141. löggjafarþing — 89. fundur
 6. mars 2013.
uppbygging á Bakka.

[10:52]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að velkjast í vafa um það að ein stærstu mistök á þessu kjörtímabili eru þau hvað ríkisstjórninni hefur tekist illa að koma í gang atvinnu- og verðmætasköpun í samfélagi okkar. Við sjáum það endurspeglast í því þegar ríkisstjórnin leggur núna fram eins konar óskalista um átak í velferðarmálum og gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna er verið að gefa út einhver loforð sem engir fjármunir eru til að standa við. Það má auðvitað rekja til þess að hér hefur ekki orðið sú tekjumyndun og sú verðmætasköpun sem skapar aukin umsvif í samfélaginu.

Ríkisstjórnin hefur staðið gegn uppbyggingu atvinnutækifæra á kjörtímabilinu. Skemmst er að minnast þess þegar Alcoa hætti við framkvæmdir á Bakka. Meiri hlutinn hér í þingsal klappaði þegar það var tilkynnt. Ég hygg að hæstv. umhverfisráðherra hafi verið í þeim hópi.

Nú eru kynnt til sögunnar ný verkefni á Bakka og ég fagna því út af fyrir sig. En við erum að horfa þar á fjárfestingu sem nemur um fimmtungi af þeirri fjárfestingu sem Alcoa ætlaði að standa fyrir og ríkisstjórnin neitaði að skrifa undir samstarfssamning um að halda áfram með. (Gripið fram í.) Innviðafjárfestingin er sennilega upp á tæpa 4 milljarða (Gripið fram í.) sem öll mun lenda á ríkissjóði vegna þess að verkefnið er svo lítið í fjárfestingu að það stendur ekki undir sér. Rúsínan í pylsuendanum er sú að starfsemin sem ríkisstjórnin hyggst núna setja upp á Bakka mengar fimm sinnum meira á hvert framleitt tonn en álverksmiðja gerir. (MÁ: Ertu á móti þessu?) Ég er mjög hlynntur þessum framkvæmdum, en ég vil inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort hún sé sátt við þá fyrirætlan að fá þarna verksmiðju sem mengar fimm sinnum meira á hvert framleitt tonn. (Forseti hringir.) Ríkissjóður þarf að standa undir innviðafjárfestingunni og fjárfestingin og útflutningsafurðirnar eru margfalt minni en af þeirri framkvæmd sem hún (Forseti hringir.) sat hér í stól ásamt meiri hlutanum á þingi og klappaði fyrir að hætta var við. (Gripið fram í: … fjölbreytni … )



[10:54]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst leiðrétta hv. þingmann. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti og væntanlega heldur ekki það síðasta sem hann talar um að þessi ríkisstjórn hafi staðið gegn atvinnutækifærum. Það er náttúrlega óboðlegt að hv. þingmaður komi ítrekað hingað upp með svona tuggur sem eru innstæðulausar með öllu. Ég tala nú ekki um þegar hann hefur hér eftir einhverjar lýsingar á atferli einstakra þingmanna og hverjir hafi klappað saman lófunum og hverjir ekki. Ég bið hann að halda sig við staðreyndir í þeim málum eins og öðrum sem væri sjálfsagt krefjandi fyrir hv. þingmann að tileinka sér.

Varðandi það verkefni á Bakka sem hv. þingmaður nefnir þá liggur það fyrir, eins og hann tekur fram, að hér er um að ræða mengandi starfsemi eins og gildir að jafnaði um stóriðju af öllu tagi. Það gildir líka vegna þeirra lagasetninga sem við höfum undirgengist í samræmi við EES-samninginn að viðkomandi starfsemi þarf að undirgangast þá löggjöf með því að kaupa loftslagsheimildir á markaði í Evrópu og í raun og veru þarf að gera það í samræmi við þá löggjöf og það regluverk. Það breytir því engu um það í sjálfu sér að þessi starfsemi þurfi að undirgangast þann ramma.

Það er auðvitað hárrétt sem hv. þingmaður segir að þarna er um að ræða gríðarlega mikið framlag úr opinberum sjóðum, sjóðum almennings. Það þarf að staldra verulega við þegar um slíkt er að ræða, en hér hefur ítrekað verið bent á að um sé að ræða fleiri störf á hvert megavatt en í álframleiðslu. (Forseti hringir.) Það ætti út af fyrir sig að vera eftirsóknarvert en það eru margir þættir sem þarf að huga að.



[10:57]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru engar innstæðulausar tuggur þegar ég held því fram að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið í vegi fyrir framgangi hér í atvinnulífinu. Það má bara nefna Helguvík þar sem þeir sem komu að þeim málum hafa ítrekað staðfest að þannig var málum háttað. Við horfðum upp á það með Bakka þegar ríkisstjórnin neitaði að vinna áfram með Alcoa að stórkostlegum fjárfestingum á því svæði og sendi fyrirtækið burtu. Við sjáum það birtast í rammaáætluninni (Gripið fram í.) þar sem ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir eðlilegum framgangi mála með niðurstöðu sinni. (MÁ: … hvalveiðunum.) Fjárfestingarsviðið á Íslandsstofu hefur margítrekað sagt okkur að tækifærin á þessu kjörtímabili hafi verið meiri en nokkru sinni áður en þeir hafi ekki getað gefið nein svör. Það eru engar innihaldslausar tuggur þó að hv. þm. Merði Árnasyni líði illa með það ásamt hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) — Það má segja, já, það þarf að kaupa loftslagsheimildir. Öll starfsemi þarf að gera það í dag. Alcoa hefði líka þurft að gera það. (Forseti hringir.)

Og að þetta verkefni skapi fleiri störf á hvert megavatt — hvað með framleiðsluverðmætin og mengunina? Ég er ekki að gera lítið úr verkefninu, ég er mjög sáttur við það (Forseti hringir.) að við skulum loksins stíga einhver skref, ég er bara að sýna fram á fáránleg vinnubrögð (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar og hvað hún situr svo uppi með á endanum.



[10:58]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Enn leyfi ég mér að koma hér með væntingar þess efnis að hv. þingmaður byggi málflutning sinn á staðreyndum. Að halda því fram að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi staðið í vegi fyrir Helguvík, sem hv. þingmaður ræðir hér með tárin í augunum vegna þess að hann er enn þeirrar skoðunar að öll eggin eigi að vera í sömu körfunni þó að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi meira að segja ályktað um fjölbreytt atvinnulíf, þá er hann dálítið (Gripið fram í.) á eftir sínum félögum í þeim efnum, virðist vera. (JónG: Ég hef aldrei sagt það.)

Spurning er veruleikinn, hv. þingmaður: Hvar er orkan sem á að fóðra það álver sem hv. þingmaður ber svo mikið fyrir brjósti, væntanlegt álver í Helguvík upp á 360 þús. tonna framleiðslu og 625 megavött af rafmagni? Hvar er sú orka? (JónG: Við skulum bara byrja að virkja.) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.)