141. löggjafarþing — 60. fundur
 21. desember 2012.
barnalög, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 476. mál (frestun gildistöku o.fl.). — Þskj. 614, nál. m. brtt. 821 og 831.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[20:51]

[20:40]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um að mörgu leyti einfalt en erfitt mál. Það eru ákveðin lagatæknileg og samræmingarmál varðandi orðalag og síðan einnig um það að við frestum gildistöku þessara laga. Upphaflega var lagt til að við mundum fresta gildistökunni um sex mánuði en nefndin telur eðlilegt að við styttum frestunina og höfum hana einungis þrjá mánuði. Staðan er þannig að því miður virðist kerfið ekki vera tilbúið og hugsanlega vantar fjármagn til að mikilvægur þáttur þessara laga geti orðið að veruleika. Til að jafnviðkvæmur málaflokkur og barnalög eru lendi ekki í neinum réttarfarslegum vandræðum leggjum við því til að fresta gildistökunni til 1. apríl 2013.

Þó að við hefðum gjarnan viljað að það væri ekki gert teljum við annað óábyrgt.



[20:41]
Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp er í raun og veru tvískipt. Fyrstu þrjár greinarnar eru sjálfsagðar og fjalla um samræmingaratriði í lögunum.

4. gr. er hins vegar verulega umdeilanleg. Í henni er fjallað um að fresta mjög mikilvægum réttarbótum en við samþykktum einróma 19. júní sl. að fresta gildistöku þeirra til 1. júlí, um sex mánuði. Ég tel það skapa verulega réttaróvissu að spila svona hringlandaleiki með gildistökuákvæði af þessu tagi og á svo veikum rökum sem raun ber vitni.

Því er haldið fram að ákveðið þjónustuform sem lögin kveða á um sé ekki til. Ég held því fram að það sé rangt. Það er verið að veita þjónustu í samfélaginu í dag sem heitir sáttameðferð. Það er vel hægt að veita hana 1. janúar, það er verið að veita hana núna og það er hægt að veita hana 1. júlí. Það er fullkomlega ástæðulaust að fresta á þessum grunni gildistöku þessara mikilvægu ákvarðana með tilheyrandi óvissu fyrir fólk (Forseti hringir.) í landinu.

Ég mæli með því að fólk samþykki breytingartillögu okkar hv. þm. Unnar Brár og Eyglóar Harðardóttur. [Hlátur í þingsal.]



[20:42]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Breytingartillagan er sem sagt frá hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni.

Já, ég get stutt fyrstu þrjár greinar þessa frumvarps sem eru um orðalagsbreytingar og lagfæringar á lögunum en ég get ekki fallist á það að fresta þessum lögum sem taka eiga gildi nú um áramót. Það hafa ekki verið færð fram rök fyrir því. Það var forsenda þess að við stæðum öll saman í velferðarnefnd og hér í þessum þingsal um breytingarnar á barnalögunum að því yrði fylgt eftir að sáttameðferðin tæki gildi. Ríkisstjórnin lætur það ekki birtast í fjárlagafrumvarpinu og hafnar því þar með að nefndir þingsins vinni saman með þessum hætti.

Ég get ekki samþykkt þetta vinnulag. Í þessum lögum sem taka gildi um áramótin eru mikilvæg ákvæði um réttindi barna, foreldra og annarra aðstandenda. Þar eru ákvæði um skilgreiningu á inntakinu á sameiginlegri forsjá og ég held að það séu meiri rök fyrir því að lögin taki gildi en að bíða (Forseti hringir.) með þetta í heild sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[20:44]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Á þessu kjörtímabili hefur þingmönnum orðið tíðrætt um að mikilvægt sé að efla sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég tek undir það.

Í þessu máli hvet ég þingheim til að styðja breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar. Ef sú breytingartillaga sem hv. þingmenn hafa talað fyrir í ræðustól rétt á undan mér nær fram að ganga munu lögin taka gildi nú þegar en ekki koma til framkvæmda og skapa þannig mikla óvissu í kerfinu. Samkvæmt lögunum sem þá mundu taka gildi, ef þið samþykkið breytingartillögu hv. þingmanna, verður ekki hægt að krefjast úrskurða eða fara í mál í forsjármálum því að það verður aðeins hægt að undangenginni formlegri sáttameðferð og útgefnu vottorði þar um. Slík formleg sáttameðferð er ekki til staðar í dag (Forseti hringir.) og engin slík vottorð eru útgefin. Ég bið þingmenn að sýna ábyrgð því að sjálfstæði fylgir (Forseti hringir.) ábyrgð.



