141. löggjafarþing — 79. fundur
 12. feb. 2013.
sérstök umræða.

staða sparisjóðanna.

[14:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu við mig. Sparisjóðirnir eru mikilvægur hluti af fjármálakerfi og -umhverfi landsins og hafa verið það í gegnum tíðina. Þeir eiga sér mjög merka sögu bæði er lýtur að starfsemi á fjármálamarkaðinum en ekki síst menningarlega og samfélagslega sögu, þar sem sparisjóðirnir hafa í gegnum tíðina, hringinn í kringum landið, á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar, sinnt mikilvægum samfélagslegum og menningarlegum verkefnum ásamt því að sinna hefðbundinni fjármálaþjónustu.

Við efnahagsráðherra ræddum örstutt í gær um samkeppnishliðina er varðar endurreisn sparisjóðakerfisins og tilraunir stóru bankanna til þess að eignast sparisjóðina. Við ræddum niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Svarfdæla og yfirvofandi yfirtöku eða kaup Arion banka á Afli sparisjóði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa eftir þá umræðu um að vilji þingmanna sem tóku þátt í umræðunni er að sparisjóðakerfið verði til og eflist. Ég vil nefna til dæmis góða ræðu hæstv. utanríkisráðherra þar sem ráðherrann tók af allan vafa um sína sýn á mikilvægi sparisjóðanna og lykilhlutverk þeirra í framtíðarfjármálakerfi landsins.

Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig ráðherrann sér þetta kerfi fyrir sér í framtíðinni, hvernig framtíð sparisjóðakerfisins sé best borgið. Við þurfum að hafa nokkur atriði í huga, meðal annars það samfélagslega hlutverk sem ég nefndi áðan og þá staðreynd að ríkissjóður á töluvert undir því að vel takist til, þar sem ríkissjóður hefur leyst til sín hluti í sparisjóðunum og jafnvel heilu sjóðina.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherrann hafi látið kanna stöðu og framtíð sparisjóðanna. Það er mikilvægt að hafa staðreyndir og álit fagaðila til taks þegar við ræðum þessa hluti og því er mikilvægt að fá það á hreint hver sýn Samkeppniseftirlitsins er, og fleiri aðila að sjálfsögðu.

Ég hugsa að ekkert okkar vilji sjá einn, tvo eða þrjá risastóra banka gína yfir öllum almenna fjármálamarkaðinum, einstaklingsþjónustu og slíku. Við þekkjum dæmin utan af landi sérstaklega þar sem bankarnir hafa ekki viljað veita ákveðna þjónustu og hafa þá sparisjóðirnir þurft að grípa inn í.

Að lokum varpa ég spurningu fram til hæstv. ráðherra um hvernig megi helst styrkja sparisjóðakerfið. Þetta held ég að séu allt lykilspurningar sem gott væri að fá svör við. Við vitum að ef einstakar yfirtökur sem áformaðar eru ganga eftir þá hverfa inn í stóru bankana burðarmiklir sparisjóðir sem vel geta lifað að mati okkar margra. Nefni ég þar Afl sparisjóð sem er, að mig minnir, um 20–30% af þeim sparisjóðum sem eftir lifa í dag. Það er því eðlilegt að við tökum þessa umræðu til þess að ná utan um málið og til þess að átta okkur á og reyna að fá svör við því hvert ráðherra og hvert ríkisvaldið stefnir með sjóðina.

Mig langar að minnast aftur á skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kallast Fjármálaþjónusta á krossgötum þar sem er fjallað um sparisjóðina í allítarlegu máli. Kafli 10 í þeirri skýrslu heitir: Núverandi sparisjóðir fela í sér tækifæri. Við sjáum mörg að það eru tækifæri í því að efla sparisjóðina, hringinn í kringum landið. Það kann að vera að hugsanlega þurfi að sameina eða eitthvað slíkt, en það sem mestu skiptir er að þessi gerð af fjármálaþjónustu verði til staðar því að hlutverk þeirra er svo mikilvægt.

