141. löggjafarþing — 88. fundur
 26. feb. 2013.
störf þingsins.

[13:31]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. AGS áætlaði í efnahagsáætlun sinni að hagvöxtur á þessu ári yrði 4,5%. Seðlabankinn hefur nú varað við meiri slaka í efnahagslífinu á þessu ári en gert var ráð fyrir og hefur lækkað hagvaxtarspá sína úr 3% í 2%. Ástæðan er hægari vöxtur fjárfestinga og neyslu innan lands og versnandi viðskiptakjör af völdum kreppudýpkandi efnahagsstefnu ESB og þungrar greiðslubyrði af erlendum lánum. Við slíkar aðstæður er ástæða til að lækka vexti á Íslandi.

Peningastefnunefnd er hins vegar búin að vera í vaxtahækkunarferli frá því í ágúst 2011 og ekkert bólar á vaxtalækkun. Of miklar verðbólguvæntingar eru sagðar koma í veg fyrir lækkun vaxta. Verðbólguvæntingar eru miklar vegna þess að peningastefnunefndin þráast sjálf við að lækka vexti. Nefndin vill vera sem næst jafnvægisvöxtum í hagkerfi sem er aldrei í jafnvægi. Hefja verður strax vaxtalækkunarferli til að draga úr verðbólguvæntingum og örva atvinnulífið. Hávaxtastefna AGS og Seðlabankans eftir hrun hefur rænt þjóðina lífskjarabata upp á tugi milljarða.

Frú forseti. Höfnum ofurvöxtum sem almenningur þarf að greiða fyrir með lakari lífskjörum og minni velferðarþjónustu. Lækkum vaxtakostnað fyrirtækja, heimila og ríkissjóðs.



[13:33]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mér leikur mikil forvitni á að heyra frá einhverjum þingmanni Sjálfstæðisflokksins, gjarnan hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hvernig þingmaðurinn sjái fyrir sér kristilegum gildum ofið inn í lagasetningu Íslands. Það var samþykkt á landsfundi sjálfstæðismanna að slíkt væri stefna flokksins en síðan var hún dregin til baka daginn eftir. Mér leikur hreinlega forvitni á að vita hvernig hægt væri að vefa þetta inn í lög landsins, hvaða þýðingu það hefði ef þetta hefði ekki verið dregið til baka og hvort þetta sé eitthvað sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu hlynntir.



[13:35]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er að síga á seinni hlutann á þessu kjörtímabili og þessu þingi. Við eigum enn eftir að ljúka hér mörgum málum og mig langar að gera að umtalsefni mál sem liggur í efnahags- og viðskiptanefnd, tekur til stimpilgjalda og er hluti af hugsanlegri lausn fyrir fjölskyldur í landinu.

Ef við afnemum stimpilgjöld á íbúðakaup til einkanota fyrir fólkið í landinu, fjölskyldur og einstaklinga, erum við að auðvelda því mjög það verkefni sem það glímir við og felst í skuldavanda heimila.

Í öðru lagi var það fest í sessi í gegnum bandorminn að endurfjármögnun lána innan sömu stofnunar væri án stimpilgjalda. Það er af hinu góða en við þurfum líka að gefa fólki tækifæri til að færa sig á milli lánastofnana án stimpilgjalda. Ríkissjóður er á fjárlögum þessa árs, 2013, með 4 milljarða. Ríkisstjórnin lofaði í október frumvarpi til breytinga á stimpilgjöldum vegna athugasemdar ESA. Ríkisstjórnin lofar nú breytingum á stimpilgjöldum eftir nefndarvinnu sem á að ljúka í aprílmánuði. Ég skora á efnahags- og viðskiptanefnd að fella brott og afnema stimpilgjöld á íbúðarhúsnæði til einkanota fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Tökum þetta fyrsta skref til hagsbóta fyrir heimilin í landinu, sýnum á þessu þingi að okkur er veruleg alvara með að aðstoða fólk sem er í vanda.