[20:45]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Barnalögin kveða á um verulegar réttarbætur fyrir börn á Íslandi, mannréttindabætur. Tilteknir þættir þessara laga kalla á peninga. Það er talið að það muni kosta um 60 millj. kr. á ári að framfylgja þessum lögum. Alþingi hefur samþykkt 30 millj. kr., helminginn af þessari upphæð. Þess vegna er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí þannig að þau gildi hálft árið og við séum ekki að útvatna framkvæmdina.

Það er það sem þessi atkvæðagreiðsla stendur um, hvort við ætlum að standa að baki lögunum þannig að það sé innstæða fyrir þeim réttarbótum sem við ætlum að veita íslenskum börnum. Um það fjallar þessi atkvæðagreiðsla nú.



[20:46]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Má þá skilja orð hæstv. ráðherra þannig að það hafi engin innstæða verið fyrir því að samþykkja breytinguna á barnalögunum á síðasta þingi?

Frú forseti. Í núgildandi lögum er ákvæði um sáttameðferð. Sýslumenn þekkja þetta ferli og þá er framkvæmdarvaldsins að fylgja því sem Alþingi ákveður hér. Það er þingið sem setur lögin og framkvæmdarvaldið framkvæmir þau. Ef vilji er fyrir hendi er þetta hægt og ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til dáða í því efni og vonast til þess að barnalögin taki gildi nú um áramótin. Má þetta vera mönnum til þess lærdóms að ráðuneytin í landinu, framkvæmdarvaldið, hefjist þegar í stað handa að undirbúa lagabreytingartillögur sem afgreiddar eru frá Alþingi og sýni okkur, löggjafarsamkundunni, ekki það virðingarleysi (Forseti hringir.) að framkvæma ekki vilja Alþingis.



[20:47]
Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er veitt sáttameðferð í dag. Sérfræðingar á vegum sýslumannsembætta um allt land veittu árið 2009 175 pörum sáttameðferð, það árið eingöngu. Það sem greinin gengur út á er að sáttameðferð verði skylda og að foreldrar geti leitað hennar hjá sýslumönnum eftir sem áður og hjá öðrum aðilum. Aðilar á einkamarkaði bjóða viðurkennda sáttameðferð. Það eina sem gerist ef lögin taka gildi 1. janúar 2013 er að mikilvægar réttarbætur taka gildi eins og við sögðum að þær ættu að gera og foreldrar munu fá sáttameðferð. Það er það sem gerist.

Varðandi kostnaðinn nefnir hæstv. innanríkisráðherra upphæðina 60 milljónir. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með þessu frumvarpi sem hæstv. innanríkisráðherra leggur fram er kostnaðarmat upp á 35–40 milljónir. Hvort eigum við að taka trúanlegt? Fjárlagaskrifstofa ráðuneytisins segir 35–40 milljónir (Forseti hringir.) og það liggur fyrir að til þessara verkefna eru samkvæmt greinargerð frumvarpsins til 30 milljónir.



[20:49]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við samþykktum barnalög á síðasta þingi. Við samþykktum þá að setja inn sáttameðferðina og það er tvennt við þessa atkvæðagreiðslu.

Ég tek undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, hæstv. ráðuneyti innanríkismála hefur vitað af þessari samþykkt frá því í júní. (Gripið fram í: Rétt.) Ef það hefur ekki hafist handa við að vinna eftir samþykkt Alþingis verður það sjálft að eiga við þá vinnuferla sem þar ríkja.

