141. löggjafarþing — 79. fundur
 12. feb. 2013.
stjórn fiskveiða, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 570. mál (heildarlög). — Þskj. 968.

[14:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir. Farið hefur fram mikil vinna við að skilgreina álitaefni og kalla til samráðs fjölda hagsmunaaðila og sérfræðinga til að greina valkosti og leiðir til að útfæra stefnu stjórnarflokkanna um að fram fari heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða sem gangi út frá því að innkalla allar aflaheimildir í einu lagi og endurráðstafa þeim aftur með breyttum leikreglum. Þar með verði ótvírætt rofnar allar einkaeignarréttarlegar kröfur núverandi handhafa veiðiheimilda og sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar skilgreind ótvíræð og óvefengjanleg.

Ég tel að það frumvarp sem hér liggur fyrir tryggi enn frekar ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og verði það í framhaldinu stjórnarskrárvarið með 34. gr. auðlindaákvæðis sem liggur fyrir í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Eftir þessa löngu meðgöngu og miklu umræðu og samráð, með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, tel ég að löngu sé orðið tímabært að málið fái lýðræðislega umfjöllun og afgreiðslu á þessu þingi.

Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta umdeilda mál sem hefur verið þrætuepli þjóðarinnar lengi, allt of lengi. Þeir sem lengst hafa viljað ganga í því að breyta kerfinu finna þessu frumvarpi allt til foráttu og þeir sem verja núverandi kerfi með kjafti og klóm telja það allt of róttækt og ganga á rétt þeirra sem fyrir eru í greininni.

Ég hef verið talsmaður kerfisbreytinga allt frá því að frjálst framsal var sett á upp úr 1990 og tel mig hafa staðgóða þekkingu á því hvernig kerfið hefur þróast í tært markaðskerfi sem tekur ekkert tillit til neinna byggðasjónarmiða eða samfélagslegra sjónarmiða, hvernig það hefur heft mannréttindi til atvinnufrelsis og fært fiskveiðiauðlindina í hendur fárra og stórra markaðsráðandi fyrirtækja sem lúta ekki neinum samkeppnislögum sem skapar hættu á að það geti orðið á kostnað minni sjávarútvegsfyrirtækja í greininni. Kerfið hefur leitt til mikillar samþjöppunar aflaheimilda og byggðaröskunar í landinu með afleiðingum sem menn vöruðu við en var því miður ekki hlustað á því að hagræðingarkrafan og gróðavonin hjá fáum á kostnað almannahagsmuna var öllu yfirsterkari hjá þeim sem réðu ferðinni.

Fjármálakerfið og fjármálagjörningar fjölda sjávarútvegsfyrirtækja voru orðnir mjög áhættusæknir fyrir hrun, svo að vægt sé til orða tekið. Talið hefur verið af mörgum að þróun framsals og óheft markaðsvæðing í kvótakerfinu hafi átt stóran þátt í efnahagshruninu. Sú saga liggur nú öll fyrir og er víti til varnaðar.

Það frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu tekur á grundvallarsjónarmiðum en núverandi stjórnarflokkar fengu umboð frá þjóðinni í síðustu kosningum til að ná fram breytingum á stjórn fiskveiða; í fyrsta lagi að þjóðareign sé á auðlindinni, að jafnræði sé aukið og að nýliðunarmöguleikar í greininni verði auknir, að verndun og sjálfbærni á nýtingu fiskstofna sé til staðar og að atvinna og byggð í landinu sé treyst. Með því að skipta kerfinu upp í tvo flokka tel ég að verið sé að tryggja vel starfsumhverfi þeirra sem fyrir eru í greininni og falla undir flokk 1. Þeim býðst nú 20 ára skilyrt nýtingarleyfi sem þar með tryggir þeim sem best stöðugt rekstrarumhverfi til langs tíma. Þar með er mætt þeirri margumræddu óvissu sem haldið hefur verið á lofti af hagsmunaaðilum að greinin hafi búið við meðan löggjöfin hefur verið í endurskoðun. En jafnframt má benda á að greinin býr við þá óvissu í núverandi kerfi að aflamarkinu er úthlutað til eins árs í senn og ekkert er öruggt um hvernig úthlutun á aflaheimildum verður í framhaldinu.

Á hinn bóginn verður annar flokkur í kerfinu sá gluggi og opnun inn í kerfið sem beðið hefur verið eftir inn í það lokaða kerfi sem við höfum búið við allt of lengi. Sú breyting mun því stórefla nýliðun og mun styrkja kvótalitlar útgerðir í aðgengi að aflaheimildum á kvótaþingi sem komið verður upp þar sem öll viðskipti munu fara fram með aflamark og leigu á veiðiheimildum úr leigupotti ríkisins og það aflamark sem er í viðskiptum innan ársins milli þeirra aðila sem eru í greininni. Í fylgiskjali fjárlagaskrifstofunnar kemur fram að reiknað er með að leiguverðið lækki og framboðið verði jafnara yfir árið frá því sem nú er.

Kaupin hafa gengið þannig fyrir sig á eyrinni að þeir sem hafa haft yfir aflaheimildum að ráða og geta leigt frá sér eftir vild hafa oft haldið kvótalitlum leiguliðum í mikilli óvissu og jafnvel skapað skortsölu til að spenna upp leiguverð sem hefur í mörgum tilfellum orðið hærra en það verð sem fengist hefur fyrir aflann á fiskmörkuðum. Ég hef talað fyrir öflugum leigupotti ríkisins til mótvægis við nýtingarleyfi núverandi handhafa til þetta langs tíma, sem eru 20 ár, og tel að þessi niðurstaða sé mjög góð fyrir þá sem geta nú haft möguleika á að byggja sig upp í kerfinu með heilbrigðari hætti — þeir þurfa ekki að eiga fúlgur fjár eða skuldsetja sig upp í rjáfur til að komast inn í kerfið öðruvísi en að vera leiguliði og öðrum háður.

Það að setja strandveiðar í hlutdeild tel ég vera góðan kost fyrir stækkunarmöguleika þessa kerfis. Reynslan hefur sýnt að strandveiðar hafa gagnast sjávarbyggðum gífurlega vel og með tilkomu kvótaþings hafa þessar útgerðir miklu meiri möguleika á að gera út á öðrum tíma ársins frá því sem nú er meðfram strandveiðum. Í frumvarpinu er tekið á eignarhaldi á þeim bátum sem gera út á strandveiðar og öllum bátum eru tryggðir að lágmarki fjórir dagar í maí og júní; ég tel það mikið öryggisatriði að þeir dagar séu til staðar og líka varðandi jafnræði mismunandi útgerðarflokka eða varðandi stærð á bátum í strandveiðum.

Fyrir þinginu liggur einnig frumvarp um strandveiðar og flutningsmenn þess eru hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og fleiri. Þar eru lagðar til útfærslur á skiptingu afla á strandveiðitímabilinu. Ég hef verið hlynnt því að það fyrirkomulag sé skoðað en án þess að kerfið þróist í það að bátar séu kvótasettir heldur eigi þetta kerfi að rísa undir því að vera með frjálsar strandveiðar innan þeirrar hlutdeildar sem það hefur og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. 3,6% af heildaraflahlutdeild.

Ég sat í hinni svokölluðu sáttanefnd sem starfaði á fyrri hluta þessa kjörtímabils. Þar komu fram sjónarmið margra hagsmunaaðila um lengd nýtingartíma núverandi handhafa. Þar voru nefnd allt að 90 ár eða í það minnsta 40–60 ár líkt og er í orkugeiranum. Þetta var sterk krafa sumra þeirra hagsmunaaðila sem sátu í þeirri nefnd. Ég taldi þá að 10 ár væru eðlilegri tími eða ef hægt væri að 5 árum liðnum að sjá fyrir hvernig fyrirkomulagið væri næstu 10 ár, að menn sæju alltaf 10 ár fram í tímann og endurskoðað væri á 5 ára fresti. Með þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir í frumvarpinu tel ég því að komið sé mjög til móts við núverandi handhafa aflaheimilda í greininni og að þeir geti ekki með neinni sanngirni talað um óvissu í greininni með möguleika á svo löngum nýtingarleyfum. Hvaða atvinnugrein önnur getur séð fram á rekstrargrundvöll sinn næstu 20 árin? Þær eru ekki margar ef þær eru þá nokkrar.

Kröfur þeirra sem eru algerlega á hinum endanum og vilja setja allar aflaheimildir á uppboð á hverju ári eru að mínu mati algjör markaðsvæðing greinarinnar. Það mundi skapa mikla óvissu um hvar þær aflaheimildir mundu lenda hverju sinni og ekkert rekstraröryggi yrði í veiðum og vinnslu við slíkar aðstæður. Sjávarbyggðir sem fyrst og fremst byggðust á sjávarútvegi gætu ekki þrifist við þá óvissu frá ári til árs sem ótryggt aðgengi að veiðiheimildum mundi skapa.

Ég hef í vinnu minni í sjávarútvegsmálum allt þetta kjörtímabil talað fyrir takmörkun á framsali við mismikla hrifningu. Ég er því ánægð með að náðst hefur inn í þetta frumvarp takmörkun á framsali í aflaaukningu og að hægt sé að grípa inn í ef yfir 20% aflaheimilda fara frá byggðarlagi og heimilt sé að ríkið neyti forkaupsréttar og geti endurráðstafað þeim í gegnum kvótaþing í þágu viðkomandi byggðarlags eða landshluta. Einnig hef ég talað fyrir því í allri þessari endurskoðun að þeir sem fá nýtingarleyfi hjá ríkinu starfi eftir gildum kjarasamningum. Ég sé að ekki er komið inn á þann þátt í frumvarpinu og mun ég mælast til þess að það verði skoðað í hv. atvinnuveganefnd. Hvort sem því verður komið fyrir í lögum, greinargerð með frumvarpinu eða í reglugerð tel ég mjög brýnt að menn starfi eftir þeim grundvallarmannréttindum og leikreglum sem gilda almennt í þjóðfélaginu.

Ég vil vekja athygli á þeim tekjum af leigupotti ríkisins sem ráðstafa á til sveitarfélaga í gegnum landshlutasamtökin. Einnig mun ríkið geta notað þær tekjur sem fást fyrir leigu á veiðiheimildum til að fjárfesta í aflaheimildum á grundvelli byggðasjónarmiða, til að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi og til að efla kvótaþingið. Um 20% af leigutekjum ríkisins munu fara í markaðs- og þróunarsjóð tengdan sjávarútvegi. Ég tel það vel koma til greina að af þeim 20% fari 5% í fræðslusjóð og starfsmenntunarsjóð þeirra sem starfa við sjávarútveg til sjós og lands og vil skoða þann möguleika í vinnu hv. atvinnuveganefndar.

Þetta frumvarp í heild sinni markar því tímamót. Nú er tækifæri til að gera breytingar sem leitt gætu til þjóðarsáttar um umdeilt fiskveiðistjórnarkerfi sem aldrei hefur verið friður um og verður ekki friður um að óbreyttu. Hér stöndum við frammi fyrir því tækifæri sem beðið hefur verið eftir og ég vænti þess að allir þeir sem vilja gera breytingar á þessu kerfi komi að borðinu með sáttarhönd og í því ljósi að við þurfum að lenda þessu erfiða máli. Nú höfum við tækifæri til þess. Þetta er vissulega ekki eins og hver og einn hefði óskað sér í hinum ýtrustu óskum eða samið á eldhúsborðinu heima hjá sér, þeir áhugamenn um breytingar á kvótakerfinu sem til eru í landinu, en ég veit að þeir eru til fjölmargir. Hver og einn þeirra hefur alveg örugglega margt gott til málanna að leggja en hér hefur farið fram gífurleg vinna — sjónarmið aðila liggja fyrir og allir verða að slá eitthvað af sínum kröfum. Ég held að það verði okkur ekki til gæfu í sjávarbyggðum landsins, eða yfir höfuð í landinu, ef við ætlum að halda þessu ófriðarbáli logandi allt þetta kjörtímabil. Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gengur hér fram hjá og segir: Slökktu þá í þessu ófriðarbáli. Ég tel mig nákvæmlega vera í því hlutverki að reyna að slökkva það. Ég vona að aðrir þingmenn skvetti ekki olíu á þann eld heldur aðstoði mig við að slökkva bálið og skapi um það þjóðarsátt. Ég tel að í umræddu frumvarpi sé mikill efniviður sem við getum mæst á úr ólíkum áttum.



[14:56]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að hv. starfandi formaður atvinnuveganefndar tali um að það sé löngu tímabært að málið fái umfjöllun á þessu þingi. Það er ekki seinna vænna. Málið hefur verið til umræðu á nánast öllum öðrum þingum þessa kjörtímabils og það var svo sem kominn tími á það eflaust hjá stjórnarliðum að koma fram með það en allt of seint eina ferðina enn.

Hv. þingmaður talaði um að hagræðingarkröfur og gróðavonin hefðu rekið menn áfram eftir að framsalið var heimilað 1991. Því langar mig að spyrja hvort það sé hennar sýn að við værum betur sett í dag án þeirrar hagræðingar sem átti sér stað í íslenskum sjávarútvegi sem leiddi meðal annars til þess að fiskiskipum í landinu fækkaði úr næstum 2.600 í 1.100 og eitthvað, sem þau eru núna, hvort það hafi verið algjör óþarfi. Ættum við að veiða þessa sömu köku í dag með þessum fjölda fiskiskipa og tilheyrandi fjölda sjómanna?

Mig langar að spyrja hana annars og þá af því tilefni að hún hefur verið mikill talsmaður strandveiða. Þegar strandveiðar voru upphaflega settar á laggirnar voru ein helstu rök stjórnarliða fyrir því ólánsskrefi í íslenskum sjávarútvegi að þær mundu auka svo nýliðun í greininni, þetta yrði gluggi fyrir nýliða til að koma inn. Þingmaðurinn gæti svarað þessari spurningu í örstuttu máli: Af hverju hefur reynslan af strandveiðum sýnt okkur núna að sú nýliðun hefur ekki gengið eftir?

Vegna sömu orða langar mig að spyrja hana hvort hún sé ósátt við þá þróun sem hefur orðið í íslenskum sjávarútvegi, að hlutdeild smábáta í kerfinu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi aukist mjög mikið þannig að aflahlutdeildir smábáta núna eru (Forseti hringir.) miklu meiri en þær hafa eflaust nokkurn tíma verið í núverandi kerfi til þess að (Forseti hringir.) efla litlar og meðalstórar útgerðir í landinu.



[14:58]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst um hagkvæmni í greininni og hvort ekki hefði verið hægt að hagræða í greininni miðað við takmarkað aðgengi að aflaheimildum. Ég er talsmaður þess að við höfum veiðistýringu en ég tel að gallar framsalsins hafi komið berlega í ljós og það hafi ekki verið rétt að ganga í skjóli hagræðingar svo óheft fram í því framsali sem gert var. Ég tel að það hefði verið hægt að hagræða og laga sig að þeim veiðiheimildum og því magni sem var í boði hverju sinni miðað við þá veiðiráðgjöf sem við förum eftir hjá Hafrannsóknastofnun og að ekki hafi verið þörf á þessari óheftu markaðsvæðingu sem bitnaði á byggðum og samfélögum án þess að neinn gæti ráðið við það.

Varðandi strandveiðarnar tel ég að þær hafi svo sannarlega sannað sig. Það hafa verið gerðar úttektir á strandveiðum sem sýna að þar er mikil nýliðun. Kvótalitlar útgerðir sem voru fyrir í krókaaflamarkskerfinu hafa á sumrin notið góðs af því að geta stundað strandveiðar og haft þar með lifibrauð af þessari atvinnu allt árið. Það þekki ég mætavel sjálf. Ég held að strandveiðarnar hafi vissulega sannað tilverurétt sinn og séu sem betur fer komnar til að vera. Ég heyrði á máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að hann er hlynntur áframhaldandi strandveiðum.

Varðandi fjölgun í krókaaflamarkskerfinu og magnið þar tek ég bara undir það, ég er mjög hlynnt því að krókaaflamarkskerfið starfi áfram og þetta sé tvískipt innan aflamarkskerfisins, en ég var aftur á móti mjög ósátt við það að framsal væri sett þar á því að þar með gekk það sama yfir litla kerfið og yfir það stóra, mikil samþjöppun og byggðaröskun í kjölfarið.



[15:00]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svo mörgu sem hv. stjórnarliðar ræða um, og á við í þessu máli, gengur hugmyndafræðin ekkert upp. Auðvitað gengur það ekki upp að viðhalda sama fjölda fiskiskipa, sama fjölda sjómanna og ætla um leið að leita hagræðingar. Hið sama á við í krókaaflamarkskerfinu. Ef við ætlum að leita hagræðingar þurfum við að draga úr kostnaði við sóknareininguna og það hefur óumflýjanlega í för með sér að skipum fækkar og það getur komið við byggðir landsins. Þetta var fyrirsjáanlegt. Eitt af markmiðum kvótafrumvarpsins, sem var í sjálfu sér ekkert óumdeilt, var að leita þessarar hagræðingar.

Það sem er síðan í hrópandi ósamræmi í málflutningi hv. stjórnarliða í þessu máli núna er að búið er að sýna óyggjandi fram á það af hálfu hagsmunaaðila, t.d. Landssambands smábátaeigenda, og hlutlausra sérfræðinga sem nefndin hefur fengið til að gera úttekt á þessum frumvörpum fyrir sig, að þetta mun hafa þær afleiðingar (Forseti hringir.) að samþjöppunin verður enn meiri og mun koma langverst niður á (Forseti hringir.) litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hvernig ætlar hv. starfandi formaður (Forseti hringir.) atvinnuveganefndar að svara þeirri gagnrýni? (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hún að stuðla að því að (Forseti hringir.) þróunin verði ekki með þeim hætti?



[15:02]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk. Það var ein mínúta en ekki ein og hálf mínúta í síðara skipti. (JónG: Ég biðst afsökunar. )



[15:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagræðingin getur átt sér stað og skipum og bátum fækkað þó að þetta óhefta framsal og sala á óveiddum fiski í sjónum sé ekki þar fylgifiskur. Það vitum við bæði. Við vitum að það hefur orðið mikil hagræðing á matvörumarkaði og menn hafa ekki selt með aðgengi að kúnnunum. Verslanir hafa stækkað og þeim hefur fækkað (Gripið fram í.) og hið sama á við um skip í landinu. (JónG: Hvað …?) Opinberir aðilar hafa komið að því að úrelda skip og lagt fram fé til þess og sú hagræðing hefði alveg getað átt sér stað óháð framsali á óveiddum aflaheimildum. Það fullyrði ég hér og nú.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um að þetta frumvarp mundi leiða til enn meiri samþjöppunar tel ég það þvert á móti. Það er verið að opna á nýliðun, styrkja þá sem fyrir eru í greininni til að skapa sér heilsársvinnu og að menn geti (Forseti hringir.) leigt úr leigupotti ríkisins en ekki hver af öðrum eins og er í dag.



[15:03]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom töluvert inn á það í upphafi ræðu sinnar að bregðast yrði við þeim aðstæðum sem menn teldu ekki nægjanlega góðar í dag, þ.e. aðgangi að veiðiheimildum, áhrifum á veik byggðarlög o.s.frv. Mér fannst vera ákveðin þversögn í máli hv. þingmanns sem snýr að því að þetta gerist á sama tíma og verið er að skera niður línuívilnun, minnka byggðapottana um helming sem og skel- og rækjubætur og ég spyr: Hvar sér hv. þingmaður sóknarfærin fyrir til dæmis Vestfirðinga, þ.e. Norðvesturkjördæmi? Hvar eru sóknarfærin og aukinn aðgangur fyrir útgerðirnar þar?

Núna er einungis ein fisktegund, þorskur sem er auðvitað mikilvægasta fisktegundin eða sem mest er veitt af á Vestfjörðum, tekin út fyrir sviga og þegar aflamarkið í þeirri tegund er komið upp í 240 þús. tonn fara 50% í leigupottinn og 50% til aflahlutdeildanna. En það á ekki við um neinar aðrar tegundir. Þessu er mjög misskipt milli landsvæða og jafnvel milli byggðarlaga, þó aðallega landshluta, þannig að mér finnst halla mjög á einmitt þessa sem snýr að útgerð, til að mynda á Vestfjörðum.

Hér var verið að ræða strandveiðarnar og það sem hefur mistekist í framkvæmd þeirra er að það er ekki jafn aðgangur, þar er mismunun. Af hverju fiska Vestfirðingar helmingi minna en Austfirðingar, Vestfirðingar sem hafa alla tíð verið þekktir fyrir að fiska manna mest? Það er vegna þess að þeir hafa ekki jafnmarga daga til að veiða. Þeir sem búa á Vestfjörðum mega róa fjóra daga en þeir sem búa á Austfjörðum mega róa allan mánuðinn. Það er þversögn í því þannig að þetta frumvarp gengur að mínu mati sömu leið og strandveiðarnar gerðu á sínum tíma.



[15:06]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að koma inn á hvar ég sé tækifæri fyrir byggðir eins og á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðvesturlandi, þ.e. í mínu kjördæmi. Ég sé mikil tækifæri í þeim stækkandi leigupotti sem verður á næstu þrem árum og mun fara upp í um 30 þús. tonn, bara leigupottur ríkisins, fyrir utan það magn sem fer í gegnum kvótaþing af því aflamarki sem útgerðir mega leigja frá sér, sem sagt 25% af úthlutuðu aflamarki innan ársins. Ég tel að þetta muni stuðla að því að það verði jafnara framboð á aflaheimildum sem gerir útgerðum kleift að gera út á kvótaþing og leiguheimildir.

Í dag er ekkert öryggi hjá þeim útgerðum sem hafa ekki nægan kvóta til þess að vera sjálfbærar. Þær eiga allt undir einhverjum öðrum útgerðaraðila, hvort hann yfir höfuð leigir frá sér eða að verðið sé svo hátt að það borgi sig ekki að leigja aflaheimildirnar þó að menn neyðist kannski til þess að leigja til sín meðaflategundir, t.d. ýsu. Ég tel þetta gefa mikil tækifæri fyrir utan það að strandveiðarnar eiga eftir að aukast mikið ef aukning verður í þorski og ufsa. Það að vera með hlutdeild upp á 3,6% stækkar þann pott mikið og með því að styrkja eigandahlutann, þ.e. að sá sem rær sé eigandi og að ekki sé strandveiðileyfi á margar kennitölur, eykur og styrkir grunninn fyrir þá sem eru á strandveiðum.

Við þetta verða miklu fleiri dagar en verið hefur í hverjum mánuði og þetta allt tel ég styrkja (Forseti hringir.) mitt kjördæmi sem og önnur.



[15:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég bið hins vegar hv. þingmann að hugsa mjög vandlega um þær væntingar sem hún hefur til þess að útgerð geti treyst á svokallaðan leigupott ríkisins. Ég tel það mjög varhugavert. Það getur verið sýn hv. þingmanns en ég er algjörlega ósammála henni í því. Það er ekkert minni óvissa þar en er í dag, það gefur augaleið. Þetta er frjáls og opinn markaðspottur þó að menn geti bætt við með einhverju handstýrðu frá ráðherra og ég vara menn við að hafa of mikla trú á því.

Í umræðunni í gær sagði annar hv. stjórnarliði: Þetta verður skilyrðislaust að vera algjörlega fyrir utan þræði ráðherrans, opinn, efnislegur markaður. Ég bið hv. þingmann að hugsa um það.

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum ekki að ræða aðra hluti hér undir þessum kringumstæðum. Hv. þingmaður nefndi hins vegar ýsuveiðina sem við þekkjum að er orðin mjög bagalegt vandamál nánast hringinn í kringum landið og ég spyr hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að það sem helst sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessa dagana séu akkúrat markaðsmálin og það sem snýr að úthlutun á ýsukvótanum.



[15:09]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi ýsuveiðarnar og þann vanda sem margar útgerðir eru í. Í morgun voru kynntar fyrir okkur í atvinnuveganefnd hugmyndir um að þeir sem hefðu ekki aflamark í ýsu eða væru búnir með það gætu farið á veiðar og komið með þann meðafla í land og fengið 10% til sín en 90% færu í VS-afla. Þetta yrði til þess að mæta þeim miklu erfiðleikum sem eru vissulega til staðar, kæmi í veg fyrir brottkast og aflinn kæmi á land. Fiskvinnslur mundu njóta góðs af að vinna þennan afla en líka þeir sem veiddu þótt þeir hefðu samt ekki það mikinn ávinning að þeir væru að sækja meira en þyrfti. Þeir gætu þó að minnsta kosti komið með ýsuna sem meðafla í land ef þeir hefðu ekki heimild fyrir henni.

Ég tel annars að við þurfum ekki að hræðast það að þessi leigupottur ríkisins standi ekki undir nafni. Hann er í byrjun 20 þús. tonn (Forseti hringir.) og á eftir að stækka mikið og leigunni úr þeim afla verður dreift yfir allt árið.



[15:10]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að beina fyrirspurn til hv. þingmanns út af 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Í greininni kemur fram að í reglugerð sé heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem staðsettar eru á tilteknum landsvæðum. Hversu mikinn hluta telur hv. þingmaður að hér sé átt við? Ég hef áhuga á að vita hvað átt er við hér og hvernig framtíðarsýnin verður. Og í framhaldi af því: Hvaða áhrif mun þessi breyting og þessar ráðstöfunarheimildir til ráðherra hafa á sterkar sjávarútvegsbyggðir eins og Grindavík og Vestmannaeyjar? Hvaða þýðingu mun þetta hafa?

