitað þetta öngstræti sem við erum í. Einu lausnir hæstv. ríkisstjórnar eru að hækka skatta. Bara þær skattahækkanir sem hafa áhrif á vísitöluna núna munu hækka lán heimilanna um 3 milljarða og heimilin eru auðvitað að sligast. Þetta vita forustumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Það er auðvitað ekki nema von að fólkið sem er í forsvari fyrir þessi samtök gefist upp á hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er svo mikilvægt að menn bregðist við og komi hjólum atvinnulífsins í gang.

Hv. þingmaður nefndi líka þann tvískinnung sem oft er þegar menn eru að nota eitthvað til heimabrúks. Nú stýrði hv. þingmaður þætti með einum hv. þingmanni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, sem er búinn að vera með hæstv. ríkisstjórn á skilorði í mjög, mjög langan tíma. Hann tilkynnti það fyrir um tveimur árum að það væru einhverjar vikur sem hún væri á skilorði. Getur hv. þingmaður kannski upplýst okkur vegna samskipta þeirra á þessu sviði, þó að hann sé ekki lengur þáttastjórnandi, hvort eitthvað sé að styttast í skilorði hjá hæstv. ríkisstjórn hjá hv. þingmanni?



[21:07]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Í dag er hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson á mælendaskrá þannig að ég á von á því að hann komi vígreifur til þessarar umræðu. Ég er viss um að við hv. þingmaður verðum á vaktinni þegar hv. þingmaður kemur og við munum inna hann eftir því hvort hann styðji þetta fjárlagafrumvarp sem inniber ekki í sér þá fjármuni sem hv. þingmaður hefur nefnt hér að ríkisstjórnin þurfi að verja til þess að byggja upp innviði í atvinnumálum í Þingeyjarsýslu.

Síðan verð ég einfaldlega að vekja athygli, rétt eins og fleiri, á heilsíðuauglýsingu Alþýðusambands Íslands í dag þar sem við þingmenn erum hvattir til dáða til þess að standa í lappirnar gagnvart ríkisstjórninni. Þar segir m.a., frú forseti, um akkúrat þetta mál sem við ræðum hér, með leyfi frú forseta:

„Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar“ og svo er feitletrað: „ekki efnt“.

Þess vegna ræðum við þessi mál hér. Ríkisstjórnin er að ganga gegn ráðum okkar helstu vísindamanna sem hafa unnið að þessum málaflokki í 13 ár, allt vegna þess að einn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hótaði Samfylkingunni því að fengi hann ekki sínu framgengt, að sex rennslisvirkjanir yrðu færðar úr nýtingarflokki í biðflokk, yrði þessu ríkisstjórnarsamstarfi slitið, það er einfaldlega þannig. Og dýr er nú verðmiðinn á að lengja líf þessarar ríkisstjórnar um tvo eða þrjá mánuði, ef marka má gögn frá Gamma ráðgjafarfyrirtæki. Það mun ekki kosta þjóðina nema um 270 milljarða kr. í minni fjárfestingu á næstu fjórum árum. Þetta fer að verða dýrasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar.



[21:09]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í blöðunum í morgun birtist auglýsing frá Alþýðusambandi Íslands þar sem sagði m.a. að rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar og þar af leiðandi hefði ríkisstjórnin m.a. svikið loforð sem voru gefin Alþýðusambandi Íslands.

Í ljósi þessarar yfirlýsingar og umræðna sem hafa verið hér í dag um þetta mál og m.a. í Kastljósinu í kvöld þar sem formaður Vinstri grænna og hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og Gylfi Arnbjörnsson ræddu þetta hafa sá sem hér stendur og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson óskað eftir því að boðað verði án tafar til sameiginlegs fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd til þess að ræða þessar yfirlýsingar og fara yfir það sem Alþýðusambandið kallar svik ríkisstjórnarinnar. Og ég held að það sé mjög brýnt, frú forseti, að þessi nefndarfundur fari fram áður en umræðum er haldið áfram um þetta mál hér á Alþingi.



[21:10]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Hér í salnum er hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður annarrar nefndarinnar, og tel ég að skilaboðin séu komin til hv. þingmanns um að boðað verði til fundar í nefndinni. Að öðru leyti áttar forseti sig ekki alveg á því hvað þetta varðar fundarstjórn forseta, sem er nýhafin.



[21:11]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýr að sjálfsögðu að fundarstjórn forseta, þ.e. framkvæmd þingfundarins, því að óskað er eftir því að boðað verði til sameiginlegs fundar í þessum nefndum og hlé gert á þessari umræðu á meðan. Það er til þess að hægt sé að fara yfir málið og ræða við aðila vinnumarkaðarins sem þarna eru nefndir, að mér heyrðist að ósk þingmannanna. Ég held að eðlilegt sé að gera það því að málið er stórt, það er mikilvægt og það er alvarlegt. Það er að sjálfsögðu alvarlegt að saka ríkisstjórnina um að svíkja loforð, en það er svo sem ekkert nýtt, við höfum séð hana gera það margoft.

Hins vegar er líka alvarlegt að Alþýðusambandið, eins og hefur komið fram í dag, varar mjög við því að fara þá leið að breyta rammaáætluninni þannig að hér muni hægja á hagvexti, sem er nú ekki mikill, o.s.frv. Þar af leiðandi held ég að sé eðlilegt, frú forseti, að verða við ósk þingmannanna.



[21:12]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þá beiðni sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason og Sigurður Ingi Jóhannsson, hafa lagt fram. Sá einstæði atburður átti sér stað í dag að samtök launafólks sögðu sig frá frekari samskiptum við ríkisstjórn Íslands og bíða þess að ný ríkisstjórn sem hægt sé að eiga eðlileg samskipti við taki við. Í málflutningi þeirra er meðal annars vitnað til þeirrar umræðu og þess máls sem við ræðum hér. Mér finnst, í ljósi þess hversu sérstaklega þetta mál er vaxið, að rétt sé að gera hlé á umræðunni og láta nefndirnar, hv. umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd, fá þessa aðila á fund nefndanna til að fara yfir þessi nýju tíðindi. Kjarasamningar eru í uppnámi, það er ekkert traust hjá aðilum vinnumarkaðarins gagnvart ríkisstjórninni og við þurfum einfaldlega að fá aðkomu að þessu, kjörnir fulltrúar, (Forseti hringir.) þingmenn, og vita hvernig í pottinn er búið í þessum málum.



[21:13]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ósk hv. þingmanna um að fundirnir verði boðaðir hið fyrsta. Það er full ástæða til að þingnefndir komi saman til að ræða við þessa aðila, sérstaklega eftir fjölmiðlaumræðu um málið í dag og í kvöld. Ástæðan fyrir því að þetta á erindi undir fundarstjórn forseta er að í fundarbeiðninni kemur fram að í raun er verið að fara fram á að umræðu um rammaáætlun verði frestað á meðan fundirnir fari fram og að umræðu um málið verði ekki lokið fyrr en eftir þessa fundi.

Það er því full ástæða til að koma upp undir fundarstjórn forseta og óska eftir því að umræðunni um rammaáætlun verði frestað þar til þingnefndir sem hafa hér verið nefndar hafi fengið tækifæri til að funda með þeim aðilum sem verða boðaðir til þess fundar.



[21:14]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill upplýsa hv. þingmenn um að báðar þessar nefndir verða með nefndarfundi klukkan eitt á morgun, í hádeginu. Það hefur verið óskað eftir lengra matarhléi til að geta fundað í nefndunum.



[21:15]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að orðið verði við þessari beiðni þingmanna Framsóknarflokksins vegna þess að það eru grafalvarleg tíðindi að forseti ASÍ skuli lýsa því yfir að það hafi orðið niðurstaða fundar innan ASÍ í dag að forsvarsmenn þar ættu ekki lengur neitt vantalað við ríkisstjórnina og yrðu að bíða eftir næstu ríkisstjórn til að taka upp viðræður vegna svikinna loforða. Það tengist beint þessu máli. Ég tel ekki nóg að vísa til þess að það verði fundir klukkan eitt á morgun, ég tel mjög brýnt að nefndirnar verði kallaðar saman nú þegar og hlé gert á umræðunni. Nóttin er ung þannig að við höfum nægan tíma eftir nefndafundi til að ræða málið áfram en við verðum að fá einhvern botn í þetta mál, virðulegi forseti.



[21:16]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er nokkuð ljóst að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru fyrir nokkru komnir í þrot í umræðunni (Gripið fram í: Nei, nei.) og leita nú logandi ljósi allra leiða til að koma í veg fyrir lýðræðislega atkvæðagreiðslu um þetta mál í þinginu. (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.)

Það vita allir sem setið hafa sameiginlega fundi þessara tveggja nefnda að fáir hafa fengið jafnrækilegan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og einmitt fulltrúar Alþýðusambands Íslands. Það fengu þeir strax í vor þegar málið kom hér fyrst fyrir og svo aftur nú í haust þannig að það er ekkert nýtt í þeim efnum sem þeir hafa fram að færa í þessu. Við höfum farið rækilega yfir sjónarmið þeirra.

Þá er auðvitað rétt að halda því til haga að ekki veit ég til þess að nokkur þingmaður eða nokkur ráðherra í ríkisstjórn hafi lofað Alþýðusambandi Íslands nokkru. Það sem við höfum lofað er að (Forseti hringir.) fara að gildandi lögum sem Alþingi setti hér samhljóða og það erum við að gera samkvæmt því ferli sem þar var kveðið á um. Undir það hlýtur Alþýðusamband Íslands (Forseti hringir.) að beygja sig eins og þingmenn stjórnar sem stjórnarandstöðu.



[21:17]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það virtist vera sami tónn í hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í garð þeirra sem ekki eru þeim sammála.

Ég ætlaði þó að ræða fundarstjórn forseta en ekki efnislega um málið. Þessi umræða er búin að standa drjúglengi en ég á hins vegar eftir að koma inn á mörg efnissvið og hef ekki fengið svör við ýmsum spurningum þannig að ég get haldið þessari umræðu lengi áfram einn án þess að þurfa að grípa til nokkurra annarra úrræða. Tilgangur með umræðu hlýtur, frú forseti, að vera sá að leita lausna, skapa sátt og finna nýja fleti sem ekki hafa verið reifaðir áður, eins og þann að hér virðast kjarasamningar vera komnir í uppnám og stór hluti alþýðu Íslands, þeirra sem vinna hér verðmætu störfin sem eru undirstaða velferðarkerfisins, segir: Hingað og ekki lengra. Er þá til of mikils ætlast að við köllum saman sameiginlegan fund til þess (Forseti hringir.) að leita lausna á þessu máli? Skynsamlegast væri, frú forseti, að fresta umræðunni hér þangað til þeim fundi væri lokið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[21:19]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er orðið áliðið kvölds og sumir þingmenn eiga börn o.s.frv. Þetta er ekki vandamál hjá mér, ég get staðið vaktina hérna endalaust og þarf ekki að taka tillit til fjölskyldu. En mig langar til að ræða einmitt það hvort ekki sé ráð að fresta umræðunni núna og sjá hvort ekki náist samkomulag í nefndunum. Til dæmis hefur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, sagt að áhyggjur hennar af því að menn rannsaki í biðflokki séu vegna þess að menn kynnu að skaða eða skemma náttúruna. Þá er lítið mál að kippa því í liðinn, þá segjum við bara að það megi rannsaka en það sem rannsakað er skuli gert afturkræft. Þetta er einfalt.

Síðan er greinilegt að ASÍ sem fulltrúi láglaunafólks og launafólks í landinu telur að þetta sé efnahagslegt vandamál, að þetta skaði hag heimilanna. Það er nokkuð sem nefndin þarf að ræða. Ætlum við að skaða hag heimilanna?



[21:20]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna hér. Í fyrsta lagi tek ég undir þá ósk hv. þingmanna Ásmundar Einars Daðasonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar sem birtist í bréfi þeirra sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gerði grein fyrir áðan. Ég held að þetta sé málefnalegt og þarft innlegg í ljósi þess að svo virðist sem kjarasamningar séu meðal annars í uppnámi vegna þessa máls.

Á hinn kantinn vildi ég staðfesta það sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði áðan, fulltrúar samtaka á vinnumarkaði komu oftar en einu sinni fyrir umhverfis- og samgöngunefnd meðan á málsmeðferð stóð og héldu fram mjög sterkum og góðum rökum um þetta. En meiri hluti þeirrar nefndar og (Forseti hringir.) reyndar í atvinnuveganefnd líka virðist ekkert láta það á sig fá hvað heildarsamtök á vinnumarkaði, bæði atvinnuveitendamegin og launþegamegin, hafa um þetta mál að segja.



[21:21]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég tel nauðsynlegt að þessi fundur fari fram, að þessar nefndir fundi saman með ASÍ. Það má vel vera rétt, og ég efast ekki um orð hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, að ASÍ hafi getað gert athugasemdir við þingsályktunartillöguna á sínum tíma. En það er samhengið sem við erum að tala um, atvinnumálin, rammaáætlunin og það að ASÍ telur að hér sé ekki verið að að standa við gerða samninga. ASÍ hótar eða lýsir því öllu heldur yfir að það slíti öllum tengslum við ríkisstjórn Íslands. Þetta hlýtur að vera alvarlegur hlutur og því mælist ég til þess, virðulegi forseti, að virðulegur forseti (Forseti hringir.) beiti sér fyrir því að þessi fundur verði haldinn þannig að þetta ferli allt saman komist á einhverjar vitrænar nótur.



[21:23]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja, eins og kom fram í ræðustóli áðan, að það er ekki rétt þegar sagt er að ríkisstjórnin hafi ekki skrifað undir eitt eða neitt í þessum efnum.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5.5.2011 stendur að mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem eru fram undan við endurreisn samfélagsins og brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum.

Í kaflanum Sókn í atvinnumálum stendur að stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum. Um sókn í orku- og iðnaðarmálum segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum, að rammaáætlun verði lögð fram á næstu vikum — þetta er vorið 2011 — og fari í viðeigandi ferli. Stjórnvöld reiknuðu með því að hún yrði afgreidd á haustþinginu 2011. Hér erum við rétt fyrir jól, að vetri 2012, og málið er ekki komið lengra en raun ber vitni (Forseti hringir.) og er náttúrlega algerlega ónýtt miðað við það sem lagt var upp með og miðað við það sem gefið er í skyn í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er full ástæða til að taka málið á dagskrá hjá þessum þingnefndum, virðulegi forseti, og ég hvet til þess að umræðu um málið verði frestað hér þannig að svo megi verða sem fyrst.



[21:24]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Íslands kemur fram með þau rök í dag, eftir að ASÍ birti þessa auglýsingu, að um væri að ræða rakalausar ásakanir á hendur ríkisstjórninni. Það eitt segir okkur að nú verði að fresta þessari umræðu, koma á fundum í umhverfisnefnd og atvinnuveganefnd til þess að heyra ofan í talsmenn Alþýðusambands Íslands.

Þegar ég vann hjá Alþýðusambandi Íslands, virðulegi forseti, voru þar 112 þús. félagsmenn. Við erum að tala um að 1/3 þjóðarinnar ákallar Alþingi og biður þingmenn um að stoppa þá vitleysu sem birtist í þessari rammaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur svikið lit. Hér er um að ræða ákall til Alþingis. Ég hvet virðulegan forseta til að fresta þessu máli á dagskrá þingsins, að atvinnuveganefnd og umhverfisnefnd komi saman til fundar til þess að geta farið yfir þessi mál (Forseti hringir.) hjá talsmönnum Alþýðusambandsins. Það verður að gerast, virðulegi forseti.



[21:25]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti ítrekar að fundur verður í báðum þessum nefndum í hádegishléi á morgun. (VigH: Með ASÍ?) Forseti mun koma þeim skilaboðum til formanna nefndanna að kallaðir verði til fulltrúar ASÍ ef þörf er á því.



[21:26]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka beiðni mína og skora á hæstv. forseta að gera hlé á þessum þingfundi. Alvarlegar ásakanir hafa birst frá Alþýðusambandi Íslands og það er einsdæmi, vil ég segja, að við sjáum opinberlega að þessi samtök sem hafa í sínum röðum, eins og kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, yfir 112 þús. félagsmenn séu beinlínis komin í stríð við ríkisstjórnina, opinbert stríð við forustumenn ríkisstjórnarinnar. Kjarasamningar eru í uppnámi og formaður ASÍ segist ætla að slíta öllum tengslum við ríkisstjórn Íslands, m.a. vegna þessa máls hér. Ég held að það sé mjög brýnt fyrir framhald umræðunnar að hlé verði gert á fundinum og þessi nefndarfundur haldinn þar sem hægt sé að kryfja þetta mál (Forseti hringir.) og fá þessa aðila til fundar við nefndirnar. Ella hef ég þær áhyggjur að umræðan hér verði ekki nægilega upplýst inn í kvöldið og nóttina.



[21:27]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þá umræðu sem hefur farið fram upp á síðkastið hefur mátt kannski skilja þannig að tvær hugmyndir að virkjunum vægjust á, annars vegar vatnsaflsvirkjanir og hins vegar jarðhitavirkjanir. Þeim hefur verið teflt að sumu leyti dálítið hvorri gegn annarri, að annað nánast útilokaði hitt, að annað gæti komið í staðinn fyrir hitt.

Það er ekki þannig. Jarðhitavirkjanir eiga fullan rétt á sér og við höfum verið að þróa þær áratugum saman á Íslandi með gríðarlega fínum árangri, fyrst auðvitað til þess að kynda hús en síðan líka til raforkuframleiðslu. Raforkuframleiðsla frá jarðhitavirkjunum stendur undir iðnaðarkostum víða og hefur reynst í meginatriðum vel. Þar höfum við byggt upp mikla þekkingu á alþjóðlegan mælikvarða. Síðast í gær voru fréttir af því að jarðvísindamenn okkar, fræðimenn og verkfræðingar á þessum sviðum væru að hasla sér völl á erlendum vettvangi. Það er heldur ekki nýtt, það hafa þeir verið að gera. Hvers vegna geta þeir gert það? Jú, vegna þess að þeir hafa fengið gríðarlega þekkingu á þessum sviðum með því að við höfum virkjað jarðhita í gegnum áratugina.

Við höfum margvíslega reynslu af þessum virkjunum. Síðan hafa komið fram ábendingar um að það gæti verið ástæða til að fara sér að engu óðslega við uppbyggingu á jarðhitavarmanum til raforkuframleiðslu. Á það hafa vísindamenn bent, það var til dæmis mjög áberandi í umræðunni sem fram fór fyrr á þessu ári og í fyrra um virkjanirnar á Þeistareykjum í tengslum við uppbygginguna á Bakka sem margoft er búið að lofa. Þá hefur verið sagt: Við verðum að fara okkur mjög hægt í þessum efnum vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað hver borhola gefur. Það tekur tíma, hún þarf að blása og við þurfum smám saman að byggja upp þá vitneskju sem við fáum með rannsóknum og borunum og þess háttar til að geta tekið um það ákvörðun hvað við getum fengið mikla raforku út úr þessum virkjunum. Þetta er eðli þeirra, þær þróast og það tekur tíma að byggja þær upp og fá úr því skorið hvað þær geta gefið okkur mikla orku.

Þessu er öfugt farið með vatnsaflið. Menn virkja það út frá ákveðnum verkfræðilegum og fræðilegum forsendum og hafa vitneskju um það fyrir fram hversu mikið afl þær gefa. Þetta sáum við í hinu stórkostlega verkfræðilega afreki sem Kárahnjúkavirkjun er, hvaða skoðun sem menn hafa að öðru leyti á Kárahnjúkavirkjun. Þetta undirstrikar að það er munur á þessum virkjunum en þær eiga báðar fullan rétt á sér.

Nú er búið að taka þá ákvörðun í þingsályktunartillögunni að ýta til hliðar vatnsaflskostunum, setja þá í biðflokka, jafnvel þó að þeir séu fyrirsjáanlega hagkvæmastir af því að menn þekkja nákvæmlega hvert magnið verður af þeirri orku sem þaðan kemur. Við vitum líka hver umhverfisáhrifin eru, þau eru hverfandi til dæmis í neðri hluta Þjórsár þannig að það er þá búið að tefla öðrum rökum fram gegn þessum virkjunum.

Stóra málið í þessu öllu saman er að átta sig á því af þessum ástæðum sem ég hef rakið hérna að vatnsaflsvirkjanirnar eru mjög fyrirsjáanlegar. Við vitum hvaða orku við fáum út úr tilteknum framkvæmdum sem við byggjum upp á tilteknum gefnum forsendum. Við vitum um orkuna sem út úr þessum virkjunum kemur á annan veginn og síðan þurfum við að geta á hinn bóginn á sama tíma smám saman byggt upp reynsluna, þekkinguna og vitneskjuna um orkuna sem kemur út úr jarðhitanum. Þetta er ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt þegar við tökum ákvörðun um þennan ramma utan um það hvað við ætlum að nýta, vernda, virkja og kanna betur að við séum með báða þessa kosti undir í einu þannig að við getum unnið í sem bestu skipulagi að þessari uppbyggingu. Þessi tillaga núna slítur þetta í raun og veru í sundur og þetta er ástæðan fyrir því að Orkustofnun er gagnrýnin á þetta, hún bendir á að með þessu sé markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu.

Það er þetta sem er svo alvarlegt, ekki bara út frá efnahagssjónarmiðum, heldur líka út frá umhverfissjónarmiðum og (Forseti hringir.) sjónarmiðum sjálfbærrar nýtingar.



[21:33]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Ég vil spyrja þingmanninn út í það hvort hann telji að það sé vísvitandi gert hjá meiri hlutanum og ríkisstjórninni, eða hvort þeir hafi ekki hreinlega vald á málunum — það er búið held ég að ræða það alveg til þrautar og ég held að það sé nokkur viðurkenning á því að ekki er neitt jafnvægi í þingsályktunartillögunni eins og hún lítur út núna. Það er búið að taka út þær vatnsaflsvirkjanir sem menn hafa verið með svona minni almenna fyrirvara við, ekki síst umhverfislega. Allt var þetta gert á grundvelli umhverfislegra þátta en inni eru jarðvarmavirkjanir sem menn hafa meiri umhverfislegar áhyggjur af, en þetta er samt niðurstaðan.

Hér nefndi hv. þingmaður Orkustofnun og hvaða álit þeir hafa á að byggja upp orkukerfið með tilliti til þess að nýta annars vegar vatnsaflsvirkjanir og hins vegar jarðvarmavirkjanir og aðra mögulega virkjunarkosti. Þessi sama ríkisstjórn hefur líka talað um að fara að selja orku í gegnum sæstreng og hefur skipað sérstakan hóp til að skoða það. Það tekur nokkur ár í skoðun og svo á að fara að virkja. En hvað á að virkja? Hvar er samhengið á milli hlutanna?

Í forsendum fjárlaga er talað um hagvaxtarspá sem byggist meðal annars á stóriðju, til dæmis á norðausturhorninu. Í sömu fjárlögum eru hins vegar engir fjármunir settir til þess að styrkja þá innviði sem eru forsenda fyrir þeirri uppbyggingu.

Eru þetta að mati þingmannsins klaufaleg mistök eða er þetta markvisst gert til þess að halda niðri þeirri starfsemi í orkugeiranum sem ákveðin öfl innan Samfylkingarinnar og stærsti hluti Vinstri grænna hafa lýst yfir að sé hin yfirlýsta stefna, að stöðva alla orkunýtingu í landinu?



[21:35]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort það hafi verið vísvitandi áform stjórnarliða í þeim efnum, en þegar við skoðum þessi mál finnst mér augljóst að menn átti sig ekki á heildarsamhenginu, ef menn á annað borð hafa einhvern áhuga á því heildarsamhengi. Það sem við sjáum hins vegar er hin endanlega niðurstaða, ef þetta verður samþykkt, þ.e. annars vegar er verið að ýta í burtu hagkvæmustu, bestu og best rannsökuðu vatnsaflsvirkjununum og hins vegar með áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er líka verið að ýta jarðhitaverkefnum út af borðinu.

Það sem ég held að blasi þá við sé ásetningur stjórnvalda að stöðva framkvæmdir, ljúka þessu núna a.m.k. um langt árabil, öllum þessum framkvæmdum. Og það er veruleikinn sem menn standa frammi fyrir, það eru skilaboðin.

Er ríkisstjórnin þá að huga að einhverjum öðrum orkukostum? Já, það er nefnilega þannig. Ríkisstjórnin er einhuga í einu, þ.e. að standa fyrir olíuleit, leita að nýjum orkukostum sem eru jarðefnaorkukostirnir, sem ég hélt að væri tilhneiging okkar til að fara fremur út úr. Þegar hv. þingmaður nefndi norðausturhornið er óhjákvæmilegt að maður fari svolítið að fabúlera. Er það kannski það sem á að drífa upp iðnaðarframleiðsluna á norðausturhorninu, er það kannski olían? Menn virðast vera komnir svo langt í þeim vangaveltum varðandi olíuna að þar eru menn meira að segja farnir að ráðstafa gróðanum sem þeir ætla að þeir fái út úr olíuleitinni.

Er þetta ekki að verða svolítið skringilegt samhengi? Það má ekki nota endurnýjanlega orkugjafa eins og vatnsaflið, ekki jarðhitann, en hins vegar stefna menn óðfluga að olíuleit fyrir Norður- og Austurlandi, sem ég út af fyrir sig fagna.



[21:37]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er vissulega áhugaverð afleiðing. Ég held að það hafi verið í gær sem við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ræddum um það sem kemur fram í áliti meiri hlutans í nefndarálitinu, að vara við öllu mögulegu og mála mjög dökka mynd af nýtingu jarðvarmavirkjana á Reykjanesi, að það hafi verið samviskubit þeirra þegar þeir sáu hvert var komið. Það verður áhugavert að ræða við þá um olíustarfsemina, olíuleitina, af því að það er rétt hjá hv. þingmanni að þar virðist ekki vera neinn bilbug að finna á hópnum sem heild.

Það sem ég vildi ræða aðeins meira um við hv. þingmann er samhengi hlutanna, samhengi hagvaxtarspánna, forsendur þess að geta byggt hér upp. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki hreinlega yfirlýst markmið núverandi ríkisstjórnar — þó að ég eigi mjög erfitt með að skilja það að allir þingmenn Samfylkingarinnar taki þátt í því — að stöðva alla orkunýtingu.

Við getum rifjað upp að forsendur hagvaxtar á liðnum árum var uppbygging í Helguvík, bæði í orku og síðan í uppbyggingu á álverinu sjálfu. Vinstri grænir og ýmsir í Samfylkingunni voru sífellt á móti því þó að ýmis önnur öfl innan Samfylkingarinnar þættust vera að tala með því. Það voru alls konar hlutir sem þvældust fyrir á sama hátt og núna í Þingeyjarsýslunum. Sagt er að farið verði í uppbyggingu, sagt er að fjármagn þurfi beint frá ríkisvaldinu, 2,6 milljarðar, samt eru engir peningar látnir í það, ekki króna. Sem þýðir væntanlega það að enginn hagvöxtur verður, ekki frekar en á árunum 2009, 2010, 2011 og 2012, vegna þess að það er engin uppbygging.

Þá er það spurningin hvort fjárlögin séu ævinlega blöff og til hvers menn setja þetta inn ef aldrei á að virkja, (Forseti hringir.) af því að það er hin yfirlýsta stefna.



[21:40]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið blasir við mér svona: Það var þannig að pólitísk tilskipun kom um það að ryðja yrði burtu úr nýtingarflokknum vatnsaflsvirkjunum sem voru þar inni, eins mörgum og hægt væri. Það tókst býsna vel því að þá voru bara tveir orkukostir eftir, Blöndulón og Hvalá á Vestfjörðum, annað er það nú ekki.

Þegar það var komið stóðu menn frammi fyrir ákveðnum halla því að áherslan hafði verið færð úr vatnsaflsvirkjununum yfir í jarðhitavirkjanir. Þar eru hins vegar líka innan borðs í stjórnarflokkunum miklir efasemdarmenn um jarðhitavirkjanirnar. Þá þurftu menn einhvern veginn að skrifa sig í gegnum það, ekki var hægt að koma með nýtt plagg inn í þingið þar sem engin jarðhitavirkjun væri og tvær litlar vatnsaflsvirkjanir, og þá var mönnum dálítill vandi á höndum.

Virðulegi forseti. En það verður auðvitað að dást að hugkvæmni manna og hún á sér stundum engin takmörk, þessi skapandi hugsun, hluti af hinum skapandi greinum, og þessi skapandi hugsun fór algjörlega á flug. Þá var búinn til mikill texti sem fól það í sér að segja okkur frá því að þó að menn væru með þetta þarna inni væri margt að varast. Við gætum lent í því að andrúmsloftið mengaðist svo mikið að manni lægi við köfnun, vatnið mengaðist svo mikið að það yrði ódrekkandi, maður hefði illt af, og ef menn héldu lífi yrðu menn væntanlega hristir í sundur í jarðskjálftum. Þetta er framtíðarsýnin einhvern veginn, þannig að þar með væri líka búið að skjóta þetta út af borðinu. En enn þá stendur olíuleitin eftir. Við hv. þingmenn verðum því að binda vonir við það að ríkisstjórnin muni ekki hverfa frá þeim áformum sínum (Forseti hringir.) enda er hún þegar farin að ráðstafa gróðanum.



