141. löggjafarþing — 56. fundur
 19. desember 2012.
menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, frh. 2. umræðu.
frv. allsh.- og menntmn., 190. mál (afnám frests til að sækja um leyfisbréf). — Þskj. 193, nál. m. brtt. 504.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:20]

[11:17]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tildrög þessa máls eru þau að nefndinni bárust ábendingar frá nemendum í námi til B.Ed.-gráðu til kennaramenntunar og luku námi sínu fyrir 1. júlí 2012 en gættu þess ekki að sækja um leyfisbréf samkvæmt þargildandi lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir þann tíma. Nefndin ákvað samhljóða að flytja lagafrumvarp sem fellir á brott frest til að sækja um leyfisbréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þess í stað er lagt til grundvallar að þeir sem hafi byrjað fullgilt kennaranám samkvæmt námsskipulagi eldri laga um lögverndun þessa náms eigi rétt á útgáfu leyfisbréfs og sé sá réttur ótímabundinn hafi þeir lokið náminu fyrir 1. júlí 2012 og svo bætum við við þeim sem hefðu lokið námi fyrir þann tíma eða hefðu við lok vormissiris 2011 átt 30 einingum eða færri ólokið til prófs. Þetta kemur til móts við hóp fólks sem stundaði þetta nám (Forseti hringir.) en hefði ekki fengið réttindi út af því að það sótti ekki um leyfi áður en fresturinn rann út.



[11:18]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál finnst mér vera dásamlegt dæmi um hvernig þingið kemur til móts við ákveðinn hóp fólks sem tímabundið á í vanda vegna þess að allir stjórnmálaflokkar á þingi stóðu á sínum tíma fyrir því að reyna að efla kennaramenntun með því að lengja hana í fimm ár. Hins vegar vil ég brýna okkur, ráðherra og ekki síst þá sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd, að eiga það samtal sem þarf um það hvernig við viljum að þróun og efling kennaramenntunar verði, hvernig við ætlum að sjá þessum fimm árum varið innan háskólanna. Ég vil gjarnan að það samtal verði milli ráðherra, þingsins, sveitarstjórna, heimila og kennara. Hvernig getum við stuðlað að því að efla kennaramenntun og styrkja þar með kennsluhætti í landinu? Ég hefði til að mynda kosið að hluti af þessum fimm árum færu í starfsnám í skólunum. Þetta samtal á hins vegar eftir að fara fram og ég vonast til að ráðherra hafi frumkvæði að því.



Brtt. í nál. 504 samþ. með 50 shlj. atkv.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 51 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 50 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.