141. löggjafarþing — 56. fundur
 19. desember 2012.
svæðisbundin flutningsjöfnun, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 459. mál (gildistími og framkvæmd styrkveitinga). — Þskj. 583, nál. 739.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:12]

[12:07]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um framlengingu á svæðisbundinni flutningsjöfnun. Þetta er mjög mikilvægt byggðamál og er til að jafna samkeppnisaðstöðu útflutningsfyrirtækja á landsbyggðinni sem eru langt frá útflutningshöfnum. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum áfram á þessari vegferð og styrkjum þetta enn frekar. Þarna hafa bæst við önnur svæði á norðausturhorninu en ég tel mikilvægt að við höldum áfram og komum líka að þessum málum varðandi almenning í landinu varðandi flutningsjöfnun.



[12:08]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál. Það var á sínum tíma borið fram af hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Árni Páli Árnasyni og hann á að fá heila þökk fyrir það.

Þetta mál hefur auðvitað verið mjög lengi til umræðu. Menn hafa verið í vandræðum með að finna leiðir til að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Auðvitað getur menn greint á um einstök útfærsluatriði og þess háttar en aðalatriðið finnst mér vera að þetta skref skuli þó vera stigið til að reyna að lækka flutningskostnað sem er mjög sligandi. Það á sérstaklega við hjá þeim byggðum sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu og þurfa að sækja þangað þjónustu og selja þangað framleiðsluvörur sínar eða senda til útflutningshafnarinnar í Reykjavík. Sérstaklega á þetta auðvitað við þau svæði sem búa við lélegar samgöngur þar sem hlutfallslegur flutningskostnaður er enn þá meiri.

Hér er einnig verið að leggja til að færa umsýslu þessa máls úr ráðuneytinu inn í Byggðastofnun. Það tel ég líka vera eðlilegt skref. Það er eðlilegra að undirstofnun ráðuneytisins haldi utan um þessa hluti.



[12:09]
Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er um framfaraskref að ræða í þágu atvinnulífs í þeim byggðarlögum sem eru hvað fjærst suðvesturhorni landsins. Þegar það mál kom hingað inn í þingið þá einskorðaðist 20% endurgreiðslan við Vestfirði en við meðhöndlun Alþingis var norðausturhorn landsins einnig sett í þann flokk, sem er mjög mikilvægt. Það eru reyndar ákveðin vonbrigði varðandi framlagninguna að skera eigi niður fjármuni til þessa verkefnis núna þegar við erum rétt að hefja það, en betur má ef duga skal og ég hef fyrir hönd okkar framsóknarmanna lýst yfir miklum áhuga á því að efla verkefnið með þá a.m.k. óbreyttum fjármunum en ekki skertum.

Síðan bendi ég á að það eru fleiri landsvæði eins og suðausturhorn landsins sem eru mjög langt frá höfuðborgarsvæðinu og þyrftu einnig að fá stuðning, því við viljum styðja við atvinnulíf (Forseti hringir.) í þessum byggðarlögum.



[12:10]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er jákvætt mál, ef við meinum eitthvað með byggðastefnu, að koma til móts við þau svæði sem eru hvað lengst frá aðalhöfnum og höfuðborgarsvæðinu. Við ættum auðvitað að setja meiri fjármuni í þetta verkefni. Ég hafði orð á því í fyrra að mér þætti þetta sérkennilegt verkefni og þá virtist vera að því væri stýrt af ákveðnum hagsmunum innan ríkisstjórnarinnar, hvar svæðin væru. Nú er búið að laga það til með því að setja norðausturhornið inn. Enn skortir hins vegar verulega á að menn horfi á þær byggðir sem menn hafa verið að skilgreina sem veikar byggðir á landinu og liggja mjög langt frá eins og t.d. svæðið í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu. Það er gríðarlega langt frá öllum aðalinnflutningshöfnum og ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að sú skilgreining sem miðast við 390 kílómetra hefði líka verið skilgreind út frá byggðastyrkleika svæðanna og fjarlægðum, þetta væri tengt. Ég tek undir að þetta er jákvætt (Forseti hringir.) mál en við þurfum að halda áfram á þessari braut ef við meinum eitthvað með því að hér sé byggðastefna.



[12:11]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Líkt og hv. þm. Árni Páll Árnason er ég þingmaður Suðvesturkjördæmis en fagna þessu máli eindregið og tel það eins og aðrir hér mjög mikilvægt. En ég vil árétta tvennt, sem framsögumaður málsins í umhverfis- og samgöngunefnd, því að málið lýtur einungis að tvennu.

Annars vegar fer umsýsla þessara styrkja og umsókna til Byggðastofnunar frá ráðuneytinu og svo er lagt til að gildistími laganna miðist við byggðakort ESA eða 31. desember 2013. Það er í rauninni það sem við erum að samþykkja hvað þetta mikilvæga og brýna mál varðar.



 1. gr. samþ. með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  BJJ,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GBS,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KJak,  KaJúl,  LRM,  LMós,  LGeir,  MSch,  OH,  ÓÞ,  PHB,  RM,  SDG,  SER,  SII,  SIJ,  SF,  SkH,  SJS,  SSv,  TÞH,  UBK,  VigH,  ÞKG,  ÞBack,  ÖJ.
8 þm. (ÁJ,  ÁsbÓ,  BÁ,  GÞÞ,  IllG,  MT,  SÁA,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁI,  ÁRJ,  BirgJ,  BjarnB,  GStein,  HHj,  HöskÞ,  JónG,  KÞJ,  KLM,  MÁ,  REÁ,  RR,  VBj,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

 2.–3. gr. samþ. með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  BJJ,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GStein,  GBS,  HHj,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  LMós,  LGeir,  MSch,  OH,  ÓÞ,  PHB,  RM,  SDG,  SER,  SIJ,  SF,  SkH,  SJS,  SSv,  TÞH,  VigH,  ÞBack,  ÖJ.
10 þm. (ÁJ,  BÁ,  GÞÞ,  IllG,  MT,  REÁ,  SÁA,  UBK,  ÞKG,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
14 þm. (ÁI,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BirgJ,  BjarnB,  HöskÞ,  JónG,  KLM,  MÁ,  RR,  SII,  VBj,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.