141. löggjafarþing — 79. fundur
 12. feb. 2013.
stjórn fiskveiða, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 570. mál (heildarlög). — Þskj. 968.

[19:22]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Varðandi það frumvarp sem fyrir liggur er mér allnokkuð hugleikið innihald þess, sem snertir kannski að stórum hluta þau verkefni sem ég hef fengist við á þingi frá því að ég tók hér sæti og snúa að fjárlagagerð hvers árs. Þess vegna var það það fyrsta sem ég las í frumvarpinu fylgiskjal II sem er umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fjárlagaskrifstofu þess, um frumvarpið. Umsögnin er alllöng og ítarleg. Það vekur mann til allnokkurrar umhugsunar hvernig sú umsögn hljóðar og ég ætla að vitna aðeins til hennar, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að erfið staða blasir við í ríkisfjármálunum sem kallar á að leitað verði allra leiða til að afla ríkissjóði aukinna tekna og að engin slík tækifæri verði látin fara forgörðum til að draga úr og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Mörkun nýrra ríkistekna og stýring þeirra í fyrir fram tiltekna útgjaldafarvegi styður ekki vel við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum.“

Þetta er í mínum huga grafalvarleg setning og lýsir í rauninni ágætlega þeim raunveruleika sem við er að glíma, þ.e. mjög alvarleg staða er í ríkisfjármálum og við verðum að leita allra þeirra leiða sem við höfum til að afla ríkissjóði tekna til að fara að greiða niður skuldir. Það er hins vegar alvarlegt þegar fullyrðing kemur frá því ráðuneyti sem annast um og hefur yfirumsjón með fjárlögum íslenska ríkisins og fjárreiðum þess að það frumvarp sem fyrir liggur samræmist ekki og samrýmist í rauninni ekki þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ég hef af því verulegar áhyggjur að frumvarp sem ber þann dóm sé lagt fram á þingi án þess að fyrir liggi sameiginleg afstaða þeirra tveggja ráðuneyta sem þetta mál snertir til þeirra grafalvarlegu tíðinda sem birtast í þessu mati á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins.

Þegar maður fer að rýna aðeins betur í þetta þá tiltekur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins það atriði í fyrsta lagi að hún metur áhrif frumvarpsins þannig að leiguverð muni væntanlega lækka. Þeir hafa áhyggjur af þróun afurðaverðs á mörkuðum, meðal annars vegna aukins framboðs en ekki síður vegna verðfalls sem er að verða á erlendum afurðum okkar víða um Evrópu. En þó telja þeir gróflega áætlað að ætla megi, eða eins og það er orðað, „að tekjur ríkissjóðs af leigu aflamarks úr flokki 2 geti orðið 2,3–2,7 milljarðar“. Það er undirstrikað að samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins á að færa þær tekjur á tekjuhlið fjárlaga og síðan er gert ráð fyrir að þeim tekjum sé ráðstafað með ýmsum hætti. Þetta skiptist annars vegar á milli ríkissjóðs upp á 40%, sveitarfélaga upp á 40% og svo renni 20% af gjaldinu í markaðs- og þróunarsjóð, þannig að þessi framlög yrðu þá að fara á útgjaldahlið fjárlaganna líka.

Þetta er þó því marki brennt að engin ákvæði eru um það í frumvarpinu hvernig þeim sjóði skuli háttað, hvernig á að stofnsetja hann, hvernig á að verja fé úr honum. Eingöngu er gert ráð fyrir að ráðherra ráðstafi úr honum, en engu að síður er mjög skýrt undirstrikað að reikningshaldlegt fyrirkomulag á þessum fjármagnstilfærslum þurfi sérstakrar skoðunar við. Það fylgir engin slík skoðun hér og mér vitanlega hefur hún ekki átt sér stað. Þetta gengur einnig í rauninni þvert á þá stefnumörkun sem ráðuneytið hefur lagt upp með varðandi mörkun ríkistekna. Ráðuneytið bendir á að það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til hafi reynst óheppilegt og samræmist illa nútímalegri rammafjárlagagerð. Ég minni hv. þingmenn einnig á það að fjárlaganefnd hefur staðið saman að því og gagnrýnt harðlega ráðstafanir sem leiða til mörkunar ríkistekna, í nefndarálitum og umræðum, ekki bara núna fyrir þessa fjárlagagerð heldur fyrir mörg, mörg ár hér að baki.

Niðurstaðan í mínum huga samræmist í rauninni ágætlega því mati sem fjármálaráðuneytið leggur á þetta, að til að styrkja fjárstjórnarvald Alþingis og reyna að stemma stigu við sjálfvirku útstreymi fjármuna úr ríkissjóði þá gangi frumvarpið og þau áform um útdeilingu á þessu gjaldi, sem stafar af leigutekjum úr flokki 2, þvert gegn öllum þeim tilraunum sem uppi eru til að stemma stigu við frjálsu flæði fjármagns úr ríkissjóði. Þetta gengur gegn mörkuðum áherslum líka um útgjaldastýringu ríkissjóðs.

Ég ætla að láta þetta duga um þann dóm sem yfir frumvarpinu er felldur af burðarráðuneyti varðandi það sem snertir tekjuhluta þessa verks. Það ber að undirstrika að ráðuneytið segir að ekki séu forsendur til að áætla í hvaða mæli þessum tekjum yrði varið en það sé alveg ljóst að frumvarpið muni ekki með neinum hætti bæta afkomu ríkissjóðs með beinum hætti. Að lokum vil ég vitna orðrétt, með leyfi forseta, til niðurlagsins í áliti fjármálaráðuneytisins sem hljóðar svo:

„Að öðru leyti eru forsendur á þessu stigi of óvissar til að unnt sé að segja fyrir með nokkurri vissu um fjárhagsáhrif af lögfestingu þessara breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu fyrir ríkissjóð.“

Þetta er í mínum huga mjög alvarlegur dómur. Menn hljóta að skoða það vendilega í meðförum málsins þegar nefndin tekur það til umfjöllunar og alveg ljóst að þarna er um að ræða ákveðið grundvallaratriði sem menn verða á allan hátt að nálgast af fyllstu nærgætni og alvöru og gera það með þeim hætti að sómi sé að.

