141. löggjafarþing — 90. fundur
 6. mars 2013.
stjórnarskipunarlög, frh. 1. umræðu.
frv. ÁPÁ o.fl., 641. mál (tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskrá). — Þskj. 1139.

[20:00]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram hér í dag og samþykkt að taka á dagskrá með afbrigðum. Við þekkjum forsögu þessa máls, innan þingsins eru raddir sem krefjast þess að allri stjórnarskránni verði umbylt. Sem betur fer hafa menn nú hætt við þau áform, eins og ég skil tíðindi dagsins, og leggja þess í stað fram það mál sem við ræðum hér og nú. Ég hef haldið því fram lengi að þetta mál, breytingin á stjórnarskránni, hafi verið í miklum ógöngum og að menn hafi ekki lagt það niður fyrir sér, þeir sem voru að reyna að bera þetta mál hér uppi, með hvaða hætti þeir ætluðu að klára það í þinginu. Ég hef ítrekað kallað eftir því í forsætisnefnd á undanförnu einu og hálfu til tveimur árum að gefin yrði út og okkur yrði færð í hendur tímaáætlun um það með hvaða hætti menn ætluðu að halda á þessu máli í gegnum þingið. Sú tímaáætlun kom aldrei og svo fór, sem allir þekkja, að mál þetta strandaði uppi á skeri.

Frú forseti. Við lítum yfirleitt á stjórnarskrána okkar sem klettinn í hafinu, grunninn að samfélagi okkar, grunninn að þeim reglum sem við síðan innleiðum með almennri löggjöf. Það á aldrei að vera þannig að sá klettur og sú kjölfesta sem stjórnarskráin er verði undir þeim skilmálum að hægt sé að sveifla henni til og breyta eftir því hvernig stemningin er í samfélaginu dag hvern. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa stífar þær reglur sem gilda um breytingar á stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Lítill ráðandi þingmeirihluti á hverjum tíma eða minni hluti kjósenda á ekki að geta stjórnað því og komið í gegn veigamiklum stjórnarskrárbreytingum. Þetta ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæði um það með hvaða hætti við breytum stjórnarskránni, er eitt mikilvægasta ákvæði hennar og þess vegna notaði ég nánast allan minn tíma í umræðu um heildarbreytingar á stjórnarskránni sem menn reyndu að keyra hér í gegn í að tala um það.

Þess vegna hef ég mikinn áhuga á að ræða um það frumvarp sem hér birtist okkur. Ég hef á því sterkar skoðanir sem ég hef áhuga á að komi fram.

Við þekkjum núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um það með hvaða hætti á að breyta henni. Tvö þing þurfa að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og það er erfitt að breyta stjórnarskránni. Það er vegna þeirra kenninga sem ég vísaði hér til sem hafa verið ríkjandi í stjórnskipunarrétti um að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er sammála því grundvallarsjónarmiði. Þau ríki sem búa við stjórnarskrárbundið lýðræði og hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er vandað mjög til þess með hvaða hætti eigi að setja stjórnarskrá og hvernig hægt sé að breyta henni. Þeim ákvæðum og þeim stífu reglum er ætlað að stuðla að því að það náist sem breiðust samstaða og sátt meðal þeirra sem hafa það hlutverk að setja stjórnarskrá og meðal þjóðarinnar um stjórnarskrárbreytingar. Og það er vegna þess að þetta er grundvöllurinn, vegna þess að stjórnarskráin er kjölfestan og vegna þess að með þessum hætti er stuðlað að því að sem flestir geti samsamað sig þeim breytingum sem gerðar eru á stjórnarskrá, að sem flestir séu sammála þeim breytingum.

Í umræðu um stjórnarskrána á þessu kjörtímabili hefur oft verið fullyrt að henni hafi aldrei verið breytt. Það er sögð svo mikil íhaldssemi í þinginu og að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo tregur í taumi að aldrei nokkurn tímann hafi verið hægt að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er rangt. Ef menn skoða söguna sést að stjórnarskránni hefur margoft verið breytt. Í öll þau skipti hefur það verið gert þannig að það hefur verið reynt að ná pólitískri samstöðu í þinginu um breytingarnar. Menn hafa þurft að setjast saman yfir hlutina til að eiga einhverja von um að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum, koma þeim í gegnum tvö þing, boða til kosninga þeirra á milli, áður en breytingarnar taka gildi. Þetta hefur veitt Alþingi það mikið aðhald að menn hafa tekið yfirvegaðar ákvarðanir. Ég held að þetta sé gott fyrirkomulag og ég held að reynslan af þeim hamförum og æsingi sem síðast birtist okkur í umræðunum hér í dag, þeirri gríðarlegu heift sem hefur verið í þessari umræðu, sýni okkur að við verðum að hafa þessa stífu reglu. Við eigum að hafa stífa reglu þannig að tíðarandinn og skapið hlaupi ekki með menn í gönur, að menn láti ekki stjórnast af einhverjum öðrum hagsmunum en akkúrat þeim að reyna að ná yfirvegaðri sátt um grundvöllinn og kjölfestuna í samfélaginu, samfélagssáttmála okkar, stjórnarskránni. Reynslan, sérstaklega í vetur og á þessu kjörtímabili, á að sýna okkur þetta.

Ég fjallaði örlítið um það í ræðu minni um stjórnarskrárbreytingarnar til hvaða sjónarmiða væri helst hægt að líta varðandi 79. gr. Það þarf að tryggja að lítill hluti þjóðarinnar geti ekki ráðið því hvernig stjórnarskráin er. Ég er í sjálfu sér ánægð með að það frumvarp sem hér liggur fyrir er öðruvísi en sú breyting og tillaga sem stafaði frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við 2. umr. málsins og tel að sú umræða sem fór fram við þá umræðu hafi skilað sér. Við sjáum þess stað að það er einhver viðleitni í þessari tillögu til að hafa háa þröskulda, a.m.k. einhverja þröskulda. Fjölmargir umsagnaraðilar tjáðu sig um 79. gr., þ.e. breytingarákvæðið í frumvarpinu sem var hér til umræðu, og tóku þar til hvaða sjónarmið það eru helst sem líta þarf til.

Í fyrsta lagi þarf að líta til þess að stöðugleiki og festa verði áfram grundvöllurinn í stjórnskipuninni og þá þarf að tryggja að háværir minnihlutahópar geti ekki stjórnað umræðunni. Við þekkjum það og höfum orðið vitni að því undanfarin ár hvernig fjölmiðlar hafa náð að stýra athygli fólks og stýra umræðu um ákveðin mál. Við þekkjum að það er hægt að hafa gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag með miklum áróðri í gegnum fjölmiðla. Við verðum að passa okkur á því að skapa ekki þannig umgjörð um stjórnarskrána okkar að það sé á stuttum tíma hægt að ráðast í gagngerar breytingar án þess að nægileg yfirsýn og yfirvegun komi til, án þess að reynt sé að ná samstöðu um þær breytingar. Það fyrirkomulag að aðeins þurfi eitt þing til að ná saman breytingum á stjórnarskrá tekur í raun úr sambandi það mikilvæga verkfæri sem ýtir okkur hér, þingheimi, bæði fyrir og eftir kosningar til að ná samstöðu og sátt. Breið sátt á að vera grundvöllurinn að breytingum á stjórnarskrá.

Jafnframt hefur komið fram hjá þeim umsagnaraðilum sem gerðu athugasemdir á fyrri stigum málsins að ef menn vilja láta fara fram sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sé rétt að hafa þröskuld á þann hátt að krafist sé lágmarksþátttöku. Þegar stjórnarskráin var samþykkt árið 1944 var það skilyrði sett að meiri hluti kjósenda þyrfti að mæta á kjörstað til að samþykkja breytingarnar. Það kemur jafnframt fram í umsögnum að danska fyrirkomulagið er þannig að meiri hluti þeirra sem taka þátt og að minnsta kosti 40% kjósenda á kjörskrá þurfi að samþykkja breytinguna. Hér er þröskuldur sem ég tel að þeir menn sem leggja fram þetta frumvarp hefðu betur litið til.

Í því frumvarpi sem við ræðum er enginn þröskuldur um það hversu stór hluti þjóðarinnar þurfi að taka þátt, heldur er einungis áskilið að 3/5 greiddra atkvæða samþykki frumvarpið. Mér finnst þetta allt of lágur þröskuldur. Ef menn ætla að gera breytingu á 79. gr. verða menn að setja þröskuld varðandi þátttöku. Ég kalla eftir umræðu um það af hverju menn telji nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp. Af hverju eiga einhverjar aðrar leikreglur að gilda um stjórnarskrána okkar til 30. apríl 2017? Hver eru nákvæmlega rökin fyrir því? Ég hef ekki heyrt þau, ég hef ekki séð þau og það eina sem ég get ímyndað mér er það að menn eru að reyna að leggja fram eitthvert mál til að segja að þeir hafi þó náð fram einhverjum breytingum á stjórnarskránni. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að mér finnst í ljósi reynslunnar hér í vetur og allt þetta kjörtímabil ljóst að við þurfum aga í þinginu. Við þurfum aðhald til að knýja okkur til þess að vinna saman að stjórnarskrárbreytingum til að ná fram þeirri hugsun, og halda henni, að það eigi að ríkja sem mest sátt um stjórnarskrárbreytingar. Þess vegna tel ég algjöran óþarfa að samþykkja þetta frumvarp og tel að ekki nokkur rök hafi komið fram fyrir því að það sé nauðsynlegt hér og nú að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Þess vegna mun ég ekki samþykkja það.