Síðan er í 2. mgr. sömu greinar fjallað um það að þær tekjur sem aflað er við ráðstöfun aflamarks samkvæmt þeirri grein skuli renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Úr þessum sjóði á að úthluta samkvæmt reglum sem ráðherra setur, ríkið á að fá 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvert þessi 40% sem renna eiga til sveitarfélaga eigi að fara? Eiga þau að fara til allra sveitarfélaga landsins eða til sveitarfélaga þar sem stundaður er sjávarútvegur? Hvað er átt við hér og hvernig sér hv. þingmaður þetta allt saman fyrir sér í framkvæmd?



[15:12]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í 19. gr. er sem sagt verið að ræða um tekjur af leigu aflaheimilda úr leigupotti og þá skiptingu að 40% fari til ríkisins, 40% til byggðanna í gegnum landshlutasamtök og 20% í rannsóknir. Eins og kemur hér fram er verið að tala um að skipa nefnd til að fjalla um með hvaða hætti þessi úthlutun fer fram. Það kemur fram í greinargerð. Það er mjög mikilvægt að landshlutasamtök og sveitarfélögin komist að samkomulagi um hvernig þessum tekjum verði best varið en ekki bara að þau byggðarlög sem eru vel sett í dag fái þessar tekjur. Það á að nýta fjármagnið til að byggja upp þær byggðir sem hafa farið halloka, skapa jafnvel fjölbreyttari atvinnutækifæri til að byggja á styrkari grunni og nýta þetta sem best.

Ég held að þetta gæti orðið lyftistöng fyrir margar þessar byggðir og bind vonir við að þessi vinnuhópur sem á að skipa til að fara nánar í þessa útfærslu skili frá sér góðum tillögum svo þetta fjármagn nýtist sem best.



[15:14]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hefur hv. þingmaður ekki skoðun á því til hvaða sveitarfélaga þetta tekur? Er það einfaldlega nefnda á vegum landshlutasamtaka að taka slíkar ákvarðanir?

Ég vek athygli á því að þeir sem sitja í slíkum landshlutasamtökum eru ekki með beint umboð til þess, þeir eru ekki kjörnir beint til þeirrar setu. Er það skoðun hv. þingmanns að þetta sé og eigi að vera svona, það sé einfaldlega þeirra sem þarna sitja að taka þessar ákvarðanir?

Síðan endurtek ég aðra spurningu úr fyrri fyrirspurn minni: Hvaða áhrif hefur þetta á þær byggðir í landinu þar sem er öflugur sjávarútvegur? Ég tek dæmi af Vestmannaeyjum og Grindavík.



[15:15]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi treysti ég því að menn geti komið sér saman um það heima í héraði hvernig þessum fjármunum verði best varið. Það hefur oft verið gagnrýnt að öllu sé miðstýrt frá ráðuneytinu og talað um ráðherraræði og annað því um líkt. Ég tel að það hljóti að vera hægt að koma að þessu borði og ráðstafa þessum fjármunum af sanngirni til þeirra byggða sem hafa orðið fyrir bresti út af kvótamissi. Ég treysti því að sú vinna verði fagleg og skili sér. (Gripið fram í: … byggðir?) Það eru ekki bara þær byggðir heldur á þessi hópur að fjalla um þetta. Ég treysti þeim hópi til að vinna að því verki heiðarlega og af sanngirni.

Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af einhverjum byggðum sem ganga vel í dag og eru vel settar. Þær halda áfram að vera vel settar og þurfa ekki á því að halda að fá einhvern sérstakan stuðning nema heimamenn telji að það sé eitthvað sérstakt (Forseti hringir.) sem leiði til þess að þær fái stuðning úr þessum sjóði.



[15:16]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það væri áhugavert að halda áfram með þær umræður sem fóru fram milli þeirra hv. þingmanna sem töluðu hér síðast. Kannski geri ég það í seinni hluta ræðu minnar.

Ég vil byrja á því að segja að það er mjög sérkennilegt að enn eina ferðina skuli vera komið fram með fiskveiðistjórnarfrumvarp, í þriðja sinn, á síðustu klukkutímum þingsins. Það er ekki hægt að segja vikum, það er nánast verið að mæla fyrir málinu á klukkutímum því að það á eftir að fara í nefnd og fá efnislega umfjöllun. Þetta er mjög sérstakt. Auðvitað er líka mjög sérstakt, að minnsta kosti að mínu mati, að menn skyldu ekki hafa nýtt það tækifæri sem þeir höfðu eftir skipan fyrstu nefndarinnar, sáttanefndar eða samráðshóps eða hvað menn vilja kalla hópinn sem hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson stýrði og hv. þm. Björn Valur Gíslason var varaformaður í. Þar var fullt af efniviði til að halda áfram með málið og reyna að þróa það í þá veru sem hefði verið skynsamlegt. Þá hefði kannski verið hægt að segja, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði hér áðan, að tekið hefði verið tillit til allra þátta. Það fannst manni. Þetta var mjög sérstakt tækifæri að því leyti að að því stóðu allir stjórnmálaflokkar plús öll hagsmunasamtök þó að skoðanir væru mismunandi og sérbókanir. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að Landssamband smábátaeigenda, LÍÚ og sveitarfélögin og allir hefðu skrifað undir samkomulag eða svona ákveðna sýn þó að þau væru með sérbókanir.

Hvað snýr að þessu frumvarpi þá er maður auðvitað hugsi yfir því vegna þess að manni finnst að við ættum að vera að ræða hér önnur mál, þ.e. þau vandamál sem blasa við, þau verkefni sem þingið ætti að standa frammi fyrir núna, hvort heldur sem það snýr að skuldamálum heimilanna og fyrirtækjanna eða stöðunni í heilbrigðismálum, í löggæslunni, ríkisfjármálum, minni hagvexti o.s.frv. Það eru þau brýnu verkefni sem við ættum að vera að ræða. En fyrst þetta mál er á dagskrá verður maður auðvitað að ræða það.

Í andsvörum hér áðan við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur kom ég inn á ástandið í umhverfinu. Mér finnst umræðan alltaf snúast um það hvort lítill bátur eigi að veiða fiskinn, stór bátur, rauður bátur, blár bátur, frambyggður eða afturbyggður. Það er hins vegar ekki stærsta vandamálið í sjávarútvegi og hefur ekki verið. Aðalatriðið er að það er aldrei verið að ræða þann stóra þátt sem snýr til að mynda að markaðsmálum. Það er þáttur sem þarf auðvitað að rækja miklu betur en hefur verið gert, það er bara þannig. Umræðan er alltaf frasakennd. Svo tala menn um hagræðingu í greininni og þá gleymist alltaf að tala um — hvað? Það hefur fækkað í greininni, sjómönnum hefur fækkað, fiskvinnslufólki hefur fækkað. Af hverju skyldi það vera? Aðalástæðan er auðvitað sú að það er búið að skera niður aflaheimildir og það er búin að vera tækniþróun. Það er aðalástæðan fyrir því. Síðan eru menn alltaf með einhverja frasa út og suður sem ekkert innihald er fyrir.

Við skulum ekki gleyma, og það er ágætt að rifja það upp, að pólitíkin og þingið á hverjum tíma hefur með ákvörðunum og pólitísku handafli fært til innan kerfisins í áratugi. (Gripið fram í.) Væri ekki ágætt að staldra aðeins við það? Stöldrum aðeins við það. Ég hef oft gagnrýnt það sem sumir hafa gert. Það hefur haft þær afleiðingar meðal annars að búið er að færa fullt af hlutdeild úr aflamarkskerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið. Það er staðreynd. Það hefur verið gert með pólitísku handafli til þess að verjast þeim aðstæðum sem hafa komið upp. Út frá því hafa verið ákveðnar hliðarverkanir sem snúa að svokölluðum vertíðarflota. Hann hefur verið að dala á sama tíma og við höfum verið að byggja upp hinn flotann. Við skulum bara tala hreinskilnislega um það.

Þegar maður fer að velta fyrir sér því sem lagt er til hér þá öskrar margt á mann í þessu frumvarpi sem maður vill ræða mikið efnislega en hefur ekki tíma til í stuttum ræðum. Af hverju? Ég skil að mörgu leyti hugsunina sem býr að baki. Ef menn vilja ná sátt um ákveðna aflaaukningu í tiltekinni tegund, eins og í þessu tilfelli 240 þús. tonn af þorski, hlýtur meðaltalsveiði að vera reiknuð út aftur í tímann. Síðan er sagt: Þetta er ákveðið meðaltal og þegar fer að flæða upp fyrir það viljum við fara að skipta því með einum eða öðrum hætti. Það eru ákveðin rök, ég er ekki alveg sammála þessu en látum það liggja milli hluta. Væri þá ekki hægt að taka umræðuna eitthvað dýpra því að hún er yfirleitt alltaf á yfirborðinu?

Ég var í andsvörum við einn þingmann áðan út af Norðvesturkjördæmi þar sem þorskurinn er mjög sterkur í þeim grunnstoðum sem menn veiða þar, bolfiskvinnslunni. Það er ekki þannig á Austfjörðum, þar er því öfugt farið. Hvað er til dæmis að gerast núna í bolfiskveiðum og vinnslunni í Norðvesturkjördæmi? Hvað er að gerast þar? Það er jú verið að auka þorskkvótann, minnka ýsukvótann og markaðsmálin dala þar á meðan verð á mjöli er í sögulegu hámarki. Við fengum þau gleðilegu tíðindi í gær að verið var að bæta 120 þús. tonnum til viðbótar við loðnukvótann. Öll fögnum við því. Upprunalegi kvótinn var 300 þús. tonn, síðan var búið að bæta við 150 þús. tonnum og nú 120 þús. tonnum þannig að það stefnir í eina bestu vertíð í mjög langan tíma. Jafnvel sambærilega og var í fyrra.

Hvað er búið að sýna fram á með veiðigjaldafrumvarpinu og afleiðingum þess? Veiðigjaldið leggst mjög mismunandi á útgerðarflokka. Þeir sem eru til að mynda í uppsjávargeiranum borga miklu lægra verð miðað við útflutningsverðmæti en þeir sem eru í öðrum tegundum, eins og bolfiski og því sem snýr að grálúðu, og þeir sem eru að frysta um borð. Hér er enn gengið sömu leið. Það er eins og það sé ekki til nema eitt stykki þorskur sem á að borga upp allar bætur, hvernig sem það er gert, og líka þegar skerðingar eru. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Það sama er ekki gert með hinar tegundirnar. Þá hefði maður getað tekið málefnalega umræðu að mínu mati um það ef menn ætluðu að taka meðaltalsveiði af hverri tegund fyrir sig sem væri úthlutað. Þá færu menn yfir í leigupottinn og tillit væri líka tekið til þess hvernig staðan á úthlutuðu aflamarki í samsetningu og tegundum væri. Það er ekki verið að gera það, nei, það er ekki verið að því, því sama skal haldið áfram.

Það er mjög merkilegt sem kemur fram og snýr að Norðvesturkjördæmi, svo að ég haldi mér bara þar til að byrja með. Gengið er fram með þeim hætti að þar eru skerðingarnar hvað mestar ef við tökum línuívilnanir, byggðapottana og þar fram eftir götunum. Þetta finnst mér vera umhugsunarefni fyrir hv. stjórnarliða. Þeir halda því fram að þetta muni styrkja hinar veiku byggðir en mín skoðun er að þetta muni veikja þær. Það er alveg klárt.

Við skulum rifja upp strandveiðarnar. Hvernig eru þær? Þær voru til þess að jafna aðganginn. Þá spyr maður sig: Hvaða réttlæti er í því að þeir sem búa á Vestfjörðum fái að róa fjóra daga en þeir sem búa fyrir norðan Horn megi róa 20 daga, fimm sinnum fleiri daga? Aflatölur og fiskirí á bátunum þar sýna að þeir fiska auðvitað helmingi meira en hinir. Það er bara vegna þess að þeir hafa aðgang að miðunum, þ.e. þeir mega róa fleiri daga. Það er samspil á milli daganna og þess sem veitt er af því að það er hámarksveiði á dag. Nei, enn skal gengið sama veg. Maður er auðvitað brenndur af því sem snýr að ráðherraræði í frumvarpinu. Við vitum hvað gerðist í strandveiðunum þegar hæstv. þáverandi ráðherra færði bara línuna eins og honum datt í hug. Hann færði línuna eftir eitt ár. Hann tók ákvörðun um það einn og sér, það er málið.

Margt er alveg hreint með ólíkindum sem snýr að þessu máli. Ef maður tekur mið af því sem stendur í frumvarpinu og hvernig eigi að túlka það þá tel ég mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur öll að í lagatexta þessa frumvarps skuli standa, þegar fjallað er um hlutdeildirnar sem fara í pott 2, með leyfi forseta:

„Heimilt er að takmarka úthlutun við aðila á svæðum sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti.“

Hljómar vel. Svo kemur til viðbótar:

„Heimilt er að taka tillit til aldurs umsækjenda auk reynslu af sjómennsku og útgerð á viðkomandi svæði.“

Er ekki umhugsunarefni fyrir okkur að það skuli standa í lagafrumvarpi að hæstv. ráðherra geti tekið tillit til aldurs? Það sem mér fannst vanta inn í þetta var „til kyns“ [Hlátur í þingsal.] vegna þess að ríkisstjórnin er alltaf að tala um kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn. Af hverju er ekki nefnt að hér verði jafn aðgangur kynja? Það er algjörlega fáránlegt að ætla að hafa svona heimild í lögum, það er galið, eintóm vitleysa.

Síðar stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að binda nýtingu aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein nánari skilyrðum, m.a. um forkaupsrétt ráðherra við endursölu á aflahlutdeildunum, innan ákveðins tíma …“

Það hefði kannski verið umhugsunarvert að segja „forkaupsrétt ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs“. Það er eins og menn séu bara einir. Þetta hefur ekkert með núverandi ráðherra að gera, ráðherrar koma og fara, sem betur fer getur maður auðvitað sagt núna. Það gefur augaleið að það er umhugsunarefni að hafa þetta í frumvarpinu.

Til viðbótar vil ég koma að því sem ég talaði um áðan, hvernig aflamarkinu er skipt þegar menn fara upp fyrir ákveðna tölu. Þá er skerðingin með þeim hætti að áfram eru fjórar tegundir skertar meira, þ.e. þorskur, ufsi, ýsa og steinbítur. Síðan komu hinar tegundirnar inn. Það er byrjað með 5,3% skerðingu og endað með 7% skerðingu 2015/2016 á öðrum tegundum sem koma inn í svokallaða potta á kvótaþingi. Ég skal vera sanngjarn. Þetta hefur þó gengið í rétta átt á undanförnum árum, því er ekki hægt að neita, því að það var algjörlega óþolandi og ólíðandi að einungis fjórar fisktegundir skyldu vera teknar inn í skerðingarpotta. Þá blasir þessi spurning við: Af hverju er ekki sama skerðingarhlutfall í öllum tegundum? Hver eru rökin fyrir því? Ég get ekki fundið í þessu frumvarpi eða í greinargerðinni af hverju svo er ekki. Það á auðvitað að vera sama skerðingin á öllum hlutdeildum. Annað er ekki sanngjarnt þegar við förum að skoða það.

Ég nefndi Norðvesturkjördæmi hér áðan en það er auðvitað hægt að taka mörg önnur kjördæmi fyrir og einstaka byggðarlög í öðrum kjördæmum. Þegar við skoðum til dæmis stærstu útgerðirnar þá hafa þær í gegnum tíðina alltaf borgað minnst í hina samfélagslegu potta, eins og þeir eru stundum kallaðir. Þær borga minnst í veiðigjald miðað við afkomu og þær þurfa áfram að láta minnst í þessa potta. Síðan blasir við að með veiðigjaldinu, eða auðlindagjaldinu, er verið að taka mest af smæstu og meðalstóru útgerðunum þegar menn skoða niðurstöðurnar. Það hefur verið sýnt í tölulegum upplýsingum.

Ég ætla aðeins að nota síðustu mínútuna mína til að fara yfir eitt atriði sem ég er algjörlega ósammála hvernig er skipt í frumvarpinu. Ég er ekkert viss um að margir séu sammála mér um það. Ég er algjörlega ósammála því að blanda skiptingunni á potti 2 á milli ríkis, sveitarfélaga og einhvers þróunarsjóðs. Ég er algjörlega á móti því. Skattlagningin eða það sem kemur út úr pottinum sem menn leigja úr, svokölluðum leigupotti 2, á bara að fara í ríkissjóð. Það á ekkert að dreifa úr honum hingað og þangað. Þetta er bara til þess að dreifa einhverjum bitum svo að fleiri komi að þessu. Það er líka mjög sérstakt að þetta skuli vera svona þegar það sem snýr að auðlindagjaldinu er öðruvísi. Ég er hins vegar algjörlega meðvitaður um það hvaða áhrif þessi gjaldtaka hefur á viðkomandi sveitarfélög en menn eiga að gera þetta með allt öðrum hætti. Menn gætu sett gjaldtökuna inn í aflagjaldið eða hvernig sem er, það eru margar aðrar aðferðir til. Ég er alfarið á móti því að skipta þessu með þessum hætti enda er varað við því. Það stendur skýrt í umsögn frá fjármálaráðuneytinu að þetta skerði fjárstjórnarvald Alþingis og gangi gegn stjórnarskránni. Er það ekki umhugsunarefni fyrir okkur með öllum þessum frösum sem notaðir eru til að breyta núgildandi stjórnarskrá? Væri ekki gott að byrja á því að fara eftir henni?



[15:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fundið það út úr frumvarpinu að það muni draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins nái frumvarpið fram að ganga. Maður veltir því fyrir sér þegar maður les í gegnum það og rifjar upp athugasemdir sem komu fram við fyrra frumvarp þá var það eina megingagnrýnin sem kom fram, þ.e. að þetta mundi draga úr hagkvæmni sjávarútvegsins. En að sama skapi sýnist manni að sumt sem hér um ræðir í tengslum við sérstaka veiðigjaldið sem var lagt á að það hvetji í rauninni til samþjöppunar í greininni. Mér sýnist því að þetta rekist hvert á annars horn. Ein aðgerðin virðist leiða til samþjöppunar, því að menn treysta sér ekki til að starfa í umhverfi þar sem veiðigjaldið er svona hátt, og frumvarpið sem hér um ræðir er beinlínis til að draga úr hagkvæmninni með öllum tilteknum ráðum að manni sýnist.



[15:33]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp gerir ráð fyrir afskiptum ríkisvaldsins á hverjum tíma, sérstaklega ráðherrans sem fær gríðarlega mikil völd eins og hann nefndi áðan. Ráðherra getur tekið tillit til aldurs manna þegar hann úthlutar kvótum og öðru. Það gengur þvert á grunninn að því sem snýr að svokölluðu veiðileyfagjaldi eða auðlindagjaldi eða hvað við eigum að kalla það vegna þess að eftir því sem hagkvæmnin er meiri getum við tekið hærra veiðigjald, það gefur augaleið. Það hefur ekkert farið á milli mála í umræðunni. Þeir sem byrjuðu að tala fyrir auðlindagjaldi á sínum tíma sögðu þetta: Við verðum að láta greinina hagræða til að geta tekið hærra gjald. Það segir sig algerlega sjálft og þarf ekki að flytja langar ræður um það. Þetta kom fram hjá þeim sem fluttu fyrstu tillögurnar í þessa veru fyrir nokkrum áratugum. Þetta hefur ekkert breyst. En grunnurinn að þessu er sá að það sem gleymist alltaf í umræðunni er að fækkunin í greininni og hagræðingin er ekki eingöngu bara vegna þess að menn eru að gera hana arðsamari út af þessum hlutum heldur líka út af tækniþróuninni og niðurskurði á aflaheimildum.



[15:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að gengið hefur á ýmsu í sjávarútveginum, niðurskurður á aflaheimildum og annað slíkt. Mismunun í kerfinu hefur verið við lýði um nokkurt skeið og var það meðal annars rætt í vor að það þyrfti að eyða eins mikilli mismunun og hægt væri, til dæmis varðandi bótapottinn ef má orða það svo. Í frumvarpinu virðist vera farin hálf leið að 1–2 árum liðnum.

Við hljótum að spyrja: Hvers vegna er ekki gengið alla leið eins og við ræddum um í vor að allir mundu greiða, mig minnir 5,3%, það væri flata prósentan sem sett yrði á alla sem greiða í þessa bótapotta? Hvers vegna er sú leið ekki farin? Ef þeir pottar eiga að vera til staðar og það kerfi sem við erum enn með þá hlýtur að vera sanngjarnt að tekið sé jafnt af öllum tegundum. Það er því verið að mismuna áfram eins og hefur verið gert.

Mig langar líka að velta því upp við hv. þingmann hvernig hann sér kerfið í raun og veru þróast. Nái þetta fram að ganga bæði hvað varðar þennan mismun varðandi bæturnar og eins þegar kemur að kvótaþinginu þar sem hugsunin er að menn geti bara leigt aflaheimildir til eins árs í senn. Er hægt að vinna við slíkar aðstæður þar sem ekki er nóg með að aflaúthlutun sé til eins árs heldur líka þetta?



[15:35]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður benti réttilega á og ég fór ítarlega yfir í máli mínu. Ég og hv. þingmaður ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fluttum saman frumvarp um að jafna þetta. Við getum auðvitað haft skoðanir á því hvað pottarnir eiga að vera stórir og allt það en aðalatriðið er að allir borgi jafnt inn í þá.

Ef við tökum það sem gerðist árið 2009 þegar strandveiðarnar voru settar á, hvað gerðist þá? Þá hafði verið mikill niðurskurður í þorskafla, var aðeins að stíga upp, örlítið, en hvað þá? Hver var látinn borga inn í strandveiðipottinn? Bara þeir sem voru með þorskinn. Hefði ekki verið nær, eins og bent var á í umræðunum þá, að jafna muninn og setja það þannig upp að menn borguðu jafnt? Og hvaða kjördæmi skyldi það nú vera sem hefur farið hvað verst út úr því? Jú, það er Norðvesturkjördæmi. Mesta samsetningin gagnvart þorskheimildum er þar. En hverjir hafa misst aðganginn? Sama kjördæmið, eða stór hluti þess. Það er algert grundvallaratriði að skerðingarnar séu jafnar á hlutdeildina, alveg sama hvort þú ert með þorsk, ýsu, ufsa, karfa, steinbít eða grálúðu.



[15:37]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu. Ég ætla að spyrja hv. þingmann — hann er nú kannski einn fárra, ef ekki sá eini sem situr á þingi sem hefur bein tengsl við sjávarútveginn og hefur þar með þá þekkingu sem menn hafa sem starfa í greininni, og er leitt að tapa honum af þingi næsta ár því að þá stefnir í að enginn með slíka þekkingu komi — hvernig honum finnist frumvarpið vera gagnvart því sem ég býst við að þeir sem starfa í greininni séu að velta fyrir sér, þ.e. að stækka kökuna, að skapa meiri nýsköpun, að skapa meiri verðmæti.

Mín skoðun er sú, og ég fór yfir það í ræðu minni í gær, að verið sé að grauta alltaf í sama pottinum. Þetta er fjórða tilraun ríkisstjórnarinnar til þess, þ.e. taka af einum og færa öðrum á mjög ósanngjarnan hátt eins og hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Hvað finnst honum að skorti til dæmis í markmiðssetningarnar um nýsköpun, um aukna verðmætasköpun? Hvað vildi þingmaðurinn sjá í plaggi sem ríkisstjórnin hefur haft fjögur ár til að smíða og enn kemur sami bastarðurinn, sami grauturinn?



[15:38]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom örlítið inn á það í ræðu minni sem snýr að því að alltaf er verið að fjalla um og deila um hvort það eru litlir eða stórir bátar sem veiði fiskinn, grænir eða rauðir, frambyggðir eða afturbyggðir. Við erum aldrei að ræða það sem skiptir mestu máli. Ef menn ræða við fólk í sjávarútvegsgreininni — hvar eru menn með fókusinn þar? Á því hvernig við getum skapað meiri verðmæti, gert meiri verðmæti úr aflanum bæði með meðferð, með nýrri markaðssetningu, með betri nýtingu o.s.frv.

Ég las nýlega viðtal við útgerðarmann í Grindavík, Pétur Pálsson, þar sem hann fór einmitt yfir það hvar möguleikarnir væru til að auka nýtinguna, auka verðmætin og auka útflutningsverðmætin, auka þá þar með getu ríkissjóðs til að standa undir velferðarkerfinu o.s.frv. En við erum alltaf í þeim fókus, eins og ég orðaði það í ræðu minni, að vera í einhverri yfirborðsumræðu. Fókusinn á að vera á markaðsmálunum, hvernig við getum aukið nýtinguna og þar fram eftir götunum, það eigum við að ræða. Ég sé ekki þá sýn í frumvarpinu.



[15:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt og það er skoðun mín líka að alger skortur sé á því. Af því að hv. þingmaður vitnaði til Péturs í Vísi og þeirra Vísis- og Þorbjarnarmanna í sjávarklasanum í hinu nýja fyrirtæki Codland, má auðvitað nefna Kerecis á Ísafirði líka þar sem menn eru að fara nýjar leiðir, þ.e. auka verðmæti úr sjávarafla. Við erum ekki að tala um neinar smátölur. Við erum að tala um að ef aðferðafræði þeirra Codlandsmanna verður að veruleika þá verður aukningin upp á eina 100 milljarða.

Hér er ríkið að skattleggja greinina ævinlega, taka peninga af þeim sem eru með atvinnuna í dag, taka atvinnutækifærin af þeim og láta einhverja aðra hafa. Við erum að tala um 1, 2, 3, 4, 5 milljarða, hringlandahátt og graut þar sem það markmið virðist aldrei nást sem ríkisstjórnin þó hefur, þ.e. að styrkja byggðirnar.