Það má í sjálfu sér skilja það að stóru bankarnir óttist þessa þjónustu og þessar stofnanir, því árum saman mældust sparisjóðirnir með vinsælustu fyrirtækjum landsins og þeim sem fólk bar mest traust til. Því er mikilvægt fyrir okkur að reyna að leita svara varðandi framtíðina og því óskaði ég eftir þessari umræðu við hæstv. ráðherra.



[14:14]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að ræða stöðu sparisjóðanna hér á landi enda deili ég bæði áhuga hans og áhyggjum af framtíð þeirra. Ég hef verið með málefni sparisjóðanna til ítarlegrar skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á undanförnum mánuðum þar sem við höfum kallað þó nokkra ráðgjafa að borðinu til þess að fara yfir og reyna að leggja drög að nýrri framtíð fyrir sjóðina í landinu.

Í gegnum Bankasýslu ríkisins á ríkissjóður núna allt frá tæplega helmingi og upp í rúmlega 90% í fimm af samtals níu sparisjóðum sem nú eru starfandi í landinu. Ríkið hefur því umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af því að sparisjóðirnir verði aðlaðandi kostir fyrir fjárfesta á næstu árum. Í einfaldari mynd má segja að af kerfinu öllu eigi ríkið rúmlega 40%, allt upp að 50%. Það eru ekki eingöngu eigendahagsmunir ríkisins sem þarna eru í húfi, heldur getur framtíð sparisjóðanna líka skipt mjög miklu máli, eins og fram hefur komið, við að tryggja næga samkeppni í fjármálaþjónustu hér á landi. Til þess þurfa þeir að vera öflugar og rekstrarhæfar einingar sem ráða við að veita bæði fyrirtækjum og einstaklingum alla nauðsynlega fjármálaþjónustu.

Eins og hv. þingmaður benti á áðan er athyglisvert að skoða í þessu sambandi nýja og ítarlega skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ber heitið Fjármálaþjónusta á krossgötum. Þar er heill kafli um þau tækifæri sem núverandi sparisjóðir fela í sér og beinlínis er varað við því að smærri aðilar hverfi af markaði eða að frekari samruni verði þar sem samkeppnisaðhald á fjármálamarkaði sé ekki nægjanlegt. Samkeppniseftirlitið er augljóslega með vökult auga á þróun mála og hefur þegar gripið inn í mál tengd samruna sparisjóða. Í skýrslunni bendir Samkeppniseftirlitið á að efla megi samkeppni, hvort sem er með endurreisn sparisjóðakerfisins eða því að það kerfi í núverandi mynd verði stökkpallur fyrir nýja aðila inn á bankamarkaðinn. Það kemur alveg skýrt fram að mjög erfitt er fyrir algjörlega nýja aðila að koma inn á íslenskan fjármálamarkað og því skiptir máli að nýta það sem er þar fyrir til þess að auka samkeppni á markaði.

Vegna þessarar stöðu hef ég skoðað möguleika og sóknarfæri sparisjóðanna sérstaklega og í framhaldi af þeirri skoðun sendi ég stjórn Bankasýslunnar bréf því Bankasýslan heldur á eignarhlut ríkisins í sparisjóðunum. Í því bréfi fór ég yfir það hvort þar væri vilji til að kanna alla möguleika til eflingar sparisjóðakerfinu þannig að hagsmunir ríkisins sem eiganda annars vegar og neytenda gagnvart fjármálaþjónustu og samkeppni hins vegar fari saman.

Stjórn Bankasýslunnar hefur svarað þessu jákvætt enda hefur á hennar vegum verið leitað leiða til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur sparisjóðanna í þó nokkurn tíma og ljóst er að núna eru allar leiðir til skoðunar. Ástæðan fyrir því að þetta mál fer af stað aftur núna er sú að undanfarið hefur verið unnið að samruna Afls sparisjóðs, eins og hv. málshefjandi kom inn á áðan, og Arion banka. Arion banki á núna um 99% af Afli en Afl er um fjórðungur af stærð sparisjóðakerfisins í heild. Ýmsir hafa því lýst áhyggjum af því að ef þessi hlutfallslega tiltölulega stóri sjóður hverfi af sviðinu þá veiki það um of þá sparisjóði sem eftir standa með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á eigendahagsmuni ríkisins og líka mögulega samkeppni á fjármálamarkaði til framtíðar litið.

