141. löggjafarþing — 53. fundur
 14. desember 2012.
sjúkratryggingar o.fl., 1. umræða.
frv. SII, 494. mál (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði, frestun). — Þskj. 635.

[20:40]
Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta eru tvær greinar. Sú fyrri breytir gildistökuákvæðinu þannig að lögin öðlist gildi 4. maí 2013 og sú síðari kveður á um að lögin öðlist þegar gildi.

Forsaga málsins er sú að þann 1. júní sl. samþykkti Alþingi frumvarp velferðarráðherra um breytingu á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði og fleiri atriðum. Þá var kveðið á um að nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja tæki gildi 1. október sl. En fljótlega eftir að lögin voru samþykkt kom í ljós að gildistökutíminn gæti ekki staðist og fresta þyrfti gildistökunni til 1. janúar 2013 og flutti velferðarráðherra frumvarp þar að lútandi.

Hv. velferðarnefnd afgreiddi frumvarpið óbreytt, þ.e. með gildistöku 1. janúar 2013, enda hafði komið fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að dagsetningin væri raunhæf og vert að stefna að henni þó svo að ljóst væri að menn þyrftu að hafa hraðar hendur við undirbúning. Taldi nefndin sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til að leggja til frekari frestun á gildistöku laganna.

Fljótlega eftir að Alþingi samþykkti síðara frumvarp hæstv. velferðarráðherra komu fram áhyggjur lyfsala um að ekki væri raunhæft að stefna að dagsetningunni 1. janúar 2013. Nefndin kallaði til sín gesti út af þessu máli, bæði ráðuneytið, Sjúkratryggingar og fulltrúa lyfsala. Í kjölfar þess fundar þótti nefndinni ljóst að ekki væri raunhæft að kerfið tæki gildi 1. janúar 2013 nema til félli óþarfa viðbótarkostnaður og mikið óhagræði fyrir lyfjakaupendur. Nefndin óskaði þá eftir raunhæfri áætlun um innleiðingu nýs kerfis og samþykkis þeirra sem að innleiðingunni ættu að standa á áætluninni. Þessi áætlun barst nefndinni og var samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands, Lyfjastofnun, lyfjagreiðslunefnd, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, EMR/TMS, Advania og Frumtaka. Þessi áætlun felur í sér gangsetningu nýja greiðsluþátttökukerfisins helgina 4.–5. maí 2013.

Ástæðan fyrir því að 4. maí er valinn sem ný dagsetning á gildistöku laganna er sú að lögð var áhersla á að kerfið yrði gangsett um helgi og að það yrði ekki of nálægt sumarleyfistíma. Nefndin féllst á þessi rök enda stóðu allir sem hlut eiga að máli — fyrir utan að sjálfsögðu lyfjakaupendur, sem fá þá nýtt kerfi síðar í gang — að þessu samkomulagi.

Nefndin leggur ríka áherslu á að unnið verði ötullega að innleiðingu nýs kerfis og minnir á að lögin voru samþykkt 1. júní sl. Ýmsir nefndarmenn í hv. velferðarnefnd hafa lýst yfir mikilli óánægju með seinagang og lélegar upplýsingar um þarfir þeirra sem eiga að innleiða kerfið. Við leggjum því ríka áherslu á að aðilar sem að þessu standa taki lög frá Alþingi alvarlega og að af innleiðingu verði í samræmi við frumvarp þetta 4. maí 2013.

Hv. velferðarnefnd hefur þegar fjallað um efni frumvarpsins vegna athugasemda sem bárust eftir að lögin voru samþykkt í september sl. Því er óþarfi að málið fari aftur til nefndarinnar og legg ég til að því verði vísað til 2. umr.



[20:46]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um ástæður þess að hér er lagt til að fresta gildistöku lyfjaendurgreiðslugrunnsins um fjóra mánuði og fjóra daga. Það veldur mér vonbrigðum og ég hef ekki sama skilning á nauðsyn þess og hv. formaður nefndarinnar en virði þær athuganir sem þar hafa verið gerðar. Ég ítreka að mikil réttarbót er fólgin í þessum lögum og sem betur fer var ekki öllum ákvæðum þeirra frestað 1. október síðastliðinn heldur tóku þá gildi þau ákvæði sem sneru meðal annars að aðgangi einstaklinga og lækna að lyfjagagnagrunni landlæknis sem ekki þurfti allan þann tíma sem fyrst Sjúkratryggingar Íslands og síðan apótekarar þurfa til að innleiða þá réttarbót sem hér er.

Þetta frestunarmál lætur ekki mikið yfir sér en ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna á einu ákvæði í lögunum sem nú skal frestað gildistöku á, sem reyndar er margrætt hér í þingsölum. Það snertir í sjálfu sér ekki lyfjaendurgreiðslukerfið sjálft, sem sagt ekki þá einstaklinga sem fara með lyfseðla fyrir lyfseðilsskyldum lyfjum í apótek og fá þar endurgreiðslu og njóta niðurgreiðslu af hálfu Sjúkratrygginga, heldur snýr það að því vandamáli sem hér hefur skapast vegna þess að S-merkt lyf hafa ekki verið endurgreidd eða greidd með sama hætti hvar sem þau eru gefin.

Það hefur orðið til þess að smærri hjúkrunarheimili, dvalarheimili og jafnvel öflugar endurhæfingarstofnanir eins og Reykjalundur veigra sér við að taka við sjúklingum sem þurfa að nota dýr S-merkt lyf. Á því tók nefndin að eigin frumkvæði síðastliðinn vetur. Þess vegna er í lögunum ákvæði um að það skuli vera sama hvar S-merkt lyf eru gefin, hvort heldur það er á sjúkrahúsi, á líknardeild, á dvalarheimili, á endurhæfingarstofnun, á hjúkrunarheimili eða heima hjá viðkomandi einstaklingi.

Ég vil nefna dæmi af Reykjalundi sem er endurhæfingarstofnun sem nú þegar fyrir árslok hefur kostað til 5 millj. kr. vegna fjögurra sjúklinga á þessu ári, þar af fyrir einn sjúkling sem nota hefur þurft lyf sem endurhæfingarstofnunin hefur borgað ríflega 2 millj. kr. fyrir. Er það ekki skrýtið þegar við hugsum til þess hvers lags sjúklingar það eru sem koma í endurhæfingu til Reykjalundar. Það eru meðal annars líffæraþegar sem koma úr líffæraígræðslu frá Svíþjóð með viðkomu á Landspítalanum og fara síðan til endurhæfingar á Reykjalundi.

Ég vek athygli á þessu því að ég tel að það sé ekki endilega tengt apótekurunum sem biðja nú um frestun á gildistöku lyfjaendurgreiðslugrunnsins. Ég tel að það snúi frekar að endurskoðun á S-merktu skránni, þ.e. skrá yfir S-merktu lyfin. Ég er komin hingað til að hvetja hæstv. ráðherra til að tryggja að sú endurskoðun komi til framkvæmda án ónauðsynlegra tafa, því að ég tel ekki að það þurfi að vera upp á náð apótekara komið hvernig það fyrirkomulag er.



Frumvarpið gengur til 2. umr.