Þóroddur Bjarnason hefur sagt að þetta sé ekki hægt með stöðugri íhlutun ráðherra. Ég vil því spyrja hv. þingmann að lokum: Finnst honum líklegra að slík valdbeiting virki með alls konar útfærslum, aldri og ég veit ekki hvað og hvað, að ráðherrar velji byggðarlög og fyrirtæki til að fá á aflaheimildir, frekar en að taka upp raunverulega byggðastefnu þar sem menn styrkja byggðirnar í heild sinni?



[15:40]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get bara svarað þessu neitandi vegna þess að ég hef enga trú á því að hæstv. ráðherra, hver sem hann væri á hverjum tíma og úr hvaða flokki hann kæmi, eigi að hafa þessi völd. Reynslan sýnir okkur það. Ég fór yfir það sem snýr að hinu nýja strandveiðifrumvarpi sem var samþykkt árið 2009 hvernig það hefur þróast. Það hefur ekki efni á aðganginum að miðunum, alls ekki.

Það er dálítið athyglisvert að fara yfir þetta. Ef menn skoða sögulega þróun þess hvernig fækkun hefur orðið í byggðarlögum og samdráttur þá er ekki hægt að setja eitthvert samasemmerki milli þess hvert aflaheimildir fara, það er ekki þannig. Við fengum mjög sláandi tölur sendar í morgun frá stjórn SSNV. Hvað kom fram þar? Mesta fækkun á síðasta ári var á Sauðárkróki. Mesta fækkunin í Norðvesturkjördæmi, eða í þeim gamla hluta Norðvesturkjördæmisins eins og við köllum það, var á Sauðárkróki. Á því svæði er sterkasti sjávarútvegurinn. Auðvitað er ekkert samhengi í þessu. Mikilvægt er að menn byggi upp og komi sér saman um að hafa byggðastefnu hvort sem hún snýr að sjávarútvegsmálum, heilbrigðismálum eða öðru.



[15:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að heyra viðhorf hans gagnvart því hvort hann vilji að strandveiðar haldi áfram yfir höfuð, hvort hann telji að komin sé sú reynsla að hann geti sagt að hann styðji það að strandveiðar verði áfram með þeim sama hætti og þær hafa verið og þær séu settar í hlutdeild. Mér finnst mjög mikilvægt að það komi skýrt fram því að ég hef heyrt að menn óttist það að ef sjálfstæðismenn komist til valda þá ætli þeir að leggja strandveiðar af. Mér finnst eðlilegt að kjósendur fái skýr svör við því. Er það á stefnuskrá sjálfstæðismanna að leggja af strandveiðar? Einnig hvort honum finnist undanfarin 20 ár hafa farið vel með sjávarbyggðirnar í því kerfi sem við höfum búið við, hvort hann sjái enga galla þar eða meinbugi á að halda því kerfi áfram óbreyttu og vilji engar breytingar gera á núverandi kerfi.



[15:43]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Tökum strandveiðarnar fyrst. Hv. þingmanni er vel kunnugt um það að ég er ekki í framboði fyrir næstu kosningar, hef ekki möguleika á að setjast á þing þó að ég sé í heiðurssæti (Gripið fram í.) já, þess vegna ætla ég að fara yfir það. Ég hef auðvitað skoðun á málinu. Við skulum fara aðeins yfir það.

Í fyrsta lagi, þegar dagakerfið var lagt niður á sínum tíma var ég sveitarstjórnarmaður en ekki alþingismaður. Ég var algerlega á móti því. Þegar strandveiðarnar voru settar á, hvernig var umræðan þá? Ég benti á það sem þyrfti að gera, akkúrat það sem hv. þingmaður hefur verið að gagnrýna oft í máli sínu þegar menn selja aflann úr byggðarlögunum. Hvað lagði ég til að yrði gert? Það var að þeir sem væru búnir að selja frá sér aflaheimildirnar fengju ekki að fara inn í strandveiðarnar. Ekki var hlustað á það. Var það ekki eitthvað sem við gátum verið sammála um? Þeir sem voru búnir að selja sig út úr greininni áttu stærstu og öflugustu bátana og höfðu mestu reynsluna, en strandveiðar áttu að vera fyrir nýliðun — hvað gerðist? Stjórnarmeirihlutinn vildi ekki taka mark á því. Ég margfór yfir það í ræðustól: Við eigum að gera þetta svona, þá getum við kannski skapað einhverja nýliðun. Nei, það varð hins vegar ekki niðurstaðan. Ekki var hlustað á það þannig að þeir sem voru fyrir og búnir að selja sig út úr greininni voru sterkastir í strandveiðunum.



[15:44]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi síðast. Telur hann að það hafi verið hægt vegna stjórnarskrárvarins réttar manna til atvinnu að flokka menn eftir því hvaða atvinnu þeir stunduðu áður, hvort þeir stunduðu þessa atvinnu? Telur hann að við höfum ekki verið að brjóta stjórnarskrá ef við hefðum sett slík skilyrði fram? (Gripið fram í.)

Varðandi jöfnunarsjóðina, nú hefur uppsjávargeirinn fram að þeim tíma sem núverandi ríkisstjórn tók við ekki borgað neitt í félagslegar aðgerðir. Út af hverju í ósköpunum með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn í öll þessi ár hafa menn ekki komið sér saman um það að uppsjávargeirinn greiddi inn í félagslegu aðgerðirnar? Við hvað voru menn hræddir þá? Núna er verið að byrja á því að greiða úr uppsjávargeiranum inn í félagslegar aðgerðir og það er til mikilla bóta eins og hefur komið fram. Ég er alveg tilbúin til þess að skoða það að uppsjávargeirinn komi til með að greiða til fulls áður en langt um líður.



[15:46]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir mig og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að varðveita það sem við erum sammála um í sambandi við sjávarútvegsmálin. Þarna erum við algjörlega sammála. Mín skoðun er sú, og ég kom inn á það í ræðu minni hér áðan, að menn eigi að sitja jafnt að öllum hlutum. Ef menn ætla að hafa einhverja ákveðna viðmiðun, eins og er í þorskinum, á það að gilda um allar tegundir. Við erum algjörlega sammála um það, við skulum varðveita það. (Gripið fram í.)

Hvað varðar það sem hv. þingmaður spyr um í sambandi við stjórnarskrárvarinn réttindi þá snýr það ekki að mönnum í þessari atvinnugrein eða annarri heldur að þeim bátum sem var búið að taka varanlegar heimildir af og selja, að þeir mættu ekki fara á strandveiðar. Það var hins vegar ekki vilji hjá stjórnarmeirihlutanum að skoða það á þeim tíma. Hins vegar var bent á að hægt væri að gera það jafnvel einu sinni en ekki oftar. Það var enginn vilji til þess á þeim tíma að bregðast við því sem menn eru að gagnrýna, að fyrir þá sem hafa selt sig út úr greininni sé brautin alltaf teppalögð inn í hana aftur. Það er vandamálið. Hvað er verið að tala um núna í strandveiðunum? Að banna að hafa fleiri en einn bát. Það er út af því að þessir menn geta verið með fleiri en einn bát.



[15:47]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann er vel að sér í þessum málum og þekkir vel til, um það sem maður hefur fundið fyrir núna undanfarið, þ.e. mikið er talað um að þessar breytingar á sjávarútvegskerfinu eigi meðal annars að vinna gegn samþjöppun í greininni, efla nýliðun og annað því um líkt. Getur hv. þingmaður farið yfir það hver reynsla manna hefur verið það sem af er þessu kjörtímabili, að hans mati, hvað þessa þætti snertir og síðan hvaða áhrif þetta þingmál eða þessar breytingar mundu hafa á nýliðun í sjávarútvegi? Erum við að ná því sem menn tala hér um þegar kemur að nýliðun? Mun þetta frumvarp stuðla að nýliðun í sjávarútvegi eða er rétt sem meðal annars hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á hér í gær að nýliðunar væri hvergi getið í markmiðskaflanum vegna þess að þetta frumvarp mundi á engan hátt leiða til nýliðunar í sjávarútvegi?



[15:48]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg klárt í mínum huga að þetta frumvarp mun ekki auka nýliðun í sjávarútvegi. Það getur vel verið að menn hafi hugmyndir um að það eigi að gera það en það mun ekki gera það að mínu mati.

Allt sem snýr að óvissu í sjávarútvegi er verst fyrir smæstu og millistóru fyrirtækin af því að þau eru veikust. Við vitum það auðvitað að stærstu, sterkustu fyrirtækin munu alltaf lifa af. Þetta er bara eins og með dýrin í skóginum.

Ég get sagt það við hv. þingmann þar sem ég kem úr sjávarplássi og hitti marga sem starfa í útgerð og vinnslu og öllu að þar eru allir komnir að fótum fram. Ég hræðist mjög mikið og hef sagt það hér áður að komi þannig ástand að menn komist út úr greininni þá munu þeir fara. Mér hefur fundist eins og það sé alltaf verið að hrekja menn út í óvissu og þeir sem eru smæstir vilja komast út úr henni. Það er ekkert verra en óvissan, alveg sama hvort það á við þetta, hvort maður er veikur eða hvað það er, það sem fer verst í fólk yfir höfuð er óvissa.



[15:49]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þóroddur Bjarnason, prófessor og stjórnarformaður Byggðastofnunar, skrifaði á mjög gagnrýninn hátt um fyrri frumvörp ríkisstjórnarinnar. Þar kom hann meðal annars inn á þá óvissu sem hv. þingmaður talar hér um og sagði að óvissa um framtíðina og rekstrarumgjörðina væri einn af þeim þáttum sem drægi mjög úr byggðafestu, eins og hann orðaði það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að sá sem hér stendur hefur fengið símtöl undanfarið frá litlum útgerðum í Norðvesturkjördæmi, sem er kjördæmi okkar beggja, þar sem menn tala meðal annars um að þeir hafi leitað til stærri sjávarútvegsfyrirtækja til að fá þau til að kaupa af sér aflaheimildir því að þeir séu ekki í stakk búnir lengur til þess að reka fyrirtæki sín í þeirri óvissu sem er og með þeim gríðarlegu veiðigjöldum sem hafa verið lögð á. Hefur hv. þingmaður fengið sambærileg símtöl? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því sama og kemur fram hjá öllum þessum litlu útgerðaraðilum (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið, m.a. Norðvesturkjördæmi?



[15:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki þetta auðvitað. En ég ætla líka að vera sanngjarn, maður getur ekki alltaf sakað aðra um að vera ekki sanngjarnir. Það er margt sem kemur til. Í fyrsta lagi er það náttúrlega óvissan — þetta er röðin: Óvissa í greininni, það eru markaðsmálin, litlar og meðalstórar útgerðir af því að við erum alltaf að tala um þær og síðan vandamál í sambandi við ýsuúthlutunina vegna þess að veiði á miðunum er ekki í samræmi við stillimyndina hjá Hafrannsóknastofnun. Það eru þessir fjórir þættir sem hafa þessi áhrif.

Menn fá veiðigjöldin núna af fullum krafti. Þau leggjast reyndar misjafnt á útgerðir. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur að sumir skuli fá afslátt en ekki aðrir vegna þess að þau eru svo há, það er verið að berjast fyrir því út af þeim þætti. Á sama tíma, hvort sem við getum verið sammála eða ósammála um að þau séu of há eða lág, kemur hitt þrennt til viðbótar. Það er óvissa í greininni. Síðan eru það markaðsmálin, það er hrapandi verð. Ætli það muni ekki upp undir 100 kr. á meðalverði á þorski á þessu ári og síðasta ári? Auk þess eru vandamál í sambandi við ýsuveiðar. (Forseti hringir.) Það eru þessir þættir sem hafa auðvitað áhrif.



[15:52]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð um hið nýja frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Þetta mál, um stjórn fiskveiða, er auðvitað eitt af helstu málum kjörtímabilsins af hálfu stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnarinnar …

Forseti er klukkan ekki í gangi eða er einhver ókunn klukka í gangi?

(Forseti (ÁÞS): Það verður reynt að koma klukkunni í gang.)

Já, þakka þér fyrir það. Ég kann betur við að hlíta reglu og vera innan ákveðins ramma og svigrúms í þessu.

Það mætti tala í lengri tíma en hér er til ráðstöfunar um forsögu þessa máls. Þó er rétt að minna á að margir fræðimenn telja að kvótakerfið frá níunda áratugnum hafi verið ein af grunnástæðum hrunsins sem við urðum fyrir hér fyrir nokkrum árum, að það hafi átt þátt í að skapa það hagkerfi og þann viðskiptabrag sem urðu okkur þar að falli. Kvótakerfið, gjafakvótakerfið eins og sumir kölluðu það, varð uppspretta nýs misréttis í samfélaginu með myndun forréttinda sem sum voru nánast tilviljunarkennd, en önnur féllu í hlut vildarvina með atbeina stjórnmálamanna og tilstyrk fjármálakerfis sem var innmúrað og innvígt. Kerfið olli því líka, ásamt ýmissi lausung af frjálshyggjutagi, að fé streymdi úr greininni og frá þeim byggðum sem mest reiddu sig á hana, í viðskiptaævintýri af hinu og þessu tagi, hérlendis og erlendis í bankakaup og hlutabréf, í verslunarhallir og líka í hreina eyðslu og flottræfilshátt hér og erlendis.

Margt var og hefur verið gert vel í sjávarútvegi á þessum tveimur eða þremur áratugum en ég held að sagnfræðingar eigi eftir að draga upp mjög dökka mynd af þætti þessa kvótakerfis og af þætti þeirra sem hafa haldið því við, þegar þeir skoða það úr hæfilegri fjarlægð. Jafnframt var rifjað upp að öll þessi ár, alla þessa áratugi, hvort sem menn vilja hafa þá tvo eða þrjá, hefur verið háð stöðug barátta um allt land gegn því óréttlæti og gegn þeirri óskynsemi sem kerfið felur í sér og sú barátta stendur enn. Það er í þágu réttlætisins en ekki síður skynseminnar sem ríkisstjórnin hefur gert að því þetta mörg tilhlaup og sem stjórnarmeirihlutinn er nú kominn fram með frumvarp sem hann styður gjörvallur.

Af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um óvissu og öryggi og af því að fleiri gagnrýna þetta frumvarp og aðrar hugmyndir um breytingar á núverandi kerfi af þeim sökum að þar með skapist ekki það nauðsynlega öryggi sem menn þurfa svo sannarlega á að halda, útgerðarmenn, fjárfestar, sjómenn, landvinnslufólk, er það rétt að nokkru leyti. Auðvitað er spunnið glatt, hinn frægi grátkór syngur og spinnur með góðum stuðningi Morgunblaðsins, sem grátkórinn keypti sér hér um árið. En þetta er að hluta til rétt, það eru líka allir sammála um (Forseti hringir.) að við þurfum að skapa til frambúðar …

(Forseti (ÁÞS): Ég vil vekja athygli á því að klukkan er enn frosin en unnið er að viðgerð.)

Forseti. Ég lít svo á að ég hafi þessar 15 mínútur sem hér um ræðir, en ekki þessar sex sekúndur sem ég hafði í upphafi ræðu minnar.

(Forseti (ÁÞS): Hún verður örugglega sett rétt þegar hún kemst í lag.)

Ég vonast til þess að forseti líti þá til mín með vorkunn þegar kemur að því, skipulagning ræðu hér í stólnum fer nú svolítið eftir því hvað klukkan sýnir. En ég held hér áfram.

Við þurfum að skapa til frambúðar skipulag fyrir fiskveiðar og vinnslu á Íslandi, þann ramma sem menn geta með einhverjum hætti haldið sér í vegna þess að frægt óöryggi í þessari grein til lands og sjávar er feikilega mikið af náttúrulegum ástæðum vegna ástands sjávar, að ég tali nú ekki um nú á tímum þegar loftslagsbreytingarnar eru farnar að hafa áhrif og vegna sveiflna á mörkuðum og vegna þess hvað við eigum mikið undir nákvæmlega þessari grein. Við eigum það nú aftur, eftir að menn héldu að komið væri á eitthvert jafnvægi á græðgis- og hrunárunum.

Það verður að mínu viti og þeirra sem ég hlusta á í fyrsta lagi að gerast þannig að þjóðin fái fullt verð fyrir nýtingu sjávarauðlindarinnar — fullt verð, að jafnræði ríki og taki við af því lénskerfi sem nú hefur borið á í útgerð og fiskvinnslu og að hagkvæmni og arðsemi séu boðorðin í þessari atvinnugrein eins og öðrum. Að menn leggi af í sameiningu hugmyndir um að sjávarútvegurinn sé í sjálfu sér einhvers konar velferðarkerfi, að með einhverjum innri reglum í sjávarútveginum um rekstur fyrirtækja og um stjórn fiskveiða eigi að jafna kjör eða hjálpa byggðum. Það á ósköp einfaldlega að gerast með öðrum hætti, meðal annars með því fé sem sjávarútvegurinn aflar og rennur til hans eigin þarfa og einnig í ríkissjóð, bæði beint með veiðigjaldi og óbeint með sköttum.

Fyrr fæst ekki það öryggi við skipulag og stjórnsýslu sem menn þó vilja, þangað til verður óvissa hlutskipti sjávarútvegsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar hugsi sinn gang mjög vel og komi sér niður á eitthvert það skref sem hægt sé að stíga í rétta átt í þessum efnum.

Þetta er eitt af helstu málum kjörtímabilsins, sagði ég í upphafi þessarar stuttu ræðu. Gangur nákvæmlega þessa máls hefur valdið vonbrigðum en því ber þó að fagna að við höfum náð mikilvægum áföngum. Við náðum mikilvægum áfanga með veiðigjaldinu á síðasta þingi. Annar mikilvægur áfangi er líka til umræðu á þinginu, auðlindaákvæði hinnar nýju stjórnarskrár sem segir að nýtingarleyfi hinna sameiginlegu auðlinda skuli veita á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn og að slík leyfi megi aldrei leiða til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.

Gallinn við frumvarpið er að sjálfsögðu sá að það færir sömu mönnum og fyrirtækjum og verið hefur heimild til nýtingar í 20 löng ár og heldur þar með við því misrétti sem verið hefur kjarni gjafakvótakerfisins hér í þrjá áratugi með því að viðhalda því sem sumir hafa kallað gullpottinn og er í raun og veru hið stóra kerfi sem 90% aflaheimildanna eru í.

Ég er í stuttu máli ósáttur við þá skipan mála. Ég hef hins vegar lengi verið reiðubúinn að fallast á umþóttunartíma við breytingar á kerfinu, jafnvel verulegan umþóttunartíma ef menn væru að breyta kerfinu í raun og veru. Þá spyr maður: Eru menn að því núna? Það er ekki víst, því miður, en í frumvarpinu eru þó stigin ákveðin skref og sum skrefin sem hér eru stigin gætu breytt vígstöðunni og haldið málinu á dagskrá. Þess vegna hef ég lýst yfir stuðningi við frumvarpið ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Vegna þess að kostirnir við það eru þessir: Með nýju nýtingarleyfunum er vissulega kominn annar lagarammi um fiskveiðar á Íslandsmiðum en áður. Sömu menn og fyrirtæki að stórum hluta, já, en það er minni hætta en áður á að þessi réttindi þeirra verði smám saman að eign eins og þeir hafa margir hverjir róið að öllum árum, dyggilega studdir hugmyndafræðingum á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson sem haldið hefur fram kenningunni um landnám hafsins, hið síðara landnám íslenskra verðmæta og reynt í samræmi við frjálshyggjukenningar sínar að leggja þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar undir séreignamenn.

Kostur við nýja kvótafrumvarpið er sá að þó að 20 ár séu langur tími er í frumvarpinu engin sjálfkrafa framlenging eins og háttaði til í síðasta frumvarpi sem hér sást um það efni. Það er mikilvægt. Stigið er skref en hér er ekki á ferðinni endanleg skipan. Settur er niður hópur til að endurskoða kerfið strax í ljósi reynslunnar og í ljósi þeirra sjónarmiða sem uppi eru í samfélaginu. Þar á meðal er auðvitað auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni sem ég rakti áðan.

Kostur við frumvarpið, mikill kostur, kannski helsti kosturinn, eru ákvæði þess um kvótaleiguna, um útboð á markaði, um opinn leigumarkað sem hefst með þokkalegum hætti með rúmlega 19 þús. tonnum og sem verða um það bil 29 þús. tonn eftir tvö ár ef allt gengur vel. Að auki á að fara fram á kvótaþinginu það framsal sem útgerðunum er leyfilegt þannig að það gerist á opnum og gagnsæjum markaði þar sem menn geta boðið í eins og þeim sýnist og á markaði sem höndlar vonandi með það mikinn hluta eða það mörg tonn, það margar aflaheimildir og það mikið magn aflaheimilda að verð skapast á þeim. Það hefur þá vonandi mótandi áhrif á það verð sem tíðkast annars staðar, einkum það verð sem viðgengst í fyrirtækjum, sem gagnrýnt hefur verið mjög harðlega, þar sem hægri höndin og vinstri höndin tilheyra sama búknum og menn hafa samkvæmt nýlegri skýrslu — ég vísa til hennar, það er best að nota ekki hörð lýsingarorð — hagað sér með þeim hætti að ekki er sæmandi við verðlagningu innan fyrirtækjanna og ekki síst haft af sjómönnum þær tekjur sem þeir hefðu átt að fá.

Það er afar mikilvægt og er enn þá mikilvægara að til þess er heimild í frumvarpinu að hlutfall leiguheimilda á heildarheimildunum getur hækkað, hlutfallið getur hækkað, hægt er að „kaupa“ kvóta inn í leigupottinn ef vilji stendur til þess og það er mjög mikilvægt. Það er sem sé hugsanlegt (Gripið fram í.) og meira en hugsanlegt, það er beinlínis heimild til þess fyrir sjávarútvegsráðherra að auka hlut kvótaþingsins, kvótaleigunnar af heildaraflanum.

Gallinn er sá að leigan er ekki nema ár í senn og hefur ekki tekist að koma hæstv. sjávarútvegsráðherra í skilning um að ráðlegra væri að hafa lengri leigutíma og ábyggilegri, ekki síst vegna þess að í raun og veru er kvótaleiga það kerfi sem útgerðunum kæmi best þegar þær eru farnar að borga fyrir veiðiheimildir sínar. Þá væri auðvitað langskynsamlegast að útgerðirnar byggju við markaðskerfi í þessum efnum og gætu notfært sér það svigrúm sem viðskipti á kvótaþingi sem almenn regla gæfu þeim frá ári til árs, en þá auðvitað þannig að þau yrðu að geta haft undir töluverðan árafjölda í kvótaleigunni. Ég tel að ef það heppnast vel og ef menn vilja skilja hvers konar framfarir felast í því hljóti að koma til greina að opna það meira. Ég hvet menn í nefndinni til að íhuga hvort ekki megi opna heimild til þess að gera að minnsta kosti tilraun til að leigja í fleiri ár en eitt í senn, þótt menn haldi sig nokkurn veginn við þá málamiðlun sem hér er um að ræða.

Enn einn kostur við nýja frumvarpið er sá að opnað er á frjálsan kvótaleiguaðgang að nýjum tegundum. Nú renna nýjar tegundir beint inn í það forréttindakerfi sem hér líðst, ef upp kemur ný tegund á að kvótasetja hana og úthluta þeim heimildum samkvæmt ákveðnum reglum sem ekki gera ráð fyrir að jafnræði ríki og að nýliðun geti tekist. Það er sjálfsagt að láta menn njóta þess að hafa staðið sig við það að kanna og veiða nýjar tegundir en það getur ekki þýtt það að menn eigi þar með þær tegundir. Í 19. gr. er gert ráð fyrir því að jafnræði sé ein af þeim meginreglum sem taka skuli tillit til við endanlega skipun fiskveiðistjórnar þegar um nýjar tegundir er að ræða og það er mjög mikilvægt.

Það er líka kostur við frumvarpið að strandveiðarnar haldast inni sem fastur hluti. Þar þarf að sjálfsögðu að athuga annað frumvarp um strandveiðar sem liggur fyrir þinginu frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og hv. þm. Skúla Helgasyni, ég fékk að skrifa undir það hjá þeim og þó einkum Ólínu. Það þarf að halda þessu kerfi við en það þarf hins vegar að koma í veg fyrir kappsókn eða ólympískar veiðar. Það þarf að tryggja jafnræði og nýliðun. Það þarf líka að tryggja það, samanber það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði hérna ágætlega áðan, að það séu raunverulegir strandveiðimenn sem taki þátt í kerfinu og ekki leiguliðar frá stóru útgerðunum.

Það er líka kostur að ráðherraræði minnkar frá núverandi ráðherraeinveldi sem hér hefur tíðkast í marga áratugi og líka frá fyrri frumvörpum. Það er auðvitað alls konar bix inni, byggðabix meðal annars, ég bjóst ekki við að losna við þá sífelldu afturgöngu í sjávarútvegsfrumvörpum. Eðlileg skipan væri auðvitað að aðskilja byggðaaðstoð og sjávarútvegsstefnu, að borga illa stöddum byggðum styrk úr ríkissjóði til að kaupa sér kvóta á markaði í staðinn fyrir að úthluta þeim þessum kvóta með því móti að aldrei hefur tekist sátt um, og fleira mætti nefna sem kosti á frumvarpinu.