Ég verð hins vegar að segja að ég er mjög ánægð með að menn hafi séð ljósið varðandi þá furðulegu tillögu sem var hér í umræðunni og stafaði frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að það ættu að vera tvær aðferðir til að breyta stjórnarskránni. Það var afskaplega undarleg tillaga og til þess fallin að vekja mikinn rugling og skipta stjórnarskránni einhvern veginn upp í A- og B-hluta, þ.e. meira og minna mikilvæga kafla. Ég fagna því að hér eru ekki neinar æfingar í þá áttina.

Frú forseti. Hins vegar tel ég að ef við berum saman þá tillögu sem hér liggur frammi og núgildandi ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar fórnum við allt of miklu varðandi festu og kröfu um samstöðu með því að fara í einhverjar æfingar eins og hér er lagt til. Ég sé ekki ástæðu til þess og hef ekki heyrt rökstuðning fyrir því af hverju eitthvað annað ætti að gilda til 30. apríl 2017 en gilt hefur frá 1944. Ég tel einfaldlega að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eins og það er hafi uppfyllt þær kröfur og þá grundvallarhugsun sem almennt er í gildi í lýðræðisríkjum sem styðjast við stjórnarskrár, að það sé vandað mjög til verka við setningu og breytingar á stjórnarskrá og að ákvæðinu hafi tekist að stuðla að því að ná samstöðu og sátt um stjórnarskrárbreytingar og ekki bara meðal þeirra sem sitja í þessum sal heldur einnig meðal þjóðarinnar.

Ég fer ekki ofan af því að grundvallarreglur ríkisins og okkar, þjóðarinnar, varðandi stjórnarskrána eiga að taka sem minnstum breytingum, það á ekki að gera nema að yfirveguðu ráði og með þeim hætti að sem flestir geti samsamað sig þeim breytingum.

Frú forseti. Það verður spennandi að fylgjast með umræðunni hér, það verður spennandi að fylgjast með því með hvaða hætti þeir sem bera þetta mál fram rökstyðja nauðsyn á því að einfalda það hvernig við breytum stjórnarskránni, fella niður girðingar og þá grundvallarreglu að stjórnarskrárbreytingar skuli ekki gera nema að yfirveguðu ráði og að það sé fullreynt og reynt með öllum (Forseti hringir.) tiltækum ráðum að ná samstöðu og sátt um þær breytingar.



[20:15]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér er skyndilega við lok þings og raunar rétt fyrir kosningar komin fram alveg ný nálgun á þessi stjórnarskrármál. Það var svo sem orðið tímabært að menn viðurkenndu það sem hefur legið fyrir mjög lengi, að stóra stjórnarskrárfrumvarpið mundi ekki klárast á þessu kjörtímabili. Í fyrsta lagi er nú ekki meiri hluti fyrir því í þinginu og í öðru lagi er tíminn fyrir nokkru orðinn allt of skammur til að raunhæft væri að klára það í ljósi þess gríðarlega fjölda athugasemda sem borist höfðu frá sérfræðingum um ágalla á frumvarpinu. Enn er ekki búið að leysa úr þeim göllum öllum. Raunar hefur verið bætt inn aftur ýmsum göllum sem höfðu verið teknir út. En það er önnur saga, nú er loksins búið að viðurkenna það sem ekki mátti viðurkenna, væntanlega af ótta við vantrauststillögu. Þá er vantrauststillagan komin fram svoleiðis að þetta setur málið auðvitað alveg í nýja stöðu.

Hér er lagt til að bætt verði inn í stjórnarskrána nýju ákvæði um stundarsakir, bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá sem heimili breytingu á stjórnarskránni á miðju kjörtímabili. Þetta ber það með sér að eiga að verða einhvers konar redding vegna þess að menn féllu á tíma með vinnu við breytingar á stjórnarskránni.

Nú vil ég ítreka það sem ég hef svo sem nefnt alloft áður, það var algjör óþarfi að halda þannig á málum að menn féllu á tíma með breytingar á stjórnarskrá. Hér höfðum við fjögur ár til að fara í gegnum þessa vinnu og nokkur ár til að nýta þá vinnu sem kom út úr þjóðfundinum, vinnu stjórnlagaráðs og auðvitað þeirra sem hafa farið í gegnum stjórnarskrármálin áður. Sá tími var ekki nýttur. Málið var ekki sett aftur á dagskrá fyrr en ríkisstjórnin neyddist til að semja við Hreyfinguna til að halda sér gangandi, veita sér minnihlutavernd. Þá er þetta mál Hreyfingarinnar allt í einu dregið upp aftur — eða nálgun Hreyfingarinnar skulum við segja því að málið sem slíkt, breytingar á stjórnarskrá, varðar náttúrlega alla flokka. Nálgun Hreyfingarinnar var sett á dagskrá löngu eftir að allir tímafrestir voru útrunnir þegar ríkisstjórnin þurfti að leita eftir stuðningi Hreyfingar. Fyrir vikið hefur þetta mál allt verið mjög markað af því. Afraksturinn sjáum við núna, það er búið að fresta stóra málinu, breytingum á stjórnarskránni, og í staðinn er verið að reyna að koma í gegn einhvers konar reddingu til að hægt sé að halda áfram með málið á næsta kjörtímabili eins og ekkert hafi í skorist.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að það er mikil samstaða um að halda beri áfram vinnunni við breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Það er spurning hvernig best sé að standa að því. Líkast til hefði verið æskilegt að menn reyndu meira að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig það er gert áður en þeir lögðu fram tillögu. Þó verður maður að hafa skilning á því að þegar svona fáir dagar eru eftir er ekki mikill tími til þess að velta vöngum.

Jæja, snúum okkur að afrakstrinum, þessari tillögu um tímabundið ákvæði sem heimili breytingar þannig að ekki þurfi kosningar á milli, breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þá grein mætti í raun kalla samstöðuákvæðið eða sáttaákvæðið í stjórnarskránni vegna þess að það er meðal annars til þess ætlað að neyða menn eða ýta þeim að minnsta kosti í það, þingmönnum ólíkra flokka, að ná víðtækri sátt um allar breytingar sem gerðar eru á stjórnarskrá með þá vitneskju að það koma kosningar og nýtt þing áður en breytingin er staðfest, þ.e. ef menn vinna ekki saman skapa þeir þá hættu að breytingarnar sem verið er að gera á stjórnarskránni verði að kosningamáli og að eftir kosningar muni nýr meiri hluti ekki staðfesta breytinguna. Þessi grein hefur því í raun gegnt því hlutverki að ýta á eftir sem víðtækastri sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Það er allt önnur nálgun en farin hefur verið á þessu kjörtímabili þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum. Það má þannig segja að þetta ákvæði, 79. gr. stjórnarskrárinnar sem hér er talað um að breyta til bráðabirgða, hafi sannað gildi sitt á þessu kjörtímabili. Með því að sniðganga þetta sáttaákvæði eru stjórnarflokkarnir búnir að eyðileggja málið fyrir sjálfum sér og öðrum með því að líta fram hjá mikilvægi þess að ná víðtækri sátt um málið.

Þá hlýtur maður að spyrja: Er eðlilegt framhald á því þegar sáttaákvæðið hefur sýnt fram á mikilvægi sitt að taka það úr sambandi fyrir næsta kjörtímabil? Hvaða skilaboð eru í því fólgin? Eru það þau skilaboð að menn vilji geta gert hlutina á næsta kjörtímabili á svipaðan hátt og á þessu, vilji ekki þurfa að ná hinni víðtæku sátt með því að gera tímabundna breytingu á 79. gr.? Þá mundu menn ef til vill benda á að engu að síður þurfi töluvert til að koma til að breytingin nái í gegn.

