141. löggjafarþing — 90. fundur
 6. mars 2013.
afbrigði um dagskrármál.

[17:33]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er lagt til að við veitum afbrigði svo við getum rætt frumvarp og þingsályktunartillögu um mál sem við höfum verið að vinna að síðustu fjögur ár. Ég tel það óþarft og mæli með því að þingheimur samþykki ekki afbrigðin og greiði atkvæði gegn þeim.



[17:34]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er verið að ganga til atkvæðagreiðslu um mjög sérkennileg mál sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en einhvers konar órum flytjenda málanna, þar sem talað er um að menn gangi tárvotir til þjóðaratkvæðagreiðslu 17. júní árið 2014 um nýja stjórnarskrá. Þetta er stór smjörklípa sem á rætur sínar að rekja til formanns Bjartrar framtíðar og formanns Samfylkingarinnar til þess að dreifa huganum frá því að verið er að jarða stjórnarskrána í dag. Það er ömurlegt að verða vitni að þjóðþingi sem starfar á þessum nótum og það á að sjálfsögðu alls ekki að hleypa þessum málum á dagskrá í dag. Það er til háborinnar skammar ef þau verða á dagskrá.



[17:35]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Mig langar að vekja athygli þingheims og þjóðar á því að með því að greiða atkvæði með þessum afbrigðum erum við að reka líkkistunaglann í nýja stjórnarskrá sem samþykkt var að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu af 35 þingmönnum. Hvar eru þessir þingmenn? Af hverju eru þeir tilbúnir til þess að gera þennan ófögnuð og eyðileggja nýja stjórnarskrá eins og hún var lögð fram nýlega? Ég mun segja nei.



[17:35]
Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef litið á þau tvö mál sem þarna eru fram lögð. Ég tel ekki að líklegt sé að ég muni styðja þau, en ég styð að þau komi á dagskrá þingsins og mun því segja já við þessum afbrigðum.



[17:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það verður að játast eins og er að þingmönnum er nokkur vandi á höndum þar sem ljóst er að þetta mál sem allt snýst um er vitanlega komið í skrúfuna, eins og menn gjarnan segja. Mér sýnist að verið sé að gera tilraunir til þess að leiða málið til lykta með einhverjum hætti. Ég er ekki sáttur við þá vegferð sem stjórnarflokkarnir eru að fara í málinu, það er alveg ljóst. Við áttum okkur í rauninni ekki á því hvers vegna þarf að fara þessa leið, að taka mál inn með afbrigðum, þannig að að sumu leyti höfum við skilning á rökum þeirra sem eru á móti þessum afbrigðum. Að sama skapi hefur það tíðkast í þinginu að liðka til fyrir þingstörfum, þar af leiðandi munum við sitja hjá við þessi afbrigði. Með því erum við að lýsa óánægju okkar með það hvernig haldið hefur verið á þessu máli.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:37]

Of skammt var liðið frá útbýtingu 1. og 2. dagskrármáls. — Afbrigði samþ. með 25:3 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BÁ,  BVG,  GÞÞ,  HHj,  IllG,  JóhS,  JRG,  KJak,  KÞJ,  LRM,  LME,  MSch,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  SER,  SJS,  UBK,  ÖS.
nei:  BirgJ,  MT,  ÞSa.
6 þm. (ÁsmD,  EyH,  GBS,  LGeir,  SDG,  SIJ) greiddu ekki atkv.
29 þm. (AtlG,  ÁJ,  BJJ,  BjarnB,  BjörgvS,  EKG,  GuðbH,  GStein,  HöskÞ,  JBjarn,  JónG,  KaJúl,  LMós,  MÁ,  ÓGunn,  REÁ,  RR,  RM,  SII,  SF,  SkH,  SSv,  TÞH,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ) fjarstaddir.

Of skammt var liðið frá útbýtingu 5. dagskrármáls. — Afbrigði samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BÁ,  BVG,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  IllG,  JóhS,  JRG,  KJak,  KÞJ,  LRM,  LME,  LGeir,  MSch,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  SDG,  SER,  SIJ,  SJS,  UBK,  ÖS.
3 þm. (BirgJ,  MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
29 þm. (AtlG,  ÁJ,  BJJ,  BjarnB,  BjörgvS,  EKG,  GuðbH,  GStein,  HöskÞ,  JBjarn,  JónG,  KaJúl,  LMós,  MÁ,  ÓGunn,  REÁ,  RR,  RM,  SII,  SF,  SkH,  SSv,  TÞH,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fimmta dagskrármálið snýst um breytingar á heildarlögum slysatrygginga almannatrygginga. Þetta er hefðbundið mál sem kemur inn til Alþingis og þarf að taka á dagskrá með afbrigðum þannig að nú erum við á græna takkanum.



[17:38]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Sömu rök gilda hjá okkur sjálfstæðismönnum. Ég vil ítreka að löng hefð er fyrir því hér að segja já við því að afbrigðum sé beitt og á það sama við í þessu máli eins og því sem var greitt atkvæði um fyrir skömmu.