141. löggjafarþing — 73. fundur
 28. janúar 2013.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
stjfrv., 542. mál (gagnaver, EES-reglur). — Þskj. 918.

[16:49]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er varðar annars vegar innflutning á netþjónum og hins vegar sölu á svokallaðri blandaðri þjónustu til viðskiptavina gagnavera. Jafnframt er lögð til breyting á ákvæði sömu laga sem fjallar um endurgreiðslur á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja. Um er að ræða tillögur að breytingum sem lúta að því að nema úr gildi ákvæði sem sett voru með lögum nr. 163/2010 og höfðu það að markmiði að bæta samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi. Sú lagabreyting var tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og hafa íslensk stjórnvöld í framhaldinu af því átt í viðræðum við ESA vegna ákvæðanna, fyrst í svokölluðu fortilkynningarferli en svo í eiginlegu tilkynningarferli.

Á haustmánuðum 2012 varð ljóst að ESA teldi verulegan vafa leika á því hvort sá hluti breytinganna sem snýr að blandaðri þjónustu annars vegar og innflutningi á netþjónum og tengdum búnaði hins vegar samrýmdist reglum EES um ríkisaðstoð, þar sem ákvæðin kynnu að teljast sértækar ráðstafanir í skilningi reglnanna. Af þessum sökum er talið heppilegra að afnema þessi ákvæði og leggja þess í stað til breytingu á 3. mgr. 43. gr. laganna um virðisaukaskatt þannig að það ákvæði nái einnig almennt til heimildar erlendra fyrirtækja sem ekki eru með eiginlega starfsemi hér á landi til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings á vörum. Breytingin samrýmist því ferli sem endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu hér á landi hafa verið í um árabil. Þannig verður heimilt að endurgreiða erlendum fyrirtækjum virðisaukaskatt sem fellur til við innflutning á vörum að sömu skilyrðum uppfylltum og gilda um endurgreiðslur við kaup á vöru og þjónustu. Samrýmist þessi heimild þeim almenna tilgangi laga um virðisaukaskatt að um neysluskatt sé að ræða sem borinn verður af endanlegum neytanda viðkomandi vöru eða þjónustu.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru þess vegna þrenns konar:

Í fyrsta lagi er lagt til að afnumið verði ákvæði er varðar sölu gagnavera á hvers kyns blandaðri þjónustu til kaupenda sem búsettir eru erlendis og hafa ekki fasta starfsstöð hér á landi. Eins og áður segir telur ESA vafa leika á því að þetta ákvæði samrýmist reglum EES um ríkisaðstoð.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði 42. gr. A verði fellt brott. Ákvæðið snýr að innflutningi netþjóna og tengds búnaðar þar sem kveðið er á um að innflutningurinn skuli vera undanþeginn virðisaukaskatti. Eins og áður segir telur ESA vafa leika á að þetta ákvæði samrýmist reglum EES um ríkisaðstoð þar sem ákvæðin kynnu að teljast til sértækra ráðstafana í skilningi EES-reglna.

Í þriðja lagi er lögð til breyting laganna á þann veg að endurgreiðsluákvæðið nái jafnframt til innflutnings á vöru. Er talið að með þeirri breytingu verði að nokkru eytt þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur meðal annars um m.a. viðskiptavini gagnavera sem ekki eru með starfsemi hér á landi. Þá er ákvæðið almenns eðlis og því ekki talið að það geti falið í sér sértækar ráðstafanir í skilningi EES-reglna.

Ekki er talið að það muni hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum, enda er gert ráð fyrir að beiðnir um endurgreiðslu virðisaukaskatts af innflutningi erlendra fyrirtækja á vörum muni falla að þeim verkferlum sem þegar eru til staðar hjá embætti ríkisskattstjóra og valda óverulegum viðbótarútgjöldum.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að bregðast hratt við svo hinn vaxandi gagnaveraiðnaður á Íslandi þurfi ekki að búa við langvarandi óvissu um skattumhverfi erlendra viðskiptavina sinna á meðan á formlegri rannsókn ESA stendur.

