141. löggjafarþing — 67. fundur
 17. janúar 2013.
framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014, fyrri umræða.
stjtill., 458. mál. — Þskj. 582.

[11:36]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014.

Barnavernd heyrir undir velferðarráðuneytið samkvæmt lögum um barnavernd, nr. 80/2002. Ráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun málaflokksins og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Áætlunin sem hér um ræðir er unnin af ráðuneytinu og Barnaverndarstofu sem saman skulu vinna að framkvæmd hennar með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar var byggt á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum.

Barnavernd er stór og mikilvægur málaflokkur sem snýst um vandasöm og viðkvæm mál. Mikilvægi þess að vandað sé til verka verður því aldrei ofmetið. Í barnavernd er fjallað um hagsmuni, velferð og framtíð barna og fjölskyldna þeirra. Barnaverndarlög leggja ríkar skyldur á þá sem vinna að barnaverndarmálum og það sem stendur ávallt efst í barnaverndarstarfi er sú fortakslausa krafa að hagsmunir barns séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og gilda þar engar undantekningar.

Eðli þessara mála er slíkt að þau krefjast mikils af þeim sem að þeim vinna og því er fagleg þekking þeirra, menntun, kunnátta og færni hornsteinninn að farsælu starfi. Aðgerðir þess hluta áætlunarinnar sem snýr að ráðuneytinu felast einkum í því að ráðuneytið eigi frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar. Í því skyni er miðað við að ráðuneytið meti reglulega framkvæmd barnaverndarlöggjafarinnar, sérstaklega með hliðsjón af nýjungum og breytingum í barnaverndarstarfi. Einnig er lögð rík áhersla á hlutverk ráðuneytisins í því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

Aðgerðir framkvæmdaáætlunarinnar sem snúa að Barnaverndarstofu miða að því að efla barnaverndarstarf með því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta til velferðarráðuneytisins. Barnaverndarstofa mun vinna að verkefnum sem miða að því að efla ráðgjöf, fræðslu, rannsóknir og stofan mun koma á fót nokkrum tilraunaverkefnum.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fara nokkrum orðum um efnisatriði þeirrar framkvæmdaáætlunar sem hér liggur fyrir þótt hún sé viðameiri en svo að hægt sé að gera nema nokkrum atriðum hennar skil.

Á tímabilinu verður unnið að þróun meðferðarúrræða fyrir börn og fjölskyldur barna sem sýna alvarlegan hegðunarvanda í þá átt að styrkleiki og tegund inngripa sé hverju sinni í samræmi við þarfir barns og viðurkenndar aðferðir. Þannig verði greining og mat á þjónustuþörf í auknum mæli unnið áður en ákvörðun er tekin um að vista barn utan heimilis til meðferðar svo flýta megi fyrir slíkri þjónustu þegar það á við eða leiðbeina barni og fjölskyldu um aðra viðeigandi þjónustu. Meðferðarkerfið taki mið af stigsskiptri þjónustu innan sem utan stofnunar og samþættingu meðferðarstarfs á Meðferðarstöð ríkisins eða Stuðlum, á meðferðarheimilum og í fjölkerfameðferð, svokallaðri MST. Lögð verður áhersla á meðferðarúrræði í nærumhverfi eða sem næst heimabyggð fjölskyldnanna og á samfélagslega aðlögun barnanna.

Í þessu skyni verða gerðar breytingar á Stuðlum í samráði við barnaverndarnefndir sem miða að bættri bráðaþjónustu, meðal annars á lokaðri deild og aukinni þjónustu við börn og fjölskyldur eftir að vistun á meðferðardeild lýkur. Gerðar verði viðeigandi breytingar á fyrirkomulagi meðferðardeildar Stuðla og annarra meðferðarheimila, einnig með það að markmiði að draga úr blöndun barna með ólíkan vanda og skerpa aðgreiningu markhópa eftir meðferðarþörf svo auka megi gæði í meðferð og draga úr neikvæðum félagslegum áhrifum vistunar á stofnun.