[13:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Talsverðar umræður hafa átt sér stað undanfarið um vinnubrögð, samskipti og samstarf þvert á flokka. Einnig hefur mikið verið rætt um auðlindir þjóðarinnar, nýtingu þeirra og vernd. Segja má að þessir tveir mikilvægu þættir sameinist í málþingi sem nú stendur yfir í Hörpu á vegum ráðgjafarhóps um mögulega lagningu raforkustrengs til Evrópu. Hugmyndin um tengingu Íslands við Evrópu með flutningi á raforku hefur staðið yfir í áratugi. Nýlega þó, á árinu 2011, ályktaði stýrihópur um heildstæða orkustefnu á vegum iðnaðarráðherra að einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin með lagningu sæstrengs ef og þegar það reynist þjóðhagslega hagkvæmt. Við athugun á slíku stórverkefni kom ekkert annað til greina en samvinna margra sem nálgast geta málin frá ólíkum sjónarhornum.

Á síðasta ári þegar ég gegndi starfi iðnaðarráðherra vann ég að því að skipaður yrði þverpólitískur ráðgjafarhópur um málið. Í honum sitja fulltrúar allra þingflokka, stærstu hagsmunasamtaka landsins, Landsvirkjunar og Landsnets, og náttúruverndarsamtaka. Formaður er Gunnar Tryggvason. Í erindisbréfi er tekið fram að breið samfélagsleg sátt sé nauðsynleg eigi verkefnið að verða að veruleika. Vinna hópsins hófst svo í fyrrahaust.

En hver urðu áhrif þessarar tengingar? Það er stóra spurningin. Við viljum nýta auðlindir með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga, leita eftir hæsta verðinu en einnig eftir dreifingu á áhættu. Hafa þarf í huga að hæsta verð er ekki endilega forsenda mestu hagsældar. Þar kemur fleira til, svo sem atvinnusköpun og vernd náttúrugæða.

Ráðgjafarhópurinn stendur fyrir upplýstri umræðu í dag um málið og það er svo sannarlega í mörg horn að líta hvað þetta stóra mál varðar.



[13:39]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Línur hafa nokkuð skýrst í íslenskum stjórnmálum eftir landsfundi helgarinnar — eða ekki. Óneitanlega vekur ályktun sjálfstæðismanna nokkra furðu, en þeir segja annars vegar að krónan í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef við viljum eiga í alþjóðlegri samkeppni með fyrirtæki okkar og vörur en hins vegar vilja þeir loka á þann kost sem er hvað skýrastur við hlið krónunnar, þ.e. upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera vonbrigði fyrir Evrópusinnaða sjálfstæðismenn, frjálslyndari arm flokksins, enda ljóst að harðlínuöflin, einangrunaröflin, hafa náð völdum í Sjálfstæðisflokknum.

Flokkurinn sem vill lækka skatta lokar nú um leið á bestu og mestu skattalækkun sem hægt er að færa íslenskum almenningi. Íslenskur almenningur greiðir 18% meira af húsnæðislánum sínum í vexti og afborganir en Evrópubúar gera. Það jafngilti um 29% launahækkun ef við tækjum upp evru og tækjum evrópsk húsnæðislán.

Valkostir frjálslyndra kjósenda hafa nokkuð skýrst við tíðindi helgarinnar. Það er morgunljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valkostur fyrir frjálslynda kjósendur í þessu landi. Hann lokar á þann kost sem atvinnulífið kallar eftir, nútímaatvinnulífið, hann lokar á nýjan kost fyrir verðtryggða húsnæðislánagreiðendur, hinn íslenska almenning, hann lokar á þann kost sem er hvað skýrastur til að byggja hér upp atvinnulíf og verðmætasköpun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki bara útilokað sig sem valkost fyrir frjálslynda kjósendur, heldur hefur hann einnig útilokað þann kost að geta unnið með jafnaðarmannaflokki Íslands (Gripið fram í: Ú.) í næstu ríkisstjórn [Kliður í þingsal.] vegna þess að við jafnaðarmenn (Forseti hringir.) viljum halda áfram þessu aðildarferli og leyfa þjóðinni sjálfri að taka afstöðu til samnings þegar hann liggur fyrir svo þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort hún vill ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. (RR: Amen.)