Við erum líka að standa við þá yfirlýstu stefnu stjórnvalda að tryggja þessum iðnaði sambærileg samkeppnisskilyrði og keppinautum í Evrópu. Hér er ekki um að ræða neinar ívilnanir eða afslætti heldur erum við þvert á móti að færa meðferð á virðisaukaskatti sem erlendir viðskiptavinir greiða til samræmis við meginregluna í íslenskum virðisaukaskattslögum. Málið var unnið í mjög góðu samstarfi og samráði við Samtök gagnavera og með óformlegum samskiptum við sérfræðinga hjá ESA. Lausnin er byggð á norskri fyrirmynd, þ.e. á gildandi ákvæði í norsku virðisaukaskattslögunum sem eru hliðstæð hinum íslensku og hefur verið í gildi án athugasemda. Við erum að breyta fyrirkomulaginu þannig að við náum því markmiði að jafna samkeppnisstöðu okkar hvað varðar gagnaveravæðinguna hér á landi.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.



[16:54]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir hennar innlegg hér en langar að spyrja: Hvert er mat hennar á þeim breytingum sem hún er að leiða hér fram og hvaða áhrif hafa þessar breytingar á stöðu gagnaveranna hér á landi?

Við höfum staðið í þeirri baráttu hér á vettvangi þingsins að gefa íslenskum gagnaverum sambærilega stöðu og þau gagnaver hafa sem starfa á þeirra helsta samkeppnismarkaði, þ.e. innan Evrópusambandsins. Að því marki stefndum við að ná með breytingum á skattalögum sem hér voru leidd fram á þingi fyrir rúmu einu ári síðan. Nú kemur ráðherra með ákveðnar breytingar í þessum efnum. Mér finnst skipta mestu máli og mér þætti vænt um ef ráðherrann gæti gefið skýr fyrirheit um það hver staða gagnaveraiðnaðarins er út frá þeim breytingum sem ráðherra leggur hér til. Ég legg á það áherslu að þetta er mikill og vaxandi iðnaður sem við eigum að geta stutt vel við, bæði hvað snertir ytri aðbúnað fyrirtækjanna og ekki síst í gegnum skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Því er mikilvægt að við áttum okkur fullkomlega á því þegar við hefjum þessa umræðu og þessa umfjöllun hér á þinginu hver staða gagnaveraiðnaðarins verður að þessum breytingum innleiddum.



[16:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í raun og veru sú sama og ef ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við þær ákvarðanir sem við tókum hér árið 2010 með lagabreytingunum af hálfu ESA. Aðferðafræðin er sú að í staðinn fyrir að fara sértæka leið og ívilna gagnaverunum, þ.e. að gera þau undanþegin, setjum við þau inn í almennt ferli um endurgreiðslur á virðisaukaskatti. Í mjög einfaldaðri mynd er þetta svona.

Við förum að norskri fyrirmynd í þessu og ég tel að í staðinn fyrir að bíða núna eftir löngu ferli hjá ESA, sem hefur opnað formlega rannsókn á löggjöfinni frá 2010, ættum við að geta eytt óvissunni fyrr með því að fara þessa leið. Miðað við alla þá skoðun sem við höfum lagst í í þessu máli á staða gagnavera að vera betri að þessum breytingum samþykktum og það er von mín að svo verði. Eins og ég segi erum við ekki að finna upp hjólið og við erum að jafna samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi gagnvart stöðu þeirra í öðrum ríkjum. Það er von mín að loksins getum við farið að sjá helstu hnúta hnýtta hvað varðar lagaumhverfið þannig að gagnaveravæðingin geti farið að hefjast hér fyrir alvöru.



[16:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og þetta eru eiginlega mjög ferskar breytingar sem er verið að breyta til baka. Það er engan veginn heppilegt að svona skyndibreytingar þurfi að gera og sýnir kannski að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að íhuga betur þær breytingar sem hún leggur til. Menn mættu kannski flýta sér örlítið hægar og ég legg til í þessu máli að það verði skoðað nokkuð vandlega.

Spurningin er náttúrlega hvort virðisaukaskatturinn sé ekki orðinn of hár og flækjustigið of mikið, það sé orðið of mikið af undanþágum. Það er búið að vera að prjóna alls konar undanþágur við virðisaukaskattinn, ég minni á Allir vinna og allt það sem menn hafa gert til að flækja kerfið. Svo ætla ég nú ekki að tala um hvernig þetta er í Evrópusambandinu gagnvart gagnaverum. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að ég bara skil það alls ekki, þannig er nú það. Ég ætla að vona að ég geti fengið einhvern skilning þegar þetta verður rætt í efnahags- og viðskiptanefnd því hættan er sú að ef maður skilur ekki hlutina þá verða gerð mistök.

Aðalvandinn í þessu máli er sá að hérna einu sinni var til þorskur og hey og kindur og svoleiðis, eitthvað efnislegt sem hægt var að taka á. Það var kolamoli, það var hægt að taka á honum og halda á honum, en svo fóru að koma óefnislegar tekjur og eignir. Góð stjórnun í fyrirtæki er óefnisleg eign, getur hækkað verð á hlutabréfum einhver lifandis býsn af því að það er góð stjórnun, en hún sést hvergi. Ef maður horfir á hana, reynir að taka á henni, halda á henni og vigta hana þá er það ekki hægt.

Svo fóru að koma forrit frá Microsoft og öðrum sem streyma yfir rafmagnslínur. Þau eru bara elektrónur sem eru á fleygiferð og eru óefnislegar eignir og óefnislegar tekjur. Ef ég kaupi forrit á ég alltaf eitthvað sem er óefnislegt. Það er höfundarréttur á því o.s.frv. Það gerir þetta frumvarp að vanda, vegna þess að gagnaverin eru að vinna með óefnislegar eignir og óefnislegar tekjur sem eru fluttar í gegnum ljósleiðara með miklum hraða og geymdar hér á landi. En til þess að geyma þær þarf efnislegar eignir, þ.e. tölvur og diska og alls konar dót og það þarf að tolla það þegar það kemur inn og borga í virðisaukaskatt o.s.frv.

Þetta er eiginlega vandinn í hnotskurn sýnist mér, að við erum með efnislegar eignir í bland við óefnislegar og þær óefnislegu eru miklu, miklu meiri en þessar efnislegu. Ég held að skattyfirvöld heimsins eigi eftir að glíma við ýmislegt í þessu sambandi svo ég tali nú ekki um þau ósköp sem streyma hingað yfir hafið á hverri sekúndu í hlutabréfaviðskiptum, skuldabréfaviðskiptum og framvirkum samningum o.s.frv. Menn eru að reyna að taka á því í Evrópusambandinu með því að setja á Tobin-skatt eða jafnvel setja á ákvæði um að það skuli fresta þessum flutningum um svo sem eins og 1/10 úr sekúndu til þess að hægja á viðskiptunum svo að þau geti ekki orðið eins svakalega hröð.

Þessi tilflutningur á óefnislegum eignum og tekjum á eftir að valda skattyfirvöldum um allan heim miklum höfuðverk, svo maður tali nú ekki um hluti eins og ef ég sem forritari skrái mig inn á tölvu í Bandaríkjunum og er að vinna þar í bandarísku forriti í bandarísku fyrirtæki þá er spurningin: Hvar er ég eiginlega að vinna? Er ég að vinna á Íslandi eða er ég að vinna í Bandaríkjunum? Þetta er vaxandi vandamál, t.d. eru mörg hugbúnaðarfyrirtæki sem hafa ráðið Indverja í vinnu hjá sér og þeir starfa á Indlandi. Þá er spurningin: Eru þeir að starfa í Bandaríkjunum eða eru þeir að starfa á Indlandi? Hvar borga þeir skatta af þessari óefnislegu vinnu, sem er ekkert annað en hugsun, menntun, sem er breytt yfir í verðmæti?

Ég vonast til að þetta fái tíma til að gerjast í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, verði sent til umsagnar og menn skoði þetta, þannig að við þurfum ekki að breyta þessu aftur eftir tíu mánuði.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.