Ég vil einnig gera að umtalsefni atriði sem mikið hefur borið á í umræðum um þetta mál, þ.e. byggðamálin. Það kemur raunar fram í 1. gr. frumvarpsins þar sem markmið lagafrumvarpsins er sett fram í allnokkrum stafliðum. Í staflið c í 1. gr. stendur: „að treysta atvinnu og byggð í landinu.“ Í staflið e í 1. gr. er sett fram markmið um: „að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni …“

Í umræðunni sem hér hefur átt sér stað hefur borið mikið á því að fella dóm yfir því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við. Hefur meðal annars verið fullyrt að það kerfi hafi leitt til byggðaröskunar. Ég er ekki alls kostar sammála því að kerfið sjálft hafi leitt til byggðaröskunar. Það sem leiðir fyrst og fremst til þeirrar byggðaröskunar í landinu var sú erfiða og raunar þungbæra staðreynd að Íslendingar og íslensk þjóð neyddist til að hætta að veiða frjálst úr fiskstofnunum við landið. Því fylgdi að í stað þess að við gætum veitt óheft varð að takmarka þann afla sem mátti taka upp úr sjávarauðlindinni á ári hverju og veiðiheimildir voru skornar umtalsvert niður svo nam tugum þúsunda tonna og af því leiddi gjörbreyting á því atvinnumynstri sem við höfðum haft í okkar ágæta landi um alllanga tíð. Þá var kerfið ekki til þegar Íslendingar tóku þá ákvörðun að takmarka sóknina í auðlindina. Svo var búið til kerfi til að reyna að stýra sókninni úr þeirri takmörkuðu auðlind sem fiskveiðiauðlindin vissulega er. Svo undarlega vill til að aðrar þjóðir horfa til þess kerfis og ætla sér og vilja taka upp bestu hluta þess, vissulega, og það segir manni að allt í því sé ekki alónýtt eins og stundum er gefið til kynna.

Hins vegar háttar þannig til að mjög auðvelt er að efna til ófriðar um þennan málaflokk einfaldlega vegna þess hversu ríkt það er í þjóðarsálinni að gera verðmæti úr fiski, sjávarfangi. En ég er þó þeirrar skoðunar alfarið að heill og hamingja, t.d. Raufarhafnar sem er í mínu kjördæmi, þeirrar byggðar sem þar þrífst ráðist ekki af því hvort þar er úr 100 tonnum af þorski meira eða minna að spila. Ég er þeirrar skoðunar að aðrir þættir í íslensku þjóðfélagi vegi mun þyngra þar en 100 tonn af þorski. Og er ég þá að tala um greið samskipti á sviði samskiptatækni, netinu, samgöngur á landi, sjó og lofti, menntun og heilbrigðisþjónustu. Það eru miklu frekar þeir þættir sem eru afdrifaríkari í mínum huga varðandi byggðamálin en nokkurn tíma 100 eða 50 tonn af þorski. En það hentar ágætlega þegar illa árar að draga þá þætti upp og varpa upp á uppboð einhverjum tilteknum tonnafjölda af þorski, í honum felast vissulega ákveðin verðmæti sem framsækið fólk hefur tækifæri til að skapa sér atvinnu við og búa til úr því verðmæti sjálfum sér og öðrum til gagns.

Ég vil enn fremur nefna að sérfræðingar vara sérstaklega við því sem lýtur að 8. gr. frumvarpsins og snertir úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum þar sem kveðið er á um að „verði ákveðinn heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., sem nemur meira en 240.000 lestum skal 50% þess aflamarks sem umfram er ráðstafað til flokks 1 og 50% til flokks 2“.

Mat þeirra sem við höfum reitt okkur á í umsögnum um þetta er á þá lund að ekki er boðlegt að þingmenn komi hingað fram og lýsi því yfir að þetta sé vel til þess fallið að styrkja byggðina í landinu og styrkja þau markmið sem í frumvarpið eru sett um aukna nýliðun í greininni og árangursríkar byggðaaðgerðir. Þvert á móti halda sérfróðir aðilar því fram að þetta ákvæði geti með öðrum orðum gengið gegn þeim ágætu markmiðum í frumvarpinu og þeir sem halda öðru fram verða að færa betri rök fyrir máli sínu en mér hefur þótt koma fram í þeirri umræðu í það minnsta sem hér hefur átt sér stað í dag.

Í annan stað vil ég nefna það sem einnig hefur borið á í umræðunni og varðar þetta svokallaða kvótaþing. Skiptar skoðanir eru um það en ég vil segja það sem mína skoðun að eins og það liggur fyrir í frumvarpinu þá er þetta gersamlega óútfært. Það er alveg ljóst að þar á að vera um pólitíska stýringu að ræða af hendi ráðherra eins og það er skilgreint í 17. gr. En þeir sérfræðingar sem ég vitna til varðandi kvótaþingið taka tiltölulega vel undir það að gefnum ákveðnum forsendum. Þeir telja að það geti aukið tekjur ríkissjóðs, það geti skapað aukinn sveigjanleika veiða innan aflamarkskerfisins o.s.frv. En þeir eru með einn stóran fyrirvara við þá nálgun sem er að allt er þetta háð því að kvótaþingið starfi með eðlilegum hætti án pólitískra afskipta. Það er eðlilegt að maður beri allnokkurn ugg í brjósti gagnvart þeirri útfærslu, sem er tiltölulega lítil í frumvarpinu, í ljósi þeirra orða að hinn pólitíski vængur og hin pólitíska vigt sem sett er í þessa umræðu er þess eðlis. Þar sem ekki liggur fyrir nein nákvæm útfærsla á því hvernig þetta á að verða ber maður eðlilega nokkurn ugg í brjósti gagnvart þeim hugmyndum sem þarna eru uppi.