[13:42]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þetta var ein kostulegasta ræðan sem ég hef heyrt úr þessari átt og þó hef ég heyrt þær ansi kostulegar frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram. Hann vogar sér að fullyrða um valkosti kjósenda, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki valkostur fyrir frjálslynda kjósendur, segir hv. þingmaður. Ja, hérna hér.

Ég skal segja hv. þingmanni að sem betur fer eru kjósendur, hvort sem þeir eru frjálslyndir eða annað, ekki svo skyni skroppnir að þeir geti ekki tekið ákvarðanir fyrir sig sjálfir. Þeir munu ekki horfa á þetta eina mál. Það er sama hvaða skoðanir menn kunna að hafa á Evrópusambandinu, það er óvart bara eitt af viðfangsefnum stjórnmálanna. Kjósendur, frjálslyndir kjósendur sérstaklega, munu frekar horfa til þess hvað flokkarnir ætla að gera í uppbyggingu atvinnulífsins, í skattamálum og velferðarmálum. Hvaða stefnu hafa þessir flokkar? Það sem meira er: Hvað hafa flokkarnir verið að gera síðustu fjögur árin? Ætlar einhver hér inni að halda því fram að Samfylkingin, ef við dæmum hana af verkum hennar síðustu fjögur árin, sé frjálslyndur flokkur? Nei, Samfylkingin hefur aldrei verið lengra til vinstri en núna. Hún er reyndar ekkert sérstaklega gamall flokkur en vinstri flokkur hreinn og beinn er Samfylkingin og hefur verið síðustu fjögur árin. Hún hefur hækkað skatta, hún hefur þvælst fyrir atvinnulífinu og ef hv. þingmaður ætlar að segja að atvinnulífið sé að kalla eftir stefnu Samfylkingarinnar er hann algjörlega á villigötum.

Atvinnulífið og íslenskur almenningur er búinn að fá leið á skattstefnu og allri þeirri pólitík sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa ekki bara boðað heldur framkvæmt. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þm. Magnús Orra Schram að líta upp úr ESB-boxinu. Það er mikilvægt mál en það er ekki eina málið á dagskrá, hv. þingmaður.



[13:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú er mér vandi á höndum, ég kem á eftir Evrópusambandsmálinu og get tekið undir svo margt sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en kem að því síðar því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir beindi til mín fyrirspurn sem mér finnst rétt að svara strax.

Það er rétt að það var mikið fjallað um trúmál, um kristnina og fleira á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og við skömmumst okkar ekkert fyrir það. Við í Sjálfstæðisflokknum erum ófeimin við að undirstrika að saga okkar og samfélagið er samofið kristninni í gegnum árhundruðin. Við skömmumst okkur ekki fyrir að segja að við viljum gjarnan að samfélag okkar byggi áfram á kristnum gildum. Með leyfi forseta segir meðal annars í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um trúmál:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.

Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“

Það er rétt að við ræddum þetta mikið og það kom út úr nefndinni að við vildum líka að kristin trú ætti að vera viðmið í lagasetningu. Mér fannst það persónulega algjörlega óásættanlegt. Ég hef verið mikill talsmaður þess að við segjum ófeimin: Já, við erum kristin þjóð sem byggjum á kristnum gildum. En þegar kemur að því sem snertir okkar ástkæru stjórnarskrá sem við sjálfstæðismenn höfum svo sannarlega barist fyrir að verja á þingi, þegar kemur meðal annars að trúfrelsiskaflanum, er óásættanlegt að yfir þau mörk verði farið. Við undirstrikum trúfrelsi í landinu, við undirstrikum þau merkilegu mannréttindi sem eru í gildandi stjórnarskrá og viljum standa vörð um þau. Eftir stendur að við erum ófeimin við að segja að við Íslendingar erum kristin þjóð.