Það er að þessu sögðu undarleg gagnrýni sem heyrst hefur um þetta frumvarp og þau önnur sem hér hafa verið flutt og ég hef ekki verið sammála, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, að leggja alla pottana að jöfnu, að dæma frumvarpið nánast út frá því að það séu of margir pottar. Ég veit ekki betur en að þeir svokölluðu pottar sem í frumvarpinu eru séu nákvæmlega þeir sömu og eru í núverandi kerfi og ég veit ekki til þess að það standi neinn sérstakur pólitískur ágreiningur um þá potta. Eða hvað? Er hv. þm. Pétur Blöndal á móti rækju- og skelkvótum? (PHB: Að sjálfsögðu.) Er hv. þm. Kristján Þór Júlíusson á móti línuívilnun? Ég veit ekki til þess. Eru raunveruleg pólitísk átök um frístundaveiðar eða áframeldi? Strandveiðarnar hafa verið umdeildar en mér heyrist í umræðunum að til dæmis hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu á ýmissi skoðun um strandveiðarnar og hægt er að ítreka þær spurningar sem þeir hafa fengið hér. Eru þeir á móti strandveiðum? Ætla þeir að afnema strandveiðar ef þeir fengju meiri hluta hér í næstu kosningum? Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson var hér í umræðunum í gær og taldi að það mundi ekki verða. Hv. þm. Jón Gunnarsson var í umræðunum í dag og var mjög á móti strandveiðum. Mér heyrist hins vegar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vera með strandveiðum ef þær eru öðruvísi. Kannski styður hann frumvarp okkar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um þær.

Þetta eru ekki raunveruleg pólitísk álitamál. Eini potturinn svokallaði sem menn deila um er kvótaleigan. Það er aðgangur að aflaheimildum á opnum markaði. Það hefur verið gagnrýnt mjög. Það gagnrýnir Sjálfstæðisflokkurinn einna mest sem þykist þó byggja á lögmálum frjáls markaðar og vilja almenn viðskipti, vilja frjálsa verslun í landinu eins og ég og Jón Sigurðsson sem hér hangir á veggnum.

Forseti. Aðalkosturinn við þetta mál er (Forseti hringir.) að hér er komið nýtt kerfi sem hægt er að þróa í rétta átt. Það stenst stjórnarsáttmálann. Það stenst vonandi auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er málamiðlun (Forseti hringir.) sem samræmist stefnu flokks míns um skynsemi og réttlæti í sjávarútvegi þótt ég sé ósáttur við meginatriði þess.



[16:10]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann gerði m.a. að umtalsefni að sú gagnrýni sem komið hefði fram hér frá þeim sem tekið hefðu þátt væri kannski ekki alveg nógu málefnaleg. Hv. þingmaður endaði á að segja að frumvarpið væri málamiðlun sem hann væri í meginatriðum á móti. En hvað um það.

Hv. þingmaður talaði um það þegar kvótinn var settur á á sínum tíma. Við þekkjum auðvitað söguna af því þegar svört skýrsla kom fram sem sagði að ef menn mundu ekki bregðast við og draga verulega úr veiðum, úr því sóknarmarki sem við höfðum, mundi allt hér hrynja endanlega. Það voru vissulega deilur á þeim tíma um hvort úthluta ætti niður á byggðarlög, niður á skip eða jafnvel fiskvinnslur og þar fram eftir götunum og voru auðvitað kostir og gallar við allt saman. Það var hins vegar niðurstaðan.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út af þeirri gagnrýni sem hann kom inn á í ræðu sinni hvort honum fyndist þá ekki umhugsunarvert í ljósi orða sinna um hvernig staðið var að úthlutun á makrílkvótanum á þessu kjörtímabili, sem hefur reyndar verið gagnrýnt mjög mikið af mörgum. Þá á ég við það að menn gátu búið sér til viðmiðun með því að veiða í gúanó og sóa verðmætum. Menn gátu þar af leiðandi gert ekki þriggja ára viðmiðun, heldur jafnvel tveggja ára viðmiðun og svo framvegis. Um það hafa verið töluverðar deilur. En finnst hv. þingmanni þá ekki að núverandi stjórnarmeirihluti hefði þá átt að standa öðruvísi að úthlutun á makrílkvótanum fyrst menn gagnrýna það?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann til viðbótar um það sem snýr að svokölluðu ráðherravaldi. Ég tel að ég og hv. þingmaður séum nokkuð sammála þar. Í þeim breytingum sem gerðar eru í frumvarpinu, alveg sama hvort þær varða strandveiðar eða annað, er vald ráðherra svo ofboðslega mikið, t.d. að ráðherra geti tekið tillit til aldurs manna og þar fram eftir götunum. Getur hv. þingmaður tekið undir þá gagnrýni mína að það eigi ekki að vera í lögunum?

(Forseti (SIJ): Forseti vill geta þess að klukkan í borði er biluð og forseti mælir tíma úr forsetastóli.)



[16:13]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kann að hafa skroppið eitthvað út úr mér í lok ræðunnar en það sem ég átti við var að ég styddi frumvarpið þó að ég væri andstæður einu meginatriði þess. Ég er andstæður því meginatriði að aflaheimildirnar haldi áfram í 20 ár í viðbót í flokki 1, í gullpottinum, eins og sumir kalla, en ég legg það fram til málamiðlunarinnar að beygja mig undir það í þeirri von að breytingar verði á því tímabili. Ég nefndi það líka í ræðunni að þær breytingar gætu hafist strax. Málið er á dagskrá vegna þess að strax verður settur niður hópur til að endurskoða fiskveiðifrumvarpið og gert ráð fyrir að það komi fyrir þingið, ég man ekki hvort það er 2015 eða 2016.

Um makrílinn er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég tel að okkur hafi ekki tekist að úthluta makrílnum eins og vera ætti. Það er misskilningur að stjórnarmeirihlutinn hafi staðið með einhverjum hætti að því, það var sjávarútvegsráðherra gerði það. Sjávarútvegsráðherra ver þá ákvörðun sína með því að ekki hafi verið stætt á öðru samkvæmt núgildandi lögum um nýjar tegundir. Ég skal ekki leggja dóm á það hér en ég tel að í framtíðinni eigi að fara öðruvísi að. Þess vegna fagna ég því að ráðherra hefur heimild til þess núna að setja nýjar tegundir á kvótaþingið þegar ákveðinn tími er liðinn þótt mér þætti betra að sú umgjörð væri klárari og skýrari. Ég er hins vegar sammála því að ákveðinn tími þurfi að líða þannig að frumherjar og duglegir sjómenn hafi ákveðinn hagnað af því að finna nýjar tegundir sem þeir taka þá áhættu að fara út í með óljósan hag fyrir augum.

Ég tel því að við eigum að fara þá leið í framtíðinni (Forseti hringir.) og ég fagna því að hv. þingmaður skuli vera mér sammála um það. (Forseti hringir.)



[16:15]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessari skiptingu á pottinum á milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og ákveðins þróunarsjóðs hins vegar. Ég er algjörlega á móti þessu, það kom skýrt fram í ræðu minni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ætti að renna í ríkissjóð eða einhvers konar auðlindasjóð. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það sjónarmið, sem ég hef lengi haldið fram, að menn ættu þá að borga auðlindagjald af öllum auðlindum hvort sem um væri að ræða heitt vatn eða kalt, laxveiði eða sjávarútveg eða hvað sem er. Það færi þá í einhvers konar auðlindasjóð sem væri í höndum ríkisins en yrði ekki skipt niður hingað og þangað, á mismunandi veg eftir því sem verið er að innheimta — í þessu tilviki í gegnum kvótaþingið, ekki í gegnum það sem snýr að veiðileyfagjaldinu. Ég spyr ekki síst í ljósi umsagnar frá fjármálaráðuneytinu þar sem segir að þetta sé á mjög gráu svæði gagnvart stjórnarskránni.



[16:16]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Enn er ég sammála hv. þingmanni í meginatriðum. Ég skal ekki kveða upp úr með það hér hvort auðlindagjald á að renna beint í ríkissjóð eða í sérstakan auðlindasjóð. Ég tel að það séu ákveðnir kostir og gallar við báðar hugmyndir. Ég er sammála starfsmönnum fjármálaráðuneytisins um að við eigum ekki að hafa mikið af mörkuðum tekjustofnum og þegar gjald af þessu tagi er innheimt að þá eigi að forðast það að því sé skipt fyrir fram í einhverjum hlutföllum.

Ég sagði áðan að ég teldi að þeim réttmætu byggðasjónarmiðum sem Alþingi og stjórnvöld eiga að virða sé betur fyrir komið með sérstökum hætti en ekki inni í stjórnskipan atvinnugreinar, hvorki þessarar né annarrar, og ég er þeirrar skoðunar. Mér finnst þetta þó ekki það mikilvægt atriði að ég hafi agnúast sérstaklega út í skiptingu gjaldsins af viðskiptum á kvótaþingi.



[16:18]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni meðal annars um kvótaþing og mig langar að spyrja hann um skilning hans á 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Þar kemur fram að í reglugerð skuli heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunar við útgerðir sem staðsettar eru á tilteknum landsvæðum sem hallað hefur á. Hvaða hluta er þar verið að tala um? Hvað erum við að tala um hátt hlutfall að mati hv. þingmanns? Ég get ekki ráðið það af greinargerðinni hvað átt er við.

Gert er ráð fyrir því í 2. mgr. 19. gr. að búinn sé til sérstakur sjóður úr þeim tekjum sem aflað er á grundvelli þessarar 19. gr. og að sá sjóður skuli skiptast þannig að ríkið hljóti 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%. Síðan er gert ráð fyrir að ráðherra setji á fót nefnd með aðild Samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem geri tillögur um ráðstöfun þessara tekna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðun á því hvaða sveitarfélög er þarna verið að tala um. Er verið að tala um öll sveitarfélög landsins eða er verið að tala um, eins og einn hv. þingmaður talaði um hér áðan, þau sveitarfélög sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti?

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé hálfeinkennilegt að þessu sé svo úthlutað á grundvelli einhverrar nefndar sem ráðherra setur á fót með aðild Samtaka sveitarfélaga. Ég vil meina að þarna séum við í raun að framselja fjárveitingavaldið sem ég tel að sé samkvæmt lögum hér hjá Alþingi. Ég get ekki skilið þetta betur en svo vegna þess að í greinargerðinni (Forseti hringir.) stendur varðandi bráðabirgðaákvæði V að greinin þarfnist ekki skýringar en hún þarfnast skýringar og ég óska eftir því að hv. þingmaður, geti hann það, útskýri hana betur fyrir mér.



[16:20]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég verð nú að benda hv. þingmanni á að spyrja frumvarpsflytjanda að þessu. Mér er ekki kunnugt um það hverjar áætlanir eru um nefndarskipun í þessu sambandi eða hvernig skipta eigi þessu fé milli sveitarfélaga. Ég var að svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og var sammála honum um að ég væri ekki hrifinn af þessum reglum og ætla ekki að fara að skipta mér af því nákvæmlega hvernig þetta er gert. Ég hygg nú um markaðs- og þróunarsjóðinn að kannski verði ekki mjög flókið að úthluta úr honum en almennt tel ég að þetta fé eigi allt að renna í ríkissjóð eða auðlindasjóð og síðan eigi að úthluta fé til bágstaddra sveitarfélaga án nokkurs hroka eða tilfinningasemi í tengslum við skýra og mótaða byggðaáætlun sem við höfum hér. Nú, ég geri ráð fyrir að þetta sé málamiðlun, þetta sé til þess að sveitarfélögin telji sig ekki hafa misst spón úr sínum aski og get því sætt mig við þetta að minnsta kosti til málamiðlunar og til bráðabirgða.

Um stjórnarskrárþátt málsins þá held ég að þetta sé nú ekki alvarlegra en margt það annað fjárveitingavald sem framselt hefur verið. Við vorum til dæmis að framselja til ráðuneyta fjárveitingavald sem áður var hér á Alþingi að minnsta kosti að efni til, um úthlutun til félagasamtaka og annarra slíkra. Ég sé ekki að þetta sé mikið öðruvísi. Almennt sé ég nú ekki að þetta sé stórmál og fagna því fyrst og fremst greininni um kvótaþingið sem bæði sér um kvótaleigupottinn og síðan líka um þær heimildir sem útgerðirnar sjálfar vilja leigja sem er mjög mikilvægt til að stækka hlut þess afla sem seldur er á raunverulegum markaði og fyrir fæst raunverulegt verð.



[16:22]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann þá þannig að hans skilningur sé sá að hér sé verið að tala um sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður. Það séu þá þau sveitarfélög sem geti fengið úthlutun úr þessum sjóði. Ég skil hv. þingmann þannig, hann leiðréttir mig ef það er rangur skilningur. En hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um 1. mgr., þ.e. hve mikinn hluta ráðherra hefur heimild til að setja þarna inn samkvæmt heimild í 1. mgr. 19. gr. Þarna er þetta alveg opið. Ég átta mig ekki á því hvort við erum þarna að tala um lítinn hluta eða stóran hluta eða verður þetta síðan ákvæðið sem notað verður til þess að ríkisvæða þetta allt saman?



[16:23]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég kom ekki að þessu í svari mínu. Hér er ekki um að ræða hlut sveitarfélaganna eða markaðs- og þróunarsjóðs, þannig að við höfum allt á hreinu, heldur er í þessari síðustu grein, sem er mikilvæg og ég minntist sérstaklega á í ræðu minni, átt við þau 40% sem ríkið nýtur af því fé sem hér er verið að tala um. Ráðherra eða ríkisstjórnin getur sem sé tekið hluta af þessu fé og ráðstafað því til þriggja verkefna. Það verkefni sem mér finnst mikilvægast er það að hægt er að taka hluta af þessum 40%, væntanlega hvaða hluta sem er, 39% þess vegna, og nota það til að kaupa inn í sjóðinn, kaupa inn á kvótaþingi til að efla hlutdeild kvótaleigunnar í heildarafla. (Forseti hringir.) Þetta finnst mér afar mikilvægt þó að það kunni að vera skringilegt að ríkið þurfi að kaupa þennan part aftur af útgerðarmanninum.



[16:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ágæta ræðu en mér fannst hann sveiflast dálítið á milli markaðshugsunar, sem hann hefur greinilega trú á — ég geri ráð fyrir að einstaka þingmaður í þingflokki Samfylkingarinnar hafi trú á markaðnum — og svo þess sovétkerfis sem við erum hér að byggja upp.

Í fyrsta lagi: Gerir hv. þingmaður greinarmun á ríki og þjóð? Fremst í greininni stendur að nytjastofnarnir séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar en svo eiga ríkisstjórnin og ráðherra að fara með yfirráðin alla tíð, þ.e. stjórnmálamenn fara með yfirráð yfir þessu — er þá enginn munur á ríki og þjóð?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað gerist eftir 20 ár? Hann var að vandræðast yfir því að miðað væri við 20 ár, að menn héldu sem sagt kvótanum sínum. Hvað gerist svo segjum tveimur til þremur árum áður en því tímabili lýkur? Hvers lags upplausn verður þá í sjávarútveginum þegar menn verða að búast við því að allt verði tekið af þeim?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér frumvarp mitt um að dreifa kvótanum á alla þjóðina og þá gjörsamlegu markaðsvæðingu sem því fylgir.



[16:26]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svarið við síðustu spurningu er já og mér hefur alltaf þótt það skemmtilegt og í raun og veru ágæt hugmynd með ýmsum hætti. Svarið við annarri spurningunni, sem var um það hvað gerðist eftir 20 ár eða (PHB: 19.) rétt áður en leyfin renna út — ja, það er þannig að málið er á dagskrá áfram. Þetta er málamiðlun sem stendur til bráðabirgða, þetta tryggir hins vegar rétthöfum 20 ára nýtingartímabil. En strax verður settur niður hópur til að rannsaka og reyna að ná samkomulagi um hvernig við ætlum að halda þessu áfram. Málið er ekki hér með búið ef við samþykkjum þetta frumvarp og ég tel það einn af helstu kostum þess.

Við fyrstu spurningunni: Já, forseti, markaðurinn er góður þjónn en afleitur húsbóndi. Það sem ég vil að gerist er að þessi atvinnugrein búi við markaðsskilyrði, búi við frjálsa verslun, sem ég nefndi áðan, og ekki við ofurvald stjórnmálamanna eða við lénsveldi eins og hún hefur gert um nokkra hríð. Ég tel að atvinnugreinin þróist best þannig og skili síðan arði í ríkissjóð af þjóðareigninni fyrir utan venjulega skatta sem notaðir séu til að reka hér velferðarþjónustu og gera gagn í samfélaginu.



[16:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég er reyndar ekki alveg sáttur við þau. Í 1. gr. og 2. gr. stendur nefnilega að ráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Ráðherra er með alveg óskaplega mikið af heimildum út og suður til að setja reglugerðir og annað slíkt og ákveða hluti. Þetta er stjórnmálavæðing kvótans þannig að það eru stjórnmálamenn meiri hlutans sem taka yfir kvótann í nafni þjóðarinnar.

Í ákvæði til bráðabirgða, nr. 8, er síðan talað um hvað eigi að taka af núverandi kvótahöfum, í stað 21 þús. tonna fyrsta árið en síðan á að taka af þeim upp í 45 þús. tonn. Það á að taka af núverandi kvótahöfum tvöfalt meira eða rúmlega það og setja í alls konar potta og pönnur, þar á meðal á þetta kvótaþing sem verður líka undir opinberri stýringu. Þar situr ráðherrann og ákveður til hvaða byggðarlaga það gæti hugsanlega farið og það jafnvel eftir aldri fólks.



[16:29]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Um ráðherraræði er frá því að segja að sjávarútvegsráðherra hefur því miður í nokkuð marga áratugi rekið sjávarútvegsmálin nánast eins og jarlsdæmi. Þetta frumvarp er engin undantekning á því en þó held ég að ráðherraræðið sé linað frá því sem áður var í þessu frumvarpi. Um muninn á ríki og þjóð — við höfum tekist á um það áður, ég og hv. þingmaður, eða réttara sagt um muninn á þjóðareign og ríkiseign. Þjóðareign er ákveðið hugtak og ríkiseign er annað hugtak. Um það getum við rætt frekar í umræðum um stjórnarskrána sem taka við af þessu máli. Hins vegar er það auðvitað svo að til þess kjörnir fulltrúar hljóta að fara með málefni þjóðareignarinnar eins og önnur sameiginleg mál þjóðarinnar. Öðruvísi er ekki hægt að svara þessu.



[16:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við hér frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Alls konar útgáfur af þessum hugmyndum hafa komið fyrir þingið og verður að segjast eins og er að það gengur hægt að koma einhverju viti í þetta, svo ég orði það bara þannig. Mér sýnist enn verið að reyna að laga þetta eitthvað en án þess að ná í sjálfu sér nokkrum einasta árangri með það. Mér finnst hugmyndafræðin í frumvarpinu enn sú sama, þ.e. að það hljóti að vera einhverjir aðrir betur til þess fallnir að stunda sjávarútveg en þeir sem eru í greininni í dag. Mér sýnist vilji þeirra sem mæla fyrir þessu frumvarpi og vilja fá það í gegnum þingið sá að færa atvinnuréttinn í raun eða atvinnutækin sem menn hafa með höndum í dag til einhverra annarra af því að þeir séu örugglega betri eða einhvern veginn í meiri rétti til þess að sinna þessari atvinnugrein.

Margt ágætt hefur komið fram í þessari umræðu, margt skýrst varðandi hugmyndafræðina í frumvarpinu þegar ég hef hlustað á stjórnarliða. Það hefur líka komið fram gagnrýni sem við höfum svo sem heyrt oft áður og sjálfsagt harmónerar eitthvað af því sem ég ætla að segja hér við þá gagnrýni.

Eitt atriði sem hefur verið nefnt er að það er að sjálfsögðu mjög sérstakt að koma með mál sem þetta á síðustu dögum þingsins. Ætli það séu ekki um það bil 15 þingfundadagar eftir? Fyrir liggur að frumvarpið þarf að senda út til umsagnar. Ef á að gera það sómasamlega mun það væntanlega taka einar tvær vikur. Maður fer að velta fyrir sér hvort meiningin sé að klára frumvarpið eða hvort þetta sé sett fram til að þyrla upp ryki og dreifa umræðunni, láta umræðuna ekki lengur snúast um hörmuleg mistök ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu eða málefni heimilanna heldur láta umræðuna snúast um eitthvað annað. Allt í lagi, við tökum þá bara þá umræðu ef það er markmiðið.

Í frumvarpinu er útgerðarflokkum enn mismunað eins og fram hefur komið. Veiðigjaldið gerir það, sérstaklega sérstaka veiðigjaldið, en hér er í raun bætt um betur og nefni ég eingöngu að þessu sinni svokallaða bótaflokka, þ.e. þær heimildir sem renna í þann pott. Ekki er gert ráð fyrir að jafna þær að fullu, ef ég hef skilið þetta frumvarp rétt, og það er miður.

Mér sýnist líka að ekki sé á nokkurn hátt horft til nýsköpunar og meiri verðmætasköpunar í greininni. Það er meira að segja ekki nefnt í markmiðum frumvarpsins eins og hefur verið bent á sem er sorglegt því að það sem er einmitt mjög áberandi í sjávarútveginum í dag eru fjölmargir aðilar sem eru að reyna að auka verðmæti hvers kílós sem dregið er úr sjó, eru að vinna í nýsköpun varðandi tækniþróun og úrvinnslu á afurðum úr sjávarútveginum. Við þekkjum sjávarklasann við Granda þar sem saman koma fyrirtæki og einstaklingar sem hafa fínar hugmyndir um hvernig gera megi betur. Allt tengist þetta.

Það er því sorglegt að mér sýnist frumvarpið ekki til þess fallið að eyða eða draga úr þeirri óvissu sem ríkir um sjávarútveginn. Þvert á móti er frumvarpið til þess fallið að auka óvissuna að mínu mati.

Rök fyrir því eru meðal annars að gert er ráð fyrir nýtingarsamningum til 20 ára í frumvarpinu en ekki að þeir framlengist heldur á einhvers konar nefnd eða starfshópur að fara yfir málið. Að mínu viti er miklu skynsamlegra að fara þá leið að gera slíka samninga með endurnýjun þannig að þeir sem eru í greininni sjái alltaf vissan tíma fram fyrir sig og geti gert þær áætlanir og ráðstafanir sem þarf varðandi í fjárfestingar o.s.frv.

Það vantar líka þá sýn að sjávarútvegurinn sé eitthvað meira en bara það að draga fisk úr sjó, setja hann í kassa og senda til útlanda eða á disk á borði hjá Íslendingum. Sjávarútvegurinn er hátækniiðnaður þar sem Íslendingar hafa náð gríðarlegum árangri í tækniþróun og í fullvinnslu og að nýta betur hráefnið eins og ég sagði áðan. Mér finnst því skorta verulega á að á þetta sé horft í frumvarpinu.

Það virðist eilítið byrjað að fenna yfir þá sýn sem við höfum haft á sjávarútveginn, að hann sé sjálfbær atvinnugrein sem ekki njóti beinna ríkisstyrkja, með tillögum sem draga munu úr hagkvæmni greinarinnar.

Sjávarútvegur allt í kringum okkur er stórlega ríkisstyrktur, jafnvel hjá helstu samkeppnislöndum okkar. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að við getum áfram látið greinina starfa í umhverfi þar sem hún er sjálfbær, þar sem ekki þarf að setja mikla fjármuni eða beita styrkjum til að greinin geti lifað.

Þegar órói er á mörkuðum hugsa jafnvel samkeppnisþjóðir okkar sér gott til glóðarinnar en á sama tíma eru íslensk stjórnvöld að gera ýmislegt sem að mínu viti eykur á vandræði þessarar greinar. Ég ætla að nefna eitt atriði sem ég kom inn á í upphafi máls míns, þ.e. svo virðist sem það eigi að halda áfram með þær hugmyndir að færa heimildir frá einum til annars, t.d. varðandi pott 2 sem er ræddur í frumvarpinu. Það hefur komið fram áður að það er gert ráð fyrir að miðað við frumvarpið verði um 45 þús. tonn komin í þennan pott verði veiðin óbreytt. Verði heimildir ekki auknar sem því nemur verður þessi aukning ekki til nema tekin af einhverjum öðrum sem eru með aflaheimildir í dag. Það mun að sjálfsögðu rýra getu þeirra til þess að reka fyrirtæki sín og hafa að mínu viti þær afleiðingar að á endanum muni einhverjir vilja selja fyrirtækin sín líkt og á sér stað núna með veiðigjaldið og auka þar af leiðandi samþjöppun í greininni.

Þá er rétt að nefna það sem kom fram í gær í ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þingmaðurinn fór yfir umfjöllun nokkurra aðila í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál þar sem þeir fóru nokkuð ítarlega yfir sjávarútveginn. Þar kemur fram að þær breytingar sem orðið hafa á sjávarútveginum og breytingar á byggðum megi meðal annars rekja til breytinga í samfélaginu öllu. Auðvitað hafa breytingar eins og framsalið 1991 haft ákveðnar afleiðingar, það er alveg ljóst, en meginbreytingin er sú að samfélagið allt er að breytast. Í sterkum byggðarlögum þar sem eru stæðilegar útgerðir eru líka til staðar vandamál. Auðvitað hefur það áhrif þegar ríkisvaldið leggur veiðigjald upp á 600 millj. kr. á eitt fyrirtæki og á sama tíma, á fjórum árum, fækkar opinberum störfum um 50 í því samfélagi þar sem þetta fyrirtæki starfar. Opinberu störfin hafa jafnvel meiri áhrif ef litið er á samfélagið í heild um leið og það dregur úr getu þessa fyrirtækis til að láta gott af sér leiða.

Ríkisstjórninni virðist takast verulega vel upp í því að rýra kosti þess að búa úti á landi, rýra kosti landsbyggðarinnar með aðgerðum sínum.

Í markmiðskaflanum, ég nefndi það reyndar áðan, er ekki talað um nýsköpun og betri nýtingu og við hljótum að vilja leggja mikla áherslu á að við fáum meira út úr hverju kílói sem við erum að vinna.