[19:37]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi afleiðingar þess að böndum var komið á veiðar hér við land fyrir um það bil þremur áratugum og telur að það hafi haft meiri áhrif á stöðu byggðanna í landinu en sjálft kvótakerfið.

Nú var hv. þingmaður bæjarstjóri á Ísafirði á árunum upp úr 1990, um það bil áratug eftir að kvótakerfinu var komið á. Um það leyti fóru aflaheimildirnar að streyma úr byggðarlaginu, eftir að frjálsa framsalið var sett á. Þá gerðist það að aflahæstu skip svæðisins, þar á meðal Guðbjörgin, voru seld útgerðarfyrirtæki norður í landi. Þótt fullyrt hafi verið á þeim tíma að Guggan yrði alltaf gul og alltaf gerð út frá Ísafirði fór það svo að útgerðarfyrirtækið norður í landi tók það skip, seldi það og Guðbjörgin var ekki gerð út frá Ísafirði heldur hurfu aflaheimildirnar þar með allar úr byggðarlaginu.

Hv. þingmaður var mjög nálægur öllum þeim atburðum verandi bæjarstjóri á Ísafirði. Þarna varð mjög mikil röskun því á fáeinum árum hurfu 900–1.200 störf vegna atburðanna. Ég vil spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra skýringa sem hann gaf áðan: Úr því að það var ekki kvótakerfið sem olli því sem þarna gerðist, hvað gerðist þá?



[19:39]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ég var bæjarstjóri á Ísafirði en ekki það ár sem hún nefndi, 1990. Ég kom til Ísafjarðar um mitt ár 1994. Þá var þar allt í rúst í útgerð, svo það sé sagt. Vestfirðingum hafði gengið mjög illa í þessari atvinnugrein og þeir selt frá sér kvóta út og suður um allar trissur. Ég gekk sem bæjarstjóri á milli útgerða á norðanverðum Vestfjörðum til að reyna að efla þá til samstöðu um að reyna að halda þessu skipi og aflaheimildunum á svæðinu. Það er óþarfi að lengja umræðuna með því að fara yfir hvernig það gekk. Eigendur þessa fyrirtækis taka einir og sjálfir ákvörðun um hvort þeir selja, hverjum þeir selja og hvenær þeir selja. Það er bara þannig. Það er hægt að fara vendilega yfir þá sögu en þarf þó til þess lengri tíma en eitt andsvar. En ég get fullyrt að við þessa einu tilteknu sölu útgerðar hurfu ekki 900–1.200 störf eins og hv. þingmaður gaf til kynna.



[19:40]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er það rétt að störfin 900–1.200 sem hurfu á þeim áratug frá Ísafirði hurfu ekki vegna sölu Guðbjargarinnar heldur eingöngu vegna þeirra hljóðu hamfara sem áttu sér stað í því samfélagi vegna kvótakerfisins, eins og ég skil þá sögu. Ég spurði hv. þingmann af því að hann var bæjarstjóri þarna á árunum eftir 1990, og upplýsti þingmaðurinn að það hefði verið 1994, gott og vel, en einmitt á þeim árum eða þeim áratug dundu ósköpin yfir. Ég fæ engan veginn séð af hans svari að þeir atburðir hafi verið ótengdir því kvótakerfi sem nú er við lýði og var komið á þarna þegar framsalið var gefið frjálst eftir 1990, ég held að það hafi verið 1991 eða 1992, en þá upphófust þessir atburðir allir. Ég spyr: Hvernig getur þingmaðurinn haldið því fram að þeir atburðir hafi verið ótengdir því kvótakerfi sem við búum við dag og tengt það við einhverja eldri atburði eða það að við skulum yfir höfuð hafa komið böndum á fiskveiðar rúmum áratug áður?

Það er grundvallarspurning vegna þess að þegar við tölum um byggðaröskunina erum við einmitt að tala um afleiðingar þess að framsalið var gefið frjálst og menn fóru að versla með aflaheimildir eins og erfðagóss og það var það sem gerðist þegar byggðirnar misstu frá sér lífsviðurværið. Ég fæ ekki með neinu móti séð að það sem hv. þingmaður heldur fram standist, að það hafi ekki haft neitt með núverandi kvótakerfi að gera. Hann leiðréttir mig þá þar sem hann var á vettvangi þegar þeir nærtæku atburðir áttu sér stað með alþekktum afleiðingum.



[19:42]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Vestfirðingar voru almennt á sóknarmarki fram til 1990. Hvað gerðist þá? Þáverandi vinstri stjórn sem var við völd innleiddi frjálst framsal aflaheimilda. Af hverju gerði hún það? Vegna þess að fjöldi fiskvinnslustöðva og fjöldi fiskiskipa á Íslandi var einfaldlega til muna meiri en afrakstur fiskstofnanna gaf tilefni til. Þá var þetta kerfi innleitt til að útgerðin, vinnslan, gæti með sem einföldustum hætti á sínum eigin forsendum hagrætt innan greinarinnar. Allt saman leiddi það af þeirri ákvörðun sem ég gat um áðan, að íslensk þjóð varð að takmarka sóknina í afmarkaða fiskstofna. (ÓÞ: Hverjir borguðu fyrir hagræðinguna?) Allir Íslendingar borguðu fyrir hagræðinguna. Allir Íslendingar bera kostnaðinn af því að þurfa að skera niður fiskveiðiheimildir. Til að stjórna sókninni í þennan takmarkaða stofn þurfti eitthvert kerfi og það var þetta kvótakerfi sem kallað er. Það er afleiðing af þeirri ákvörðun sem Íslendingar urðu að taka upp úr 1980 um að stöðva frjálsa sókn í stofnana. Ég veit ekki hvort menn hafa ekki skilið hvað það þýðir í rauninni að í stað þess að veiða óheft megum við bara veiða 150 þús. tonn af þorski. Hvernig ætla menn að stjórna því? Á það að gerast sisvona? Á að taka það allt í gegnum kvótaþing eða eitthvað því um líkt? Það þarf að vera regla á hlutum. (ÓÞ: Það er best að markaðsmaðurinn svari því.)



