141. löggjafarþing — 64. fundur
 14. janúar 2013.
hlutverk ofanflóðasjóðs.
fsp. MÁ, 285. mál. — Þskj. 318.

[16:02]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ofanflóðasjóður var stofnaður sem viðbragð við miklum áföllum fyrir vestan á 10. áratugnum eins og allir vita. Í sjóðinn kemur skattfé frá fasteignaeigendum í landinu sem eru auðvitað bæði fyrirtæki og þorri almennings. Nú er staðan þannig að brýnustu verkefni sjóðsins eru komin í gagnið. Það er auðvitað ýmislegt eftir sem hægt er að telja upp, hægt er að búa til langa verkefnalista ef mönnum þykir ástæða til. Ég tel að kominn sé tími til að skoða framtíð sjóðsins og þeirra fjármuna sem þar eru, sem eru um 10 milljarðar, sem er fé sem við tínum nú ekki upp af götunni í öðrum efnum.

Ég veit að það fé er að sumu leyti bundið í sjóðnum af ýmsum orsökum, fyrst vegna heldur ánægjulegra viðburða í hagkerfinu og síðan vegna heldur verri viðburða í hagkerfinu. Á þinginu í fyrra var ákveðið að veita úr sjóðnum til annarra verkefna en þeirra sem hann er kenndur við þegar ákveðið var að styrkja eldstöðvarannsóknir úr sjóðnum til þriggja ára. Þá er á það að minnast að í umhverfis- og samgöngunefnd var frumvarpi breytt, gerð var tillaga sem var að lokum samþykkt um breytingar á frumvarpi í þessu efni frá hæstv. ráðherra sem gerði ráð fyrir lengri tíma. Þær breytingar voru lagðar til til þess að tryggt væri að hlutverk sjóðsins yrði endurskoðað og því beint til hæstv. ráðherra að annast þá endurskoðun.

Ég og ýmsir sem ég hef heyrt í teljum það raunhæft og sjálfsagt að breyta eðli sjóðsins eftir vel unnið starf, í að vera miklu almennara þannig að sjóðurinn verði hamfarasjóður eða almennur almannavarnasjóður. Hann sinni margvíslegum verkefnum, haldi áfram með þau verkefni sem hann sér um nú, hvort sem þau eru í c-, b-, eða a-deild, en taki líka á öðrum hamfara- og almannaverkefnum alls staðar á landinu, bæði þar sem byggðir eru taldar dreifðar en líka þar sem mest er af mannfólkinu sem til stendur að vernda og verja, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, þar sem augu hafa opnast undanfarið fyrir ýmiss konar vá sem menn töldu ekki mikla áður. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna tveggja spurninga sem ég veit að ég fæ góð og ljúf svör við á eftir.



[16:05]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Það er auðvitað mikilvægt að ræða stöðu ofanflóðasjóðs og framvindu mála þar, ekki síst vegna þess hversu umfangsmikið verkefnið er og fjármunirnir miklir. Eins og fram hefur komið voru gerðar verulegar breytingar á sjóðnum og opinberri stjórnsýslu ofanflóðavarna 1996 þegar ákveðið var að ríkissjóður mundi veita sveitarfélögum sem byggju við snjóflóðahættu á íbúðasvæðum fjárhagslegan stuðning til að tryggja öryggi þéttrar byggðar í sveitarfélögum gagnvart ofanflóðum.

Ofanflóðanefnd var jafnframt falið að hafa eftirlit með framkvæmd verksins og tryggja að framkvæmdir sveitarfélaganna sem sjóðurinn styrkti veittu ásættanlegt öryggi. Í upphafi var ljóst að verkefnið var afar umfangsmikið og mundi taka langan tíma og var nauðsynlegt að endurmeta hættu á öllum svæðunum áður en hægt væri að hefja skipulegar framkvæmdir við varanlegar varnir á einstökum svæðum. Sem bráðaaðgerð var strax unnið bráðabirgðahættumat og rýmingaráætlanir fyrir öll sveitarfélögin sem í hlut áttu og einnig var strax í upphafi komið upp á vegum Veðurstofu Íslands skipulegri vöktun á snjóflóðahættusvæðum við byggð til að bregðast við hættuástandi á meðan ekki hefðu verið byggðar varanlegar varnir. Sú starfsemi hefur gengið vel og hafa engin mannskæð slys orðið af völdum snjóflóða í byggð á þessu tímabili.

Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða kveður á um að framkvæmdum við brýnustu varnaraðgerðir gegn ofanflóðum fyrir svonefnd svæði c, samkvæmt hættumati, verði lokið eigi síðar en 2020. Til þess að svo geti orðið er áætlað að verja þurfi um 2 milljörðum króna árlega til verkefnisins, en mjög gróflega áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð snjóflóðavarna samkvæmt þeirri áætlun sem unnin var 1995 í kjölfar snjóflóðahamfaranna í Súðavík og á Flateyri er talinn liggja á bilinu 14 til 17 milljarðar króna. Höfuðstóll ofanflóðasjóðs í árslok 2011 var tæpir 10 milljarðar króna, eins og fram hefur komið, og er þar af bundið eigið fé um 8,5 milljarðar.

Að mínu áliti kemur vel til greina, þegar fer að sjá fyrir endann á þeim verkefnum sem ofanflóðasjóður hefur verið að sinna, að hlutverk hans verði aukið til að sinna verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá almennt, þar með talið vinnslu hættumats fyrir allar tegundir náttúruvár og þá undir nýju nafni. Í því sambandi má minna á að Alþingi samþykkti fyrr á síðasta ári heimild til að ofanflóðasjóður gæti lagt allt að 35 milljónir króna á ári næstu þrjú árin til að styrkja úttekt á mögulegri eldgosahættu og mat á áhrifum eldgosa. Það kom fram í máli hv. þingmanns.