Ég hjó eftir því í viðtali um daginn við sérfræðing í þessum málum, Daða Má Kristófersson, að hann velti fyrir sér þeim markmiðum sem þarna ætti að ná. Hann taldi ólíklegt að stjórnvöld næðu markmiðum sínum, frumvarpið væri þannig úr garði gert. Hann velti því upp í lokin til hvers væri verið að þessu. Við þingmenn hljótum að spyrja okkur líka: Til hvers er verið að þessu? Til hvers er verið að koma með frumvarp sem þetta sem er svo stórlega gallað að það er algjörlega fyrirséð að umsagnir verða afar neikvæðar? Ég ætla bara að leyfa mér að segja að flestar munu verða afar neikvæðar vegna þess að breytingin frá síðasta frumvarpi er svo lítil. Það er hjakkað í sama farinu og sömu vinnubrögð stunduð. Þar af leiðandi fær frumvarpið væntanlega falleinkunn.

Annað sem vekur eftirtekt í þessu er að mér sýnist, a.m.k. við fyrsta lestur, að áfram sé ætlunin að ríkisvaldið fari í stórfellt brask með aflaheimildir, þ.e. að ríkisvaldið ætli að blanda sér inn í leigu og gera útgerðir að einhvers konar leiguliðum. Ég held að það sé ekki til bóta. Ef menn hafa ekki traust til þess að ákveða söluverðmæti eða hvaða verð sé réttlátt og réttmætt kann að vera að einhvers konar kvótaþing sé svarið. Sú leið sem hér er boðuð er hins vegar ekki góð. Hún er til þess fallin að ríkið blandi sér inn í viðskipti með heimildir og ætlar meira að segja að hafa heimild til að kaupa inn á þingið o.s.frv. Mér sýnist mjög langt gengið í ríkisvæðingu. Áðurnefndur Daði Már Kristófersson segir líka að miðað við hvernig þetta er sett upp sé kvótaþingið fyrst og fremst tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ef það er hugmyndin er bara mikilvægt að það sé viðurkennt.

Við framsóknarmenn fórum í gegnum mikla vinnu 2010–2011 um sjávarútvegsmálin, skipuðum nefnd sem fór í gegnum málin og skilaði svo tillögum til flokksþings. Þær leggja grunninn á þann hátt að það sé byggt á sama kerfi og er í dag, aflamarkskerfi og aflahlutdeildarkerfi, að gerðir séu samningar til um það bil 20 ára og að þeir framlengist sjálfkrafa. Þar af leiðandi getum við ekki stutt það að óvissan sem felst í þessu frumvarpi muni standa óbreytt áfram.



[16:44]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja að ég deili að miklu leyti þeim áhyggjum sem hann fór yfir í máli sínu vegna frumvarpsins um stjórn fiskveiða. Nú mun frumvarpið og þetta þingmál koma til afgreiðslu atvinnuveganefndar þegar 1. umr. um það lýkur. Það er mat manna að á því hafi verið gerðar einhverjar breytingar en matið á því hversu veigamiklar þær eru er svolítið misjafnt milli aðila. Í gær kom fram hjá einum fulltrúa stjórnarflokkanna, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að um væri að ræða mjög veigamiklar breytingar. Farið hefði verið yfir allar umsagnir og gagnrýni sem kom fram á fyrri frumvörp og það verið skoðað og ekki hægt að skilja það öðruvísi á málflutningi hennar en tekið hefði verið tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram þar. Því er ég ekki sammála og ég hef áhyggjur af framvindu málsins.

Mig langar að inna hv. þingmann og formann þingflokks framsóknarmanna eftir því hvernig hann sér framhald málsins fyrir sér og vinnu okkar í atvinnuveganefnd. Er ekki eðlilegt að það verði farið í þá úttekt á frumvarpinu sem var gerð við síðasta frumvarp, þ.e. að við fengjum sérfræðinga til að fara yfir málin, þeir mætu hlutlaust hver áhrif breytinganna væru? Þarf umsagnarferlið ekki að vera með eðlilegum hætti? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þeirra atriða.



[16:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu viti er alveg augljóst að frumvarpið þarf að fá vandaða umsögn, vandaða meðferð í nefndinni. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðir séu nýtingarsamningar. Það er ekki gert ráð fyrir að þeir séu framlengjanlegir heldur einhver nefnd skipuð. Það er eitthvað sem ég held að þurfi að fara mjög vandlega yfir. Hvað þýðir það nákvæmlega? Til dæmis hvert hlutverk eða valdsvið þeirrar nefndar verður nákvæmlega o.s.frv.

Í bráðabirgðaákvæði VIII eru ákveðnar breytingar á því hvernig ráðstafað er í þessa potta. Það þarf líka að fara yfir það. Af hverju er ekki gengið alla leið strax eða prósenturnar til dæmis jafnaðar, jafnað milli útgerðarflokka eða jafnað milli tegunda hversu mikið er greitt í þessar bætur? Af hverju er þorskurinn látinn borga mest áfram og ýsan o.s.frv.? Af hverju er það ekki jafnað strax? Það eru hlutir sem þarf að fara yfir og reikna út til að sjá hvaða áhrif þeir hafa.

Að sjálfsögðu þarf líka að fara yfir hvað það þýðir að miðað við óbreytta úthlutun á aflamarki, aflahlutdeild, sé potturinn orðinn 45–46 þús. tonn 2016 eða 2017. Hvaða áhrif hefur það miðað við óbreytta úthlutun ef það vex ekki eða fiskunum okkar sem við getum veitt fjölgar ekki? Hvaða áhrif hefur það? Allt það verður að fara vel yfir. Það er algjörlega óásættanlegt þegar við ræðum svona mikilvæga grein eins og sjávarútveginn að það sé kastað til höndunum. Það gengur ekki.



[16:48]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta sjónarmið. Það er líka mín skoðun að þrátt fyrir að manni virðist í fljótu bragði í grundvallaratriðum ekki vera veigamiklar breytingar á frumvarpinu er vissulega verið að gera breytingar. Það kom einmitt fram hjá Daða Má Kristóferssyni sem var annar þeirra sérfræðinga sem nefndin fékk til að fara yfir það á sínum tíma, að það væri til bóta en þyrfti að skoða áhrifin mikið betur. Ég held að það sé ljóst miðað við það að nefndin þarf að fara með þetta í ákveðið ferli sem mun kosta ákveðinn tíma.

Ég vil viðra skoðun mína og fá skoðun hv. þingmanns á henni: Er þetta ekki eitthvert leikrit sem er verið að taka þátt í eina ferðina enn í þinginu? Er einhver von til þess miðað við eðlilega málsmeðferð að málinu muni ljúka á yfirstandandi þingi og fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Nú eru 15 þingdagar eftir í þinginu og það (Forseti hringir.) er verið koma fram með gríðarlegt hagsmunamál á síðustu metrunum. Er nokkur von til þess að málinu ljúki? Er verið að (Forseti hringir.) setja eitthvert leikrit á svið fyrir komandi kosningar?



[16:49]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög óábyrgt af ríkisstjórnarflokkunum að koma fram með þetta frumvarp núna. Mér finnst það óábyrgt að því leytinu til að við þekkjum alveg söguna um það þegar ríkisstjórnin kemur fram með mál á síðustu dögum þingsins eins og hún hefur svo margoft gert á þessu kjörtímabili, yfirleitt stórmál eins og þetta. Þá er mikil hætta á að menn kasti til höndunum og vinnslu við málið sé hraðað. Það má ekki gerast.

Er þetta leikrit? Ég velti því upp hvort það sé hluti af því að reyna að beina athyglinni frá erfiðasta máli ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu sem hlýtur að vera Icesave-málið en ég held að það fenni aldrei yfir hvernig var haldið á því máli né það sem varðar heimilin í landinu. Það kann vel að vera að allt aðrar hugmyndir séu þar að baki og það sé virkilegur vilji til að klára málið og þá mun að sjálfsögðu reyna á það. En það er ekki hægt að gera með því að kasta til höndunum, þetta verður að gera (Forseti hringir.) með vönduðum hætti.



[16:51]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort honum þyki í raun ekki tímasóun að vera að reyna að rökræða hér um frumvarp sem er hreinasta bögglauppboð. Óskiljanlegt, úr takti við allt sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi, úr takti við raunveruleikann? Auðvitað er málið enn þá á núllpunkti vegna þess að eini möguleikinn til að ná einhverri raunhæfri niðurstöðu til sátta og árangurs er samningaleiðin. 25 aðila nefndin skilaði verki fyrir fjórum árum og menn glöddust og sáu fram á þokkalega sátt í erfiðu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í þeim efnum að það sem ætti í rauninni að gera núna er að kalla saman 25 manna nefndina og fá álit hennar — ásamt því að leita til margra annarra sérfræðiaðila — fá álit hennar á þessu bögglauppboðstilboði ríkisstjórnarinnar sem hvorki stjórnarsinnar sjálfir né aðrir skilja. Þótt einstaka þingmenn sem allt vita gefi út yfirlýsingar (Forseti hringir.) kemur ekkert út úr því.



[16:53]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þá sýn hv. þingmanns að þetta sé hálfgerð tímasóun. Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel að þær breytingar sem hér er verið að boða séu verri fyrir sjávarútveginn heldur en gera ekki neitt. Ég held í öðru lagi að það séu allt önnur mál á Alþingi sem er brýnna að vinna að og klára núna á síðustu dögum þingsins. Í þriðja lagi er það enn og aftur staðreynd að ekki hefur verið leitað eftir samstarfi, sátt eða einhvers konar samvinnu um það hvers konar mál eigi að leggja fram.

Ég tók þátt í vinnu þeirrar stóru nefndar sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að þær tillögur og hugmyndir sem komu fram þar hafi verið alveg prýðilegar og hefði átt að vinna meira með þær á þeim grunni að menn leituðu sátta um einhverjar breytingar.



[16:54]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nákvæmlega atriðið sem skiptir máli, að menn horfist í augu við staðreyndirnar. Það sem hefur verið gert á undanförnum fjórum árum eru einhverjar hristimaskínur eins og í hlutaveltum sem krakkar efna oft til þar sem eru ekki neitt nema afgangsvinningar. Það er gaman að því en það er ekki til árangurs og síst af öllu til að byggja upp þá atvinnugrein sem íslenska þjóðin byggir í stærstum dráttum á.

Það eru kaflar í frumvarpinu sem maður áttar sig ekki á hvaðan slitrurnar eru. Eitthvað er um markaðshyggju, en það er óskiljanlegt. Eitthvað er úr minnisblöðum kommúnistastjórnarinnar sálugu í Sovétríkjunum. Maður áttar sig ekki heldur alveg á því hvaðan það kemur inn, en það virðist hafa verið til í bókahillum einstaka stjórnarandstæðinga (Forseti hringir.) og þeir hafa reynt að drusla því inn í þessi frumvörp, virðulegi forseti.



[16:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa skýringu. Ég get því miður ekki svarað því hvaðan hugmyndirnar koma sem þarna er að finna en ég tek undir tóninn hjá hv. þingmanni, ég held þær séu mjög vondar.



[16:56]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði um að með því fyrirkomulagi sem frumvarpið boðar yrðu þeir sem þyrftu að leigja til sín kvóta leiguliðar ríkisins. Honum var tíðrætt um hugtakið leiguliðar. Ég spyrja hv. þingmann: Hvað eru þá þeir sömu aðilar í dag, þeir sem eru háðir því að fá ekki aðgang að leiguheimildum til veiða nema með því að leigja af núverandi kvótahöfum og fá litlu ráðið um verðlagningu eða framboð? Hvað er það ástand samanborið við opinn leigumarkað með aflaheimildir þar sem öll leiguviðskipti fara fram um kvótaþing, ekki bara í þessum 20 þús. tonna leigupotti sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur líka þau 25% af öllum aflaheimildum sem útgerðin má leigja frá sér? Það mun fara inn á kvótaþing og líka inn á þennan opna leigumarkað. Það þýðir að um þriðjungur allra heimilda er þá á opnum leigumarkaði um kvótaþing. Útgerðin hefur ekkert um verðlagningu eða framboð að segja. Ég hef lesið fiskveiðistefnu Framsóknarflokksins, ætlar þingmaðurinn núna að tala gegn því fyrirkomulagi og halda því fram að menn væru betur settir í óbreyttu kerfi en með því móti sem boðað er í frumvarpinu?

Með öðrum orðum. Erum við ekki með leiguliða útgerðarinnar í dag? Þeir eru ekki leiguliðar ríkisins en þeir eru leiguliðar útgerðarinnar.

Mér þætti vænt um að heyra skoðun þingmannsins á því. Ég kem í síðara andsvari að samningaleiðinni sem hv. þingmaður þekkir.



[16:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

[17:00]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér málið betur og kynna sér betur stefnu síns eigin flokks í sjávarútvegsmálum. (GBS: Talaðu ekki svona niður til fólks, Ólína.) Frumvarpið boðar frjálsan opinn leigumarkað með 20 þús. tonn í svokölluðum leigupotti og þar að auki opin frjáls leiguviðskipti með allar þær aflaheimildir sem útgerðin má auk þess leigja frá sér, sem er 25% réttur til þess, áunninn með veiðum.

Í þeirri samningaleið sem þingmaðurinn undirskrifaði sjálfur, verandi í nefndinni sem lagði þá leið til, voru nokkur grundvallaratriði. Til dæmis það að aflaheimildum yrði úthlutað með nýjum hætti á grundvelli nýtingarsamninga eða nýtingarleyfa og að tekinn yrði upp leigupottur.

Ég spyr hv. þingmann: Hvar urðu hans sinnaskipti í málinu eftir að þessi nefnd lauk störfum? Hér er auðvitað verið að fara (Forseti hringir.) samningaleiðina eins og alþjóð veit.



[17:01]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður virðist vita betur hvað sá er hér stendur hefur sagt og skrifað undir heldur en hann sjálfur. Mig langar að spyrja viðkomandi þingmann — hún getur bara kinkað kolli. Hefur viðkomandi þingmaður lesið fyrirvara þann sem ég var með í samninganefndinni? Hefur hún lesið hann? Já, þá held ég að hv. þingmaður ætti að rifja hann upp. (ÓÞ: Þú ættir nú kannski að gera það sjálfur.)



[17:02]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Í ljósi þeirra orðaskipta sem hér fóru fram á milli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á vel við það sem ég ætla að byrja ræðu mína á. Það eru 15 þingdagar, herra forseti, eftir af þessu þingi miðað við starfsáætlun þingsins og allir geta séð að þetta mál er ekki að fara í gegn á einungis 15 þingdögum. Málið er í 1. umr. Það á eftir að fara inn til nefndar. Þar á það eftir að fara í umsögn. Þar eiga sérfræðingar eftir að koma og veita umsögn um málið. Þar eiga eftir að koma gestir. Síðan er eftir 2. og 3. umr. málsins.

Við sjáum vel að tilgangurinn með því að leggja fram þetta mál núna á lokaspretti kjörtímabilsins er fyrst og fremst sá að ríkisstjórnin geti slegið sér upp á því enn einu sinni að hún sé sú eina sem vilji breyta umgjörð sjávarútvegs í landinu.

Rifjum upp feril málsins þetta kjörtímabil. Hann byrjaði á svokallaðri sáttanefnd sem átti að fara yfir málið. Frá því að hún lauk störfum hefur það meira og minna verið í ágreiningi, ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur innan stjórnarliðsins. Við höfum orðið vör við það hér fyrir hver einustu þinglok að stjórnarliðið sjálft er að rífast um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Svo bar við að nýr formaður var kosinn í Samfylkingunni. Hv. þm. Árni Páll Árnason kom hnarreistur út af þeim fundi og boðaði að nú væri nýr tími í stjórnmálum hafinn þar sem við ættum í auknum mæli að leita sátta og breiðrar samstöðu um stór mál. Samfylkingin sem jafnaðarmannaflokkur Íslands mætti ekki alltaf vera ofan í skotgröfunum og í stríði við allt og alla. (Gripið fram í: Heyr.) Þetta eru göfug sjónarmið.

En hvað gerðist svo? Rétt eftir að hv. þingmaður hafði lokið þessum orðum sínum ætlaði allt að sjóða upp úr innan Samfylkingarinnar. Þá kom í ljós að hæstv. forsætisráðherra er enn starfandi formaður og þrátt fyrir að hv. þm. Árni Páll Árnason sé orðinn formaður að nafninu til ætlar hæstv. forsætisráðherra áfram á hnefanum. Hæstv. forsætisráðherra ætlar áfram að takast á um þetta mál, stjórnarskrármálið og fleiri mál hér á síðustu metrum þingsins þegar allir hafa gert sér grein fyrir því, meira að segja margir stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, að ekki er nokkur möguleiki á að klára þau á svo skömmum tíma.

Jafnvel þótt menn mundu vilja breyta sjávarútvegskerfinu, eins og meðal annars hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á í ræðu sinni í gær og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson einnig hér áðan, eru tvær vikur einfaldlega allt of skammur tími til þess að koma fram með svo veigamikið frumvarp og ætla sér að klára það á þeim tíma. Rétt eins og tvær vikur eru allt of skammur tími til þess að klára breytingar á stjórnarskrá eins og núverandi stjórnarmeirihluti hefur ætlað sér að gera. Þessu hafði hv. þm. Árni Páll Árnason auðvitað gert sér grein fyrir. En þessu hafa þeir sem standa í stafni og standa í brúnni í ríkisstjórninni ekki gert sér grein fyrir.

Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi verið að marka það þegar menn töluðu um ný vinnubrögð, um að nú ætti að leita sátta, um að ganga yrði fram með öðrum hætti. Einnig þegar menn töluðu um það þegar Icesave-dómurinn féll að við ættum í auknum mæli að leita víðtækari sátta um mál. Það sagði meðal annars hv. þm. Magnús Orri Schram, að við ættum að læra af Icesave-málinu, við ættum að læra það að kalla fleiri til, skoða ólík sjónarmið og leita breiðrar sáttar í stórum málum.

Það er áhyggjuefni að málið sem við ræðum hér sé búið að veltast um í fjögur ár innan ríkisstjórnarinnar. Þegar hæstv. núverandi atvinnuvegaráðherra tók við þessum málaflokki á sínum tíma var boðað að hægt ætti að vera að klára það á nokkrum vikum eða mánuðum. Síðan þá er málið búið að veltast og veltast. Það er ekki gott fyrir neina atvinnugrein, hvort sem það er sjávarútvegur, fyrirtæki í þjónustugeira, fyrirtæki í annarri auðlindavinnslu eða í hverju sem er, að heildarumgjörðin sé alltaf á reiki, að menn viti aldrei hvað sé handan við hornið. Þá er enginn að tala um að ekki sé í lagi að gera breytingar á rekstrarumgjörð fyrirtækja. En nú er umgjörðin utan um þennan stærsta atvinnuveg þjóðarinnar búin að vera í upplausn í fjögur ár, svo koma menn og ætla að klára mál á 15 þingdögum.

Þetta ber þess auðvitað merki að þeir sem ráða hér för hafi ekki skilning á mikilvægi þess að skapa stöðugleika í kringum rekstrarumgjörð atvinnugreina.

Það er auðvitað ekkert skrýtið ef við skoðum alþjóðlegan samanburð atvinnulífsins hér á landi við nágrannaríki okkar að við skulum alltaf vera að falla á þeim listum. Það er ekki eingöngu vegna efnahagshrunsins. Í alþjóðlegum samanburði hefur meðal annars komið fram að þegar borin er saman ytri umgjörð fyrirtækja, pólitísk óvissa, skattkerfi og annað, hefur Ísland hrapað niður á fjórum árum frá því að vera í topp 20 í að nálgast neðstu sæti á þessum listum. Þegar borin er saman á skattlagning á fyrirtæki eða hvatning fyrirtækja til þess að vaxa og ráða til sín fólk og auka tekjur er Ísland komið niður fyrir lönd eins og Mósambík, Haítí og fleiri lönd. Já, það hlæja margir hér í salnum, en þetta er bláköld staðreynd og hún er mjög alvarleg.

Ekki er verið að tala um að þjóðin eigi ekki að fá sinn skerf af auðlindinni, að fyrirtækin eigi ekki að skila til samfélagsins og svo framvegis, en það verður að ríkja skilningur á því hvað er mikilvægt þegar menn eru að reka fyrirtæki. Það verður að ríkja skilningur um að sama hvað menn starfa við þá verða þeir að geta gert áætlanir í það minnsta einhverja mánuði fram í tímann. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið hægt í tíð sitjandi ríkisstjórnar og þess vegna er Ísland að falla á öllum listum þegar kemur að þessum málum. Það er auðvitað miður, því öllu máli skiptir að við getum skapað tekjur og að fólk hafi atvinnu.

Það er tvennt sem er mjög mikilvægt að átta sig á og mig langar að koma hér inn á. Það er annars vegar að sjávarútvegurinn á Íslandi er einsdæmi varðandi það að hann stendur undir sér. Það þarf ekki að ríkisstyrkja sjávarútveg á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið, í mörgum nágrannaríkjum okkar er sjávarútvegur gríðarlega mikið ríkisstyrktur. Það er mjög mikilvægt að við getum áfram rekið sjávarútveg á Íslandi þannig að hann sé ekki ríkisstyrktur. Ég held að það hljóti að vera ein af grundvallarforsendunum og eitt af því sem við horfum til þegar við ræðum sjávarútvegskerfið, að allar þær aðgerðir sem við ráðumst í séu ekki til þess fallnar að við séum að komast á þá braut að við munum þurfa að ríkisstyrkja sjávarútveg á Íslandi. Það verður að vera númer eitt.

Síðan eigum við að horfa til þess að byggðarlögin allt í kringum landið geti blómstrað og dafnað. Það á að vera númer tvö. Margir hafa bent á það í umræðunni og þá er enginn að tala um það að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé fullkomið, ekki nokkur maður. Það má gera breytingar á því, en menn hafa bent á það, meðal annars Þóroddur Bjarnason prófessor og formaður stjórnar Byggðastofnunar, að fyrra frumvarp, sem var ekki mjög ólíkt þessu, fékk ekki jákvæða umfjöllun hjá honum og fleiri aðilum. Menn voru almennt sammála um að það frumvarp væri ekki til þess fallið að efla byggð í landinu og það eru ekki miklar breytingar á þessum tveimur frumvörpum hvað þann þátt snertir.

Að auðlindin gefi af sér til þjóðarinnar er vissulega mikilvægt. Menn verða samt líka að huga að því að mikilvægt er að hún gefi af sér inn í þau byggðarlög þar sem fyrirtæki í atvinnugreininni eru starfandi. Við verðum að haga því þannig að ekki sé gengið af atvinnugreininni dauðri. Það hefur því miður ekki tekist núna. Bent hefur verið á að sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki eiga í gríðarlegum vandræðum með að greiða þetta háa auðlindagjald, það leggst mjög ójafnt á fyrirtækin og þá sem stunda útgerð. Við heyrum fréttir af því að litlu og meðalstóru fyrirtækin eru mörg hver farin að leita til stærri fyrirtækja um hvort þau geti keypt af sér aflahlutdeildir vegna þess að litlu fyrirtækin ráði ekki við veiðigjaldið.

Nú fer tíminn að styttast og því miður næ ég ekki að fara yfir allt sem ég ætlaði mér í þessari ræðu. Komið hefur verið inn á að vandinn sem við glímum við í dag sé einkum og sér í lagi fjórskiptur. Í fyrsta lagi snúi hann að markaðsmálunum og þeim vandræðum sem eru í ytri umgjörðinni. Það er gríðarlega alvarlegt að við skulum horfa upp á að verð og eftirspurn á mörgum af okkar helstu mörkuðum sé að falla mjög. Það ber auðvitað að fagna því að ríkisstjórnin sé að ranka við sér hvað þetta snertir og ætli að fara að taka þátt í einhvers konar markaðssetningarátaki til þess að leita á nýja markaði. Í það hefði allur okkar kraftur átt að fara núna því þetta eru ytri aðstæður sem við einfaldlega ráðum ekki við. Við verðum að reyna að bregðast við því þetta getur kostað okkur. Við ráðum ekki við að eftirspurn sé að dragast saman og markaðir að lokast. Við verðum að bregðast við því þetta er það sem ógnar mest þessari atvinnugrein í dag, við getum ekki haft áhrif á þetta með beinum hætti.

Síðan hafa vandamál verið rædd hér á þinginu sem snúa meðal annars að ýsukvóta. Það er líka áhyggjuefni. Þetta er eitthvað sem við sannarlega ættum að vera að ræða og reyna að klára hér á síðustu dögum þingsins, þ.e. þessi tvö mál því þau eru svo sannarlega brýn.

Ég hef komið inn á í ræðu minni það sem snýr að veiðigjöldunum og hvaða afleiðingar upphæð þeirra hefur í för með sér. Menn hljóta að spyrja sig hvaða áhrif hún hefur og hvort það sé virkilega svo að þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki séu í svona auknum mæli að leita til stærri útgerða um að kaupa aflahlutdeildir. Það er grafalvarlegt mál því þá erum við ekki að ná því fram í byggðamálum sem við ætluðum okkur.

Svo er það sem bent hefur verið á, meðal annars af Daða Má Kristóferssyni og Þóroddi Bjarnasyni, sú óvissa að þeir sem reki fyrirtæki í þessari grein geti aldrei séð handan við hornið og viti aldrei hvað er fram undan. Þeir eigi von á hverju sem er og geta ekki gert neinar áætlanir, hvorki til lengri né skemmri tíma. Það skaðar mjög rekstrarumgjörð þessara fyrirtækja.

Þessi tvö seinustu atriði sem ég nefndi eru mannanna breytingar. Þau eru mannanna verk. Þau eru eitthvað sem við verðum einfaldlega að skoða. Við verðum að skapa þessari grein slíka umgjörð að menn geti gert áætlanir, hvort sem það eru lítil eða meðalstór fyrirtæki.