[21:42]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé fyrir hv. þingmann að hafa áhyggjur af olíuleitinni. Ég held að það hafi verið í dag frekar en í gær sem ég sá mikla grein í Morgunblaðinu eftir fyrrverandi ráðherra úr Alþýðubandalaginu og einn af helstu forkólfum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem skrifaði grein í Morgunblaðið um olíurannsóknir og Drekasvæðið og velti því upp hvenær vinstri grænir hefðu gerst olíuleitarflokkur. Mér fannst tónninn vera sá að vara við þessu og allt í lagi með það. Sá ágæti maður hefur lagt margt gott fram og barist fyrir náttúruvernd og umhverfisvernd alla sína tíð og á ekkert nema gott skilið fyrir það. En það er alveg ljóst að pressa er og verður innan Vinstri grænna að leggja stein í götu olíuleitarinnar.

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar þegar hann mælti fyrir málinu að hann túlkaði málið í rauninni þannig að deilurnar snerust fyrst og fremst um sex virkjunarkosti, eða fimm og hálfan eins og hann orðaði það reyndar. Ég veit ekki hvort deilurnar sem hann vitnaði til eru þá innan stjórnarflokkanna. Það sem við erum að deila á eru að sjálfsögðu vinnubrögðin og að menn skyldu kasta sáttinni á glæ.

Svo er ákveðin mótsögn í lokaorðum í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.“

Ég veit ekki hvort einhver meining er að baki orða sem þessara þegar vitað er að búið er (Forseti hringir.) að setja allt í háaloft einmitt með þessu fikti.



[21:44]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum öll farin að sjá hvað hefur þegar gerst með þessari rammatillögu. Það liggur fyrir að strax í upphafi var búið að ýta til hliðar vatnsaflsvirkjununum og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar búinn að ýta burt, sýnist mér, í meginatriðum til margra ára jarðhitavirkjununum. Ég hengdi mig í möguleikann um olíuleitina, nú segir hv. þingmaður að líklegt sé að olíuleitinni verði líka ýtt út af borðinu, en ég er bjartsýnismaður og segi: Það er ekki öll von úti enn, grútartýrurnar eru að minnsta kosti enn þá til staðar.

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert gamanmál. Það sem við sjáum hérna er sá alvarlegi veruleiki að verið er smám saman að þrengja að þeim möguleikum sem við höfum til skynsamlegrar sjálfbærrar orkunýtingar í þágu lands og þjóðar, og sem búa til verðmæti og störf. Við sjáum þetta í rauninni líka ef við skoðum það í samhengi við fjárlagafrumvarpið.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á því fyrr í dag að í fjárlagafrumvarpinu sé til dæmis ekki að finna þá 2,6 milljarða kr. sem þurfa að vera þar til staðar til að hægt sé að fara í atvinnuuppbygginguna á Bakka. Þó eru hæstv. ráðherrar búnir að segja okkur að við þurfum að búa okkur undir eitthvað gríðarlega stórt í þeim efnum. Forsendan að mati sveitarstjórnarmanna á svæðinu er sú að 2,6 milljarða þurfi í uppbyggingu á innviðum samfélagsins til að hægt sé að fara í slíkt verkefni.

Hin pólitíska niðurstaða er sú að hafa þá tölu ekki þarna inni. Af hverju er það? Jú, það er alveg augljóst mál, það er vegna þess að verið er að girða fyrir uppbyggingu á orkukostunum sjálfum. Og ef við höfum ekki orkukostina er auðvitað tómt mál um að tala einhverja atvinnulega uppbyggingu sem byggir á orkunýtingunni. Málið er því allt saman að ljúkast upp fyrir okkur, þetta er að verða mjög skýrt. Verið er að loka á orkukostina og þar með er búið að loka á það að farið verði í þá stóru kosti og uppbyggingu sem er búið að lofa (Forseti hringir.) íbúum í Þingeyjarsýslum, ekki bara einu sinni, ekki tvisvar, heldur óteljandi oft.



[21:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að framkvæmdir á Bakka séu líklega það mál sem hvað oftast hefur verið lofað hér þingsölum þar sem búið er að lofa því endalaust að þar sé eitthvað að gerast, menn eigi að vera rólegir, þetta sé alveg að koma, góðar fréttir bráðum og allt það. Meðan gerist ekki neitt. Svo sjáum við núna, sem er góð ábending hjá hv. þingmanni, að ekki er gert ráð fyrir neinum fjárframlögum í fjárlögum til að styðja við þá uppbyggingu á innviðunum sem þarf að verða ef raunverulega á að verða einhver uppbygging á því svæði í takti við loforð ríkisstjórnarinnar.

Ég staldra enn við þá mótsögn sem mér sýnist að sé í málflutningi stjórnarliða í rauninni þegar talað er um í nefndarálitinu að nú sé grundvöllur að sátt orðinn til, að nú sé búið að gera leikreglur sem eigi að friða þessi mál um langan tíma. (BJJ: Það er öfugmæli …) Já, það er sannarlega öfugmæli, hv. þingmaður, þegar á sama tíma er algjörlega kristaltært að það eru ekki bara þingmenn stjórnarandstöðunnar heldur líka ákveðnir stjórnarliðar sem hafa sagt að þessi áætlun gangi ekki upp.

Þá veltir maður fyrir sér hvort hægt sé að fara aftur inn í það ferli sem búið er að setja í uppnám, hvort það þurfi ekki annað ferli, nýtt. Og hvort við þurfum ekki að breyta lögunum algjörlega og allri hugsun um það hvernig rammaáætlun verður til og hvernig henni er svo lokið, vegna þess að búið er að rýra það ferli sem hefur verið í vinnslu fram að þessu. Þar af leiðandi hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki sé mikilvægt um leið og menn taka upp þessa tillögu við fyrsta tækifæri að koma fram með nýjar og betur mótaðar reglur um það (Forseti hringir.) hvernig þessi vinna skuli fara fram.



[21:49]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið nokkuð oft yfir það hvernig málunum var teflt í mikla tvísýnu þegar ákveðið var að hæstv. tveir ráðherrar færu um það mál höndum sínum. Það var út af fyrir sig gert á sínum tíma í miklu trausti. Við samþykktum þau lög vegna þess að við töldum að með því væri einfaldlega verið að búa til eins og ég hef kallað það, nýja stoppistöð, þar sem menn gætu þá skoðað álitamál sem upp kæmu og þá kosti og galla til nýtingar, til verndunar eða í biðflokk.

Út af fyrir sig má segja sem svo að það hafi ekki þurft að vera svo óskynsamlegt en hins vegar er búið að eyðileggja þá aðferð vegna þess að ráðherrarnir brugðust því trausti sem á þá var lagt og það er það vonda í málinu. Nú segja ráðherrarnir og stjórnarliðar: Ja, þetta hlaut alltaf að lokum að verða pólitískt mat. Það má svo sem segja að það sé það á Alþingi að lokum, að það sé pólitískt mat, og þá eru það tveir pólitískir kostir sem við stöndum frammi fyrir. Annars vegar sá kostur að nýta með skynsamlegum, ábyrgum, sjálfbærum hætti orkuauðlindirnar okkar til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Hins vegar að gera það ekki. Það eru í raun og veru þeir tveir kostir sem við stöndum frammi fyrir, annars vegar að nota þetta til atvinnuuppbyggingar, verðmætasköpunar í landinu eða að gera það ekki. Og það er í raun og veru sá kostur sem orðinn er ofan á núna.

Hv. þingmaður spyr: Hvað er hægt að gera til að bregðast við því? Það verður erfitt, við gerum okkur alveg grein fyrir því. Málinu verður ýtt áfram inn í það ferli að það verður erfitt, en eitt skulum við alveg hafa í huga: Þetta er ekki rammaáætlun. Punktur. Þetta er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta er rammaáætlun sem hún hefur búið til út frá pólitískum forsendum, ekki þeim forsendum sem upp var lagt af stað með þegar málið var hafið á sínum tíma fyrir meira en áratug. Þess vegna er málið að mínu mati því miður komið í þá stöðu að ekki verður það varanlega fyrirkomulag sem við reyndum að búa til heldur eitthvað allt annað, miklu verra, og við erum komin aftur ofan í gömlu skotgrafirnar (Forseti hringir.) með málið.



[21:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram þetta stóra og mikla mál og verður að segjast alveg eins og er að sú mynd sem við höfum dregið upp af málinu styrktist mjög í dag þegar við sáum yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands og einnig kom hún fram í viðtali sem við heyrðum við forseta ASÍ og í sjónvarpsviðtali þar sem báðir voru mættir, forseti ASÍ og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Það er alveg ljóst að Alþýðusamband Íslands metur það sem svo að þær breytingar sem gerðar hafa verið á rammaáætlun séu svik við það sem þeim var lofað til að styrkja hér efnahagslífið, efnahagsgrunninn og renna stoðum undir væntanlega kjarasamninga sem eru lausir núna eða sem semja þarf um á næsta ári.

Það vekur mann til umhugsunar um hvort ekki sé mikilvægt að halda þeirri umræðu áfram í það minnsta til að vinna tíma svo hægt sé að funda með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og fara yfir stöðu mála. Ég reikna með því að mikilvægt sé að gera það enda er umræðan engan veginn tæmd þegar við skoðum málið í heild og enn koma fram varnaðarorð. Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé eitt af þeim þingmálum þar sem sífellt koma fram nýjar upplýsingar.

Ég hjó eftir því sem fram kom í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem hann flutti þegar mælt var fyrir málinu. Þar sagði hv. þingmaður að farið væri eftir ákveðnum samfélagslegum og pólitískum áherslum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn meinti með því en ætla að túlka það þannig að það sé að hans mati eðlilegt að ríkisstjórn á hverjum tíma móti stefnu í orkunýtingar- og verndunarmálum ef henni þóknast svo, að menn séu ekki endilega bundnir af þeim tillögum eða sérfræðiráðgjöf sem fram kemur heldur verði að taka tillit til þeirrar pólitísku stefnu sem tekin er á hverjum tíma.

Þarna finnst mér við vera komin á byrjunarreit á miðað við það sem við ætluðum okkur að gera með rammaáætluninni. Við getum líka viðurkennt að það hafi verið mistök að hafa það í lögum um rammaáætlun að framkvæmdarvaldið gæti gert þetta með þessum hætti. Hugsanlega hefði verið betra að vísa málinu beint til þingsins til umræðu, þá hefði sú umræða og vinna í það minnsta farið fram í þinginu en ekki hjá framkvæmdarvaldinu sem hefði síðan að sjálfsögðu fengið niðurstöðu Alþingis til úrvinnslu.

Þar sem þetta er í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til að búa til heildstæða stefnu er svekkelsið enn þá meira vegna þess að þarna ætluðum við að reyna að brjóta blað í sögunni.

Ég mun vonandi ná að ræða síðar umsagnir sem borist hafa um málið. Þar sýnist sitt hverjum, eðlilega, sumir telja of langt gengið í eina átt og aðrir eru á öndverðri skoðun. Það er mikilvægt að hér fari fram heilbrigð og góð umræða um áætlunina. Hún mun að sjálfsögðu fara fram, hvort sem það verður núna fyrir jól eða einhvern tíma á næsta ári þegar tillagan verður kláruð í þinginu. Hér hafa sumir þingmenn heitið því að fái þeir aðstöðu til þess verði áætlunin endurskoðuð. Ég hef skilið þau orð þannig að endurskoðunin lúti ekki síst að þeim augljósu kostum sem nú eru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, t.d. virkjunarkostir í Þjórsá sem eru minna umdeildir (Forseti hringir.) en síðasti valkosturinn þar.



[21:56]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég fór aðeins yfir efnahagsleg áhrif af rammaáætlun og því sem fram kemur í fjárfestingar- eða framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar um framtíðarnýtingu á orkuauðlindum okkar. Í umræðunni í þinginu hefur komið fram hjá fulltrúum stjórnarflokkanna að eitthvað nýtt eigi að gerast í atvinnumálum hérna. Við sjáum áherslur ríkisstjórnarinnar endurspeglast í fjárfestingaráætlun sem lögð var fram í vor og var svo endurnýjuð núna í haust. Þær voru kynntar með miklum lúðraþyt. Þar sjáum við áherslur sem sagðar eru nýjar en í sjálfu sér er ekkert nýtt í þeim. Þar kemur þó inn grænn fjárfestingarsjóður, grænkun fyrirtækja, hækkað framlag í Kvikmyndasjóð og skapandi greinar, eins og það er orðað.

Hefur þingmaðurinn einhverja trú á því ef þetta er lagt á vogarskálarnar að hægt sé að byggja upp á skömmum tíma jafnarðsama og -atvinnuskapandi framleiðslu og mundi verða með nýtingu orkuauðlindanna? Þarf að vega það og meta í einhverju mótvægi? Er ekki hægt að gera það samhliða? Köstum við ekki annars frá okkur tækifærum sem við gætum verið að vinna að á orkusviðinu? Gætum við ekki fylgt hinni nýju sýn, (Forseti hringir.) eins og það er orðað, samhliða þessu (Forseti hringir.) og látið það þannig verða að tvöföldum ávinningi fyrir samfélagið?



[21:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo ánægjulegt að sú mikla gróska sem er hér í nýsköpun og óhefðbundnum atvinnugreinum, þ.e. ekki í fiskvinnslu eða iðnaði eða einhverju slíku, er að megninu til sjálfsprottin eða varð til löngu fyrir tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er. Það er áhyggjuefni við fjárfestingaráætlunina að hún styður ekki á neinn hátt við þetta nýjabrum allt saman, hvað þá við hefðbundnar atvinnugreinar.

Eitt þarf ekki að útiloka annað heldur getur það allt unnið saman, að sjálfsögðu. Það er ekki þannig að á fjögurra ára tímabili veiði menn bara fisk og á næstu árum vinni menn ál og svo framleiði þeir kvikmyndir, heldur er þetta heild sem vinna þarf í og umhverfið þarf jafnvænt fyrir alla þessa aðila. Það má m.a. lesa úr þeirri gagnrýni sem forusta ASÍ hefur haft uppi í dag, að heildarumhverfið sem boðið er upp á sé ekki nógu gott. Þess vegna telja þeir ekki ástæðu til að spjalla lengur við ríkisstjórnina.

Ef við skoðun fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er þar afar lítið nýtt sem hvetja mun til fjárfestinga, hagvaxtar og slíks. Þar eru komin ný og glæsileg nöfn á þá sjóði sem áður var veitt til af safnliðum fjárlaganefndar, sem er í sjálfu sér ágætt, en það er ekki eins og verið sé að finna upp neitt nýtt í áætluninni (Forseti hringir.) sem skapa mun betra líf fyrir borgara þessa lands.



[22:01]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áætlun ríkisstjórnarinnar og reyndar yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011 sem gerð var í tengslum við kjarasamninga. Hefur ASÍ gagnrýnt mikið hversu lítið hefur gengið eftir af því sem þar kemur fram.

Ríkisstjórnin hafnar þeim ásökunum í dag. Samt segir í yfirlýsingu frá 5. maí 2011 að stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum og það verði reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Um sókn í orku- og iðnaðarmálum segir sérstaklega að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga á viðskiptalegum grundvelli.

Síðan segir að leggja hafi átt rammaáætlun fram á síðasta haustþingi og ljúka við hana haustið 2011. Þar segir líka að miklu skipti að auka fjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fýsilegan fjárfestingarkost. Stefnt er að því að veita aukna fjármuni til markaðssóknar í því skyni.

Er hægt að reikna með því miðað við núverandi rammaáætlun og það stopp sem hún kallar á í fjárfestingum í orkufrekum iðnaði að eitthvað af því gangi eftir? Fylgir hér hugur máli í ljósi þess að ekki er sett fjármagn til uppbyggingar innviða t.d. á Norðausturlandi, sem nauðsynlegir eru til að menn geti hafið framkvæmdir á Bakka, sem stjórnvöld (Forseti hringir.) þykjast þó styðja af heilum hug? (Forseti hringir.) Hvað á maður að halda?



[22:03]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum ekkert að velkjast í vafa um það. Það kemur ágætlega fram í tilkynningu og áherslum Alþýðusambands Íslands í dag að ekki er hægt að treysta því og það mun ekki ganga eftir sem ríkisstjórnin heldur fram að gert verði.

Mér finnst hálfkaldhæðið, þegar hv. þingmaður les upp úr þessari yfirlýsingu, að heyra að kynna eigi Ísland sem áhugaverðan fjárfestingarkost fyrir erlendum aðilum. Þessir erlendu fjárfestar hafa séð í fréttir dag og munu sjá það næstu daga þegar við höldum áfram að fjalla um málið að það er heldur alls engin vissa um þann þátt á Íslandi. Það er ekki bara það sem óvissa ríkir um, það ríkir óvissa um allt annað, um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin gengur á svig við samkomulag sem hún gerir. Og svo núna, þegar loksins hefði verið hægt að ná sátt um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu er það líka í uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að fara aðra leið en lögð var til, þ.e. hún ákvað að setja pólitísk fingraför á áætlunina. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar var sú ákvörðun að sjálfsögðu tekin mjög meðvitað.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af framtíðinni. Ég ætla þó ekki að segja að sett verði stopp á það að nýta orkuna til að auka hér hagvöxt en það verður mikil seinkun á því. Menn tala um umframorku í raorfkukerfinu. Mér finnst það vera óábyrgar tölur sem settar hafa verið fram því að í það minnsta þeir sérfræðingar sem ég hef rætt við tala um að um 50–100 megavött séu á lausu. Það þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir, en (Forseti hringir.) þau megavött eru fljót að fara verði byggð hér upp alvöruatvinnustarfsemi.



[22:06]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég byrjaði áðan að fara aðeins yfir muninn á jarðvarmavirkjunum og vatnsaflsvirkjunum. Ég held að það sé nauðsynlegt í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast. Af því sem hefur komið fram hefur kannski allt að því mátt skilja það þannig að við ættum að láta jarðvarmavirkjanir algjörlega eiga sig vegna þeirrar óvissu sem er í kringum slíkar virkjanir. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að svo eigi alls ekki vera. En eðli þessara virkjunarkosta er auðvitað mjög mismunandi. Í vatnsaflsvirkjunum eru hlutirnir mjög fyrirsjáanlegir. Þar er í raun hægt að hanna virkjunina, byggja hana og frá þeim degi sem hún fer að starfa er vitað hversu mikil framleiðslan verður og um það þarf engum blöðum að fletta. Allt er mjög fyrirsjáanlegt og einfalt í kringum vatnsaflsvirkjunarkostina og því er það svo í hrópandi ósamræmi þegar þeir eru teknir út, nánast algjörlega, út úr nýtingarflokki rammaáætlunar, þeir virkjunarkostir sem í raun hafa ekki verið miklar deilur um. Þar er ég að vitna sérstaklega til Holta- og Hvammsvirkjana í neðri hluta Þjórsár sem eru í eðli sínu rennslisvirkjanir og hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt, mjög hagkvæmar bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Á sama tíma virðist vera lögð áhersla á aukna sókn og auknar framkvæmdir eingöngu á jarðvarmasviðinu. Auðvitað eigum við að halda áfram þar og það er ágætt að rifja upp reynslu okkar af jarðvarmavirkjunum. Í júní 1974 var Kröflunefnd skipuð. Viðvarandi raforkuskortur hafði verið á Norðausturlandi og afla þurfti raforku. Þar var reist fyrsta stórvirkjunin í jarðgufu til rafmagnsframleiðslu á Íslandi og tilraunaboranir hófust strax þar sama ár. Síðan var sett niður 30 megavatta túrbína á þann virkjunarkost og hún var síðan stækkuð á árunum 1995, 1996 eftir að eftirspurn eftir rafmagni fór að vaxa á ný. Þá höfðu tækniframfarir orðið gríðarlega miklar. Í stað þess að vera bundin við það að bora eingöngu beint ofan í jörðina var farið að notast við svokallaðar skáboranir, sem er til þess að gera ekki nema nokkurra ára gömul tækni og er í fullri þróun. Það bar mikinn árangur við gufuöflunina og boraðar voru nýjar holur, eldri holur voru lagfærðar og þannig fékkst næg gufuorka til að knýja nýja 30 megavatta vél. Þarna voru því komin 60 megavött. Síðan eru menn með hugmyndir um að stækka þetta enn meira.

Nákvæmlega þessi tækni er að breytast mjög mikið. Varðandi nýtinguna á jarðvarmanum eru orðnar til lághitatúrbínur sem menn geta notað til þess að nýta orkuna betur og sú tækni á örugglega eftir að þróast þannig að við munum sjá enn betri nýtingu í framtíðinni á jarðvarmavirkjunum, aukna framleiðslu og fleiri megavött út úr hverri einingu. Skáboranir eru auðvitað stórkostleg framför vegna þess að með því að beita þeirri tækni þurfa menn ekki að fara um land og raska því. Þeir geta staðsett virkjanirnar í töluverðri fjarlægð. Í dag er hægt að skábora allt upp undir 1,5 kílómetra, í olíuiðnaði eru menn farnir að skábora eitthvað á annan tug kílómetra og við eigum alveg örugglega eftir að sjá þá tækni þróast.

Það er ekki bara á Íslandi sem ör þróun er í jarðvarmavirkjunum. Það segir til dæmis í skýrslu um rammaáætlun, með leyfi forseta:

„Langstærsti hluti varmaorku jarðar er hins vegar í heitu, þurru, þ.e. þéttu bergi. Nokkur tilraunaverkefni eru nú í gangi og talsvert rannsóknafé mun nú lagt í að þróa tækni til að gera þennan varma nýtanlegan en meðan tæknin er ekki fyrir hendi er þessi varmalind ekki auðlind.“ — Þ.e. þessi almenni varmi í jörðinni. — „Takist það hins vegar með framförum í tækni“ — sem við skulum ætla að verði — „að nýta þennan varma hefur varmaauðlind jarðar stækkað gífurlega og væri nánast óþrjótandi.“

Það skyldi þó ekki vera að með því að þróa okkur áfram á þessum vettvangi, virðulegi forseti, eigi jarðvarminn almennt í heiminum, þegar við náum að beisla hann í hinu stóra samhengi, eftir að verða framtíðarorkuauðlind jarðarinnar (Forseti hringir.) í mjög stóru samhengi.



[22:11]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að varpa aðeins ljósi á þessa nýju tækni. Í ljósi þess vil ég spyrja hv. þingmann út í skilgreininguna á biðflokknum sem við erum með í dag. Þegar atvinnuveganefnd hitti meðal annars Orkuveituna og við fórum í ferð upp á Hellisheiði bentu þeir til að mynda á þá staði sem eru í rammaáætlun og fannst fullkomlega eðlilegt að þeir væru í bið, til dæmis Innsti-Dalur og fleiri slíkir. Jafnvel fannst þeim koma til greina að óraskað svæði hefði hugsanlega mátt fara í vernd en voru samt að spyrja út í af hverju við settum ekki í nýtingu eða vernd afmarkaðri og skýrari þætti. Þeir voru til dæmis að velta fyrir sér Bitru, meðal annars vegna þeirrar nýju tækni sem fyrirsjáanleg er á næstu árum og áratugum, að hugsanlega væri hægt að nýta orkuna á því svæði án þess að fara inn á það og raska því.

Þá er spurningin hvort ekki hefði verið skynsamlegra að biðflokkurinn væri í raun og veru geymsluflokkur — menn vilja reyndar mjög forðast að viðurkenna eða ræða að hann sé það — og rammaáætlun taki alla kosti til athugunar og þegar þeir eru fullrannsakaðir eigi þeir að fara annaðhvort í vernd eða nýtingarflokk. Spurning hvort það sé ekki einfaldlega skynsamlegra að þeir séu bara hafðir í bið og við treystum komandi kynslóðum til að taka skynsamlegar ákvarðanir á grunni rannsókna og það sem er í rammaáætlun verði flokkað með þeim hætti. Einn og einn kostur fari vissulega í vernd og einn og einn kostur fari vissulega í nýtingu en meginparturinn sé einmitt þarna vegna þess að á næstu árum og áratugum, eins og hv. þingmaður kom inn á, mun tæknin breytast mjög mikið og við getum (Forseti hringir.) hugsanlega nýtt kosti án þess að raska umhverfinu með þeim hætti sem gert er í dag.



[22:13]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég skil nákvæmlega hugsunina á bak við hana hjá hv. þingmanni og þetta er auðvitað umhugsunarefni. Ég tel að við þurfum einmitt að mörgu leyti að endurskilgreina þessa flokka. Gagnrýni hefur komið fram á það hversu erfitt er til dæmis að stunda rannsóknir á virkjunarkostum sem eru í biðflokki og hvað þá í verndarflokki.

Ég held að hvort sem við stækkuðum hreinlega biðflokkinn eða tækjum þá stefnu væru í raun allir flokkarnir alltaf undir til endurskoðunar, endurskoðunarleiðir væru opnar, og hvort sem virkjunarkostur væri settur í nýtingarflokk eða í verndarflokk verði alltaf hægt að taka þá virkjunarkosti og endurflokka þá. Það er ekki þannig að ef virkjunarkostur væri í nýtingarflokki væri sjálfsagt að virkjað yrði þar. Miklar rannsóknir ættu eftir að fara fram, umhverfismat ætti eftir að fara fram og það gæti vel verið að í því ferli komi einmitt upp einhver rök fyrir því að setja virkjunarkostinn jafnvel niður í vernd.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að tækninni fleygir fram og komandi kynslóðir þurfa auðvitað að hafa þetta svigrúm til að geta tekið ákvarðanir út frá breyttum aðstæðum. Ég hef nefnt í því sambandi til dæmis línulagnir, hér voru lagðar símalínur með staurum um allar sveitir fyrir áratugum síðan. Þetta er allt komið í jörð. Ég held að við eigum eftir að sjá raflínur að mestu leyti komnar í jörð eftir nokkra áratugi. Svona breytist þetta með tímanum. Ég held að nauðsynlegt sé að menn geti út frá nýrri tækni — skáborunartæknin mun gera það að verkum að menn geta sett niður eina stöð sem inniheldur margar (Forseti hringir.) túrbínur og nær inn á kannski mörg jarðvarmasvæði með engu raski á viðkomandi svæði.



[22:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að þetta sé svolítið áhugaverð umræða af því að í meirihlutaálitinu er verið að vísa til nokkurra þátta sem meiri hlutinn telur að næsta rammaáætlun eða næsti áfangi eigi að snúast um. En þá er þetta ekki tekið með, að endurskoða þurfi þessa flokkun og þá hugsun á bak við flokkana. Ég held að það sé mikilvægt.

Við erum annars vegar í ferli rammaáætlunar að leita eftir sátt í nútímanum, sem sagt í dag. Við erum líka að leita eftir sátt um það eins og menn segja: skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum. Þá hef ég alltaf sagt: En af hverju treystum við þá ekki líka komandi kynslóðum til þess að taka ákvarðanir þegar þar að kemur? Af hverju erum við að taka þessar ákvarðanir núna ef við þurfum ekki á þeim að halda?

Auðvitað, eins og ég sagði áðan, viljum við vernda og nýta eitthvað á hverjum tíma. En af hverju höfum við það ekki eins þröngt og hægt er, og hitt er þá bara undir til skoðunar? Ég get fallist á það hjá hv. þingmanni að hin leiðin væri þá sú að allir flokkar væru undir í hvert sinn og það væri á hverjum tíma rammaáætlunar eða þeirrar verkefnisstjórnar sem væri í gangi að skoða allan pakkann.

Varðandi hinn þáttinn, við viljum auðvitað skapa hagvöxt og við viljum skapa hagvöxt í sem flestum greinum. Í orkugeiranum hvað snertir orkunýtingu höfum við verið mjög framarlega bæði í vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum. Við sjáum mjög jákvæðar fréttir um jarðboranir á Nýja-Sjálandi og þær eru á einhverjum eyjum í Karíbahafinu og ég veit ekki hvað og hvað, hafa verið á Azoreyjum og víðar. Óttast ekki þingmaðurinn að með því að taka svona mikið af vatnsaflsvirkjunum, eins og við höfum talað dálítið mikið um, verðum við á því árabili hugsanlega stopp í þeim geira og þá (Forseti hringir.) missum við forskotið, þekkingu, og verðum eftirbátar annarra þegar kemur að því að við viljum fara að nýta aftur vatnsafl?



[22:18]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég held að mikil hætta sé á því og það er nauðsynlegt að hafa framþróun í þessum málum, jafnt á sviði jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana. Við eigum að taka þessi skref af skynsemi. Ég tel að í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar sé málið nálgast af yfirvegun og reynt er að taka tillit til allra þátta, eins og mögulegra þensluáhrifa á framkvæmdatímanum.

Sú framþróun sem ég fór hérna yfir í sambandi við jarðvarmann sýnir okkur vel hvað þetta breytist í raun á mjög skömmum tíma, að á kannski 25–30 ára tímabili horfum við til algjörlega breytts landslags.