Með leyfi forseti stendur í 1. gr. frumvarpsins:

„Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Jú, jú, þarna er vissulega ákveðið ferli sem þarf að fara í gegnum sem er stærra en hefðbundnar lagabreytingar. En þá ber aftur að líta til sögu þess hvernig á málinu hefur verið haldið á þessu kjörtímabili þar sem ekki var lögð nein áhersla, heldur þvert á móti, á að ná víðtækri sátt um málið. Þess í stað var lagt ofurkapp á að keyra einhvers konar orðræðu í umræðunni í fjölmiðlum um það að þeir sem vildu gera breytingarnar eins og ríkisstjórnin vildi hafa þær — afsakið, frú forseti, nú fer ég ekki með rétt mál, þeir sem vildu gera breytingarnar eins og afmarkaður hluti stjórnarflokkanna vildi gera þær væru fulltrúar almennings og verðir lýðræðis en þeir sem vildu fara einhverja aðra leið eða hefðu eitthvað við þetta að athuga, vildu jafnvel bara gera lagatæknilegar breytingar í sumum tilvikum, voru í sumum tilvikum kallaðir óvinir alþýðunnar, að þeir færu gegn lýðræðinu.

Þetta hélt engu vatni en ofurkapp var lagt á þessa orðræðu. Og þá skoðar maður þá tillögu í því samhengi að hægt sé að breyta stjórnarskránni innan kjörtímabils en með þjóðaratkvæðagreiðslu. Maður veltir fyrir sér hvort hættan sé þá sú að sama leið verði farin aftur, að nýr meiri hluti í þinginu, sem við vitum ekkert hvernig mun líta út, verði þá í aðstöðu til að keyra málið í gegn og reka linnulausan áróður um að þeir sem hafi eitthvað við málið að athuga séu óvinir lýðræðis og reyna að tryggja því þannig fylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við sáum nefnilega hvernig þessum aðferðum var beitt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs sem reyndar voru ekki beinlínis tillögur stjórnlagaráðs heldur spurning um hvort leggja ætti þær tillögur til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þar var seilst mjög langt í því að draga upp mjög ranga mynd af ferlinu öllu. Það er að minnsta kosti, svo við höfum varann á, mjög umdeilanleg mynd eins og sást á því, svo ég nefni eitt dæmi, að forseti Íslands túlkaði áhrifin á embætti sitt og hlutverk forsetans þveröfugt við það sem margir af talsmönnum tillögunnar gerðu. (Utanrrh.: Og hann hafði rétt fyrir sér.) Og hann hafði rétt fyrir sér, kallar hæstv. utanríkisráðherra fram í. Ég er sammála því. En maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hætta á því að málið verði keyrt áfram á sama hátt næst, gerð sams konar tilraun. Er þá ekki betra að viðhalda sáttaákvæðinu í stjórnarskránni, ákvæðinu sem neyðir þingmenn til að vinna saman til að ná fram breytingum á stjórnarskrá, ákvæðinu sem sannaði gildi sitt á þessu kjörtímabili, leyfa því að halda gildi sínu en um leið sammælist formenn stjórnmálaflokkanna um það, a.m.k. þeir sem vilja taka þátt í því, að halda ferlinu áfram og nýta þá vinnu sem unnin hefur verið í málinu fram að þessu?

Með því móti gæfist nægur tími á næsta kjörtímabili til að vinna málið almennilega og þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum eru fjögur ár ekki langur tími, eins og við sjáum til dæmis hjá Norðmönnum sem eru að yfirfara mannréttindakafla — vel að merkja yfirfara, ekki skrifa nýjan — sem sagt einn kafla stjórnarskrár sinnar og gera ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu 2017. Þeir eru byrjaðir á henni fyrir nokkru.

Hér er verið að tala um heildaryfirferð á endurskoðun á íslensku stjórnarskránni. Er nokkuð óeðlilegt við það að menn taki sér tíma í þá vinnu í stað þess að miða við það að keyra málið í gegn strax í byrjun næsta þings til að geta klárað það fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins til þess eins að geta fengið skemmtilega fyrirsögn um það að menn ætli að klára á 70 ára afmæli lýðveldisins? Væri ekki skynsamlegra að leyfa sáttaákvæðinu að halda gildi sínu, vinna þetta vel og faglega í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða næsta kjörtímabils, og klára svo málið í lok þess? Það yrði reyndar heildaryfirferð stjórnarskrárinnar á mettíma þrátt fyrir allt miðað við það sem við sjáum í löndunum í kringum okkur.

Mér sýnist, virðulegur forseti, að saga þessa máls á undanförnu kjörtímabili, því sem nú er að ljúka, sýni einmitt að það væri hin skynsamlega leið og þar af leiðandi sé þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga um bráðabirgðaafnám þessa sáttaákvæðis, að taka það úr sambandi, mjög varasamt.



[20:30]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, með síðari breytingum. Við vitum öll hvers vegna þetta mál er komið fram. Það er vegna þess að fjögurra ára ferli breytinga á stjórnarskránni er löngu komið upp í kletta. Það hefur hins vegar verið erfitt fyrir marga hv. stjórnarliða að viðurkenna það og horfast í augu við staðreyndir. Ég verð þó að hæla þeim hv. þingmönnum sem flytja frumvarpið fyrir að reyna að gera gott úr því eins og hægt er að gera. Það er auðvitað hjákátlegt að eftir allt það ferli sem málið hefur verið í skuli það enda með þessu móti og ástæðan eru náttúrlega sú hvernig lagt var af stað í upphafi málsins.

Síðan virðist þetta snúast um það, eins og svo oft áður, að sérstakir erindrekar stjórnarliða fara að reyna að koma sökinni á aðra. (Utanrrh.: Ertu að tala um mig?) Já, hæstv. utanríkisráðherra. Eftir að hafa hlustað á hæstv. utanríkisráðherra í útvarpsþætti í einum morgunþættinum á Bylgjunni hugsaði ég með mér: Er það virkilega þannig að þegar menn eru búnir að vera svona lengi í stjórnmálum hafi þeir ekki nægileg prinsipp til að viðurkenna að þeir séu búnir að klúðra málinu sjálfir eða stjórnmálaflokkar þeirra? Ég velti því fyrir mér. Eða snýst þetta bara um að reyna að setja einhverja mynd út í þjóðfélagið, til kjósenda, sem hv. þingmenn, í þessu tilfelli hæstv. utanríkisráðherra, teikna upp af málinu. (Utanrrh.: Þetta er svona.) Já, hæstv. utanríkisráðherra segir að málið sé svona. En svona blasir það ekki við mér. Mér finnst hv. þm. Árni Páll Árnason hafa litið mun raunsærra á málið en það. Það gefur augaleið að málið er löngu komið út í skurð, hvað sem mönnum finnst um það, en mér finnst dapurlegt þegar menn reyna síðan að koma því yfir á aðra. Væri ekki nær fyrir okkur að hugsa aðeins við hvað getum lært og nýtt okkur af þeirri reynslu sem við höfum fengið í gegnum umfjöllun og undirbúning þessa máls? Nei, það virðist nefnilega snúast um hvernig á að reyna að selja þjóðinni eða einhverjum þröngum hópi kjósenda þá hugmynd að málið hafi klúðrast. Það virðist vera þannig.

Ég verð að viðurkenna að mjög fáir í mínu kjördæmi kalla eftir því að málið sé klárað. Það eru hins vegar miklu fleiri sem skilja ekki af hverju forgangsröðunin í þinginu er með þessum hætti, af hverju við erum ekki frekar að reyna að leysa stærstu málin sem snúa að þjóðinni. Það er í fyrsta lagi efnahagsmálin, atvinnumálin, til að gefa fólkinu von. Hæstv. utanríkisráðherra sá sérstakt tækifæri til þess hér og hefur gert það oftar en einu sinni að hæla því hversu vel stjórnarskráin hefur staðið af sér svokallað hrun eða hrunið. (Utanrrh.: Aldur stjórnarskrárinnar …) Aldur stjórnarskrárinnar, segir hæstv. utanríkisráðherra. Hvernig stendur þá á því að svo mikilvægt er að breyta henni? Er það virkilega svo mikilvægt? Það getur vel verið að aðrir líti þannig á. Ég deili ekki þeim skoðunum. Ég verð að segja að þegar maður heyrir suma hv. þingmenn koma og tala eins og þeir séu þjóðin þá er manni öllum lokið. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið var við að þjóðin sé að kalla eftir þessu. Það eru háværir minnihlutahópar sem gera það, sem hafa aðgang að fjölmiðlum, það er nú bara þannig. Og það skulum við horfast í augu við. Ég verð að minnsta kosti ekki var við þann stóra hóp þjóðarinnar, allan þann fjölda, kalla eftir þessum breytingum.

Ef maður setur þetta í samhengi — ég velti fyrir mér í kvöld þegar ég horfði á fréttirnar á Stöð 2 hvað þetta skyldi hafa verið langt innslag. Fjórða, fimmta frétt var um að stjórnarskrármálið væri búið eftir fjögurra ára ferli. Ekki var leitað neinna viðbragða hjá neinum hv. stjórnarliðum hvers vegna málið væri svo komið og hvort það væru ekki stórtíðindi. Nei, þetta voru nokkrar sekúndur í fréttatímanum. Er það kannski vegna þess að fréttamenn Stöðvar 2 og fréttastjórar meta það svo að ekki þurfi að fjalla meira um þetta mál? Það hefði einhvern tíma verið sagt að þeir hefðu puttann á púlsinum. Þetta er því alveg með ólíkindum.