[19:44]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágætisræðu. Hann dvaldi aðeins við I. kaflann og stafliðina þar og þar erum við með yfirlýsingu um að fiskveiðistjórnin skuli vera sjálfbær. Mér heyrðist hv. þingmaður vera nokkuð sammála því. Við erum þá væntanlega sammála um að við þurfum að hafa sem mest jafnvægi á milli þriggja stoða, efnahagslegra, umhverfislegra og félagslegra og ég er sammála hv. þingmanni um að ekki er hægt að kenna kvótakerfinu algerlega um þá byggðaröskun sem hefur orðið. Það er auðvitað líka alveg rétt að þetta voru kannski nokkuð rökrétt viðbrögð við þeirri stöðu sem var uppi á þeim tíma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé algerlega ósammála mér um að þetta kerfi hafi a.m.k. haft það í för með sér að það varð slagsíða á félagslega þættinum. Ef hann er að hluta til sammála því, finnst honum þá ekki sanngjarnt að greinin lagi og jafni einhvern veginn þá slagsíðu? Að öðrum kosti get ég ekki séð að þetta uppfylli neina kröfu um að teljast sjálfbærar veiðar sem eru þó í rauninni 1. gr. frumvarpsins. Mig langar að heyra hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvernig sjávarútvegurinn getur lagt sitt af mörkum til byggðanna ef það er ekki gert eins og nefnt er í frumvarpinu?



[19:46]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að sjávarútvegurinn hafi alla tíð, geri og muni gera, leggja til byggðanna í landinu. Það er mín innsta sannfæring. Ég vil nefna það hér af því að hv. þingmaður spyr hvað sjávarútvegurinn hafi gert og minni á að frá því að hið svokallaða kvótakerfi var sett á er búið að gera breytingar á því kerfi, ekki 10 eða 20 heldur hundruð breytinga sem gerðar hafa verið í þeim tilgangi að reyna að sætta sjónarmið og bæta upp „skaða“ sem orðið hefur af einhverjum ástæðum og færa vinnu eða verðmæti á milli byggðarlaga í landinu. Þetta hefur allt verið gert á pólitískum forsendum.

Síðan kerfið var sett á eru liðnir um þrír áratugir. Enn erum við að þrátta um þetta. Enn koma fram stjórnmálamenn sem segja: Ég get leyst þetta manna best. Þó höfum við í þrjá áratugi ástundað það verklag að reyna að breyta kerfinu sýknt og heilagt til að mæta alls konar sjónarmiðum.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir því í umræðunum í dag en maður hefur tekið eftir ákveðnum kjördæmaáherslum, sérstaklega hjá tveimur hv. þingmönnum sem koma úr Norðvesturkjördæmi, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Þær berjast fyrir tiltölulega einslitum hagsmunum. Er það til að veita öðrum íbúum annars staðar á landinu einhver gæði? Ég segi nei. Umræðan um þetta hefur oft verið lituð þessum þröngu hagsmunum og ég sé engan mun á umræðunni í dag.



[19:48]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ef til vill ekki verið nógu skýr. Ég hélt því reyndar aldrei fram að sjávarútvegurinn hefði ekki lagt töluvert af mörkum til landsins og til byggða í landinu. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um það að á mörgum stöðum hafi ekki orðið þróun sem má jafnvel rekja til þess að greinin sótti fram til aukinnar hagræðingar. Það er ekkert út á það að setja endilega, en við því verður hins vegar að bregðast. Ég er ekki viss um að íbúar ýmissa staða á landinu séu sammála því að pólitíkin hafi með einhverjum hætti bætt fyllilega fyrir þann skaða.

Þurfum við ekki að gera enn betur til að rétta þennan halla þótt það væri ekki endilega gert með þeim aðferðum sem eru lagðar til í frumvarpinu en með einhverjum öðrum hætti þá?



[19:49]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalegt andsvar. Ég tel að þetta séu skoðanaskipti sem þurfa að eiga sér stað um atvinnugreinina sjávarútveg vegna þess að greinin snýst um miklu meira en að róa bara út á fjörð, draga upp eina ýsu og fara svo heim og snæða hana með kartöflum og smjöri. Sjávarútvegur er orðinn miklu meira dæmi en svo, en umræðan snýst oft og tíðum eingöngu um það hverjir geti farið og sótt fisk í sjó.

Ég er þeirrar skoðunar og sannfærður um að við eigum að gera sjávarútveginum kleift að leggja meira til byggðanna, þjóðfélagsins en hann gerir í dag. Það gerum við með því að tryggja honum starfsumhverfi sem hentar þessari atvinnugrein eins og hún er víðast skilgreind í dag, þ.e. veiðar, vinnsla og markaðssetning. Við sjáum það á öllum teiknum sem við höfum á lofti í dag að markaðssetning íslenskra sjávarafurða er að lenda í mjög erfiðum slag. Á sama tíma erum við, eðlilega, að reyna að fá út úr greininni sem mest í ríkissjóð, en ég tel að þar með séum við að bíta í skottið á okkur að sumu leyti.