Mér er það ofarlega í huga og í minni þegar ég og hv. þingmaður fórum með atvinnuveganefnd, sem við eigum báðir sæti í, og heimsóttum Hellisheiði og skoðuðum aðstæður víða á Suðurlandi gagnvart virkjunarkostum, að þegar við stóðum við Bitru, sem er sett reyndar í verndarflokk í núverandi rammaáætlun, þar sem vegarstæði er fyrir hendi og línur liggja yfir svæðið þannig að allt rask er komið í raun á svæðinu sem getur orðið, þá horfðum við á sama tíma ofan í mjög fallegan dal sem heitir Þverárdalur, sem er annað jarðhitasvæði og er einmitt hugsað til framtíðarnýtingar og er í biðflokki í dag. Í sjálfu sér þarf ekkert að raska þar með þessari nýju tækni. Við horfum á það að geta verið eingöngu með þetta Bitrusvæði þar sem raskið er allt orðið. Þar getum við byggt stöðvarhús, fellt það reyndar mjög inn í hlíðina þannig að það mun hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt, (Forseti hringir.) og með skáborunum náð einmitt niður í Þverárdal og nýtt það svæði líka.

Ég er algjörlega sammála því að framþróun verður að halda áfram og það er þjóðhagslega stórhættulegt að fara þá leið sem vörðuð er (Forseti hringir.) í þessari rammaáætlun.



[22:20]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í beinu framhaldi af andsvörum okkar um Bitru vil ég segja að menn í Hveragerði óttast áhrifin sem orðið hafa að einhverju leyti vegna Hellisheiðarvirkjunar og hugsanlega Nesjavallavirkjunar líka, það er ekki alveg fullrannsakað hvaðan sumt af því kemur. Gerðar hafa verið rannsóknir þar með alls konar nýrri tækni og er ekki algjörlega búið að sýna fram á hvaðan hlutirnir koma.

Ég býst við, frú forseti, að ég fái aðeins meiri tíma en tvær mínútur til að flytja ræðu mína.

(Forseti (ÞBack): Forseti athugar það.)

Ég er ánægður með að bæði hæstv. umhverfisráðherra og formaður umhverfis- og samgöngunefndar séu í salnum. Ég flyt nú ræðu sem ég hef geymt mér að flytja þar til báðar væru viðstaddar. Ég vildi nefnilega spyrja þær báðar. Ég beini spurningu minni einkum til hæstv. ráðherra, annars vegar varðandi þau sjónarmið sem ég hef haft uppi um biðflokk. Ég óttast mjög það sem mjög margir virkjunaraðilar hafa bent á, þ.e. að það að flokka kost í bið þýði að erfiðara sé að fá fjármagn. Kemur hreinlega til greina við afgreiðsluna núna að breyta biðflokknum og búa til nýjan biðflokk, rannsóknarbiðflokk, þar sem menn væru búnir að gefa þá yfirlýsingu að þeir vilji frekari rannsóknir áður en viðkomandi kostur er settur til nýtingar? Það væri mjög áhugavert að heyra hvort menn taka jákvætt í það, annars vegar framkvæmdarvaldið og hins vegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar.

Síðan vildi ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í málin í Skaftárhreppi hvað varðar virkjunarsvæðin þar og hvort það sé rétt sem ég hef heyrt frá því sveitarfélagi að gert hafi verið samkomulag um að annars vegar mundi Vatnajökulsþjóðgarður stækka, sem vissulega var gert og mikil var sátt um, það var hluti af sáttaferli í samfélaginu, og hins vegar yrðu fjórir virkjunarkostir settir inn á aðalskipulagið. Ég vil nú ekki segja að verið sé að koma í bakið á heimamönnum en þó er það svo að einhverju leyti varðandi þann kost sem heimamenn horfa hvað mest á, Hólmsárvirkjun neðri. Ég nota tækifærið og lýsi því yfir að sú efri hefði að mínu mati ekki komið til greina þar sem hún raskar mjög fallegu víðerni og vatnasvæði og öðru í þeim dúr, á meðan sú neðri virðist vera með allt öðrum formerkjum þó að vissulega sé hún inni á svæði þar sem ekki eru neinar virkjanir í dag.

Ég vildi líka spyrja hæstv. ráðherra og formann nefndarinnar hvort þessir aðilar hafi ekki brugðist frumkvæðisskyldu sinni þegar í ljós kom að þau gögn sem töpuðust fyrir mannleg mistök hjá verkefnisstjórninni en var síðan bent á að væru öll komin fram, allar skýringar. Í minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins var bent á að mjög jákvæð teikn væru á lofti um „lítil“ umhverfisleg áhrif sem auðvelt væri að koma til móts við, það eru auðvitað alltaf einhver áhrif á umhverfið en þó mjög jákvæð. Hefði ekki átt að rannsaka það hjá ráðherrunum og í nefndinni úr því að ráðherrarnir gerðu það ekki? Hafa menn ekki hreinlega brotið frumkvæðisskyldu sína sem ráðherrar og nefnd í að klára ekki málið?

Það sama gildir að nokkru leyti um Hagavatnsvirkjun vegna þess að þar eru umsagnirnar mjög jákvæðar. Þar er kannski ekki beint frumkvæðisskylda en þar finnst mér mjög merkilegt að menn skuli ekki hafa velt því fyrir sér, það kemur alla vega hvergi fram, að setja þann virkjunarkost einfaldlega í nýtingarflokk vegna þess að menn segja: Jú, við fórum í 12 vikna umsagnarferli, fengum mikið af neikvæðum umsögnum, t.d. varðandi jarðvarmavirkjanirnar á Reykjanesi. Þær eru allar áfram í nýtingarflokki. Við fengum líka þó nokkrar umsagnir um Hagavatnsvirkjun sem allar voru mjög jákvæðar.

Hagavatnsvirkjun er áfram í biðflokki þrátt fyrir að sérfræðingar í iðnaðarráðuneytinu og á orkuskrifstofunni segi, ef ég man rétt, að flest rök hnígi að því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Í öðru sæti er síðan Hólmsárvirkjun neðri við Atley.

Mér finnast þetta vera skýrar spurningar og (Forseti hringir.) ég yrði mjög glaður ef ég fengi svar við þeim í umræðunni.



[22:26]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að þessi spurning hefur komið nokkrum sinnum fram í umræðunni tel ég rétt að koma að henni varðandi það sem hv. þingmaður kallar frumkvæðisskyldu stjórnvalds. Varðandi Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun var það útgangspunktur okkar þegar við höfðum farið yfir athugasemdirnar, og þá er ég að vísa til ráðherranna, sem sagt þegar við vorum í lokafasa ferlisins samkvæmt lögunum, að við, ráðherrarnir, tækjum ekki neinar ákvarðanir sem snerust um endanlega ráðstöfun virkjunarkosts í nýtingu eða vernd þannig að þær breytingar sem gerðar yrðu í þá veru væru alltaf gerðar á faglegum grunni til þess að tryggja faglegar forsendur rammaáætlunar í hverju einasta skrefi. Það þykir okkur skipta afar miklu máli andstætt því sem hér kemur stundum fram.

Það var einmitt þess vegna sem þeir virkjunarmöguleikar, sem voru virkjunarhugmyndirnar þrjár í Þjórsá og svo Hágöngur og Skrokkalda, voru færðir úr nýtingu í bið til þess að viðhalda þeirri meginreglu að endanleg flokkun væri alltaf á forsendum faglegrar greiningar en ekki af hendi ráðherranna á lokastigi. Ég vænti þess í ljósi þess hvað þingmönnum er annt um faglegan grunn að skilningur ríki á þeirri meginafstöðu.



[22:28]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að skýra þann þátt. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég skildi það þannig að menn legðu mikið upp úr því að hér væri unnið á faglegan og lagalega réttan hátt á grundvelli laga nr. 48/2011 og að umsagnarferlið hafi verið til að taka á þeim þáttum sem einhverra hluta vegna hefði ekki verið lýst nægilega vel faglega séð. Og tíminn sem ráðherrarnir höfðu til þess — það var ekki eins og þeir hefðu bara 12 vikur, ég held að ég fari rétt með að málið hafi verið hjá ráðherrunum í átta eða níu mánuði áður en það kom inn í þingið í marslok síðastliðið vor, þá frá júlí eða ágúst. Það var því nægur tími til að láta þá faglegu vinnu fara fram. Í svari frá báðum hæstv. ráðherrum umhverfis og iðnaðar á þeim tíma við fyrirspurn sem ég lagði fram var einmitt sagt að þetta væri ekki formleg ráðherranefnd heldur faglegur samráðshópur, sem m.a. hefði leitað eftir samráði við formenn allra faghópanna. Ég hefði því einmitt haldið að þarna væri tækifæri til að flokka kostina.

Fari virkjunarkostur í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að búið sé að ráðstafa honum og að hann verði nýttur heldur er hægt að ljúka rannsóknum og öðru með skýrum hætti. Virkjunarkostur fer vissulega í nýtingu ef arðsemi, umhverfismat og aðrir þættir reynast jákvæðir. Eins er það með verndina, það er ekki sjálfgefið að búið sé að (Forseti hringir.) friðlýsa eða ganga frá því þó að búið sé að setja kostinn þangað inn, þannig að ef mjög sterk rök hefðu hnigið að því (Forseti hringir.) hefði mér ekki þótt óeðlilegt að gera það en mér finnst mjög óeðlilegt að menn geti ekki tekið þá ákvörðun á faglegum grunni. (Forseti hringir.) Tíminn var nægur og ég held að fagþekkingin (Forseti hringir.) hafi líka verið til staðar.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)



[22:30]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess hversu mikilvægt verkefni er þarna á ferðinni og gríðarlega stórar og afdrifaríkar ákvarðanir var lögð mikil áhersla á að gegnsæi væri á hverju einasta stigi og að allar ákvarðanir sem teknar væru væru rökstuddar vel. Breytingarnar sex sem gerðar eru á tveimur svæðum á lokastigi ferlisins, sem ég gerði grein fyrir áðan, þurfa að vera hafnar yfir vafa og byggja á skýrum meginreglum. Það töldum við okkur gera og breytingarnar sem gerðar voru eru hafnar yfir vafa og skýrt rökstuddar.



[22:31]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Auðvitað er mismunandi mat á því. Ég er á þeirri skoðun, og það eru mjög margir, að það hafi verið bæði tækifæri og fagþekking til að taka faglega ákvörðun og fá niðurstöðu að Hólmsárvirkjun neðri við Atley ætti að fara í nýtingarflokk. Hæstv. ráðherra kom reyndar ekki inn á hvort væntingar hefðu verið um það í samstarfinu þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stækkaður og fjögur virkjunarsvæði voru sett inn á aðalskipulag sveitarfélagsins Skaftárhrepps, að einhver af þessum fjórum kostum mundi fá jákvæða umsögn ef aðstæður mæltu með því, sem raunin er.



[22:32]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessu og þeim ásökunum sem við hv. stjórnarandstöðuþingmenn höfum hér uppi gegn þeim ráðherrum sem höfðu með vinnslu málsins að gera, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, þegar við sökum þá um að það séu pólitísk fingraför á ákvörðuninni að færa vatnsaflskostina úr nýtingarflokki niður í biðflokk, þá er sagt að skoða þurfi hlutina betur og rannsaka hlutina betur.

Mig langar að velta nokkru upp við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson: Var í sjálfu sér eitthvað nýtt sem kom fram frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér varðandi t.d. virkjunarkostina í Holta- og Hvammi og Urriðafossi jafnvel líka? Var eitthvað nýtt sem kom fram sem hafði ekki verið fjallað um áður og var vitað um? Í skýringum með rammaáætlun er þetta rökstutt þannig að laxfiskastofninn í Þjórsá þurfi frekari rannsókna við, um afleiðingar og áhrif virkjananna á laxfiskastofninn í ánni. Ef ég vitna til þeirra funda sem atvinnuveganefnd hefur átt t.d. með Landsvirkjun og Veiðimálastofnun hefur komið fram að sennilega hafa hvergi á Íslandi verið eins víðtækar rannsóknir varðandi laxfiskastofn og í Þjórsá. Þær ná allt að 15–20 ár aftur í tímann og hafa verið af mjög miklum þunga sl. 10 ár. Ef mig misminnir ekki hefur komið fram (Forseti hringir.) að lengra verði í raun ekki gengið í þessum rannsóknum.



[22:35]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get staðfest það enda sitjum við báðir í atvinnuveganefnd og fjölluðum bæði um málið í vor og sátum svo sameiginlega fundi hér í haust með umhverfis- og samgöngunefnd. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni komu fram mjög skýrar og greinargóðar upplýsingar frá Veiðimálastofnun sem sýndu að í raun og veru væri ekki hægt að ganga lengra. Það væri auðvitað hægt að hafa stöðuga vöktun og rannsóknir, enda mundu þær halda áfram hvort eð er og ekkert athugavert við það.

Það sem mér fannst enn áhugaverðara var að þegar við fórum í ferð atvinnuveganefndar og hittum andstæðinga virkjunar, fulltrúa Sólar á Suðurlandi, sem líka eru í Veiðifélagi Þjórsár, Þjórsárfélagsins, þá komu þau sjónarmið fram að þeir aðilar höfðu orðið ekkert á móti virkjununum vegna þess að búið var að koma til móts við allflesta þætti athugasemda þeirra, en höfðu áhyggjur af því að ekki væri hægt að veiða nóg.

Staðreyndin er hins vegar sú að eftir að virkjanirnar voru settar í Þjórsá hefur laxastofninn margfaldast vegna þess að búsvæðin eru miklu betri í dag eftir virkjanirnar efri en var áður. Með laxastiganum við Búðafoss stækkaði búsvæðið gríðarlega mikið því þá komst laxinn ofar í ána. Landsvirkjun var með hugmyndir, sem komu fram í þessari ferð okkar í atvinnuveganefnd, um að setja seiðafleytu í Hvammsvirkjun sambærilega við þá sem þeir hugðust upphaflega setja eingöngu við Urriðafoss. Þá kæmi þar góð reynsla á hvort það væri skynsamlegt, hvort það virkaði, sem væru þar af leiðandi hugsanlega nægilega góð mótvægisrök við Urriðafoss þegar að henni kæmi.

Þess vegna hef ég verið á þeirri skoðun að það hefði verið góður salómonsdómur, það hefði verið skynsamlegast að halda inni efri hluta af tveimur virkjununum, Holta- og Hvamms-, (Forseti hringir.) en setja Urriðafoss í bið og láta (Forseti hringir.) tímann hjálpa okkur við að skoða þetta með seiðafleyturnar.



[22:37]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við erum sammála um að þetta styður þá gagnrýni okkar varðandi þau pólitísku fingraför sem við sökum ráðherrana um að hafa sett á málið.

Þingmönnum Samfylkingarinnar sérstaklega, og reyndar kannski reyndar Vinstri grænna líka, hefur verið tíðrætt um umhverfisþáttinn og að láta náttúruna njóta vafans. Þessar breytingar eru undir þann þátt settar, varúðarreglu umhverfisþáttar. Það er talað um nýja stefnu í atvinnulífi, að náttúran skapi mikil verðmæti, að gera Ísland að fyrirmyndarlandi í náttúruvernd.

Er ekki einmitt svona orkuöflun á Íslandi? Staða okkar í þessum málum gagnvart endurnýjanlegum orkukostum — erum við ekki einmitt að tala um einn stærsta þáttinn í ímynd Íslands fyrir hreinleika í orkuframleiðslu? Getur þingmaðurinn verið sammála mér um að við erum að nálgast þessi varúðarsjónarmið? Við erum að horfa til náttúrunnar, við erum að taka fullt tillit til náttúrunnar. Við erum að skapa Íslandi sterka ímynd með nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Fer þetta ekki bara saman við þá orkustefnu sem hefur verið rekin hér undanfarin ár? Erum við ekki einmitt að láta náttúruna njóta vafans á vissan hátt þar sem við höfum aukið varfærni okkar mjög og (Forseti hringir.) hefur okkur ekki tekist ágætlega að gera Ísland (Forseti hringir.) að fyrirmyndarlandi hvað varðar náttúruvernd?

(Forseti (ÞBack): Nú varð forseta á og gaf hv. þingmanni tvær mínútur en ekkert virtist veita af.)



[22:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ósanngjarnt að maður þurfi að svara á einni mínútu því sem er spurt um á tveimur.

Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að Ísland er á mjög margan hátt til mikillar fyrirmyndar hvað varðar umhverfismálin. Það sem okkur hefur ekki gengið sérstaklega vel með eru frárennslismál, sem m.a. var fjallað um í Fréttablaðinu líklega frekar en Morgunblaðinu í dag eða gær, og það er einfaldlega vegna þess að við höfum ekki sett nægilega fjármuni inn í þau. Ríkið bakkaði allt í einu út úr þeim fyrir átta árum og skildi sveitarfélögin eftir, en hefur sett mjög vaxandi kröfur á þau sem þau illa geta staðið undir. Sérstaklega þau sem eru inn til landsins og þurfa á meiri hreinsun að halda.

Varðandi orkugjafann þá erum við einfaldlega sú þjóð sem er komin lengst, og þar sem við höfum hælana eru kannski Norðmenn og Svíar (Forseti hringir.) að krafla í með tánum. Það er enginn vafi á því að við erum þar til fyrirmyndar.



[22:41]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér eru ofarlega í huga atburðir dagsins í tengslum við þetta mál sem við ræðum hér. Dagurinn byrjaði á því að maður fletti blöðunum og þar sá maður auglýsingu frá Alþýðusambandi Íslands. Eftir því sem leið á daginn urðu viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar hvassari sem endaði raunverulega í því sem fyrrum efnahagsráðherra, Árni Páll Árnason, kallar, með leyfi virðulegs forseta: „Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur.“

Hv. þm. Árni Páll Árnason skrifar þetta í fésbókarfærslu nú í kvöld. Hann fullyrðir jafnframt að stjórnvöld hafi ekki neinu leyti fylgt eftir efnahagsáætlun sem hann hafi í sinni tíð sem ráðherra unnið að með markmiðinu að ná sátt milli allra aðila um grunnmarkmið efnahagsmála. Þeirri áætlun hafi verið kastað fyrir róða og nú sé alls engin formleg stefna í efnahagsmálum landsins.

Þetta eru þung orð hjá fyrrverandi ráðherra og hv. þingmanni sem býður sig fram til formennsku í Samfylkingunni, öðrum stjórnarflokknum.

Mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessum orðum hv. þm. Árna Páls Árnasonar og setja það í samhengi við það sem við sjáum hérna (Forseti hringir.) og sérstaklega í samhengi við auglýsinguna sem við sáum í Fréttablaðinu í morgun frá ASÍ.



[22:43]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég endaði umsögn mína úr atvinnuveganefnd til umhverfis- og samgöngunefndar með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Ef tillagan verður samþykkt óbreytt, eins og forsvarsmenn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar virðast áætla, er ljóst að þar fer pólitísk rammaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar en ekki fagleg niðurstaða faghópa sem unnu að rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta og vonir voru bundnar við að víðtæk sátt næðist um.

Önnur afleiðing verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeira. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna.“

Það sem hefur undrað mig í þessari umræðu er að þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem ég veit að eru ósammála þessari stefnu hafi hingað til sætt sig við að sitja undir henni og er nærtækast að nefna herra forseta sem hér er. Hann hefur reyndar sett fyrirvara við álitið en það hafa hins vegar ekki margir aðrir gert. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði: Ekki vildi ég vera kosningastjóri Samfylkingarinnar á Suðurlandi fyrir hönd þingmannanna Björgvins G. Sigurðssonar og Oddnýjar G. Harðardóttur farandi með svona plagg inn á Suðurland og Suðurnes þar sem gríðarlegt atvinnuleysi er í þessum málum.

Mér finnst því ekki undarlegt að hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er að gera sig breiðan — hann kom reyndar hér og hélt mjög sérkennilega ræðu um þetta mál fyrir nokkrum kvöldum. Ég náði ekki hvað hann var að fara en hann talaði í þokkalega langan tíma. Hann virtist ekki vera tilbúinn að ganga eins langt og hann gerir í dag, og ástæðan fyrir því er kannski sú að nú sjá menn að verkalýðshreyfingin segir: Hingað og ekki lengra. Hún eru auðvitað orðin hundleið á öllum samningsbrotum ríkisstjórnarinnar, en þegar hún sér að hér er efnahagsstefna sem ætlar að halda áfram stöðnun með vaxandi atvinnuleysi, lágu gengi íslensku krónunnar (Forseti hringir.) og engum hagvexti þá segja menn: Hingað og ekki lengra. Þess vegna undrar mig ekki að ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar fari að láta í sér heyra hvað það varðar.



[22:45]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar til að leiða inn í næstu spurningu sem viðvíkur því að nú hafa þeir þrír vatnsaflskostir sem liggja augljóslega fyrir verið færðir úr nýtingarflokki niður í biðflokk. Það vill svo til að þessir þrír kostir eru í neðri hluta Þjórsár, á heimaslóðum hv. þingmanns. Mig langar til að biðja hv. þingmann að lýsa því hvaða áhrif þetta hefur á atvinnu á svæðinu og framtíðaruppbyggingu og kannski tengja það því hvort hann telji að þessir virkjunarkostir (Forseti hringir.) kalli á það vera færðir í biðflokk út frá náttúruverndarsjónarmiðum.



[22:47]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta þáttinn tel ég að fyrstu hugmyndir um virkjanirnar hafi haft veruleg eða allveruleg umhverfisleg áhrif. Ég tel að sú vinna sem m.a. þeir sem börðust gegn virkjununum og sá tími sem settur var í það þá hafi lagað mjög mikið til. Um þessar virkjanir er orðin allveruleg sátt, sérstaklega tvær efri, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun. Auðvitað ekki 100% en það er búið að ná samningum við langflesta landeigendur. Verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur haldið reglulega fundi með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis, líklega tvo á ári sl. þrjú ár, þar sem spurt hefur verið: Hvenær verða virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár boðnar út? Hvenær verða þessi störf til?

Ég hef því miður þurft að svara því á hverjum tíma: Spyrjið hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sitja í meiri hlutanum, þeir stöðva það. Það hefur ekkert breyst, (Forseti hringir.) það verður áfram þannig. En svo ég steli hérna tveim sekúndum þá hef ég lagt til að Urriðafoss verði settur í bið, einfaldlega held (Forseti hringir.) ég að það sé (Forseti hringir.) skynsamlegt.



[22:48]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vakti athygli á athyglisverðri frétt rétt í þessu. Eins og ég hefur hann fylgst með atburðarás dagsins, sem hefur auðvitað verið svolítið sérstök og söguleg. Svo notuð séu orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar er um að ræða hrikalegri átök milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Það eru ekki væg orð frá þingmanni ríkisstjórnarflokks. Hv. þingmaður talar um hrikalegri ágreining milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Það er nokkuð sögulegt.

Eins og hv. þingmaður vísað til áðan segir hv. þm. Árni Páll Árnason í skrifum sínum á vefinn í kvöld, með leyfi forseta:

„Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Það leiðir hugann að því sem forseti Alþýðusambands Íslands, sem fór ekki alls fyrir löngu í prófkjör innan Samfylkingarinnar þó að hann drægi sig síðan til baka, segir í fjölmiðlum í dag að Alþýðusambandið ætli ekki að ræða frekar við ríkisstjórnina heldur bíða eftir kosningum. Það eru ansi harkaleg skilaboð og alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórnina.

Hvernig tengist það rammaáætlun? Jú, það tengist rammaáætlun með nánum hætti. Rammaáætlun varðar orkunýtingarkosti meðal annars. Orkunýting er og hefur verið mikilvæg fyrir efnahagslega uppbyggingu í landinu. Nýting orkukosta hefur m.a. verið inni í hagvaxtarspám sem kjarasamningar hafa byggst á. Áætlanir bæði launþega og vinnuveitenda hafa byggst á væntingum um framkvæmdir í landinu, frekari nýtingu orkukosta og uppbyggingu atvinnulífs til að nýta orkuna sem frá því kemur. Ríkisstjórnin velur þá kosti í sambandi við afgreiðslu á rammaáætlun sem líklegir eru til að tefja fyrir allri uppbyggingu á því sviði. Auðvitað mótmælir Alþýðusamband Íslands því vegna þess að það gerir sér grein fyrir að tafir og stöðnun á því sviði kemur beint niður á kjörum félagsmanna Alþýðusambandsins, ekki bara þeirra sem vinna beint við virkjanir og stóriðju, langt frá því. Það kemur við pyngju miklu fleiri launþega í landinu.

Auðvitað eru sjónarmið Samtaka atvinnulífsins af sama tagi og hafa margítrekað komið fram og auðvitað heyrast þær raddir úr öllum áttum. Það er ekki bara einhverjir meinfýsnir þingmenn stjórnarandstöðu sem mótmæla málinu eins og það er búið úr garði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nei, stærstu hreyfingar launþega og vinnuveitenda í landinu mótmæla harðlega. Sérfræðingar og stofnanir, sem vinna sérstaklega að þessum málum, mótmæla harðlega, eins og vísað hefur verið til. Fólk úti um allt þjóðfélag skilur ekki hvers vegna ríkisstjórn Íslands og sá meiri hluti sem hún styðst við flesta daga hér á þingi, kannski ekki alltaf, en flesta daga, og stuðningsmenn hennar í þinginu velja ekki niðurstöðu eða kosti í málinu sem byggja á faglegu mati og sátt getur náðst um. Þeir velja það að taka slaginn, ekki bara við stjórnarandstöðuna á þingi heldur við launþegahreyfinguna, við Vinnuveitendasamband Íslands og flesta aðra aðila í samfélaginu en náttúruverndarsamtök, sem reyndar hafa mótmælt rammaáætlun á öðrum forsendum. En spurningin sem stendur eftir er: Hvers vegna velur þessi ríkisstjórn alltaf átökin jafnvel (Forseti hringir.) þegar friður er í boði?



[22:54]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna og tek undir með hv. þingmanni þegar hann veltir upp þeirri spurningu hvers vegna ríkisstjórnin velji alltaf ófriðinn þegar friður sé í boði.

Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að nýlegar yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands í blöðunum í dag — en Alþýðusamband Íslands er mikil breiðfylking með yfir 110 þús. félagsmenn — fela einmitt í sér það sem búið er að benda á í umræðunum undanfarna daga, að rammaáætlun eins og hún liggur fyrir vinni í rauninni gegn því samkomulagi sem stjórnvöld gerðu við Alþýðusambandið og aðila vinnumarkaðarins. Það styður það sem fjallað hefur verið um og hefur verið vitnað til umsagnar Gamma í því efni, að áætlunin muni kosta um 270 milljarða fyrir þjóðarbúið, að um 5–6 þús. störf tapist og hagvöxtur minnki um 4–6%.

Í dag hefur forseti Alþýðusambandsins verið í sviðsljósinu, m.a. út af rammaáætlun. Hann hefur mætt Steingrími J. Sigfússyni í útvarpi og í sjónvarpi. Við höfum séð að forustumenn ríkisstjórnarinnar senda frá sér yfirlýsingar um málið og ráðast beint að Alþýðusambandinu. Hvað finnst hv. þingmanni um að þessir aðilar skuli vera komnir í opinbert stríð, (Forseti hringir.) m.a. út af því máli?



[22:56]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rammaáætlun er mikilvægt mál og ég held að við séum öll sammála um að það er eitt stærsta málið á þinginu. Það sjá allir að afdrif rammaáætlunar munu hafa mikil áhrif á efnahagslífið á næstu árum. Þegar Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins og önnur samtök á vinnumarkaði gera kjarasamninga horfa menn auðvitað til efnahagsástandsins. Þegar staða kjarasamninga verður metin í byrjun nýs árs líta menn á horfurnar í efnahagslífinu. Rammaáætlun spilar þar sterklega inn í.

Það er auðvitað engin sérstök frétt fólgin í því í dag að Alþýðusambandið sé ósátt við þá stefnu sem ríkisstjórnin tekur í rammaáætlun vegna þess að talsmenn Alþýðusambandsins og fulltrúar þess hafa margoft komið slíkum sjónarmiðum á framfæri við Alþingi. Það hefur hins vegar greinilega verið markviss stefna meiri hlutans á þingi að hunsa sjónarmið Alþýðusambandsins og sjónarmið Samtaka atvinnulífsins í þessum málum, hann lokar einfaldlega eyrunum fyrir þeim sjónarmiðum og rökum sem koma úr þeirri átt. En Alþýðusambandið hefur valið daginn í dag til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri ásamt sjónarmiðum í ýmsum öðrum málum þar sem Alþýðusambandið telur að um svik sé að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar á fyrirheitum sem gefin hafi verið um marga þætti, bæði beinar aðgerðir af hálfu ríkisins og eins um almennar aðgerðir á sviði efnahagsmála.

Það er auðvitað alvarleg staða en það er ekki frétt í dag að Alþýðusambandið hafi þetta viðhorf til (Forseti hringir.) rammaáætlunar. Hins vegar er ákveðin frétt fólgin í því hversu mikið deilan (Forseti hringir.) hefur skrúfast upp, ef við getum orðað það svo. Það er erfitt að sjá hvernig fulltrúar (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins ætla að ná saman aftur eftir þau stóru orð sem fallið hafa.