Síðan þurfum við að ræða annað af hreinskilni og ég tók það aðeins fyrir í fyrri ræðu minni um málið. Það er mjög umhugsunarvert og mér þótti það góð ábending hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni þegar hann benti á að þessi umræða væri í raun og veru að hefjast þegar hv. stjórnarliðar komu hingað rétt eftir að hún byrjaði og sögðu: Nú erum við í miðri umræðunni. En fullt af hv. þingmönnum eru ekki búnir að halda eina einustu ræðu. Það er auðvitað gríðarlegt ofmat.

Síðan kemur framhaldsnefndarálit upp á 80–90 blaðsíður. Ég velti því fyrir mér, ég hef ekki náð að lesa í gegnum þetta allt saman, hvað er í raun og veru mikið eftir af tillögum stjórnlagaráðs. Búið er að tæta þetta í sundur hingað og þangað, út og suður. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki áttað mig á því, hef ekki getað gefið mér tíma til að fara yfir það.

Ef maður fer yfir þetta kjörtímabil, segjum að þetta mál klúðrist núna, þá verður það þriðja stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Það er Evrópusambandið, menn deildu um hvort því verði lokið 2009–2010 eða fyrri hluta árs 2011, því er ekki lokið enn. Fiskveiðistjórnarmálið, allir þekkja það klúður, rugl og vitleysu (Gripið fram í: Sem betur fer …) sem hefur alltaf fengið falleinkunn hjá öllum og búið er að leggja fram fjögur eða fimm frumvörp og það er allt í skrúfunni enn þá. Stjórnarskrármálið sem hæstv. forsætisráðherra barði á nýja árinu í gegnum þingið hvað eftir annað. (Menntmrh.: Rólegur.) Ég er ekki mjög slæmur, hæstv. menntamálaráðherra, enda er ég ekki farinn að hugsa um Hörpu. Þetta er allt í eintómu tjóni. Ég velti fyrir mér, ef maður skoðar þetta aðeins, hver skyldu hafa verið þrjú erfiðustu mál ríkisstjórnarinnar? Það eru nefnilega málin sem við hefðum átt að sleppa. Það er aðildin að Evrópusambandinu. Það hefði alveg mátt setja það í annan búning og hafa ekki átök um það með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á undan. Og það var hið ógeðfellda landsdómsmál sem verður þinginu til ævarandi skammar og síðan Icesave-samningarnir. Þetta eru þrjú tímafrekustu málin á þinginu sem við öll vitum hvernig hafa farið. Það hefði kannski verið nær að nota tímann til meiri sátta og samvinnu en gert hefur verið.

Það gæti líka verið ágætt þegar maður flettir í gömlum skjölum að vitna til orða hæstv. forsætisráðherra í upphafi kjörtímabilsins. Ég ætla að vitna orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, svo ég fari ekki með neina vitleysu eða snúi út úr því.

„Segja má að ríkisstjórnin byggi á samkomulagi um nýja byrjun, nýtt gildismat. Það hefur orðið viðhorfsbreyting meðal almennings í landinu. Það hefur myndast samstaða um önnur gildi en þau sem mest hafa verið í hávegum höfð á undanförnum árum. Það hefur myndast samstaða um samábyrgð fólks, við erum öll á sama báti.“

Síðan hefur hæstv. ríkisstjórn ekki gert neitt annað en að sundra þjóðinni sem mest, það er bara þannig, og fyrir það getur enginn þrætt. Þetta er allt heimatilbúinn vandi hæstv. ríkisstjórnar. Það er auðvitað mjög dapurlegt.

Ég ætla að nefna annað sem við í stjórnarandstöðunni verðum líka að horfa til eða að minnsta kosti geri ég geri það. Þegar við köllum eftir breytingum á vinnubrögðum og breytingarnar verða þá er það mjög sérkennileg staða þegar hingað koma hv. þingmenn sem álíta sig vera einu talsmenn þjóðarinnar og segja: Ef við klárum ekki þetta mál þá komum við með vantrauststillögu, hóta því, draga það fram og til baka og hún er komin núna aftur á dagskrá, án þess að ég ætli að fjalla um þá vitlausu tillögu, hvernig hún er upp sett. Því verður maður að spyrja og það ætla ég að gera áður en ég greiði í atkvæði um þá tillögu: Getur verið að maður geti krafist þess að breytt sé um vinnubrögð? Svo þegar orðið er við því og vinnubrögðum breytt, er það þá rökrétt framhald á því að styðja það vantraust? Það er eitt sem við verðum að spyrja okkur öll og það ætla ég að gera. Það er ekki alltaf hægt að saka aðra um óbilgirni og gera síðan ekki kröfur til sjálfs sín. Ég þarf því að hugsa mig vandlega um áður en sú tillaga kemur hingað til afgreiðslu.

Þessi tillaga fjallar um hvernig við viljum standa að því að breyta stjórnarskránni. Það er alveg skýrt dæmi um mikilvægi þess að lækka ekki þá þröskulda sem fyrir eru. Þá veltir maður fyrir sér, og við getum svo tekið efnislega umræðu um það og farið betur í gegnum það eftir að málið hefur farið til nefndar og til umsagnar, hvort æskilegast sé að gera það með þessu móti. Ég hefði talið skynsamlegra að gerð væri lágmarkskrafa um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það getur vel verið að það sé ekki rétt mat hjá mér en það er að minnsta kosti mín skoðun að lágmarksþátttöku þurfi til.

Við sáum og það sem mér fannst — jú, ég held að það sem hafi bjargað þátttökunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni um spurningarnar síðast hafi verið spurningin um þjóðkirkjuna, ég held það. (Utanrrh.: … hana aftur.) Já, hæstv. utanríkisráðherra bendir á þá hugmynd að hægt sé að hafa hana aftur. Ég þekki mjög marga sem tóku þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu eingöngu út af spurningunni sem sneri að kirkjunni. Ég vil segja, virðulegi forseti, að við þurfum að læra af meðferð þessa máls. Og það þurfum við við öll að gera, öll, ekki bara einhverjir stjórnarliðar, heldur allir, hvernig við getum komið þessu í annan farveg og látum ekki múgæsing, örfáar háværar raddir, leiða okkur inn á einhverjar villigötur. Við verðum að standa föst á því sem við erum að gera.

Við höfum séð útifundi og mótmælafundi út af þessu máli, þetta eru nokkrar hræður, nokkrir tugir, 30–40 manns. Þetta þykir rosalega merkilegt. Ég er ekki að gera lítið úr skoðunum þessa fólks að vilja breyta stjórnarskránni, alls ekki. Þeir voru fjölmennari mótmælafundirnir þar sem fólkið krafðist þess að eitthvað yrði gert í skuldamálum heimilanna. Þar voru nokkur þúsund manns og við munum öll eftir þeim atgangi sem þar var. Við megum ekki og eigum ekki að nálgast þetta verkefni með þeim hætti að segja sem svo að við séum alltaf með hina einu réttu lausn. Ég held að mest um vert sé eftir allt það ferli sem á undan er gengið að líta hvert og eitt í eigin barm og reyna að læra af því hvaða mistök voru gerð í þessu ferli, hvað hefði mátt betur fara til að okkur gangi betur í framtíðinni að gera skynsamlegar breytingar á stjórnarskránni.

Það gekk fram af mér þegar ég sá einn aðila af stjórnlagaþingi koma fram og segja: Hér er hið eina rétta plagg. Það má ekki breyta punkti eða kommu. Það er algerlega óskiljanlegt hvernig fólk getur komið fram. Og þegar hv. þingmenn kalla þetta valdarán og slíkt, það er náttúrlega ekki boðlegt, virðulegi forseti.

En ég held fyrst og fremst að við þurfum öll að líta í eigin barm og átta okkur á því hversu mikilvægt það er að læra af málinu og hætta með upphrópanir og vitleysisgang, og koma þessu í einhvern farveg. Stjórnarskráin er það stórt mál að við eigum ekki að fara í pólitískan slag með það. Það er nóg af öðrum málum sem við getum farið í pólitískan slag með.



[20:45]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fjörlegu ræðu. Eins og jafnan fer hann með himinskautum þegar hann talar. Á köflum verð ég að viðurkenna að mér fannst ræða hv. þingmanns ekki mjög málefnaleg, en undir lok hennar má segja að hann hafi drepið fæti eða tám niður í efnið sem er til umræðu, þ.e. þá tillögu sem þrír hv. þingmenn og formenn stjórnmálaflokka hafa lagt fram.