Það er hins vegar óásættanlegt að hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson lýsi því yfir á fundi úti í bæ að til standi að fresta gildistöku þessara laga áður en frumvarp þar að lútandi er komið inn í þingið, eða þingið yfir höfuð spurt, og draga þannig úr allri vinnu sem er innan kerfisins. Þetta vinnuferli er óásættanlegt. Ég hvet (Forseti hringir.) þingheim til að samþykkja að þessi lög taki gildi þann 1. janúar 2013. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[20:50]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að fjalla um og greiða atkvæði um barnalög. Það er rétt að til er sáttameðferð í landinu en við höfum leitt í lög að það þurfi að fara fram formleg sáttameðferð og gefa út vottorð um slíkt áður en hægt er að óska eftir úrskurði eða fara í forsjármál. Útfærsla slíkrar formlegar sáttameðferðar hefur ekki verið kláruð. Þar af leiðandi verður ekki hægt að veita hana og veita vottorð þannig að lömun mun skapast í kerfinu hvað þessi mál varðar. (Gripið fram í: Nei, nei.)



 1. gr. samþ. með 49 shlj. atkv.

 2.–3. gr. samþ. með 50 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 831 (ný 4. gr.) samþ. með 26:24 atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  BÁ,  BirgJ,  BJJ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  IllG,  JónG,  KÞJ,  LMós,  MT,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SIJ,  SF,  UBK,  VigH,  ÞKG,  ÞSa.
nei:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BVG,  GuðbH,  GLG,  HHj,  JóhS,  JRG,  KJak,  KLM,  LGeir,  MSch,  MÁ,  OH,  SER,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÖJ,  ÖS.
13 þm. (ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BjörgvS,  HöskÞ,  JBjarn,  KaJúl,  LRM,  ÓÞ,  SÁA,  SkH,  TÞH,  ÞBack) fjarstaddir.
8 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[20:52]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hvet þingmenn til að fella þessa tillögu. Ef það verður gert kemur til atkvæða breytingartillaga frá meiri hluta velferðarnefndar sem kveður á um að gildistöku laganna verði frestað til 1. apríl en ekki 1. júlí eins og kveðið er á um í frumvarpinu enda erum við öll sammála um að mikilvægar réttarbætur í þessum lögum eigi að taka gildi sem fyrst. (Gripið fram í.)

Felli þingheimur þessa tillögu gefst tækifæri til að tryggja að lögin taki gildi að einum ársfjórðungi liðnum.



[20:53]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu okkar Eyglóar Harðardóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur um að 4. gr. frumvarpsins falli brott og þar með verði horfið frá því að fresta gildistöku laga sem við samþykktum í júní sl.

Við samþykktum í júní 2012 mjög merkilegar lagabreytingar á barnalögum. Þær fela í sér miklar réttarfarsbreytingar sem almenningur í þessu landi, fólk sem á jafnvel í erfiðum forræðismálum, treystir á að taki gildi þann dag sem við sögðum að þær tækju gildi. Við eigum ekki að hringla með slíkar dagsetningar nema verulega traust rök séu fyrir því.

Þetta frumvarp kom seint inn í þingið og í frekar takmarkaðri yfirferð velferðarnefndar hafa ekki komið fram sterk rök fyrir því að við eigum að fresta þessari gildistöku. Það er vel hægt að bjóða formlega sáttameðferð, það er þegar verið að því, (Forseti hringir.) og hvorki himinn né jörð hrynur 1. janúar 2013 þótt þetta taki gildi.



[20:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hvet til þess að þessi breytingartillaga verði samþykkt. Ég minni þá hv. þingmenn sem enn eru ekki sannfærðir í þessu máli á að það er starfrækt sáttameðferð hjá ýmsum aðilum víðs vegar um landið. Það hefur verið starfrækt öflug og markviss sáttameðferð og þar með hefur dómum í forsjármálum fækkað. Hér náum við því jafnframt fram, verði þessi tillaga samþykkt, að lögin í heild taki gildi varðandi skilgreiningu á réttindum barns, almennt um inntak sameiginlegrar forsjár, um forsjá og sambúðarforeldra, dóma um forsjá og lögheimili barns o.fl. þannig að hér eru mörg mikilvæg ákvæði. Hefði ráðuneytið viljað fresta því að sáttameðferðin tæki gildi hefði einfaldlega verið hægt að leggja til að þeim ákvæðum yrði frestað (Forseti hringir.) en það var ekki gert.