[22:58]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að Alþýðusambandið hefur vissulega komið skoðunum sínum í því efni á framfæri. En ég held, eins og hv. þingmaður kemur inn á í svari sínu, að málið sé komið í mjög alvarlega stöðu. Það er mjög alvarlegt að við horfum upp á að forseti Alþýðusambands Íslands og forustumenn ríkisstjórnarinnar séu komnir í opinbert stríð í ljósvakamiðlum með yfirlýsingum sín á milli, opinbert stríð og að störf ríkisstjórnarinnar skuli hafa miðað að því.

Hvað finnst hv. þingmanni um það sem komið hefur fram í máli ákveðinna stjórnarliða? Komið hefur fram að gert sé ráð fyrir því að þjóðarbúið verði af 270 milljörðum með breytingum á rammaáætlun, að 5–6 þús. störf tapist og að það verði um 4–6% minni hagvöxtur á næstu fjórum árum en ella.

Telur hv. þingmaður að þeir stjórnarliðar sem talað hafa fyrir málinu hafi sýnt fram á það með óyggjandi hætti hvernig brúa eigi það bil? Alþýðusambandið og fleiri vara við breytingunum og segja að engar trúanlegar tillögur bendi til þess að verið sé að brúa þetta bil og þar af leiðandi sé ekki verið að skapa þann grunn sem þurfi til kjarasamninga og annars.

Finnst hv. þingmanni að sá málflutningur sem stjórnarliðar hafa haft uppi sýni að þeir séu að reyna að brúa þetta 270 milljarða (Forseti hringir.) bil og þau 5–6 þús. störf sem hér munu tapast?



[23:01]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ríkisstjórnina gera mikið í þeim málum sem hv. þingmaður nefnir. Ég sé ekki að þessi ríkisstjórn sé að vinna að því að ýta undir hagvöxt í landinu, þvert á móti. Auðvitað vonum við hið besta varðandi þróun efnahagsmála á næstu missirum en eins og ég hef áður sagt í þessum sal óttast ég að þær spár sem gengið hefur verið út frá, t.d. við gerð fjárlaga, séu allt of bjartsýnar varðandi þróun efnahagsmála. Ég held að það sé ofmat á því hverju aukin einkaneysla muni skila inn í hagvöxtinn og ég held að á sama tíma og ríkisstjórnin gerir atlögu að hverri atvinnugreininni á fætur annarri sé ekki mikillar aukningar að vænta á fjárfestingu í atvinnulífinu, sem er hin forsenda hagvaxtar sem gert hefur verið ráð fyrir í spám Hagstofu, Seðlabanka og annarra slíkra aðila.

Það sem er að gerast í sambandi við rammaáætlun bendir ekki með neinum hætti til þess að ríkisstjórnin sé tilbúin til að taka ákvarðanir sem eru til þess fallnar að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu. Hvað þessi mál varðar er augljóst í þessum efnum að þeir virkjunarkostir sem eru næstir okkur í tíma og auðveldast væri að fara í eru settir úr nýtingu í bið, en þeim kostum haldið í nýtingarflokki sem eiga flestir því miður miklu lengra í land. Samþykkt rammaáætlunar eins og hún lítur út núna mun því ekki með nokkrum hætti verða til þess að auka mönnum bjartsýni í atvinnulífinu heldur þvert á móti.



[23:03]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það hefur komið í ljós eftir því sem þetta mál er rætt meira og ítarlegar á Alþingi að fleiri og fleiri eru að hverfa frá stuðningi við ríkisstjórnina eins og kom fram í máli þingmannsins og hann rakti með Alþýðusamband Íslands, sem þurfti að auglýsa og vekja athygli á málinu í blöðum í morgun, í Fréttablaðinu.

Það sem er athyglisvert er það sem gerðist nú undir kvöld þegar hv. þm. Árni Páll Árnason birtir færslu á fésbókarsíðu sinni og þingmaðurinn minntist á. Hv. þm. Árni Páll Árnason fullyrðir að stjórnvöld hafi ekki farið að neinu leyti eftir efnahagsáætlun sem hann hafi sem ráðherra unnið dyggilega að. Þetta eru miklar yfirlýsingar frá fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar verð ég að segja, virðulegi forseti, en þetta er kannski hluti af formannsbaráttu í Samfylkingunni, ég skal ekki segja.

Það sem er eftirtektarverðast í ummælum hv. þingmanns á fésbókarsíðu sinni eru þessi orð, með leyfi forseta:

„Afleiðingin: Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Virðulegi forseti. Þetta eru stór orð frá stjórnarþingmanni, hann ákallar í raun þjóð sína og spyr hvort við eigum ekki betra skilið en þá ríkisstjórn sem hann hefur átt sæti í. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Hvað finnst honum um þessi ummæli? Er hv. þm. Árni Páll Árnason þar með að hverfa frá stuðningi sínum við ríkisstjórnina? (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn kannski að málið sé komið í svo mikið óefni að ekki sé lengur meiri hluti fyrir því á þingi?



[23:05]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft efast um að tillagan eins og hún lítur út frá ráðherrunum tveimur, Oddnýju Harðardóttur og Svandísi Svavarsdóttur, nyti meirihlutastuðnings hér á þingi. Ég byggi það á því að margir úr ríkisstjórnarflokkunum hafa lýst efasemdum um veigamikla þætti málsins og segja má að slíkar andmælaraddir hafi heyrst í málinu alveg frá því að það kom upphaflega fram. Við þekkjum sjónarmið hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, sem hún gerir ágætlega grein fyrir í fyrirvörum í nefndaráliti sem víkja í veigamiklum atriðum frá tillögu ráðherranna. Við þekkjum líka sjónarmið hv. formanns atvinnuveganefndar, Kristjáns Möllers, sem hefur í bókun eða fyrirvara getum við kallað það í umsögn atvinnuveganefndar til umhverfis- og samgöngunefndar vegna málsins, gert grein fyrir mjög veigamiklum athugasemdum af sinni hálfu við niðurstöður ráðherranna.

Þessir þingmenn hvor um sig eru ekkert einir um skoðanir sínar innan stjórnarflokkanna og því hefur maður oft velt fyrir sér hvort málið nyti stuðnings. Ég hef hins vegar túlkað orð manna, bæði í þingsal og í þingnefndum, þannig að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vildu gjarnan halda fram sem við getum kallað sérsjónarmiðum sínum en mundu hugsanlega að einhverjum breytingartillögum felldum samt sem áður styðja tillögur ráðherranna. Ég hef staðið í þeirri trú að málið mundi á endanum hljóta samþykki á þeim forsendum.

Ég er farinn að efast núna. Mér finnst andstaðan frá einstökum mönnum, bæði innan Samfylkingar og Vinstri grænna, hafa komið fram sterkar en ég átti von á á þessu stigi í umræðunni (Forseti hringir.) og þess vegna velti ég því aftur fyrir mér hvort málið njóti raunverulega þess stuðnings sem ég taldi fyrir örfáum dögum.



[23:08]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir hreinskiptið svar. Jú, vissulega hefur komið upp í kollinn síðustu daga að málið njóti ekki meirihlutastuðnings þingsins. Það er alltaf að sannast betur og betur að fleiri snúa baki við málinu enda kannski ekki nema von. Það er náttúrlega mjög róttæk aðgerð hjá Alþýðusambandi Íslands í dag í Fréttablaðinu að lýsa því yfir að ríkisstjórnin hafi svikið ein átta samningsmarkmið sem ASÍ taldi sig hafa landað með þessari vinstri ríkisstjórn á vordögum 2011.

Ég velti líka fyrir mér í framhaldi af þessu hvílík orka og tími fer í það hjá þingmönnum að reyna að opna augu þessara ágætu hæstv. ráðherra fyrir því að málið sé ekki ásættanlegt og því hafi verið breytt á síðustu stigum þegar það kom inn og birtist okkur þingmönnum í þessari þingsályktunartillögu, eftir að hafa farið í gegnum 13 til 14 ára ferli. Það er því þyngra en tárum taki að þingmenn skuli þurfa að standa hér dag eftir dag, nótt eftir nótt, og ræða þetta mál og svo kemur jafnvel í ljós að ekki er meiri hluti fyrir því á þinginu. Þetta er sóun á mannafla, sóun á peningum, opinberu fé, að þurfa að hafa þinghúsið opið á kvöldin og nóttunni og náttúrlega sóun á orku þingmanna. Í stað þess að við séum að ræða mál sem byggja upp íslenskt samfélag eins og þarf að gera er okkur þingmönnum haldið hér í þinghúsinu til að ræða þetta.

Hvað stuðninginn varðar kemur hann bara í ljós við atkvæðagreiðslu. En þetta er, virðulegi forseti, afar einkennilegt mál og ég tel (Forseti hringir.) það ríkisstjórninni og þinginu ekki til sóma þegar svona mikil gagnrýni kemur fram á mál sem enginn er sáttur við.



[23:10]
Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast væri fyrir þá sem halda á málum og stjórna dagskrá þingsins að taka svona mál út úr umræðunni og reyna að ná einhverri lendingu sem sátt gæti verið um. Það eru skynsamleg vinnubrögð við aðstæður þegar allt er í háalofti út af máli af þessu tagi, ekki bara í háalofti milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur líka innan flokka. Það væri miklu skynsamlegra en að láta skotgrafirnar dýpka í átökum manna á milli í þingsal. En það velur hver sína aðferð og aðferð ríkisstjórnarinnar eru átök, átök við allt og alla, og jafnvel þá aðila í samfélaginu sem þessi ríkisstjórn hefur stundum viljað kenna sig við, launþegahreyfinguna í landinu.

Nú kann að vera að sú staða sé uppi að í forustu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar sé mannvalið orðið þannig að tengslin við verkalýðshreyfinguna séu gersamlega rofin. Það kann að vera að þau tengsl sem einu sinni voru fyrir hendi milli þeirra flokka sem voru á vinstri vængnum í íslenskum stjórnmálum og launþegahreyfingarinnar í landinu hafi algjörlega slitnað, að taug sem lengi var til staðar sé nú slitin. Það kann að vera að núna sé staðan sú að forustumenn Samfylkingar og Vinstri grænna telji sér sæmandi að tala með sama hætti við forustu Alþýðusambandsins og þeir tala við stjórnarandstöðuna á þingi. Við erum svo sem vön þeim tón og þeim steytta hnefa sem við sáum hjá hæstv. atvinnuvegaráðherra í sjónvarpinu í kvöld. (VigH: Rétt.) Við erum vön því að sjá þann stíl hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar (Forseti hringir.) sem sást í sjónvarpinu í kvöld en ég er ekki viss um að Alþýðusambandið sé vant því.



[23:12]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér áfram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í dag birtist á Smugunni eftirfarandi hugleiðing frá Hjörleifi Guttormssyni, fyrrverandi hv. þingmanni og fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hann spyr: Hvenær ákvað VG að stefna að olíuvinnslu á Dreka? Hann segir að nýverið hafi verið veitt leyfi til rannsókna á svæðinu en ekki nóg með það heldur hafi vinnsluleyfi fylgt í kjölfarið. Hann segir að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafi fyrir sitt leyti fallist á veitingu leyfa sem feli í sér að stefnt verði að olíuvinnslu á íslensku hafsvæði.

Það er dálítið undarlegt, herra forseti, að á sama tíma og menn ætla hér að takmarka vinnslu á hreinni orku ætli þeir að fara að vinna jarðefnaorku eða olíu norður í ballarhafi. Hún mun væntanlega verða brennd, því að venjan er að olíu sem dælt er upp í dag sé brennt með einhverjum hætti og það veldur mengun jarðar. Ég hefði talið að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar, þeir sem eru hlynntir náttúrunni og hlynntir umhverfisvernd, ættu heldur að búa þannig um hnútana að við getum strax farið að framleiða hreina orku eftir því sem sátt næst um í þjóðfélaginu. En það er ekki gert heldur er farið út í olíuleit á sama tíma og allt málið tafið eins og við þekkjum.

Það að bregða út af rammaáætlun sem verkefnisstjórnin hafði unnið, það að taka virkjanir úr nýtingarflokki og setja í biðflokk hefur tafið allt málið. Þess vegna stöndum við hér og ræðum þetta, herra forseti. Þetta tefur málið og tefur það að við getum virkjað og að hér hefjist hagvöxtur. Þess vegna, herra forseti, segir ASÍ, sem fulltrúar stórra launaþegasamtaka, að þetta hafi ekki verið efnt í samningum þeirra við ríkisvaldið. Þeir líta þannig á að rammaáætlun sem sátt hafi náðst um og hefði getað leitt til þess að við gætum farið að virkja af krafti og fyrr heldur en núna þegar allt er í uppnámi og enginn veit hvað gerist. Meira að segja er hægt að álykta að þessi rammaáætlun gildi bara til næstu kosninga. Það er það sem mjög líklega mun gerast.

Ég hef heyrt sjónarmið þeirra sem vilja ekki virkja, ég hef hlustað á þau og að einhverju leyti fellst ég á þau. Þau felast í því að mannkynið eigi að hverfa frá neyslu yfirleitt. En það er svo merkilegt að hreina orkan á Íslandi hefur verið notuð til að búa til ál og ál er umhverfisvænn málmur. Hann er léttari en flestir aðrir málmar og getur verið sterkari í ákveðnum efnasamböndum og hann sparar orku, þannig að ál er umhverfisvænt, sérstaklega þegar það er framleitt með umhverfisvænum hætti og umhverfisvænu rafmagni. Ef menn ætla að hverfa frá þeirri stefnu að framleiða ál eða ætla að nota hreinu orkuna okkar til að geyma gögn eða reka gagnaver eða annað eru þeir í raun að segja að annaðhvort eigi mannkynið að hætta þessari neyslu eða framleiðslan eigi að fara fram annars staðar eða gögnin verði geymd annars staðar þar sem orkan er framleidd með brennslu jarðefna með óheyrilegri mengun fyrir andrúmsloftið og hitnun jarðar og þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Það eru því átök á milli þessara tveggja fylkinga, þeirra sem vilja virkja og þeirra sem ekki vilja virkja. Mér finnst að þeir sem vilja ekki virkja verði að minnsta kosti að hlusta á meiri hlutann og þeir hefðu átt að sætta sig við niðurstöðu þess faglega mats sem unnið hafði verið að í rammaáætlun í fjölda ára.



[23:17]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Í dag eru tímamót því að lögð var fram tillaga í norska þinginu sem verður til þess að Norðmenn fá heimild til leitar á Drekasvæðinu — en hv. þingmaður fór einmitt í ræðu sinni yfir olíuleitina og olíuvinnsluna ásamt virkjunarmálum hér á landi. Við eigum auðvitað að nota allar þær auðlindir sem við getum í sátt við náttúruna til að skapa samfélag sem allir búa sáttir í.

Þingmaðurinn nefndi í lok ræðu sinnar þá sem vilja alls ekki virkja. Það er dæmi um það sem gerst hefur í íslensku samfélagi undanfarin ár eða áratug, þ.e. að lítill minni hluti kúgar meiri hlutann til athafnaleysis. Þetta sér maður í mörgum málum og ég tel að það sé að gerast í þessu máli. Tillagan hefur átt sér mjög langan aðdraganda, 13 til 14 ár, hefur verið í mjög opnu og gegnsæju ferli og landsmenn hafa allir getað komið skoðunum sínum á framfæri inn í þetta plagg. En á lokametrunum kemst lítill minni hluti kjósenda Vinstri grænna, og hæstv. ráðherra þess flokks, með hendurnar í málið og breytir tillögunni eftir 13 ára sáttaferli. Það er ólíðandi, virðulegi forseti, að málið sé komið á þennan stað vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Mig langar að spyrja þingmanninn sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Birgi Ármannsson að áðan: Hvað telur hann um gang málsins hér í þinginu? Nú eru þingmenn farnir að láta af stuðningi við tillöguna, ég sé ekki betur en hv. þm. Árni Páll Árnason hafi gert það (Forseti hringir.) nú í kvöld. Telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að enn sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu?



[23:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð spurning og eftir því sem umræðunni vindur fram held ég að menn muni skilja hvað er að gerast. Það er nefnilega þannig að umræðan hefur gildi í sjálfu sér. Hér hefur mörgum atriðum verið varpað fram, menn hafa verið spurðir og hafa stundum svarað en ekki alltaf. Það er að koma í ljós að kannski er bara ekki meiri hluti fyrir þessari tillögu. Þá munu menn væntanlega sjá að sér og vonandi setjast andstæðar fylkingar niður og sameinast um þá niðurstöðu sem verkefnisstjórnin hafði komist að. Ég vona að það verði niðurstaðan, sérstaklega eftir að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tjáði mér að hún hefði helst áhyggjur af því í sambandi við biðvirkjanir að rannsóknir kynnu að valda náttúruspjöllum. Hægt er að komast hjá því með því að setja ákvæði um að þeir sem rannsaka virkjanir í biðflokki eigi að ganga þannig frá að skaðinn sé sem minnstur fyrir náttúruna. Það er alveg hægt ef menn vanda sig.

Ég held að eftir því sem umræðan þróast, og sérstaklega eftir innlegg ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, fallist menn hreinlega á sjónarmið þess stóra meiri hluta sem er á því að standa eigi faglega að þessu mati. Ég held að tiltölulega fáir séu algjörlega á móti virkjunum og tiltölulega fáir vilji virkja hverja sprænu og hvern hver. Það er hinn mikli fjöldi sem er þarna á milli (Forseti hringir.) sem vill fá áætlunina.



[23:22]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta svar. Já, málið er á skrýtnum stað. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki um mikla tímasóun að ræða, að halda mönnum frá öðrum dýrmætari og mikilvægari þingstörfum dag eftir dag og nótt eftir nótt til að ræða þessi mál þegar fyrirséð er að tillagan nýtur ekki meirihlutatrausts á Alþingi. Væri ekki betra að vinnustaðurinn liti þannig út að hægt væri að vera hér á daginn og setja lög og álykta hvað hægt væri að gera fyrir skuldug heimili eða varðandi atvinnuuppbyggingu? Þessi tillaga gengur út á að skrúfa atvinnulífið niður eins og þegar hefur komið fram.

Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin, sem telur sig hafa meiri hluta hér á þingi, kemur fram í þessu máli. Talað er um lygar og svikabrigsl og hnefinn er steyttur og ég veit ekki hvað. Sumir segja: Loksins er gamli góði Steingrímur J. Sigfússon mættur aftur, sem nú er hæstv. ráðherra. Hvaða augum lítur þingmaðurinn þingstörfin þegar málin eru komin í þennan hnút og þegar svo virðist jafnvel að ekki sé meiri hluti fyrir þingsályktunartillögunni? Hvers vegna getur ríkisstjórnin ekki komið fram með tillögu sem er samhljóða tillögum starfshópsins sem vann þetta plagg? Hvaða þrjóska er þetta? Hér er lítill minni hluti að kúga meiri hlutann.



[23:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg sett mig inn í hugarheim þeirra sem eru eindregið á móti virkjunum alveg sama hvað gerist. Þeir segja bara: Við ætlum bara að sætta okkur við verri lífskjör, fólk á bara að hætta að keyra bíla o.s.frv., við skulum alltaf láta náttúruna njóta vafans. Þetta fólk sér það sem ógn þegar fara á að virkja. Ég get alveg skilið það. En að þeir skuli láta sér detta í hug að lítill hluti þjóðarinnar fari að kúga meiri hlutann og keyra fram mál í ágreiningi, það er hættulegt og það er vanmat og það skaðar málstað umhverfisverndarsinna. Þegar skipt verður um ríkisstjórn, sem væntanlega gerist fljótlega, er hættan sú að menn fari í hinar öfgarnar að virkja of mikið. Ég held því að menn séu að vinna þarna ákveðið skemmdarverk.

Auðvitað er þetta tímasóun, ágreiningur er alltaf tímasóun. Það er alltaf miklu skynsamlegra að ná niðurstöðu með farsælum hætti, spjalla við mann og annan og segja: Hvað vilt þú, ég vil þetta, getum við ekki náð samkomulagi o.s.frv. Það er miklu betra. Það hefði verið miklu betra ef hæstv. umhverfisráðherra hefði setið hér og svarað þeim spurningum sem endalaust hafa verið bornar fram í staðinn fyrir að við séum alltaf að spyrja að því sama. Kannski vill hann ekki svara, kannski getur hann það ekki, af því að hann er að brjóta ákveðna reglu. Auðvitað ættum við að vera að gera eitthvað allt annað. Þeir sem eiga börn ættu kannski að vera að kíkja aðeins framan í þau og hinir sem hafa hugmyndir og slíkt geta verið að leysa vanda heimilanna á þessum tíma eða við dagsljós.

Það yrði mjög athyglisvert ef í ljós kæmi eftir allan ágreininginn og alla umræðuna án svara að ekki væri meiri hluti fyrir þessu og menn mundu fallast á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar.



[23:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt annað en að minnast á yfirlýsingar fyrrverandi viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, held ég hafi verið, sem undrast að þeirri efnahagsáætlun sem unnin var í hans tíð í ráðuneytinu hafi ekki verið fylgt. Hann segir þetta í tengslum við gagnrýnina sem komið hefur frá Alþýðusambandi Íslands á störf ríkisstjórnarinnar. Það er algjörlega ljóst að mínu viti að Alþýðusambandið hefur nokkuð til síns máls þegar kemur að efnahagsmálum og þætti rammaáætlunar í því, þ.e. að þeirri áætlun sem gerð var hafi ekki verið fylgt. Rétt er að hafa í huga að sífellt fleiri eru að átta sig á því hversu mikilvægt er að þessi áætlun rýri ekki möguleika okkar til að rétta efnahag þjóðarinnar hraðar við en stjórnvöld ætla sér að gera.

Í nokkuð merkilegri umsögn Orkustofnunar um þessa tillögu kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar, en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmuni fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og nýtingu“ o.s.frv.

Orkustofnun segir sem sagt í umsögn sinni að önnur afstaða hefði hugsanlega verið tekin ef málið hefði verið unnið (Forseti hringir.) í öðrum farvegi. En þarna er reynt að ná sátt.



[23:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Kannski hefur Orkustofnun komist að því hversu verðmætt það er að menn vinni hlutina í sátt, hversu miklu minni orka fer í að ná niðurstöðu þegar búið er að vinna málin faglega. Mér sýnist á öllu að það hafi verið gert í þessu tilviki. Tekið var tillit til ótrúlegra sjónarmiða, hluta sem ég hefði ekki látið mér detta í hug, sjónmengunar og annars slíks. Það væri fyrir löngu búið að samþykkja þetta ef menn hefðu unnið samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Þá hefðu einhverjir verið ósáttir, mjög ósáttir, þeir sem vildu ekkert virkja. Aðrir hefðu líka verið mjög ósáttir, þeir sem vildu virkja hverja sprænu. En meginhluti þjóðarinnar hefði verið sáttur og meginhluti þingmanna væntanlega líka, sumir þeirra eru kannski ekki alveg að vinna samkvæmt heilögustu sannfæringu. Við værum þegar byrjuð að virkja ef hlutirnir hefðu verið unnir á þann veg. Og þegar væri farið að gæta bjartsýni hjá félagsmönnum ASÍ og hagvöxtur væri hugsanlega kominn í gang.

Það eru þessi átakastjórnmál sem kosta svo óskaplega mikla orku og eyðileggja svo mikið. Það er svo mikið niðurrif fólgið í því að þurfa alltaf að keyra yfir annað fólk, þurfa alltaf að ráða og stjórna og tapa dómsmálum og ég veit ekki hvað. Það er svo mikið niðurrif fólgið í því og það er svo mikil neikvæðni. Ég vona að þessi umræða, sem er mjög góð og málefnaleg, verði til þess að menn fallist á endanum á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og fari leið sem meginhluti þjóðarinnar er sáttur við. Ég vona að við getum farið að virkja.



[23:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í fésbókarfærslu talar hv. þm. Árni Páll Árnason um afleiðingar þess að fylgja ekki þeirri efnahagsstefnu sem hann vann að. Hann segir að afleiðingin sé það mikla rifrildi sem nú á sér stað á milli Alþýðusambands Íslands og ráðherra í ríkisstjórninni.

Við sjáum þau átakastjórnmál sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vísar í endurspeglast í orðræðunni á milli ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins. Hv. þm. Arni Páll Árnason vísar til hennar og segir um leið að taka þurfi upp nýtt verklag.

Í framhaldi af þessu vil ég næst nefna álit Samorku sem eru samtök orkuveitufyrirtækja. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ofangreind tillaga til þingsályktunar víkur mjög mikið frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar, á einhverjum allt öðrum forsendum.“ — Áður var búið að ræða hvernig þetta var allt sett upp. — „Tillagan er því, að mati Samorku, enginn grundvöllur fyrir sátt um þennan málaflokk og þess vegna verða samtökin að lýsa miklum vonbrigðum með hana.“

Þarna er á ferð enn einn aðilinn, enn ein samtökin sem skipta miklu máli þegar við ræðum um sátt um friðun og verndun, samtök þessara fyrirtækja. Þessi ágætu samtök bundu að sjálfsögðu eins og aðrir vonir við að það tækist að leysa verkefnið í sátt og hefðu örugglega viljað fara aðra leið en þarna er gert — mögulega, ég ætla ekki að segja örugglega — með ákveðna kosti. Við hljótum að spyrja (Forseti hringir.) hvort þetta undirstriki ekki þau átök sem hv. þingmaður er hér að lýsa.



[23:33]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nærri viss um að þau hefðu viljað virkja eilítið meira en gert var ráð fyrir í niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, það hugsa ég. En þessi samtök voru tilbúin til að fallast á niðurstöðuna eins og flestallir aðrir, eins og ég var tilbúinn til og eins og margir virkjunarsinnar voru líka tilbúnir til, þeir sem voru ekki eins eindregnir og ætluðu sér ekki að misnota aðstöðu sína.

Þetta er mjög skaðlegt eins og allur ágreiningur er alltaf, bæði skaðlegur og neikvæður. Hann grefur um sig með neikvæðni og tefur framfarir og lausnir. Ef þetta hefði verið tekið óbreytt upp eins og verkefnisstjórnin lagði upp með og ef menn hefðu í sæmilegri sátt valið úr þær virkjanir sem áttu að vera í biðflokki, þær sem áttu að vera í nýtingarflokki og þær sem áttu að vera í verndarflokki — sem var hægt að lesa út úr faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar — værum við löngu búin að samþykkja þetta. Þá væri löngu búið að samþykkja rammaáætlun, þá væri löngu farið að virkja það sem menn telja að eigi að virkja og allir eru sammála um að virkja. Þá væri búið að gera ráðstafanir með virkjanirnar sem menn ætla virkilega að vernda, að þær yrðu ekki virkjaðar.

Miklu meiri gangur væri í efnahagslífinu, heimilin hefðu það betra, atvinna væri meiri. Það er þess vegna sem ASÍ kveður fast að orði, í auglýsingu sem birtist í dag: Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar – ekki efnt. Það er mjög óvenjulegt að svona stór fjöldasamtök setji slíkt fram. Þau segja hreinlega að ekki hafi verið staðið við það loforð að fara að tillögum sérfræðinganefndarinnar. Það er mikill skaði, það er mikið tjón. Það er tjón fyrir þjóðfélagið, það er tjón fyrir okkur öll.



[23:35]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að beina því til hæstv. forseta að kannski væri æskilegt að breyta dagskránni og rifja upp ummæli hæstv. atvinnuvegaráðherra fyrir um viku um að það yrði að fara að klára fjárlögin svo að hægt yrði að greiða út laun. Síðan er búið að afgreiða frumvarpið úr hv. fjárlaganefnd til 3. umr. og það kemst ekki á dagskrá. Það sjá allir í gegnum tvískinnung hæstv. atvinnuvegaráðherra þegar hann kom upp undir liðnum störf þingsins og var með aðdróttanir gagnvart stjórnarandstöðunni sem vildi ræða fjárlagafrumvarpið, sem var auðvitað full ástæða til.

Það er grafalvarlegt þegar málin eru komin í þann farveg að forseti ASÍ og forustumenn þeirra samtaka þurfi að gefa út þá yfirlýsingu sem var gefin út í dag. Þetta undirstrikar enn og aftur aðför hæstv. ríkisstjórn gagnvart öllu og öllum í atvinnulífinu. Það er alveg sama hvort það er sjávarútvegurinn, stóriðjan eða ferðaþjónustan sem var síðasta bitbeinið, ríkisstjórnin er í stríði við allt og alla. Af þessu hefur maður miklar áhyggjur. Það er mjög merkilegt að hæstv. ríkisstjórn telji sig ná árangri með þessum hætti. Núna blasir við almenningi í landinu enn eina ferðina hvernig stjórnarandstaðan hefur þurft að búa við aðdróttanir hæstv. ríkisstjórnar.