Ég minni hins vegar á í umræðunni að það er ekkert nýtt að sjávarútvegsfyrirtæki leggi upp laupana. Það þurfti ekkert takmarkaða sókn í fiskstofna til þess. Það voru bara mismunandi góð rekstrarskilyrði o.s.frv. Þetta verður eilíft vandamál. Mér finnst umræðan oft og tíðum mjög bundin þessari einu tilteknu atvinnugrein í stað þess að við horfum yfir allt heila atvinnulífið. Við gerum ekki endilega mat úr því þó svo að eitthvert iðnfyrirtæki fari á höfuðið við gjaldþrot eða ákveði jafnvel að flytja starfsstöðvar sínar til annars lands. Það er aldrei umræða um það. Umræðunni er jafnan beint að sjávarútveginum og oft ómaklega í mínum huga þó að ég sé alls ekki að væna hv. þingmann um það, alls ekki. Hann hefur fullan skilning á því umræðuefni og viðfangsefni sem hér um ræðir.



[19:51]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má lesa út úr þessu frumvarpi að tilgangur þess sé öðrum þræði að bregðast við byggðaþróun og reyna að draga úr afleiðingum þess sem menn vilja meina að komi frá því fyrirkomulagi sem nú er við lýði, þ.e. kvótakerfinu. Vissulega er það rétt að breytingar hafa orðið í byggð á Íslandi á undanförnum árum og má rekja þær víða til aðstæðna í sjávarútvegi.

Virðulegur forseti. Það er rétt að setja þetta mál í sögulegt samhengi. Þegar sjávarþorpin á Íslandi voru að myndast og þeim fór að vaxa fiskur um hrygg var verið að veiða hér um og yfir 300 þús. tonn af þorski á ári sem mestmegnis eða alfarið kom að landi og var unnið í fiskvinnslum í þorpunum og sjávarbyggðunum vítt og breitt. Þetta var frekar mannaflsfrek vinnsla. Byggðamynstrið sem varð hér til og þróaðist endurspeglaði það.

Svo komu menn á þann stað að breyta varð fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess að fyrir lá að sóknargetan var langt umfram það sem fiskstofnarnir þoldu. Þá varð að takmarka sóknina. Við reyndum það með skrapdagakerfinu og við þekkjum hvernig það fór. Sú tilraun mistókst og við tókum upp svokallað kvótakerfi. En byggðamynstrið, eins og ég segi, byggði meðal annars á þessum afla. Af því að hér hefur verið rætt um Vestfirði og þorpin þar þá eru þau þorskveiðisamfélög sem áttu allt sitt undir þorskveiðum á Íslandsmiðum. Síðan var aflinn og sérstaklega þorskaflinn skorinn mjög harkalega niður. Það var gengið mjög langt í þeim niðurskurði. Vitanlega urðu samfélögin sem byggðu tilvist sína á þorskveiðum harðast úti. Útgerðarbæir eins og Vestmannaeyjar og á Austfjörðum gátu bjargað sér vegna uppsjávaraflans sem hjálpaði til og fleytti mönnum yfir mikla erfiðleika sem voru í þorskveiðunum. Því var ekki til að dreifa vestur á fjörðum.

Rétt er að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér byggðaþróuninni á Vestfjörðum, þ.e. á þeim tíma sem var á árunum fyrir 1990 og kenndur var við fastgengisstefnuna, að verðbólgan æddi hér áfram og laun hækkuðu í takt við hana en útflutningsatvinnuvegirnir og þau byggðarlög sem byggðu á útflutningi máttu þola það að gengi krónunnar var fast. Þetta var í lagi fyrir þá sem stunduðu til dæmis viðskipti í Reykjavík, innflutning, og voru að selja inn á markaðinn og gátu bara hækkað verð sitt eftir því sem kostnaður hækkaði, en þeim blæddi út sem bjuggu við fast gengi og útflutning. Í kjölfar þess var heildarafli í þorskveiðum skorinn niður.

Virðulegur forseti. Mér þykir menn stundum fara nokkuð frjálslega með þegar sagt er að kvótakerfið hafi haft þessar afleiðingar. Þá þykir mér menn líta fram hjá sögu sem ætti að vera okkur í fersku minni, hefði ég haldið.

Kvótakerfið er ekki gallalaust fyrirkomulag. Það hefur þann galla, sérstaklega fyrir minni byggðarlögin sem búa jafnvel við að það að hafa einn útgerðaraðila, að upp getur komið sú staða, ég þekki það vel t.d. í þorpi sem ég tengist vel og hef gert lengi, vestur á Flateyri, að útgerðarmaðurinn ákveður að selja og þá standa menn frammi fyrir töluvert miklum vanda. Þess vegna er mikilvægt að til sé fyrirbæri eins og byggðakvóti, að hægt sé að mæta því þegar mikil og snögg breyting verður eins og varð vestur á Flateyri fyrir örfáum árum. Það var reyndar líka gert, svo að ég haldi mig við Vestfirði, á Þingeyri þegar vandi steðjaði þar að. Þá var tekið mjög myndarlega á þeim vanda. Til þess er byggðakvótakerfið. Kvótakerfið, kerfi framseljanlegra aflaheimilda, er að mínu mati langbesta stjórnkerfið sem við eigum kost á við fiskveiðar, en það er ekki gallalaust. Það er heldur ekki þannig að búið sé að finna það upp í eitt skipti fyrir öll og ekkert sé hægt að bæta við það eða gera það betra.

Grundvallaratriðin þurfa að vera á hreinu. Þau eru þessi: Öryggi, framseljanleiki, að menn geti verið vissir um réttindi sín og hægt sé að eiga viðskipti með þau og að samhengi sé á milli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar annars vegar og hins vegar þeirra sem nýta auðlindina.