Við höfum því tekið málinu býsna alvarlega og þær greiningar sem við höfum látið vinna fyrir okkur í fjármálaráðuneytinu segja nákvæmlega þetta. Bankasýslan er því að vinna að svokallaðri forkönnun, með ákveðnum skýrum skilyrðum, á þeim tækifærum sem Afl gæti skapað fyrir sparisjóðakerfið í heild. Of snemmt er að segja til um hvað kemur út úr þeirri vinnu eða hvort Samkeppniseftirlitið muni hafa einhver frekari afskipti í ljósi sinnar nýjustu skýrslu af samrunaáformum á þessum markaði. Algjörlega óljóst er hvað kemur út úr þessu enn þá enda er slíkt ekki á valdi ráðherra beint, en þetta er allt til ítarlegrar skoðunar innan Bankasýslunnar.

Það sem er mikilvægast í mínum huga er að hagsmunir ríkisins sem eiganda, heimamanna og neytenda fari saman. Eigi sparisjóðakerfi að gegna hlutverki sínu áfram þá þarf það að vera samkeppnishæft, nógu öflugt til að bjóða alhliða fjármálaþjónustu og vera aðlaðandi fjárfestingarkostur þegar fram líða stundir. Að þessu getum við vonandi unnið þvert á flokka hér á þingi á komandi missirum.



[14:19]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í fjölda ára og áratuga fyrir hrun höfðu sparisjóðirnir mjög mikilvægt hlutverk. Þeir voru mjög nálægt viðskiptavininum, mikið nær en viðskiptabankarnir, og þekktu betur þarfir einstaklinga. Þeir voru meira bankar fyrir einstaklinga en síður fyrir fyrirtækin. Þeir höfðu með sér gott samstarf og var Spron burðarásinn í því á sínum tíma. Þess vegna voru það mikil mistök hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún lét Spron fara á hausinn, það var óþarfi vegna þess að það hefði mátt ná samkomulagi við kröfuhafa og halda bankanum gangandi. Þá hefði geymst sú viðskiptavild sem fólst í Spron sem burðarási samstarfsins. En það varð ekki og þess vegna eiga sparisjóðirnir nú við ramman reip að draga.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er meginhluti stofnfjár sparisjóðanna í eigu ríkisins eða stór hluti. Það er ekki sparisjóður í mínum huga. Það þarf að skapa aftur traust meðal einstaklinga á stofnfé vegna þess að stjórnendur sparisjóðanna stjórnuðu þeim ekki nægilega vel að mínu mati, þess vegna fóru þeir unnvörpum á hausinn, voru of glannalegir í fjárfestingum og slíku. Ég held að fyrsta verkefnið sé að skapa traust, það þarf ríkisstjórnin að gera þannig að einstaklingar séu tilbúnir til að kaupa aftur stofnbréf. Síðan þarf að tryggja að sparisjóðirnir séu nægilega margir og öflugir, að þeir geti haft með sér samstarf og veitt þá þjónustu sem viðskiptavinurinn í dag krefst, heimabanka og annað slíkt, en það þarf heilmikið samstarf til þess.

Ég vona að það takist að skapa þetta traust á einhverju árabili og að sparisjóðirnir fái aftur það góða hlutverk sem þeir höfðu og voru svo nálægt kúnnanum. Það er náttúrlega fyrst og fremst starfsfólkinu að þakka.



[14:22]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðu um sparisjóðina sem við höfum svo sem rætt áður en er nauðsynlegt að taka af og til. Hér var farið yfir hugmyndafræði sparisjóðanna, í hvaða tilgangi sparisjóðirnir voru stofnaðir á sínum tíma, þ.e. að starfa með svæðisbundnum hætti, þjóna nærsamfélagi sínu, sinna einstaklingum og minni fyrirtækjum og síðast en ekki síst að axla ákveðna samfélagslega ábyrgð á sínu svæði. Fall sparisjóðanna fólst ekki í því að núverandi ríkisstjórn hafi látið Spron fara á hausinn. Það finnst mér furðuleg skýring satt best að segja. Það fyrirtæki var ónýtt og fór alveg sjálft á hausinn án aðstoðar ríkisins á sínum tíma. Það var alveg fullfært um það, ef ég hef náð að lesa rétt í þá reikninga.