[13:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða. Ég ætla á eftir að koma aðeins inn á skuldir en ég get ekki litið fram hjá þeirri ræðu sem hv. þm. Magnús Orri Schram hélt áðan þar sem hann útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Þetta er merkileg yfirlýsing, ekki síst er hún merkileg í ljósi þess að Vinstri grænir opnuðu einmitt á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn á sínum landsfundi. Nú veltir maður fyrir sér hvort þessir flokkar eru að hafa vistaskipti vegna þess að Vinstri grænir ályktuðu líka mjög í anda Evrópusambandsins. Nú bíð ég spenntur eftir því hvort það komi einhver ný stefna frá Samfylkingunni um að hún sé orðin meira á móti Evrópusambandinu en Vinstri grænir. Þetta er svolítið ruglingslegt.

Ég hélt satt að segja, frú forseti, eftir landsfund Vinstri grænna að nú væri búið að fjölga enn einum samfylkingarflokknum. Við heyrðum talað um Bjarta framtíð eins og Litlu samfylkinguna. Einhver nefndi eftir landsfund VG að nú væri orðin til Vinstri samfylkingin þannig að þeir væru orðnir þrír, þessir samfylkingarflokkar.

Þá gerist það merkilega að aðalsamfylkingarflokkurinn útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn þannig að nú hljótum við að fara að velta því fyrir okkur og telja saman hvernig næsta ríkisstjórnarsamstarf getur verið þegar menn taka upp á þessu.

Það sem er athyglisvert við helgina og síðustu vikur er að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á landsfundi sínum að fara leið Framsóknar þegar kemur að heimilunum. Við fögnum því að sjálfsögðu, en það sem vekur kannski meiri eftirtekt er að vinstri flokkarnir báðir eða samfylkingarflokkarnir allir eða hvernig við orðum þetta allt saman skila auðu þegar kemur að því að gera eitthvað fyrir heimilin. Það sem er hvað brýnast að gera á síðustu dögum þingsins og verður á næsta kjörtímabili er vitanlega að gefa heimilunum færi á að taka þátt í efnahagslífinu og atvinnulífinu kleift að skapa hér fleiri störf og búa til meiri tekjur fyrir samfélagið. Því tek ég undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan um þá stefnu sem Seðlabankinn hefur rekið, það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í það verkefni að lækka vexti þannig að hægt sé að koma hjólum atvinnulífsins af stað um leið og við reynum að koma í veg fyrir að verðbólguruglið haldi áfram eða fari af stað. Þar skiptir miklu máli að menn séu sammála um það til dæmis að hemja verðtrygginguna eins og við framsóknarmenn höfum lagt til (Forseti hringir.) ótal sinnum en ríkisstjórnarflokkarnir, samfylkingarflokkarnir allir saman, hafa ekki haft neinn áhuga á að klára í þinginu.



[13:49]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla örstutt að vekja athygli á því að fáir dagar eru eftir af starfsáætlun þingsins. Mér reiknast svo til að eftir séu sjö þingfundadagar og fjórir nefndadagar. Í gær komu ný þingmál frá hæstv. ríkisstjórn og af tali manna má ráða að fleiri stórmál séu á leið inn í þingið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Á sama tíma er sú staða uppi að fjölmörg stór mál eru til meðferðar í nefndum þingsins og ég vek athygli bæði hæstv. forseta og hv. þingmanna á því að það er gersamlega útilokað að þessi mál nái öll fram að ganga. Eina vitið fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann á þingi, ef um meiri hluta er að ræða, það er dagamunur á því hvort svo er eða ekki, vilji ríkisstjórnarflokkarnir koma einhverjum málum í gegn er eins gott að þeir fari að forgangsraða og beini þá kröftunum að einhverjum skynsamlegum málum sem unnt er að ná samstöðu um, einhverjum breytingum sem raunverulega liggur á, einhverjum málum fyrir þjóðina í landinu í staðinn fyrir að eyða tímanum hér dag eftir dag í einhver gælumál sem við getum kallað svo. Við getum líka kallað þau hugmyndafræðileg mál sem hafa ekki neinn snertiflöt við fólkið í landinu.



[13:51]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og VG hefur nokkuð borið á góma hér og full ástæða til að nota tækifærið og óska nýkjörinni forustu beggja flokka hjartanlega til hamingju með þeirra vandasama verkefni.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn kaus um helgina að fækka svo valkostum sínum sem raun ber vitni hefur vakið mörgum undrun (Gripið fram í.) en það þarf ekkert að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka svo einbeitta stefnu á stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn eins og raun ber vitni þegar horft er til þeirrar málefnastöðu sem flokkurinn hefur tekið sér.