Þetta er ekkert smáræðishagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Við eigum allt undir því að nýta fiskimið okkar sem best og mynda sem mestan arð. Það er á grundvelli þess sem við getum rekið hér velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og allt það sem nútímasamfélag krefst. Ef við nýttum ekki fiskimiðin við Ísland vel væri Ísland mun fátækara land og það væri algerlega ómögulegt að bjóða upp á þá þjónustu sem við viljum geta gert til að geta borið okkur saman við þau lönd sem við viljum helst líkjast í þeim málum.

Í ljósi þess sem ég sagði hér áðan er nauðsynlegt að rugla ekki saman verðmætasköpuninni annars vegar og hins vegar því þegar menn fara að telja störfin. Hvað á ég við með þessu? Jú, virðulegi forseti, menn benda mjög oft á og segja: Tilgangurinn með þessu öllu saman er að fjölga störfum. — En tilgangurinn er auðvitað fyrst og síðast að skapa sem mest verðmæti þannig að til verði verðmæti fyrir þjóðina sem nýtast bæði sem skatttekjur eða andlag fyrir ríkið til að skattleggja, þ.e. hagnað, og til endurfjárfestinga og fjárfestinga út fyrir greinina. Það er engin skynsamleg regla sem felst í því að aldrei megi fara peningar úr sjávarútvegi í einhverjar aðrar atvinnugreinar, enda á iðnaður á Íslandi alveg gríðarlega mikið undir því að sjávarútvegurinn bæði kaupi þjónustu og fjárfesti í iðnaði ef það á við.

Strandveiðarnar eru að mínu mati ekkert annað en endurtekning á því fyrirkomulagi sem við bjuggum við fyrir kvótakerfið, þ.e. skrapdagakerfinu sem byggði á ákveðnum heildarafla og síðan gæti hver sem er farið á veiðar. Við þekkjum hvernig sú þróun var öllsömul. Skrapdagakerfið virkaði þannig að alltaf fjölgaði bátunum svo að fækka þurfti dögunum. Heildarverðmæti jukust ekki en sóknarkostnaðurinn óx ár frá ári. Fram kemur í texta þessa frumvarps, skýringum, þar sem verið er að ræða um að auka eigi í þennan strandveiðipott, gera hann varanlegan o.s.frv., að fleiri hundruð bátar hafi farið á sjó til að ná í þennan afla, afla sem áður kom að landi með mun færri skipum. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að tekjur þjóðarbúsins, tekjur okkar Íslendinga, jukust ekki vegna þessa af því að þessir fiskar hefðu komið að landi hvort sem var. En hvað gerðist? Kostnaðurinn við að ná í aflann, útgerðarkostnaðurinn, jókst sem þessu nam. Allur þessi afli kom að landi áður, það var sóknargeta fyrir honum, en allt í einu fara fleiri hundruð bátar í viðbót á sjó til að sækja aflann með tilheyrandi olíukostnaði, kostnaði við mannahald o.s.frv. Skyldi þetta vera skynsamlegt? Skyldi það vera skynsamlegt fyrir íslenska þjóð að auka strandveiðarnar? Ef það er skynsamlegt að hafa 5 þús. tonn í strandveiðum, af hverju er þá ekki skynsamlegt að hafa 10 þús. tonn eða 15 þús. tonn eða 20 þús. tonn? Hvers vegna ekki? Auðvitað vita menn að þetta er óskynsamlegt þegar horft er til heildarhagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er margt í þessu máli sem þarf mikillar athugunar við. Ég ætla að benda á eitt. Með því að við drögum úr hagkvæmni fiskveiða á Íslandi, með því að auka eins og lagt er til hér pólitísk afskipti, auka strandveiðar og alls konar potta sem stjórnmálamenn eiga að hafa puttana í, þá erum við að draga úr möguleikum sjávarútvegsins til að bregðast við áföllum. Við erum að draga úr hagkvæmninni.

Nú telja margir, t.d. í Samfylkingunni, að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Ef það yrði niðurstaðan og það yrði tekin hér upp evra þá má ljóst vera að ekki verður hægt að sveiflujafna í gegnum gengið. Með öðrum orðum, þegar einhver áföll verða, svo sem markaðsbrestir eða aflabrestur, sem áður hefur verið brugðist við með því að gengi íslensku krónunnar endurspeglaði stöðu útflutningsatvinnuveganna þá þarf að gera það með einhverjum öðrum hætti. Eftir því sem við drögum úr hagkvæmni í sjávarútvegi er ljóst að möguleikar þeirrar greinar til að bregðast við slíkum áföllum, að því gefnu að ekki sé hægt að gera það í gegnum gengið, verða minni og minni. Þess vegna finnst mér svo furðulegt að flokkur sem er að berjast fyrir því að ganga í Evrópusambandið og taka upp þá efnahagsstefnu sem því fylgir skuli samþykkja að sjávarútvegsráðherra leggi fram frumvarp sem gengur þvert á þá hugsun. Ef menn ætla sér að ganga í Evrópusambandið er eins gott að sjávarútvegurinn sé sem öflugastur þannig að hann geti sveiflujafnað vegna þess að hann getur ekki gert það í gegnum gengið.

Það er óþarfi að taka það fram af minni hálfu að ég tel ekki skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið. Ég skil ekki ríkisstjórnina, að ákveða að leggja fram þetta frumvarp þegar annar stjórnarflokkurinn hamast við að koma landinu inn í ESB og hinn hefur verið meðreiðarsveinn í því með því að samþykkja aðildarumsóknina að ESB.