Ég sé að hæstv. umhverfisráðherra er í salnum og ég hefði viljað, af því að ég er búinn að spyrja margoft að því, fá útskýringar á því hvers vegna niðurröðunin er eins og hún er í þingsályktunartillögunni. Ég átta mig ekki á því, þ.e. af hverju er verið að taka vatnsaflsvirkjanirnar í nýtingarflokki og setja þær í biðflokk. Þegar maður skoðar röksemdafærsluna fyrir því er sagt að menn vilji fara sér hægt og gefa sér ákveðið svigrúm og varúðarsjónarmið liggi að baki. Ég geri ekki lítið úr því. Sérstaklega er þar átt við virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Ég skal nú bara tala um tvær efri virkjanirnar og sleppa Urriðafossi. En þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun ætlar að fara í samhliða þeim virkjunum og að þessar virkjanir eru lengst komnar í hönnun, það er mest vitað um þær, þær eru mest rannsakaðar og hægt að hefjast þar handa fyrst, eru þær færðar.

Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að ef sama röksemdafærsla gilti um virkjanir inni á háhitasvæðum ættu þær ekki að vera í nýtingarflokki og það er ótrúlegt að sjá að hæstv. ráðherra leggi þá flokkun til. Áhættan við þær kemur mjög skýrt fram í meirihlutaálitinu, þar er sagt að það sem gæti gerst við að virkja á háhitasvæðum væri í fyrsta lagi mengun á grunnvatni, í öðru lagi mengun andrúmslofts og í þriðja lagi jarðskjálftar. Þetta þrennt er tilgreint sem áhætta við að fara í virkjanir á háhitasvæðum. Samt leggur hæstv. umhverfisráðherra til að þær verði í nýtingarflokki. Síðan getum við auðvitað rifjað upp hvað hefur gerst með Hellisheiðarvirkjun.

Varúðarsjónarmiðið sem tekið er tillit til þegar vatnsaflsvirkjanirnar eru annars vegar í neðri hluta Þjórsár snertir laxastofninn. Við vitum það öll sem höfum kynnt okkur þetta eitthvað að hættan er mest í kringum Urriðafoss og við vitum af þeim mótvægisaðgerðum sem Landsvirkjun ætlar að fara í samhliða þessum virkjunum. Og þó að við settum Urriðafoss til hliðar og færum í hinar tvær efri er mjög sérkennilegt að þrátt fyrir þessar mótvægisaðgerðir skuli varúðarsjónarmiðin standa, en hæstv. ráðherra leggur samt til að farið verði í virkjanir á háhitasvæðunum.

Það er mjög sérkennilegt að þetta skuli vera svona og ekki hægt að segja að það sé samræmi þarna á milli. Ef þau varúðarsjónarmið sem uppi eru gagnvart vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá og að þess vegna eigi að sleppa þeim eru gild ætti hið sama að sjálfsögðu og enn frekar, a.m.k. að mínu mati, að gilda um virkjanir á háhitasvæðum. Það er hreint með ólíkindum að ekki skuli einu sinni fást svör þegar maður spyr trekk í trekk sömu spurninganna.



[23:40]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Já, það er ansi fátt um svör, það er ekki hægt að segja annað. Ég tek undir með þingmanninum að það er ekki nokkur leið að draga það upp úr ríkisstjórninni hvað liggur þarna að baki. Ég hef kallað eftir svörum og ég hef kallað eftir gögnum um það hvers vegna flokkuninni var breytt og hvað liggur hreinlega að baki en hef ekki fengið svör.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra situr hér í salnum og fyrir það ber kannski að þakka því að við þingmenn höfum oft kallað eftir því að ráðherrarnir séu hér í salnum og eigi eitthvert smásamtal við okkur í þinginu. En fátt er um svör og það er eiginlega varla nokkur einasta leið að fá svör við spurningum okkar.

Það sem er að gerast í dag, að fjöldahreyfing á Íslandi, sjálfur verkalýðurinn, verkalýðshreyfingin, sé farin að kalla eftir málþófi á Alþingi er stórmerkilegt. Það er jafnmerkilegt liggur við og að síldin sé að ganga á land og það eru víst alveg óskapleg stjörnuhröp úti núna, þetta er sérstakur dagur að þessu leyti.

Hvað finnst þingmanninum um að sjálf verkalýðshreyfingin sé farin að biðja um málþóf í Alþingishúsinu? Þessi auglýsing sem ASÍ birti í morgun er ekkert annað en ákall um málþóf og ákall um að við reynum að knýja fram einhverjar breytingar í gegn í átt til upphaflega plaggsins. Það er beinlínis verið að biðja okkur þingmenn, löggjafann sjálfan, að taka valdið af ríkisstjórninni í þessu máli. Svo höfum við rætt um að fjárlögin og annað mæta hér mikilli mótstöðu, en það var talað um málþóf og nefnt, eins og þingmaðurinn fór yfir, að ekki yrði hægt að borga út laun. En nú liggur ekkert lengur á að ræða fjárlögin heldur erum við föst í þinginu, með tillögu (Forseti hringir.) sem nýtur jafnvel ekki stuðnings meiri hluta þingmanna og ræðum hana fram á rauða nótt. (Forseti hringir.) En hvað finnst þingmanninum um viðbrögð ASÍ?



[23:43]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ákall forustumanna verkalýðshreyfingarinnar grafalvarlegt og það er auðvitað ekki sett fram nema að vel ígrunduðu máli. Yfirskrift auglýsingarinnar var: Orð skulu standa. Ákallið í skilaboðum frá verkalýðshreyfingunni var mjög skýrt, þar voru talin upp ákveðin atriði og þar á meðal þetta mál sem við erum að ræða hér, rammaáætlun og að röðunin mundi miða við það sem verkefnisstjórnin lagði til. Í raun og veru er óskiljanlegt af hverju það mál sem við mæltum fyrir, þingflokkur sjálfstæðismanna, um að skipa aftur verkefnisstjórn til að útfæra þessar tillögur og ná þar með sátt um rammaáætlun, er ekki rætt.

Auðvitað kallar ASÍ ekki eftir þessu nema vegna stöðu félagsmanna sinna. Þannig er það. Menn horfa á það sem fram undan er eins og kom til að mynda fram hjá forustumanni ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni. Nú fer af stað skriðan sem við könnumst við frá fyrri árum, menn fara að hækka laun og þá hækkar verðbólgan og svo bítur þetta í skottið á sjálfu sér og endar allt saman í sömu vitleysunni.

Mín skoðun er alveg klár og ég hef oft farið yfir hana í ræðum. Vegna skuldastöðu ríkissjóðs tel ég mjög mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma og forustumenn atvinnulífsins gangi til samninga og geri svokallaða þjóðarsáttarsamninga eins og gerðir voru hér fyrir löngu. Öðruvísi náum við ekki tökum á þessu, það er mín skoðun. Við verðum að standa saman. Þetta er mun stærra verkefni en svo að það sé bara fyrir stjórnvöld, sama hver þau eru. Það er gríðarlega mikilvægt að ná samstöðu með forustumönnum atvinnulífsins, hvort sem það er verkalýðshreyfingin eða Samtök atvinnulífsins, til að ná tökum á skuldastöðu ríkissjóðs.



[23:45]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á þessu andsvari er rétt að minnast á að það er nú ekki mikill þjóðarsáttarsamningatónn í málunum eins og þau standa eftir daginn í dag. ASÍ, fjöldahreyfingin, lokar beinlínis á eftir ríkisstjórninni og segir: Þið megið eiga ykkur. Þið verðið að gera breytingar, þið hafið svikið alla samninga. Meira að segja ASÍ, en forusta þess hefur oft verið svolítið samfylkingarsinnuð, er búin að gefast upp á ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin fékk í raun uppsagnarbréf frá Alþýðusambandi Íslands í Fréttablaðinu í morgun, það er ekki hægt að orða hlutina á annan hátt. ASÍ ætlar ekki að ræða við ríkisstjórnina um nokkurt einasta mál, það biður eftir næstu kosningum og bíður eftir nýrri ríkisstjórn. Það er sérstaklega merkilegt í ljósi þess hvernig þessi samtök eru, sem dæmi má nefna að yfirlögfræðingur ASÍ er varaþingmaður Samfylkingarinnar og við vitum hvernig forseti ASÍ er tengdur Samfylkingunni. Þetta er því allt farið að brotna innan frá. En nei, þessu er svarað með hrokaskeytum og -sendingum og ljótum munnsöfnuði frá hæstv. ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni svo að annað eins hefur ekki sést. Þetta er náttúrlega ekki nokkur einasta framkoma.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann, Ásbjörn Óttarsson, hvort Sjálfstæðisflokkurinn, komist hann í ríkisstjórn eftir kosningar, muni beita sér fyrir nokkurs konar þjóðarsáttarsamningum og koma til móts við skuldug heimili og fara að byggja upp atvinnulíf að nýju. Síðast en ekki síst vil ég spyrja hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd sem birtist í frumvarpi hans um þessa þingsályktunartillögu að það verði (Forseti hringir.) bakkað og verkefnahópurinn kallaður saman aftur og þingsályktunartillagan verði látin standa (Forseti hringir.) eins og hún kom frá verkefnahópnum.



[23:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel afar brýnt, hvernig sem næsta ríkisstjórn verður skipuð, að samkomulag náist milli þessara aðila. Ég lít þannig á að verkefnið sé það stórt að allir verði að standa saman. Það er algjört lykilatriði fyrir stjórnvöld, hver sem þau eru, að ná samkomulagi og virða það samstarf sem er við þessa aðila.

Við sjáum hvernig núverandi hæstv. ríkisstjórn hagar sér. Við sjáum hvað gerðist í dag hjá Alþýðusambandi Íslands. Við þekkjum hvernig hefur verið staðið að sjávarútvegsmálunum. Hvert frumvarpið á fætur öðru er lagt fram og sagt: Þetta þarf að keyrast í gegn á einni viku. Síðan kemur einkunnagjöfin og sama frá hverjum hún er, hún setur allt á hliðina.

Stóriðjufyrirtækin gerðu undirritað samkomulag við ríkisstjórnina um fyrir fram greidda skatta. Nú hefur eitt þeirra fyrirtækja boðað að það ætli að fara í mál við ríkissjóð og heimta að þetta verði greitt til baka. Við sjáum hvernig er komið fram við ferðaþjónustuna. Það er boðaður skattur og ekkert samráð haft við hana þó svo að ferðaþjónustufyrirtæki séu búin að selja langt fram í tímann — það vita auðvitað allir sem vilja vita og hafa eitthvert vit að þessi fyrirtæki selja þjónustu sína langt fram í tímann og þau geta ekki brugðist við þessu. Það er því alveg sama hvert er litið, hæstv. ríkisstjórnin er í stríði við allt atvinnulíf í landinu, því miður. Og ef það er þannig náum við engum árangri.

Ég minni bara á að skuldastaða ríkissjóðs og skuldbindingar nemur um 2 þús. milljörðum. Við greiðum 84 milljarða í vexti á næsta ári. Við munum greiða tæpa 400 milljarða í vexti á næstu fjórum árum. Ég tel gríðarlega mikilvægt, sama hvernig ríkisstjórnin verður skipuð eftir næstu kosningar, að samstaða náist á milli allra aðila um hvernig við eigum að koma okkur út úr þessum vandamálum.



[23:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að glugga í umsagnir og sá þá að ákveðinn texti sem er að finna í umsögn Suðurorku ehf. hafði farið fram hjá mér þar sem vinna í það minnsta tveggja faghópa er gagnrýnd. Það kemur sem sagt fram í umsögninni sem ég hélt að ég hefði verið búinn að lesa en það hefur greinilega farið fram hjá mér.

Þar segir t.d., með leyfi forseta:

„Faghópur 2 segir það með skýrum hætti í lokaskýrslu verkefnisstjórnar að hópurinn hefði ekki náð að þróa aðferðir sínar til að meta áhrif á ferðamennsku og hlunnindi. Samt skilaði hópurinn niðurstöðu samkvæmt aðferðafræði sem formaður hópsins gat ekki lýst. Það eru ekki fagleg efnistök og niðurstöður því ótrúverðugar.“ Við vissum að það voru ákveðnir erfiðleikar með þetta.

Síðan kemur fram varðandi faghóp 3 að á einum fundi hafi öllum byggðasjónarmiðum og efnahagssjónarmiðum úr rammaáætlun verið hent út vegna þess að faghópur 3 hafi ekki ráðið við verkefni sitt, þ.e. ekki tekist að vinna eftir ákveðnum stöðlum eða viðmiðum, ef ég skil þetta rétt.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta hafði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá virkjunarkosti sem augljóslega höfðu sterk jákvæð áhrif á nærsamfélag sitt svo ekki sé talað um þjóðhagslegar afleiðingar.

Engin fundargerð frá faghópi 3 hefur verið birt á vef rammaáætlunar. Því er ekki hægt að staðfesta hvernig fagfólkið komst að því að best væri að sleppa byggðasjónarmiðum úr rammaáætlun.“

Ég verð nú að viðurkenna, herra forseti, að ég var ekki búinn að átta mig á þessu er varðar byggðaáhrifin og gagnrýnina. Það er vitanlega grafalvarlegt og setur málið nokkuð í nýja stöðu ef það er rétt, sem ég geri (Forseti hringir.) ráð fyrir, að það hafi ekki verið metið.



[23:52]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísar hér í umsögn frá Suðurorku, sem ég hafði reyndar ekki lesið nægilega vel þannig að ég geti farið yfir þau atriði sem hv. þingmaður benti á.

Þegar menn fara í verkefni sem búið er að vinna að í langan tíma vitum við alveg að ekki verða allir sáttir. Við vitum að þeir sem vilja virkja mest eru ekki sáttir við það sem fer í biðflokk og síðan í verndarflokk, og svo öfugt, að þeir sem vilja vernda eru heldur ekki sáttir við niðurstöðuna en á öðrum forsendum.

Ég held hins vegar að við séum öll sammála um að við viljum fara varlega og gerum okkur grein fyrir virði náttúrunnar, hversu mikils virði það er að hafa hana sem heillegasta og sem besta. Ég hræðist það mjög mikið og margir hafa bent á það nú þegar málið er komið í þennan farveg að þetta er bara rammaáætlun núverandi hæstv. ríkisstjórnar, það er þannig í mínum huga. Næsta ríkisstjórn telur sig ekkert bundna af henni og verður strax farið í að breyta áætluninni, þannig að niðurstaðan er ónýt eftir allt erfiðið við að reyna að ná samstöðu um hlutina. Það er því gríðarlega alvarlegt.

Síðan hef ég ekki fengið nein svör við því sem ég kallaði eftir við hæstv. ráðherra sem hlustaði á ræður mínar í dag. Ég spurði spurninga sem ekki er svarað. Hvers vegna það er ekki gert veit ég ekki, en það er mjög furðuleg staða sem við erum í núna. Ég held í raun og veru að meiri hluti þingmanna, sem eru frekar hófsamir, verði undir í þessu máli í hvora áttina sem farið er.



[23:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í svari sínu sem ég ætlaði að spyrja um í seinna andsvari, þ.e. að hér hafa mjög margir þingmenn stjórnarandstöðunnar lýst því yfir að þetta sé augljóslega rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar, og höfum við hlotið nokkrar skammir fyrir það frá einstaka þingmönnum stjórnarliðsins sem komið hafa upp og talað um hótunarmenn og annað.

Það eru nú ekki bara þingmenn sem eru þessarar skoðunar því að í greinargerð og umsögn Samorku frá 30. apríl 2012 segir, með leyfi forseta:

„Náist ekki breið samstaða þvert á stjórnmálaflokka um rammaáætlunina þá er því miður líklegt að niðurstaðan verði eingöngu stefna núverandi stjórnvalda í verndun og nýtingu.“

Það var því greinilegt að einhver hefur séð að þetta mundi enda með þessum hætti og er ekki hægt annað en að hrósa þeim fyrir að hafa séð það fyrir. Við sjáum í dag að ekki hefur tekist að hrófla neitt við þessu í nefndinni, þ.e. að vinda ofan af því sem ráðherrann tók sér fyrir hendur. Þar af leiðandi virðist það vera rétt sem Samorka komst að í apríl síðastliðnum.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvaða afleiðingar mun það hafa? Væntanlega verður áætlunin samþykkt einhvern tíma á næstu vikum. Þá spyr ég: Hversu lengi mun rammaáætlunin lifa sem hér er farið fram með? Ég hygg nefnilega að einhverjir úr öllum flokkum nema kannski Vinstri grænum muni beita sér fyrir því að málið (Forseti hringir.) verði tekið upp frá grunni.



[23:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns fyrst þá lifir rammaáætlunin bara þessa hæstv. ríkisstjórn og enga aðra, fyrst farið er af stað með þessum hætti. Það er skoðun mín,

Hv. þingmaður vitnar hér til þess sem stendur í umsögn Suðurorku. Ef við förum bara yfir umsögn Landsvirkjunar segir þar, með leyfi forseta:

„Við undirbúning þingsályktunartillögunnar gerði Landsvirkjun m.a. athugasemdir um þessi atriði með bréfi dags. 9. nóvember 2011. Hvorki var tekið tillit til þeirra athugasemda, né fjallað um þær í greinargerð við tillöguna.“

Ef við tökum umsögnina frá Orkustofnun, sem er opinbert fyrirtæki og hefur gríðarlega þekkingu á þessum málum eðli málsins samkvæmt, stendur þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnarinnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar, en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmunina fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og orkunýtingu eins og sú tillaga gerir ráð fyrir. Þannig yrði lagður grunnur að stöðugu umhverfi fyrir atvinnuuppbyggingu á sviði orkuiðnaðar, ferðamála og annarrar landnýtingar.“

Svona lagað er ekki mjög algengt að sjá í umsögn frá opinberri stofnun eða ég hef að minnsta kosti ekki séð það. Ég hef reyndar ekki verið hérna mjög lengi, bara þetta kjörtímabil. En það segir okkur auðvitað að menn sem unnu að verkefninu nálguðust það með það að markmiði, eins og við köllum hér eftir, að taka tillit til allra sjónarmiða, hvort heldur sem þau eru um að virkja sem mest eða þá sem minnst, þannig að menn nái samkomulagi um einhverja niðurstöðu sem þeir geta staðið við. Stjórnvöld á hverjum tíma munu þá standa að því samkomulaginu af því að þau eiga þátt í því. Með svona vinnubrögðum verður þetta bara rammaáætlun þessarar hæstv. ríkisstjórnar.



[23:59]Útbýting:

[00:00]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Enn er verið að ræða rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hef verið að kíkja aðeins inn á fréttamiðlana í kvöld og skoða viðbrögð við Kastljósinu þar sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon tókust heiftarlega á. Sá fyrrnefndi sakar ríkisstjórnina um svikin loforð og ekki er hægt annað en að taka undir það. Þeir hjá ASÍ segjast ekki ætla að fara í fimmta sinn og semja við þessa ríkisstjórn. Þeir eru einfaldlega búnir að gefast upp og ætla, eins og ég sá einhvers staðar haft orðrétt eftir Gylfa, bara að þreyja þorrann þar sem stutt sé til kosninga. Þetta er ótrúlegur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ég spyr eins og hv. þm. Árni Páll Árnason: Hvers eigum við að gjalda að búa í þessu landi með slíka ógnarstjórn yfir okkur?

Þegar litið er inn á heimasíðu Stjórnarráðsins má sjá yfirlýsingu frá ríkisstjórninni í löngu máli þar sem andmæli gegn því sem kom fram í auglýsingu ASÍ í Fréttablaðinu í morgun eru sett í barnalegan búning. ASÍ telur að það loforð að rammaáætlun skyldi afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar hafi ekki verið efnt og við í stjórnarandstöðunni erum sammála því. En þá kemur svarið frá ráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Fullyrðingin er röng enda ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.“

Maður hálfskammast sín fyrir þær upplýsingar sem birtast þarna, á vefsíðunni stjornarrad.is, að yfirlýsingar af þessum toga skuli koma frá stjórnvöldum. Hvað halda erlendir aðilar um þá stjórn sem situr í landinu? Ég segi ekki annað. Þetta skjal á vef Stjórnarráðsins er allt þannig upp byggt, það er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Bestu rökin komu frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni í dag þegar hann gaf út eina af sínum mörgu yfirlýsingum varðandi andstöðu ASÍ við ríkisstjórnina — ASÍ er búið að segja ríkisstjórninni upp, við skulum bara tala hreint út. Hann sagði að það væri jafnvel vegna erfiðs ástands á mörkuðum í Evrópusambandinu að ekki hefði gengið betur í íslensku efnahagslífi. Svo standa Vinstri grænir fyrir því að hjá Evrópusambandinu liggur aðildarumsókn frá Íslandi. Eru þversagnirnar nú ekki orðnar ansi margar, virðulegi forseti, í máli hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar?

Þeir sem sáu Kastljósið í kvöld sáu hinn gamla Steingrím birtast á ný steytandi hnefann, brigsla mönnum um lygar, bara vegna þess að hann finnur að málið er að fjara út. Það var athyglisvert. Það er ekkert grín að fá 1/3 þjóðarinnar upp á móti sér. Eins og ég hef farið yfir í ræðum í dag telja félagsmenn ASÍ yfir 100 þús. manns. Þetta er fjöldahreyfing, virðulegi forseti, og þetta spyrst út í hreyfingunni. Það hefur fengið mikla umræðu í dag að ASÍ sé búið að segja ríkisstjórninni upp, eins og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum gert fyrir löngu. En ríkisstjórnin ætlar að hanga fram að kosningum, hún sleppir ekki völdum, hún hangir á þrjóskunni einni saman. Þegar nánast er búið að keyra efnahagslífið í þrot eins og þessi ríkisstjórn hefur gert — hún stuðlar ekki að uppbyggingu og atvinnusköpun eða kemur til hjálpar heimilunum — þá á sú ríkisstjórn ekki marga daga eftir. Að öllum líkindum og vonandi fara kosningarnar þannig (Forseti hringir.) að þessir flokkar fara ekki aftur í ríkisstjórn.



[00:05]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur hæstv. ríkisstjórn tekist að fara í stríð. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og forustumenn hennar, hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, séu búnir að fara í stríð við flesta ef ekki alla aðila í þjóðfélaginu, ég held að það sé ekkert eftir. Þetta hefur gengið svo langt. Þau hafa haft þann háttinn á að senda alla gagnrýni til föðurhúsanna og telja hana ómaklega og þau noti þannig orð í opinberri umræðu að ég hugsa að það væri í það minnsta freistandi fyrir virðulegan forseta að gera við það athugasemdir ef maður vitnaði beint í þau orð. Ég veit til dæmis ekki hvað virðulegi forseti mundi segja ef ég mundi segja að hv. þingmenn væru að ljúga. Það getur vel verið að forseti mundi telja það óeðlilegt — og réttilega er það svo — og að ekki væri við hæfi að segja það hér í ræðustól þingsins. Ég ætla því ekki að hafa það eftir sem hæstv. ráðherra sagði við forseta ASÍ í dag.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi tekið eftir fésbókarfærslu sem komin er í fjölmiðla frá fyrrverandi ráðherra Árna Páli Árnasyni þar sem hann fullyrðir að stjórnvöld hafi ekki að neinu leyti fylgt eftir efnahagsáætlun sem hann hafi haft í sinni tíð sem ráðherra og unnið að með það að markmiði að ná sátt milli allra aðila um grunnmarkmið efnahagsmála. Þeirri áætlun hafi verið kastað fyrir róða og nú sé alls engin formleg stefna um efnahagsáætlun landsins. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni hvað þetta varðar?



[00:07]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er búin að sjá þetta nýjasta útspil hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ég fór einmitt yfir það í andsvari nú í kvöld að stuðningsmönnum þessarar tillögu fækkar mjög mikið eftir því sem líður á umræðuna. Það sýnir að ekki er um nokkurt málþóf að ræða — það er nýjasta tískuyrði ríkisstjórnarinnar, hún sakar stjórnarandstöðuna sífellt um málþóf ef við lútum ekki í gras og samþykkjum alla pappíra sem koma frá henni. Ég hef því verið að velta því fyrir mér í kvöld hvort það sé ekki bara tímaeyðsla að vera að ræða þetta og brjóta málið til mergjar, eins og við höfum verið að fara yfir. Kannski er jafnvel ekki stuðningur við þessa þingsályktunartillögu og þetta er því stór spurning.

Sem betur fer eru margir að horfa á þessa útsendingu og mér var að berast SMS. Í kjölfar ræðunnar sem ég hélt áðan, þegar ég talaði um að ASÍ hefði sagt ríkisstjórninni upp, fékk ég svohljóðandi skilaboð í símann, með leyfi forseta:

„Hermann Jónasson sagði af sér 1958 vegna þess að ríkisstjórn hans fékk ASÍ upp á móti sér.“

Þessu, virðulegi forseti, vissi ég ekki af fyrr en rétt áðan, þannig að við skulum nú sjá á hvaða hættubraut þessir aðilar eru komnir. Þetta er ákall um að ríkisstjórnin skipti um takt og fari að hlusta á þá sem hún er að vinna fyrir, fólkið í landinu. Rúmlega 100 þús. manna hreyfing er búin að gefast upp á ríkisstjórninni, eins og kemur fram í yfirlýsingu og orðum forseta ASÍ. Þeir ætla ekki að ræða aftur við ríkisstjórnina, þeir ætla ekki að reyna í fimmta sinn að semja við hana. Kjarasamningar eru lausir stuttu eftir áramótin. Hvað verður? Það er verið að setja allt í uppnám.



[00:10]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í sögulegu samhengi eru þetta mikil tíðindi. Nú er það þannig að forseta ASÍ hefur verið legið það á hálsi allt kjörtímabilið að hafa verið of leiðitamur við ríkisstjórnina sem er fyrsta hreina og tæra vinstri stjórnin á Íslandi. Ætli það sé ekki eini kosturinn við þessa ríkisstjórn að mjög litlar líkur eru á því að þetta gerist aftur. Ágætur sjálfstæðismaður, hv. þm. Árni Johnsen, sagði að það væri mjög gott að fá vinstri stjórn einu sinni á ævinni. Það yrði þá bara til þess að við gætum munað hvernig vinstri stjórnir væru. Þegar langur tími líður hefur fólk sem betur fer tilhneigingu til að gleyma því sem er óþægilegt og þannig er það með vinstri stjórnir. Eftir 20 ár man fólk kannski ekki í smáatriðum hvernig þetta var. En það er Íslendingum svo sannarlega í fersku minni núna hvernig vinstri stjórnir eru enda er þessi ríkisstjórn búin að valda slíkum skaða að mjög erfitt verður að vinna úr honum. Búið er að taka þau verkefni sem þessi ríkisstjórn tók við, búið að fresta þeim og stækka þau og búið að koma í veg fyrir að tækifæri hafi verið nýtt sem svo sannarlega hefðu nýst landi og þjóð.

Þetta er rétt hjá hv. þingmanni, ég tek undir það, að það eru stórmerk tíðindi þegar ASÍ gefst upp á hreinni vinstri stjórn. Þetta er ekki vinstri stjórn með miðflokki, þ.e. Framsóknarflokknum, eins og þær hafa alla jafna verið, þetta er vinstri stjórn sem er hrein alþýðubandalagsstjórn. Báðir Alþýðubandalagsflokkarnir eru við stjórn og ASÍ er búið að gefast upp á þeim. Það eru stórpólitísk tíðindi.



[00:12]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn heyrði það í andsvari mínu hér áðan að ekki er nóg með að ASÍ hafi verið mjög hallt undir ríkisstjórnina. Það hefur kannski goldið fyrir það í störfum sínum að forseti ASÍ sóttist eftir áhrifastöðum innan Samfylkingarinnar, við skulum halda því til haga. Jafnframt er yfirlögfræðingur ASÍ varaþingmaður Samfylkingarinnar, hann sat hér á þingi í eina sex mánuði nú fyrir skömmu. Höfuðstöðvarnar sjálfar hafa verið mjög tengdar Samfylkingunni. Það á ekki við um alla þá aðila sem greiða félagsgjöld í félög innan ASÍ og þess vegna er ég að tala um verkalýðinn sjálfan á Íslandi, við erum að tala hér um hinar vinnandi stéttir, vinnandi hendur, þær eru með þessari yfirlýsingu búnar að gefast upp á ríkisstjórninni.

Ég get hins vegar ekki verið sammála þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að það sé ágætt að fá vinstri stjórnir af og til. (ÁJ: Nei, það er ekki hægt.) Nei, það er ekki hægt, hv. þm. Árni Johnsen. Eins og kom fram í máli þingmannsins hefur þessi ríkisstjórn valdið íslensku þjóðarbúi svo miklu tjóni að rætt hefur verið um að skaðinn sé jafnvel meiri af ríkisstjórninni fyrir íslenskt þjóðarbú en sjálft bankahrunið, og þá er nú mikið sagt. Ég tel að ekki eigi að þurfa að leggja það á sjálfstæða þjóð að fá svona hörmungarríkisstjórnir yfir sig, það má alveg líkja þessari ríkisstjórn við faraldur. Þetta er einhvers konar faraldur sem við lentum óvart í vegna þess að þessir flokkar voru með froðusnakk og froðuloforð fyrir kosningarnar sem þeir hafa svo ekki staðið við í neinu einasta tilfelli. ESB-flokkurinn, Vinstri grænir, ætlaði aldrei að ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) þeir voru varla komnir hingað inn í þinghúsið þegar þeir voru búnir að svíkja það loforð.