Í tengslum við breytingarnar á Stuðlum er einnig stefnt að því að gerð verði endurskoðun á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru bráðavistuð á lokaðri deild Stuðla eða eru í meðferðarúrræðum á vegum Barnaverndarstofu. Tryggja þarf viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru metin í sjálfsvígshættu, eru í óskilgreindu vímuástandi við komu á lokaða deild, í alvarlegum fráhvörfum eða öðru því ástandi þar sem þörf er á aðkomu læknis eða hjúkrunarfólks. Þannig verði meðal annars tryggt að lyfjagjafir til barna sem eru bráðavistuð á lokaðri deild, og ekki hafa með sér ávísuð lyf, fari eingöngu fram eftir mati heilbrigðisstarfsmanna sem eru á staðnum og sjá barnið þegar matið fer fram.

Kynferðisbrot gegn börnum eru meðal erfiðustu og vandmeðförnustu mála sem til kasta koma hjá þeim sem vinna við barnavernd. Undanfarið ár hefur Barnahús gegnt mikilvægu hlutverki í þessum málum en nú eru 14 ár liðin frá því að starfsemi hófst í Barnahúsi. Stefnt er að því að hefja undirbúning að stækkun Barnahúss svo bæta megi aðstöðu og þjónustu við börn og fjölskyldur. Brýnt er að bæta aðstöðu í Barnahúsi svo sinna megi betur grunnþjónustu við þolendur kynferðisofbeldis og til að tryggja fjölbreytta þjónustu við þann breiða hóp barna sem eru þolendur kynferðisofbeldis, börn sem eru beitt öðru líkamlegu ofbeldi og börn sem búa við heimilisofbeldi.

Það liggur fyrir að allnokkur fjöldi barna sýnir af sér óæskilega eða skaðlega kynhegðun. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að yfir helmingur fullorðinna kynferðisafbrotamanna hefur feril sinn á unglingsaldri. Samkvæmt samningi Evrópuráðsins um vernd gegn kynferðislegri misbeitingu, sem Ísland á aðild að, ber að bregðast við þessum vanda og veita viðeigandi aðstoð. Nauðsynlegt er að bregðast við á markvissan og faglegan hátt þegar börn sýna af sér óæskilega eða skaðlega kynhegðun.

Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem sýna af sér óviðeigandi kynhegðun hefur verið í boði á vegum Barnaverndarstofu frá haustinu 2009. Sökum aðstöðuleysis hefur ekki verið hægt að bjóða upp á þjónustuna á vegum Barnahúss eins og upphaflega var áætlað en gerður var samningur við sérhæft teymi þriggja sálfræðinga.

Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að umræðan og upplýsingar liðinna daga og vikna munu auðvitað hafa áhrif á umfjöllun þessarar þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnavernd einmitt hvað varðar kynferðisbrot gegn börnum, og er það vel. Verið er að vinna vinnu í framhaldi af þeim ósköpum sem hefur verið upplýst um á síðustu dögum og vikum.

Í lokin ætla ég að nefna að á tímabilinu á að skoða verklag vegna kvartana hjá Barnaverndarstofu með það fyrir augum að hægt verði að stytta afgreiðslutíma kvörtunarmála hjá stofnuninni og skilgreina hvenær sé ástæða til að afla upplýsinga og skýringa um vinnslu einstakra mála hjá barnavernd. Stefnt er að því að nýtt verklag vegna kvartana og frumkvæðismála verði kynnt barnaverndarnefndum og gert aðgengilegt á heimasíðu Barnaverndarstofu fyrir árslok 2013.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum hef ég mælt fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnavernd til sveitarstjórnarkosninga árið 2014. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og til hv. velferðarnefndar.



[11:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga liggur fyrir þó að það væri ágætt að fá örlitlar tæknilegar útskýringar frá ráðherra á því hvers vegna hún var ekki lögð fyrir þingið strax eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2010, og hefði þá gilt til fjögurra ára. Þetta fór kannski fram hjá mér í framsöguræðu ráðherrans. Ég fagna því sérstaklega að tillagan skuli liggja fyrir og að það sé ljóst hvert ábyrgðarsvið Barnaverndarstofu sé og þeirra sem koma að því að verja börnin okkar víða í samfélaginu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra þar sem þetta mun kosta ákveðið fjármagn því að við sjáum til dæmis hugsanlegar breytingar á Stuðlum og það sem þarf að gera á BUGL og kann að kosta töluvert fjármagn: Hvernig og hvaða fjárhagsáætlun liggur til grundvallar þessari þingsályktunartillögu?