Því miður virðist forustusveit hans nú ekkert hafa lært af hruninu. Hugur hans virðist fyrst og fremst standa til þess að hverfa aftur til þeirrar fortíðar sem hann þekkti fyrir hrun, helmingaskiptastjórnar með Framsóknarflokknum um verkefnin að lækka skatta, þegar ríkissjóður hefur ekki efni á því, bjóða ís fyrir alla og mamma borgar, þegar mamma hefur ekki efni á því, hverfa frá því að auka erlent samstarf Íslands sem að steðjar einangrunarhætta og boða stórfelld áform um sölu almenningseigna, þ.e. Landsvirkjunar — og hver veit nema þá langi líka til að komast í að einkavæða Landsbankann aftur?

Ég vona sannarlega að þessi sýn verði ekki ofan á næstu missirin í íslenskum stjórnmálum því að martröðin sem samstarf þessara tveggja flokka er í nýlegri sögu okkar er með þeim hætti að það er full ástæða til að varast hana. Það verður líka að efast um að sá ágæti miðjuflokkur Framsóknarflokkurinn sé jafnáfjáður í að verða hinn óvinsæli samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins í (Gripið fram í.) verkunum eins og hann áður var og hafði sína bitru reynslu af. (Gripið fram í.)



[13:53]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mér heyrðist hv. þm. Helgi Hjörvar tala eins og hann hefði ekki verið í ríkisstjórn fyrir hrun. Ég man ekki betur en að það hafi staðið í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, og hafi verið hamrað á því, að ekkert mætti gera til að koma í veg fyrir útrásina svokölluðu. Það átti að fóðra hana með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum. Tók ekki Samfylkingin mjög virkan þátt í því á sínum tíma? En nú er Samfylkingin einhvern veginn búin að ná að skola þetta af sér og er að reyna að láta líta út eins og hún hafi ekki tekið þátt í þessu stjórnarsamstarfi á sínum tíma. Þar ber auðvitað hv. þm. Helgi Hjörvar mjög ríka ábyrgð líka því að hann var ein helsta klappstýra útrásarinnar, studdi á sínum tíma foringja sinn til að fara til Evrópu vegna þess að ímyndarvandi hafi verið eina vandamál íslenska bankakerfisins. Það væri ágætt ef hv. þm. Helgi Hjörvar rifjaði þetta upp, bæði fyrir okkur sem hér erum og eins kannski fyrir sjálfan sig.

Af því að Evrópusambandsumsóknin barst hér í tal vil ég segja að það er mjög athyglisvert að Samfylkingin skuli einangra sig svona í þessum málum. Staðreyndin er sú að meiri hluti þjóðarinnar er mjög andsnúinn ESB-aðild. Sé rýnt í síðustu skoðanakannanir er athyglisvert að bæði innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru færri sem vilja ganga í Evrópusambandið en eru andsnúnir ESB-aðild innan Samfylkingarinnar. Helmingi fleiri kjósendur Samfylkingarinnar eru andsnúnir ESB-aðild en fylgjandi því innan Framsóknarflokksins, bara svo dæmi sé tekið. Ef einhver flokkur er að einangra sig í stjórnmálunum í dag hlýtur það að vera flokkur sem einblínir svo á þetta mál á stefnuskrá sinni að ekkert annað kemst að.

Við heyrðum það hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram hér áðan, hann útilokaði það að eiga samstarf við nokkurn flokk nema þetta mál héldi áfram. Svo gera menn grín að öðrum (Forseti hringir.) fyrir það að hugsa bara um eitt mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að Samfylkingin er stofnuð um eitt mál og það er bara eitt mál sem heldur flokknum saman. Ekkert annað kemst að, ekkert um skuldamál eða atvinnumál. Það er bara eitt mál og það er ESB. Það er dapurlegt fyrir jafnaðarmannaflokk Íslands.



