141. löggjafarþing — 64. fundur
 14. janúar 2013.
olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:15]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í þessum mánuði skrifaði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon undir samning um sérleyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni, olíuleit á Drekasvæði. Blekið var varla þornað á pappírunum þegar hæstv. ráðherra fór að draga í land, svo að vægt sé til orða tekið, um það hvaða leyfi væri verið að veita þarna, hvort það væri til rannsókna eða til tilraunaborana og vinnslu á Drekasvæðinu. Það vill svo til að þetta er ekki neitt óskýrt vegna þess að í tilkynningu frá Orkustofnun og bréfi sem er undirritað af Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra segir, með leyfi forseta:

„… veitir Orkustofnun hér með sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis innan þess svæðis sem tilgreint er í 2. kafla fylgiskjals“ — og svo framvegis.

Hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna lætur hafa eftir sér að nú sé kominn tími til að taka þetta mál til alvarlegrar umræðu innan Vinstri grænna. Hæstv. menntamálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Nú þegar það lítur út fyrir að það gæti orðið einhver alvara úr þessu er full ástæða til þess að staldra við og ræða það inni í flokknum. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi, til dæmis vegna hinnar skattalegu umgjarðar.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki fullseint að taka umræðuna innan flokksins núna um hvort leyfa eigi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Ef olía finnst er það alveg skýrt samkvæmt þeim samningi sem hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir að þau fyrirtæki sem um ræðir fá leyfi til vinnslu þar. Orkumálastjóri hefur jafnvel látið þess getið að um skaðabótaskyldu gæti verið að ræða af hálfu íslenskra stjórnvalda ef farið yrði á svig við samninginn. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki fullseint í rassinn gripið? (Forseti hringir.) Ætla Vinstri grænir að fara að taka umræðuna núna eftir að búið er að skrifa undir samninginn?



[15:17]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svar mitt við því hvort of seint sé að taka umræðuna er að það er aldrei of seint að taka umræðu um nokkurn skapaðan hlut, ekki síst þegar um er að ræða stórmál á borð við hvert við stefnum í orkuvinnslu og orkunýtingu til framtíðar litið. En eins og fram kom, að ég held í sama viðtali og hv. þingmaður vitnaði til, þá höfum við í flokki mínum, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, tekið þátt í þeim lagabreytingum sem hafa verið gerðar á þessu kjörtímabili á skattalegri umgjörð þessara leyfa og alls staðar í þeim breytingum hefur komið fram í greinargerðum að gæta skuli ýtrustu varúðarsjónarmiða út frá umhverfisþáttum og öðrum þáttum þegar kemur að þessu máli.

Ástæða þess að ég ræddi þetta við þann fjölmiðil sem hv. þingmaður vitnaði til er að mér finnst mjög eðlilegt, ef menn sjá núna fram á að olíuvinnsla kunni að vera raunhæfur kostur fyrir Íslendinga til lengri tíma litið, að efna í auknum mæli til opinnar umræðu í samfélaginu, einnig hvað varðar hagsmuni okkar sem fiskveiðiþjóðar því að það skiptir auðvitað miklu máli að við skoðum þau sjónarmið, og þó að við höfum slegið þá fyrirvara að ýtrustu varúðarsjónarmiða skuli gætt getur málefnið hins vegar alltaf verið viðkvæmt. Við þekkjum auðvitað umræðuna í Noregi sem hefur verið svipuð um Lófóten þar sem eru gjöful fiskveiðimið.

Ég tel hins vegar, samhliða því að við fylgjumst með hvernig þeim loftslagsmarkmiðum sem hafa verið sett fram á alþjóðavettvangi reiðir af, fulla ástæðu til þess að við séum með stefnu okkar í stöðugri endurskoðun og endurmati. Það er mín skoðun og tel ekki að nein ósamkvæmni felist í því mati.



[15:19]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Aldrei of seint, segir hæstv. menntamálaráðherra. Nú ítreka ég það sem ég sagði áðan: Það er búið að skrifa undir samning. Hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir samning fyrir hönd íslenska ríkisins. Það vill svo til að hann er líka formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þannig að það hefði verið leikur einn fyrir hann að draga þá undirskrift á langinn ef hann teldi að þessi stefna væri ekki sú sem flokkur hans stæði fyrir. Ég vek athygli á því, eins og fram hefur komið í fréttaskýringum, að þetta eru engir smáfjármunir. Þau fyrirtæki sem hafa skrifað undir samninginn í góðri trú halda að þau hafi gert samning við ráðherra sem ætli sér að standa við hann.

Nú eru umræður um að það eigi að skoða hitt og þetta, en þeir fyrirvarar eru í samningnum. Spurningin er þessi: Telur hæstv. menntamálaráðherra það ekki kristaltært (Forseti hringir.) að finnist þarna olía verði hún nýtt samkvæmt þeim samningi sem fyrirtækin hafa gert við íslenska ríkið og hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir?



[15:21]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það fari betur á því að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skýri nákvæmlega hvað felst í samningnum. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé alveg kristaltært að þeir samningar standa og eins og hv. þingmenn átta sig algjörlega á þá ber sá ráðherra ábyrgð á því sem hann skrifar undir og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að svo sé.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að það sé eitthvað hættulegt að ræða þessi mál. Ég hefði talið að það væri mjög æskilegt að ræða þessi mál á Alþingi. Eins og kom fram hér áðan (Gripið fram í.) þá hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki tekið kategóríska afstöðu gegn olíuvinnslu. Við teljum og leggjum á það mikla áherslu annars vegar að ýtrustu varúðarsjónarmiða sé gætt við bæði rannsóknir og vinnslu og hins vegar teljum við eðlilegt að þessi vinnsla sé sett í samhengi við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í alþjóðlegum loftslagsmálum. Ég tel ekkert óeðlilegt að við ræðum það. Það hefur ekkert að gera með það að samningar standi ekki. Það er engin ástæða til að ætla það. Þeir standa að sjálfsögðu.