141. löggjafarþing — 58. fundur
 20. desember 2012.
afnám gjaldeyrishafta.

[10:32]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir fáeinum dögum var utanríkisráðherra okkar á ríkjaráðstefnu í Brussel að ræða Evrópusambandsmálin. Eftir þann fund birtist okkur einu sinni enn hversu mjög ríkisstjórnin er klofin í afstöðu sinni til nokkurra grundvallarmála, sérstaklega þess hvernig við losnum við gjaldeyrishöftin. Gjaldeyrishöftin eru eitt af stórum viðfangsefnum okkar á sviði efnahagsmála og það skiptir verulega miklu hvernig menn ætla að nálgast lausn á þeim vanda.

Hæstv. utanríkisráðherra kom með þau skilaboð að Evrópusambandið mundi með einhverjum hætti aðstoða okkur, hjálpa okkur við að losna undan snjóhengjunni. Það stendur upp á ríkisstjórnina og ég vil bera það undir hæstv. forsætisráðherra að svara því hvernig þetta eigi nákvæmlega að gerast. Er verið að tala um að Evrópusambandið ætli að lána fjármuni til að við getum greitt kröfuhöfum út? Er verið að tala um faglega aðstoð, tæknilega aðstoð? Hvers konar aðstoð er verið að tala um? Hvers vegna og hvernig ættu viðræður okkar við Evrópusambandið eða möguleg aðild að Evrópusambandinu í framtíðinni að létta af okkur þessum vanda eða leysa hann þannig að hann gufi bara upp fyrir framan augun á okkur? Er ekki dálítið langsótt að halda því fram að einhver utan Íslands muni leysa vandann? Er ekki dálítið langsótt að halda því fram að Evrópusambandsviðræður eða -aðild muni gera vandann að engu?

Það skortir algerlega að útskýrt sé fyrir þinginu og fyrir þjóðinni hvernig þetta ætti mögulega að geta gerst þannig að menn komist til botns í því hvort þetta eru nokkuð annað en orðin tóm. Ég kalla einnig eftir því frá hæstv. forsætisráðherra að það komi skýr lína frá ríkisstjórninni um það hvort ríkisstjórnin sé á þeirri leið (Forseti hringir.) að reyna að leysa vandann með inngöngu í Evrópusambandið eða öðrum hætti vegna þess að menn tala hver í sína áttina.



[10:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í morgun barst mér bréf frá nefnd um afnám gjaldeyrishafta sem skipuð er fulltrúum þingflokka og snertir nákvæmlega það mál sem hv. þingmaður nefnir. Ég vænti þess að hann hafi fengið sambærilegt bréf þar sem óskað er eftir fundum með formönnum stjórnmálaflokkanna um tvennt, um gjaldeyrishöftin og hvernig standa eigi að áætlunum um losun gjaldeyrishaftanna og um stöðuna í nauðasamningum og hvernig best sé að fara í uppgjör á þeim. Nefndin er skipuð fulltrúum allra þingflokka og óskar eftir fundi með formönnum flokkanna til að fara yfir þessi mál og ég fagna því. Ég tel eðlilegt að fulltrúar stjórnmálaflokkanna komi að þessu máli eins og gert hefur verið í nefndinni og nú með því að formenn stjórnmálaflokkanna komi einnig að málinu til að fara yfir stöðuna.

Það er mikilvægt ef hægt er að ná samstöðu um það hvernig hægt er að standa að afnámi gjaldeyrishaftanna og ekki síður uppgjöri á þrotabúunum. Ég tel brýnt að fundur verði haldinn með formönnum flokkanna nú fyrir jólin, og er reyndar farið fram á það í bréfinu. Ég tel því eðlilegt að við reynum að ná samstöðu um að boða til slíks fundar á morgun þar sem við getum farið yfir málin.

Hv. þingmaður nefndi að það hefði komið fram að ESB er tilbúið að veita okkur þá aðstoð sem hægt er við afnám gjaldeyrishaftanna, og ég held að það sé bara hið besta mál að fara yfir það. Ég hef litið svo á að fyrst og fremst sé um faglega og tæknilega aðstoð að ræða (Forseti hringir.) sem þarna er í boði.



[10:36]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna því að sú leið hafi verið valin varðandi afnám haftanna að reyna að leiða saman þingflokkana og finna sameiginlega lausn á vandanum. Til þess hefur þessi nefnd verið að störfum og nú færist það yfir til formanna flokkanna. Ég mun að sjálfsögðu taka virkan þátt í því.

Eftir stendur þessi vandi: Annar stjórnarflokkurinn talar fyrir því að höftin verði ekki afnumin nema með inngöngu í Evrópusambandið. Hinn stjórnarflokkurinn er fullur efasemda um að þörf sé á því. Nú kemur utanríkisráðherra frá Brussel og segir: Ég hef fengið enn frekari staðfestingu á því að Evrópusambandið ætlar að hjálpa okkur við afnám haftanna.

Málið hvílir eins og mara á þjóðinni. Við erum föst í höftum þannig að það er ekki nema von að menn spyrji: Hvað á utanríkisráðherra við? Er það virkilega svo að Evrópusambandið ætli að losa okkur undan höftunum? Þegar kíkt er undir yfirborðið og athugað hvað býr að baki er það líklega, eins og forsætisráðherra segir, fagleg aðstoð og góð ráð. Það eru góð ráð sem við fáum frá Evrópusambandinu. Það er allt og sumt.



[10:37]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég tel enga ástæðu til að fúlsa við góðum ráðum frá Evrópusambandinu, hvaða skoðun sem menn annars hafa á því, um afnám haftanna og fá hjá þeim fagleg og tæknileg ráð í því efni. Eins og ég skildi málin í gær hafði það komið skýrt fram að ekki er hægt að ganga í Evrópusambandið meðan höftin eru við lýði. Ég tel mikilvægt að við reynum að ná samstöðu um að losa þau sem fyrst, en það er alveg ljóst að það að höftin eiga að afnemast eftir ár hefur haft þau áhrif að hægar hefur gengið að losa um snjóhengjuna, sem við þurfum að gera. Menn eru að bíða eftir því að komast út með þessa fjármuni af því að svo skammur tími er til stefnu samkvæmt því frumvarpi sem var samþykkt á þingi um að höftin yrðu losuð. Þetta þurfum við að fara yfir allt saman, vonandi á fundi á morgun með formönnum stjórnarflokkanna og fulltrúum þingflokkanna sem sitja í nefnd um afnám gjaldeyrishaftanna.