[00:14]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hæstv. ríkisstjórn er að mörgu leyti eins og faraldur, og faraldur er í merkingu Íslendinga slæmt fyrirbrigði. Það er óáran, vandamál, óhamingja, rótleysi og lítill árangur sem fylgir því. Það er barátta við vandamál.

Hæstv. ríkisstjórn á ekki að hafa það hlutverk að vera vandamál. Hún á að vera markviss boðberi framfara og framkvæmda, árangurs og leikgleði. Hvar er það, virðulegi forseti, til hjá hæstv. núverandi ríkisstjórn? Það er erfitt að finna því stað.

Unnið hefur verið að gerð rammaáætlunar um langt árabil. Allan tímann var markmiðið að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá hinum mismunandi sjónarhornum, einkum út frá orkugetu og hagkvæmni viðkomandi kosta, en jafnframt þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélagið, atvinnulíf og byggðaþróun og afleiðingum fyrir náttúrufar og náttúru- og menningarminjar. Hugsunin var með öðrum orðum sú að ákvarðanir um nýtingu virkjunarkosta byggðust á víðtæku mati þar sem tekið væri tillit til fjölbreyttra sjónarmiða með það grundvallarmarkmið í huga að skapa sátt um nýtingu á þessum auðlindum okkar, taka sátt í fangið og sýna fram á það að þó að við hljótum að elska fólkið okkar í landinu mest elskum við einnig landið sjálft og viljum bera virðingu fyrir því og skila því betra en við tökum við því.

Við komumst ekki hjá því að nýta þær auðlindir sem við eigum, það afl sem er í okkar landi. Virkjanirnar fimm á Suðurlandi sem ríkisstjórnin vill setja í biðflokk eru virkjanir sem gæfu 6 þúsund störf á ári, virðulegi forseti. Það er í rauninni mikil guðsgjöf að eiga slíka möguleika, ég tala nú ekki um þegar litlu hærri tala, sjö til átta þúsund Íslendingar hafa flúið landið, flúið til Noregs til að reyna að afla þar lífsviðurværis fyrir sig og sína en eiga ekki kosti á því í sínu eigin landi. Það er mikið alvörumál, virðulegi forseti, og við eigum að hafa manndóm til þess að berjast til þrautar í því að sýna fólkinu okkar ást og virðingu og landinu um leið.

Allt er umbreytanlegt í henni veröld og aldrei er neitt eins frá degi til dags hvernig sem dagurinn dettur af degi. Við hljótum að þurfa að ríma við það í því að skapa atvinnu og frið í landinu til að geta byggt upp samfélag okkar eins og alvörufólk.

Við undirbúning rammaáætlunar var byggt á þeirri hugmynd að áfram yrði haldið í nýtingu orkuauðlinda landsins, en ákvarðanir um nýtingu einstakra svæða tækju ekki bara mið af hagkvæmni og efnahagslegum hagsmunum heldur væri einnig tekið tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og margvíslegra félagslegra þátta. Grunnhugmynd rammaáætlunar var því sú að búa til vinnulag og leiðir — verkferla heitir það á fínu embættismannamáli í dag — til að vinna úr þessu og byggja á faglegum sjónarmiðum sem dregið gætu úr miklum deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum. Með því móti væri líka auðveldara fyrir alla viðkomandi aðila, svo sem orkufyrirtæki, sveitarfélög og önnur yfirvöld, að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir til lengri tíma.

Að virkja á skynsamlegan hátt í landinu þýðir ekkert annað en það að við erum að vinna að varanlegu framlagi og verðmætasköpun fyrir Ísland inn í framtíðina. Virkjun er eitt, hún gefur möguleikana, hún haggast ekki ef hún er rétt hönnuð og tekið er tillit til aðstæðna, en þeir sem nota orkuna, nota virkjanirnar, koma og fara eins og fólk gerir, álver koma og fara. Þau geta verið í 10, 20, 30 ár, en þau koma og fara. Í framtíðinni koma nýir kostir til að fá ugglaust meiri verðmæti úr orkuauðlindinni í vatnsföllum og gufu alveg eins og það hefur þróast á undanförnum áratugum mikil verðmætaaukning í sjávarútvegi og fiskvinnslu með því að stefna inn á dýrustu markaði með dýrasta og verðmætasta hráefni sem hægt að er að bjóða í þeim efnum á jörðinni.

Þannig eiga kostir okkar að liggja, en það er alveg sama hvað gert er, það þarf alltaf að fórna einhverju. En það kemur þá líka annað í staðinn. Og við það verðum við að lifa eins og aðrar þjóðir ef við ætlum að standa af okkur árásina á sjálfstæði Íslands sem á sér stað í dag með kukli Evrópusambandsins inn í íslenskt þjóðfélag, inn í íslenskt samfélag með til dæmis óhugnanlega ósmekklegum gylliboðum og mútukaupum á alls konar styrkjum þar sem þeir í rauninni koma fram við okkur Íslendinga eins og einhverja aumingja, sem verða að þiggja á gangstéttum ölmusur. Þannig erum við Íslendingar ekki og við þurfum að verjast þeirri þróun hjá hinu 27 þjóða Evrópusambandi, sem er þó fyrst og fremst í eigu tveggja þjóða, Þjóðverja og Frakka.

Allt hefur þetta áhrif á það þegar við þurfum að meta hvað við gerum í virkjunarmálum, uppbyggingu þátta í landinu og hvert við stefnum og hvernig við vinnum það. Það er hörmulegt, virðulegi forseti, að margra ára mjög vönduð vinna verkefnisstjórnar og faghópa var sett ofan í skúffu og í salt og síðan sett í tætara, sett í hálfgerða humarhristivél hjá hæstv. ríkisstjórn.



[00:25]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðuna.

Mig langar að ræða sérstaklega áhrif rammaáætlunar og spyrja hv. þingmann út í áhrif hennar á það kjördæmi sem hv. þingmaður starfar fyrir.

Nú er það svo að þær breytingartillögur sem verið er að leggja til í rammaáætlun, þ.e. þær breytingartillögur þar sem verið er að leggja til að víkja frá faglegri nálgun, munu koma niður á Suðurlandi og verst niður á Suðurkjördæmi. Langflest þeirra verkefna sem áttu að fara af stað eru í kjördæmi hv. þingmanns. Nú heyrum við reglulega fréttir, til dæmis úr Skaftárhreppi, af áhyggjum manna af því hversu veikt byggðarlagið er þar og hvernig sú byggð stendur. Við heyrum það víðar að að ákall er um atvinnuuppbyggingu, það er ákall um að stjórnvöld móti regluverk þannig að hægt sé að nýta auðlindir þjóðarinnar til atvinnuuppbyggingar og til tekjumyndunar fyrir ríkissjóð og samfélagið.

Getur hv. þingmaður farið aðeins yfir það — af því að ég veit að hv. þingmaður er í mjög góðum tengslum við kjördæmi sitt og við sitt fólk og fer víða og hittir marga — hvernig hljóðið er í fólki sem hv. þingmaður hefur heyrt í varðandi rammaáætlunina og þær breytingar sem búið er að gera á henni? Hvað brennur á fólki? Hvernig er umræðan og hvernig líta íbúar Suðurkjördæmis, þeir sem hv. þingmaður er í sambandi við, á stöðu þessa máls í þinginu í dag?



[00:27]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólkið í Suðurkjördæmi lítur á meðferð hæstv. ríkisstjórnar á málefnum er varða Suðurkjördæmi, á stóru málunum, sjávarútvegsmálunum og rammaáætlun, ekki bara sem blauta tusku í andlitið heldur kjaftshögg, fastari en jafnvel tíðkast að sjómannasið.

Það er nú svo að hv. þingmenn á virðulegu Alþingi hafa kallað okkur talsmenn fólksins í landinu fábjána, og það er allt í lagi. Fólkið þekkir okkur, það veit hvað við stöndum fyrir með kostum og göllum, en fólkið kann að meta og vinsa úr því hvað er brúklegt í þeim efnum.

Þetta er nú það sem við búum við. Orðbragð á þennan hátt er svona pörupiltalegt, jafnvel þó að konur segi það, en það verður bara að hafa gaman af því. Þetta er eins og þegar hvessir, sérstaklega í Stórhöfða, þá er stundum vont að standa á fótunum en menn hanga þá í grösunum eins og fábjánar.

Virðulegi forseti. Hvað gerir fjölskylda með börn þegar hún á ekki fyrir mat? Hvað gerir hún? Hún gerir allt sem hægt er til þess að afla matar fyrir fólkið sitt, aflar matar fyrir börnin. (Forseti hringir.) Myndin er ekki flóknari en það, virðulegi forseti, í því sambandi. (Forseti hringir.) Það gildir hið sama varðandi nýtingu auðlinda landsins.



[00:29]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, mig langar einmitt að ræða við hv. þm. Árna Johnsen um það. Nú hefur komið fram og hv. þingmaður kom inn á það í máli sínu að með þessu værum við líklega að tapa um fimm til sex þúsund störfum — eða þ.e. þessi fimm til sex þúsund störf hefðu orðið til ef við hefðum fylgt faglegri nálgun verkefnisstjórnarinnar. Og það er staðreynd. Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að svokölluð fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að skapa mikil störf inn í framtíðina og auka hagvöxt. Þar er til dæmis lagt til að auka fé til hönnunarmála, hækka laun listamanna o.s.frv. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þá fjárfestingaráætlun og hvort hann sé sammála þeim stjórnarandstöðuþingmönnum og fleirum sem hafa talað í þessu máli (Forseti hringir.) um að sú fjárfestingaráætlun muni ekki skapa fimm til sex þúsund störf og 270 milljarða á næstu fjórum árum.



[00:31]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einsdæmi í lýðveldissögu Íslands að forustumenn Alþýðusambands Íslands, sem eru fulltrúar um 100 þúsund félagsmanna í Alþýðusambandi Íslands, kveði svo fast að orði sem þeir gera þessa dagana um að í engu sé að treysta loforðum eða fyrirheitum hæstv. ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, í engu að treysta.

Það er alveg sama með fjárfestingaráætlunina, þar eru hugmyndir skrifaðar í skýjasæginn án þess að nokkur geti hönd á fest. Þetta er einhver samkvæmisleikur sem venjulegt fólk á Íslandi skilur ekki. Sex eða sjö þúsund störf skipta öllu máli fyrir íslenskt samfélag (Forseti hringir.) en ekki að hrinda möguleikunum frá sér í þeim efnum.



[00:32]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðu hans. Við erum báðir þingmenn í Suðurkjördæmi og á síðastliðnum þremur árum hefur verkalýðsforustan á Suðurlandi haldið fundi með okkur þingmönnum. Þar hefur umfjöllunarefni fundanna nánast alltaf verið það sama. Send voru út gögn eða glærur þar sem spurt var: Hvenær verður útboð hafið á virkjununum í neðri hluta Þjórsár? Hvenær verður farið af stað í þær framkvæmdir? Hvenær verður farið af stað með stórskipahöfn í Þorlákshöfn og stóriðju og hvenær verður farið í þetta og hitt?

Við hv. þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þm. Árni Johnsen, höfum auðvitað ekki getað svarað því en höfum bent á stjórnarliðana í þingmannahópnum og sagt: Spyrjið þið þau. Það hafa sífellt komið nokkuð glaðhlakkalegar yfirlýsingar frá þeim um að allt sé þetta nú að koma, samanber yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um sjö þúsund störf sem voru orðin tugþúsundir að ég held því að búið var að lofa þeim svo oft, en þau komu aldrei.

Nú sjáum við hvað stefnir í og er ekki að furða að megn óánægja ríki innan Alþýðusambandsins. Nú kemur einfaldlega í ljós að í rammaáætlun, sem meiri hlutinn ætlar að samþykkja óbreytta, verður engin uppbygging í þeim geira, engin. Það er óþarfi að halda slíka fundi með okkur á næstu árum ef svo heldur fram sem horfir í rammaáætlun.

Ég trúi því ekki fyrr en það gerist í þingsalnum að þingmenn Samfylkingarinnar t.d. í Suðurkjördæmi muni styðja þessa þingsályktunartillögu, ég skil það ekki. Og í ljósi einstakra yfirlýsinga, hv. þm. Árna Páls Árnasonar í kvöld (Forseti hringir.) og hv. þm. Kristjáns L. Möllers vænti ég þess að menn nái einhverju saman … (Forseti hringir.) í málinu áður en yfir lýkur.



[00:34]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkalýðsfélögin á Suðurlandi eru einfaldlega samhljóma forustu Alþýðusambands Íslands í mjög kjarnyrtum yfirlýsingum, afstöðu og skoðunum til núverandi hæstv. ríkisstjórnar, sem má í einu orði kallast óbrúkleg.

Það ætti að vera farið að vinna að stórskipahöfn í Þorlákshöfn í dag. Uppgjör á Helguvíkurhöfn og þeim mannvirkjum sem búið er að byggja þar, sem er annað mál, sem er álverksmiðja á því svæði, ætti að vera í fullri vinnslu. Nei, alls staðar eru settir öflugir klossar til að stöðva framgang mála, allt er sett í kæligeymslur. Óttinn er mikill við að taka ákvörðun og líka verkkvíðinn og viljaleysið við að vinna sig út úr vandamálunum í stað þess að skattleggja, skattleggja og skattleggja eins og tíðkast hefur síðustu missirin. Viljinn er enginn, getuleysið er algjört.

Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir, verið er að brenna upp aflið í fólkinu, möguleikana og von fólksins. Og hvaða líf á fólk sem er án vonar?



[00:37]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður minntist á Helguvík og álverið þar er það auðvitað sama marki brennt og það sem spurt hefur verið um á fundunum, stjórnarþingmenn hafa ætíð svarað því til að við séum að bíða rammaáætlunar. Við munum ekki bíða lengur ef rammaáætlunin gengur til atkvæða eins og hún er kynnt af meiri hlutanum, þá þarf ekki að bíða lengur. Þá er búið að stöðva það allt saman.

Varðandi álverið í Helguvík og allt það klamm sem verið hefur í kringum það var það forsenda hagvaxtaraukningar fyrstu þrjú árin af þessu kjörtímabili. Nú á að vera hagvaxtaraukning vegna stóriðjuframkvæmda á norðausturhorninu. En í stuttu svari sem ég fékk varðandi stórskipahöfnina segir að ekkert sé verið að vinna í því máli.

Þá er því hins vegar lofað að styrkja innviðina í Þingeyjarsýslum. Það eru engir fjármunir í fjárlögunum til þess, en það þarf að gera það, það þarf 2,6 milljarða til þess að forsendur hagvaxtarspárinnar muni standa. (Forseti hringir.) Ég spyr: Á hverju á að byggja hagvöxtinn á næstu árum ef það er allt loft, (Forseti hringir.) froða?



[00:38]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sorgleg staðreynd að ekki er tekið á verkefnunum. Það er látið slugsa og hæstv. ríkisstjórn er heillum horfin og hefur verið það lengstan tíma stjórnarsetu sinnar, ekki bara vegna þessa innbyggða dugleysis heldur ekki síður vegna mikilla deilna innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.

Það gengur aldrei þegar róa á til fiskjar að margir séu í brúnni sem ætla að stjórna, hvað þá að margir séu á dekkinu. Út úr því kemur ekkert nema eitthvert pólitískt spjall en enginn afli. Það eru bara beinahrúgur sem koma úr þeim trollum á hverju skipi.



[00:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Tveir virkjunarkostir í Þjórsá eru færðir í biðflokk. Ég hygg að flestir sem hér hafa talað hafi sagt varðandi Urriðafossvirkjun að þar þurfi að fara varlega, að taka þurfi tillit til ýmissa þátta þar og þess háttar, en að það sé óskiljanlegt að hinar tvær skuli ekki vera í nýtingarflokki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þeirrar einföldu spurningar: Hvað telur hann að hafi orðið þess valdandi að ráðherrarnir ákváðu að færa þessa kosti úr nýtingarflokki í biðflokk? Áttu sér stað pólitísk hrossakaup þar? Var verið að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar? Á hverju hékk þessi ákvörðun ráðherranna?

Það er síðan athyglisvert að lesa umsögn Orkustofnunar sem fer yfir stöðuna og segir frá því hvað gerst hefur við breytingar á rammaáætlun og annað. Varað er við því að áherslurnar séu færðar úr vatnsaflinu yfir í jarðhitann eins mikið og gert er, þar sé allt öðruvísi vinnsla. Það þurfi að bora rannsóknarborholur og svo sé svæðið virkjað smám saman. Þar er í raun minni þekking og þarf að afla þekkingar nánast jafnóðum á svæðinu. Það er nýtt. En meginspurningin er þessi: Hvað telur hv. þingmaður að hafi orðið þess valdandi að farið var í þá undarlegu aðgerð?



[00:41]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki óalgengt að menn tali um að æskilegt sé að tala mannamál, fólk skilur það. En það er slæmt þegar ekki er nokkur lifandi leið að skilja þá hugsun sem liggur að baki þeim tillögum, niðurstöðum og þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að fylgja eftir.

Það er skoðun mín að hvort sem það er Holts-, Hvamms- eða Urriðafossvirkjun að þær eigi allar rétt á að fara af stað. Búið er að gera mjög víðtækar rannsóknir af hálfu vísindamanna á öllum þáttum og hæstv. umhverfisráðherra þurfti að brjóta landslög til að tefja verkið hjá Flóahreppi, hjá ákvörðunum réttkjörinna fulltrúa sveitarstjórnar. Með því móti var hægt að tefja og skemma, eyðileggja en ekki stöðva. Menn verða að meta hvað hægt er að ganga langt í því að skemma fyrir framgangi mála, til að mynda hjá litlum sveitarfélögum sem réttkjörin hafa fjallað um verkefnin.

Það er óskiljanlegt hvers vegna sú afstaða er tekin, svo ég svari spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar eins og hægt er. Krafan um rannsóknir er höfuðatriðið í öllum þáttum rammaáætlunar. Krafan um rannsóknir er gríðarlega mikil vörn fyrir þann möguleika að hlutirnir fari úrskeiðis. Hvort sem verkefni er í nýtingarflokki eða ekki er krafan um rannsóknir yfir öllu, hún er vörnin sem við höfum.



[00:44]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar. Verkefnisstjórnin byggði vinnu sína á ákveðnum forsendum, þ.e. hún gaf sér ákveðnar stærðir til þess að vinna með. Þar á meðal var horft til þess hvert vatnasvæði virkjunar væri í tilfelli vatnsaflsvirkjunar.

Í tillögunni kemur fram nýtt hugtak, „buffer zone“, hugsanlega mætti þýða það sem áhrifasvæði. Ég fæ ekki séð að nein tilraun sé gerð til þess að skýra einhverja viðmiðun varðandi þetta áhrifasvæði, þetta svokallaða „buffer zone“. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé (Forseti hringir.) réttlætanlegt að koma fram með slíkt þegar það liggur fyrir hver viðmið verkefnisstjórnar voru.



[00:45]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki réttlætanlegt að koma með svona inngrip vegna þess að það eru órök, útúrsnúningur og flótti frá því að virða og viðurkenna að krafan er sú að byggt sé á úttekt allra viðkomandi þátta. Það hefur verið unnið þannig. Þá þýðir ekkert að koma eftir að sú niðurstaða liggur fyrir og segja að það sé ekkert að marka þá niðurstöðu sem er almennt mjög mikið viðurkennd. Sú vinnan var unnin undir forustu Svanfríðar Jónasdóttur, fyrrverandi alþingismanns, nú bæjarstjóra á Dalvík, Það gengur ekki, það eru hundléleg vinnubrögð sem verður að eyða.



[00:47]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Herra forseti. Þessi umræða og það sem tengist rammaáætluninni tók á sig aðeins breytta mynd í dag þegar Alþýðusamband Íslands sendi frá sér heilsíðuauglýsingu undir yfirskriftinni „Orð skulu standa“. Þar var meðal annars sagt frá því í sambandi við rammaáætlun, málið sem við ræðum, að fyrir hefði legið samkomulag um að hún yrði samþykkt í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar.

Í tengslum við þetta höfum við þingmenn Framsóknarflokksins óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd komi saman til að fara yfir þessa yfirlýsingu og fái á fund til sín fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og fulltrúa atvinnulífsins. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum í dag eftir að þessi auglýsing birtist. Það hefur ekki verið skemmtilegt að fylgjast með því. Það er ekki skemmtilegt að horfa upp á forustumenn ríkisstjórnarinnar í opinberu stríði við fjöldahreyfingu á borð við Alþýðusamband Íslands með yfir 110 þús. félagsmenn.

Gylfi Arnbjörnsson hefur sagt í fjölmiðlum í dag, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista þess að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.“

Gylfi Arnbjörnsson segir síðan við Ríkisútvarpið:

„Umræða um framtíðina, samskipti á vinnumarkaði, hvernig við stillum saman vinnumarkaðinn, efnahagsstefnu, atvinnumálum, uppbyggingu — það verður bara að bíða nýrrar ríkisstjórnar.“

Virðulegi forseti. Til að bregðast við þessari yfirlýsingu og auglýsingu Alþýðusambandsins er fyrst og fremst hægt að segja að ríkisstjórnin hefur ævinlega getað kallað til Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, til að fá einhvers konar gæðastimpil á hvað sem er sem frá henni kemur. En meira að segja forseti ASÍ, sem hefur sagt það opinberlega í dag að hann hafi leitast við og verið gagnrýndur fyrir að starfa fremur með ríkisstjórninni að málum en hitt, er búinn að fá sig fullsaddan á stefnu ríkisstjórnarinnar, ásamt fulltrúaráði Alþýðusambandsins, og á því hvernig loforð eru ítrekað svikin.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem meðal annars var komið inn á rammaáætlun. Í þeirri yfirlýsingu stóð í lið 7, þar sem því var svarað að samið hefði verið um að rammaáætlun yrði afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar, með leyfi forseta:

„Fullyrðingin er röng enda ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.“

Frú forseti. Í umræðunni hefur komið fram að forseti ASÍ hvetji beinlínis stjórnarandstöðuna til að halda hér áfram í þessu máli og öðrum málum til að stöðva ríkisstjórnina. Við sjáum að það er að brotna úr stjórnarliðinu. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í dag að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri efnahagsáætlun sem hann hefði lagt upp með. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Afleiðingin: Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Virðulegi forseti. Maður hlýtur að velta því fyrir sér (Forseti hringir.) þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar svara Alþýðusambandinu hvort þau hafi ráðfært sig í það minnsta við þennan hv. þingmann.



[00:52]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og góða greiningu á því hvað sé að gerast innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég held að það ósamlyndi og sú ósamstaða sem ríkir innan þessara flokka sé að koma þeim í koll. Vissir hópar styðja stjórnarskrárferlið, aðrir ekki. Vissir hópar styðja rammaáætlun, aðrir ekki. Vissir hópar styðja stórkostlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, aðrir ekki. Við höfum hópa sem styðja ESB-umsókn, aðrir gera það ekki. Við sjáum því að það eru miklu frekar þessi mál sem búa til þau öfl sem starfa á Alþingi og innan ríkisstjórnar en nokkurn tíma það að þetta séu tveir heildstæðir flokkar með sameiginlega stefnu.

Vegna þessarar óstjórnar, sem stafar náttúrlega fyrst og fremst af því að það vantar alla forustu hjá ríkisstjórninni, erum við farin að sjá ótrúlega hluti eins og í morgun þegar dagblöðin voru opnuð var auglýsing frá fjöldahreyfingunni ASÍ með um 110 þús. félaga þar sem hreint og beint er talið upp hvað hefur verið svikið. (Forseti hringir.) Hvað segir þingmaðurinn um þessa greiningu?



[00:54]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom hér inn á fjögur mál sem er greinilega gríðarlega mikill ágreiningur um í stjórnarliðinu, þ.e. stjórnarskráin, breytingar á henni, rammaáætlun, Evrópusambandsmálin og fiskveiðistjórnarkerfið. Við sjáum það, m.a. á ummælum hv. þm. Árna Páls Árnasonar núna í kvöld um stríðið sem virðist vera í gangi milli forustumanna ríkisstjórnarinnar og alþýðu landsins, Alþýðusamband Íslands, að það er mikill ágreiningur í öllum stærstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar, bæði innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra. Það kemur glögglega fram.

Það er algjörlega einsdæmi að ráðherrar ríkisstjórnar skuli vera komnir í opinbert hart stríð við Alþýðusamband Íslands eins og við höfum orðið vitni að í fjölmiðlum í dag þar sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var í einhvers konar kappræðum í Kastljósi, í útvarpsþáttum og annars staðar við Alþýðusamband Íslands.

Það var rifjað upp í ræðu hér áðan að oft og tíðum í sögunni, þegar þannig væri komið, hefði það leitt til þess að menn sæju að ekki væri lengur við svo búið og hafa ríkisstjórnir þurft að fara frá vegna þess því að það er mikilvægt að geta átt gott samstarf, þó að menn greini á um einhver atriði, við aðila eins og Alþýðusamband Íslands.

Nú liggur algjörlega fyrir að öll mál sem snúa að vinnumarkaðnum og fleiri þáttum eru í uppnámi. Hvað gerir ríkisstjórnin til þess að bregðast við því? Tala menn saman um það? Nei, þeir fara í opinbert orðastríð. (Forseti hringir.) Það sjá allir hvernig þetta mun enda, þetta getur ekki endað öðruvísi en svo að þessi ríkisstjórn fari frá og þá verður auðvitað að breyta hér um vinnulag.



[00:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé hárrétt hjá hv. þingmanni. Það sem við verðum vitni að núna er að það er að losna um límið í þjóðfélaginu. Sundrungin sem stafar af ríkisstjórninni er orðin svo mikil að máttarstólpar samfélagsins, sem eru ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins, eru hættir að ræðast við. Þetta eru nákvæmlega eins og hv. þingmaður lýsir því, nokkurs konar kappleikar. Þetta er orðið eins og hringleikahús þar sem dýrum er kastað í hringinn og svo berjast þau hvert við annað, eins og við urðum vitni að í fjölmiðlum í kvöld og var náttúrlega til algjörrar skammar.



[00:58]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt orðað hjá hv. þingmanni að þetta sé til algjörrar skammar. Það er mikið áhyggjuefni ef við horfum til þess hvernig mál hafa þróast. Það verður ekkert auðvelt að vinda ofan af þessu. Það verður ekkert auðvelt að ná að sameina þjóðina á nýjan leik eftir þann ágreining sem verið hefur um öll mál. Til þess þarf verulegar breytingar og breytt hugarfar og til þess þarf forustumenn í stjórnmálum, sem eru þá forustumenn ríkisstjórnar hverju sinni, sem eru tilbúnir að ná breiðari sátt og málamiðlun í stærri málum.

Við horfum upp á hvert stórmálið á fætur öðru sem ríkisstjórnin keyrir hér í gegn án þess að um það ríki samstaða innan ríkisstjórnarflokkanna eða milli ríkisstjórnarflokkanna. Þá auðvitað gerist það sem við urðum vitni að hér í dag, þ.e. stríði aðila vinnumarkaðar og Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Þetta mun aldrei leiða neitt gott af sér. Við missum sjónar á mikilvægasta atriðinu sem er að horfa til framtíðar og nýta þau sóknarfæri sem okkur gefast.



[01:00]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga ræðu og gott innlegg í umræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi það sem hann vék að og lýtur að sviknum loforðum hæstv. ríkisstjórnar með ótrúlegri aðkomu Alþýðusambands Íslands þessa dagana.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort til að mynda svikamyllan í kringum stöðugleikasáttmálann, sem átti að vera burðarás í því að rétta skútuna af í ólgusjó, sé kannski ekki fyrsta skrefið í þeirri alvarlegu upplausn og þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur milli ríkisstjórnarinnar og fólksins í landinu og um leið verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann um þær yfirlýsingar frá forustumönnum samtaka, sem yfir 100 þús. Íslendinga eru í í dag, um að samningarnir, sem áttu hægt og sígandi að verða kjölfesta og jafnvægi til árangurs í samfélaginu, hafi verið sviknir og rifnir upp með rótum og hent út í veður og vind, svo maður dragi nú saman þær lýsingar á hæverskan hátt sem forseti Alþýðusambandsins hefur viðhaft. Það vil ég spyrja hv. þingmann um.



[01:02]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við sjáum það í auglýsingu Alþýðusambands Íslands, sem er í mörgum liðum, að í það minnsta sambandið, stjórn þess og fulltrúar þessarar stóru hreyfingar yfir 110 þús. Íslendinga telja einmitt að loforðin hafi verið svikin af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við erum vitni að opinberu stríði milli Alþýðusambands Íslands og ríkisstjórnarinnar. Hvernig sjá menn fyrir sér að mögulegt sé að ná einhverri samstöðu á milli þessara aðila á nýjan leik? Er von til þess að hægt verði að ná samkomulagi á milli Alþýðusambands Íslands, aðila vinnumarkaðarins og sitjandi ríkisstjórnar eftir það sem á undan er gengið?

