141. löggjafarþing — 55. fundur
 18. desember 2012.
menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 2. umræða.
frv. allsh.- og menntmn., 190. mál (afnám frests til að sækja um leyfisbréf). — Þskj. 193, nál. m. brtt. 504.

[20:33]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Tilurð málsins er sú að núna á haustdögum bárust nefndinni ábendingar frá nemendum í námi til B.Ed.-gráðu sem luku námi sínu fyrir 1. júlí 2012 en gættu þess ekki að sækja um leyfisbréf skv. 3. mgr. 23. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda fyrir þann tíma.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að frestur til að sækja um leyfisbréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins verði felldur brott og þess í stað lagt til grundvallar að þeir sem byrjað hafi fullgilt kennaranám samkvæmt námsskipulagi eldri laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum og lokið því fyrir 1. júlí 2012 eigi rétt á útgáfu leyfisbréfs og sé sá réttur ótímabundinn. Hið sama gildir um þá sem innritast hafi í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum á grundvelli áðurnefndra laga og lokið hafi náminu fyrir 1. júlí 2012, þeim veitist ótímabundinn réttur til útgáfu leyfisbréfs.

Nefndin telur hins vegar mikilvægt að um leið og ótímabundinn frestur til að sækja um leyfisbréf sé veittur þeim sem hafa aflað sér tilskilinnar starfsmenntunar fyrir gildistöku laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda sé nauðsynlegt að afmarka eins og unnt er þann hóp svo að engum vafa sé undirorpið hverjir eigi í hlut. Nefndin bendir á að sambærileg sjónarmið voru uppi þegar þáverandi menntamálanefnd gerði breytingar á lögum nr. 87/2008.

Því leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Á eftir orðunum „luku náminu fyrir 1. júlí 2012“ í 1. gr. komi: eða áttu við lok vormissiris 2011 30 eða færri einingum ólokið til prófs.“

Nefndin flutti málið sameiningu, það er þannig til komið. Það voru allir sammála um að þetta væri réttlætismál til að koma til móts við nokkurn hóp af fólki sem einfaldlega hafði ekki áttað sig á því að það yrði að sækja um leyfið áður en fresturinn rynni út. Ég held að það sé bara ánægjulegt að hafa getað lokið þessu máli og komið þannig til móts við hóp af fólki sem hefði annars farið á mis við réttindi sín.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Siv Friðleifsdóttir hv. þingmenn voru fjarverandi við afgreiðslu málsins svo og framsögumaður sem hér stendur.

Hv. þingmenn Skúli Helgason, varaformaður, Bjarkey Gunnarsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og Birgitta Jónsdóttir skrifa undir álit þetta.



[20:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég er ekki á þessu nefndaráliti vegna þess að ég var að sinna embættiserindum í útlöndum, en ég vil koma sérstaklega hingað upp til að vekja athygli á því að ég styðji þetta mál. Ég vil geta þess líka að annar sjálfstæðismaður sem situr í nefndinni skrifar undir þetta álit. Þetta er ekki mjög stór hópur sem við erum að ná í en það er afar eðlilegt að við tökum tillit til hans þegar við erum á þessu yfirgangstímabili varðandi breytingu á lögum um kennaramenntun og umhverfi kennaramenntunar.

Þetta er kannski líka það dásamlega við það sem við hjá löggjafarvaldinu getum gert. Við getum brugðist við mjög raunhæfum og eðlilegum óskum fólks þegar við stöndum fyrir ákveðinni stefnubreytingu í svona risamálum sem kennaramenntunin sem slík er. Alþingi allt, allir flokkar tóku þá að mínu mati mikilvægu pólitísku ákvörðun að efla kennaramenntun. Það var gert með því fyrst og fremst að lengja kennaramenntunina og líta til reynslu annarra landa, fyrst og fremst Finna sem eru með fimm ára kennaramenntun. Við litum til þeirra ekki síst vegna þess að þeir hafa verið að skora vel í öllum alþjóðlegum könnunum og það eru mjög margir sem benda á að við eigum í auknum mæli að líta til þeirra hvað ýmislegt varðar, iðn- og starfsnám og margt, margt fleira.

Við gerðum það hér á þinginu á sínum tíma með kennaramenntunina. Fyrst að ráðherra er hér í salnum vil ég sérstaklega brýna hann í þeirri umræðu sem við höfum oft tekið varðandi það hvernig við getum nýtt okkur lögin til þess að efla kennaramenntunina sem slíka.

Hér er ég ekki að fara út í umræðu varðandi launakjör kennara eða starfsumhverfið sem slíkt, það er alveg sérumræða sem skiptir miklu máli varðandi það hvernig við getum eflt kennaramenntun til lengri tíma, ekki bara til skemmri tíma. En ekki síður hitt, það er að fara yfir hvernig við skipuleggjum kennaranámið þá, hvernig kennaramenntun ætlum við skila. Við erum búin að fara yfir það og samþykkja að það verði fimm ára nám. Það er eitt mikilvægasta verkefni kennslumenntunarstofnana á háskólastigi núna á þessum tíma hvernig kennaramenntun þær eru að móta, hvort sem það er Háskólinn á Akureyri eða Háskóli Íslands. Því tel ég mikilvægt, án þess að hinu akademíska frelsi háskólanna sé raskað, að við, bæði ráðuneytið en líka við sem erum í allsherjar- og menntamálanefnd, eigum þetta samtal með háskólastofnununum þannig að menn átti sig á hverju þeir eru að ná fram þegar menn samþykkja svona stefnumótunar- og stefnumarkandi lög eins og það að efla kennaramenntun með því að lengja hana.

Ég sá það m.a. fyrir mér að hluti af þessum fimm árum væri starfsmenntun inni í skólunum, hvort sem það væri hálft ár eða eitt ár. Nemar færu þá inn í skólana í ríkari mæli og ég er alveg sannfærð um að sveitarstjórnarstigið mundi fagna slíkum breytingum og þar með efla fagfólk, hvort sem það er innan leikskólastigsins, sem er fyrsta skólastigið, eða grunnskólans.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa í tengslum við þetta. Þetta mál er fullkomlega eðlilegt. Við sjálfstæðismenn styðjum það eins og það er lagt fram hér og breytingartillögu hv. allsherjarnefndar um leið. Ég vildi vekja athygli á því að við þurfum að halda áfram umræðunni um hvernig við ætlum að efla kennaramenntunina í landinu og hvernig við getum gert það áfram saman, því við höfum verið nokkuð samhent í því máli. Þar verðum við að fá alla að borðinu, bæði háskólastofnanirnar, framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið en líka sveitarstjórnarstigið og svo náttúrlega heimilin og skólana sem slíka til þess að menn verði meðvitaðir um hvert við stefnum í þessu annars mikilvæga máli.



[20:40]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið fyrst til að þakka hv. þingmanni og nefndinni allri fyrir fínt samstarf í þessu máli, eins og þingmaðurinn nefndi. Þetta var brýnt réttlætismál sem þurfti að bregðast við og ég tek eindregið undir að það er ánægjulegt þegar löggjafinn getur leyst úr því, sem hann svo sannarlega getur gert með öllum þeim sveigjanleika sem hann hefur til að bregðast við ýmsum málum eins og þessu hér.

Ég vildi líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði um kennaramenntunina. Hún var menntamálaráðherra þegar þessi mikla breyting var leidd hér í gegnum þingið og það var þverpólitískur stuðningur við hana, ef ég man rétt. Ég held að það hafi verið samþykkt samhljóða af þinginu á þeim tíma að breyta tilhögun kennaranáms og lengja í fimm ár o.s.frv., með mjög háleitum og glæsilegum markmiðum sem ég efast ekkert um að muni ganga eftir og koma fram eftir því sem tíminn líður. Auðvitað hefur komið upp umræða um hvort það hafi verið farið of bratt í þetta og aðsókn að náminu minnki o.s.frv., en það er örugglega ekki ástæða fyrir því í sjálfu sér. Það kom upp umræða núna fyrr í haust um hvort það ætti að áfangaskipta náminu þannig að fólk fengi ákveðin starfsréttindi eftir þrjú ár og svo fullnustu eftir fimm ár. Því var ágætlega tekið bæði af sveitarfélögunum, fagstéttinni og öðrum og hæstv. menntamálaráðherra tók undir að það kæmi vel til greina.

Mig langaði að fá fram viðbrögð hv. þingmanns, sem þekkir afskaplega vel til menntamálanna almennt eins og ég nefndi áðan, við því hvort vænlegt sé að taka upp einhverja skýrari áfangaskiptingu út frá ýmsum rökum sem þingmaðurinn tæpti líka á sjálfur hérna áðan.



[20:42]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er afar mikilvægt mál og ég vil draga fram að hæstv. ráðherra hefur allan og fullan skilning á þessu. Ég var á fundi með hæstv. ráðherra, mjög skemmtilegum fundi sjálfstæðra skóla, þar sem hún dró mjög vel fram að ráðuneytið væri með þetta í ferli. Að starfshópar væru búnir að skila niðurstöðum í málinu þannig að menn eru mjög meðvitaðir að vinna að því að halda áfram að efla kennaramenntun, móta þetta nýja fyrirkomulag en taka líka á þeim vandkvæðum sem upp hafa komið við að samþykkja þessi lög. Það er bara sjálfsagt að líta til raunveruleikans eins og hann er í dag.

Um leið megum við ekki gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem við erum að gera til kennaramenntunarinnar og ég veit að fleiri eru mér sammála um það. Það er ekki að ástæðulausu sem við litum, allt Alþingi samhljóða á sínum tíma, m.a. til Finnlands þegar við ákváðum að breyta lögum um kennaramenntunina. Þetta er ferli sem tekur lengri tíma en eitt, tvö ár að móta og byggja upp. Ég veit að ef ráðuneytið er með heildaryfirsýn yfir þetta núna og áttar sig á við hvað er að etja að þá mun þetta mál enda vel. Sérstaklega ef við förum í þetta aukna samtal sem ég minntist á í ræðu minni, á milli þeirra aðila sem kennslustofnanirnar helst varðar, háskólanna, sveitarstjórnarstigsins, ríkisvaldsins, þar með talið löggjafarvaldsins, og heimilanna sjálfra í landinu.

Síðan er það náttúrlega líka hitt að sveitarstjórnarstigið sem og ríkisvaldið, með rekstri framhaldsskólanna, verður á endanum að viðurkenna það sem hluta inn í starfsréttindin sem slík hvað það þýðir að lengja kennaranámið. Þetta voru menn meðvitaðir um á sínum tíma en menn reyndu að sjá heildarhagsmunina. Heildarhagsmunirnir okkar eru þeir að við höfum hér öfluga og ánægða kennara sem skila sínu starfi þannig að (Forseti hringir.) að við fáum öflugri nemendur sem munu standa sig í alþjóðlegri samkeppni.