Sparisjóðirnir féllu vegna þess að þeir fjarlægðust hlutverk sitt. Þeir fóru að haga sér eins og stórir bankar, víkkuðu starfssvið sitt út, þeir breyttu hugmyndafræðinni og fjarlægðust upphafleg markmið sín. Það var ástæðan fyrir því að sparisjóðakerfið og sparisjóðirnir fóru á hausinn og stór hluti þeirra lenti í fanginu á ríkinu á sínum tíma. Við þurfum að velta fyrir okkur og spyrja okkur að því hvort það sé pláss fyrir sparisjóðina, hvort það sé tilgangur með þeim, hvort rétt sé að endurreisa þá. Ég er þeirrar skoðunar að sparisjóðirnir hafi enn hlutverk og að kallað sé eftir þeim, það sé eftirspurn eftir þeim eins og þeir voru á sínum tíma. Það er hlutverk okkar að skapa skilyrði til að sparisjóðirnir verði endurreistir en þá í sömu mynd og á þeirri hugmyndafræði sem þeir byggðust á í upphafi. Það er þörf fyrir sparisjóðina, það er þörf fyrir minni fjármálastofnanir sem starfa á tilteknum svæðum, sem sinna einstaklingum og minni fyrirtækjum til mótvægis við stóru fjármálastofnanirnar, stóru bankana sem starfa á landsvísu með allt aðra hugmyndafræði í farteskinu.



[14:24]
Jón Bjarnason (U):

Herra forseti. Það er gott að við ræðum um sparisjóðina. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti á Alþingi og það undirstrikar mikilvægi umræðunnar. Sparisjóðirnir hafa orðið út undan og eftir í þeirri endurskipulagningu á fjármálastofnunum landsins á síðustu árum. Menn hafa verið bundnir af þeim allra stærstu sem höfðu farið þá leið sem hv. þm. Björn Valur Gíslason lýsti hér áðan, sem höfðu tapað sér í græðgisvæðingunni. Hinir, þessir minni sem gegnt hafa samfélagslegu hlutverki sínu frá stofnun og áfram í gegnum erfiða tíma, hafa ekki enn fengið þann stuðning sem þeir þurfa.

Sumir hafa reyndar komist af án ríkisstuðnings, ég nefni Sparisjóð Strandamanna, af því að hér var orðað að ríkið væri orðinn stofnfjáreigandi í flestum eða öllum sparisjóðum. Svo er ekki. Sparisjóður Strandamanna sem hefur ávallt verið rekinn samkvæmt þessum góðu gildum stendur og starfar enn. Það er alveg klárt mál að staðbundin þjónusta sparisjóðanna skiptir gríðarlega miklu máli. Sparisjóðurinn Afl, sem samsettur er úr Sparisjóði Skagafjarðar og Sparisjóði Siglufjarðar, skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið á því svæði auk þess sem hann skiptir máli fyrir heildarsparisjóðaumhverfið í landinu því að hann er með á milli 25 og 30% af heildarumsvifum sparisjóðanna. Þess vegna eru nú átakalínurnar um Sparisjóðinn Afl. Ég fagna þess vegna áhuga hæstv. fjármálaráðherra á málinu. Ég veit að hann mun beita sér í því máli en málið þolir bara ekki bið.

Arion banki krefst þess nú að fá að breyta eignarhaldi á þeim stofnbréfum sem hann hefur innleyst eða kallað eftir hjá stofnfjárhöfum til þess að geta látið sparisjóðinn renna inn í Arion banka. (Forseti hringir.) Það er ekki mikill tími til stefnu. Við verðum að verja sparisjóðinn Afl (Forseti hringir.) og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér eins og hann lýsti í þeim efnum.



[14:26]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að þeir sem tekið hafa til máls í umræðunni eru sammála um mikilvægi sparisjóðanna. Fram kemur í máli þingmanna að við viljum styðja við starfsemi sparisjóða og að mínu mati annarra fjármálastofnana sem byggja á samvinnuhugmyndafræðinni, hugsjóninni um samvinnu, sjálfsábyrgð og samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækja.