Mér fannst meira að segja örla á því að hv. þingmaður væri að tala sig inn á að þrátt fyrir það sem hann kallaði sjálfur mistök í þessu máli væri kannski flötur á því að finna eins konar samkomulag í því. Það eina sem hv. þingmaður fann að þessari tillögu var að hann taldi að ef sú leið yrði farin sem þar var lögð til yrði, a.m.k. frá sjónarhóli hans og kannski hans góða flokks, einhver lágmarksþátttaka að vera tryggð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég kannast við það sjónarmið. Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd með þremur fulltrúum flokks hv. þingmanns, þar af einum fyrrverandi formanni og forsætisráðherra flokksins. Þar var líka uppi þetta sjónarmið. Mér finnst það sjónarmið alveg fyllilega þess virði að taka það til skoðunar og ég tel að ef hv. þingmaður er að segja hugsanlegt að gera því skóna að það þurfi ekki 3/5 meiri hluta, kannski 2/3 eins og ég var alltaf hlynntur, en setja einhvers konar skilyrði um þátttöku segi ég fyrir mína hönd, en ekki minna pólitísku vandamanna, ég tala bara fyrir mig, að mér finnst það skoðunar virði. Ef það getur orðið til þess að ná einhvers konar sátt um það finnst mér það innlegg í málið.



[20:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Auðvitað eigum við að nálgast málið með þessum hætti. Hvort við gerum það með því að hafa 2/3, 3/5, þröskuld í lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu eða annað er það sem við eigum að ræða. Við þurfum líka að læra af meðferð málsins, hvort heldur sem það er á þessu þingi, fyrri þingum eða hvernig sem það er, hvernig við getum nálgast þetta verkefni. Stjórnarskráin er ekki einhver lög sem við viljum hringla með og gera breytingar á eftir stjórnarmeirihlutanum í landinu á hverjum tíma. Þetta er þjóðfélagssáttmáli eins og stundum er sagt, kletturinn í hafinu. Við erum öll sammála um það. Ef við hefðum nálgast verkefnið á þennan hátt miklu fyrr hefðum við náð að klára. Það var að mínu viti algjört brjálæði að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni með þeim tímaramma sem settur var upp. Það er mín persónulega skoðun.

Stjórnlagaráði var á sínum tíma gefinn of stuttur tími. Það voru deilur um hvernig staðið var að kosningu til stjórnlagaþings sem var ógilt og síðan var stjórnlagaráð skipað. Við þekkjum þetta allt saman. En ég vil ekki festast þarna. Við eigum að horfa til framtíðar og reyna að komast að einhverri lausn um það hvernig við getum lært af málinu því að stjórnmálamenn koma og fara eins og við vitum. Það er mikilvægt að gera allt sem við getum til að taka þetta mál í þann farveg að við getum lært af meðferð þess til framtíðar. Yfirstandandi kjörtímabil breytir engu, það er auðvitað liðið en við þurfum að reyna að breyta og læra til framtíðar. Ég er alveg sannfærður um að við hæstv. utanríkisráðherra yrðum fljótir að ná samkomulagi um það. Við tölum fyrir okkur prívat og persónulega í því máli.



[20:49]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjarmerandi en þó erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvað sjálfstæðismenn eru inn í hjartað og til tauga og nýrna rosalega íhaldssamir. Einn af þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem ég sat með í stjórnarskrárnefnd var mjög tregur í taumi þegar kom til umræðu að ganga frá breytingum. Hann var þeirrar skoðunar að það ætti helst ekki að breyta stjórnarskránni nema lítið og sem sjaldnast. Ég minnist þess þegar ég spurði hann hversu oft hann gæti hugsað sér að breyta stjórnarskránni og hann sagði: Ja, svona einu sinni á öld. Hann stendur mér til hægri handar í gáttinni og ég veit að hann kannast við þessi orð. Það er svo sem ekki það vitlausasta sem sagt hefur verið frá sjónarhóli hans.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eigi menn að reyna að finna farveg sem sem flestir geti sætt sig við. Hv. þingmaður talar fyrir hönd þess flokks sem hefur verið hvað óánægðastur með þessa málsmeðferð þótt lagt hafi verið af stað eins og formaður flokksins lagði til, þ.e. með þjóðfundi sem mér fannst takast vel.

Allt um það, málið er í þeirri stöðu sem það er í núna. Spurningin er hins vegar hvort það sé hægt að finna einhvers konar flöt til að fella það í farveg sem margir og sem flestir geti unað við. Sú tillaga sem hér er undir er merkileg fyrir þá sök að hún heldur því áfram opnu að menn eru að vinna að breytingum á stjórnarskránni á ákveðnum grundvelli. Þá er lagt til að hægt sé að gera það með þeim hætti að Alþingi samþykki það og síðan fari sú breyting í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eina sem hv. þingmaður hefur mælt því í gegn er að hann vill gjarnan hafa ákveðinn þröskuld og tiltaka lágmarksþátttöku. Mér finnst það þess virði að skoða það en hv. þingmaður sagði ekkert um það, ekki heldur fyrir sína persónulegu hönd, hvort hann telur að í slíkri tilslökun gæti verið einhvers konar sáttaflötur.



[20:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að margir sjálfstæðismenn væru íhaldssamir og það tel ég mikinn kost. (Utanrrh.: Ég sagði ekki að það væri löstur.) Alls ekki, ég er ekki að segja að hæstv. ráðherra hafi sagt það.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég held að það sé mjög gott, sérstaklega þegar stjórnarskráin er annars vegar, og þá þurfi menn að vera mjög íhaldssamir. Það höfum við séð á ferli þessa máls og við hljótum að hafa lært núna hvernig það er.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það væri virðingarvert að þeir þrír hv. þingmenn sem flytja frumvarpið skuli þó reyna að stíga þetta skref til sátta. Það finnst mér virðingarvert vegna þess að málið var löngu komið upp í kletta. Það sjá allir sem vilja sjá, það var löngu fallið á tíma og algjörlega óraunhæft og algjör vitleysa að ætla að halda málinu til streitu eins og það var. Þess vegna segi ég: Mér fannst virðingarvert af þessum hv. þingmönnum að leggja þó þennan flöt til. Það er ekki fyrr en núna, og ég tek undir það með hæstv. utanríkisráðherra, sem þó er kominn flötur til að ræða málið í skynsamlegum farvegi. Þetta er flötur sem er búið að kalla eftir í mjög langan tíma, margar vikur og mánuði, af hálfu margra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Sá flötur hefur ekki komist á fyrr en akkúrat núna, bara síðdegis í dag þegar þetta mál var lagt fram. Þessi flötur á því að ná samkomulagi og sátt um hvernig hægt væri að halda áfram með málið hefur ekki blasað við og ekki staðið til boða fyrr en með þessu máli hér. Þess vegna segi ég, og sagði í ræðu minni áðan, að við færum auðvitað í gegnum það. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta mál til meðferðar mun skoða það og jafnvel koma með tillögur um hvort hægt verði að ná sátt í nefndinni með því að færa til þá þröskulda sem ég kom inn á í ræðu minni. Væntingar mínar til málsins eru töluverðar.



[20:54]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessa máls vil ég gjarnan nefna nokkur atriði við 1. umr. Eins og komið hefur fram í umræðunni er verið að leggja fram tiltölulega einfalt frumvarp sem snýst um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar og að við breytingarákvæðið sem fyrir er bætist nýtt ákvæði þar sem gert er ráð fyrir fram til 30. apríl 2017 að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að Alþingi geti samþykkt frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með 60% greiddra atkvæða, þ.e. 3/5, og síðan skuli það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Settur er sá hemill á að sú atkvæðagreiðsla fari fram í fyrsta lagi sex mánuðum eftir að Alþingi hefur afgreitt málið og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Hugsunin á bak við það er augljóslega sú að þjóðinni gefist þá kostur á að vega og meta þær breytingar sem fyrir eru lagðar. Síðan er vísað til þess að frumvarpið sé þá samþykkt aftur með 60% atkvæða, 3/5 hlutum, í þjóðaratkvæðagreiðslunni og skuli þá teljast gild stjórnarskipunarlög.

Hér er lögð til ein breyting á gildandi stjórnarskrá. Sú breytingartillaga byggir á tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hver er hugsunin á bak við þessa tillögu? Jú, sú að þeirri vinnu sem hefur farið fram í nokkur ár og hefur verið mikil verði framhaldið með tilteknum hætti því að þetta er heildarendurskoðun á stjórnarskrá, þetta er ólíkt fyrri breytingum á stjórnarskrá sem hafa snúist um einstaka hluta stjórnarskrárinnar. Hér er um að ræða heildarendurskoðun og það er eðlilegt að sá kostur sé uppi að þeirri vinnu sem unnin hefur verið og liggur fyrir sé gefinn sá tími að hægt sé að ljúka fyrr en að fjórum árum liðnum eins og raunin yrði ef eingöngu væri um núgildandi breytingarákvæði að ræða, þ.e. að loknu næsta kjörtímabili.