Virðulegi forseti. Ég greip hérna með mér umsögn sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sendi frá sér. Þar segir, með leyfi forseta, og má segja að það rammi inn allt sem þarf að segja um frumvarpið sem hér er verið að ræða um:

„Það frumvarp sem nú liggur fyrir er að stærstum hluta byggt á frumvarpi fyrra árs. Þær breytingar sem gerðar hafa verið eru að mati samtaka skipstjórnarmanna til þess fallnar að gera málið enn verra og var það þó nógu slæmt fyrir.

Þær breytingar sem fram komu í nýju frumvarpi munu allar leiða til versnandi afkomumöguleika umbjóðenda okkar og gera stækkandi hóp manna að leiguliðum stjórnvalda. Slík leið mun ekki leiða til sátta innan greinarinnar, öðru nær.“

Þetta er býsna skýrt. Okkar verkefni, verkefni Alþingis Íslendinga er að gera það sem við getum til að tryggja að sjávarútvegurinn sé hagkvæmur og um leið að hægt sé að bregðast við óæskilegri eða of hraðri byggðaþróun eða byggðaröskun. Ég tel að fyrir því séu rök að gera breytingar varðandi byggðakvóta og á þessu kerfi en það sem hér er lagt upp með er ekki skynsamlegt rétt eins og kemur fram hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu.

Ég vil að lokum gera eitt að umtalsefni af því að mjög gjarnan er talað um þjóðareign. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það væri miklu nær og miklu heiðarlegra að tala um ríkiseign. Það er miklu skýrara, það nær sínu marki. Hvernig á maður að skilja það þegar lagt er til í þessu frumvarpi þegar kemur að ráðstöfunum tekna aflamarksins, sem eiga að fara í ríkissjóð, að 40% eigi að fara til ríkisins, 40% til sveitarfélaga og 20% til markaðs- og þróunarsjóða?

Sagt er, með leyfi forseta:

„Hvað snertir ráðstöfun til sveitarfélaga sýnist eðlilegt að tekið verði meðal annars mið af sögulegu mikilvægi sjávarútvegs á einstökum svæðum …“

Bíddu nú við, var ekki hugsunin sú að þetta væri einhvers konar þjóðareign? Af hverju á að mismuna íbúum landsins, ef það er niðurstaðan, eftir því hvort það er löng saga sjávarútvegs þar eða ekki? (Gripið fram í: Ertu ekki að því á hverjum degi?) Bíddu nú við, er ég ekki að því á hverjum degi? Ef ég féllist á þá röksemd að þetta væri þjóðareign, sem ég hef aldrei gert, gæti ég í það minnsta ekki farið þessa leið. Hvað á að segja við íbúana í Hveragerði? Eru þeir ekki hluti af íslenskri þjóð? Er ekki fólkið sem býr á Selfossi hluti af íslenskri þjóð? Af hverju eiga þau sveitarfélög ekkert að fá í sinn hlut ef þetta er þjóðareign? Það er annað, ef menn líta öðruvísi á þetta og segja: Hér er ríkiseign og ríkið ætlar sér að úthluta þessu með ákveðnum hætti. Þá skyldi maður skilja það. Þess vegna væri miklu heiðarlegra að tala um ríkiseign af því að menn eru í raun og veru að meina ríkiseign. Það er það sem verið er að ræða hér. Það er ekki og hefur aldrei staðið til að (Forseti hringir.) gera þetta að þjóðareign, enda hvernig mætti það vera? Það stendur ekki steinn yfir steini í því hugtaki.



[20:06]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég er með nokkrar spurningar sem ég mundi vilja beina til þingmannsins. Það mátti skilja það á ræðu hans að flestallt væri ómögulegt við þetta frumvarp. Má túlka það þannig að afstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu sé sú að ekki eigi að breyta neinu eða eru einhverjar tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varðandi það hvernig best væri að bæta kerfið, sem kom þó fram í máli þingmannsins að væri ekki fullkomið, það mætti bæta? Hvað er það þá nákvæmlega sem mætti gera betur?

Ég vildi sérstaklega beina athygli þingmannsins að bréfi sem barst fyrir nokkru frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda til okkar þingmanna þar sem spurt var: Hvað með réttlátt samkeppnisumhverfi í greininni? Hefur hv. þingmaður kynnt sér þá bókun sem fylgdi skýrslu sáttanefndarinnar svokölluðu sem Guðbjartur Hannesson, núverandi hæstv. velferðarráðherra, leiddi þar sem meðal annars var fjallað um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu og að markaðsverð yrði látið ráða í beinum viðskiptum með fisk?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað mjög mikið fyrir samkeppni og talið mjög mikilvægt að láta markaðinn ráða sem víðast. Hver er afstaða hv. þingmanns og flokks hans gagnvart ábendingum og óskum frá til dæmis Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og VM, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, varðandi þetta? Ég vona að þingmaðurinn kannist við þessar hugmyndir.



[20:08]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég kannast við þær. Spurningin er þessi: Á engu að breyta? Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að það er skoðun þess sem hér stendur að ýmis atriði í núverandi kerfi séu vel þess virði að skoða hvort við getum ekki náð betri árangri.

Það sem ég staðnæmist helst við snýr að byggðakvótakerfinu. Af hverju geri ég það? Ég er þeirrar skoðunar að sú ákvörðun vinstri stjórnarinnar 1990, stjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks, um að heimila framsal hafi verið rétt og að kvótakerfi án framsals sé, eins og ágætur hv. þingmaður sagði eitt sinn, flugvél án vængja. Ef menn ætla að hafa kvótakerfi á annað borð eiga þeir að hafa framsal. Ég er þeirrar skoðunar. En ég held að það hvernig við höfum stýrt byggðakvótakerfinu og hvernig það hefur þróast þurfi endurskoðunar við vegna þess að það grípur ekki utan um og tekur ekki á meiri háttar áföllum. Það er búið að dreifa þessu um of þannig að geta Alþingis eða kerfisins, svo að maður noti kannski dálítið vonda íslensku, til að bregðast við meiri háttar byggðaröskun er lítil. Það þekki ég mjög vel. Ég held að þar brenni mest á okkur að reyna að breyta kerfinu þannig að það nái betur tilgangi sínum, að hamla gegn óæskilegri og hraðri byggðaþróun.

