141. löggjafarþing — 89. fundur
 6. mars 2013.
innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds.

[11:00]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Kannski væri ástæða til að hafa sérstakar umræður hér þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefði framsögu um aðskiljanleg áhugaefni sín. Það yrði fróðlegt og skemmtilegt.

Það sem ég ætlaði að ræða um er innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds og spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig því sé háttað þegar fyrirtæki, launagreiðendur, greiða ekki tryggingagjald eða greiða aðeins hluta tryggingagjalds, og hvaða aðilar gera þetta. Ég veit að þetta er flókin spurning en ég vænti þess að ráðherrann hafi einhver svör. Minna má á að samkvæmt lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, var stigið það skref sem ég hygg að eigi sér ekki fordæmi í sögu tryggingagjaldsins, að veittur var eins konar afsláttur af því að fyrirtæki sem samið er við á grundvelli þeirra samninga, sem mér skilst að séu þrjú eða fjögur, þrjú virk stendur í þingskjali sem nýkomið er inn á þingið, þ.e. að gerðir hafi verið samningar við þau fyrirtæki á grundvelli þessa frumvarps og þau greiði þess vegna aðeins 80% af tryggingagjaldinu.

Ég get nefnt fleiri dæmi og annað þingskjal sem er komið hingað inn, en spurningin er í fyrsta lagi: Þykir fjármálaráðherra þetta æskileg þróun? Í öðru lagi: Hvaða réttar njóta starfsmenn sem samkvæmt hinu almenna tryggingagjaldi eiga að njóta ákveðins réttar í starfsendurhæfingarsjóðum og Fæðingarorlofssjóði, að minnsta kosti, sem eru mjög mikilvægir sjóðir sem veita mikilvæg almenn réttindi?



[11:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann að spyrja um tryggingagjaldið og hvort einhverjar undanþágur séu frá því að greiða það og hvaða áhrif það hafi á starfsmenn viðkomandi launagreiðanda. Starfsmenn erlendra sendiráða eru til dæmis í þeirri stöðu að ekki er greitt fyrir þá tryggingagjald. Þeir geta hins vegar sjálfir skilað sínu tryggingagjaldi. Þetta er nokkuð sem við hv. þingmaður höfum rætt að væri hugsanlega hægt að laga með einhverjum hætti þannig að þeir nytu sama réttar og aðrir starfsmenn í landinu. Þetta þýðir að ef menn skila ekki tryggingagjaldi hafa þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum, ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sjúkratryggingum eða öðru slíku. Menn hafa hins vegar gert samninga sem fela það í sér að hluti af almenna hluta tryggingagjaldsins — það skiptist í tvennt, annars vegar atvinnutryggingahlutinn og hins vegar almenni tryggingahlutinn — hinn almenni tryggingahluti fjármagnaði fyrir um það bil tíu árum um 75% af almannatryggingum og fæðingarorlofi og öðru slíku. Í dag er sú tala hins vegar komin niður í rétt rúm 50%, ég man það ekki nákvæmlega.

Þarna hefur gliðnað þó nokkuð á milli og það hefur gerst vegna þess að hraðari breytingar hafa orðið og meiri hækkanir á þessum sviðum en gjaldið hefur fylgt. Þetta skoðuðum við töluvert í tengslum við gerð fjárlaganna.

Síðan hafa nokkur fyrirtæki fengið samninga á grundvelli til dæmis laga um ívilnanir og líka sérsamninga sem fela það í sér að af almenna tryggingagjaldinu, þ.e. ekki atvinnutryggingagjaldinu heldur hinu, verði veittur afsláttur tímabundið á meðan fyrirtæki eru að koma sér fyrir og koma rekstri sínum af stað.

Ég tel mjög æskilegt að gera þetta, þ.e. að menn tryggi með einhverjum hætti (Forseti hringir.) að hingað komi fjárfesting og veiti ívilnanir tímabundið. Við höfum svo sem verið sammála um að gera það í þessum sal hingað til.



[11:04]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir að ráðherrar geta ekki í óundirbúnum fyrirspurnum svarað öllum spurningum sem til þeirra er beint, en sú spurning sem ég spurði fyrst og fremst var hvað gerðist með starfsmennina. Við vitum hvað gerist með starfsmenn í sendiráðum, þeir sem þar vinna aðrir en diplómatar, Íslendingar fyrst og fremst hér, að þeir þurfa sjálfir að reiða fram tryggingagjaldið til þess að njóta þeirra réttinda sem í því felast, meðal annars af starfsendurhæfingarsjóðum og Fæðingarorlofssjóði. En hvernig er þetta hjá þeim þremur, fjórum fyrirtækjum sem hafa samninga samkvæmt lögum nr. 99/2010, og þeim öðrum sem hafa sérsamninga?

Svo að ég spyrji, með leyfi forseta, beint upp úr plaggi frá fjármálaráðuneytinu: „Ein spurningin sem vaknar í þessu sambandi snýr að því hvort undanþágan hafi áhrif á réttindi starfsmanna fyrirtækisins til þeirra velferðartrygginga og þjónustu sem gjaldinu er ætlað að fjármagna.“ Þetta er spurningin og ég vona að ráðherra geti svarað henni en get auðvitað spurt aftur ef það er ekki hægt.



[11:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Forseti. Svarið er einfaldlega svona, ríkið er að taka það á sig af því að verið er að veita ívilnanir, verið er að veita afslátt af almenna hluta tryggingagjaldsins til þess að koma fjárfestingu af stað, hvað svo sem um ræðir. Það á við um almennu löggjöfina um ívilnanir og það á líka við um einstaka samninga sem gerðir hafa verið utan hennar. Það snýst einfaldlega um að ríkið sér tímabundið alfarið um, eða að hluta til eins og þarna kemur fram, þessa aðila og réttindi þeirra, þ.e. að öðru leyti en því sem snýr að því ef þeir missa vinnuna. Þetta er eitthvað sem hefur alveg legið klárt fyrir að vilji hefur verið til að gera tímabundið. Þetta eru tíu ára samningar, flestir, sem gerðir eru í gegnum almennu löggjöfina. Einn sem liggur núna fyrir þinginu er 14 ára, aðrir eldri samningar hafa varað lengur. Þarna er um að ræða tímabundnar ívilnanir eins og skattaívilnanir líka að öðru leyti. Starfsmennirnir hafa samt rétt til skólagöngu eða senda börnin sín í skóla og keyra hér um á vegunum eins og aðrir. (Forseti hringir.) Þetta er gert markvisst til þess að örva fjárfestingu í landinu og þá er farið svona með almannahluta tryggingagjaldsins eins og tekjuskatt og aðra afslætti sem veittir eru.