Síðan er mín þriðja spurning. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því sem hefur komið fram ítrekað frá því að ég kom á þing og eftir tilkomu Barnahúss, sem var til farsældar að mínu mati fyrir vernd barna og öryggi þeirra, að dómstólar yfirheyra börn um kynferðisbrot á mjög mismunandi hátt. Ég vil fara afar varlega í að gera athugasemdir við það er varðar sjálfstæði dómstólanna, það er þeirra og dómara að ákveða hvernig málsmeðferð er fyrir dómi á grundvelli laga, en við erum með héraðsdómstóla eins og á Reykjanesi sem hafa það að meginreglu að nota Barnahús og svo eru aðrir dómstólar sem nota ekki Barnahús. Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort notkun á Barnahúsi hafi verið til farsælda fyrir málin og þá börnin fyrst og fremst? Hafa farið fram samræður milli hæstv. velferðarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra um það hvernig hægt sé að bæta úr og efla, að fengnum rannsóknum, notkun (Forseti hringir.) Barnahúss, sérstaklega þegar kemur að yfirheyrslum á börnum?



[11:46]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður bendir á að þessi þingsályktunartillaga kemur frekar seint fram. Að vísu hefur það einkennt mál að jafnvel þó að þau eigi að koma strax eftir kosningar þá hefst vinnan fyrst eftir kosningar, í þessu tilfelli erum við að tala um sveitarstjórnarkosningar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað verðum við að temja okkur þau vinnubrögð að tillögur komi fram fljótlega eftir sveitarstjórnarkosningar, strax eða á fyrsta þingi, þannig að þær séu til fjögurra ára en það hefur ekki náðst að þessu sinni og ber að harma það.

Varðandi kostnaðinn þá fylgir sérstök kostnaðaráætlun ekki þingsályktunartillögum í raunveruleikanum frekar en krafa er um, þær eru að vísu kostnaðarmetnar í ráðuneytinu. Þetta hefur ekki verið reiknað í smáatriðum en reiknað er með töluverðum tilfærslum á milli verkefna innan Barnaverndarstofu — eins og kemur fram í tillögunni þá hafa áherslur verið að breytast yfir í það að þjónusta krakka meira heima frekar en að vera með þau á meðferðarheimilum og sú skoðun er í gangi þessar vikurnar að vera með tilfærslur þar á milli útgjaldaliða.

Varðandi Barnahús þá er það svolítið merkilegt því að, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, þetta fyrirkomulag er orðið þekkt um allan heim og í rauninni er verið að vinna að því að koma því á víðar, bæði hefur það verið gert á Norðurlöndunum og síðan er verið að koma því á annars staðar í Evrópu. Ég hef ekki nýjustu upplýsingar um samskipti á milli dómstóla og Barnahúss þannig að ég verð að fá tækifæri til að svara því betur síðar og vonandi kemur það fram í starfi velferðarnefndar þegar hún fjallar um málið. Þarna voru töluverðir hnökrar á í byrjun en þetta hefur ekki verið umkvörtunarefni til velferðarráðuneytisins frá því að ég kom inn í ráðuneytið.



[11:49]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Auðvitað er það bagalegt að menn geti ekki brugðið upp kostnaðarmyndinni af jafnmikilvægu plaggi og tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að menn hefðu sett fram, þó að ekki sé kveðið á um það í þingskapalögum, kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins því að þá hefði verið hægt að sjá hvort þetta sé efnislega raunhæf tillaga. Ég tek fram að það er margt afar mikilvægt og brýnt í henni, en hún er eins og það er.

Aðeins varðandi dómstólana og Barnahús. Ég undirstrika að mikilvægt er að passa upp á sjálfstæði dómstólanna þannig að bæði löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið fari ekki hverju sinni eftir einhverri pólitískri hentisemi, sama um hvaða flokk er að ræða, þar sem farið sé inn á verksvið dómstólanna. En dómstólarnir verða líka að hlusta á umræðuna og taka þátt í þeirri þróun sem verður, m.a. varðandi yfirheyrslur. Yfirheyrsluaðferðir hafa þróast í gegnum tíðina, bæði gagnvart fullorðnu fólki og börnum. Mér sýnist á öllu að Barnahús og reynsla okkar Íslendinga af því sé það góð að hún hafi að vissu leyti orðið fyrirmynd margra annarra landa í því hvernig við höfum starfrækt það og komið því upp hér. Það væri ágætt, og getur vel verið að við gerum það innan allsherjar- og menntamálanefndar, að hvetja til samtals á milli ráðuneytanna. Við fáum þá líka viðhorf dómstólaráðs varðandi þetta því að það skiptir máli í tengslum við þessa framkvæmdaáætlun í barnavernd.

Síðan aðeins örstutt varðandi vinnubrögðin sjálf, að þetta sé ekki til fjögurra ára, þá skil ég mætavel við hvað hæstv. ráðherra á en ég held að þetta sé kannski nokkuð sem ekki síst embættismenn innan allra ráðuneyta, sem standa frammi fyrir því að þurfa að vinna undir ábyrgð ráðherra svona tillögur strax eftir annaðhvort þingkosningar eða sveitarstjórnarkosningar, verði einfaldlega að vera tilbúnir. (Forseti hringir.) Við vitum vel að þetta er plagg sem er unnið mikið af Barnaverndarstofu og starfsmönnum velferðarráðuneytisins og ég (Forseti hringir.) beini því til þeirra að vera tilbúnir strax eftir sveitarstjórnarkosningar að ári.



[11:51]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014 sé komin fram. Við erum að mínu mati að ræða eitt brýnasta viðfangsefni sem við þurfum að takast á við á Alþingi og er ég þá ekki að kasta rýrð á mörg þau stóru mál sem við erum að fást við, en hagur og velferð barna er þannig mál að við hljótum að reyna að setja það með öllum tiltækum ráðum í forgrunn.

Ég ætla að fara almennum orðum yfir viðhorf mín. Við stöndum frammi fyrir því að mjög margt hefur breyst í umhverfi barna í landinu. Þær ógnir sem börn glímdu við hér fyrr meir hafa á margan hátt horfið en nýjar ógnir og kannski enn þá alvarlegri á margan hátt hafa steðjað að börnunum í vaxandi mæli. Þjóðfélag okkar hefur breyst og við þurfum þess vegna að taka þessi mál öðrum tökum en við höfum stundum gert í liðinni tíð. Það sem blasir þar við og er auðvitað mikilvægast og nær út af fyrir sig út fyrir þann ramma sem þessari þingsályktunartillögu er ætlað að ná utan um er auðvitað með hvaða hætti við getum stuðlað að auknum samvistum barna og foreldra því að allar rannsóknir sem við höfum kynnt okkur í þessum efnum og sjáum segja okkur að auknar samvistir barna og foreldra er langsamlega mikilvægast af því sem við getum gert til að stuðla að aukinni velferð barna og koma í veg fyrir að þau lendi á glapstigum eða í erfiðleikum af þeim ástæðum.

Þetta er mikilvægasta málið að mínu mati, sem við þurfum að hafa í hyggju, og þegar við ræðum þessa þingsályktunartillögu núna, sem tekur fremur fyrir margs konar úrræði til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum sem börn verða fyrir á lífsleiðinni, þá þurfum við umfram allt að hafa í huga það sem ég hef sagt hérna með almennum orðum.

Við höfum sett á laggirnar ýmsar sérhæfðar stofnanir. Við höfum beitt ýmsum sérhæfðum úrræðum. Það er auðvitað kjarni málsins þegar kemur að því síðan að bregðast við þeim vanda sem börn standa frammi fyrir af mjög margvíslegum ástæðum. Það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur.

Margt bendir til þess að við höfum ekki náð utan um það að búa til þessi úrræði með þeim sérhæfða hætti sem vandamálin sem steðja að börnunum kalla vissulega á. Þegar við í velferðarnefnd Alþingis höfum farið yfir mál af þessum toga með sérfræðingum víðs vegar að úr þjóðfélaginu, bæði á velferðarsviðinu, fulltrúum meðferðarstofnana og þeirra stofnana sem yfir þeim ráða, með fulltrúum heilsugæslunnar, heilbrigðisstofnana, sveitarfélögum o.s.frv., þá sjáum við að það vantar í mörgum tilvikum heilmikið þarna upp á. Ástæðurnar eru auðvitað þær að þau vandamál sem steðja að börnum sem af einhverjum ástæðum þarf að meðhöndla með sértækum hætti eru einfaldlega svo sérgreind og sérhæfð að þau kalla á sérstakar lausnir.

