141. löggjafarþing — 77. fundur
 11. feb. 2013.
sorpbrennsla á Kirkjubæjarklaustri.

[15:07]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra. Á síðasta ári rann út starfsleyfi sorpeyðingarstöðvar í Skaftárhreppi, á Kirkjubæjarklaustri, og hafnaði hæstv. ráðherra beiðni sveitarfélagsins um að endurnýja starfsleyfið með andmælarétti sem hreppnum var veittur til 11. janúar 2013. Sveitarfélagið skilaði ítarlegri umsögn til ráðuneytisins, dagsettri 9. janúar 2013, þar sem andmæli eru færð ásamt því að tímasett aðgerðaáætlun er lögð fyrir, bréf frá sóttvarnalækni og ýmis mjög sterk rök fyrir því að sveitarfélaginu verði veitt undanþága til að gera endurbætur á sorpbrennslunni fyrir 2015. Er ekki síst tekið tillit til þess að fjárhagsstaða hreppsins hefur verið með þeim hætti að það er ógjörningur fyrir sveitarfélagið að ráðast í þessar framkvæmdir og endurbætur innan þrengri tímamarka.

Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessum andmælum og voru á föstudag liðnar fjórar vikur frá því að Skaftárhreppur sendi bréfið. Því leikur mér forvitni á að vita hvort svars sé að vænta frá hæstv. ráðherra og hvort við getum ekki örugglega búist við stuðningi til handa þessu litla en merkilega sveitarfélagi í þeim vanda að koma á úrbótum í þessu máli.



[15:10]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar vakt í þessu máli og spurninguna sem varðar það erindi sem liggur nú fyrir ráðuneytinu eins og hún rakti í fyrirspurn sinni, þ.e. að bregðast við þeim andmælum sem sveitarfélagið lagði fram fyrir tilskilinn tíma, þann 11. janúar sl.

Ég vil segja hér almennt að eitt af lögboðnum hlutverkum sveitarfélaganna er að annast sorphirðu og sorpmál. Um Skaftárhrepp gildir hið sama og um önnur sveitarfélög. Eins og kom hins vegar fram í máli þingmannsins og hefur verið lýðum ljóst um nokkurt skeið eru mörg sveitarfélög mjög illa sett að því er varðar fjárhagsstöðu. Er Skaftárhreppur eitt þeirra sveitarfélaga. Því hefur það verið mín afstaða í þessu máli að við þyrftum að leita leiða til að leysa málin til framtíðar, þ.e. sveitarfélagið fyrir sinn hatt og síðan stjórnvöld á landsvísu sem hafa auðvitað stefnumótun og heildarframtíðarsýn með höndum að því er varðar sorpmál eins og önnur umhverfismál. Ég fullyrði og vil fullvissa hv. þingmann um að það er ekkert annað á dagskrá í umhverfisráðuneytinu hvað þetta mál varðar en það að leiða málið farsællega til lykta til framtíðar.

Í þessum fyrirspurnatíma fer ég ekki yfir það í smáatriðum með hvaða hætti hægt er að nálgast úrlausnina en ég tel að í ljósi erfiðrar stöðu sveitarfélagsins þurfum við að leita skapandi lausna til að komast að farsælli niðurstöðu. Ég mun leggja mitt af mörkum til að það verði og lausn er vonandi í sjónmáli á allra næstu dögum eða vikum.



[15:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil leyfa mér að túlka það svo að skapandi lausnir séu þær að leysa þetta vandamál þannig að Skaftárhreppur fái framlengingu á starfsleyfinu. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það þarf að leysa þetta mál til framtíðar og það er nákvæmlega það sem Skaftárhreppur lagði til í tímasettri aðgerðaáætlun sem fylgdi með andmælunum þaðan. Það er einmitt lausn til framtíðar þannig að ég leyfi mér að túlka orð hæstv. ráðherra þannig að sú framtíðarlausn gæti verið akkúrat sú lausn sem við erum að horfa framan í.

Ég spyr hæstv. ráðherra beint út um það vegna þess að það er eina framtíðarlausnin sem ég sé. Það er alveg rétt að ein af frumskyldum hvers sveitarfélags er að hirða sorp frá íbúum sínum og það er nákvæmlega það sem hreppnum (Forseti hringir.) er um megn að gera verði ekki gripið til þess ráðs að framlengja starfsleyfið. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er það ekki lausnin? (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra hefur þá lausn í hendi sér og hún hefur ekki fordæmisgildi fyrir önnur sveitarfélög.



[15:13]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það stendur sannarlega til að leysa málin þannig að sú lausn vari til lengri framtíðar. Við þurfum að halda því til haga þegar þetta er rætt hér að undanþága frá starfsleyfi í sjálfu sér er ekki nóg og mun ekki leysa Skaftárhrepp undan kröfum þeirrar reglugerðar sem er í gildi vegna þess að ráðherra er ekki heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um brennsluna, einungis frá starfsleyfi. Starfsleyfisundanþágan dugar ekki gagnvart reglugerðinni (SIJ: Breyta reglugerðinni.) þannig að þessi staða er uppi núna. Reglugerðin snerist um það að hverfa frá tilteknum tegundum sorpeyðingar sem olli hér miklum boðaföllum í samfélagsumræðunni í tengslum við Funa á sínum tíma. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt að hverfa frá þeim leyfum á sínum tíma. Ég hvet hv. þingmann til að halda áfram sinni mikilvægu vakt í þessu máli, að halda þeim (Forseti hringir.) stjórnvöldum við efnið sem með málið fara, hér eftir sem hingað til, og vonast til að við sjáum góða lausn á málinu von bráðar.