[20:56]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Hvernig væri til tilbreytingar að Alþingi væri sjálfu sér samkvæmt? Alþingi sjálft ákveður peningavaldið í þessum efnum og Alþingi sjálft hefur kveðið upp úr með að ekki séu til nægir peningar til að framfylgja þessum lögum. (Gripið fram í: Bætum bara í …) Það er staðreynd málsins. Fylgjum því innihaldi þess sem Alþingi hefur kveðið upp úr með og segjum já.

Innihald þessara laga tekur gildi í samræmi við það sem Alþingi sjálft hefur sagt. Þetta snýst ekki um baráttu Alþingis við framkvæmdarvaldið heldur baráttu Alþingis við sjálft sig. Alþingi sjálft hefur sagt hvað það vill í þessum efnum með því að láta peningana tala.

Ég styð breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar af því að hún byggir á ábyrgð í samræmi við það sem Alþingi hefur sagt.



[20:57]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn til að styðja þessa tillögu. Það eru mörg tækifæri til að óska eftir frekari fjárframlögum til að koma til móts við þær lagabreytingar sem Alþingi samþykkti (Gripið fram í.) fyrir þó nokkru. (Gripið fram í: Hvað kostaði ekki …?)

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar sem við treystum á við afgreiðslu fjölmargra frumvarpa kemur fram, eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, að verið er að tala um 35–40 milljónir. Þegar óskað var eftir upplýsingum við meðferð þessa máls um hvort fyrir lægi kostnaðaráætlun fékk nefndin þær upplýsingar að þær lægju ekki fyrir. Það eina sem við höfum til að byggja á er þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Alþingi er þegar búið að samþykkja að setja 30 milljónir í þetta og ég efast ekki um að Alþingi muni bregðast mjög jákvætt við ef það kemur í ljós að það er nauðsynlegt að setja (Forseti hringir.) meiri peninga í þetta. (Gripið fram í.)



[20:58]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari breytingartillögu í trausti þess að breytingartillaga meiri hlutans fáist samþykkt ef þessi tillaga verður felld. Ég tel ekki fært að fresta gildistöku um hálft ár eins og lagt er upp með í frumvarpinu.



[20:59]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel að við eigum heldur að gleðjast yfir þeim árangri sem við erum að ná með þessum lögum en að setja á miklar deilur. Í raun er ágreiningur um þrjá mánuði og ég tel að þegar rök eru vegin og metin sé sá ágreiningur ekki mikilsverður. Hálft ár er langur tími og ég tel að í þeim málum sem kunna að koma til álita á þessum tíma verði horft á það sem gerist í framtíðinni og ekki þann bókstaf sem gildir hverju sinni þannig að ég ætla að greiða atkvæði með breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar og hvet menn til að vera glaðir í sinni.

Jólin eru að koma og nú eiga börnin að skemmta sér.



[20:59]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er að sönnu mikilvægt að lög taki gildi en það er þeim mun mikilvægara að þau geti komist til framkvæmda á gildistökudeginum.

Samþykkt þessarar tillögu frá hv. minni hluta í velferðarnefnd þýðir að nýja kerfið sem við öll bundum svo miklar vonir við verður andvana fætt og skapast mun mikil réttaróvissa og óöryggi fyrstu mánuðina á nýju ári.

Mér þykir það miður. Ég tók þátt í því sem formaður velferðarnefndar á síðasta ári að það náðist þverpólitísk sátt um þetta nýja kerfi. Ég veit að miklar vonir eru bundnar við það. Þess vegna finnst mér miður að það sé eyðilagt áður en það kemur til framkvæmda. [Kliður í þingsal.] Ég bið menn að vera raunsæir og meta stöðuna eins og hún er skýrð fyrir okkur. Ég hef ekki forsendur til annars (Forseti hringir.) en að trúa því.



Brtt. í nál. 821 kom ekki til atkv.

 5. gr. samþ. með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BÁ,  BirgJ,  BJJ,  BjarnB,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HHj,  IllG,  JóhS,  JónG,  JRG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LMós,  LGeir,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SER,  SIJ,  SF,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (SII) greiddi ekki atkv.
14 þm. (ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BjörgvS,  HöskÞ,  JBjarn,  KaJúl,  LRM,  ÓÞ,  PHB,  SÁA,  SkH,  TÞH,  ÞBack) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.