Því miður horfum upp á, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það eru 15 þingdagar eftir. Þeir sem boða ný vinnubrögð og að vinna eigi mál á faglegan og yfirvegaðan hátt koma ekki með sjávarútvegsfrumvarp inn í þingið þegar 15 dagar eru eftir og ætla sér að klára það. Það liggur ljóst fyrir að þetta mál mun ekki klárast á 15 dögum. Þá eru menn enn á ný að gera það sem ég síðast nefndi, að auka á óvissuna í greininni og ætla að skilja hana þannig eftir fram yfir kosningar í persónulegum pólitískum tilgangi, en ekki að hugsa um atvinnugreinina, framtíð hennar og umgjörð hennar.



[17:17]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi málflutningsins sem þingmenn Framsóknarflokksins viðhafa núna í umræðunni langar mig aðeins að hressa upp á minni þeirra, sérstaklega af því að vakin var athygli á þeim fyrirvara sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram við skýrslu samninganefndarinnar hér um árið. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa upp úr völdum köflum í fyrirvara þingmannsins. Þar ræðir hann um samningaleiðina og segir:

„Telur undirritaður að fara eigi þá leið en vill taka fram að gildistími samninga um nýtingarrétt verður að vera hæfilega langur“ og nefnir hann í því sambandi 20–40 ár. Síðan segir þingmaðurinn að réttindi og skyldur handhafa veiðiréttar sem og ríkisvaldsins verði að vera skýr í samningunum. Meginatriði samningaleiðar felist því í samningum við rétthafa um afnotarétt af auðlindinni. Hann segir svo: „Tel ég rétt að í stjórnarskrá eigi að setja skýrt ákvæði um þjóðareign. Undirritaður tekur undir tillögu um að innan aflamarkskerfisins verði tveir pottar.“ Síðan útskýrir hann að sá minni skuli halda utan um byggðaþarfir, bætur og ívilnanir og segir: „Markaður með leiguheimildir þar sem verðmyndun er gagnsæ og sanngjörn getur ýtt undir endurnýjun og fjölbreytni í greininni.“

Nú vil ég spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason, flokksbróður hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar: Hvar hafa dagar framsóknarmanna lit sínum glatað í því máli? Hvar urðu sinnaskiptin í málinu? Mér finnst eins og menn tali sér alveg þvert um geð og í hreinni andstöðu við þær þungu áherslur sem lagðar voru (Forseti hringir.) í nefndinni um að samningaleiðin skyldi farin með þeim megináherslum sem ég hef nú rakið. (Gripið fram í: Fimm þúsund tonna leigupotta …)

(Forseti (SIJ): Forseti vill geta þess að enn og aftur hefur klukkan bilað.)



[17:19]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þegar niðurstöður þessarar sáttanefndar lágu fyrir hefði vel verið hægt að fara þá leið. Það var ekkert því til fyrirstöðu að gera það, ræða málin og vinna á breiðum grunni en það var ríkisstjórnin sem vildi aldrei fara þá leið. Það veit hv. þingmaður. Það var ríkisstjórnin, og m.a. hv. þingmaður, sem vildi aldrei fara leið sátta í málinu og hefur allt þetta kjörtímabil viljað vera með hnefann á lofti í því og hafa það í óvissu. Í fjögur ár hefur ríkt óvissa í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Hv. þingmaður Gunnar Bragi Sveinsson kom meðal annars inn á þætti í ræðu sinni, og menn hafa gert það, sem eru þess eðlis að það væri vel hægt að samþykkja þá, aðrir þættir eru ekki þess eðlis. Það sem ríkisstjórnin hefur ekki enn gert, jafnvel þótt hún ætli að reyna að koma málinu í gegn á 15 dögum sem er ekki eðlilegt, er að leita eftir því að mynda breiða samstöðu um málið. Hún hefur ekki enn leitað til annarra aðila. Hún hefur ekki gert það og hefur greinilega ekki áhuga á því. Það sýnir sig best í því að komið er með málið 15 dögum fyrir þinglok með hnefann á lofti, eins og hv. þingmaður gerði af svo miklum krafti rétt áðan.



[17:21]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hrædd um að hv. þingmaður sé farinn að sjá tvöfalt ef hann telur að ég hafi verið með hnefann á lofti.

Hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin hafi aldrei viljað fara þessa leið en veit þó mætavel að forusta nefndarinnar var í höndum fulltrúa stjórnarflokkanna. Niðurstaðan um samningaleiðina varð ljós eftir 18 mánaða samráð í þeirri nefnd. Allar götur síðan hefur verið unnið út frá tillögum nefndarinnar. Þetta frumvarp hér er útfærsla á samningaleiðinni sem kveður á um þjóðareign á auðlindinni, sem kveður á um að gerðir séu samningar um nýtingarrétt aflaheimilda til afmarkaðs tíma þar sem hinn hluti kerfisins sé hið svokallaða pottakerfi, þar sem viðhafður sé opinn leigumarkaður með aflaheimildir, leigupotturinn sem lögð var svo rík áhersla á, en jafnframt tekið tillit til byggðasjónarmiða og samfélagslegra þarfa.

Þetta mál hefur verið í stöðugu samráði og stöðugri vinnslu. Það birtist ekki 15 dögum fyrir þinglok og það er ekki verið að vinna það hér á nokkrum dögum. Málið hefur tekið fjögur ár í vinnslu. Afraksturinn er að líta dagsins ljós núna. Það er náttúrlega svolítið raunalegt að sjá menn síðan stökkva frá sínum eigin yfirlýsingum og sínum eigin bókunum í því máli. Það er átakanlegt að horfa upp á það hafandi orðið vitni að þeirri umræðu allri eins og hún hefur gengið undanfarin ár þar sem hnefinn hefur svo sannarlega verið á lofti og er á lofti í umræðunni í dag.



[17:23]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Í lok síðasta þings þegar þessi mál voru síðast til umræðu hefði verið hægt að klára málið með ákveðnum breytingum og beitti Framsóknarflokkurinn sér mjög fyrir því. Þá var ekki verið að semja við eina ríkisstjórn. Það var ekki verið að semja við tvo ríkisstjórnarflokka heldur var verið að semja við marga flokka innan hvors ríkisstjórnarflokks vegna þess að ríkisstjórnin gat ekki komið sér saman um eitt né neitt í því máli. Framsóknarflokkurinn taldi þá, og telur enn, að það sé mikilvægt að ná breiðri sátt um sjávarútvegsmálin og mikilvægt að skapa sjávarútveginum rekstrarumgjörð sem geri það að verkum að menn sjái aðeins fram í tímann, þeir sem reka fyrirtæki vita að menn verða að sjá meira en viku fram í tímann. Það var ekki vilji til þess þá og frá þeim tíma hefur ekki verið reynt að leita sátta á neinn hátt hvað varðar nokkuð í tengslum við sjávarútvegsmálin og það hefur ekki skort á vilja framsóknarmanna til að ræða málin og klára þau í breiðri sátt. Hv. þingmaður veit það því að þingið var allt í háalofti síðastliðið vor þegar þetta var síðast til umræðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að við sjáum afraksturinn 15 dögum fyrir þinglok. Hv. þingmaður getur ekki sagt það með réttu að málið hafi verið unnið og unnið. Hingað koma mál til þinglegrar meðferðar. Hv. þingmaður staðfesti hér að ágreiningur hefði verið um málið innan ríkisstjórnarflokkanna allt kjörtímabilið sem hefur kallað á að menn vinni það innbyrðis, sín á milli, og þeir koma núna 15 dögum fyrir kosningar og ætla sér að (Forseti hringir.) klára málið. Það eru ekki þau vinnubrögð sem við eigum að viðhafa í máli mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar sem er sjávarútvegur.



[17:26]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú, þegar um 15 þingfundadagar eru eftir af þessu kjörtímabili, þetta stóra mál er varðar sjávarútveginn; frumvarp til laga um stjórn fiskveiða heitir það. Hér er fullyrt af hálfu þeirra sem tala fyrir þessu máli og sitja í stjórnarliðinu að málið sé fullrætt og þurfi enga umræðu vegna þess að það hafi komið margoft fram áður. Engu að síður ber að spyrja, ef þetta er rétt og ef þetta er allt svona einfalt, hvers vegna málið var ekki lagt fram í tæka tíð þannig að tími gæfist til að fara almennilega yfir það. Hér hafa menn komið í röðum allt þetta kjörtímabil og talað um vönduð vinnubrögð, allt skuli vera uppi á borðum og menn megi ræða hér málin, þannig að það ber að gera þessa athugasemd og halda henni til haga.

Frú forseti. Ég hef í andsvörum mínum í dag, við þá hv. þingmenn sem hafa verið yfirlýstir stuðningsmenn þessa máls, gert athugasemdir við ákveðna hluti og langar að ræða aðeins um 19. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Þar er í 1. mgr. fjallað um það að heimilt sé að ráðstafa aflamarki um kvótaþing og í reglugerð verði heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum landsvæðum sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti og að hluta til til meira en eins árs í senn.

Ég hef verið að spyrja, af því mér finnst það ekki ljóst af greinargerðinni sem fylgir og mér finnst það ekki ljóst af þeirri umfjöllun sem þetta mál hefur fengið og þeirri umræðu sem farið hefur fram, ég hef ekki fengið skýr svör við spurningum mínum: Hvaða hluta er verið að tala um? Hvað er átt við þegar talað er um í reglugerð að ráðherra sé heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum landsvæðum? Hvaða hluta er verið að tala um? Hvað er verið að tala um mikinn hluta? Mig langar að vita þetta. Fyrst menn hafa fjallað svona mikið um þetta, fyrst málið er svona skýrt og útrætt, hljóta menn að vita hvað þeir eiga við þegar þeir styðja þetta frumvarp, hvað þeir eiga við með þessu ákvæði.

Í öðru lagi er rétt að fjalla hér aðeins um 2. mgr. þessarar 19. gr., en þar er fjallað um það að tekjur þær sem aflað er við ráðstöfun aflamarks úr flokki 2, sem fjallað er um í þessu ákvæði, skuli renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Síðan kemur fram að úr sjóðnum sé ráðstafað samkvæmt reglum sem ráðherra setur, ríkið skuli njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% tekna og markaðs- og þróunarsjóðir tengdir sjávarútvegi 20%.

Ég hef verið að spyrja hv. þingmenn, þá sem talað hafa á þann veg að þeir styðji þetta mál: Hvað er átt við hér? Hvaða sveitarfélög er í fyrsta lagi verið að tala um? Hvaða sveitarfélög er verið að tala um? Getur einhver svarað mér því? Veit það einhver sem styður þetta mál og situr í þessum sal, situr hugsanlega í þessum nefndum, hvaða sveitarfélög verið er að tala um? Er verið að tala um öll sveitarfélög á landinu eða er verið að tala um sveitarfélög sem hafa orðið fyrir einhverjum áföllum eins og sumir hv. þingmenn hafa talað um hér í einu orðinu? Er þá verið að tala um sveitarfélög sem hafa orðið fyrir skakkaföllum þar sem sjávarútvegur er starfræktur? Eða erum við bara að tala um sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er ekki starfræktur? Mig langar að fá svar við þeirri spurningu. Það hlýtur að liggja fyrir fyrst málið er svona vel unnið.

Í bráðabirgðaákvæði nr. V er talað um að ráðherra skuli setja á fót nefnd með aðild samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi sem geri tillögur um ráðstöfun þessara tekna sem fjallað er um í 2. mgr. 19. gr. Ég skil þetta þannig að setja eigi fjármuni í sjóð. Útdeilt verður úr þessum sjóði samkvæmt reglum frá einhverri nefnd sem í sitja hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og samtök sveitarfélaga. Hvaða samtök sveitarfélaga er verið að tala um? Er verið að tala um landshlutasamtök? Einn þingmaður hélt því fram. Í greinargerðinni segir bara um þetta ákvæði að það þarfnist ekki skýringar. Ég þarf skýringar og kalla eftir skýringum. Er hér verið að tala um Samband íslenskra sveitarfélaga, stóru samtökin, eða er verið að tala um landshlutasamtök? Hvort heldur sem er geri ég athugasemd við það að einhverjum skuli detta í hug að hafa þessa hluti með þessum hætti þar sem fjárveitingavaldið er að mínu viti hér hjá Alþingi. Ef menn ætluðu sér að úthluta fjármunum til byggðarlaga þar sem menn telja að lífskjör séu ekki nægilega góð eða að atvinnuröskun hafi orðið eða eitthvað slíkt, þá tel ég að slík úthlutun eigi einfaldlega að vera hjá fjárveitingavaldinu en ekki hjá samtökum þar sem fulltrúar eru ekki lýðræðislega kjörnir.

Ég vek athygli á því, af því að einn hv. þingmaður taldi að þarna væri átt við landshlutasamtök sveitarfélaga, að þeir sem þar sitja eru ekki kjörnir beinu kjöri. Þannig að ef færa á þetta fjárveitingavald út til slíkra aðila geri ég við það verulegar athugasemdir. Ég kalla eftir skýringum á því og ef ég er að misskilja þetta mál kalla ég líka eftir því að menn komi og útskýri það, vegna þess að það stendur bara í greinargerðinni að þetta þarfnist ekki útskýringar.

Herra forseti. Menn segja hér að þetta sé að mestu leyti óbreytt frumvarp og það getur vel verið að það sé rétt. En það hefur verið talað um þetta mál, breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, í löngu máli allt þetta kjörtímabil. Allt þetta kjörtímabil hefur ríkt mikil óvissa í sjávarútveginum um það hver framtíðin verði, hver stefnan sé hjá stjórnvöldum og hvað menn ætli nú að gera. Því hefur verið hótað að gjörbylta eigi sjávarútvegskerfinu og menn hafa margoft lagt fram mál í þá veru. Við könnumst við umræðuna frá því og löggjöfina varðandi veiðigjaldið. Nú erum við með þetta stóra mál.

Þessi óvissa, sem grundvallaratvinnugrein okkar hefur þurft að búa við í mörg ár, hefur haft þær afleiðingar að þrátt fyrir að mikil fjárfestingargeta og fjárfestingarþörf sé í sjávarútveginum hafa menn haldið að sér höndum af því menn hafa ekki áttað sig á því hvert verið er að stefna.

Á þeim tímum sem við nú lifum, þegar við þurfum á því að halda að grundvallaratvinnugrein okkar dragi vagninn og hjálpi okkur við að endurreisa íslenskt atvinnulíf, er stuðlað að óvissu í stað þess að stuðla að öryggi umhverfis þessarar grundvallaratvinnugreinar. Það er ábyrgðarhluti.

Ég átta mig á því að auðlindin í hafinu er takmörkuð. Auðvitað er það alltaf þannig að þegar takmörkuð gæði eru til skiptanna eru alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Það verður alltaf umdeilt hvernig slíkum gæðum verður úthlutað og hvernig slík gæði eru nýtt, alveg sama hvaða kerfi er notað.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að núverandi kerfi sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk, er það samt að mínu mati besta fyrirkomulag sem völ er á. Við þekkjum það að meira að segja Evrópusambandið hefur litið hingað heim og sagt að við eigum mjög áhugavert og gott fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta hefur Evrópusambandið sagt. Ýmsir hafa haldið því fram að Evrópusambandið hafi hug á því að horfa til okkar og jafnvel, þegar þeir taka til við að breyta fiskveiðistefnu sinni, að líta til okkar sem fyrirmyndar. Þrátt fyrir það eru aðilar sem eru að sækja um aðild að sama batteríi, þ.e. Evrópusambandinu, að leggja til grundvallarbreytingar á þessu kerfi. Ég skil ekki alveg samhengið í þessu, herra forseti.

Það er rétt að andstæðingar núverandi fiskveiðistjórnarkerfis eru við völd í landinu, það fer ekkert á milli mála og hefur ekki farið á milli mála á þessu kjörtímabili. Hér er lögð til mikil breyting á kerfinu. Nú þegar hefur verið lögð til og lögfest stórfelld skattheimta á kerfið og með því hafa fjármunir verið teknir frá sjávarútvegsfyrirtækjunum, sem annars færu í fjárfestingu og styrkingu útgerðar og vinnslu, og þeim hefur verið útdeilt til ýmissa verkefna í fjárlögum sem lögð voru fram og samþykkt í desember, sem þáverandi fjármálaráðherra kallaði sannkölluð kosningafjárlög. Þá vitum við það.

Jafnframt hefur það verið sagt og var sagt af forsætisráðherra, þegar umræður áttu sér stað varðandi veiðiskattinn, að með því frumvarpi og þeim lögum hafi helsta meinsemd kerfisins verið löguð með því að taka arðinn af útgerðunum og færa í sjóð auðlindarinnar, ríkissjóð. En það var einmitt þannig að skatturinn sem lagt var til að yrði settur á var langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins og um það báru vitni allir umsagnaraðilar. Þrátt fyrir það datt fólki hér í hug, fólki sem stjórnar landinu okkar, að fara með málið í gegn. Menn lögðu það til og töluðu fyrir því hér í ræðustól unnvörpum, menn úr stjórnarliðinu. Auðvitað hefur þetta leitt til þess að mikill uggur er í þeim aðilum sem eru í útgerð, sérstaklega í litlu og meðalstóru útgerðunum. Við höfum heyrt af því og orðið vör við það að menn séu áhyggjufullir yfir því að eftir nokkurn tíma verði hér eingöngu örfáar stórar útgerðir til staðar.

Við Íslendingar höfum öll mikla hagsmuni af því að vel gangi í sjávarútveginum vegna þess að þetta er grundvallaratvinnugrein okkar. Ef sjávarútvegurinn verður fyrir áfalli verðum við öll, öll íslenska þjóðin, fyrir áfalli. Ég tel að sú skattheimta sem nú er komin á verði til þess til lengri tíma að draga úr tekjum ríkisins af sjávarútvegi og gera þar með lífskjör okkar allra verri.

Herra forseti. Ég tel að við eigum mikla kosti, við Íslendingar, og mikil tækifæri, sem felast helst í því að við eigum miklar auðlindir. Við eigum að nota þá staðreynd sem okkar helsta sóknartækifæri með því að halda rétt á spilunum, með því að nýta auðlindirnar okkar skynsamlega og leyfa því harðduglega fólki, því fólki sem hefur mest vit á því hvernig við náum mestum arði út úr greininni, að vinna í friði og vinna í öruggu starfsumhverfi.

Nú stendur til að fara í einhverja endalausa potta, færa ráðstöfun fjármuna inn í einhverjar óskilgreindar nefndir sem ráðherra hefur öll tök á að handstýra hvernig sem honum svo sýnist og á óskiljanlegan máta. Það er ekki einu sinni ljóst hvert þeir fjármunir eiga að renna, til hverra. Það er algjörlega látið í hendur ráðherra eftir því sem mér skilst á þessum málatilbúnaði. Ég get einfaldlega ekki, herra forseti, verið sammála þessum vinnubrögðum eða þessari stefnu.

Þegar lagðar eru fram tillögur þar sem boðaðar eru viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu ber okkur skylda til að fara vel yfir málið. Mér er alveg sama, herra forseti, þó að ríkisstjórnin hafi rætt þetta á fjölmörgum fundum í meirihlutasamskiptum sínum og verið að gera einhverjar málamiðlanir. Okkur sem störfum á Alþingi ber að horfa á hlutina með gagnrýnum hætti, ræða málin, vinna þau í nefnd og reyna að laga það sem við teljum að sé ekki hagsmunum heildarinnar til góða. Það með hvaða hætti stjórn fiskveiða verður háttað til lengri tíma má ekki ráðast af því að menn í stjórnarsamstarfi séu að reyna að lengja í lífdögum þeirrar ríkisstjórnar.

Ég held því fram, herra forseti, að frumvarpið sé lagt fram mjög seint vegna þess að í stjórnarliðinu hafi menn ekki verið sammála. Nú hafa menn loksins pundað þessu frá sér vegna þess að þeir hafa náð að tala sig niður á einhverja málamiðlun í stað þess að reyna að finna bestu leiðina fyrir grundvallaratvinnugrein okkar. Ég vorkenni mönnum ekkert að þurfa að standa hér og standa fyrir máli sínu. Ég vorkenni mönnum ekkert að þurfa að vera í umræðum um þetta mál og ég skil ekki þá sem hafa haldið því fram að ekki þurfi að ræða málið. Auðvitað þarf að ræða málið. Það þarf að senda það til umsagnar og ítarleg vinna þarf að fara fram í nefndum.

Ég vonast til þess, herra forseti, eins og ég ítrekaði í fyrri hluta ræðu minnar, að ég fái einhver svör við því, útskýringar á þessari 19. gr. með tilliti til bráðabirgðaákvæðis V.



[17:40]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar ræðu. Mig langar að ræða aðeins betur við hana um nokkuð sem hún fullyrti í sínu máli, þ.e. að Evrópusambandið væri mjög að horfa til Íslands og þess kvótakerfis sem nú er við lýði varðandi sína fiskveiðistefnu. Þetta held ég að sé mýta sem hver endurtekur eftir öðrum samt sem áður.

En í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, sem er undir stöðugri endurskoðun og er verið að endurskoða núna, í þeim punktum sem fram hafa komið í þeirri stefnu, er eitt af því sem sambandið hefur verulegan áhuga á að breyta er úthlutun aflaheimilda og miða til dæmis við 15 ára úthlutunartíma líkt og verið er að leggja til í þessu umdeilda frumvarpi. Þar hefur líka verið sett fram sú stefna að líta á fiskveiðiauðlindina sem sameiginlega auðlind á svæðinu öllu sem sameiginlega arfleifð sem eigi að nýtast til sameiginlegra hagsbóta fyrir samfélög á þessum svæðum — jafna aðgengi að miðunum hjá aðildarlöndunum og markmiðið það sama og landbúnaðarstefnunnar, þ.e. að auka framleiðni og tryggja starfsfólki í greininni sanngjörn lífskjör. Þar kemur einnig mjög skýrt fram að mikilvægi sjávarútvegsins felist ekki aðeins í arðsemi innan greinarinnar heldur líka í líffræðilegum, hagfræðilegum og félagslegum þáttum. Þetta var ég nú bara að lesa núna á heimasíðu sambandsins á meðan þingmaðurinn talaði.

Mér þætti fróðlegt að vita hverju þingmaðurinn svarar því á hvern hátt hún telur (Forseti hringir.) að Evrópusambandið sé að horfa til núverandi kvótakerfis í ljósi þeirra stefnumiða sem (Forseti hringir.) sambandið hefur sjálft kynnt opinberlega.



[17:43]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Evrópusambandið er viðamikið batterí sem tekur sér mörg ár í að breyta stefnu sinni, þar á meðal fiskveiðistefnu sinni. Þetta er eitt af þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram í umræðunni og má lesa um á heimasíðu Evrópusambandsins þótt ég hafi ekki náð að fletta því upp eins og hv. þingmaður á meðan hún talaði. En það er stór munur á því hvernig Evrópusambandið horfir til sjávarútvegs og hvernig við höfum byggt upp okkar kerfi. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Ég tel að við eigum bara að vera stolt af því. Ég tel að við eigum að leyfa okkur að vera ánægð og njóta þess að vera ábyrg fiskveiðiþjóð. Við erum fyrirmynd annarra á þessu sviði. Ég er stolt af því. Við erum stór fiskveiðiþjóð. Við erum bara 300 þúsund í þessu landi. Við erum 19. stærsta fiskveiðiþjóð í heimi. Við höfum ákveðna sérstöðu. Við höfum önnur sjónarmið uppi en Evrópusambandið.

Ég er ekki ein af þeim sem stóðu að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að við eigum ekki erindi þar inn. Ég tel hagsmunum okkar betur borgið, sérstaklega með tilliti til auðlinda okkar, utan Evrópusambandsins en innan. Ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður er á annarri skoðun og fylgist örugglega með því dag frá degi hvernig umræðum þar varðandi sjávarútvegsmálin er háttað. En ég er einfaldlega á þeirri skoðun að við höfum þessa sérstöðu í krafti þess að við erum stór fiskveiðiþjóð og að við rekum hér sjálfbæra atvinnugrein sem skilar hagnaði án ríkisstyrkja.



[17:44]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, við erum stór fiskveiðiþjóð. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í okkar samfélagi, ekki bara vegna veiða og vinnslu heldur vegna alls sem af þessari atvinnugrein er sprottið í formi annarra starfa. Við eigum auðvitað að vera stolt af okkar undirstöðuatvinnuvegi og skapa honum sem best rekstrarskilyrði. Um þetta erum við sammála.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins miðar að sjálfbærni. Hún miðar að samfélagslegum þáttum. Hún miðar að svo mörgu því sem við erum einmitt að taka upp í fiskveiðistefnu okkar, Íslendingar. Það er vel. En það er langur vegur frá því að sú fiskveiðistefna sem hægt er að lesa á netsíðum Evrópusambandsins sé einhver eftiröpun á núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hér á Íslandi. Það er langur vegur frá því að þeir séu að stefna að því að ná inn í sína fiskveiðistefnu einhverri eftirlíkingu af því sem er við lýði í óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga.

Við erum þvert á móti, líkt og þeir og allar ábyrgar þjóðir, að skoða starfsumhverfið í þessari stóru og veigamiklu grein. [Hávaði í þingsal.] Við lítum til samfélagslegra þátta og mikilvægis þessara greina fyrir byggðir landsins, eflingar atvinnu og svo margra þátta sem skipta máli umfram arðsemi greinarinnar sjálfrar. Það sýnist mér Evrópusambandið líka vera að gera, en það er ekki bundið við það kerfi sem við búum við í dag eða þær aðferðir sem þar eru viðhafðar.



[17:46]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti biður hv. þingmenn í hliðarsal að hafa hljóð.