[13:55]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð merkilegt að hlusta á ræður þingmanna í dag, sérstaklega þingmanna Samfylkingarinnar, eftir að öllum landsfundum og flokksþingum flokkanna er lokið. Nú hefur komið í ljós að Samfylkingin hefur algjörlega einangrast í íslensku samfélagi varðandi ESB-umsóknina. Við vitum að Vinstri grænir koma líklega ekki til með að ná sér á strik fyrir kosningar þrátt fyrir að þeir hafi skipt um mann í brúnni og séu komnir þar með konu. Ég óska hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með formennskuna.

Það eru greinilega kosningar í nánd. Samfylkingin hefur alveg steingleymt því að hún hefur átt sæti í ríkisstjórn í sex ár. Hún fór inn í ríkisstjórn 2007. Það er nokkuð eins og tár í tómið hvernig þingmenn flokksins tala hér í dag. Mjög einkennileg staða er komin upp í íslenskri pólitík og á sér líklega ekki fordæmi að formenn ríkisstjórnarflokkanna sitji mjög áhrifalitlir hjá. Við vitum að hæstv. atvinnuvegaráðherra er nánast búinn að sölsa undir sig öll ráðuneytin sem voru í boði og hefur nú látið af formennsku í Vinstri grænum og Samfylkingin hefur kosið sér formann sem á ekki einu sinni sæti í ríkisstjórn. Þetta er einkennileg staða og til að varpa enn frekar ljósi á þá ringulreið sem á sér stað innan ríkisstjórnarinnar birtist hæstv. innanríkisráðherra í fréttum í gær og bendir á Alþingi Íslendinga þegar hann treystir sér ekki til að uppfylla lög sem sett eru á Alþingi. Þá er ég að vísa í það þegar Alþingi löggilti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ungir fangar (Forseti hringir.) mega ekki sitja í fangelsi með fullorðnum.

Svona er heimurinn lítill og skrýtinn í lífi þessarar ríkisstjórnar og til að kóróna allt saman tekur hæstv. innanríkisráðherra sér dagskrárvald þingsins með því að taka (Forseti hringir.) forvirkar rannsóknarheimildir af dagskrá.



[13:58]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að blanda sér í þessa umræðu, enda er ánægjulegt að við jafnaðarmenn tökum þátt í umræðu við andstæðinga okkar í stjórnmálum um stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu, aðild að Evrópusambandinu.

Valið er skýrt í næstu kosningum. Það hefur komið skýrt fram í ræðum þingmanna í dag. Vilji menn áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið og fá að taka afstöðu til samnings kjósa þeir jafnaðarmannaflokk Íslands. (Gripið fram í.) Vilji menn hætta viðræðum eiga þeir að kjósa eitthvað annað. (Gripið fram í: Hvað með að kjósa Vinstri græna?)

Raunhæfasta leiðin til að létta á vaxtabyrði heimila í landinu og hjálpa skuldugum heimilum er að skipta um mynt. Besta leiðin til að auka verðmætasköpun í landinu, besta leiðin til að auka útflutning og samkeppnisstöðu fyrirtækjanna er að taka upp nýja mynt. Þess vegna viljum við jafnaðarmenn setja Evrópusambandið á oddinn. Það er þess vegna sem við jafnaðarmenn erum að gera þetta að kosningamáli. Ég þakka hv. sjálfstæðismönnum kærlega fyrir, ályktun þeirra um helgina gerði Evrópusambandsaðild að kosningamáli næstu kosninga. Nú hafa kjósendur algjörlega skýra kosti. (REÁ: Í þágu heimilanna.)