Ég vildi nefna nokkrar hugmyndir í framhaldi af því sem þegar hefur verið rætt. Eitt af því sem ég mundi vilja beina til hæstv. fjármálaráðherra er að skoða möguleikana á því hvort lánasvið Byggðastofnunar gæti hugsanlega orðið hluti af endurreisn og uppbyggingu sparisjóðanna. Lánasviðið hefur verið að sinna fjármögnun fyrirtækja fyrst og fremst út á landi og þar má finna þá sparisjóði sem enn þá lifa.

Ég vil líka taka undir mikilvægi þess að horfa til sparisjóðanna til að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði. Nú búum við við meiri samþjöppun á fjármálaþjónustu en fyrir hrun og er það fullkomlega óásættanlegt. Þáttur í því að taka á þeirri samþjöppun er að skoða af fullri alvöru aðskilnað fjárfestinga og viðskiptabanka. Samkeppniseftirlitið hefur líka bent á að stimpilgjaldið, sem er skattur frá hinu opinbera, er samkeppnishindrun og liggja nú þegar fyrir tvö frumvörp í þinginu um afnám á stimpilgjaldi vegna kaupa á húsnæði. Síðan er mjög mikilvægt til að tryggja samkeppnina og að bæta neytendavernd eins og hægt er.

Önnur hugmynd sem ég hef velt upp er hvort tímabært sé að við lítum á tölvuþjónustu eða bakhliðina á fjármálaþjónustu sem eitt af grunnkerfunum. Kannski er jafnmikilvægt að slíkt sé í höndum hins opinbera og vegakerfið eða heilbrigðiskerfið til að tryggja jafna aðstöðu þeirra sem sækja vilja fram í fjármálaþjónustu.

Þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég vildi nefna en ég fagna virkilega (Forseti hringir.) samstöðu okkar þingmanna um að hafa áfram sparisjóði á Íslandi.



[14:29]
Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Okkur er hollt að minnast þess að stofnun fyrstu sparisjóðanna var ekki síst viðleitni til að bæta lífskjör og voru þeir ekki síst viðbrögð við því að stærri fjármálafyrirtæki sáu sér ekki hag í því að lána efnaminna fólki og smærri fyrirtækjum. Það þótti ekki áhættunnar virði og vaxtakostnaður var lántakanum ofaukinn. Stundum voru lánin ekki hugsuð til annarra hluta en giftinga og jarðarfara.

Það efast fáir um samfélagslega þýðingu íslensku sparisjóðanna í gegnum tíðina og litlir sparisjóðir hafa oft gegnt lykilhlutverki í dreifðari byggðum þar sem stóru bankarnir treystu sér ekki til að koma til aðstoðar. Þeir hafa nefnilega verið afgerandi fyrir vöxt og viðgang margra bæja. En allt breytist með tímanum og hver tími hefur sinn veruleika. Ég held að við ættum að varast að horfa um öxl með of mikilli rómantík og horfa eingöngu á dæmi um það sem heppnast hefur vel. Við erum varla strax búin að gleyma því hvernig göfug markmið sumra sjóðanna breyttust í gróðabrask og áhættusækni sem steyptu þeim á endanum fram af brúninni.

Breyttur heimur með nýrri tækni og aukinni skilvirkni og minni höftum virðist þó ekki hafa gert alveg út af við sparisjóðina í Evrópu eins og margir spáðu og meira að segja bendir margt til þess að þeir eigi sér býsna góðan tilverurétt. Það er því auðvitað sjálfsagt mál að við greiðum fyrir endurreisn og framtíð sparisjóðanna en þó með ákveðnum skilyrðum. Við þurfum að setja þeim mjög skýr samfélagsleg markmið. Starfsemi sparisjóðanna verður að vera takmörkuð við inn- og útlánastarfsemi og staða sparifjáreigenda í stjórn þeirra tryggð. Þá þarf einnig að vera öruggt að til lengri framtíðar byggi þeir á sjálfbærum grunni en ekki á fjármunum ríkisins og baktryggingu almennings.