[17:47]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Þeir sem helst hafa notað þessar röksemdir í umræðunni, um að Evrópusambandið sé nú að líta til þess að taka upp okkar fiskveiðistjórnarkerfi, eru þeir sem eru að reyna að sannfæra fólk sem hefur atvinnu og hagsmuni af því að sjávarútvegurinn gangi vel um að Evrópusambandið sé á leiðinni í þessa átt. Þannig hefur verið talað á fundum í mínu kjördæmi. Það er einfaldlega þannig.

Nú er það upplýst af helsta talsmanni Samfylkingarinnar, af Evrópusinna hér í þinginu, helsta talsmanni Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, að þetta er ekki rétt. Það er gott að það innlegg er komið inn í umræðuna. Ég fullvissa hér með alla þá sem eru á móti því að við göngum í Evrópusambandið um að það er ekki rétt að Evrópusambandið sé að reyna að nálgast okkur í fiskveiðistjórnarmálum. Þá er það hér með upplýst og það er fínt.



[17:48]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn vil ég gera athugasemd við það hvað þetta frumvarp er seint fram komið og hve lítill tími gefst fyrir Alþingi að fara í gegnum þær breytingar sem gerðar hafa verið sem og frumvarpið sjálft. Við höfum reyndar farið í gegnum það síðastliðið vor og sumar því að það er að einhverju leyti óbreytt en að sumu leyti breytt.

Frumvarpið gengur væntanlega til nefndar. Nú veit ég ekki hvort menn ætla sér að senda það til umsagnar en það gefst ekki langur tími til umsagnar vegna þess að það eru ekki nema 15 dagar eftir. Mér finnst það eiginlega vera hálfgerð móðgun við hv. Alþingi að leggja frumvarpið svona seint fram, ef meiningin er að afgreiða það yfirleitt. Ég hef grun um að svo sé ekki, það sé meira sett fram til sýnis og til að friðþægja ákveðna hv. stjórnarliða. Ég geri athugasemd við þetta og við það hve stuttur tími vinnst til að ræða þetta mál sem skiptir þessa stærstu atvinnugrein landsins, að minnsta kosti stærstu útflutningsgrein landsins, verulegu máli. Þetta eykur enn á þá óvissu sem hún hefur mátt búa við æðilengi.

Ég ætla að byrja á því að ræða um auðlindir því að það er mikið rætt um þær. Næst á dagskrá er umræða um nýja stjórnarskrá, eitt stykki nýja stjórnarskrá, og þar er líka rætt um auðlindir. Það er svo merkilegt að þær auðlindir sem menn helst horfa til, sjávarútvegurinn og að einhverju leyti orkan, eru auðlindir sem voru ekki auðlindir fyrir ekki svo löngu. Það er bara tiltölulega stutt síðan þær urðu auðlindir. Sjávarútvegurinn var ekki auðlind, herra forseti, lengst framan af. Í gegnum Íslandssöguna hefur hann kostað fjölda mannslífa á hverju einasta ári. Það kalla ég ekki auðlind þar sem fólki er fórnað til að ná fiskinum í land. Enda var íslenska þjóðin ein sú fátækasta í Evrópu þrátt fyrir þessa svokölluðu auðlind. Útvegurinn varð ekki auðlind fyrr en aðgangurinn var takmarkaður. Þá fyrst varð hann auðlind. Af hverju var aðgangurinn takmarkaður? Vegna þess að með mannauði og mannviti voru byggð sífellt öruggari og tryggari skip sem gátu sótt fiskinn lengra og lengra og á ódýrari hátt, með minni mannskap o.s.frv. Takmarka þurfti aðganginn vegna þess að annars hefði verið hætta á því að mannauðurinn, á þessum góðu skipum, hefði veitt upp allan fiskinn.

Mannauðurinn býr til auðlindina. Hið sama má segja um fallvötnin og orkuna í þeim, svo maður tali ekki um jarðhitann þar sem Íslendingar standa einmitt mjög framarlega hvað mannauðinn varðar. Allar þessar auðlindir voru ekki auðlindir fyrir 50–100 árum eða svo. Þá voru fallvötnin til bölvunar í hverri sveit, það var mikið mál að komast yfir þau, þau einangruðu sveitirnar og voru alls ekkert auðlind.

Það er svo merkilegt að þær auðlindir sem menn segja að þjóðin eigi byggja á mannauði. Þá er spurningin: Hver er eiginlega hlutur mannauðsins í því að skapa auðlindina? Getur verið að mannauðurinn eigi meira í auðlindinni en þjóðin? Þetta eru spurningar sem vakna.

Síðan koma náttúrlega stóru spurningarnar. Hvað er þjóð? Mér sýnist að mjög margir og þeir sem hafa samið þetta frumvarp líti á þjóðina sem ríkið. Hverjir stjórna ríkinu? Það eru stjórnmálamenn og fyrst og fremst ráðherrar og ríkisstjórn. Þeir nota í rauninni hugtakið „þjóð“ til að galdra þessa auðlind undir ráðherra. Það er svo sem þekkt í mörgum ríkjum að menn hafa notað þetta hugtak til að sölsa undir ríkið alls konar eignir. Það stendur meira að segja í 2. gr. frumvarpsins að ráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Það er því alveg á tæru að það er ráðherrann fyrir hönd ríkisins sem fer með þessa auðlind, fyrir hönd þjóðarinnar. Þannig að ég held að menn þurfi að hafa þetta mjög í huga.

Ég hef flutt frumvarp um að aflahlutdeildum verði dreift á alla þjóðina. Þar sem þeim er dreift á alla þjóðina getur maður haft um þær algjörlega frjálst framsal og frjálst eignarhald. Þá eru þær ekkert bundnar við skip eða útgerð eða nokkurn skapaðan hlut, menn eiga bara hlutdeild í afla þjóðarinnar þegar búið er að dreifa hlutdeildum á þjóðina. Þá myndast algjörlega frjáls markaður. Það vill svo til að sumir hv. þingmenn eru hallir undir markaðskerfi og hv. þm. Mörður Árnason, þegar maður hlustaði á ræðu hans, var eiginlega nokkuð hrifinn af markaðskerfi. Ég held að það séu þó nokkuð margir hv. þingmenn á Alþingi sem trúa á markaðskerfið, t.d. til að ákvarða verð á brauði eða smjöri eða einhverju slíku. Þeim dettur ekki í hug að láta ráðherra ákveða verðið eins og verið að gera í báðum þeim frumvörpum sem fjalla um sjávarútveginn, frumvarpi um stjórn fiskveiða og veiðigjaldafrumvarpinu sem búið er að samþykkja sem lög, þar ákveður meira að segja ráðherra og Alþingi ávöxtunarkröfu fyrir sjávarútveginn, burt séð frá öllu öðru.

Í greinargerð um frumvarpið er mikið rætt um aflamark og sóknarmark. Það er eiginlega farið í gegnum það að tilraunir með sóknarmark, svo sem skrapdagakerfið og fleiri tilraunir eins og strandveiðarnar sem eru sóknarmark, eru eiginlega dæmdar til þess að mistakast vegna þess að tíminn sem menn fá til að veiða styttist alltaf og menn veiða alltaf hraðar og hraðar. Svo er náttúrlega alltaf stórhætta á því að menn flytji afla á milli skipa úti á miðunum í þoku, að aflamarksskip moki aflanum yfir í sóknarmarksskip úti á miðunum. Þá þarf að hafa eftirlit með því líka. Það er sem sagt ákveðin áhætta í þessu fólgin. Ég er ansi hræddur um að sú tilraun sem verið er að gera með strandveiðarnar sé fyrir fram dæmd til að mistakast, en menn halda samt áfram með hana.

Þegar frumvarpið er lesið kemur í ljós að þetta kerfi minnir óhuggulega mikið á sovétkerfi. Við höfum lesið um atvinnugreinar í Sovétríkjunum hinum fornu sem sem betur fer eru nú aflögð. Það var ákveðin hagfræðileg tilraun sem stóð yfir í 70 ár og kostaði tugi milljóna manna lífið. Þar var öllu stjórnað ofan frá. Ákveðið var á einhverjum skrifborðum hvað tonnið af kolum ætti að kosta mikið og þarna ætti að búa til stál o.s.frv. Því var öllu stjórnað ofan frá. Það var enginn markaður og kostnaðurinn kom ekkert inn í málið

Hér er verið að gera nákvæmlega það sama. Það er verið að stýra öllu ofan frá. Það er ákveðið hvað eigi að veiða mikið. Ráðherra gerir þetta og ráðherra ákveður hitt. Það á að styrkja einhverjar byggðir og burt séð frá því hvort skynsamlegt sé að veiða þar fisk eða ekki skal veiddur fiskur þar. Síðan er verðmæti tegunda ákveðið með þorskígildum, það er ákveðið að ufsi sé svo og svo mörg þorskígildi og loðna o.s.frv. Það leiðir til þess að þegar veiðigjaldið er lagt á borgar sig hreinlega ekki að veiða t.d. gulllax af því að hann gefur svo lítið af sér. Menn eru búnir að ákveða við skrifborðin að þeir sem veiða gulllax skuli borga svo og svo mikið á hvert kíló, en arðsemin er bara engin. Ef þetta gengur eftir hætta menn að veiða gulllax við Ísland. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra komi fljótlega með frumvarp um að breyta þessu þannig að það borgi sig aftur að veiða gulllax. Í þessa stöðu erum við komin. Við erum komin í þá stöðu að hér verða gerðar sífelldar breytingar til að mismuna og lagfæra.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á og býsnaðist yfir því að veiðileyfagjaldið væri miklu lægra á loðnu miðað við afkomu en á þorsk. Það segir mér að þorskígildistonnið fyrir loðnuna er of lágt og borgað er of lágt veiðigjald af henni. Þetta mun hæstv. ráðherra eflaust leiðrétta fljótlega, það kemur breytingartillaga um að þetta skuli leiðrétt. Þetta sýnir okkur hvað það er rangt og vitlaust að vera með kerfi sem er stýrt ofan frá.

Ég held að menn ættu að skoða miklu nánar hugmynd mína um að dreifa kvótanum á þjóðina því að þar er allt byggt á markaði. Ég er nærri viss um að ef útgerðarmenn skoðuðu það frumvarp og sæju hvað er búið að taka af þeim í fortíðinni frá því aflamarkskerfið var tekið upp 1984 og hvað er tekið af þeim með þessu frumvarpi í viðbót — það eru teknar af þeim stórar aflahlutdeildir — sæju þeir að það er betra að hafa veiðiheimildirnar í 40 ár eins og ég gerði ráð fyrir og fá algjörlega frjálst kerfi með öllum þeim markaði sem fylgir; markaði fyrir gulllax, veiðiheimildir, markaði fyrir þorskveiðiheimildir, markaði sem tekur mið af afkomu og sölumöguleikum í útlöndum, þ.e. ef verðið hækkar í útlöndum hækkar verðið á aflahlutdeildum. Ef menn sjá fram á að verðið muni lækka, eins og menn óttast núna, lækkar verðið. Það gerist ekki í því kerfi sem við erum að tala um hér. Það er allt saman stíft. Það gerist ekki fyrr en eftir tvö, þrjú ár að veiðileyfagjaldið lækkar og þá getur það hugsanlega verið of seint. Ég geri því ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni líka leggja til breytingar á þessu ef stefnir í óefni vegna lækkandi verðs á mörkuðum.

Ég gleymdi að segja varðandi mannauðinn og auðlindina að stór hluti af verðmæti auðlindarinnar í sjávarútvegsgreinum, sem og í orkunni, kemur til vegna þess að mannauðurinn býr til sífellt verðmeiri vöru úr þeim afla sem veiðist ásamt með góðri markaðssetningu.

Ég ætla að fara í gegnum nokkur af þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi segir í 8. gr. að það eigi að hafa tvo flokka. Að sjálfsögðu. Annar er flokkur sem einkaaðilar mega fara með og hinn er flokkur sem ráðherrann og ríkisvaldið fer með. Svo er sagt að ef heildarafli þorsks fer yfir 240 þús. tonn eigi að taka helminginn af því sem umfram er inn í ríkispottinn, en hitt megi góðfúslega vera áfram í einkapottinum, þ.e. í þau 20 ár sem eru eftir. Af hverju bara þorski? Af hverju ekki í öðrum tegundum eins og makríl eða loðnu? Það er mér gjörsamlega hulið. Hvers vegna á að taka sérstaklega fyrir útgerðir sem eru í þorski?

Það næsta sem maður rekur augun í eru 20 árin sem útgerðin fær náðarsamlegast að veiða. Það er ekki orð um það eða nein vísan í það hvað gerist eftir 20 ár. Ég hef tekið eftir því með tímann að hann líður alltaf í eina átt. Bráðum verða tíu ár eftir, svo verða eftir tvö ár og þá veit enginn hvað á að gera. Reyndar stendur í síðustu málsgrein 11. gr. að ráðherra skuli eigi síðar en í desember 2016 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum þessum. Við hv. þingmenn, löggjafinn, erum að leggja til lög sem skylda framkvæmdarvaldið til að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi. Löggjafinn er að gefast upp á því að semja sjálfur frumvarp, það er ráðherra sem á að koma með frumvarp 2016 og í því verður væntanlega tekið á því hvað gerist eftir 20 ár. Þannig að fyrir árið 2016 veit útgerðin kannski hvað gerist eftir 20 ár. Þá verða fjögur ár liðin og þá eru 16 ár eftir.

Þetta er dæmigert fyrir þær sveiflur og þá óvissu sem útgerðin þarf að búa við.

Í 13. gr. eru alls konar ákvæði um forgangsrétt á aflahlutdeildum. Þar stendur að ef menn selja eða framselja veiðiheimildir sem eru umfram 20% frá ákveðnu byggðarlagi, skuli Fiskistofa tilkynna það til ráðherra sem er heimilt að grípa inn í með forkaupsrétti.

Nú kemur spurningin um jafnræði. Einn selur upp að 19%, svo kemur næsti og ætlar að selja og af því hann er seinni skal hann hlíta þessu með forkaupsréttinn.

En því miður, herra forseti, er ég bara rétt að byrja og óska eftir því að verða settur á mælendaskrá aftur.



[18:03]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Þetta er auðvitað yfirgripsmikið frumvarp og ekkert skrýtið að menn komist ekki í gegnum það á 15 mínútum. Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um og mér fannst hann koma svolítið inn á er að ekki væri gætt mikils jafnræðis. Menn hafa talað um tilganginn fyrir því að leggja fram þessi frumvörp. Þetta er fjórða frumvarp ríkisstjórnarinnar, reyndar það þriðja sem kemur inn en þetta er í það minnsta fjórða tilraunin á þessu kjörtímabili. Maður skyldi ætla að í lok kjörtímabilsins væru menn búnir að finna allar leiðir til að sníða vankanta af og loka öllum götum. Í þessu síðasta frumvarpi er lagt til að nýtingarsamningar verði til 20 ára, eftir það verður alger óvissa. Hvað telur þingmaðurinn að slík óvissa geti þýtt fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna? Tekur hann undir það með mér að í því felist slík óvissa að enn og aftur þurfi að fá sérfræðinga til þess að leggja mat á hvað þetta þýði?

Ég vil einnig spyrja og þá hugsanlega út í stefnu Sjálfstæðisflokksins er varðar byggðaþáttinn því að ævinlega hefur verið talað um hann og gegnumgangandi málflutningur stjórnarliða, í það minnsta, hefur verið sá að þeir séu alltaf að reyna að bæta í og styrkja byggðir með því að taka af einum og öðrum og deila síðan út með pólitísku valdi hingað og þangað. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé hlynntur þessum aðgerðum eða hvort hann telji, eins og við framsóknarmenn, að fara eigi í aðrar aðgerðir og treysta ekki á að greinin sjálf geti byggt upp landsbyggðina heldur þurfi að stækka (Forseti hringir.) atvinnusvæðin með því að nýta það fjármagn sem kemur inn með veiðigjöldum og (Forseti hringir.) með öðrum hætti til atvinnuuppbyggingar í öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi … (Forseti hringir.)



[18:05]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni. Ég tel að þetta frumvarp geti unnið gegn ákveðinni þróun. Það er nefnilega þannig, eins og með aðrar atvinnugreinar, að sjávarútvegurinn þarf ákveðinn mannauð, hann þarf ákveðið svigrúm, hann þarf flutningsleiðir og annað slíkt og það getur verið að einhverjir staðir henti bara ekki lengur til sjávarútvegs en sjávarútvegurinn skal samt stundaður þar samkvæmt frumvarpinu.

Ég var ekki byrjaður að fara í gegnum allt varðandi línuívilnun, krókaaflamark, strandveiðar o.s.frv., ég komst ekki svo langt, en ég er á móti öllu slíku þar sem er verið að þrýsta atvinnugreinum upp á menn eða reyna að halda lífi í atvinnugrein sem hugsanlega á sér ekki rétt og ætti að vera annars staðar. Ég er miklu hlynntari því að ef menn vilja byggja upp atvinnugreinar á vissum stöðum þá geti þeir farið aðrar leiðir. Það getur verið að önnur atvinnugrein, ferðaþjónusta, stangveiðar eða annað, henti betur en útgerð á vissum stöðum og þá á bara að leyfa það og styrkja það með beinum hætti ef menn telja það nauðsynlegt eða með skattaívilnun eða öðru slíku en ekki með því að neyða menn til að veiða fisk endilega á því svæði eða stunda hefðbundna útgerð. Ég tek undir það.

Varðandi óvissuna sem útgerðin býr við vil ég minna á bráðabirgðaákvæði VIII sem gerir ráð fyrir því að 21 þús. tonn verði tekin 2012/2013 og upp í 45 þús. tonn 2015/2016. Það er ekki verið að gera neitt annað en taka af þeim sem stunda útgerð í dag, þeirra hlutdeild er minnkuð. Þetta er enn eitt dæmið um þá óvissu sem útgerðin býr við.



[18:07]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég ætla að halda aðeins áfram að fá skoðun þingmannsins fram og þá hugsanlega stefnu Sjálfstæðisflokksins í því hvernig menn sjá fyrir sér að styrkja þessar byggðir. Þingmaðurinn sagði að það mætti meðal annars gera með skattaívilnunum. Er þá hv. þingmaður að meina að fara einhverja leið álíka norsku byggðastefnunni þar sem menn nota gjarnan skattaívilnanir til að koma til móts við þau svæði þar sem hið opinbera getur ekki veitt sambærilega þjónustu og í þéttbýli? Einnig nefndi þingmaðurinn að það mætti styrkja byggðir með beinum framlögum. Þá verður maður auðvitað að spyrja: Hvaðan eiga þeir fjármunir að koma?

Þegar við framsóknarmenn ræddum hérna um veiðigjöldin — við vorum vissulega á móti þeim, hversu há þau eru, ósanngjörn og aðferðafræðinni sem er notuð við að leggja þau á, sem er galin — þá töluðum við um að í okkar stefnu væri skynsamlegt að þessi gjöld færu að hluta til til greinarinnar sjálfrar, í markaðssetningu, í rannsóknir, hafrannsóknir og annað í þeim dúr og nýsköpun þar sem menn væru að auka verðmæti og hjálpa til við það. Eins færi hluti til byggðarlaganna, kannski ekkert ósvipað og kemur fram í frumvarpinu. Ef við hefðum lagt slíkt frumvarp fram eftir fjögurra ára setu í ríkisstjórn hefðum við náttúrlega verið búnir að ganga frá því með hvaða hætti það yrði gert en í þessu frumvarpi, hvað varðar þær tekjur sem ríkið fær af leigutekjum á kvótaþingi, virðist það vera alveg galopið og er gagnrýnt harðlega, reyndar í frumvarpinu.

Það væri áhugavert að heyra skoðun hv. þingmanns á því og nákvæmar hvernig menn kæmu að því að styrkja hinar dreifðu byggðir vegna þess að, eins og Þóroddur Bjarnason prófessor (Forseti hringir.) hefur sagt, öllum byggðunum verður ekki haldið uppi með veiðum og (Forseti hringir.) vinnslu. Það er augljóst, auðlindin er takmörkuð.



[18:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skemmtilegt að við séum einmitt að ræða þetta mál núna því að næsta mál á dagskrá er stjórnarskráin og þar er til dæmis verið að ræða um jafnt atkvæðavægi milli íbúa landsins. Flestir eru hlynntir því, en inn í það kemur nefnilega byggðasjónarmið. Menn segja að ríkisvaldið hafi byggst upp í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og að íbúar landsins þurfi að sækja þjónustu til Reykjavíkur með miklum kostnaði og búa meira að segja við skerta þjónustu. Ég get alveg séð fyrir mér að til þess að gæta jafnræðis milli borgaranna yrði annaðhvort ríkisvaldið hreinlega flutt út á land, eins og menn hafa svo sem lengi reynt, eða fólki tryggður jafnmikill kostnaður og fólki sem býr í Reykjavík, þ.e. menn yrðu hreinlega styrktir til að sækja þá þjónustu sem er í Reykjavík með þeim formerkjum að atkvæðavægi hefði verið jafnað.

Ég held að það að þvinga einhvern veginn ákveðinni atvinnustarfsemi upp á tiltekna staði sé mjög slæmt. Eins og hv. þingmaður nefndi er vonlaust að reyna að hafa veiðar og vinnslu á hverjum einasta stað þar sem það hefur verið áður. Það hafa ákveðnar eðlilegar breytingar verið í gangi.

Svo vil ég minna á, talandi um mína sýn, að ég hef lagt fram frumvarp til skoðunar sem byggir á því að dreifa öllum veiðiheimildum á þjóðina, hvern einasta íbúa, að það verði algjör markaðsvæðing. Það er mín sýn og ég vildi gjarnan að menn skoðuðu það miklu nánar því að ég er nærri viss um að eftir þá hörmungarferð sem sjávarútvegurinn hefur upplifað síðustu 30 ár — það er búið að vera stöðugt stríð um eignarhald á kvótanum — að menn yrðu miklu betur settir með því að afskrifa um 2–2,5% á ári (Forseti hringir.) og hafa algjöra markaðsvæðingu.



[18:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða á þessu kjörtímabili. Þetta er víst þriðja frumvarpið sem núverandi ríkisstjórn leggur fram og eins og komið hefur fram í umræðunni virðist nú ekki mikill lærdómur hafa verið dreginn af fyrri hrakförum í þessum efnum.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni að þetta frumvarp sé þjóðarsátt, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hélt því fram að þetta væri tilraun til þess að slökkva ófriðarbálið. Ég óska eftir því að það verði betur útskýrt fyrir mér vegna þess að ég sé það ekki alveg. Mér finnst líka ákveðin þversögn hafa komið fram í umræðunni í dag. Því er haldið fram að frumvarpið þurfi ekki langan tíma vegna þess að ekki sé verið að leggja það fram fyrst núna 15 dögum fyrir þinglok, þetta sé frumvarp sem við eigum að gjörþekkja vegna þess að það hafi áður komið fram á þinginu og verið mikið rætt, en samt er þetta þjóðarsáttin.

Við vitum að hin frumvörpin sem rædd voru áður voru langt frá því að vera sáttafrumvörp. Ef þetta frumvarp á að fara í gegn á 15 dögum, fara til umsagnar, fara í vinnslu í nefndinni þannig að eitthvert mark sé á takandi, koma hér í 2. umr. á milli þess sem við breytum stjórnarskránni og semjum nýja og gerum allt hitt sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að gera, hlýtur að eiga að byggja á fyrri umsögnum, það hlýtur að vera fyrst frumvarpið þarf ekki svo langan tíma. Þá erum við komin í dálitla klípu vegna þess að umsagnir við fyrri frumvörp hafa ekki verið mjög í anda þess að hér sé verið að slökkva bál heldur þykja hin frumvörpin vera miklu frekar til þess fallin að kveikja elda hingað og þangað um samfélagið og er alls engin sátt í sjónmáli hvað varðar þennan grundvallaratvinnuveg okkar. Ég óska eftir að fá betri skýringar á því.

Hver er ætlunin með þetta frumvarp? Er það virkilega ætlun stjórnarflokkanna að klára það á þessu kjörtímabili, á þessu þingi? Einn helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Björn Valur Gíslason, segir í viðtali við Fiskifréttir þann 24. janúar að engin heildarlög um stjórn fiskveiða verði samþykkt í vor. Hann segir að sjávarútvegurinn sé lifandi grein í stöðugri þróun sem kalli á vandaða lagaumgjörð hverju sinni, að full þörf sé á því að setja nýja löggjöf um málaflokkinn og laga hann að þeim breytingum sem átt hafa sér stað í umhverfi greinarinnar.

Síðan segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ný heildarlög um stjórn fiskveiða verða hins vegar tæplega sett á yfirstandandi þingi. Það bíður betri tíma.“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann og samflokksmann hv. þm. Björns Vals Gíslasonar: Hvort er nú rétt? Ég var því miður ekki hér í gær þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu þannig að ég gat ekki farið í umræður við hann um málið. En mér þykir margt hafa gerst frá því að þetta var sagt 24. janúar og svo kemur frumvarpið fram 31. janúar, þá er því útbýtt hér og kemur til umræðu 11. febrúar. Í dag er 12. febrúar og 15 þingdagar eftir. Mér þykir ólíklegt miðað við reynslu mína af málflutningi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar — venjulega tala þeir í takt þannig að mér þætti fróðlegt að vita hver ætlunin er með frumvarpið. Nefnt var í umræðunni fyrr í dag hvort þetta gæti verið pólitískt leikrit sem verið væri að setja hér upp, að koma með nýtt frumvarp inn í kosningabaráttuna, í aðdraganda kosninga og kenna okkur, íhaldinu, eina ferðina enn um að ekki náist fram þetta markmið ríkisstjórnarflokkanna. Getur það verið? Er þetta sjónarspil eða halda menn virkilega að þeir geti náð frumvarpinu í gegn?