Eins og ég sagði hefur mikil vinna verið lögð í þetta mál og stundum þegar við ræðum málið á þingi finnst mér gleymast öll sú vinna sem lögð hefur verið í það. Þegar við ræðum þá vinnu virðist stundum eingöngu átt við umræður í þingsal, en ég leyfi mér að fullyrða að sú umræða sem hefur farið fram um stjórnarskrána, sé ekki hér á þingi heldur úti í samfélaginu, til að mynda í fjölmiðlum, meðal þjóðarinnar, á þjóðfundi, í gegnum kosninguna til stjórnlagaþingsins, í kosningunni sem fór fram um tillögur ráðsins þar sem mikil og góð kynning fór fram á þeim tillögum, hvort sem um var að ræða auðlindaákvæðið, þjóðkirkjuákvæðið, beina lýðræðið eða persónukjörið. Mér er til efs að jafnmikil umræða hafi farið fram meðal almennings í landinu um stjórnarskrárbreytingar áður og hefur verið undanfarin missiri. Sú umræða skiptir mjög miklu máli.

Hugsunin hér, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni sem einnig var lögð fram í dag og fylgir þessu frumvarpi, er hins vegar sú að við gefum okkur bæði meiri tíma til umræðu á þinginu um þau drög sem liggja fyrir og þjóðinni áframhaldandi tækifæri til umræðu. Málið hefur tekið talsverðum breytingum sem liggja fyrir í þessu ítarlega framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er vísað til þess að það skiptir miklu máli að gefa okkur líka tíma, bæði innan þings og utan, til að leyfa þessari umræðu að þroskast.

Mér finnst tillagan um breytingarákvæðið bera vitni um þá vinnu sem þegar hefur farið fram. Þarna er þingið að hleypa þjóðinni að ákvörðuninni. Rétt eins og gert hefur verið hingað til í þessu ferli er hugsunin sú að með því að breyta eingöngu þessu ákvæði opnum við fyrir aðgang þjóðarinnar að því að ljúka þeim breytingum með því að breyta breytingarákvæðinu þannig að þingið samþykki og síðar þjóðin. Mér finnst þessi tillaga mjög í þeim anda sem öll þessi vinna hefur verið, sem snýst um að þó að Alþingi sé sá aðili sem fari með stjórnarskrána, lög okkar um stjórnarskrársamþykkt, er þetta stjórnarskrá allrar þjóðarinnar og á að vera það. Ég tel að öll sú umræða sem hefur sprottið upp sé skapandi og ég er viss um að allir hv. þingmenn hafi til að mynda mætt þegar gildandi stjórnarskrá var sungin í Hafnarborg. Ég er viss um að það gaf mörgum mjög nýja sýn á það ágæta rit. Þetta hefur verið uppspretta umræðu í mjög mörgum lögum samfélagsins og við ættum að fagna því. Mér finnst að hv. þingmenn ættu að fagna því að almenningur í landinu sýni þessu máli þann áhuga sem raun ber vitni.

Hér hefur verið rætt talsvert um þetta mál og mér fannst orð þess hv. þingmanns sem síðastur talaði, hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, gefa til kynna að hv. þingmenn séu reiðubúnir að skoða þessa tillögu með opnum huga og nálgast hana af jákvæðni. Ég tel að koma megi til móts við þær áhyggjur sem hér hafa verið viðraðar, bæði hjá honum og öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað, af því að nauðsynlegt sé að tryggja góða þátttöku í atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ég tel að það megi í sjálfu sér tryggja án þess að setja einhver sérstök mörk á þátttöku. Eins og farið er yfir í greinargerðinni með frumvarpinu er hægt að stoppa stjórnarskrárbreytingar með því að mæta ekki á kjörstað og stöðva þannig í raun og veru framgang lýðræðisins. Ef þátttökuþröskuldurinn er of hár er hægt að ógilda atkvæðagreiðslu með því að mæta ekki í stað þess að mæta og taka afstöðu. Einhverjir gætu sagt: Þá er verið að fella frumvarpið með því að mæta ekki. Það er þó neikvæð nálgun á lýðræðislegt ferli sem svona atkvæðagreiðsla er væntanlega. Ég hefði talið það varasamt en hins vegar er hægur vandi að tryggja þátttöku með því til að mynda að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Við á Íslandi eigum því láni að fagna að þátttaka í almennum kosningum er mikil, 80–90%, og við getum hæglega látið þessa atkvæðagreiðslu fara fram samhliða slíkum almennum kosningum og þar með tryggt þátttöku sem ætti að gefa raunsanna mynd af því hvað þjóðin vill.

Ég tel þetta frumvarp tilraun til að tryggja áframhaldandi vinnu þessa máls án þess að setja óbærilega pressu á það. Í ljósi þess hversu fáir þingdagar eru eftir tel ég að ef menn nálgast þetta með málefnalegum hætti sé hæglega unnt að vinna málið áfram með því að samþykkja breytingar á breytingarákvæðinu. Þá þarf ekki að framlengja þessa vinnu um heilt kjörtímabil í viðbót heldur er hægt að halda henni áfram óslitið og ljúka henni til að mynda að loknu árinu. Ég tel að breytingarákvæðið sem hér er lagt til endurspegli að einhverju leyti anda ferlisins með því að hleypa þjóðinni að ákvörðuninni. Ég tel að þetta breytingarákvæði breyti því ekki að það verður ekki létt verk að breyta stjórnarskrá. Það þarf ýmislegt til að 60% þingmanna samþykki breytingar. Það bil sem er gefið, sá tími sem er látinn líða, kallar á að það er tími til að ræða málið meðal almennings og síðan að 60% þeirra sem greiða atkvæði þurfi að samþykkja tel ég líka að sé ekki létt verk. Það þarf umtalsverða sátt til að ná breytingum í gegn.

Ég tel þetta breytingarákvæði endurspegla í senn ferlið en vera líka markvisst teikn um að vinnunni verði haldið áfram. Það ætti að vera hægt miðað við þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar um vilja manna til að vinna að breytingum á stjórnarskrá. Það ætti því að vera fullt tilefni til þess að samþykkja frumvarpið. Það er eðlilegt, eins og hér hefur verið nefnt, að þetta verði síðan skoðað í nefnd, bæði hlutföllin og tímabilið sem hér er gefið, en ég tel að það ætti ekki endilega að hamla málinu.

Síðan vil ég segja að lokum að mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að fólk horfist í augu við það að sú vinna sem unnin hefur verið skiptir verulegu máli. Ég tel hana mjög merkilega ef við skoðum söguna, hvernig stjórnarskrárbreytingar hafa hingað til verið gerðar. Aðkoma þjóðarinnar er mjög merkileg og ég tel mjög mikilvægt að Alþingi haldi áfram og ljúki þessu ferli með einhverjum hætti þó að það verði ekki fyrr en á næsta kjörtímabili. Í þessum efnum tel ég enga ástæðu til að við flýtum okkur um of en ég tel heldur enga ástæðu til að tefja málið lengur en þarf. Það skiptir máli að umræðan fái að þroskast eins og ég sagði áðan en hún hefur hins vegar, held ég, aldrei verið meiri um stjórnarskrá landsins meðal almennings í landinu.



[21:04]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hún kom víða við.

Mig langar til að spyrja hana: Telur hún að vinnubrögðin við frumvarpið sem var eiginlega saltað í dag hafi verið góð? Málið kom inn til þingsins í júlí 2011. Það var ekki lagt fram sem frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr en í nóvember 2012, nánast einu og hálfu ári eftir að það barst þinginu. Það hefði mátt vinna alveg helling á þeim tíma.

Síðan er spurningin hvort nefndin hafi unnið nægilega vel því að hún flytur frumvarp og kemur svo með tvær breytingartillögur við eigið frumvarp. Það segir mér að hún hafi ekki unnið málið nægilega vel, alls ekki — alls ekki pólitískt og alls ekki í sátt við aðra eins og stjórnarandstöðu.

Fyrsta spurningin er sem sagt: Telur hæstv. ráðherra að þetta hafi verið góð vinnubrögð, gott verkskipulag o.s.frv.?

Ég flutti í þrígang frumvarp um breytingar á 79. gr. til að þjóðin gæti greitt bindandi atkvæði um stjórnarskrána sína. Ég er búinn að benda á það aftur og aftur. Núna kemur fram einhvers konar útfærsla á þeirri hugmynd en hún er til bráðabirgða, sem ég skil ekki af hverju þarf að vera, og hún er með þeim annmarka að mjög lítill hluti þjóðarinnar gæti samþykkt stjórnarskrána.

Auk þess vil ég spyrja hv. þingmann: Það eru þrír flutningsmenn aðrir að þessu frumvarpi, hv. formenn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Var rætt við aðra formenn um að vera með í þessu og fengu þeir að vera með í því að móta þessar hugmyndir?



[21:06]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns þá var formönnum annarra flokka á þingi boðið að taka þátt í þessari vinnu. Ég og hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson kynntum þær hugmyndir að við vildum leggja fram frumvarp um breytingu á breytingarákvæði og buðum öðrum hv. þingmönnum, formönnum annarra flokka að taka þátt í þeirri vinnu með okkur en þeir kusu að gera það ekki og kusu fremur að ræða málið annars vegar hér og hins vegar á vettvangi þingnefndar. Formenn annarra flokka höfðu því full tækifæri til að taka þátt í mótun málsins. Það kom alveg skýrt fram hjá okkur að við værum reiðubúin að horfa á ólíkar útfærslur á þessu máli þannig að það sé sagt.

Hv. þingmaður nefnir hvort mér finnist þetta góð vinnubrögð. Í raun tel ég ræðu mína hér áðan hafa snúist um þau nýstárlegu vinnubrögð sem ég held að eigi eftir að hafa áhrif til framtíðar, að hleypa þjóðinni í auknum mæli að máli áður en það er fullmótað og lagt fram, eins og var gert með þjóðfundi, með vinnu stjórnlagaráðs og síðar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um bæði tillögurnar í heild og einstök atriði. Þetta eru vinnubrögð sem ég held að skipti verulegu máli í því, og það var í raun og veru meginpunktur þess sem ég sagði hér áðan, að íslenska þjóðin er orðin meðvitaðri um gildandi stjórnarskrá og hin nýju stjórnarskrárdrög sem nú liggja fyrir en hún hefur nokkru sinni verið. Ég held að það sé mjög jákvætt því að stjórnarskráin á alls ekki að vera einkamál hv. þingmanna og lögspekinga. Hún á að vera skjal þjóðarinnar allrar og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um það. Ég spyr því á móti: Er hv. þingmaður ekki sammála því að það hafi verið jákvætt að draga þjóðina að með þessum hætti?



[21:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svörin svo langt sem þau ná. Varðandi það að þjóðin greiði atkvæði með eða taki þátt í þessari vinnu eftir að stjórnlagaráð skilaði plaggi sínu inn til þingsins, þá var það á höndum þingsins og þingið og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd átti að skipuleggja vinnuna. Það gekk ekki betur en þetta. Ég er ekki sammála að þetta hafi verið góð vinnubrögð, ég tel að þau hafi verið mjög slæm.

Meðan stjórnlagaráð var með málið í sínum höndum vann það mjög hratt og á mjög stuttum tíma mikla vinnu. Það sem ég vildi gera athugasemd við var það sem hæstv. ráðherra sagði um þá sem ekki mæta til kosninga og hæstv. ráðherra sagði að þjóðin væri miklu meðvitaðri um það núna. Samt þora menn ekki að treysta því að mætt verði til kosninga. Samt þora menn ekki að hafa háa þröskulda eins og þann að helmingur þjóðarinnar skuli greiða atkvæði með stjórnarskrárbreytingu. Af hverju ekki? Ef þjóðin hefur svona ógurlegan nýfenginn áhuga á stjórnarskránni, af hverju treysta menn ekki að hún mæti? Af hverju að tengja þetta við sveitarstjórnarkosningar? Er málið ekki bara það að menn vita að þjóðin hefur ekki svo mikinn áhuga á þessu? Er það ekki vandamálið? Þess vegna eru menn með ákvæði um að einungis 60% þeirra sem mæta á kjörstað þurfi að greiða atkvæði með breytingu. Það gæti verið mjög lítill hluti þjóðarinnar. Mér finnst menn ekki trúa því að þjóðin muni mæta.

Ég er ekki sammála um menn sem ekki mæta á kjörstað. Þeir gætu alveg eins mætt á kjörstað og greitt atkvæði gegn málinu og þá væri það alveg kristaltært hvað þeir hefðu í hyggju og hvaða skoðun þeir hafa.



[21:11]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni á ég von á því að þegar hv. nefnd tekur málið til umfjöllunar verði rætt um þátttökuviðmið. Eins og kom fram í máli mínu áðan hefðu formenn annarra flokka fullt færi á að setja slíkar tillögur inn ef vilji þeirra hefði staðið til þess. Ég reikna með því að ef hv. þingmenn hafa áhuga á að ræða þátttöku við mig geti þeir gert það innan nefndarinnar.

Það sem ég benti á er að hægt er að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar með því að mæta ekki. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um að það er ein leið til að hafa áhrif á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, að mæta ekki (PHB: Ég er ekki sammála.) með því að setja þátttökuviðmið og geta þannig haft áhrif á það hvort kosningin hafi áhrif eða ekki. Það eru auðvitað dæmi þess að hópar ákveði að hunsa hreinlega kosningar til að draga úr vægi þeirra eða rýra gildi þeirra. Ég segi það sem áhugamanneskja um lýðræði að mjög mikilvægt er að fyrir hendi sé hvati til að mæta og ég tel að hann sé í raun og veru til staðar þar sem umtalsverður áhugi er á málinu. Það sást í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í október. Ef við viljum tryggja meiri þátttöku er hægur vandi að gera eins og ég sagði hér áðan og halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða almennum kosningum. Hv. þingmaður sagði: Af hverju að halda hana samhliða almennum kosningum? Ég spyr bara á móti: Af hverju ekki ef við viljum tryggja góða þátttöku í jafnmikilvægu máli? Ég er sannfærð um að þjóðin hefur náð að kynna sér þetta mál betur og setja sig betur inn í það í aðdraganda þess en mörg önnur mál ár og áratugi á undan. Ég tel að við þingmenn ættum að vera ánægð með það.



[21:12]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að draga fram það sem kann að vera ólíkt í skoðunum okkar hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli þó að þar sé af nógu að taka. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvaða gildi hún telji að þau þingmál sem lögð hafa verið fram í dag hafi gagnvart því hvaða ákvarðanir nýtt þing, sem kosið verður 27. apríl eða fyrr, taki í þessu sambandi. Telur hún að það þjóni einhverjum tilgangi að taka þessi þingmál sérstaklega fyrir og afgreiða þau núna á síðustu dögum þingsins þegar ljóst er að þing verður kjörið innan fárra vikna? Það verður að öllu líkindum töluvert öðruvísi samsett en það þing sem nú situr. Er ætlunin með þessum þingmálum að binda með einhverjum hætti hendur þess þings sem tekur við? Telur hæstv. ráðherra að þessi þingmál hafi eitthvert gildi umfram til dæmis almennar yfirlýsingar formanna flokkanna?



[21:14]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það kann að vera að næsta þing verði öðruvísi samsett, það verða örugglega töluvert fleiri framsóknarmenn, okkur hv. þingmanni til mikillar gleði.

Áhrif þessara mála eru auðvitað tvímælalaust þau að ef breytingarákvæðinu verður breytt gefur það nýju þingi færi á að ljúka breytingum á stjórnarskrá, ekki eftir heilt kjörtímabil heldur á miðju kjörtímabili eða jafnvel fyrr, eins og hér er lagt upp með í þingsályktunartillögu, jafnvel á árinu 2014. Ef við ljúkum þessu máli og náum sátt um að klára að afgreiða það hér þá gefur það nýju þingi vissulega tækifæri.

Hvað varðar þingsályktunartillöguna sem miðar að því að skipa nefnd sem starfi milli þinga og skili af sér í haust til nýrrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þá skil ég í raun og veru ekki alveg hv. þingmann og kannski getur hann útskýrt það fyrir mér. Ég hef hingað til talið að þær þingsályktanir sem eru fyrir minn tíma í þinginu hafi sitt gildi. Þannig tók ég því þegar ég kom inn á þing og fór að höndla með samþykktar þingsályktunartillögur, að þær hefðu gildi þótt ég hefði persónulega og prívat ekki samþykkt þær. Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að þær þingsályktunartillögur sem hafa verið samþykktar á fyrri þingum falli úr gildi þegar ný þing taka við?



[21:16]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna komum við akkúrat að samstöðuþættinum. Nýtt þing getur tekið nýjar ákvarðanir um hvað eina sem áður hafa verið teknar ákvarðanir um. Ef einhver tiltekinn ferill er ákveðinn nú á næstu dögum hér í þinginu mun nýtt þing geta breytt honum ef til þess er vilji hjá nýju þingi, það er augljóst.

Innan tveggja mánaða verður kjörið nýtt þing. Það verður trúlega öðruvísi samsett, við vitum ekki hver okkar verða þar áfram, við vitum ekki hvernig hlutföll flokka verða. Að hvaða leyti teljum við okkur þess umkomin að binda hendur þeirra sem á eftir koma þegar ljóst er að það er verulegur ágreiningur um marga þætti í þessu máli?

Varðandi þingsályktunartillöguna ætla ég að fjalla nánar um þær athugasemdir sem ég hef við hana hér á eftir en varðandi frumvarpið verð ég að segja að mér finnst eins og menn ætli sér að finna sér einhverja léttari leið til þess að koma þeim breytingum í gegn sem hér liggja fyrir, að verið sé að búa til hjáleið fram hjá þeim varnöglum sem er að finna í núverandi stjórnarskrá. Ég get verið reiðubúinn til að skoða breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, en ég hef ekki góða tilfinningu til þess að gera breytingar sem fela í sér hjáleið, hvað þá svona tímabundna bráðabirgðahjáleið eins og þarna er lagt upp með. Auk þess mundi ég vilja slá það í gadda, svo að maður noti orðalag sem stundum er notað hér í þinginu, að ekki verði (Forseti hringir.) léttara að breyta stjórnarskrá en er í dag, jafnvel þótt þeim þætti verði með einhverjum hætti bætt við ferlið að þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) sé síðasti liðurinn í því, það sem endanlega ræður úrslitum um hvort (Forseti hringir.) stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga eða ekki.



[21:18]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég bið hv. þingmenn um að gæta að tímanum.



[21:18]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við nálguðumst öll mál með þeim hætti að öllu sé hægt að breyta á næsta þingi mundum við kannski aldrei leggja fram nokkurt einasta frumvarp eða nokkra einustu tillögu, því að öllu er jú hægt að breyta, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni.

Hugmyndin á bak við það að leggja fram þetta frumvarp og þessa þingsályktunartillögu er einmitt atlaga að því að skapa ákveðna sátt um feril máls sem ég sé ekki, út frá fyrri orðum hv. þingmanna bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að ætti að vera útilokað að skapa sátt um. Ef við nálgumst málin með lausnamiðuðum hætti, sem ég hefði nú talið að ætti að vera kappsmál okkar hér á Alþingi, tel ég að það ætti að vera hægt út frá þeim orðum sem hér hafa fallið um að menn séu mjög viljugir til þess að ljúka endurskoðun stjórnarskrár.

Hins vegar geri ég athugasemd við það þegar hv. þingmaður ræðir um breytingarákvæðið sem hjáleið. Hjáleið gefur til kynna, eins og þekking mín á íslensku er, að það sé einhver hálfgerð ófæruleið og ekki eftir hinni beinu braut. Hjáleiðin er eitthvað sem við förum þegar við komumst ekki hina beinu braut. Ég er algjörlega ósammála þeirri túlkun.

Sú leið sem hér er lögð til og er breyting á gildandi breytingarákvæði, sem felur í sér samþykki tveggja þinga, er samþykki 3/5 þingsins og 3/5 þjóðarinnar. Það að vísa máli til þjóðarinnar getur ekki í mínum huga verið hjáleið að því að samþykkja mál.



[21:20]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af síðustu orðum hæstv. ráðherra ætla ég ekki að deila við hana sem íslenskufræðing um túlkun einstakra orða í þessu sambandi, en hér er vissulega um að ræða óvenjulega leið sem ekki er fyllilega í samræmi við það sem stendur í núgildandi stjórnarskrá. Verið er að leggja upp með að farin verði önnur leið en farin hefur verið við stjórnarskrárbreytingar allan lýðveldistímann og raunar lengur. Hvort við veljum orðið hjáleið eða ekki læt ég liggja á milli hluta. Það er alla vega mjög sérstakt og sérkennilegt að mínu mati að leggja upp með bráðabirgðabreytingarákvæði sem aðeins á að eiga við á næstu missirum, eins og gert er í tillögu hv. þingmanna og ráðherra. (Gripið fram í.)

Ég velti enn fyrir mér hvað gæti hugsanlega staðið í vegi þess að einu einkenni verði bætt við þær hugmyndir sem hér eru á ferðinni. Það er hugmyndin sem stundum hefur verið kölluð þátttökuþröskuldur eða samþykkisþröskuldur. Eins og ég hef áður rakið í umræðunni eru í meginatriðum tvær leiðir til í þessu sambandi. Önnur leiðin er sú að setja skýra kröfu um að tiltekið hlutfall kjósenda taki þátt í atkvæðagreiðslu til þess að hún teljist bindandi. Hin leiðin, sem er vel þekkt líka og raunar sú sem fremur er mælt með af hálfu þeirra sem rannsakað hafa kosningahegðun á grundvelli stjórnmálafræði, er sú að gerð sé krafa um að tiltekið hlutfall segi já eða samþykki það mál sem lagt er í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá vega ekki atkvæði þeirra sem sitja heima, en gerð er krafa um að lágmarkshlutfall segi já, að lágmarksstuðningur sé við tillöguna. Þá má segja að einu gildi hvort menn segja nei eða sitja heima, menn græða ekki meira á því að sitja heima en að mæta á kjörstað og segja nei. Samþykkisþröskuldur er leið sem ég er sannfærður um að ástæða sé til að skoða í þessu samhengi. Menn geta velt fyrir sér hvort hann á að vera í samræmi við það frumvarp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram og hefur verið til umræðu eða hvort önnur hlutföll eigi að vera þar til viðmiðunar.

Ég er þeirrar skoðunar að ef farið er út í breytingar á þessu breytingarákvæði hljóti slík leið að vera til skoðunar og hljóti að vera mikilvæg. Þeir sem leggja mikið upp úr því, eins og sumir gera og flestir væntanlega hér í þessari umræðu, að þjóðaratkvæðagreiðsla skeri úr um niðurstöðu stjórnarskrárbreytinga og þeir sem telja mikilvægt að niðurstaðan í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu endurspegli vilja kjósenda og vilja þjóðarinnar hljóta að fallast á að einhver lágmarksfjöldi þurfi að segja já til þess að breytingin taki gildi. Að vissan stuðning þurfi í samfélaginu til þess að breytingarnar nái fram að ganga, að það nægi ekki að lítill minni hluti geti í krafti hugsanlega áhugaleysis fjöldans komið í gegn stjórnarskrárbreytingu. Ég varpa þessu því enn fram hér í þessa umræðu.

Það er annað atriði, hæstv. forseti, sem ég vil koma að áður en umræðunni lýkur og ber vel í veiði að hæstv. utanríkisráðherra er hér viðstaddur og getur brugðist við og jafnvel hv. formaður utanríkismálanefndar. Það er samhengið við Evrópusambandsumsóknina því nú er alveg ljóst að Evrópusambandsaðild Íslands er óhugsandi og ekki möguleg að núverandi stjórnarskrá óbreyttri. Er ástæðan fyrir því að hér er lagt upp með sérstaka flýtimeðferð á stjórnarskrármáli, að stjórnarskrárbreytingar geti átt sér stað 2014 eða að minnsta kosti löngu fyrir lok næsta kjörtímabils, sú að menn vilji tryggja að hægt sé að koma Evrópusambandsaðild á innan þeirra tímamarka sem hér um ræðir?



[21:25]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins og get ekki svarað fyrir þá. Hitt segi ég alveg skýrt við hv. þingmann að ég hef hvergi komið að umræðum þar sem það hefur leikið nokkurt hlutverk eða verið nefnt.

Ef guðirnir færu nú þeim höndum um Ísland, ég segi nú ekki þann sem hér stendur, að það mundi gerast á næsta kjörtímabili að íslenska þjóðin mundi samþykkja aðild að Evrópusambandinu hygg ég að hafi hún tekið þá ákvörðun mundi hún sömuleiðis vera reiðubúin til þess að breyta stjórnarskránni þegar að því kæmi og þyrfti. Ég held að hv. þingmaður geti gengið að því vísu ef svo færi, ég vona að hann sé að gera að því skóna að vaxandi líkur séu á að aðild yrði samþykkt, þá mundi það væntanlega fylgja með undir lok kjörtímabilsins, en þar skiptir þessi breyting engu máli. Slík breyting yrði þá án efa samt samþykkt á Alþingi ef það yrði niðurstaða þjóðarinnar. Það hygg ég.



[21:26]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta gefur mér tilefni til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji eðlilegra að Evrópusambandsaðild eða breytingar á stjórnarskrá verði afgreidd á undan í ferli af þessu tagi.



[21:27]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki að það skipti máli. Ef sú staða kæmi upp að þjóðin hefði samþykkt aðild að Evrópusambandinu held ég að það mundi leiða til þess, hvort sem það yrði innan kjörtímabilsins eða þá á þarnæsta kjörtímabili, að menn mundu ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Ég held líka að eitt af því sem geri það mikilvægt, jafnvel fyrir hv. þingmann ef svo mundi nú æxlast að hann væri kannski í stjórnarliði á næsta kjörtímabili, jafnvel í ráðherrastóli, er að leiðir væru til þess að breyta stjórnarskránni ef svo færi að sú staða kæmi upp innan EES að við þyrftum að geta brugðist við innleiðingu tilskipana sem núverandi stjórnarskrá leyfir ekki. Sú staða gæti komið upp að hv. þingmaður og hans flokkur væri þeirrar skoðunar að Íslandi væru þær breytingar farsælar og þar af leiðandi að gott væri að hafa leið til þess að geta gert þær án þess til dæmis að þurfa að rjúfa þing að breyttri stjórnarskrá áður. Sú staða gæti vel komið upp.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.