[14:31]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru til alþjóðlega viðurkenndir mælikvarðar sem bregða máli á það sem við köllum samþjöppun á fjármálamarkaði. Á þennan kvarða mælt var samþjöppun á íslenskum fjármálamarkaði frá 2000 fram til ársins 2008. 1.800 telst mikil samþjöppun. Núna er samþjöppunin mæld á þennan mælikvarða stigin í meira en 3.000, 50% meiri en hún var árið 2008.

Við þessari þróun varar Samkeppniseftirlitið í skýrslum sínum, ræðum og málflutningi. Skilaboðin þaðan til okkar á Alþingi eru mjög skýr, þau að frekari samþjöppun muni gera það að verkum að hér verði minni samkeppni og þjónusta við almenning og fyrirtæki verri fyrir þeirra hluta sakir.

Í þessari umræðu hefur komið mjög skýrt fram hver vilji Alþingis er. Hann er augljóslega sá að við viljum ekki að hér verði frekari samþjöppun á fjármálamarkaði. Við viljum að hér verði áfram starfrækt öflugt sparisjóðakerfi. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að líta á það sem jákvæða hvatningu henni til handa frá þingmönnum úr öllum flokkum sem hér hafa talað um að við viljum hafa hér öflugt net sparisjóða sem ekki síst sinnir þjónustu úti um landsbyggðina. Ef sparisjóðakerfið hrynur mun það rýra mjög fjármálaþjónustu á landsbyggðinni og þar með atvinnuuppbyggingu.

Ef við skoðum síðan þessi mál í þessu samhengi er ljóst að ríkissjóður hefur mikla hagsmuni. Ríkissjóður er langstærsti eigandi í sparisjóðunum almennt talað og nú stöndum við á algjörri ögurstundu. Ef það verður frekari samruni, ef Afli verður rennt inn í Arion banka mun það mögulega granda sparisjóðakerfinu (Forseti hringir.) okkar því að Afl er með um einn fjórða af sparisjóðakerfinu. Við erum sem sagt á ögurstundu, á örlagastundu, (Forseti hringir.) og við verðum þess vegna að taka í taumana.



[14:33]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við íbúa landsbyggðarinnar. Þessi mikla fækkun sparisjóðanna hefur þýtt að þeir eru núna einungis um 2% af fjármálastarfsemi í landinu. Það hefur líka komið fram í umræðunni að margir sparisjóðir gengu því miður mjög glæfralega fram eins og aðrar fjármálastofnanir og við á Alþingi höfum samþykkt rannsókn á starfsemi sparisjóðanna.

Ríkið hefur nú ráðandi hlut í að minnsta kosti fimm sparisjóðanna sem eru um helmingur þeirra sjóða sem eftir eru. Lagaumhverfið í kringum sparisjóðina var bætt í fyrravor til að styrkja þá í rekstri sínum og auka möguleika þeirra á útvíkkun í rekstrarformi. Það hefur vonandi styrkt þá eitthvað, en kannski er það ekki nóg. Framtíðarmöguleikar þeirra sjóða sem eftir standa eru mismiklir og það verður mikil eftirsjá og skerðing á þjónustustigi í byggðum landsins ef þeir lifa ekki af við þær aðstæður sem þeir búa við í dag.

Ég vil koma inn á nokkuð sem mér finnst vert að skoða og beini því til fjármálaráðherra að skoða virkilega samlegðaráhrif af því að sameina fyrirtækið Íslandspóst, sem er í opinberri eigu, þeim sparisjóðum sem eftir standa. Ég tel að við eigum að skoða alla möguleika á að styrkja þá opinberu þjónustu og fjármálastarfsemi sem er úti um land og reyna að kanna samlegðaráhrif og möguleika á að annaðhvort með samstarfi eða samruna sé hægt, eins og gert er víða á Norðurlöndunum, að reka póstþjónustu ásamt fjármálaþjónustu. Ég tel að við eigum að horfa á þetta af fullri alvöru. Þetta gæti styrkt þjónustustig á landsbyggðinni sem ekki veitir af því að hún á undir högg að sækja. Þegar íbúum fækkar vitum við (Forseti hringir.) að það er byrjað á því að skera niður víða í þessum geira.



