141. löggjafarþing — 58. fundur
 20. desember 2012.
opinber stuðningur við vísindarannsóknir, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 198. mál (sameining og skipulag sjóða, markáætlun o.fl.). — Þskj. 201, nál. m. brtt. 757.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:03]

[16:02]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með frumvarpinu er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir og nafni Tækjasjóðs breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo að hann geti styrkt aðra innviði rannsókna og jafnframt verði fagráði Innviðasjóðs komið á laggirnar.

Það er álit nefndarinnar að þetta verði mjög til að styrkja nýsköpunar-, vísinda- og tæknistarf í landinu. Mjög ánægjulegt er að náðst hefur að ljúka vinnunni við þetta mál þannig að lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir breytist með þessum hætti svo að samræmi og samspil ólíkra sjóða á sama sviði verði sameinaðir og kraftarnir nýttir þannig.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem er framsögumaður málsins og hafði veg og vanda af því að leiða vinnuna við þetta flókna, mikla og mikilvæga mál í nefndinni, og öðrum nefndarmönnum fyrir hvað vel og hratt gekk að ljúka vinnunni við málið þannig að það geti orðið að lögum núna fyrir áramót.



[16:02]
Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. málsins þegar það kom inn í þingið gerði ég tvær athugasemdir sem sneru annars vegar að mikilvægi þess að vanda sig mjög vel við val á þeim verkefnum eða þeim áherslum sem við vildum hafa í sambandi við markáætlanir og hins vegar að það þyrfti að gæta sín, bæði til að tryggja í raun opinn aðgang og að ekki sé komið í veg fyrir að okkar færustu vísindamenn geti fengið að birta greinar sínar í bestu tímaritum heims. Það er sannfæring mín miðað við meðferð málsins og þær upplýsingar sem við höfum fengið frá menntamálaráðuneytinu að menn ætli að gæta vel að því. Þess vegna tel ég rétt að styðja málið.



 1. gr. samþ. með 41 shlj. atkv.

 2.–4. gr. samþ. með 40 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 757 samþ. með 41 shlj. atkv.

 5.–6. gr., svo breyttar, samþ. með 40 shlj. atkv.

 7.–8. gr. samþ. með 39 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.