Ég vil líka segja að auðvitað eiga mörg slíkra viðfangsefna ekki endilega að fara fram á meðferðarstofnunum heldur er það kappsmál, eins og hæstv. ráðherra nefndi hérna áðan, að við getum meðhöndlað eða tekist á við þessi mál án þess að til þess komi að börnin eða unglingarnir þurfi að fara inn á sérhæfðar meðferðarstofnanir þó að þær séu mikilvægar og þær gegni mjög miklu hlutverki.

Ég nefni sem dæmi börn sem koma frá brotnum heimilum af ýmsum ástæðum, vegna óreglu eða annarra aðstæðna, vegna fjölskylduaðstæðna, vegna fátæktar, vegna þess að heimilin eru einhverra hluta vegna ekki í færum til þess að veita börnunum það skjól sem þau þurfa á að halda inni á heimilum sínum.

Ég nefni í öðru lagi börn sem eiga við að glíma margvíslega þroskaskerðingu og í því sambandi þurfum við líka að hafa það í huga að við getum ekki talað um þroskaskerðingu sem einfalt hugtak, þar getur verið um að ræða margvíslega gerð af þroskaskerðingu sem við þurfum þá að takast á við með mismunandi hætti.

Í þriðja lagi nefni ég eitt mál sem mikið er rætt um og það eru börn sem eru með það sem kallað er í dag ADHD, sem er hugtak sem er tiltölulega nýtt í allri umræðunni, sennilega vegna þess að við höfðum ekki burði til þess áður fyrr að greina þann vanda sem þessi börn glíma við. Við töluðum um fyrirferðarmikil börn hér í gamla daga, börn sem voru óþekk o.s.frv. Ástæðurnar voru kannski í ýmsum tilvikum ekki óþekkt eða fyrirferð í þeim skilningi sem við lögðum í það hugtak heldur vegna þess að um var að ræða sjúkdóm sem við köllum svo í dag sem er ADHD. Ég nefni þetta eingöngu í dæmaskyni.

Í fjórða lagi er auðvitað mál sem hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og það eru börn sem glíma við afleiðingar misnotkunar og ofbeldis, bæði kynferðislegrar misnotkunar inni á heimilum, kynferðislegrar misnotkunar á vistunarheimilum, kynferðislegrar misnotkunar utan þessara heimila, þ.e. heimila barnanna og meðferðarheimila, og annars konar misnotkunar sem þau hafa orðið að þola, svo ekki sé talað um ofbeldi sem allt of mörg börn þola því miður sjálf og eru síðan áhorfendur að inni á heimilum, eins og við þekkjum dæmi um, og getur síðan haft varanleg áhrif á þessi börn og birtist í hegðun þeirra þegar fram í sækir. Þetta er gríðarlega vandasamt mál vegna þess að mörg þessara tilvika eru þannig að þeim sem utan standa er ekki í öllum tilvikum ljóst hvað fram fer innan vistheimila, eins og fram hefur komið, á heimilunum og utan heimilanna eins og við þekkjum svo mörg dæmi um.

Síðast en ekki síst vil ég nefna börn sem hafa lent á glapstigum af einhverjum ástæðum, hafa gerst brotleg við lög og þarf auðvitað að takast á við með sérstökum hætti, alveg óskyldum þeim til dæmis úrræðum sem ég vék að í dæmaskyni áðan. Það sem mér finnst hins vegar blasa dálítið við í þessari umræðu allri, og sérstaklega fyrir þann sem kemur utan frá, er að það virðist vera frekar mikið flækjustig í þessum efnum. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt og hljóti að vera eitt af því sem við þurfum að skoða vel hvernig við getum einfaldað fyrirkomulagið frá því sem nú er, í þeim skilningi að öllum sé það ljóst sem þurfa að leita sér aðstoðar á því sviði sem ég hef nefnt hérna hvernig þeir geti leitað þessarar aðstoðar.