Hvað varðar fjárhagslegan aðskilnað í veiðum og vinnslu þá er ég ekki hlynntur því. Menn verða að skilja að í sjávarútvegi hangir allt á samhenginu frá veiðum, í gegnum vinnsluna og til markaðssetningar og sölu. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að fara að búa til fjárhagslegan aðskilnað á veiðum og vinnslu. Það er miklu líklegra og eðlilegra að sama fyrirtæki nái utan um alla virðiskeðjuna, frá veiðum til markaðssetningar og sölu. Ég er ekki hlynntur því að hafa (Forseti hringir.) fjárhagslegan aðskilnað á veiðum og vinnslu.



[20:11]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir svör hans. Hann kom hins vegar ekki inn á það hvort hann og flokkur hans tækju undir þá kröfu eða þær ábendingar sem hafa komið frá þeim samtökum sem ég nefndi, um að ekki ríki raunverulegt samkeppnisumhverfi í greininni, og þær ályktanir sem þeir hafa komið með varðandi að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markað eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.

Síðan hafa menn líka talað fyrir fjárhagslegum aðskilnaði en að ekkert komi í veg fyrir, þó að fjárhagslegur aðskilnaður sé á milli vinnslu og veiða, að sömu eigendurnir séu þar að baki og það sé þá hægt að stýra virðiskeðjunni, eins og menn hafa bent á. Ég mundi halda að í ljósi þeirra laga sem voru sett varðandi raforkulögin, aðskilnað þar, að menn hefðu náð að stýra ágætlega virðiskeðjunni þrátt fyrir bókhaldslegan aðskilnað.

Ég ítreka því spurningu mína hvað þetta varðar: Má ég skilja það á máli hv. þingmanns að hann telji rétt að breyta forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga í núgildandi lögum um fiskveiðistjórn? Það má nefna sem dæmi að sveitarfélag Vestmannaeyja höfðar nú mál á grundvelli þess að láta einmitt á það reyna hver staða sveitarfélagsins er því að þar eru miklar aflaheimildir sem er búið að selja úr byggðarlaginu og það var jafnvel, eins og bent var á, búið að selja hlutafélagið áður en skipin fóru þannig að ákvæðið virðist vera handónýtt varðandi þennan forkaupsrétt.

Síðan líka, eins og þingmaðurinn kom inn á, þótt ég viti að þetta sé viðamikið varðandi kosti framsals: Telur þingmaðurinn rétt að einhverju leyti að bregðast við þeirri staðreynd að reglan virðist almennt hafa verið sú að peningarnir hafi frekar streymt úr greininni og síður til fjárfestingar (Forseti hringir.) í greininni á grundvelli þessa framsals?



[20:13]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki fækkaði nú spurningunum. Fyrst örstutt varðandi markaðsverðið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að setja eigi allan fisk á markað. Það er efni í langa umræðu. (Gripið fram í.) Ég hef oft rætt þá skoðun hér. (Gripið fram í: Markaðsverð.) Þar fylgir oft sú krafa að öllum þeim fiski sem kemur að landi verði landað á markað. Margir af þeim aðilum sem nefndir voru — það er eitt. Þá kemur líka spurningin: Hvað er markaðsverð? Ég held að það sé mjög óvarlegt að taka þann hluta sem núna er á markaði og segja að það endurspegli markaðsverðið. Ef menn ætla sér að hafa markaðsverð fylgir það raunverulega að allur fiskur þarf á markað því að mikil hætta er á því að það verð myndist á mjög takmörkuðum markaði sem sé ekki eðlilegt markaðsverð. Það þekkja allir sem eru markaðssinnar.

Varðandi Vestmannaeyjar sem hér voru nefndar þá er tilgangurinn með þeim lögum sem sett voru á sínum tíma einmitt að gera sveitarfélögunum betur kleift að grípa inn í til að koma í veg fyrir snögga og hraða byggðaþróun. Mig minnir að það hafi verið töluvert rætt í aðdraganda kosninganna 2003 og leiddi til laga sem voru sett í framhaldinu. Tilgangurinn með lögunum var sá að mynda þann möguleika. Hvort um var að ræða hlutafélag í Vestmannaeyjum sem var farið áður en skipin fóru eða að skipin hafi verið farin á undan hlutafélögunum, það þekki ég ekki nákvæmlega. En ég vil segja þetta: Tilgangurinn í mínum huga var alveg ljós. Ef tilganginum verður ekki náð er sjálfsagt að endurskoða þau lög, það er algerlega sjálfsagt.

Hvað varðar peninga út úr greininni þá byggir auðlegð þjóða á því að þau nái árangri í ákveðnum atvinnugreinum, í nýtingu auðlinda. Síðan geta fjármunir farið úr þeirri grein í aðra til að byggja þær upp. Það væri alveg galið ef engir fjármunir mættu fara út úr sjávarútvegi á Íslandi. Ættum við að hafa það sama um landbúnað og aðrar atvinnugreinar? Ættum við að hafa allar atvinnugreinar þannig að alls staðar þar sem myndast hagnaður í einhverri atvinnugrein (Forseti hringir.) verði hann að fara til endurfjárfestingar í sömu atvinnugrein? Það sér það hver maður hvar það mundi enda. (Gripið fram í.) Auðlegð þjóða byggir einmitt á því að það sé nægt til til að endurfjárfesta í viðkomandi grein og síðan getur það sem umfram er streymt annað.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.