Vilja þeir styðja Sjálfstæðisflokkinn og loka á stærsta hagsmunamál fyrirtækja í landinu eða vilja þeir styðja jafnaðarmenn og fá að taka afstöðu til fullgilts samnings? Ég spyr í ofanálag: Er einhver spenntur fyrir því að styðja flokk sem ætlar að lækka skatta á þá sem eiga mest og þéna mest? (Gripið fram í: Þú ert líka …) Það finnst mér ekki hyggileg leið þegar ríkissjóður á ekki fyrir þeim útgjöldum sem hann stendur frammi fyrir. (Gripið fram í: Þú ert illa …) Þess vegna segi ég: Það er hyggilegra ef menn vilja hjálpa skuldugum heimilum og sjá leið út úr vandanum að styðja við bakið á jafnaðarmönnum því að þeir eiga einu raunhæfu leiðina út úr þeim vanda sem Ísland stendur frammi fyrir. (Gripið fram í.) Leið sjálfstæðismanna er að loka og einangrast, það er leið harðlínuaflanna og þá leið geta frjálslyndir ekki stutt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:00]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. ESB, stutt og laggott, auðvitað á að klára viðræðurnar og leyfa þjóðinni síðan að kjósa. Það er mín skoðun. (Gripið fram í.) Ég er í Sjálfstæðisflokknum og það dásamlega við frelsið er að það felur einmitt í sér umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. (Gripið fram í.) Ég sætti mig við það að þetta varð niðurstaða [Hlátur í þingsal.] landsfundarins, en þetta er bara svona.

Ég bið menn einfaldlega að skoða heildarmyndina. Ef það er frjálslyndi að herða höftin sem aldrei fyrr, ef það er frjálslyndi að skilja við heilbrigðiskerfið þannig að það þurfi á rústabjörgun að halda, ef það er frjálslyndi að hækka skatta meira en 100 sinnum, ef það er frjálslyndi að brjóta stjórnsýslulögin bara út af hreinni og klárri pólitík, ef það er frjálslyndi að ráðherrar brjóti jafnréttislögin ítrekað, ef það er frjálslyndi að skila auðu í skuldamálum heimilanna og ef það er frjálslyndi að hafa það að markmiði að kollvarpa stjórnarskrá Íslands má hv. þm. Magnús Orri Schram eiga þetta frjálslyndi fyrir mér. (Gripið fram í: Það var lagið.)



[14:01]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér var vitnað til viðskilnaðar við heilbrigðiskerfið, en hvernig skildi Sjálfstæðisflokkurinn við íslenskt samfélag haustið 2008? (Gripið fram í: Með Samfylkingunni.) Hvernig er nú slóðin sem við höfum fyrir augunum? Ætli sporin hræði ekki aðeins þegar kjósendur þurfa að gera það upp við sig í næstu kosningum hvaða leið þeir vilja fara inn í framtíðina? Aldrei var ójöfnuður meiri, aldrei var óráðsían og yfirgangurinn í samfélaginu meiri, auðlindir muldar undir sérhagsmunaöfl, stórkostlegar lántökur til áhættuviðskipta settar í eignarhaldsfélög og síðan afskrifaðar.

Stjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins er eins og kraðakið á bílastæðinu fyrir framan landsfund flokksins um síðustu helgi þar sem hver og einn reyndi að ota sínum tota og enginn gat virt þær reglur sem giltu. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Samfylkingin býður hins vegar annan valkost, hún hefur sýnt kjark til að breyta, til að innleiða nýtt skattkerfi, auka jöfnuð í samfélaginu, lækka skattbyrði tekjulægstu hópanna, auka hagvöxt, vinna á atvinnuleysi og mæta ungum fjölskyldum í greiðsluvanda.

Samfylkingin hefur líka þann kjark að halda inni á dagskrá umræðunni um framtíð okkar sem þjóðar í samfélagi þjóðanna og í hvaða umhverfi við ætlum að lifa og starfa og bjóða komandi kynslóðum að lifa og starfa. Eins og hæstv. utanríkisráðherra orðaði það svo ágætlega hér um daginn: Krónan er þyngsti skatturinn eins og sakir standa. Við höfum sett á okkar dagskrá líka að samþykkja nýjan samfélagssáttmála eftir allt sem gerðist hér 2008 með samþykkt nýrrar stjórnarskrár og skera upp til dæmis kvótakerfið, þetta meingallaða forréttindakerfi. (Forseti hringir.) Gegn þessu ólmast Sjálfstæðisflokkurinn núna sem aldrei fyrr og það er kannski skýrasti vitnisburðurinn um það hvernig sporin hljóta að hræða kjósendur í næstu kosningum. (Forseti hringir.)