Það er ekki margt breytt í þessu frumvarpi frá því sem áður var. Þó eru einhver einstök ákvæði tekin út eins og einhver skerðingarákvæði, 3%-ákvæðið og einhver önnur ákvæði sem voru í fyrri frumvörpum, en heildarhugsunin er enn sú sama og það er heildarhugsunin og heildarhugmyndafræðin sem hefur fengið falleinkunnina hingað til.

Síðan er það umhugsunarefni að eina ferðina enn skuli hæstv. ríkisstjórn leggja fram frumvarp sem er gjörsamlega þannig að ekki er búið að meta áhrifin af því í krónum og aurum á fyrirtækin í landinu. Hvernig munu fyrirtækin í landinu standa betur að vígi eftir þetta? Í markmiðsgreininni, 1. gr., segir að sjávarútvegurinn eigi að vera arðsamur og búa við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Hvar sér þess stað í þessu frumvarpi? Ég sé ekki betur en að kostnaðarmatið sem fylgir hafi með engum hætti tekið á þeim þætti. Reyndar fer kostnaðarmatið meira og minna í það að gagnrýna þær fyrirætlanir að deila tekjunum til sveitarfélaganna, ríkisins og í þróunarsjóð. Þar kemur upp sú gamalkunna rimma á milli ríkisstjórnarinnar og fjárlagaskrifstofunnar og fjárlaganefndarinnar í rauninni líka, sem vill minnka markaða tekjustofna og láta tekjur ríkisins renna í ríkissjóð. Hún vill taka um það pólitíska ákvörðun um hvernig verja skuli tekjum ríkissjóðs. Kostnaðarmatið fer nánast allt saman í það þannig að ég get ekki séð að búið sé að reikna út áhrifin á fyrirtækin.

Annað sem ég mundi gjarnan vilja sjá reiknað út er: Hvernig spilar frumvarpið við lögin um veiðigjaldið, sem eru ein og sér að drepa sjávarútveginn á mörgum stöðum á landinu, sérstaklega lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki? Við höfum þegar séð slæmar afleiðingar þess víða um land, í Þorlákshöfn, svo ég nefni nærtækt dæmi, og á fleiri stöðum þar sem menn hafa beinlínis þurft að grípa til uppsagna vegna veiðigjaldsins. Hvernig spila þessi tvö frumvörp saman og hver eru áhrif þeirra á einstök fyrirtæki? Halda menn virkilega að hægt verði að reikna það út á þeim 15 dögum sem eftir lifa af þessu þingi, eins flókið og það er?

Ég vil taka sérstaklega til máls um þær heimildir sem ráðherra eru veittar í þessu. Þetta er óútfylltur tékki. Ráðherra er nefndur a.m.k. 66 sinnum í þessu frumvarpi. Ég gafst upp á að telja en 66 sinnum er ráðherra nefndur á nafn bara í frumvarpinu, ekki í greinargerðinni. Ráðherra getur sett reglugerðir, ráðherra getur með reglugerð sett, ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna, ráðherra er heimilt í reglugerð, ráðherra er heimilt að ráðstafa. Svona er ráðherra gert heimilt 66 sinnum a.m.k. í þessu frumvarpi að gera hitt og þetta sem ég leyfi mér að fullyrða að ekki er búið að skoða afleiðingarnar af vegna þess að við vitum ekki hvað ráðherra ætlar að gera. Við vitum bara ekkert hvað ráðherra ætlar að gera og það verður væntanlega ekki núverandi ráðherra vegna þess að hans tíma fer að ljúka. Vonandi verða niðurstöður kosninga þannig að tíma hans í því ágæta ráðuneyti sé lokið a.m.k. að sinni. Ég ætla ekki að koma með frekari spádóma um það.

Síðan eru náttúrlega endalaus nefndastörf, það eru nefndir sem ráðherra skal setja á fót með Samtökum sveitarfélaga og hagsmunaaðilum og nefnd með fulltrúum þingflokka. Þetta frumvarp er náttúrlega bara brandari, það er algjör brandari. Hvernig á með nokkru móti að vera hægt að ímynda sér að það verði klárað á þessu þingi? Og að voga sér að segja að það sé í anda þjóðarsáttar, að voga sér að segja að þarna sé verið að slökkva einhver ófriðarbál. Ég held að það sé frekar þannig að menn standi hér með kveikjara sem nýbúið er að fylla á, enda sagði hv. þm. Björn Valur Gíslason þann 24. janúar að það yrðu tæplega sett ný kvótalög fyrir kosningar.

Þá verð ég bara að fá að spyrja hreinskilnislega: Hvað erum við að gera hérna? Af hverju erum við ekki að ræða stóru, brýnu málin sem skipta okkur öll miklu máli? (LRM: Stjórnarskrána.) Stjórnarskráin skiptir máli en breytingar á stjórnarskrá í fullkomnu ósætti er ekki brýnasta eða mest aðkallandi verkefni dagsins í dag. Það er þvert á móti, eins og nýjustu dæmin sanna og nýjustu umsagnir, ekki okkar í Sjálfstæðisflokknum, ekki þeirra í Framsóknarflokknum heldur sérfræðinga sem sérvaldir eru af ríkisstjórnarflokkunum utan úr heimi. Þeir koma með ábendingar og tilmæli um það í dag sem við erum að fara yfir.

Ég get alveg leyft mér að fullyrða að það litla sem ég hef lesið af því segir mér á mjög kurteisan, diplómatískan hátt að þessi ágæta Feneyjanefnd gefur fyrirhuguðum breytingum falleinkunn, nákvæmlega eins og ég ætla að leyfa mér að segja um þetta frumvarp. Og að segja að frumvarpið sé í nafni þjóðarsáttar er skrumskæling á því fallega orði. Við eigum einmitt að leita sátta. Við eigum að leita sátta um hvaða verkefni eru brýn, áríðandi, aðkallandi og fullkomlega nauðsynleg. Það er m.a. að koma atvinnulífinu í gang og vega ekki að því með því að færa fjármuni frá einum til annars, sem er ekki gert til þess að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi, eins og stendur í 1. gr. Nei, það er til þess að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir geti setið og hugsað: Já, ókei, nú ætla ég að færa á milli, færa frá þessum til þessa vegna þess að mér þykir jafnræði vera fólgið í því. Það er bara ekki þannig.

Ég spyr, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði fyrr í dag varðandi sveitarfélögin: Hver á að ákveða hvaða sveitarfélög fá hvað? Eru sveitarfélög eins og Hveragerði, það góða og flotta sveitarfélag en ekki mikið sjávarútvegspláss, ekki í þessum potti? Er sveitarfélag eins og Reykjanesbær, sem hingað til hefur aldrei fengið úthlutaðan byggðakvóta, allt í einu komið í pottinn og á að fá einhverja peninga sem verið er að færa til? Hvernig á að útfæra það?

Æi já, það var þannig að ráðherra ætlaði að skipa nefnd með sveitarfélögunum. Af hverju í ósköpunum var þessi nefnd ekki bara skipuð fyrir fram þannig að menn vissu að hverju þeir gengju? Þið eruð búin að hafa fjögur ár, virðulegi forseti. Fjögur ár er ríkisstjórnin búin að hafa til að koma draumakerfinu sínu á og 15 dögum fyrir þinglok er ráðherra a.m.k. 66 sinnum veitt heimild að gera hitt og þetta, algjörlega óútfært, engin tilraun er gerð til þess að meta áhrifin af því. Nei, herra forseti, þetta frumvarp er eins fjarri því að vera þjóðarsátt og nokkur möguleiki er á og er ekki til þess fallið slökkva ófriðarbál heldur verður það til þess að tendra bálið og fýra upp í því sem aldrei fyrr.



[18:27]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hér og bregðast við ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talar um ófriðarbál. Mér sýnist nú að menn á þeim bænum séu ekki beint ósáttir við að halda því báli vel logandi. Ef sjálfstæðismenn telja að þeir verði áfram með eldspýturnar og kveiki í því báli verður svo að vera. Ég ætla rétt að vona að skynsamt fólk í þessu landi muni sjá hvers konar þjóðarsátt þetta frumvarp boðar.

Ef hv. þingmaður telur að frumvarpið sé einhver brandari er gott að það létti lund hennar með einhverjum hætti, þá er til einhvers unnið að vinna það. Hv. þingmaður talar um að við höfum haft fjögur ár. Ætli það sé nú ekki eitthvað til í því að þeir sem verja þetta kerfi, hagsmunaaðilar og aðrir þeim tengdir, með kjafti og klóm hafi ekki haft eitthvað um það að segja að við erum búin að vera svo langa tíma í þessu máli. Ætli við þekkjum ekki vel það fólk sem staðið hefur í lappirnar í málinu og barist fyrir því að breyta kerfinu. Við fengum umboð þjóðarinnar til þess að breyta því. (REÁ: Með meiri hluta á þingi?)

Við höfum þurft að berjast fyrir því og hagsmunaaðilar hafa beitt sér grimmilega og miskunnarlaust í málinu gegn breytingum. Ég held að þeir sem vilja í hjarta sínu breyta kerfinu hafi tækifæri núna. Ég tel að þarna sé rétt fram sáttarhönd, að þetta sé málamiðlun sem menn mega ekki hlaupa frá.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað segir hún um afleiðingarnar sem verða af því kvótakerfi sem við búum við núna fyrir byggðir í kjördæmi hennar, eins og t.d. Vestmannaeyjar þar sem sveitarfélagið þar horfði upp á að fyrirtæki var selt með aflaheimildum? Menn voru nú ekki par sáttir við þær afleiðingar kerfisins? Hvað segir hv. þingmaður við því? Á það bara að vera svona? Er þetta lögmál markaðarins í sinni tærustu mynd? Er það bara allt í lagi?



[18:29]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þingmanns um fólkið með eldspýturnar og hver tendrar hér ófriðarbál vil ég vekja athygli á því að stjórnarandstaðan hefur ekki dagskrárvaldið á Alþingi. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem hafa dagskrárvaldið, þeir ráða hvaða mál eru sett hér á dagskrá (Gripið fram í.) — og þetta finnst hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur mjög fyndið. Ef við hefðum dagskrárvaldið værum við ekki að ræða þetta mál í dag. Ef við hefðum dagskrárvaldið værum við t.d. að ræða afnám stimpilgjalda þannig að fólk geti skuldbreytt lánunum sínum. Við værum að ræða lækkun virðisaukaskatts á barnavörur eða einhver mál sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu máli.

Þetta mál er pólitísk hugmyndafræði sem ríkisstjórnarflokkarnir reyna að troða ofan í kokið á þjóðinni og þjóðin vill það ekki. Hér er sagt: Hagsmunaaðilar hafa komið í veg fyrir breytingar og barist gegn þeim. Hagsmunaaðilarnir eru óvart bara einhverjir menn úti í bæ. Hver er með þingmeirihluta hér? Eru það ríkisstjórnarflokkarnir? Eða er það kannski búið að vera vandamálið þessi fjögur ár að það hefur ekki verið þingmeirihluti? Stjórnarflokkarnir hafa verið að rífast um þessi mál frá fyrsta degi.

Ég gleymi því ekki þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom hér daginn eftir að sáttanefndin lauk störfum og sagði: Þetta er fínt. Nú er sáttanefndin búin að skila af sér. Nú getum við farið að fara eftir stjórnarsáttmálanum, samráðinu er lokið.

Það stóð aldrei til að fara eftir niðurstöðum sáttanefndarinnar. Hún var sett upp sem leiktjöld í þessu leikriti sem nú á að reyna að klára á þessu kjörtímabili. En ég held meira að segja að þau átti sig á því að málinu verður ekki lokið á þessu kjörtímabili vegna þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði af sér viku áður en (Forseti hringir.) en strategían breyttist. Jú, hendum þessu inn eina ferðina enn, þá getum við rifist við íhaldið.



[18:32]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir slæmt að hv. þingmaður hafi ekki treyst sér til að svara þeirri spurningu sem ég beindi til hennar í lokin. Hv. þingmaður talar um að sú stjórn sem nú situr sé að troða hugmyndafræði sinni ofan í kokið á landslýð. Hvað höfum við búið lengi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í: Heyr.) Hvað höfum við búið lengi við þá hugmyndafræði sem leiddi til hruns í landinu? Er ekki kominn tími til að menn viðurkenni að sú hugmyndafræði gengur ekki upp? Það hefur farið fram skoðanakönnun um nýtingarleyfi í fiskveiðistjórnarkerfinu og 70% þjóðarinnar er hlynnt nýtingarleyfum. Svo við skulum bara tala varlega í þessum efnum.

Hv. þingmaður talaði um heimilin í landinu. Hve mörgum heimilum úti á landsbyggðinni hefur blætt vegna þessa kvótakerfis þegar fólkið á þeim heimilum missti atvinnu (Forseti hringir.) og annað þegar menn fluttu með aflaheimildir og öll atvinna lagðist af?



[18:33]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ansi kostulegt þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er farin að slá um sig með skoðanakönnunum. Ég ætla að benda hv. þingmanni á það að samkvæmt seinustu skoðanakönnun held ég að 80% þjóðarinnar hafi viljað nýja ríkisstjórn. Eigum við ekki að hlusta á þjóðina? 70% þjóðarinnar vildu ekki inn í ESB, eigum við ekki að hætta því bixi? Á ég að halda áfram að telja upp?

Nei, það er ekki hægt að koma hérna og segja að 70% þjóðarinnar séu hlynnt einhverju atriði sem pikkað er út úr þessu. (Gripið fram í.) Það er alveg hægt að komast að sátt um þau atriði sem betur mega fara í þessu kerfi. Við höfum sagt það allan tímann. Þess vegna meðal annars tókum við fullan þátt í sáttanefndinni vegna þess að við héldum að alvara væri á bak við það. Þess vegna getum við sest niður og rætt það. En að koma með svona plagg sem er ekkert annað en hugmyndafræðileg frústrasjón eftir að hafa verið í 18 ár í stjórnarandstöðu — það er örugglega mjög fúlt — og láta þjóðinni blæða (Forseti hringir.) fyrir það er ekki boðlegt.



[18:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um eitt atriði en vil fyrst taka aðeins umræðu um annað. Þingmaðurinn kom inn á það sem ég hef velt fyrir mér og fleiri í samfélaginu, en það er til hvers sé verið að leggja fram þetta frumvarp. Í viðtali við RÚV, stuttu eftir að málið var lagt fram, fór Daði Már Kristófersson yfir atriði í frumvarpinu og þær athugasemdir sem hafa verið gerðar til dæmis við síðasta frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi. Hann benti á að vissulega væri búið að taka einhver atriði þar út en ef menn bæru saman innihaldið við markmið laganna gengi það allt þvert á markmiðin. Þó svo að búið væri að taka eitt og eitt annað út væri minna og minna eftir og menn væru greinilega búnir að týna tilgangi þess að fara af stað með frumvarpið.

Þegar þetta frumvarp kemur fram í lok kjörtímabilsins svona illa unnið og skilur eftir fullt af spurningum ósvöruðum eins og t.d. um útfærsluna á kvótaþinginu, hvernig sveitarfélögin eigi að fá þessar tekjur og annað í þeim dúr, hvað eigi að gerast eftir 20 ár, getur maður spurt sig: Til hvers er það gert? Ég get varpað þeirri spurningu til hv. þingmanns.

Hin spurningin sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um snýr að byggð í landinu. Það kom ekki skýrt fram í ræðu þingmannsins og ég hef reyndar ekki heyrt það hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Megintilgangur stjórnarflokkanna er í orði sá að styrkja byggð í landinu en þeim hefur mistekst það algjörlega. Þeir sem hafa gagnrýnt þetta, hvort sem það eru sérfræðingar í byggðamálum eða ASÍ, hafa alltaf sagt að þessi aðferð gangi ekki upp. Ég hefði áhuga á að heyra hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim málaflokki.



[18:36]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til hvers er þetta frumvarp lagt fram? Stórt er spurt. Ég veit að hv. þingmaður hefur mikla trú á okkur þingmönnum Suðurkjördæmis en að við séum göldrótt og getum lesið hugsanir er kannski til of mikils mælst. Ég ætla ekki að gera neinum það upp að menn séu að leggja frumvörp fram í illum tilgangi. Ég hef fulla trú á að til dæmis hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir trúi því virkilega að þetta sé rétta leiðin. En ég held að þeir ágætu þingmenn sem fara í blindni þessa leið eina ferðina enn ættu að gera okkur öllum þann greiða að skoða þær umsagnir og ábendingar sem komu síðast fram og ekki detta í þann pytt að kalla alla umsagnaraðila sérhagsmunagæslumenn og þess háttar vegna þess að það er ekki þannig.

Til hvers? Menn hafa hugmyndir um að hægt sé að gera þetta á betri hátt og þeim er ákveðin vorkunn. En er þetta kerfi sem búið er að gagnrýna svo mikið síðastliðin 18 ár — nei, það er lengra síðan að kvótakerfið var sett upp — þegar allt kemur til alls, eins og við höfum haldið fram, kannski skásta kerfið sem í boði er? Vega kostirnir þyngra en gallarnir? Ég er þeirrar skoðunar að þeir geri það en ég er líka þeirrar skoðunar að ekkert sé fullkomið. Eins og hv. þingmaður benti á og var falið í spurningu þingmannsins eru ákveðnir þættir sem snerta einstaka byggðir í landinu ekki gallalausir og þegar farið var í gegnum hagræðinguna á sínum tíma við upptöku kvótakerfisins voru hlutir sem (Forseti hringir.) betur máttu fara. En við lögum ekki þessi atriði með því að kollvarpa kerfinu (Forseti hringir.) án þess að koma með betri lausn og leggja hana til grundvallar hinu nýja.



[18:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hafði kannski ekki tíma til að koma inn á stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi það hvernig eigi að leysa þetta mál og styrkja byggðirnar. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður taki til að mynda undir með prófessor Þóroddi Bjarnasyni sem hefur sagt að ekki sé hægt að styrkja allar byggðir landsins og tryggja þær á grundvelli veiða og vinnslu. Auðlindin sé takmörkuð og það þurfi að fara aðrar leiðir. Við framsóknarmenn höfum bent á það. Þetta frumvarp er aftur á móti sama marki brennt og fyrri frumvörp ríkisstjórnarinnar. Það er áfram reynt að krukka í þessu, hræra svolítið í þessu, taka frá hinum og þessum og gefa síðan ráðherra þá heimild að deila því út eftir „behag“, liggur við, og eftir því hvað þeim dettur í hug.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra er hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn telji færa, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að byggðir í landinu geti eflst.



[18:40]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð sammála því sem fram kom hjá hv. þingmanni og hann hafði eftir Þóroddi Bjarnasyni, að það er ekkert endilega víst að hægt sé að tryggja og styrkja allar byggðir í landinu út frá veiðum og vinnslu. Það sem ég held að sé besta framlag sjávarútvegsins til okkar allra, þjóðarinnar í heild, er að við tryggjum að hann sé stöndugur og arðbær þannig að við sem þjóð fáum sem mest út úr greininni. Síðan er ákveðin þróun sem á sér stað óháð því hvaða fiskveiðistjórnarkerfi við höfum. Hér í umræðunni hafa ítrekað verið nefnd fyrirtækin Vísir í Grindavík og Þorbjörn sem eru með verkefni á sviði Íslenska sjávarklasans, Codland, þar sem er verið að auka verðmæti hvers þorsks sem upp úr sjó kemur með alls konar nýsköpun og alls konar aðferðum sem fyrirtækin sjálf er að leggja sína peninga í. Á (Forseti hringir.) Reykjanesi til dæmis þar sem veiðar hafa dregist saman, þó ekki í Grindavík, (Forseti hringir.) er þetta mikilvægur nýr atvinnuvegur í samfélaginu.



[18:42]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að inna hv. þingmann eftir svari við þeirri spurningu sem hún svaraði ekki frá hv. þingmanni Lilju Rafney Magnúsdóttur: Hvernig metur hún áhrif núverandi kvótakerfis á hennar byggðarlag, þ.e. Vestmannaeyjar? Hvernig metur hún það til að mynda í ljósi þeirrar stöðu sem upp hefur komið þegar aflaheimildir hafa runnið þaðan í stórum stíl?

Hv. þingmaður talaði um að verið væri að troða hugmyndafræði upp á þjóðina og þingið. Hvar var sú hugmyndafræði samin? Hún var samin í sáttanefndinni sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og hagsmunaaðila, þar á meðal helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, þingmaðurinn Einar K. Guðfinnsson. Hann ræðir í bókun sinni við afgreiðslu nefndarinnar á þeim tíma um samningaleiðina sem niðurstöðu sem nær allir nefndarmenn hafi samþykkt eftir að hafa farið yfir ýmsa þá kosti sem til grundvallar lágu. Hann bendir réttilega á að til grundvallar liggi vandaðar úttektir og segir að niðurstaðan sé í samræmi við leikreglur sem gilda muni við nýtingu annarra auðlinda. Síðan segir þingmaðurinn í bókun sinni, með leyfi forseta:

„Langtímasamningar um fiskveiðiréttindi, þar sem byggt er á aflahlutdeildum, ættu að skila þeim árangri að unnt verði að marka sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma.“

Hann bætir við:

„Tilraunir til þess að víkja frá þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar nær einróma niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar ólíkra hagsmunahópa og stjórnmálaflokka væri bara hægt að túlka sem rof á samkomulagi sem menn gerðu í góðri trú.“

Nú spyr ég hv. þingmann: Hvar hafa sinnaskiptin orðið hjá sjálfstæðismönnum og hvers vegna er ástæða til þess núna, að þeirra mati, að rjúfa það samkomulag sem gert var í góðri trú?



[18:44]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á þingmanninn reyna að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti. Þetta er sami þingmaðurinn, eins og ég sagði áðan í minni ræðu, og kom hér galvösk upp daginn eftir að kvittað var undir þessa skýrslu og sagði: Ha, ha, nú er sáttanefndin búin, nú er lögbundna samráðið búið, nú förum við og útfærum stjórnarsáttmálann. En stjórnarsáttmálinn er ekki niðurstaða sáttanefndarinnar. Það sem Einar K. Guðfinnsson kvittaði þarna upp á er ekki falið í þessu frumvarpi. Langtímanýtingarsamningar — það kom fram hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í dag að menn hefðu verið að tala um fleiri áratugi. Hvaða tölu nefndi Einar K. Guðfinnsson í bókun sinni? Er hv. þingmaður með það fyrir framan sig? Nei, málið er einfalt, niðurstaða sáttanefndarinnar er því miður ekki lögð til grundvallar í þessu plaggi. Það er búið að tosa þetta og teygja til þess eins að ná sátt á milli hv. þingmanna Ólínu Þorvarðardóttur, Marðar Árnasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og fleiri aðila (Gripið fram í.) sem hafa verið með derring í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það er það sem hefur verið á endanum lagt til grundvallar sem málamiðlun. Ekkert annað.

Varðandi spurninguna um Vestmannaeyjar og hvaða áhrif núverandi kvótakerfi hefur haft á Vestmannaeyjar verð ég að segja að með dugnaði, elju og gríðarlegri uppbyggingu hefur byggst upp frábær, stöndugur og sterkur sjávarútvegur í Vestmannaeyjum. Það sem er í ágreiningi núna er einmitt atriði sem við getum hugað að í sameiginlegri skoðun, eins og ég nefndi áðan. Það er fullt af atriðum í kvótakerfinu sem við getum skoðað. Nú er það mál farið í (Forseti hringir.) dómsferli og við verðum að sjá hver niðurstaðan verður úr því, en stöndugri (Forseti hringir.) sjávarútveg en í Vestmannaeyjum er erfitt að finna.



[18:46]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn er svolítið hávær, ég heyri ágætlega þó að ég sé farin að heyra verr en mér finnst hún tala fullhátt fyrir mína heyrn. Það er óþarfi að ræða þetta af svo mikill reiði.

Hvað lá til grundvallar störfum samninganefndarinnar? Það var langtímanýtingarsamningur og talað var um 20–40 ár. Það var talað um þjóðareign á auðlindinni, að virða samfélagsleg sjónarmið og að við hliðina á nýtingarsamningunum væri annað kerfi sem samanstæði af hinum svokölluðu pottum. Um þetta voru allir sammála eða langflestir, þar á meðal fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem leggur á það ríka áherslu í bókun sinni að þessum meginsjónarmiðum skuli fylgt og allt annað hljóti að teljast rof á samkomulagi sem gert var í góðri trú. Hann leggur áherslu á að þessir langtímasamningar séu líklegri til að skila þeim árangri að unnt verði marka sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma. Hér er ekki verið að snúa út úr nokkrum sköpuðum hlut, (Forseti hringir.) hér er vitnað orðrétt í bókun þingmannsins. Hins vegar hafa útúrsnúningarnir og afvegaleiðing (Forseti hringir.) átt sér stað í umræðunni síðan meðal annars af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.



[18:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú skal ég tala mjög lágt til að æra ekki hv. þingmann. En ég skal tala frekar skýrar svo að hún nái örugglega því sem ég er að segja. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki bara sú sem hér stendur sem heldur því fram að niðurstaða sáttanefndarinnar liggi ekki til grundvallar frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Það var sagt þegar fyrsta frumvarpið var lagt fram, kennt við Jón Bjarnason — er það ekki bílslysið? Svo kom lestarslysið, kennt við Steingrím J. Sigfússon. Síðan kemur þetta frumvarp. Ég skal gera mér það að leik að reyna að telja saman hversu margir aðilar hafa haldið því sama fram og ég, að niðurstöðu sáttanefndarinnar sjái ekki stað í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Ég skal gera það fyrir hv. þingmann vegna þess að það er augljóst að þótt maður tali hátt eða bara rólega og skýrt virðist það ekki ná í gegn.



[18:49]Útbýting: