141. löggjafarþing — 53. fundur
 14. desember 2012.
ummæli ráðherra um makríldeiluna.

[10:59]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Í gær birtist viðtal við hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Steingrím J. Sigfússon á cnn.com þar sem hann er spurður meðal annars út í stöðuna í makríldeilunni og áhrifin á aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Í frétt mbl.is af þessu er haft eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þessum viðræðum hefur seinkað, hugsanlega vegna deilna líkt og um makrílinn. Það verður sífellt erfiðara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og það segir sig sjálft að refsiaðgerðir og annað slíkt getur skaðað mjög andrúmsloftið.“

Einnig er haft eftir Steingrími að deilan hafi kallað fram efasemdir um það hvort Íslendingar vildu ganga í Evrópusambandið eða ekki

Í fyrsta lagi finnst mér orðalagið „sífellt erfiðara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist“ lýsa ákveðinni firringu gagnvart þessu verkefni. Um það snýst fyrsta spurningin til hæstv. utanríkisráðherra: Er ekki kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn horfist í augu við staðreyndir í þessu aðildarferli?

Þessi ummæli hæstv. ráðherra lýsa vel stöðunni innan annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Þau koma í kjölfar ummæla hæstv. menntamálaráðherra, varaformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í haust og hæstv. umhverfisráðherra og nýlegra ummæla hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, sem viðraði það að gera hlé á viðræðunum í útvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að horfast í augu við staðreyndir. Við göngum sem betur fer til kosninga eftir ekki svo langan tíma. Er ekki ráð, allra vegna, (Forseti hringir.) líka þeirra sem vilja ganga í þetta samband, að gefa íslensku þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn og kjósa um það í komandi alþingiskosningum (Forseti hringir.) hvort þessu umsóknarferli skuli haldið áfram eða ekki?



[11:02]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sá sem hér stendur hefur gert sér far um að horfast í augu við staðreyndir og hefur tekist það býsna vel. Meðal annars blasir við sú staðreynd að forustan í Evrópusambandinu hefur sagt það algjörlega skýrt að makrílmálið sé óskylt aðildarumsókninni. Það vill svo til að það hafa flestir íslenskir forráðamenn, jafnvel úr stjórnarandstöðu, líka sagt. Það hentar hagsmunum Íslendinga að halda þessu algjörlega skýrt fram.

Hins vegar tel ég að það hafi hjálpað Íslendingum í makríldeilunni að Íslandi skuli vera í umsóknarferli. Ég tel að einmitt vegna þess hafi ekki verið gripið til þeirra þvingunarráðstafana sem mjög harðir hagsmunahópar innan Evrópusambandsins hafa krafist.

Það er partur af þeim staðreyndum sem við erum að horfast í augu við að gagnvart Evrópusambandinu hafa samningarnir gengið býsna vel hingað til. Okkur hefur gengið vel að opna kafla. Eins og kemur fram munum við í næstu viku opna nokkra kafla til viðbótar þeim sem við höfum þegar hafið samninga um. Hv. þingmaður veit að okkur hefur ekki gengið vel að opna kaflann um sjávarútveg. Ég hef ekki dregið nokkra dul á að hugsanlegt er að því valdi meðal annars einstakar makrílþjóðir sem eru okkur ákaflega reiðar vegna þessarar deilu. Því er ekki fyrir að synja að sumar þeirra liggja undir grun um að hafa af þeim sökum seinkað því að rýniskýrsla Evrópusambandsins um sjó komi fram. Hún liggur í hópi aðildarlandanna, þ.e. í hinum svokallaða COELA-hópi.

Að öðru leyti gekk mér nokkuð illa að skilja spurningarnar í sjálfu sér. Hv. þingmaður vísaði til dæmis til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Hann sagði í viðtali um daginn, rétt er það, að aðstæður kynnu að verða þannig (Forseti hringir.) að sjálfkrafa mundi hægja á viðræðunum, einfaldlega vegna þess að það er búið að opna svo marga kafla.



[11:04]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. utanríkisráðherra. Það er ljóst að firringin sem ég nefndi í fyrri ræðu minni er algjör. Það er ekki rétt að viðræðurnar gangi vel. Áætlunum er sífellt breytt til þess að segja að allt gangi eftir áætlun. Við vitum það öll hér inni og íslenska þjóðin horfir á og sér að þetta gengur ekki neitt.

Ég var á fundi og ræddi þetta beint við stækkunarstjóra Evrópusambandsins um daginn í Strassborg með þingmannanefnd héðan frá Alþingi og Evrópusambandsins. Það var alveg kýrskýrt af orðum hans að auðvitað tefði makríllinn fyrir. Auðvitað hefur þetta ekki gengið eins hratt og vel og menn lögðu upp með. Við skulum ekki gleyma því, hæstv. ráðherra, að núna hafa skoðanakannanir snúist við. Það er ekki einu sinni meiri hluti lengur fyrir því að halda viðræðunum (Forseti hringir.) áfram. Í seinustu könnun vildu 54% draga umsóknina til baka, leggja hana til hliðar.

Ég ítreka spurningu mína um hvað honum finnist um ummæli hæstv. (Forseti hringir.) atvinnuvegaráðherra, að við eigum að láta eins og ekkert sé, hvort það sé hægt enn þá. Er það það sem (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra boðar?



[11:06]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. atvinnuvegaráðherra um að ekki sé hægt að láta sem ekkert sé. Við horfumst í augu við það að makríldeilan harðnar og það er einmitt þess vegna sem helmingurinn af starfi utanríkisráðuneytisins síðustu mánuði hefur miðað að því að reyna að nudda og sverfa niður þær fyrirhuguðu eða boðuðu viðskiptaþvinganir sem hafa komið frá Evrópusambandinu, sér í lagi sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins. Ef hv. þingmaður vill horfast í augu við staðreyndirnar sér hún til dæmis að þetta hefur leitt til þess, fyrir atbeina íslenskra stjórnmálamanna og framkvæmdarvaldsins, að það er búið að nudda burt verstu agnúunum, verstu tillögunum sem þar voru. Líkurnar á viðskiptaþvingunum núna eru minni en áður. Hitt er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ef til þeirra kemur þurfa menn auðvitað að meta stöðuna og sér í lagi ef um er að ræða aðgerðir sem eru eitthvað í líkingu við það sem til dæmis gengur af munni makrílþingmannanna frá Skotlandi og Írlandi. Það liggur alveg fyrir. Íslendingar láta ekki berja sig (Forseti hringir.) þó að slík hafi verið háttsemin í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem lét útlendinga berja sig hér hvað (Gripið fram í.) eftir annað. (Gripið fram í: Bla bla bla.) (Forseti hringir.) Já, við skulum þá bara rifja upp hverjir það voru sem sögðu við þá sem vildu senda hingað (Forseti hringir.) flugvélar til að vernda okkur að við kysstum ekki á svipu kvalara okkar. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem (Forseti hringir.) lá hundflatur fyrir Bretum þá, Samfylkingin tók (Forseti hringir.) upp hanskann fyrir Íslendinga.