[14:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka ráðherra fyrir svörin. Ég held að það megi að sumu leyti draga umræðuna saman í setningu sem hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í gær. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég tel að það væri atlaga að hagsmunum neytenda á Íslandi ef Arion banki tæki yfir Afl sparisjóð á Siglufirði.“

Þarna liggur í rauninni verkefnið á næstu dögum, það að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að sú yfirtaka sem Arion banki er með á prjónunum nái fram að ganga. Mér finnst eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisvaldið geti og muni grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að Arion banki gleypi Afl sparisjóð því að mér sýnist að mörg rök séu fyrir því að koma í veg fyrir að slíkt gerist og að ríkisvaldið beiti sér af mikilli hörku til að það nái ekki fram að ganga. Ég fullyrði, herra forseti, að það er mikill einhugur meðal þingmanna, í það minnsta þeirra sem hér hafa talað, um að bakka ráðherrann og ríkisvaldið upp í að láta þetta ekki ná fram að ganga. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og ríkisstjórnina alla til að standa saman við að koma í veg fyrir þetta.

Við erum sammála um mikilvægi sparisjóðanna. Það var mikið fyrir hrunið og það verður það líka í framtíðinni og að sjálfsögðu er það von okkar allra að sparisjóðirnir muni byggjast upp á þeim grunni sem þeir eru hvað þekktastir fyrir. Það er mikill vilji víða um land meðal heimamanna á mörgum svæðum, flestum svæðum fullyrði ég, að byggja undir sparisjóðina með því að leggja fé inn í þá til að þeir geti vaxið og dafnað. Þetta er okkar verkefni á næstunni.

Það er líka mikilvægt að horfa til þess að hagsmunir ríkissjóðs eru geysilega miklir þegar ríkissjóður heldur á um 40% af öllum hlutum í sparisjóðakerfinu í dag. Það eru miklir hagsmunir sem okkur öllum ber að verja og það gerum við best með því að efla (Forseti hringir.) og styrkja sparisjóðakerfið til muna.



[14:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er augljóst að það er samstaða í þessum sal um að verja framtíð sparisjóðakerfisins og tryggja að sparisjóðir verði við lýði inn í langa framtíð. En í ljósi óvissu um framtíð sparisjóðakerfisins sem rætt hefur verið um og þar með líka hagsmuni ríkisins vegna eignarhluta okkar í sparisjóðum í gegnum Bankasýslu ríkisins ákvað ég að fá mat tveggja utanaðkomandi sérfræðinga á því hvaða áhrif það hefði ef Afl færi inn í Arion banka.

Það var klárlega niðurstaða beggja þessara sérfræðinga að örlög Afls geti haft mjög mikil áhrif á sparisjóði, það sem eftir stendur af sparisjóðakerfinu í heild, þar sem Afl er um fjórðungur af því. Í ljósi þessarar niðurstöðu skrifaði ég Bankasýslunni bréf og óskaði eftir því að hún tæki það til sérstakrar skoðunar hvort við gætum með einhverjum hætti gengið inn í þetta ferli til að tryggja eigandahagsmuni ríkisins. Síðan eru líka þessi sterku samkeppnissjónarmið sem komu fram í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem og í umræðunni hingað til. Við höfum fengið jákvætt svar frá Bankasýslunni um að farið verði í forkönnun á þeim atriðum sem við óskuðum eftir. Það er vel og nú verðum við að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.

Það sem ég held líka að skipti máli er það að við ræðum fyrir alvöru með hvaða hætti menn sjái fyrir sér hagræðingu í þessu kerfi, með hvaða hætti við sjáum framtíðaruppbyggingu og endurskipulagningu. Hér hafa verið nefnd atriði eins og lánasvið Byggðastofnunar og Íslandspóstur. Þetta hefur verið skoðað og meðal annars lét ég skoða þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma hvort lánastarfsemin ætti heima með sparisjóðunum. Þá var svo mikil óvissa um framtíð þeirra að það var ekki hægt að klára það mál.

Þarna á svo sannarlega allt að vera undir vegna þess að við, ríkið, erum (Forseti hringir.) ekki bara að verja eigandahagsmuni okkar heldur að tryggja öfluga samkeppni á fjármálamarkaði. Það er hlutverk okkar (Forseti hringir.) sem hér erum.