Hvert fer fólk? Hvert fer fólk við þær aðstæður sem upp geta komið á margvíslegum sviðum, svo sem vegna þroskaskerðingar, einhverrar atferlisröskunar, misnotkunar eða veikinda? Hvar er fyrsta stoppistöðin? Í mörgum tilvikum blasir við að það kunni að vera og eigi að vera heilsugæslan. Það er þó ekki alveg augljóst þeim sem þurfa að leita þjónustunnar. Við sem samfélag þurfum að bregðast þannig við að fólki, sem þarf að leita aðstoðar fyrir börnin sín eða börnin að leita sér aðstoðar ef þau hafa til þess aldur og þroska, sé nokkuð ljóst hvert það eigi fyrst að leita eftir aðstoð.

Hvert er hlutverk skólanna í þessum efnum? Hvernig eiga skólarnir að fylgjast með og bregðast við? Það hefur til dæmis komið fram í velferðarnefnd að menn telja að ágætlega sé fyrir ýmiss konar þjónustu séð á fyrstu skólastigunum, leikskólum og grunnskólum, en síðan taki við eitthvert tómarúm eftir það. Við þurfum líka að gæta þess að það sé eitthvert áframhald þegar börn og unglingar hafa fengið einhvers konar úrræði í skólum að ekki taki við óvissa þegar skipt er um skólastig.

Það getur líka myndast ákveðið flækjustig vegna þess að ýmsir aðilar koma að málum. Það getur verið ríkið, það geta verið einstaklingar, það getur verið sveitarfélagið. Við þurfum að gæta þess til dæmis við verkefnatilflutninginn milli ríkis og sveitarfélaga að ekki skapist einhver óvissa. Það kemur fram hér í greinargerð með tillögunni, eins og við vitum, að með breytingu á barnaverndarlögunum sem eiga að taka gildi 1. janúar næstkomandi mun ríkið taka yfir rekstur vistheimila fyrir börn sem eru núna á vegum sveitarfélaga. Erum við tilbúin til þess? Höfum við farið yfir það hvort ríkið geti í raun og veru tekið yfir þessa þjónustu svo að fullnægjandi sé? Við fengum slíkt dæmi hingað inn og urðum að breyta lögum vegna þess að ríkið var að hluta til ekki tilbúið eða hafði ekki burði til þess að taka yfir þjónustu sem sveitarfélag, í þessu tilviki Reykjavíkurborg, hafði sinnt og menn óttuðust að upp gæti komið vandi og varð niðurstaðan sú að fresta þeim hluta yfirtökunnar.

Ég er aðeins að vekja athygli á þessu í almennum orðum við fyrri umræðu þessa máls. Þetta mál kemur inn til velferðarnefndar og ég ítreka að ég tel að það sé gríðarlega stórt og mikið. Mér hefur að minnsta kosti orðið það ljósara en áður að á því þurfum við að taka mjög markvisst.



[12:02]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Eins vil ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, nefndarmanni í velferðarnefnd, fyrir góða ræðu og ágæta yfirferð. Ég kem upp til að segja örfá orð því að nú förum við að rýna þessa áætlun í nefndinni eftir að hafa sent hana út til umsagnar. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór ágætlega yfir má segja að meðvitundin sé að aukast um mikilvægi þess að vernda börn sem sérstaklega viðkvæman þjóðfélagshóp. Aðstæður í samfélaginu breytast jú í tímans rás og kalla á annars konar úrræði og annars konar hugsunarhátt og verklag fyrir þá sem eiga að vernda börn, fyrir utan foreldrana sem eru þar í lykilhlutverki, en það sem lýtur að aðilum í ytra umhverfi barnanna.

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu upp á síðkastið um kynferðislega misnotkun á börnum. Þegar umræða um jafnalvarleg samfélagsmál og þessi geisar er alltaf hætta á að mikið sé um það rætt tímabundið og síðan gerist tiltölulega lítið í kjölfarið. Reyndar hafa þessi mál verið af því tagi að ég held að þau hafi hreyft verulega við flestum aðilum og vakið okkur til umhugsunar um mikilvægi greinar barnaverndarlaganna um tilkynningarskylduna. Vakni grunur um vanrækslu eða misnotkun eða ofbeldi í garð barns þá eigum við að tilkynna það. Það er grundvallaratriði til þess að barnavernd geti orðið sómasamleg að við sem ábyrgir einstaklingar í samfélaginu séum ekki að verja okkur eða sambönd okkar við aðra fullorðna heldur lítum alltaf til hagsmuna barna og tilkynnum ef við höfum áhyggjur af velferð þeirra.