Það er gríðarlega mikilvægt að það náist með einhverjum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt að við missum ekki tökin á stóru málunum. Yfirlýsing Alþýðusambands Íslands er eitt atriði, en viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar við þessari yfirlýsingu í dag eru annað og grafalvarlegt mál. Það er grafalvarlegt mál þegar kemur að kjarasamningum á vordögum að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem eru með áratugareynslu í stjórnmálum, skuli bregðast þannig við þessum yfirlýsingum að þeir fara í opinbert yfirlýsingastríð og fjölmiðlastríð við þessa 110 þús. manna hreyfingu, (Forseti hringir.) Alþýðusambands Íslands, í staðinn fyrir að gera það sem forustumenn og forustuöfl í stjórnmálum eiga að gera, þ.e. að leitast við að ná breiðri sátt um hlutina.



[01:04]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óvissan er alltaf verst. Það er hún sem veldur hugarangri og þjáningu venjulegs fólks. Það er betra að vita að hverju menn ganga ef það er klárt og kvitt þó að það þýði erfiðleika.

Í dag elur hæstv. ríkisstjórn eingöngu á óvissu. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þá óvissu í framhaldi af því að hæstv. ríkisstjórn hefur látið danka allt sem skiptir máli, meira og minna. Verkkvíðinn er slíkur að sópað er undir teppið í stað þess að dusta vel og taka til hendinni.

Það er nú svo að sáttamöguleikinn er farinn út í veður og vind að mínu mati, af því að þingmaðurinn spurði um það, stýrið er farið, skrúfan er löskuð, (Forseti hringir.) vélin höktir á stjórnlausu skipi.



[01:05]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé rétt mælt hjá hv. þingmanni að óvissan er verst. Þegar óvissa skapast er hætta á því að við missum stjórn á ástandinu. Það er því miður að gerast með yfirlýsingum Alþýðusambands Íslands, viðbrögðum forustumanna ríkisstjórnarinnar, þar er ýtt undir óvissu og ólgu. Í staðinn fyrir að reyna að leita breiðrar samstöðu og sáttar í málum er brugðist við með hinu gagnstæða. Brugðist er við með því að setja hnefann á loft, með því að fara beint í stríð við þessa fjöldahreyfingu.

Ég segi aftur: Hvernig sjá menn það fyrir sér eftir það sem á undan er gengið í dag (Forseti hringir.) að mögulegt verði að byggja upp einhverja samstöðu á þeim grunni sem forustumenn ríkisstjórnarinnar eru búnir að reisa?



[01:07]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alltaf fróðlegt að hlusta á hv. þingmann, hann hefur nú betri innsýn inn í hugarheim vinstri flokkanna og vinstri sinnaðri Alþýðubandalagsflokkinn en flest okkar. (Gripið fram í.) Hann hafði þar skamma viðdvöl og kannaði það mál. Við getum nýtt þann reynslubrunn vel því að það er mjög erfitt að skilja hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega þann hæstv. ráðherra sem mikið hefur verið ræddur hér. Sá ráðherra hefur með — ég ætla ekki að segja lagni en með ákveðnum aðferðum tekist að fara í stríð við eiginlega alla aðila í íslensku samfélagi. Ég held að það hljóti að vera Íslandsmet, ég held að engum hafi tekist það áður að hreinsa rúmlega 1/3 úr þingflokknum sínum á einu kjörtímabili. Það er met sem seint verður slegið, en það hefur hæstv. ráðherra og forustumanni Vinstri grænna tekist að gera.

Ég velti því fyrir mér þegar ég hugsa um það sem átt hefur sér stað hér: Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um það hvernig Vinstri grænir sjá fyrir sér atvinnumál? Hafa Vinstri grænir beitt sér fyrir einhverjum atvinnumálum öðrum en bara IPA-styrkjunum? Ég man ekki eftir neinu öðru, það er held ég … (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað hv. þingmaður kallaði. (Gripið fram í: Listamannalaunin.) Hv. þingmaður kallar: Listamannalaunin. Jú, jú, það er komið tvennt, við erum með IPA-styrkina og listamannalaunin, en það þarf nú eitthvað annað til þess að knýja hlutina áfram. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi einhverja hugmynd um það af því að ég veit ekki um neinn annan til að spyrja: Hvernig sjá Vinstri grænir fyrir sér atvinnumálin? Hvernig á að knýja efnahagslífið áfram í hugarheimi þessa ágæta fólks?



[01:09]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða mínum tveimur mínútum í að fjalla um hugarheim einhverra ákveðinna stjórnmálamanna. Ég held raunar að það ástand sem nú er uppi snúist ekki endilega um vinstri eða hægri. Ég held að það snúist frekar um hvernig við nálgumst viðfangsefnið. Ég held að það snúist ekki um grunngildin í stjórnmálunum. Það snýst um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið á erfiðum tímum eins og nú eru. Nálgumst við það með það að leiðarljósi að ná um það breiðri sátt eða samstöðu eða nálgumst við það hvert og eitt með það að markmiði að gefa ekki neitt eftir og ætlum bara að ná okkar ýtrustu kröfum í gegn?

Þegar kemur að atvinnumálum hef ég kallað eftir því, m.a. í þessari umræðu, að menn fjalli um með hvaða hætti ráðast eigi í atvinnuuppbyggingu hér og hvað eigi þá að koma í staðinn fyrir þessi fimm til sex þúsund störf sem ekki munu skapast. Það er gott og gilt sjónarmið. Ég hef til að mynda verið talsmaður þess að við eflum og styrkjum og ýtum undir ferðaþjónustu. Maður sér það ekki í tillögum ríkisstjórnarinnar að mikið sé hugað að uppbyggingu í ferðaþjónustu þegar ríkisstjórnin ætlar að leggja það til að skattar á gistinætur á Íslandi verði með því hæsta sem þekkist í heiminum. Ekki er það stóriðjuatvinnugrein, ferðaþjónustan er nú mjög græn atvinnugrein. Ég fór inn á það í ræðu minni, meðal annars í tengslum við skattabandorm ríkisstjórnarinnar þar sem leggja á til þessa skattlagningu, að samkvæmt samanburði á skattumgjörð um atvinnuuppbyggingu og fjárfestingum í atvinnulífi sem gerður er á milli 144 þjóðríkja hrapar Ísland hratt niður listann. Það er komið nú niður í 119. sæti (Forseti hringir.) af 144 á þessum lista. Það hefur hrapað úr 20. sæti, þar sem það var árið 2009, og hrapaði mest milli áranna 2011 og 2012.



[01:11]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað má færa full rök fyrir því og ég skil vel að hv. þingmaður sjái sér ekki fært að svara þessari spurningu. Það verður að fara varlega í að tala kæruleysislega um jafnalvarlegt mál. Málið snýst ekki um endilega póla í stjórnmálum, það snýst hins vegar um hvort menn séu í tengslum við raunveruleikann. Það liggur alveg fyrir að við þurfum að auka verðmæti í þjóðfélaginu, við þurfum að auka fjárfestingu ef við ætlum að vinna okkur út úr því ástandi sem hér er. Þannig er það.

Ef menn reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir fjárfestingu á þessu sviði, m.a. með því eyðileggja hið faglega ferli, hljótum við að spyrja: Hvað annað á að gera, virðulegi forseti? Hvar við viljum við sjá verðmætasköpun? Ef menn segja: Heyrðu, við ætlum að taka A og við ætlum að skófla þessu út með öllum tiltækum ráðum, þá hljótum við að spyrja: Hvað er B? (Forseti hringir.) Og ef hv. þingmaður veit ekki frekar en við hér hvaðan það kemur frá þessari ríkisstjórn þá skil ég það vel, virðulegi forseti.



[01:13]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að kalla eftir þessum sjónarmiðum í umræðunni að í ljósi þess að þær breytingar sem gerðar eru gera það að verkum að þau störf verða ekki til sem þær framkvæmdir mundu annars skila. Þá þurfum við auðvitað að ræða hvað á þá að gera.

Ég kom inn á ferðaþjónustuna áðan. Það virðist ekki vera mikill skilningur á því að skapa umgjörð svo sú atvinnugrein geti í það minnsta blómstrað og dafnað áfram og það sjáum við líka í mörgum öðrum atvinnugreinum. Almenna umgjörðin fyrir atvinnulífið hefur versnað og erfiðara er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að spretta upp hér í samanburði við það hvernig það er í öðrum löndum. Það hefur gerst mjög hratt á undanförnum árum. Þegar Ísland er komið ofan í 119. sæti í samanburði á umgjörð fyrirtækja, skattumgjörð og öðru, og komið niður fyrir lönd á borð við Mósambík og Haítí og fleiri lönd, af 144 löndum, er ástæða til að hafa áhyggjur, (Forseti hringir.) því að í öllum öðrum samanburði er varðar menntun, heilbrigðiskerfi, tækniþekkingu og annað er Ísland í efstu 15–20 sætunum.



[01:14]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í tengslum við þetta mál hafa verið töluvert ræddar, sem er ósköp eðlilegt, þær yfirlýsingar og auglýsingar sem voru í dag frá Alþýðusambandi Íslands og merkilegt að stór fundur hjá ASÍ með formönnum aðildarfélaga — það var einhver slíkur fundur að ég held — hafi ákveðið að hætta að tala við ríkisstjórnina, þreyja þorrann eins og sagt er. Það eru vitanlega stórtíðindi. Það eru stórtíðindi þegar slíkt gerist. Ástæðan er óskemmtileg, vanefndir að þeirra sögn.

Ég ætla ekki í þetta skipti að fara nánar út í það en þetta tengist þó því að Alþýðusambandið taldi sig hafa ákveðin vilyrði fyrir því að rammaáætlunin mundi flýta fyrir framkvæmdum sem mundu fjölga störfum og skila tekjum í þjóðarbúið. En vegna þeirra breytinga sem gerðar voru virðast menn á því að það muni ekki ganga eftir.

Í áliti Orkustofnunar sem var sent til umhverfis- og samgöngunefndar vegna þessa máls kemur fram, með leyfi forseta — ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr álitinu, Orkustofnun er aðili að verndar- og nýtingaráætluninni þar sem þeir tóku þátt í þeirri vinnu, þ.e. fulltrúi stofnunarinnar eða orkumálastjóri, sem er náttúrlega yfirmaður þarna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Orkustofnun er því aðili máls og sér þess vegna ekki ástæðu til að tjá sig um meginefnisþætti framangreindrar þingsályktunartillögu, sem Orkustofnun hefur kynnt sér, að öðru leyti en því að tillagan víkur frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar og upphaflegri þingsályktunartillögu, sem fór til umsagnar. Á þetta einkum við um flutning á þremur virkjunarkostum í vatnsafli á Suðurlandi, það er nr. 31 Urriðafossvirkjun, nr. 29 Hvammsvirkjun og nr. 30 Holtavirkjun, öllum í Þjórsá. Tillagan gerir þannig ráð fyrir að hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostir verði fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þá eru virkjunarkostir í háhita, nr. 91 og nr. 104 Hágönguvirkjun, 1. og 2. áfangi, sem og virkjunarkostur í vatnsafli nr. 26 Skrokkölduvirkjun, einnig fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.“

Orkustofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á með nokkrum faglegum eða réttmætum hætti að þessi breyting sé réttmæt.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnarinnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmuni fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og orkunýtingu eins og sú tillaga gerir ráð fyrir. Þannig yrði lagður grunnur að stöðugu umhverfi fyrir atvinnuuppbyggingu á sviði orkuiðnaðar, ferðamála og annarrar landnýtingar.“

Það verður að segjast eins og er að það er allsérstakt að opinber stofnun, opinbert fyrirtæki, skuli vera svona harðorð í rauninni gagnvart þeirri vinnu sem fór hér fram eftir að það sem þeir kalla faglega vinnu hafi verið lokið. Því hljótum við að horfa til þessa og undirstrika það í umræðum okkar að það eru ekki bara einhverjir sérvitrir þingmenn sem hafa af þessu áhyggjur og telja að ekki hafi verið unnið rétt með þessum breytingum heldur eru það líka fagaðilarnir sem koma að málinu. Og í þessu tilfelli ríkisstofnunin Orkustofnun sem gagnrýnir þetta, ég vil leyfa mér að segja mjög harkalega. Ég mun síðar í kvöld eða á morgun fara yfir fleira en álit Orkustofnunar og mun koma inn á önnur álit síðar.

Sammerkt er með mörgum þeirra, auðvitað ekki öllum, það er mjög stór bunki af álitum sem fylgir þessu, hálfgerð fjöldaframleiðsla, en sammerkt með þeim sérfræðistofnunum, sérfræðifyrirtækjum, ef má orða það svo, hvort sem það voru rannsóknarfyrirtæki eða orkufyrirtækin sjálf, er að mjög var varað (Forseti hringir.) við þeirri vegferð sem farið var í af hendi stjórnarflokkanna.



[01:20]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur rætt bæði í ræðu sinni áðan og í öðrum ræðum þá stöðu sem upp er komin, sem hefur verið vond en versnar bara. Í stuttu máli sagt var farið í faglegt ferli sem hafði langan aðdraganda og má færa fyrir því rök að farið var í þá vegferð árið 1993 og menn hafa unnið að því samfleytt síðan að byggja upp plagg þar sem unnið var með bestu mögulegar upplýsingar, bestu mögulegu greiningu sem gæti verið grunnur að málefnalegri umræðu um hvað ætti að og nýta og hvað ekki. Við sjáum síðan að hæstv. ríkisstjórn hefur farið í gamaldags, pólitískar aðferðir og er í rauninni búin að kippa grundvellinum undan þeirri faglegu vinnu. Í ofanálag — og það tengist náttúrlega beint — hefur komið í ljós, nokkuð sem menn áttu ekki von á vegna þess að næg eru tilefnin, en núna hefur það gerst hjá þessari tæru vinstri stjórn að Alþýðusamband Íslands sem hefur verið talið — ja, ef eitthvað er, sérstaklega áður, vilhallt vinstri flokkunum — við erum að horfa núna á þá stöðu að verkalýðshreyfingin eins og hún leggur sig hefur sagt: Við getum ekki talað við þessa hreinu, tæru vinstri stjórn lengur.

Við sitjum hérna núna eða sitjum ekki, við stöndum og sitjum klukkan hálftvö í miðjum desember, stutt er til þingloka eða stutt er til jóla getum við sagt, virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er í daglegum samskiptum við stjórnarliða sem þingflokksformaður: Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að vinna úr þessari stöðu? Það er ákall frá Alþýðusambandi Íslands að við þingmenn grípum í taumana, stoppum þá stöðu sem er uppi núna. Hvernig telur hv. þingmaður að við getum unnið úr þessu? Er möguleiki á því að finna einhver þau öfl (Forseti hringir.) innan stjórnarflokkanna sem geta unnið að farsælli lausn þessa máls?



[01:22]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað vonar maður að til séu öfl eða aðilar innan stjórnarflokkanna sem eru þess megnugir að grípa í taumana og breyta um kúrs. Ég held hins vegar að þegar menn setjast niður og meta stöðuna geti það kostað þá ríkisstjórnarsamstarf, þar af leiðandi held ég, því miður, að það verði ekki. En við skulum lifa í voninni. Við höfum farið fram á að boðaður verði sameiginlegur fundur í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd til að taka á móti aðilum vinnumarkaðarins og fara yfir þá stöðu, hlýða á þá. Kannski opnast þar einhverjar dyr sem gera það að verkum að menn vilja skoða þetta eða endurskilgreina eða hvað á eiginlega að kalla þetta allt saman, breyta þessu, orðum það bara þannig. En því miður held ég að þegar á hólminn er komið verði það ekki.

Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að reyna áfram að fá einhverju framgengt með það, í það minnsta að fundur verði haldinn og að hann verði helst opinn fjölmiðlum þannig að menn geti fylgst með þeirri umræðu. Þetta á ekki að vera neitt pukur. Það hefur verið pukur um þetta mál nógu lengi milli stjórnarflokkanna þannig að nú þarf að reka þetta allt á yfirborðinu eins og átti að vera.

Hv. þingmaður talaði um hreina og tæra vinstri stjórn. Sjálfur nota ég þau orð allt of oft, þetta er hins vegar bara vinstri stjórn. En það verður að segjast eins og er að það er fátt hreint og tært í kringum hana, að minnsta kosti eru vinnubrögðin þau að vinna allt einhvern veginn undir yfirborðinu sem ber ekki vott um mikinn tærleika. Ég verð því að segja að ég held að við þingmenn verðum að fara að taka okkur önnur orð í munn.

Hv. þingmaður spurði: Hvað er til ráða? Ég held að ekkert annað sé til ráða en að reyna að halda áfram að vekja athygli á hversu vitlaust þetta mál er, vekja athygli á því að nauðsynlegt sé að hlusta á þá sem hafa gagnrýnt það og vekja athygli á því að (Forseti hringir.) það eru einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum sem við vitum að eru annarrar skoðunar.



[01:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú rétt að ég biðjist velvirðingar á orðum mínum áðan, það var auðvitað ekki við hæfi að kalla þetta hreina, tæra vinstri stjórn, það er mikið grugg í þeirri stjórn og allt annað en hreint og tært í kringum hana, því miður, og þetta mál er gott dæmi um það. Hv. þingmaður talaði um að þetta væri undir yfirborðinu og það er í gruggugu vatni sem menn vinna. Því miður er þetta mál enn eitt dæmið um hrossakaup ríkisstjórnarinnar, en það er bara ansi dýrt fyrir þjóðina.

Hv. stjórnarþingmaður Kristján Möller talaði um að þessi rammaáætlun hefði einfaldlega mistekist. Hér kom hv. stjórnarþingmaður Árni Páll Árnason með mjög ákveðna yfirlýsingu á opinberum vettvangi í kvöld í kjölfar framgöngu hæstv. atvinnuvegaráðherra í fjölmiðlum sem var slík að ég man ekki eftir að hafa séð annað eins. Ég man ekki eftir að ég hafi heyrt hæstv. ráðherra segja það um forseta ASÍ að hann kunni ekki mannasiði og að hann sé að ljúga. Ekki einu sinni heldur oft. Ég man það vel. Mig brestur kannski minni, kannski hefur þetta gerst áður en ég man ekki eftir svona orðfæri. Og það er eitthvað allt annað en sú málefnalega umræða sem ég held að almenningur sé að kalla eftir. Það sem er kannski það versta við málið er ekki það að menn séu ósammála um hvort eigi að virkja eða ekki heldur að búið er að eyðileggja vinnuna, það er búið að gera það, því að um leið og rammaáætlun er orðin rammaáætlun einhverra stjórnmálaafla og henni sé hent út eða hrært í henni eftir því hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd þá erum við búin að eyðileggja það sem unnið hefur verið að í 20 ár.



[01:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum talað nokkuð um það í kvöld og farið yfir það sem við teljum vera vankanta á málinu. Eitt er það klárlega að allur sá mikli tími sem farið hefur í gerð rammaáætlunar hefur reynst — ég ætla ekki að segja að hann hafi farið til einskis, alls ekki, en ljóst er að ákveðið var að taka hæfilega mikið mark á því sem þaðan kom.

Það er nú þannig, virðulegi forseti, úr því að hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu gæði verkefnisins, að mikilvægt er fyrir okkur að hafa það í huga, þó svo að ég efist ekki um að allir hafi reynt að gera sitt besta í þeirri vinnu, að ýmislegt varðandi vinnuna sjálfa hefur líka verið gagnrýnt, og mun ég síðar fara aðeins nánar yfir það. Ég bendi til dæmis á að í umsögn Suðurorku er vitnað í fundargerðir faghópa og farið er yfir það að forsendur og mælikvarðar voru jafnvel ekki til staðar eða voru afar veikir þannig að hægt væri að fá faglega niðurstöðu.

Svo er það einnig gagnrýnt að þegar menn fóru í að raða þessum flokkum í röð var það gert með einhvers konar kosningu. Við hljótum líka að velta fyrir okkur hvort það geti verið faglegt þegar tilfinningarnar og hugurinn er farinn að ráða för kannski. Svo vitum við líka að menn þurftu að tala sín á milli, tala um fyrir hver öðrum, jafnvel hvar ætti að setja ákveðna kosti, í hvaða röð og hvernig og allt það.

Þessi vinna er að sjálfsögðu alls ekki hafin yfir gagnrýni og því miður held ég að niðurstaðan sé sú (Forseti hringir.) að það þurfi að gera þetta öðruvísi næst þegar farið verður í þetta verkefni.



[01:29]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í nefndaráliti frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, nánar tiltekið á bls. 50, er frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun frá Sjálfstæðisflokknum. Í greinargerðinni þar er ansi gott sögulegt yfirlit um alla vinnuna sem unnin hefur verið. Af því að menn hafa verið að nefna ýmis ártöl segir hér, með leyfi forseta:

„Áður hafði þó mikil vinna farið fram og má rekja hana allt aftur til ársins 1993 þegar umhverfisráðherra skipaði starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál sem var meðal annars falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta. Hópurinn lagði til að unnin yrði rammaáætlun um nýtingu vatnsafls.“

Þetta var árið 1993. Ég man eftir mörgum umræðum þar sem menn hafa kallað eftir rammaáætlun og lagt áherslu á mikilvægi þess að flýta gerð rammaáætlunar þar sem faglega yrði unnið að því að flokka virkjunarkosti svo ekki þyrfti að karpa lengur um virkjunarkosti út frá óljósum tilfinningum eða út frá því sem fólki fyndist. Allir voru sammála um það. Ég hef aldrei heyrt stjórnmálamann eða nokkurn mann segja: Heyrðu, nei, það er ekkert vit í þessu. Við skulum ekki vinna þetta með þessum hætti. Við skulum ekki vinna þetta faglega.

Fyrirhuguð rammaáætlun var á þeim tíma ekki einu sinni gagnrýnd út af kostnaðinum sem henni mundi fylgja, menn vissu að þetta yrði dýrt, að þetta gæti kostað milljarða. En það var ekki gagnrýnt vegna þess að allir, fullyrði ég, sem að þessum málum komu sáu skynsemina í því að vinna faglega rammaáætlun. Slík rammaáætlun þýðir ekki að allir þurfi að vera sáttir við niðurstöðuna. Það þýðir ekki og átti aldrei að þýða að til yrði plagg þar sem stæði: Fyrst skal fara í þessa virkjun, svo í þessa o.s.frv. Þetta snýst um að flokka kostina. Vinstri grænir geta síðan áfram haft þá skoðun að ekki eigi að virkja neitt. Rammaáætlun átti aldrei að verða einhver skuldbinding um að sá flokkur ætti til dæmis að taka upp þá stefnu að virkja þá kosti sem lentu í nýtingarflokki. Hún snerist bara um að taka bestu upplýsingarnar, vinna úr þeim gögnum sem væru til staðar — og ef gögn vantaði þá að rannsaka — þannig að hefðum grunn undir umræður um umhverfisvæna orkuöflun á Íslandi.

Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að til væru stjórnmálaöfl sem væru á móti þessu. Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að til væru stjórnmálaöfl sem beittu brögðum á lokametrunum til að skaða alla þessa vinnu. Innan þeirra stjórnmálaafla eru þó stjórnmálamenn eins og hv. þm. Kristján Möller sem hefur stigið fram og sagt eins og er að búið sé að eyðileggja þessa vinnu. Það er niðurstaðan. Eins og ég sagði, hef sagt og ætla að halda áfram að segja — og ég held að það skipti máli að allir séu meðvitaðir um það hvað hefur gerst: Mesti skaðinn er ekki sá að í íslenskum stjórnmálum séu menn ósammála um hversu mikið eigi að virkja. Það er ekki stóri skaðinn. Þannig er það, þannig var það, þannig verður það.

Mesti skaðinn er sá að það sem sátt hefur ríkt um í áratugi, það sem búið er að fjárfesta í svo milljörðum skiptir, sé eyðilagt eða skemmt verulega. Það er ömurlegt til þess að hugsa að nú er búið að skapa það fordæmi að stjórnmálamenn geti farið að krukka í þessi plögg. Fordæmið er komið. Hrossakauparíkisstjórn Alþýðubandalagsflokkanna skapaði það fordæmi. Það eiga báðir Alþýðubandalagsflokkarnir sameiginlegt, Samfylkingin og Vinstri grænir, að þegar kemur að hrossakaupum eru þeir á heimavelli. Þar er þetta fólk á heimavelli. Þeir eru ekki sammála í öllu en þeir eru sammála um að þau vinnubrögð skuli viðhöfð. Til að slá ryki í augu almennings eru það kölluð fagleg vinnubrögð. Engin ríkisstjórn hefur gengið jafnlangt í því að gera lítið úr faglegum vinnubrögðum og þessi stjórn vinstri flokkanna.



[01:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst þessi umræða hafa varpað ljósi á ákveðna þætti. Margir þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafa til að mynda ýjað að því að þetta plagg sé því miður ekki það sáttaplagg sem til hafi staðið heldur sé það orðið rammpólitískt og sé orðið stefnuyfirlýsing þeirrar ríkisstjórnar sem er að fara frá. Í því felst að næsta ríkisstjórn muni þá breyta því á fyrsta degi. Ég vildi gjarnan heyra skoðanir hv. þingmanns á því, hvort hann telji líklegt að það gerist.

Ég vildi líka heyra álit þingmannsins á öðru atriði. Á þessum tímapunkti, þar sem málið er statt núna — eftir auglýsingu ASÍ og viðbrögð hæstv. atvinnuvegaráðherra, forsvarsmanns ríkisstjórnarinnar — gætu kjarasamningar þá ekki líka verið upp í loft? Er það kannski að ljúkast upp fyrir æ fleiri mönnum að engin efnahagsstefna er í landinu eins og hv. þm. Árni Páll Árnason segir? Er það þá ekki staðurinn og stundin til að hinkra við, fresta þessari umræðu, setjast niður og reyna að finna farveg fyrir tillögur sem meiri sátt væri um, sem væri þá líklegri til að lifa lengur en fyrsta dag nýrrar ríkisstjórnar?



[01:36]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Kristján Möller hafði orðað þetta alveg rétt þegar hann sagði: Rammaáætlun bara mistókst. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spyr: Er þetta ekki rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar? Mun henni ekki verða breytt strax? Jú, þetta er svo sannarlega rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það þýðir að þetta hefur mistekist. Það er ekki sátt um þetta plagg eins og lagt var upp með. Hins vegar skiptir mjög miklu máli að sú ríkisstjórn sem tekur við, hvernig sem hún lítur út, breyti ekki hugmyndafræðinni. Það skiptir máli að unnið verði út frá faglegum forsendum þannig að menn freistist ekki til þess að segja: Heyrðu, það er komin hefð á það að pólitíkusar garfi í þessu. Það skiptir máli að næsta ríkisstjórn fari ekki þangað heldur haldi sig við það sem lagt var upp með, haldi sig við það sem pólitísk sátt var um meðal allra stjórnmálaafla. Einu gildir hvaða flokkar taka við, þeir mega ekki falla í sömu gryfju. Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður í næstu ríkisstjórn, sem ég vona, má hann aldrei verða eins og Alþýðubandalagsflokkarnir. Ég hvet hv. þingmenn Framsóknarflokksins til að freistast ekki til að fara út í hrossakaupsaðferðir þessara vinstri flokka. Við megum aldrei sjá svona vinnubrögð aftur, aldrei.

Hv. þingmaður vitnar í orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar, um að engin efnahagsstefna sé í landinu, og spyr hvort ekki borgi sig að hinkra við. Auðvitað borgar það sig og ég hvet menn til að staldra við og hugsa. Ef við ætluðum okkur að hafa vinnubrögðin eins slæleg og mögulegt væri, gætum við toppað vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar? Er hægt að toppa það að koma með öll stór mál á elleftu stundu og reyna að keyra þau í gegn í ófriði, stór og smá? Er hægt að gera þetta með verri hætti? Ég held ekki. Ég teldi æskilegt að skynsemisöfl, ef þau eru til, í hv. stjórnarflokkum taki í taumana og fái menn til að hinkra aðeins.



[01:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hafa ýmsir reynt að skreyta sig stolnum fjöðrum. Hv. þm. Árni Páll Árnason fór til dæmis mikinn í ræðu sem hann hélt hér fyrir tveimur kvöldum án þess að ég næði neinu heillegu út úr því. Það segi ég ekki síst í ljósi ummæla hans í kvöld á Facebook, hann kom alla vega ekki inn á það. Ég fór í andsvar við hann og spurði hann um efnahagsstefnuna, kannski hann hafi séð ljósið í kjölfar yfirlýsinga ASÍ og viðbragða ríkisstjórnarinnar við þeim.

Það er rétt, sem kom fram hjá þingmanninum, að um þetta ferli hefur ríkt sátt en það var sett af stað af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég held það hafi komið í hlut iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, bæði fyrsti áfanginn árið 1999 og eins 2004, að setja verkefnið í gang. Ég get alla vega fullyrt að við framsóknarmenn fellum okkur mjög vel við þessa hugmyndafræði þó að við gerum okkur vel grein fyrir því að einstakir þingmenn eða einstakir áhugamenn um virkjun eða vernd verði ekki í öllum tilvikum 100% sáttir. Enda snýst þessi vinna um að ná sem breiðastri sátt, ekki að allir verði sáttir.