Sú breyting hefur ekki mikil áhrif á hin lögskipuðu verkefni ofanflóðasjóðs sem eru mjög kostnaðarsöm eins og hér hefur komið fram. Var talið rétt að gera þetta nú vegna þess að Veðurstofu Íslands hafði verið falið af Alþjóðaflugmálastofnuninni að vinna úttekt á mögulegum áhrifum íslenskra eldfjalla á alþjóðlegt flug. Það væri þar með mjög eðlilegt við þessar aðstæður að víkka verkefnið út og skoða um leið möguleg áhrif á íslenskt samfélag.

Það er eitt af hlutverkum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að vakta náttúruvá og veita Almannavörnum upplýsingar um mögulega hættu og þar af leiðandi er aukin áhersla í ráðuneytinu á að efla þá forvarnastarfsemi. Mér finnst koma mjög sterklega til álita þegar við förum að sjá fyrir endann á þessum snjóflóðaverkefnum að við skoðum í alvöru útvíkkun á forvarnahlutverki ofanflóðasjóðs.

Sjóðurinn kostaði gerð varanlegs hættumats fyrir sveitarfélögin sem bjuggu við snjóflóðahættu í byggð og er nú unnið að því að ljúka hættumati fyrir öll skíðasvæði landsins og grófu mati á hættu í dreifbýli. Það mætti hugsa sér hið útvíkkaða hlutverk þannig að það tæki til vinnslu alls hættumats vegna náttúruvár í framtíðinni. Ég legg þó áherslu á að vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um stofnun bótasjóðs vegna tjóna sem verða af völdum náttúruvár sem aðrar tryggingar greiða ekki, að ekki er rétt að blanda saman forvarnasjóði og bótasjóði. Það er að mínum dómi óheppilegt fyrirkomulag að sami sjóður hafi bæði það hlutverk að sinna forvörnum og greiða bætur vegna hamfaratjóna. Ég tel eðlilegra að skoða stofnun sérstaks sjóðs sem hefði það hlutverk að greiða bætur vegna náttúruhamfara sem ekki fást bættar úr vátryggingum, en slíkar bætur hafa hingað til að mestu leyti komið með sérstakri ráðstöfun á fjárlögum eða fjáraukalögum.

Vegna spurningar hv. þingmanns um hvort hafin sé sérstök vinna í ráðuneytinu að því er varðar endurskoðun löggjafar er því til að svara að hún er ekki hafin en það mun auðvitað koma að því eftir því sem verklok á snjóflóðavörnum sveitarfélaganna nálgast, auk þess sem skoða þarf áframhald á stuðningi sjóðsins við eldgosahættumat, sem tekur nú aðeins til þriggja ára og lýkur þar með í árslok 2014.



[16:10]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég dreg þá ályktun af þeim að það muni í rauninni ekki miklu á grundvallarafstöðu minni og hæstv. ráðherra til sjóðsins. Ég tek undir með honum að hér á að vera um forvarnasjóð að ræða, það er ekki viturlegt að gera úr honum bótasjóð einnig þótt við þurfum hugsanlega á því að halda.

Ég vil hins vegar segja að ráðherrann tiltekur það að ekki eigi að byrja að endurskoða sjóðinn eða gera ráð fyrir öðrum verkefnum í honum fyrr en séð verði fyrir endann á þeim verkefnum sem nú standa yfir. En það er þegar hafið að tilhlutan ráðherra sjálfs. Eins og hann lýsti og ég líka í fyrri ræðu hefur verið veitt úr sjóðnum til eldgosarannsókna í að minnsta kosti þrjú ár og líklega heldur það áfram, ef ég les rétt úr hlutunum. Við veitum því ekki einungis fé úr sjóðnum vegna ofanflóða heldur líka vegna neðanflóða, eins og reynt var að segja brandara um í nefndarstarfinu. Ég tel að það sjái í raun þegar fyrir endann á þessum verkefnum og ég tel að það sé eðlilegt að lengja í þeirri teygju og framlengja tímabilið þegar menn tala um 2020. Brýnustu verkefnunum er lokið þó að menn séu enn í verkefnum sem skipta máli. Ég tel að gera eigi sjóðinn almennari í framtíðinni fyrir þá 10 milljarða sem í honum eru núna. Fyrir þá milljarða sem koma inn á hverju ári af skattfé almennings í landinu — það er þannig, þetta er ekki einhver himnaríkissjóður, þetta er skattfé almennings — eigi að miða við að líta víðar yfir og nota sjóðinn í forvarnir fyrir öllum tegundum af náttúruvá.



[16:12]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að endurskoðun sé í raun hafin. Segja má um öll verkefni sem eru brýn og hafa mikla samfélagslega skírskotun, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða ráðstöfun almannafjár, að endurskoðun fer fram um leið og verkefnið byrjar vegna þess að það þarf auðvitað að meta eftir því sem verkefninu vindur fram hvernig því reiðir af og hvernig það gengur. Í þessu verkefni skiptir gríðarlega miklu máli að fyrir hendi sé grundvallartraust milli þess almennings sem reiðir fram féð og þess sama almennings sem nýtur öryggisins og svo þeirra stjórnvalda sem hafa almannavarnasjónarmið að leiðarljósi við ráðstöfun þess fjár sem þar fellur til.

Ég leyfi mér þá að taka undir með hv. þingmanni að endurskoðunin sé í raun og veru hafin, hún stendur yfir meðal annars með þeirri öflugu umræðu sem á sér stað hér í þingsal.