Frú forseti. Það dugir ekki heldur eitt og sér því að það þarf líka að vera þannig að þegar tilkynning hefur borist þá sé öruggt að börnin fái viðhlítandi umönnun, að tekið sé rétt á málum, að tilkynning liggi ekki bara inni heldur verði brugðist við. Svo er að sjálfsögðu í langflestum tilfellum en til að það sé viðunandi þarf að vera gott skipulag sem er í sífelldri endurskoðun og allir sem bera ábyrgð á börnum þurfa að vita hvað til þeirra friðar heyrir í því að tryggja börnunum velferð.

Mig langaði að segja að í kjölfar þeirra umræðna sem nú hafa verið hefur UNICEF sent Samfylkingunni og líka þinginu, velferðarnefnd, tillögur sínar til að verja börn gegn ofbeldi. Þar kemur fram að stærsta ógnin við velferð barna á Íslandi er ofbeldi, það er stærsta alvarlega vandamálið sem ógnar velferð barna á Íslandi og því hefur verið gefinn allt of lítill gaumur. Ofbeldi er náttúrlega víðtækt. Það getur verið allt frá vanrækslu yfir í gróft líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi er auðvitað hluti af því. Ég taldi því rétt að segja hér að ég mun leggja það til að nefndin sendi UNICEF þessa áætlun til umsagnar eins og öllum öðrum sem láta sig hag barna einhverju skipta. Ég tel rétt að fara yfir það hvort eitthvað úr tillögum þeirra ætti að koma hér inn í áætlunina til að við tryggjum að unnið verði sérstaklega gegn þessari stærstu vá gegn velferð barna.

Þá komum við að því líka, sem ég vil taka undir, að það er óheppilegt þegar útgjaldaáætlun fylgir ekki áætlun af þessu tagi. Ég held reyndar að hægt sé að bæta mjög margt í starfsemi opinberra stofnana eða almennt, hvort heldur sem það eru félagasamtök, fyrirtæki eða opinberir aðilar. Það má bæta verkferla, það má breyta hugarfari og slíkt þarf ekki að fela í sér sérstök útgjöld. Oft getur sparnaður falist í því að vinna hlutina með skynsamlegri hætti. En þó að margt af því sem er í þessari áætlun þurfi ekki að fela í sér viðbótarútgjöld þá er það svo að ætlum við að ná sérstökum árangri og leggja sérstaka rækt við ákveðna þætti málaflokka, í þessu tilfelli barnavernd, þá kallar það oft á fjármagn.

Ég tel að nefndinni beri skylda til að fjalla um þann þátt þannig að Alþingi sé ekki hér að samþykkja áætlun sem hætta sé á að verði orðin tóm eða að við upplifum það, sem vonandi verðum hér á þingi næst, að fara að berjast fyrir því að framkvæmdaáætlunin í barnavernd komist inn á milli umræðna í fjárlögum, eins og við höfum upplifað með aðrar áætlanir. Það er að sjálfsögðu ekki gott verklag og þeir sem eiga að taka ábyrgð á þessum mikilvæga málaflokki þurfa líka að vita að samtímis því sem löggjafinn er með væntingar og fyrirskipanir um ákveðið verklag þurfum við líka að tryggja að hægt sé að fara að vilja þingsins, þ.e. að fjármagn sé nægilegt.

Frú forseti. Hér með er ég ekki að boða sérstakt örlæti velferðarnefndar en ég er bara að benda á þá staðreynd að sé raunverulegur vilji til breytinga eða framfara er ekki nóg að setja hann fram í orðum á blaði heldur þarf að fylgja fjármagn þegar það á við. Sem formaður nefndarinnar vil ég segja að við munum að sjálfsögðu, eins og með önnur mál sem nefndir þingsins fá til vinnslu, vinna þetta vel. Við munum gefa ofbeldi í garð barna sérstakan gaum en ekki þannig að það sé eina málið sem við ætlum að fjalla um því að það er margt annað, eins og hv. þingmaður fór yfir, sem þarf að skoða. Við munum skoða sérstaklega hvort við þurfum að tryggja frekara fjármagn til barnaverndar á Íslandi.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.