Öfgar ala af sér öfgar, það þekkjum við og það er það sem ég óttast að muni gerast. Þetta fordæmi, sem gengur mjög langt í eina átt, gæti kallað á bylgju í hina áttina. Ég hef alltaf verið að vonast eftir því að samfélagið hætti að slá eins og pendúll út í öfgarnar og fari að dingla rólega á miðjunni, þess vegna er ég í Framsóknarflokknum. Ég hef alltaf gælt við það af því að mér finnst það langsamlega skynsamlegast. En á þessu kjörtímabili höfum við ekki séð það gerast. Pendúllinn hefur farið eins langt til vinstri og hægt er, því miður, út í öfgarnar.



[01:41]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá að það varð allt heiðskírt í andliti hv. þingmanns þegar hann fór að tala um að það væri svo gott að hafa allt á miðjunni. Það er augljóst í hvaða stjórnmálaflokki hv. þingmaður er. Ég deili kannski ekki alveg þeim miðjudraumi með honum þó að oft geti verið gott að vera á miðjunni, það er annað mál.

Aðalatriðið er hugmyndafræðin. Menn tala um að það hafi verið Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hófu þetta ferli. Miðað við það sem fram kemur í greinargerðinni í tillögu okkar sjálfstæðismanna — og nú þekki ég þessa sögu ekki þannig að ég kunni að segja nákvæmlega frá því — virðist þetta hins vegar hafa farið af stað árið 1993 og þá væntanlega í ráðherratíð umhverfisráðherra Alþýðuflokksins sáluga og í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaðan málið er ættað. Sem betur fer hefur verið sátt um að vinna hlutina á þennan hátt alveg þar til nú á síðustu metrunum að Alþýðubandalagsflokkarnir rjúfa þá sátt og fara þessa leið.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum aftur inn á faglegu brautina, að við förum aftur inn á sáttabrautina, að við förum aftur að vinna þetta eins og lagt var upp með. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það skapast hætta þegar þetta skelfilega fordæmi er komið. Það er hætta á því að önnur ríkisstjórn, sama hvaða flokkar mynda hana, noti það sem átyllu til að fara í hina áttina eða aftur í þessa sömu átt. Aðalatriðið er að hér er hætta á ferðum vegna þess að búið er að skapa slæmt fordæmi og við þurfum að hverfa af þeirri braut.



[01:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það væri spennandi að fá að vita við hvaða aðstæður þingmaðurinn telur gott að vera á miðjunni, en mörgum okkar finnst það yfirleitt mjög gott.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í söguna því að hann nefndi að þegar hinir svokölluðu stóriðjuflokkar voru í ríkisstjórn hefði verið nokkuð góður friður um þetta ferli. Þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru saman í ríkisstjórn var nokkuð góður friður um að halda svona á þessum málum og vinna í þeim. Síðan fór annar hinna svokölluðu stóriðjuflokka, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, í stjórnarsamstarf með útrásarflokknum, Samfylkingunni, sem studdi útrásarvíkingana óspart. Áfram var samt friður um rammaáætlunina, þokkalegur friður alla vega, unnið dag og nótt í henni. Síðan gerist það að hinir svokölluðu Alþýðubandalagsflokkar, sem hv. þingmaður kallar svo skemmtilega úr þessum ræðustól, komust í ríkisstjórn. Þá var friðurinn úti, þá fyrst var friðurinn úti. Þegar flokkarnir og sérstaklega annar flokkurinn sem kennir sig við umhverfisvernd komast að, fá að stjórna, fá að ráða för, þá er ferlið sett í uppnám, þá er þeirri sátt sem ríkt hefur í mörg ár ýtt til hliðar. Út af hverju? Jú, menn viðurkenna það í rauninni blygðunarlaust, mundi ég segja, að pólitíkin hafi þurft að koma að þessu, þeirra pólitík, pólitíkin sem var mönnum ekki ofarlega í huga þegar sáttin var í gangi, þegar menn ætluðu að láta sig hafa það, virkjunarsinnar og umhverfisverndarsinnar, að mætast í rammaáætluninni. Loksins þegar Alþýðubandalagsflokkarnir fengu tækifæri (Forseti hringir.) þá var sáttin úti.



[01:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr af hverju ég telji að sáttin sé úti akkúrat þegar Alþýðubandalagsflokkarnir taka við, af hverju það sé. Svarið liggur kannski í því að þetta eru Alþýðubandalagsflokkar. Vinstri grænir koma alveg beint úr Alþýðubandalaginu. Samfylkingin var yfirtekin mjög fljótlega af Alþýðubandalaginu. Ef þinglið núverandi þingflokks Samfylkingar er skoðað finnst þar varla krati, svo að við notum það orð. Þar finnst einn sem hefur búið á Siglufirði lengst af sem hefur nánar tiltekið sagt að rammaáætlunin hafi mistekist.

Ef maður vill kynna sér sögu Alþýðubandalagsins er til áhugaverð bók sem heitir Alþýðubandalagið, átakasaga. Það má alveg hafa gaman af þeirri bók en hún er sorglegt dæmi um skelfilegan stjórnmálaflokk. Einhver sagði að sá stjórnmálaflokkur hefði dáið úr leiðindum. Ég held að það sé mjög mikið til í því, virðulegi forseti, því að kúltúrinn í þeim stjórnmálaflokki var skelfilegur og einkenndist af átökum, hrossakaupum og öðru slíku. Þó svo að orðræðan og áróðurinn væri ágætur oft út frá þeirra sjónarmiði, þeim tókst oft að slá ryki í augu almennings, þá ættum við kannski að horfa til þess að þeir meina ekki mjög mikið með því þegar þeir tala um fagleg vinnubrögð, jafnvel umhverfisvernd og náttúruvernd, (Forseti hringir.) því að það er annað sem knýr þá áfram. Þarna eru átakastjórnmál í sinni tærustu mynd.



[01:48]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Í fréttum hafa verið viðtöl við ýmsa í dag varðandi yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands. Á Morgunblaðsvefnum er eftirfarandi haft eftir forseta ASÍ, með leyfi forseta:

„Umræða um fyrirkomulag efnahagsmála í framtíðinni, gengi, fjárfestingar og efnahagsstefnu verður að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“

Þetta eru býsna hörð orð frá fulltrúa þessara stóru samtaka sem lýsir því yfir að samtökin séu búin að gefast upp á að eiga samskipti við ríkisstjórnina. Við höfum svo sem heyrt fyrir löngu forsvarsmenn atvinnulífsins segja það sama, þó ekki jafnákveðið og Alþýðusambandið. Ríkisstjórnin hefur hrint frá sér aðilum vinnumarkaðarins í heild, sýnist mér, útilokað þá, því að ekki á að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið samkvæmt fullyrðingum Alþýðusambandsins. Þar af leiðandi virðast forustumenn Alþýðusambandsins vera farnir að bíða eftir því að ný ríkisstjórn taki við, það er ekki hægt að lesa það öðruvísi en að þeir vonist til þess að það verði ný ríkisstjórn, að sú sem nú situr fái ekki áframhaldandi umboð, þar sem væntanlega yrði erfitt fyrir Alþýðusambandið að tala ekki við sitjandi ríkisstjórn í þau fjögur ár sem kjörtímabilið er.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort það séu ekki býsna stór tíðindi, sem við hljótum að þurfa að ræða næstu daga í þinginu, þegar samskipti milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins eru komin í slíkan hnút að ekkert (Forseti hringir.) traust og enginn trúnaður virðist ríkja milli þessara aðila.



[01:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara þessari spurningu á tvo vegu. Fyrst: Í sögulegt samhengi eru þetta stórtíðindi. Við þekkjum það að tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins, í upphafi síns tíma og alltaf, og svo auðvitað Alþýðubandalagsins voru gríðarleg sterk. Það má færa fullgild rök fyrir því þegar Alþýðubandalagsflokkarnir taka við að úr verði óskastjórn ASÍ, í það minnsta forustumanna þess. Það að þeir skuli segja við óskastjórnina sína: Við erum fullkomlega búnir að gefast upp á ykkur! — því að það eru skilaboðin: — Það er ekki hægt að tala við ykkur lengur! — eru stór pólitísk tíðindi. Einhver hefði þótt vera sérkennilegur spámaður sem hefði sagt þetta í upphafi þessa kjörtímabils. Einhver gæti líka sagt, virðulegi forseti, að forusta ASÍ hefði verið seinþreytt til vandræða því að ekki er það nýtt að skriflegir og munnlegir samningar hafi verið sviknir.

Síðan er hinn þáttur svarsins, núið. Sem aldrei fyrr verður að vera traust á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar. Nú erum við að fara í kjarasamninga og í kosningar. Við erum í þeirri efnahagslegu stöðu að aðilar verða að vinna saman, en það er ekkert traust borið til forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hvernig er hægt að vinna með aðilum sem er ekki hægt að treysta? Það er spurningin. Það er ekki skrýtið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þó að forusta ASÍ kalli á okkur þingmenn og segi: Nú verðið þið að gera eitthvað, þetta gengur ekki lengur! — því að það er hlutverk okkar.



[01:53]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota þessar fimm mínútur sem ég hef til að fara yfir einn þátt í umsögn minni sem send var umhverfis- og samgöngunefnd eftir umfjöllun okkar í atvinnuveganefnd, þ.e. þær hugmyndir sem hafa verið um að virkja útfallið eða farið út úr Hagavatni, Hagavatnsvirkjun. Það sem er áhugavert við þessa virkjun er að hugmyndirnar að henni spretta fyrst upp sem umhverfisverkefni til að hefta sandfok. Það eru auðvitað heimamenn sem fá þær hugmyndir og ná samstarfi við Landgræðslu ríkisins og hefur það verið ítarlega skoðað um allnokkurt skeið, eftir að menn náðu að stækka sandvatnið sem er á sambærilegu svæði og náðu gríðarlega góðum árangri því að reynslan var góð af því að endurheimta það í þeirri stærð sem það var. Þarna er í raun og veru verið að endurheimta útfall sem fór úr vatninu eða braust út fyrir 80 árum og hefur þar af leiðandi runnið þar um 80 ára skeið, það er verið að endurheimta fyrri verðmæti. Á bak við þessa tillögu eru mjög jákvæðar umsagnir og mikil samstaða heimafólks, ferðaþjónustu, landeigenda og sveitarstjórnarinnar í Bláskógabyggð og aðliggjandi sveitarstjórna.

Á fundi atvinnuveganefndar undir lok umfjöllunar okkar fengum við Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Ólaf Arnalds prófessor til þess að ræða áhrifin af sandfokinu og landgræðsluþættina. Það kom fram í máli þeirra að stífla eða virkjun, sem halda mundi vatnsborði Hagavatns stöðugu, mundi án efa minnka uppblástur frá Hagavatnssvæðinu.

Það sem menn hafa sett út á í sambandi við þær hugmyndir sem hafa verið um svæðið er að vatnsborðið rokki mjög mikið, frú forseti, og þess vegna verði ekki alltaf minna sandfok heldur geti það komið í bylgjum. Menn hafa líka sett út á að þarna verði loftlínur sem séu sjónmengandi og skemmi ásýnd svæðisins fyrir þeim sem ferðast um það. Báðum þessum þáttum svaraði Íslensk vatnsorka því til þegar hún kom fyrir nefndina að þarna væru hugmyndir um svokallaða jafnrennslisvirkjun, þ.e. að halda vatnsborðinu eins stöðugu og hægt er, sem mundi væntanlega þýða að orkunýting yrði minni á einhverjum tímapunktum, en aðaltilgangurinn væri að ná upp vatnsborðinu til að hefta sandfokið. Ein af aðallínunum sem liggja frá virkjunarsvæði Þjórsár og Tungnaár yfir á Vesturland liggur þarna rétt hjá og það yrði því mjög auðvelt að setja streng frá þessari virkjun í jörðu þannig að hann ylli aldrei sjónmengun. Þar fyrir utan mundu þeir vegir og það sem yrði gert þarna nýtast ferðaþjónustunni og öðrum sem þarna vilja fara um og yrði það þar af leiðandi til mikilla bóta.

Í ofanálag fylgir minnisblað umsögn minni frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins sem fór yfir þá kosti sem eru í biðflokki og taldi, eins og ég hef komið inn á í nokkrum andsvörum, að mest rök væru fyrir því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Þessu fylgir mjög skýr greinargerð og niðurstaða orkuskrifstofunnar er sú að í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar komu upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að Hagavatnsvirkjun rýri gildi svæðisins fyrir ferðamenn, og jafnframt að virkjunin sé líkleg til að draga úr uppblæstri og sandfoki og auka möguleika á landgræðslu. Því var í umsagnarferlinu brugðist við þeim atriðum sem tilgreind voru í rökstuðningi þingsályktunartillögunnar fyrir flokkun í biðflokk. Með vísan til þessa og að með framkvæmdinni verði fyrra horf Hagavatns endurheimt þyki rétt að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Ég hyggst leggja fram breytingartillögu við málið fyrir atkvæðagreiðslu þar sem ég mun leggja til að Hagavatnsvirkjun (Forseti hringir.) verði færð úr biðflokki í orkunýtingarflokk í samræmi við greinargerð orkuskrifstofunnar.



[01:58]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina um þennan virkjunarkost, Hagavatn. Í raun og veru er alveg óskiljanlegt að sá kostur skuli ekki vera í nýtingarflokki, eins mikil samstaða og er um hann, og þá er ég kannski ekki síst að vitna til samstöðunnar heima í héraði. Landgræðslan gefur til dæmis jákvæða umsögn um hann og það er alveg ljóst að virkjun hans mun hafa verulega jákvæð áhrif á lífsgæði fólks á þessu svæði, það kemur fram í umsögnum og hefur komið fram á fundum með fulltrúum sveitarstjórna á svæðinu.

Hv. þingmaður kemur úr Suðurkjördæmi og það eru fleiri virkjunarkostir þar sem er mikil samstaða um heima í héraði. Við erum með einhverja vænlegustu virkjunarkosti okkar í neðri hluta Þjórsár sem nokkuð rík samstaða hefur verið um hjá stórum meiri hluta heimafólks. Svo erum við með virkjunarkost sem er reyndar settur í verndarflokk, sem er Norðlingaölduveita. Hugmyndir um þann virkjunarkost hafa tekið miklum breytingum og það hefur meðal annars komið fram hjá forstjóra Landsvirkjunar að um sé að ræða hagkvæmasta virkjunarkost landsins að þeirra mati, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Mig langar að biðja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að fara aðeins yfir afstöðu heimamanna til þessa. Ég veit að hann þekkir til á svæðinu og hefur verið í sambandi við fólk sem þekkir hvað best til á þessu svæði. (Forseti hringir.) Hann gæti kannski farið aðeins yfir þá stöðu hér á eftir.



[02:00]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Norðlingaöldu og það svæði er rétt að þær hugmyndir hafa tekið miklum breytingum og ég held að þær hafi allar verið til bóta. Sú tillaga sem liggur nú fyrir er á margan hátt skynsamleg, tekur mikið tillit til umhverfislegra þátta og er, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, talin vera sú þjóðhagslega hagkvæmasta.

Í skoðanakönnun hjá verkefnisstjórninni fór þessi kostur þannig að sex vildu setja hann í nýtingarflokk, enginn í biðflokk og sex í verndarflokk. Það var eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði skipt út einum nefndarmanni til að tryggja að það væri rétt slagsíða á atkvæðagreiðslunni, það var gert eftir skoðanakönnunina. Það má því leiða líkur að því að annars hefði atkvæðagreiðslan farið 7:0:5, það er spurning hvort hún hefði ekki farið þannig, sjö hefðu greitt atkvæði með nýtingarflokknum. Við sjáum auðvitað að þótt vissulega sé reynt að setja upp eitthvert faglegt mat veltur útkoman oft og tíðum á ákvörðun þeirra sem að koma.

Ég hef eftir viðræður við heimamenn, til að mynda sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem hefur ítrekað ályktað um að þennan kost beri að skoða, talið að það hefði verið skynsamlegt að hafa þennan kost inni. Ég hef þó áður sagt að það ætti að reyna að ná sem víðtækastri sátt um þá tillögu sem kom frá verkefnisstjórninni og í því ljósi ætti ekki að vera að fetta fingur út í hana. Ég tel þó að við séum þarna að henda mjög góðum kosti og að hann hafi ekki þau slæmu áhrif sem fyrstu hugmyndirnar um hann gáfu til kynna. Ég held að Kvíslárveita sjö hafi í raun og veru gert þann usla á þessu svæði sem menn hafa talað um að þessi kostur mundi gera, en hann gerir það ekki.

Það hafa verið uppi hugmyndir um að stækka þarna svæðið til að taka yfir Norðlingaölduveituna en um þær er ekki samstaða meðal heimamanna. Menn hræðast hvernig þróunin hefur orðið í kringum (Forseti hringir.) Vatnajökulsþjóðgarð og þó að menn vilji gjarnan stækka friðlýsta svæðið, gera það öruggara og setja meiri fjármuni í það er ekki samstaða um að fara þá leið sem hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórn hafa stefnt að.



[02:03]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú er ljóst að margir af okkar vænlegustu virkjunarkostum eru í kjördæmi þingmannsins og þar er mjög kallað eftir frekari atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu. Við vitum hvernig staðan er austur í Skaftárhreppi þar sem er sveitarfélag sem á mjög í vök að verjast og bindur miklar vonir við virkjunarframkvæmdir. Við höfum heyrt þau sjónarmið líka á Suðurlandi, og svo sem víðar af landinu, að orka úr virkjunum, til dæmis í neðri hluta Þjórsár og víðar, eigi að fara til uppbyggingar atvinnulífs á Suðurlandi.

Í ljósi þeirrar rammaáætlunar sem nú liggur fyrir og er hér til umræðu er kannski lítil von gefin fólki á þessu svæði og reyndar víðast hvar um að á þessum vettvangi geti orðið um einhverja atvinnusköpun og verðmætasköpun að ræða. Ríkisstjórnin hefur sett fram sínar hugmyndir sem einhverjir hv. þingmenn hafa kallað nýjar leiðir og nýjar hugmyndir. Hvernig meta Sunnlendingar þetta? Grænn fjárfestingarsjóður, grænkun fyrirtækja og fleiri atriði í þeim dúr, eru þau líkleg til þess að geta komið í staðinn? (Forseti hringir.) Eða ætti þetta ekki í öllu falli að geta gengið ágætlega saman? Hverjar eru væntingar manna til annarrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu?



[02:05]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að á Suðurlandi hafa byggingargeirinn og verktakageirinn, sem hefur mikið verið í stórframkvæmdum eins og virkjunum og öðru slíku, verið gríðarlega öflugir og þeir eru auðvitað hrundir og það er ekkert að gera. Menn hafa aldrei horft fram á eins alvarlegan vetur eins og nú á þessu hausti, aldrei. Slæmt var það í fyrra og hittiðfyrra en það er langverst í ár, það er allt stopp. Það eru 200–300 manns við vinnu á Búðarhálsi. Því verkefni lýkur væntanlega á vormánuðum. Annars er ekkert.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra fullyrti hér í dag að það væri gríðarleg umframorka til í núverandi kerfi og þar af leiðandi þyrfti væntanlega ekkert að virkja. Er þá ekki komið að því að velta fyrir sér hvort ekki sé eitthvað að þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur beint að Landsvirkjun, um að hafa orkuverð það hátt að ekki sé hægt að selja það? Það er alltaf sagt að 20–30 góðir fjárfestingarkostir séu í gangi, en það hefur ekki verið selt eitt einasta megavatt til nokkurra skapaðra hluta.

Á Suðurlandi hafa menn mjög breiða sýn á það hvernig megi efla atvinnulífið og gera það fjölbreytt. Menn hafa til dæmis sagt: Við viljum að orkan sem verður til á okkar svæði — það er mjög lítil prósenta, orkan fer nánast öll á suðvesturhornið eða upp í Grundartanga — verði nýtt í heimabyggð, til að mynda fyrir gagnaver eða eitthvað slíkt. Við höfum lagt ríka áherslu á það og sá sem hér stendur að við gætum gert enn meira úr grænu stóriðjunni, garðyrkjunni, en við gerum í dag ef hún byggi við eins góð skilyrði og hægt er varðandi dreifingarkostnað og til kaupa á rafmagni á skikkanlegu verði. Væri það nú ekki skynsamleg atvinnuuppbygging að nýta endurnýjanlega orku að framleiða vörur, jafnvel til útflutnings? Auðvitað væri það skynsamlegt. Væri ekki skynsamlegt að leggja rafmagnskapla til Vestmannaeyja og eyða út öllum dísiltækjum í fiskvinnslunni? (Forseti hringir.) Það er gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt. Til þess þarf að virkja, til þess þarf að hafa jákvæða sýn á að vilja nýta (Forseti hringir.) auðlindirnar til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar, en það hefur þessi ríkisstjórn ekki.



[02:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem hv. þingmaður á sæti í atvinnuveganefnd, þeirri fagnefnd sem fjallaði um þetta að minnsta kosti á vorþinginu þó að skipt hafi verið um kúrs á haustþinginu, hef ég kallað eftir ákveðnum hlutum en ekki fengið svör við þeim. Hæstv. ráðherra hefur setið hér undir að minnsta kosti tveimur ræðum þar sem ég hef kallað eftir þeim svörum en ráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að koma og svara þeim.

Það sem ég átta mig ekki á og sem mér finnst vera töluvert ósamræmi í, þ.e. þeim tillögum sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögunni af hálfu hæstv. ráðherra, er það varúðarsjónarmið sem gildir gagnvart vatnsaflsvirkjununum, sem við þekkjum og hv. þingmaður þekkir, og snýr að laxastofnum í Þjórsá. Þegar maður les síðan meirihlutaálitið og þær ábendingar sem þar koma fram um svokölluð álitaefni við orkunýtingu á háhitasvæðum, þar sem meiri hlutinn bendir á að séu auðvitað efasemdir um og áleitnar spurningar, sem snúa meðal annars að mengun grunnvatns, mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.

Nú þekkjum við þau vandamál sem hafa verið uppi hjá Hellisheiðarvirkjun, og þá spyr maður sig líka gagnvart Hverahlíðarvirkjun, svo ég nefni hana í þessu umfangi: Getur hv. þingmaður tekið undir með mér eða er hann ekki sammála mér um það að töluvert ósamræmi sé þarna á milli í tillögu hæstv. ráðherra sem leggja þessa tillögu fram? Að þau varúðarsjónarmið sem gilda um vatnsaflsvirkjanirnar eru mun veigaminni, að mínu mati, en þau atriði sem snúa að virkjun á háhitasvæðum. Getur hv. þingmaður tekið undir það sjónarmið sem ég hef komið á framfæri?



[02:10]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki fullyrt um það hvaða sjónarmið ráðherrarnir höfðu algjörlega stuðst við annað en lögin 48/2011, sem voru samþykkt samhljóða og menn hafa bundið sig mjög við að séu fagleg og þess vegna fari menn að því lagalega ferli. Enginn — ég held að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni — trúði því að á grundvelli þeirra laga væri hægt að taka alla þá góðu kosti út varðandi vatnsaflsvirkjanirnar af því að það höfðu verið þannig umsagnir sem hefðu komið í því ferli. Ég fór áðan yfir Hagavatnsvirkjun. Það komu fimm umsagnir, þær voru allar jákvæðar, allar mjög jákvæðar. Ekki var tekið tillit til þess.

Ég ræddi fyrr í kvöld við hæstv. umhverfisráðherra um Hólmsárvirkjun þar sem gögn týndust, gríðarlega öflug rök sem standa á bak við það að sú virkjun hefði verið sett í nýtingarflokk. Það var ekki gert.

Ég held að sú niðurstaða sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar stóð síðan frammi fyrir þegar búið var að taka vatnsaflskostina út og sátu uppi með jarðvarmakostina á Reykjanesi og Hverahlíð á Hellisheiði hafi hugsanlega haft eitthvað með það að gera að menn horfi til þess að varaaflssvæði þurfi fyrir Reykjavík ef eitthvað gerist á Hellisheiði. Ég held að eitthvað hafi verið horft til þess, og að menn voru jafnvel að horfa til einhverra atvinnuskapandi verkefna á Suðurnesjunum þar sem atvinnuleysið er mest, eða ég vona að menn hafi alla vega horft til slíkra þátta.

Mér finnst nefndarálitið lita þetta mjög svörtum litum, ég held að það sé eins konar samviskubit, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kallaði það, þegar menn sáu hverju þeir stóðu frammi fyrir, þegar menn voru búnir að víla og díla með alla þætti, henda hinu út og þetta endaði inni, þá sögðu þeir: Þetta er endapunkturinn, við erum eiginlega mest á móti þessu. Og þá setja menn inn svona (Forseti hringir.) samviskuneikvæða umsögn um að það þurfi að skoða þetta og allt hitt.

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að ekki er jafnvægi í þessu, það er ósamræmi í þessu, þetta er ekki rökrétt og þetta er ekki skynsamlegt.



[02:13]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þar sem ég á ekki sæti í þeim hv. nefndum sem hafa fjallað um þessi mál, annars vegar atvinnuveganefnd og hins vegar umhverfis- og samgöngunefnd, hefur maður auðvitað ekki getað kafað jafndjúpt í málið. Ég sat þó sem varamaður á tveimur sameiginlegum fundum í vor þar sem farið var yfir áhrifin af virkjununum í Þjórsá sem sneru að áhættunni í sambandi við laxastofnana, það er tiltekið í nefndaráliti meiri hlutans og í breytingartillögunum. Síðan kom Veiðimálastofnun og fór yfir sína kosti.

Það sem vekur undrun mína er að þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar eru við þær framkvæmdir, þ.e. að fara í rennslisvirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir, eru mjög öflugar að mínu mati. Ef við tækjum kannski tvær efri til að byrja með og geymdum Urriðafoss — sú umræða hefur skilað okkur áfram í gegnum tíðina, sem sagt fram í umræðunni, við vitum miklu meira um vatnsaflsvirkjanir, áhrifin af þeim, og þær virkjanir eru komnar lengst í hönnun og nánast tilbúnar til að hægt verði að hefjast þar og með stuttum fyrirvara. Það er því sláandi að lesa síðan varnaðarorð meiri hlutans um það sem snýr að virkjunum á háhitasvæðinu að þær skuli vera settar í nýtingu en hinar í bið. Það er mjög sérkennilegt. Mér er það algjörlega óskiljanlegt miðað við röksemdafærslur meiri hlutans. Þetta er mjög sérkennilegt og þessu þarf að svara með ítarlegri hætti af þeim sem bera ábyrgð á málinu.



[02:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Það er kannski auðveldast að rifja það upp að einstaka þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir að stuðningur þeirra við ríkisstjórnina væri skilyrtur þess efnis að aldrei yrði farið í virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þar með hafi ekki verið hægt að hafa þá kosti inni þó að þeir séu bæði arðsamir og skynsamlegir.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að umræðan um laxastofnana var blásin svolítið upp. Veiðimálastofnun var með mjög skýr rök, og ég tek undir það, á þeim fundi og þau gögn sem þeir hafa lagt fram. Eftir sem áður getur verið að menn greini á um hversu góðar mótvægisaðgerðirnar séu, til að mynda þessi seiðafleyta sem fyrirhuguð var við Urriðafossvirkjun. Þess vegna hefur Landsvirkjun lagt til að sett verði í efstu virkjunina, Hvammsvirkjun, sambærileg seiðafleyta til að prófa hana. Ég hef lýst því yfir að mér finnist þá skynsamlegt við þær aðstæður að halda Urriðafossi áfram í bið, það má reyndar líka ræða um Urriðafoss á fleiri forsendum. Það má til dæmis sleppa því að virkja fossinn sjálfan, það er meira fall þarna, ætli virkjunin eða það sem kemur út úr henni verði ekki 15% eða 20% minna ef Urriðafossi væri sleppt, ef útfallið kæmi fyrir ofan fossinn. Þá væri hann óbreyttur svo til, það yrði engin breyting á rennslinu. Það má svo ræða hvort arðsemin sé nægilega mikil við það.

Við getum bara geymt hann, byrjað á hinum tveimur sem eru augljóslega góðir kostir, margrannsakaðir. Við þekkjum alla þætti þess að byggja slíkar virkjanir í Þjórsá þar fyrir utan, í byggð, rennslisvirkjanir. Það er því óskiljanlegt og sýnir bara hversu pólitískt þetta plagg er að það skuli ekki hafa verið tekið inn. Það hefði verið tilraun til þess að sýna það að menn vildu ná breiðari sátt, að hafa þessar tvær efri í neðri hluta Þjórsár inni og geyma Urriðafoss. (Forseti hringir.) Þá hefðu menn sýnt þann vilja að þeir vildu ná einhverri sátt en ekki setja fram það sem ég kalla öfgapólitískt plagg.